IV HIÐ ALGILDA OG HLUTVERULEIKINN

4.0 VÍSINDIN.
4.1 AUSTRÆN VIÐHORF.
4.2 GERANDI OG GJÖRÐ.
4.3 HVER ER ÉG?.
4.4 ATMAN.
4.5 UPPLJÓMUN.      

4.0 VÍSINDIN.

Ég hefi áður rætt um það, að hugsun skapi markalínur, þ.e., hluti tilveruna niður. Með hugsuninni var Adam flæmdur úr Paradís og barátta andstæðnanna hófst. Ég ætla hér í upphafi að eyða fáum orðum á það, hvernig þróun vísindanna varpar ljósi á þetta.

Með því að gefa hlutum nafn, flokka þá, gera kort, landamæri og markalínur, má segja, að skapað hafi verið bæði tæknilegt og pólitískt vald. Viskutréð hafði ekki aðeins að geyma þekkingu á hinu góða og illa, heldur einnig nytsamlega og gagnslausa. Það er lögmál, að um leið og við skiptum hlutunum upp til að ná valdi yfir þeim, aðskiljum við okkur frá þeim og fjarlægjumst þá. Þessi flokkun gegndi í upphafi aðeins því hlutverki að lýsa og skilgreina.

Síðar kom til enn frekari flokkun og sköpun markalína. Aristoteles t.d. flokkaði flest allt í náttúrunni með slíkri nákvæmni og sannfæringu, að Vestur Evrópumenn drógu þá flokkun ekki í efa öldum saman. Menn áttuðu sig brátt á því, að með slíkri flokkun einni saman er ekki kleift að ná mikið lengra en að lýsa og skilgreina. Menn sáu jafnframt, að kleift var að skapa miklu óhlutstæðari og fínni markalínur.

Tölustafir voru fundnir upp og Pythagoras og hans líkar gátu talið hlutina. Þótt mikil bylting fylgdi því að geta gefið hlutunum nafn, var þó sýnu meiri byltingin með tölunum, því með þeim var kleift að fara fram úr einfaldri flokkun og telja flokkana. Með óhlutstæðum tölum var hugurinn ekki lengur bundinn við ákveðna hluti eða flokka, heldur var hægt að flokka flokkana. Við getum talað um sjö epli, sjö daga o.s.frv. Með tölunum eða flokkun flokkanna öðlaðist maðurinn enn meira pólitískt og tæknilegt vald.

Flokkunina má telja upphaf tvíhyggju. Með tölunum voru skapaðir tveir heimar, ef svo má segja, þ.e. hinn hlutstæði og hinn óhlutstæði eða hinn efnislegi og huglægi. Þessi tvíhyggja átti eftir að birtast næstu tvö þúsund árin í einni eða annarri mynd, sem grundvöllur menningar án þess að breytast að eðli.

Þessi nýja aðferð að nota tölur til að mæla hlutina var þó ekki notuð að ráði í vísindum fyrr en með Galileo og Kepler um 1600. Kirkjan stóð öðru fremur í vegi fyrir þeirri þróun. Það varð ekki fyrr en völd hennar tóku að minnka, að mælingar voru teknar upp svo nokkru nam, en mælingar eru aðeins fín talning.

En í framhaldi af því, sem hér hefur verið lýst gerðist önnur bylting í heimi flokkunar. Á 17. öld var algebran fundin upp, en með henni er flokkun á flokkun flokkanna hafin. Gengið er einu skrefi lengra. Fyrst höfðum við flokk, síðan flokkun flokkanna með tölum, en nú kom breytan til sögunnar, t.d. “x”, “y” eða “z”. Breytan er þannig, að ef talan vísar til einstakra hluta eða flokka, þá vísar breytan til sérhverrar tölu. Talan fimm vísar til einhverra fimm hluta, en “x” vísar til tölu innan vissra marka. Með algebrunni var kleift að gera meira en telja og mæla. Einnig mátti finna afstæði milli mælinga og setja það fram sem kenningu eða lögmál. Þeir hlutir eða flokkar, sem í fyrstu voru skapaðir, reyndust háðir þessum lögmálum. Óþarft er að nefna dæmi þess, því þau eru alkunn.

Þessu fylgdu að sjálfsögðu enn meiri pólitísk og tæknileg völd. Pythagoras gat talið reikistjörnurnar, en Newton gat sagt fyrir um þyngd þeirra. Ef við rifjum uppgang þróunarinnar, þá voru fyrst dregnar markalínur, svo hlutir og atburðir væru þekktir. Síðan var tekið annað skrefið, mælanlegir hlutir voru fundnir, flokkar flokkanna, magn verður gæði. Að lokum var svo fundið samband milli talna og mælinga annars skrefsins og fundnar formúlur með algebru, sem tóku til þessa alls. Mælingar leiddu þá til niðurstöðu, tölur til lögmála. Hvert nýtt skref jók þekkinguna og valdið.

