IX SJÁLFSFLÓTTI

9.0 ALMENNT.

9.1 SJÁLFSSTJÓRN

9.2 YFIRBURÐIR HUGANS.

9.3 SKOÐANALEYSI.

9.4 TILFINNINGAR.

9.5 STEFNA OG ORKA.

9.6 ÁBYRGÐ OG HEILUN.

9.0 ALMENNT.

Ég hefi lýst í fyrri þáttum þeirri þróun, sem leiðir til innri árekstra, streitu, kvíða, sjálfshaturs og sektarkenndar. Það er erfitt að lifa við slík skilyrði, og við reynum að bæta úr því með einum eða öðrum hætti. Eins og ég lýsti í fyrsta þætti, var sjálfsmyndin sköpuð og markmiðin sett, einmitt til að leysa vandann. Það var hin róttæka lausn. En eins og ég hefi bent á hefur sjálfsmyndin stóraukið vandann í stað þess að leysa hann. Hún átti að leysa vandann á þann hátt að lyfta sér yfir aðra, en við það skapaðist innra víti. Þær aðferðir, sem ég ætla nú að lýsa, eru tilraunir til lausnar, en af öðrum toga spunnar, og að ýmsu leyti skyldar þeirri tilraun til lausnar, sem ég lýsti í síðasta þætti.

Leitin að vegsemd, er knúin fram af innri nauðsyn. Hún er á vissan hátt skapandi. Þótt afleiðingar hennar séu skaðlegar, er hún sprottin af löngun mannsins til að komast yfir takmarkanir sínar. Það er eigingirnin, sem skilur hið heilbrigða frá hinu sjúka.

Ég hefi frá upphafi lagt áherslu á Sjálfið (í merkingunni atman) til aðgreiningar frá egóinu. Erfitt er að skilgreina atman eða Búddhanáttúru. Í fyrirlestrum mínum um trúarbrögð og heimspeki, er gerð tilraun til að nálgast þá skilgreiningu eftir annarri leið. Hér er lýst, hvernig við flýjum Sjálfið og seljum sál okkar. Í stað raunsjálfsins koma markmið og sjálfsmyndir. Áherslan breytist og færist út, frá raunsjálfinu til hugarsmíðanna.

Í hverju lýsir sjálfsflóttinn sér? Jú, hann kemur fram í þvingaðri hegðun og nauðhyggju hvers konar, muninum á því að stjórna og að vera stjórnað. Hvort sem það snýr að öðrum, t.d. í valda  eða virðingarviðleitni, ástar  eða kynþörf, þörf fyrir einangrun eða fyrir félagsskap, eða það snýr að sjálfum okkur, t.d. í þörf fyrir að gylla eigin verðleika, kemur hin þvingandi þörf í veg fyrir fulla sjálfsstjórn og að hlutirnir gerist af sjálfsdáðum. Ef við t.d. þurfum að geðjast öllum, þá bælum við eðlilegar og sannar tilfinningar okkar. Ef við vinnum verkefni okkar með upphefð og hrós annarra í huga, þá minnkar sjálfkrafa áhugi okkar á verkinu sjálfu sem slíku. Ef við höfum langanir í gagnstæðar áttir, eigum við erfitt með að taka ákvarðanir o. s. frv.

Sjálfsflótti lýsir sér einkum í löngun til að vera eitthvað annað en við erum. Öll ásókn í vegsemd og hylli er því marki brennd. Sjálfsímynd okkar og markmið leiða okkur í þá átt. Okkur hættir til að hafa þær tilfinningar, sem við eigum að hafa eða okkur ber að hafa. Sama gildir um óskir. Okkur finnst það geðfellt, sem okkur ber að finnast geðfellt o. s. frv. Harðstjórn skyldunnar þvingar okkur til að vera eitthvað annað en við erum eða við eigum að vera. Ímyndunaraflið hjálpar okkur til að gleyma raunsjálfinu.

Kröfur til annarra leiða raunverulega til þess, að sjálf neytum við ekki eigin getu og krafta, en ætlumst til þess að aðrir hjálpi okkur og aðlagi sig að okkur. Við ætlumst til að aðrir geri fyrir okkur það, sem við eigum að gera sjálf. Ef við ætlumst til að aðrir taki ákvarðanir fyrir okkur, látum við eigin getu og krafta ónotaða. Við ráðum sjálf sífellt minna um eigið líf.

Stoltið er sýnu verra. Þá förum við að blygðast okkar fyrir það sem við raunverulega erum. Stoltið gerir það að verkum, að við blygðumst okkur fyrir eigin getu, tilfinningar og störf. Það leiðir til þess, að við missum áhuga á okkur sjálfum. Frávarpið er ein leiðin frá sjálfi okkar. Að lokum snúumst við gegn sjálfum okkur með sjálfsásökunum, sjálfsfyrirlitningu og sjálfshatri. Raunsjálfið er þá komið í útlegð og við gerumst sökudólgar eða fyrirlitleg og ógnum okkur sjálfum.

