Höfundur lýsir mýstískri reynslu.
Þegar ég var ung fannst mér tilveran full af dul og undrum og heimurinn var á einhvern hátt þrunginn merkingu sem ég náði ekki alveg að höndla. Ég var sannfærð um að ég væri hluti af þessu öllu og þetta tengdist á einhvern hátt Guði sem ég nefndi Návistina, vegna þess að hann virtist svo oft nálægur þegar ég var ein úti um grundir eða úti í skógi.
En þegar ég var orðin sextán ára kom upp í mér ótti og um leið hvarf þessi undraheimur. Ég óttaðist að ég týndi mér gjörsamlega í þessum heimi, og þó að ég hefði þráð hann þegar ég var yngri bauð nú hinn ytri hversdagsheimur upp á hluti sem toguðu í mig og ég hafnaði smám saman innri leit einfarans.
Ég giftist mjög ung og stofnaði fjölskyldu. Árin liðu hvert af öðru en hjónabandið var ekki hamingjuríkt. Við áttum á engan hátt samleið og loks skildum við með tilheyrandi biturleika og sektarkennd. Börnin voru hjá mér og ég fluttist með þeim til Ameríku þar sem ég giftist aftur. En þetta síðara hjónaband reyndist einnig byggt á ótraustum grunni. Til þess að bjarga því greip ég til þess örþrifaráðs að telja eiginmann minn á að flytja með fjölskylduna til Englands. Það var von mín að rólegri og heilbrigðari þjóðfélagsaðstæður myndu hjálpa okkur að ná áttum. Sú varð einnig raunin að einhverju marki, en þessi aðgerð kom of seint til bjargar. Þegar þetta hjónaband virtist einnig dæmt til að enda úti í eyðimörk rifrilda, afbrýðisemi, ótta og haturs, opnuðust skyndilega augu mín fyrir því að eitthvað hefði farið verulega úrskeiðis – ekki bara atburðarásin, heldur eitthvað í mér sjálfri. Ströng sjálfsskoðun leiddi í ljós að ég var í raun komin algerlega í strand. Ég var þræll geðhrifa og svo upptekin af eigin tilfinningum og sjálfri mér að líf mitt hafði skroppið saman og líktist nú mest vélrænum viðbrögðum uppvaknings.
Hvar leyndist sannleikurinn? Mér var ljóst að eitthvað lífsnauðsynlegt vantaði sem var þarna en utan seilingar, jafnvel handan endimarka ímyndunaraflsins vegna þess að ég gat ekki áttað mig á hvað það var. Hið eina sem ég vissi var að það vantaði.
Nú tók við tímabil mikillar örvæntingar. Hið venjubundna líf gekk sinn vanagang: Ég hugsaði um börnin, sendi þau í skóla, lék við þau og reyndi að láta ekki ástand mitt bitna á þeim. En mitt í þessum önnum skynjaði ég að mig skorti ljós lífsgleðinnar, ég var grá og guggin persóna – eða réttara sagt alls ekki raunveruleg persóna. Ég iðraðist sáran þegar ég hugsaði til áranna sem ég hafði klúðrað svo gersamlega, djúpt þunglyndi heltók mig ... .
Kvöld eitt gat ég ekki hugsað mér að fara í rúmið heldur sat þegjandi alla nóttina, döpur í bragði og full iðrunar. Loks birti af nýjum degi og fuglarnir fóru að syngja. Þá tók ég skyndlega eftir því að tilfinning mín fyrir fuglasöngnum var einkennilega næm. Ég leit út í garðinn og sá þar sitjandi svartþröst og það var eins og ég hefði aldrei séð svartþröst áður. Hann bjó yfir merkingu sem var mér algerlega ný og mér fannst að þessi svartþröstur væri raunverulegasti hlutur sem ég hefði nokkurn tíma séð og bara að horfa á hann með þessu móti gæfi lífinu nægilegt gildi.