Þekkingin og valdið yfir náttúrunni var þó dýru verði keypt. Með því að ná valdi yfir náttúrunni, fjarlægðist maðurinn hana. Nú getum við sprengt okkur og jörðina í loft upp og við höfum valdið háskalegri mengun í ríki náttúrunnar. Samt sem áður hefur á síðustu öld gerst bylting í vísindum á allt annan veg en vænta mátti. Allar markalínur, flokkar, flokkar flokkanna o.s.frv. hafa hrunið til grunna. Nefna má í því sambandi nöfn eins og Einstein, Schroedinger, Eddington, deBroglie, Bohr og Heisenberg. Þessi bylting hefur gerst á einum mannsaldri og byrjaði með afstæðiskenningu Einsteins. Með henni var allt tekið til endurskoðunar og gömlu hugmyndunum um afmörkun hlutanna var vikið til hliðar.

Áður höfðu eðlisfræðingar litið á alheiminn, sem stórkostlegt samsafn aðskildra hluta og atburða, er hver um sig var einangraður frá öðrum í tíma og rúmi. Kleift var að telja þá og mæla og þeir voru því háðir lögmálum. Vísindamönnum fannst sem þessi lögmál stjórnuðu náttúrunni. Alheimurinn var eins konar biljarðsborð, þar sem aðskildir hlutir alheimsins voru eins og kúlur, sem annað veifið rákust á hver á aðra. Fyrst héldu vísindamenn, að hin gömlu lögmál Newtons eða eitthvað líkt þeim ríktu í heimi frumeindanna. Það reyndist ekki rétt. Var það mikið áfall.

Frumeindir og rafeindir fylgdu ekki þessum lögmálum, það var ekki einu sinni hægt að staðsetja þær. Vísindamenn fundu engar biljarðskúlur sem sjálfstæðar einingar. Frumeindin var ekki aðskilinn hlutur. Áður fyrr héldu menn að frumeindin væri eins og nokkurs konar sjálfstætt sólkerfi í smækkaðri mynd. En hér var ekki að finna neinar markalínur. Hér var mæling ekki framkvæmanleg. Með óvissulögmáli Heisenbergs var hinni klassísku eðlisfræði lokið. Gömlu markalínurnar voru úr sögunni.

Af því að markalínur þekkjast ekki í heimi frumeindanna, á sér þar ekki stað flokkun, mælingar né lögmál. Ekkert lögmál ræður hreyfingu einstakrar rafeindar, m.a. einfaldlega vegna þess að hún verður ekki afmörkuð. Eðlisfræðingar fást nú við líkindareikninga og tölfræði, þ.e.a.s. þeir safna saman til mælinga nægilegu magni einstakra hluta frumeindanna svo að þeir geti látið eins og þeir hafi í höndunum hluti, sem virðast aðskildir og hafa ímyndaðar markalínur. Með þessu móti hefur eðlisfræðingum tekist að leiða getum að því, hvernig kerfið í heild muni hegða sér. En vísindamönnum er að sjálfsögðu ljóst, að markalínurnar eru tilbúningur rétt eins og breiddar og lengdarbaugar hnattarins og að grundvöllurinn hefur engar markalínur.

Nú er einfalt að sjá, hvað fór úrskeiðis hjá hinni gömlu eðlisfræði. Menn höfðu einfaldlega ekki áttað sig á eðli hinna upprunalegu markalína. Þær voru hagkvæmar og þeim fylgdi pólitískt og tæknilegt vald, en það hvarflaði ekki að mönnum, að hinar upprunalegu markalínur væru rangar og ósannar. Með öðrum orðum, vísindamenn uppgötvuðu lögmál hinna aðskildu hluta, sem síðan leiddi til þeirrar uppgötvunar að aðskildir hlutir væru ekki til. Hinar hefðbundnu vísindaaðferðir, sem notuðu markalínur, leiddu til þeirrar uppgötvunar, að markalínur væru ekki til.

Markalínur eru ekki veruleiki, heldur aðferð við að kortleggja veruleikann. Eðlisfræðingurinn Eddington segir: “Þar sem vísindin hafa náð lengst, hefur hugurinn fengið til baka frá náttúrunni, það sem hann hefur í hana lagt. Við höfum fundið undarleg spor á strönd hins óþekkta. Við höfum búið til djúpsæjar kenningar, eina eftir aðra, til að skýra uppruna hins óþekkta. Að lokum hefur okkur tekist að endurgera þá skepnu, sem markaði sporið. Og sjá, það er okkar eigið.” Þar með er ekki sagt, að heimurinn sé aðeins okkar eigin ímyndun, heldur aðeins, að markalínurnar séu það. Sannleikurinn er sá, að við höldum að lögmál náttúrunnar útskýri heim fyrirbæranna, en þær skýra ekki veruleikann heldur markalínur hans. Þær birta ekki það sem markalínunum er ætlað að opinbera.