Allt þetta leiðir til þess að við rjúfum tengslin við raunsjálfið. Við getum séð þetta allt, en skulum gæta þess, að horfa ekki úr of mikill fjarlægð, eins og það varði einhvern annan en okkur sjálf. Við erum ekki að ræða um veðrið eða sjónvarpið. Þetta varðar okkar eigið líf. Tengslin við okkur sjálf mega ekki verða ópersónuleg, því þá missum við lífið úr eigin hendi, það verður óraunverulegt, eitthvert óminni. Það er í sjálfu sér undrunarefni, hvernig okkur tekst að lifa og starfa án þess að innri kjarni okkar, raunsjálfið, eigi hlut að máli.

Eins og áður er getið, ætla ég að lýsa aðferðum sem við notum til að leysa vanda okkar. Má segja, að þær séu tilraunir til lausnar vandans, en gera raunar ekki annað en auka á hann. Þá ætla ég að ræða um áhrif sjálfsflóttans. En snúum okkur fyrst að aðferðunum, sem ég hefi skipt í þrjá flokka og nefnt sjálfsstjórn, yfirburði hugans og skoðanaleysi.

9.1 SJÁLFSSTJÓRN.

Sjálfsstjórn gengur oftast út á það að ná valdi á tilfinningunum. Þegar persónuleikinn er að því kominn að klofna eða splundrast, eru tilfinningar hættulegar. Tilfinningar eru hinn ótamdi frumkraftur okkar. Þegar ég tala um sjálfsstjórn, á ég ekki við bælingu tilfinninga vitandi vits, þ.e. þegar við stjórnum því sjálf, heldur hömlur sem við setjum á tilfinningar og hvatir, eins og um dulbúið þjófavarnarkerfi sé að ræða. Við komum upp eins konar stjórnkerfi. Við söknum heilleika og erum oftast fjarlæg sjálfi okkar og andlega skipt, sérstaklega tilfinningalega. Við komum okkur því upp stjórnkerfi til að halda persónuleikanum saman og gera hann heillegan.

Slík sjálfsstjórn tekur yfirleitt til allra hvata og tilfinninga, t.d. ótta, reiði, gleði, blíðu eða ákafa. Sumt fólk þjáist undan þessu og óskar sér öllu öðru fremur að geta slakað á og gefið sig á vald ástar, hlegið hjartanlega eða látið eftir ákafa sínum. Sumir hylja þetta með stolti, í mynd virðuleika, reisnar, myndugleika, raunsæis, yfirlætisleysis o. s. frv. Sumir beita sjálfsstjórninni á vissar tilfinningar, en gefa öðrum lausan tauminn. Sumir ýkja ást sína á öðrum og mannkyni en bæla allar fjandsamlegar tilfinningar, grunsemdir, reiði, fyrirlitningu og hefndarhug.

Allur sjálfsflótti deyfir tilfinningar, en sjálfsstjórnin kemur til viðbótar. Þetta sýnir sig meðal annars í hræðslu við að láta hlutina flakka, t.d. að skíða niður brekku eða tala af sér undir áhrifum áfengis. Slíkt getur orsakað hræðslu og skelfingu, að ekki sé talað um móral eftir áfengisdrykkju. Sannleikurinn er þó sá, að ekki er hægt að fást við þær tilfinningar, sem bældar eru, nema að þær fái að koma frjálst upp á yfirborðið.

Upprunalega er um viljandi sjálfsstjórn að ræða, sem verður smátt og smátt sjálfkrafa. Þar sem reiðiköst eru hættulegust, er mikilli orku varið til að hafa stjórn á reiðinni. Við þetta myndast vítahringur, þar sem reiðin eflist við bælinguna og því þarf sífellt meiri styrk til að geta kæft hana. Þegar mönnum er bent á þetta, svara þeir gjarnan, að sjálfsstjórn sé nauðsynleg hverjum siðmenntuðum manni. En menn sjá þá ekki þvingunina og áráttuna. Þeir fyllast örvæntingu, ef þeim mistekst sjálfsstjórnin.

9.2 YFIRBURÐIR HUGANS.

Þegar bann er lagt á tilfinningar, fara ímyndunin og hugsunin í gang. Þar með hefst önnur tegund tvíhyggju, því að þá er ekki lengur um að ræða hug og tilfinningar, heldur hug eða tilfinningar, ekki hug og líkama, heldur hug eða líkama, ekki hug og sjálf, heldur hug eða sjálf. Þetta er gert til að draga úr streitu, hylja tvískiptingu og reyna að koma á einingu. Þetta gerist aðallega með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi getur hugurinn orðið áhorfandi að okkur sjálfum. D. T. Suzuki hefur sagt, að hugurinn sé áhorfandi, þegar hann gerir eitthvað. Hann sé leiguþý til góð og ills. Sem áhorfandi er hugurinn sjaldan vinsamlegur og alloft fjandsamlegur. Hann getur verið áhugasamur, en hann er alltaf aðskilinn eða firrtur, þ.e. hann stendur afsíðis og horfir á hinn ókunnuga, sem hann af tilviljun hefur saman við að sælda. Sjálfsathuganir, sem þannig eru gerðar af huganum verða vélrænar og yfirborðslegar. Oft getum við gert nákvæma skýrslu um okkur sjálf, hvað hefur hent okkur, hvað við höfum aðhafst, hvaða einkenni við höfum, hvernig þau aukast eða minnka, án þess að snerti okkur djúpt, þ.e. án þess að við finnum með öllu hvaða þýðingu þessi atvik hafa fyrir okkur eða hvernig við bregðumst við þeim. Við getum fengið áhuga á sálgreiningu og hrifist af því, hversu nákvæmar og skýrar athuganir okkar eru og hvernig allt virkar, eins og við værum að skoða bílvél og dást að skilgreiningu okkar á einstökum hlutum hennar. Við höldum þá gjarnan að þetta sé áhugi á sjálfum okkur, en oft kemur í ljós, að við látum þar við sitja og höfum ekki frekari áhuga á þýðingu þessara uppgötvana fyrir líf okkar.