Næstu dagar voru ólíkir öllum öðrum. Ég hafði skyndilega öðlast ofurnæmi fyrir öllu sem ég sá og heyrði og ég var einnig næmari og viðkvæmari fyrir áhrifum frá öðru fólki. Hlutir sem ég sá, t.d. trjálundur, öðluðust um stund óvænt gildi eins og svartþrösturinn. Ég skildi að eitthvað nýtt var í vændum, einhvað nýtt var að fæðast.
Kvöld eitt sat ég og horfði á alparós sem ég hafði sett í vasa. Ég virti fyrir mér blómið án nokkurs tilgangs annars en að njóta fegurðar þess. Þá skynjaði ég skyndilega samband mitt við það eins og það og ég rynnu saman í eitt. Tilfinningin virtist koma frá enninu og var ákaflega skýr og hamingjurík. Aðstæðurnar sem virtust hafa stuðlað að þessu ástandi voru þær að hugurinn var rólegur og engar langanir bærðu á sér og þess vegna gafst mér frelsi til að horfa í alvöru á blómið og sjá það eins og það var.
Ég óskaði mér að ég gæti þekkt alla hluti á þennan hátt og hugsaði svo: Hvers vegna ekki? Það sem stöðvaði mig frá því var aðeins ég sjálf. Voru nokkur takmörk fyrir þeim kærleika sem ég gat veitt því sem ég skynjaði? En ég gerði mér um leið ljóst að þetta hafði ekki verið afstaða mín megnið af ævinni. Ég hafði hugsað einhver ósköp um hluti sem ekki voru þess virði. En nú skildi ég ekkert í sjálfri mér hvernig ég gat eytt svo miklum tíma ónæm fyrir umhverfinu og án þess að gefa gaum að því ... .
Nokkrum dögum síðar varð ég fyrir reynslu sem kórónaði allt sem áður hafði gerst. Þetta var um morgun og ég hafði kveikt á útvarpinu til þess að hlusta á tónleika. Um leið og fyrsti tónninn hljómaði gerðist eitthvað í huganum sem ég mundi helst vilja líkja við heyranlegan smell og ég fann að allt var gjörbreytt. Það var því líkt að þessi aðgreiningar-égkennd, sem við öll höfum, hefði smollið burt en í staðinn var kominn tærleiki, blessunarríkt, undursamlegt tóm. Í þessu tómi voru engar hindranir. Götusteinarnir voru jafn frábærlega fagrir og mikilvægir og fólkið. Gamaldags reiðhjól, sem lagt hafði verið úti á götu, var dásamlega og skemmtilega skrýtið. Engu var líkara en að hugur minn gæti nú sökum tærleika síns og tóms falið í sér án fyrirvara allt sem hann skynjaði, hvort heldur var fólk, dýr eða hlutir. Ég var í þrjá daga í þessu ástandi fullkominnar hamingju ... .
[Anne Bancroft greinir nú frá því hvernig þessi reynsla vakti áhuga hennar á trú (religion) og hvernig hún komst að því við lestur á bókinni The Perennial Philosophy (Heimspekin tímalausa) eftir Aldous Huxley að reynsla hennar rímaði við búddhismann].
Kenning Búddha fjallar öll um það hvernig leysa má hnúta í sálarlífinu svo að menn geti opnað hugann fyrir veruleikanum og losað sig við græðgi og fáfræði sem fjötrar. Ég komst að því með hugleiðingu að eitt helsta markmiðið í búddhisma var að sjá hlutina í „veru“sinni(suchness), en þetta er orð sem Búddha notar til að lýsa rauneðli allra hluta, eða eins og ég hafði séð þá: án nokkurrar ég-hindrunar sem lokar vitundinni. Þessi skilningur varð mér til mikils léttis því mér leiddist allt guðhræðsluhjal eða mögulegt samviskubit yfir að mæta ekki á einhverjar trúarsamkomur. Ég þráði og fann að dýpstu þörf mannsins verður ekki fullnægt með brauði einu saman, heldur því að komast handan við hugsanir og tilfinningar og finna merkingu hins tímalausa veruleika.
Sv. B. Þýddi; sótt í bók Colin Wilsons: Beyond the Occult.