Segja má í stuttu máli, að kvanta eðlisfræðin hafi uppgötvað, að veruleikinn sé ekki aðskildir hlutir og markalínur. Hlutirnir eru samfléttuð viðhorf og afstaða hvers annars. Allir hlutir og atburðir í alheimi eru tengdir öllum öðrum hlutum og atburðum í alheimi. Nútíma vísindamenn sjá heiminn með svipuðum augum og Adam áður en hlutunum var gefið nafn og markalínur urðu til. Teilhard de Chardin talar um klæði án sauma. Engar markalínur eru milli hluta eða atburða í alheimi.

Fritjof Capra segir í bókinni Tao eðlisfræðinnar: “Tvær grundvallarkenningar nútímaeðlisfræði sýna öll megineinkenni hinna austrænu sjónarmiða. Kvanta kenningin hefur aflagt hugmyndina um aðskilda hluti í grundvallaratriðum og komið fram með hugtakið þátttakandi í stað hugtaksins athugandi. Hún lítur á alheim sem samtvinnaðan vef tengsla, þar sem hlutarnir verða aðeins skilgreindir í samhengi við heildina.”

4.1 AUSTRÆN VIÐHORF.

Margt er líkt með nútíma vísindum og austrænni speki. Hvoru tveggja lítur á veruleikann sem eina heild án tvíhyggju og alla hluti og atburði samanofna í einni stórri frumeind. Ástæðan fyrir því, að austrið vissi þetta allt fyrir löngu, er sú, að það tók markalínur aldrei alvarlega. Tao eða Dharma er heild, sem liggur undir markalínum okkar kortagerðarmannanna. Austrið sá fyrir löngu að veruleikinn er án tvíhyggju og þess vegna rugluðu þeir aldrei saman kortinu og landinu sjálfu eða markalínum við veruleikann eða táknum við staðreyndir.

Hin austrænu viðhorf hafa jafnan verið þau, að við skynjum form, hljóð, lit o.s.frv. og myndum hugmyndir út frá þessari skynjun, eins og vatn, borð, bók o.s.frv. Við segjum síðan, þetta er þessi ákveðni hlutur en ekki annar og gefum honum nafn. Útlit eða sýnd hlutanna er borin saman og einnig nöfnin. Tekin er afstaða til hlutanna og gert er upp á milli þeirra. Ef við á hinn bóginn gerum okkur grein fyrir, að þessi munur á hlutunum eða markalínur eru enginn veruleiki í sjálfu sér, þá erum við á réttri leið. Við hættum þá að líta á ásýndina eða útlitið eða nöfnin sem veruleika. Þegar ásýndin er upprætt, þá hverfur allur munur og eðli hlutanna kemur í ljós. Af því að ekkert er hægt að segja um þetta eðli hlutanna, köllum við það tómið, innsýn eða sannleik (Suchness). Veruleikinn er laus við hugsun og hluti. Að sjá hlut, er að hugsa og þegar við hugsum myndum við hluti í huganum. Hlutun og hugsun eru tvö nöfn yfir það markalínunet, sem við hyljum veruleikann með.

Með þessu er ekki átt við, að allir hlutir hverfi og að einhverjar allsherjar tómleiki myndist eða að allt verði að einum óskilgreinanlegum hrærigraut. D. T. Suzuki segir “tómið afneitar ekki heimi margbreytileikans, fjöllin eru til staðar, kirsuberjatrén eru í fullum blóma, tunglið skín bjart á haustnótt. En um leið eru þessir hlutir meira en sérstakir hlutir. Þeir skírskota til okkar í dýpri skilningi. Við skiljum þá í tengslum við það sem þeir eru ekki.” Þegar við erum laus við markalínur, þá sjáum við að allir hlutir eru afstæðir og háðir hverjum öðrum, eins og gott og illt, líf og dauði. Allir hlutir eru því í tengslum við það sem þeir eru ekki.

Það er erfitt að átta sig á tóminu. Það er vegna þess að það er svo einfalt. Við sjáum heldur aldrei í raun einstaka hluti. Það er aðeins þegar hugsunin kemst að, að þeir verða til. Það er ekki fyrr en okkur finnst þetta og við byrjum að einbeita huganum, sem þetta gerist. Ef við erum með hamar í hendi, lítum við eftir nöglum. Við búum stöðugt til aðskilda hluti, af því að það er eðli hugans að standa að slíkum tilbúningi. Vandinn hefst þegar við förum að líta á þennan tilbúning hugans sem veruleik. Þess vegna sjáum við tilveruna sundurpartaða eða niðurbútaða. Firringin kemur samstundis.