Slíkur firrtur áhugi hugans getur eins og áður er sagt verið ásakandi og fjandsamlegur. Oft er hann þá frávarpaður. Fólk getur þá snúið baki við sjálfu sér og horft á aðra og vandamál þeirra og þá með sama firrta eða aðskilda hættinum, þ.e. eins og það standi afsíðis. Frávarpið getur einnig verið með þeim hætti, að viðkomanda finnist sem aðrir veiti honum fjandsamlega athygli. Ekki þarf þó að vera um ofsóknarbrjálæði að ræða. Þegar viðkomandi er eingöngu athugandi, tekur hann ekki þátt í innri baráttu sinni og hefur horfið frá vandamálum sínum. “Hann” er þá athugandinn og finnur þannig til einingar. Heilinn er þá eini hluti líkamans, sem er á lífi. Þetta viðhorf hefur verið rætt lítillega áður í kaflanum um stoltið.

Í öðru lagi verkar hugurinn sem stjórnandi. Eins og guði, er honum allt mögulegt. Þekking á innri vandamálum, verður þá ekki skref í áttina til breytinga, þekking er breyting. Menn eru þá hissa á því, að engar breytingar eigi sér stað, þar sem þekkingin sé til staðar. Þótt þekkingu sé bætt á þekkingu ofan, breytist ekkert og viðkomandi fyllist vonleysi. Þetta getur leitt til endalausrar leitar eftir meiri þekkingu, sem í sjálfu sér er ágæt, en dæmd til árangursleysis, svo lengi sem heimtað er að þekkingin ein þurrki vandann burt, án þess að viðkomandi þurfi að aðhafast neitt sjálfur til ná fram breytingum.

Því meira, sem viðkomandi reynir að ná tökum á lífi sínu með hreinni skynsemi, þeim mun erfiðara er fyrir hann, að þola það að þurfa að viðurkenna dulvitaða eiginleika í sálarlífinu. Ef þessir dulvituðu þættir koma í ljóst, veldur það ótta eða að þeim er afneitað. Þegar menn sjá í fyrsta skipti eigin innri árekstra, jafnvel óljóst, t.d. að með skynsemi tekst ekki að samþýða hið ósamþýðanlega, þá finnst þeim, þeir vera komnir í gildru og verða óttaslegnir. Þá er reynt að sleppa úr gildrunni með öllu móti. Reynt er að finna gat til að sleppa út. Hreinskilni og fals fara ekki saman. En er þá hægt að vera hreinskilinn í vissum tilvikum og falskur í öðrum? Eða ef menn eru hefnigjarnir og eru stoltir af því, og þeir vilja einnig hafa hugarró, er þá hægt að vera hefnigjarn í hugarró sinni? Getur nokkur gengið í gegn um lífið ótruflaður og jafnframt tortímt misgjörðarmönnum sínum eða þeim, sem særa stolt hans, eins og sá sem gengur um skógarkjarr og vindur burt þeim greinum, sem á leið hans verða? Slíkt getur orðið árátta. Öll viðleitni til að sjá gagnstæður í sálarlífinu verður þá árangurslaus á kostnað “friðarins.”

Í þriðja lagi er hugurinn notaður sem eins konar samhæfingar  eða samstillingaraðili. Þá hjálpar hann stoltinu til að réttlæta hlutina. Leitaðar eru uppi boðlegar ástæður fyrir því atferli, sem erfitt er að afsaka fyrir sjálfum sér. Allt verður þá skynsamlegt, trúverðugt og sannfærandi, eins og það reyndar er, séð frá okkar eigin forsendum. Hér er um að ræða rökræna sjálfsblekkingu. Réttlætingin getur verið með ýmsu móti eftir persónugerð einstaklingsins og fer eftir þeim aðferðum, sem beitt er við réttlætinguna. Eigin viðhorf eru styrkt með röksemdafærslu, svo að persónuleikinn verði straumlínulagaðri, ef svo má að orði komast.

Náskyld þessu er geðþóttaréttlæting, sem beitt er til þess, að eyða öllum vafa, en er mun nauðsynlegri, þar sem uppbygging persónuleikans er á hálum ís. Menn telja sig þá óskeikula. “Mín rökfræði gildir, þar sem hún er eina rökfræðin. Þeir sem ekki geta fallist á hana eru fávísir.” Gagnvart öðrum verkar þetta sem hrokafull þrákelkni. Með þessu er dregið úr innri átökum, en dauðhreinsuð vissa sett í staðinn.

Hlutverk þessarar geðþóttaréttlætingar er, að eyða innri og ytri vafa. Vafi og óöryggi stafa yfirleitt af innri átökum. Við slíkar kringumstæður erum við áhrifagjörn. Ef við erum sannfærð innra með okkur, verður okkur ekki hnikað, en ef við stöndum sífellt á krossgötum og höfum ekki ákveðið í hvaða átt við ætlum að halda, geta ytri atriði verið ákvarðandi, a.m.k. um tíma. Óákveðni stafar einnig af vafa um sjálf okkur, rétt okkar og gildi. Öll þessi óvissa dregur úr hæfni okkar til að ná tökum á lífinu, þótt hún sé ekki jafnóþolandi fyrir alla. Því meira sem manneskjan býr við miskunnarlausan bardaga, þeim mun meiri hætta er talin fylgja því. Telst það veikleiki. Því einangraðri sem við erum, þeim mun hættara er okkur við að líta á utanaðkomandi áhrif sem uppsprettu ertingar eða skapraunar. Geðþóttaréttlæting er tilraun til þess, í eitt skipti fyrir öll, að eyða innri átökum með því að lýsa því sem óumdeilanlegum sannindum, að maður hafi alltaf rétt fyrir sér. Með þessu næst grafarfriður.

9.3 SKOÐANALEYSI.

Lítum nú á gagnstæðuna við það, sem við höfum verið að lýsa. Snúa má blaðinu við. Það er algengt að ein lygi leiði til annarrar og síðan þurfi að grípa til þeirrar þriðju, til varnar eða réttlætingar þeirrar annarrar o.s. frv. Sama gerist, þegar ekki er reynt að leita rótar vandans. Að tjasla hlutunum saman er gott svo langt sem það nær, en kallar fljótt á ný vandamál. Ekkert hjálpar í raun nema róttæk breyting á þeim skilyrðum eða viðhorfum, sem leiddu til erfiðleikanna í upphafi. En við búum gjarnan til gervilausnir. Við höfum þegar séð nokkrar þeirra, en hinar stærri og viðameiri verða að bíða seinni þátta. Nú skulum við aðeins líta til þeirra aðferða, sem sverja sig í ætt við þær, sem ég nefndi áðan með öfugu formerki.

Það er út af fyrir sig undrunarefni að mönnum skuli ekki vera augljós sá mikli munur, sem er annars vegar á raunverulegu atferli og getu, og hins vegar á sjálfsímyndinni. En mönnum tekst jafnan að horfa fram hjá því, hve þverstæðurnar eru miklar. Þeim tekst t.d. að samrýma árásarhneigð og drápsfýsn kristilegu hugarfari eða telja að þeir helgi sig starfi sínu af öllu hjarta á sama tíma og þeir hugsa aðeins um árangur eða lof, sem þeir eiga í vændum. Blindan er mikil. Það fer ekki eftir greind manna eða athyglisgáfu, hvort þeir blinda sig í þessum efnum eða ekki. Við snúum gjarnan baki við því, sem við kærum okkur ekki um að sjá, en það er ekki næg skýring. Okkur er mjög í mun að sjá ekki innri þverstæður. Okkur er einnig misjafnlega lagið, að upplifa okkur sjálf tilfinningalega.

Ein aðferð eða gervilausn er, að upplifa sig í pörtum, þ.e. eins og við séum heild margra hluta. Þetta er eins og að lifa í einu herbergi í senn eða sálræn skipting. Þetta gerist, ef við höfum ekki tilfinningu fyrir okkur sem heild, þar sem hver hluti tengist heildinni eða hefur víxlverkan á aðra hluta. Áhugi getur verið á slíkum aftengingum, ef svo má að orði komast. Viðkomandi getur áttað sig á samhenginu, þegar honum er sýnt fram á það. Hann verður undrandi, áttar sig augnablik, en gleymir málinu áný.

Okkur er augljós sú staðreynd, að ef við förum seint að sofa, þá eigum við erfitt með að vakna á morgnanna. En við eigum stundum erfitt með að átta okkur á orsök og afleiðingu í sálarlífinu. Við sjáum oft ekki að óánægjan á rót sína að rekja til krafna okkar. Við sjáum t.d. ekki að þörfin fyrir félagsskap gerir okkur háð öðrum. Sumir hafa hólf fyrir vini og annað fyrir óvini. Eitt fyrir heimilislíf og annað fyrir lífið utan heimilis. Þannig að það sem gerist í einu hólfi virðist ekki vera í andstöðu við það sem gerist í öðru. Því verða menn ekki varir við eigin þverstæður. Sjálfsímynd slíkra manna er margbrotin og samsett. Þjóðfélagið er hér áhrifaríkt og hvetur til alls konar tvöfeldni. Sérstaklega er vert að árétta, að jafnan er erfitt að átta sig á því, að við höldum ósveigjanlega í viðhorf, vegna þess að þau hylja mikilvægar blekkingar.

Við höfum dulvitaðan áhuga á að leiða hjá okkur vitneskju um, að oft felur gildismat okkar þverstæður í sér. Við viljum t.d. vera göfug á sama tíma sem við viljum nota aðra og láta þá þjóna okkar hagsmunum. Við teljum að við séum heiðarleg, en reynum samt að sleppa, ef við erum tekin í landhelgi. Við finnum e.t.v. til hógværðar, fyrirlitningar á öðrum, metnaðargirni, þörf fyrir að vera geðfelld. Allt þetta gerist á ólíkum tíma og séð rækilega, en ekkert gerist, því atvikin eru ekki skoðuð í samhengi, án tilfinningar fyrir tengslum milli þeirra, og fyrir þróun eða hreyfingu.

Þessi sálræna skipting þjónar því hlutverki að viðhalda status quo, viðhalda andlegu jafnvægi og forða frá hruni. Með því að sjá ekki samhengið og sömuleiðis þverstæðurnar minnkar spennan. Því höfum við lítinn áhuga á þessu og höldum því frá vitund okkar. Við slítum í sundur orsök og afleiðingu. Ef við t.d. erum altekin reiði, eigum við á sama tíma erfitt með að átta okkur á því, að stolt okkar hefur verið sært og við þurfum að reisa það við. Jafnvel þegar við áttum okkur á því, verður samhengið samt meiningarlaust. Svo tekið sé annað dæmi. Við getum uppgötvað, að við séum sífellt að ásaka sjálf okkur, en við sjáum ekki að slíkar ásakanir stafa af því að okkur tekst ekki að upplifa skyldur okkar, sem hafa mótast af innihaldslausu stolti einu saman. Við slítum þetta úr samhengi, þannig að stoltið annars vegar og sjálfsfyrirlitning hins vegar, verða fræðilegar tilgátur, sem valda því að við ráðumst ekki til atlögu við stoltið. Því er viðhaldið og spennunni haldið í lágmarki, vegna þess að við verðum ekki vör við gagnstæðurnar, og finnum til heilleika, sem þó er blekking.

Skylt þessu, en á sér lengri þróun, er þegar fólk hefur engar skoðanir eða gildismat. Það hlær að siðferði og reiður verða ekki hentar á skoðunum þess. Það breytist sífellt eftir umhverfinu, eins og kamelljón. Það skiptir sífellt um gervi og hlutverk, og er mjög óáreiðanlegt. Það keppir ekki að neinni sjálfsmynd né markmiðum, nema stutt í senn. Útlit og framkoma er allt sem gildir. Aðalatriðið er að gera allt, sem hugurinn girnist, svo lengi sem það ekki uppgötvast. Litið er á alla sem hræsnara. Þetta fólk kann að hafa vilja til að vera heiðarlegt og siðsamt, en það öfundar samt aðra af refshætti, sem þeir komast upp með. Þetta fólk hefur þegar í uppvexti sínum orðið tortryggið á einlægni og heiðarleika annarra. Það stefnir nánast að því að vera ekki neitt.

9.4 TILFINNINGAR.

Þá ætla ég að ræða í þessum þætti um áhrif sjálfsflótta á persónuleikann sem eru með ýmsu móti. Fyrst ræði ég nokkrum orðum áhrif sjálfsflótta á tilfinningalífið.

Erfitt er að fullyrða almennt um hæfni manna til að láta í ljósi tilfinningar sínar og tilfinninganæmi. Sumir eru fullir gleði, ákefðar eða þjáningar, aðrir virðast kaldir og tilfinningadaufir. Þrátt fyrir mörg tilbrigði í þessum efnum, má fullyrða, að vitund um tilfinningar og styrkleiki þeirra fer að miklu leyti eftir því, hvaða eða hvers konar stolt er ríkjandi hjá hverjum og einum. Að sjálfsögðu fer það einnig eftir því, hvers konar tilfinningar um er að ræða. Hreinræktaðar tilfinningar fyrir Sjálfinu eru daufar. Stoltið ríkir gjarnan yfir tilfinningalífinu.

Það er regla, að dregið er úr þeim tilfinningum, sem ganga þvert á stolt manna, en þær tilfinningar eru ýktar, sem bæta úr því eða við það, ef svo má að orði komast. Þeir sem finna til yfirburða sinna, leyfa sér t.d. ekki að finna til öfundar. Ef menn eru stoltir af sjálfsafneitun sinni eða meinlætum, þá finna þeir t.d. sjaldan til ánægju  eða nautnatilfinningar. Sá sem er stoltur af hæfni sinni til að hefna, finnur alloft til hefndarhuga. Ef hefndin er fegruð og réttlætt með “útdeilingu á sanngirni”, ef svo má segja, þá upplifir hann ekki hefndarhug sem slíkan, þótt slíkur hugur sé samt sem áður frjálslega látinn í ljós og enginn annar sé í vafa um hann. Sá sem er stoltur af eigin þolgæði, finnur ógjarnan til þjáningar. Ef á hinn bóginn þjáningin hefur miklu hlutverki að gegna í samhengi við stoltið sem grunnur til að láta reiði í ljós eða gera kröfur til annarra, er þjáningin ekki aðeins látin skýrar í ljós gagnvart öðrum, heldur finnur viðkomandi meira en ella til hennar. Tilfinning fyrir samúð er bæld, sé hún talin merki um veikleika, en vel fundið til hennar, ef hún er álitin kostur. Ef viðkomandi er stoltur af því að vera sjálfum sér nógur, af því að þurfa ekki annarra við, þá eru tilfinningar fyrir slíkri þörf taldar hættulegar, þar sem viðkomandi er hræddur um að verða háður öðrum.

Stoltið verkar þannig eins og ritskoðandi eða gagnrýnandi, það hvetur eða bannar ákveðnum tilfinningum að komast til vitundarinnar. En þetta gerist oft með dýpri hætti. Því meira sem stoltið hefur náð stjórn á viðkomandi, þeim mun háðari stoltinu eru tilfinningaviðbrögð. Ánægja eða óánægja eru þá gjarnan viðbrögð stoltsins. Sú þjáning, sem viðkomandi finnur til, er aðallega þjáning stoltsins. Þetta sýnist ekki svo á yfirborðinu, því mönnum finnst mjög raunhæft að þeir þjáist t.d. af sektarkennd, vegna mistaka, einmanaleik eða höfnun og þeir gera það að vísu. En við gætum spurt, hver þjáist? Er það ekki hið stolta sjálf? Þjáist viðkomandi ekki af því, að hann gat ekki gert eitthvað fullkomlega, af því að hann náði ekki árangri, var ekki nægilega aðlaðandi. Viðkomandi þjáist af því að honum finnst hann eiga kröfu á árangri, vinsældum o.s.frv. Sumir upplifa eigið tilfinningastolt aðeins gegnum aðra. Þeir finna ekki til lítillækkunar vegna hroka eða vanrækslu annarra, heldur finnst þeim t.d. skömm að því að bróðir eða vinur líti á það sem lítillækkun.

Við finnum til dýpri og raunverulegri þjáningar, þegar stoltið hefur látið undan síga. Þá finnum við til samúðar vegna þjáningar Sjálfsins og þjáningar almennt. Slík samúð leiðir oft til þess að við gerum eitthvað jákvætt og uppbyggilegt fyrir okkur sjálf og aðra. Sjálfsmeðaumkun, sem áður ríkti, var aðeins sært stolt eða tilfinning fyrir lítillækkun eða misbeitingu. Sumir finna engan mun á þessu og líta á þjáningu sem þjáningu. En sönn þjáning, ef þannig má að orði komast, gerir tilfinningalíf okkar víðfeðmara og opnar augu okkar fyrir þjáningum annarra.

Auðvitað ríkir stolið misjafnlega yfir tilfinningum okkar. Við höfum flest sterkar og einlægar tilfinningar, þegar náttúran eða tónlist er annars vegar. Flestir leyfa sér slíkt tilfinningafrelsi. Almennt er þó tilfinningalífið daufara og grynnra vegna stoltsins, einlægnin minni, færra gerist af sjálfsdáðum, og tilfinningasviðið er þrengra. Sumir bæta gráu ofan á svart og eru stoltir af tilfinningadeyfð sinni. Við getum veitt því athygli, þegar tilfinningarnar eru aðeins andsvar við vinsemd eða fjandskap. Að öðru leyti eru þær óvirkar, við njótum ekki fegurðar, kyrrðar eða þess sem lífið hefur upp á að bjóða af fullri tilfinningadýpt. Ef við upplifum að við séum í draumi myndastytta eða spil, ættum við að athuga okkar gang. Tilfinningadeyfðin getur einnig verið í ýmis konar dularklæðum. Það ræði ég síðar í öðru samhengi. Tilfinningar, sem koma innan frá, birtast sjálfkrafa, og hafa dýpt og einlægni. Ef eitthvað af þessu skortir, ættum við að athuga hvað veldur.

9.5 STEFNA OG ORKA.

Þá vík ég nokkrum orðum að áhrifum sjálfsflóttans á þá orku, sem við höfum til ráðstöfunar og á stefnu okkar í lífinu.

Menn eru misjafnlega búnir afli og orku. Sumir eru aðgerðarlitlir, aðrir iðjusamir. Um það verður erfitt að fullyrða, hvort þeir heilbrigðari séu kraftmeiri, enda er sá mælikvarði mesta fásinna. Hins vegar skiptir máli, hvernig við notum orku okkar og kraft. Notum við orkuna til að þroska og efla getu okkar, getu raunsjálfsins, eða notum við hana til að byggja upp og þróa getu sjálfsímyndarinnar? Leggjum við orkuna í verkið, sem við erum að vinna eða í markmið, sem leiða til aukinnar vegsemdar? Því betur sem við áttum okkur á villum vegar í þessu efni, þeim mun ljósari verða okkur afleiðingarnar, að því er tekur til orku eða krafta.

Því meiri orku, sem við eyðum í sjálfsímynd, markmið, frama eða stolt, verður minni orka aflögufær til jákvæðrar uppbyggingar okkar sjálfra. Sá, sem er haldinn framagirni getur til dæmis notað ómælda orku til að næla sér í vegsemd eða frama, völd eða frægð. Hins vegar hefur hann engan tíma, áhuga né orku fyrir sitt eigið persónulega líf og þroska. Þetta er þó ekki aðeins spurning um að hafa orku eða tíma aflögu fyrir sig sjálfan persónulega, því þó svo væri myndi hann alls ekki nota þetta til hagsbóta fyrir sitt raunsjálf. Það gengi þvert á sjálfsfyrirlitningu hans og sjálfshatur, sem einmitt heldur raunsjálfinu niðri. Slíkur maður hefur því ekki áhuga á sjálfum sér.

Annar eiginleiki er það, að sumum finnst þeir ráði ekki yfir eigin orku, þ.e. að þeir stjórni ekki sjálfir sínu eigin lífi. Ef viðkomandi finnst hann þurfi að gera allt, sem ætlast er til af honum, eru það aðrir, sem ýta honum til og frá, eða svo finnst honum a. m. k. Hann er þá orðinn örmagna þegar kemur að því að hann vill grípa til eigin innri styrks. Sá sem hefur á hinn bóginn sett bann á sjálfan sig gagnvart öllum frama og óttast stolt sitt, verður að afneita því að hann hafi átt nokkurn þátt í gjörðum sínum. Ef hann hefur komið sér vel fyrir, finnst honum að það sé ekki hann sem hafi gert það, heldur hafi það átt sér stað með einhverjum öðrum hætti. Sannleikurinn er líka sá, að hann stjórnar ekki sjálfur ferð sinni í lífinu, hann fer ekki eftir eigin óskum og vilja.

Vissulega er líf okkar ákvarðað að hluta til af umhverfinu og áhrifum utan frá. En við getum haft tilfinningu fyrir eigin stefnu. Við getum vitað, hvað við viljum gera úr lífi okkar og haft hugsjónir, sem við stefnum að. Við getum sett okkur eigið siðferðismat. En sjálfsflóttinn veldur því, að slík eigin stefna verður oft veik. Hún veikist í réttu hlutfalli við styrk sjálfsflóttans. Ímyndunaraflið ræður yfirleitt ferðinni. Dagdraumar koma í stað verka, tækifærismennska í stað heiðarlegrar viðleitni, skoðanaleysi í stað hugsjóna, óöryggi í stað markvissra athafna.

Oft er þessi innri truflun dulin. Sumir eru mjög skipulagðir og straumlínulagaðir, af því að þeir stefna að fullkomnun og sigri. Með því gerist það, að þvingaðir staðlar taka við stjórnvelinum. Tilbúningur slíkrar leiðsagnar kemur t. d. í ljós, þegar viðkomandi á að velja milli tveggja skyldna, sem eru honum jafnþvingandi og upp kemur kvíði. Raunsjálfið er þá kramið milli skyldusamlokanna, ef svo má kveða að orði, og viðkomandi getur ekki leitað eigin ráða. Um þetta er nánar fjallað í kaflanum um skylduna.

Sumir gera sér aldrei ljóst að þá skorti innri leiðsögn, einfaldlega vegna þess, að líf þeirra hefur gengið eftir hefðbundnum brautum og þeir hafa komist hjá því að taka ákvarðanir og gera áætlanir. Sumir fresta og öllum ákvörðunum, og óákveðni kemur þá best í ljós, þegar taka verður ákvörðun, sem þeir einir geta tekið. Slík uppákoma verður þá hin versta martröð. En menn koma ekki auga á það, að vandamálið er hið innra með þeim sjálfum, heldur skella skuldinni á ákvörðunina, sem getur verið harla erfið.

Stefnuleysi getur verið falið í tilhliðrunarsemi og auðsveipni. Maðurinn gerir það, sem hann heldur að aðrir vilji að hann geri. Hann er það, sem hann heldur að aðrir óski að hann sé. Sá maður er mjög næmur á þarfir og óskir annarra. Oftast er þessi eiginleiki upphafinn sem hæfileiki til næmni og tillitssemi. Slíkum manni finnst hann verði að geðjast öðrum eða forðast vanþóknun eða fjandskap annarra. En þetta er yfirleitt algilt. Hann ætlar jafnan öðrum að taka frumkvæðið í hans eigin málum í stað þess að taka fyrir það, sem honum finnst áhugavert. Óafvitandi lætur hann aðra móta sína eigin lífsstefnu í stað þess að ráða henni sjálfur. Hann verður áttavilltur og sem týndur, þegar hann getur ekki leitað til annarra en sjálfs sín. Draumar hans eru þá oft í þá veru, að hann sé að villast í ókunnu umhverfi, að bátur hans eða bifreið hafi ekki stýri o. s. frv. Tilhneigingin til að geðjast og sýna tillitssemi stafar meðal annars af því, að innri stefnu vantar. Kvíði kemur upp, þegar sjálfsstæðisbaráttan hefst, því að þá verður að fórna allri aðstoð, á sama tíma og viðkomandi treystir ekki sjálfum sér.

9.6 ÁBYRGÐ OG HEILUN.

Sjálfsflótta fylgir ævinlega tilhneiging til að vilja ekki bera ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum. Hér er ekki átt við ábyrgð vegna þess að loforð og skyldur séu ekki uppfylltar, né ábyrgð á öðrum. Ekki er heldur átt við siðferðilega ábyrgð. Valfrelsi í þeim efnum er lítið og við gátum ekki þróast öðruvísi en við gerðum. Við gátum ekki gert, hugsað eða fundið annað en við gerðum, hugsuðum eða fundum. Við segjum gjarnan, að við hefðum átt að framkvæma, hugsa, eða finna annað, við hefðum átt að sýna hugrekki, styrk og jafnaðargeð. Vegna þess að okkur tókst ekki betur, þá erum við slæm. Við viljum gjarnan viðhalda sektarkennd okkar og lifa í voninni um óskeikulleika. Við skellum skuldinni yfirleitt á aðra og teljum erfiðleikana koma utanfrá.

Hér er sem sé ekki átt við ábyrgð í þeim skilningi, er við fordæmum okkur fyrir að gera ekki það ómögulega. Sú ábyrgð, sem hér er átt við, er ekkert minna en hreinn, einlægur heiðarleiki við sjálfan sig um sjálfan sig og líf sitt. Í fyrsta lagi að viðurkenna hreinlega að maður sé eins og maður er, án þess að draga úr eða ýkja. Í öðru lagi að taka afleiðingum ákvarðana sinna og gerða, án þess að reyna að sleppa undan þeim eða skella skuldinni á aðra. Í þriðja lagi að átta sig á þeirri einföldu staðreynd, að það er okkar sjálfra að kljást við eigin erfiðleika og að aðrir, örlögin eða tíminn, leysa ekki vanda okkar. Þetta þýðir þó ekki að við eigum ekki að nota alla þá aðstoð, sem við getum fengið. En ytri aðstoð er einskis nýt, ef við sjálf sýnum ekki viðleitni. Hér eru okkar eigin vandmál á ferðinni, sem gera lífið erfitt og það er því okkar sjálfra að ráða fram úr þeim.

Í þessum þáttum er það eins og rauður þráður, hvernig við reynum að forðast þessa ábyrgð. Hvernig við gerum aðra ábyrga, verðum áhorfendur að sjálfum okkur o. s. frv. Því veikara, sem raunsjálfið verður með slíkum óafvituðum aðferðum, þeim mun meiri fórnarlömb afla undirvitundarinnar verðum við. Á hinn bóginn gerir hvert skref í átt til slíkrar ábyrgðar á öllu því sem við í raun erum, okkur sterkari. Með því að forðast slíka ábyrgð, verður mun erfiðara að komast yfir eigin vanda okkar. Á meðan við erum okkar eigin sjálfsímynd, efumst við ekki um hreinskilni okkar. Ef við gjarnan ásökum sjálf okkur, þá óttumst við slíka ábyrgð og teljum okkur ekki hagnast á henni. Einn af mörgum þáttum sjálfsflóttans er einmitt sá, að við viljum ekki taka á okkur þessa ábyrgð og getum það væntanlega ekki fyrr en við höfum öðlast nokkra tilfinningu fyrir sjálfum okkur.

Þegar raunsjálfið er útilokað og dæmt í útlegð, eru í lágmarki þau öfl, sem leiða til heilunar okkar, ef svo má að orði komast. Ef við erum nægilega við sjálf, höfum og finnum eigin tilfinningar, sem verða til sjálfkrafa, tökum okkar eigin ákvarðanir og berum ábyrgð á þeim, þá öðlumst við tilfinningu fyrir heilleika. Okkur finnst við standa föstum fótum. Ef við höfum týnt sjálfum okkur, höfum við engan grunn til að standa á til að glíma við vandann. Þegar grunninn vantar grípum við til þeirra úrræða, sem hér hefur verið lýst og týnum okkur meira og meira. Við reynum að bæta úr vandamálum með sjálfsstjórn og viljaafli, en það leiðir jafnan aðeins til þess að málið versnar.

Ef við stýrum ekki eigin lífi, verðum við óörugg undir niðri, hversu sem við þvingum okkur með ytri stöðlum. Ef við upplifum ekki eigin tilfinningar, verðum við líflaus, þótt við séum lífleg á ytra borði. Ef við tökum ekki ábyrgð á sjálfum okkur, verðum við ósjálfstæð. Að finna ekki raunsjálfið hefur afgerandi afleiðingar á þroska okkar. Því meiri sem sjálfsflóttinn er, þeim mun sterkara taki nær stoltið á okkur, styrkleiki okkar til að standa gegn því, verður minni. Sjálfið er uppspretta tilfinningaaflanna í okkur, þeirra afla er þroska okkur, það er leiðsögn okkar og á því byggjum við siðferði okkar og gildismat. Það er í sjálfu sér alheimsaflið og við kynnumst því ekki nema við kynnumst sannleikanum um sjálfa okkur.

Ef við fáum áhuga á sannleikanum um sjálf okkur og ef við tökum þá ábyrgð, sem ég hefi verið að lýsa, leiðir það til þess, að við tökum meira eigin ákvarðanir, upplifum eigin tilfinningar og myndum eigin siðferði og hugsjónir. Að sama skapi minnkar stoltið og skyldurnar, raunsjálfið tekur völdin í stað blekkingarinnar. Það reynist fljótt sterkari aðilinn. Raunsjálfið er ekki tálsýn, sem æskilegt er að öðlast en erfitt er að henda reiður á. Á því byggist allur þroski. Lokabaráttan milli raunsjálfsins og gervisjálfsins, sem er barátta upp á líf og dauða, verður vart kleif, fyrr en raunsjálfið hefur öðlast nokkurn styrk. Fyrr hættum við okkur ekki í þá orrustu. En við getum jafnan reynt að grafa undan gervisjálfinu og að vernda okkur fyrir skaðlegum áhrifum þess.

Skráð í