Enn rétt er að endurtaka, að þegar austrænir spekingar tala um tómið eða afneita tvíhyggju eða segja, að hlutir séu gagnsýrðir hver af öðrum, þá afneita þeir ekki mismun sem slíkum eða sérstæði. Þeir sjá ekki heiminn sem einhvern ósundurgreinanlegan hrærigraut. Heimurinn hefur línur og drætti, en þeir eru allir samanofnir í samskeytalausan grunn. Allar markalínur eru útdráttur úr hinu samskeytalausa klæði alheimsins. Þær eru allar blekking í þeim skilningi að þær skapa aðskilnað og árekstur, sem enginn er í raun. Markmið esoteriskra leiða til frelsis, er að leysa fólk úr prísund innri átaka og frá margslungnum og flóknum þversögnum hugsunar. Með því að leysa vandann með skilmálum hugsunar aukast átökin. Með því að sjá blekkingu hennar og hvernig hún skapar átök, leysum við ekki átökin, heldur leysum þau upp. Öll átök eru blekking. Við köllum lokalausnina nirvana, moksha, frelsi, lausn, uppljómun, satori o.s.frv. og það er sú hlið málsins, sem ég vildi nú ræða nánar.

4.2 GERANDI OG GJÖRÐ.

Um hið algilda er erfitt að tala. Ástæðan er einfaldlega sú, að tungumál okkar er tungumál hugsana, en hið algilda er handan hugsunar, ef svo mætti segja. Öll orð og tákn hafa að geyma takmarkanir hugsunar. Ef við segjum því, að veruleikinn sé hið algilda, erum við að aðgreina hið algilda frá öllu öðru, þ.e. tala um eitthvað, sem sé hið algilda annars vegar og svo eitthvað sem sé ekki hið algilda hins vegar. Þetta sýnir, hversu málið er erfitt. Í áttina er að segja að hið algilda sé bein og milliliðalaus vitund, sem ekki sé hægt að skilgreina eða orða. Hið algilda er ekki heimspekikenning. Handan allra markalína liggur veruleikinn, Tao, Brahman eða Guð. Þar er ekkert gott eða vont, líf eða dauði.

Sú skiptilína, sem aðgreinir okkur frá umheiminum, þ.e. deiling okkar í það sem við segjum að við séum annars vegar og það sem við séum ekki hins vegar er mest grundvallandi og erfiðust viðureignar. Hún snýr að eigin tilvist eða tilvistarleysi, í mig sjálfan annars vegar og allt annað hins vegar. Þetta eru þau landamerki, sem við eigum erfiðast með að yfirgefa. Þetta voru líka fyrstu markalínurnar sem við drógum í upphafi. Við höfum bókstaflega eytt lífi okkar í að verja þessi landamæri og styrkja. Við teljum lífsöryggi okkar byggjast á þeim. Þetta sjálfstæða “ég” er einnig það sem við yfirgefum við dauðann, þ.e. sú síðasta markalína, sem við yfirgefum.

Svo afgerandi er markalínan milli mín og ekki mín, að segja má, að aðrar markalínur séu af henni leiddar eða henni háðar með einum eða öðrum hætti. Við getum varla sett markalínur milli hluta fyrr en við höfum greint okkur frá hlutunum. Allar markalínur byggja því á eigin sjálfstæðri tilvist. Það væri að æra óstöðugan að leysa upp markalínur með þeim hætti að taka eina eftir aðra. Hagkvæmast er að ráðast gegn þessari grunnmarkalínu, þar sem með því er samtímis grafið undan öllum öðrum. Með henni hrynur allt gangverkið.

Þegar við upplifum hið algilda, þá gerist það að tilfinning fyrir okkur sjálfum hverfur. Jafnframt því, sem við erum ekkert, erum við allt, alheimur. Markalínan milli okkar og annars hverfur, enda var hún aldrei veruleiki. Við þurfum ekki að leggja niður markalínur, einfaldlega vegna þess að þær voru aldrei til. Þær eru blekking, en við látum eins og þær séu veruleiki.

Ef við leitum að markalínum í því skyni að eyða þeim, þá finnum við þær ekki. Blekking verður aldrei fundin sem veruleiki, en við getum skilið blekkinguna. Með því að einbeita sér að því af mikilli atorku að eyða markalínum, t.d. með hugleiðslu eða einbeitingu, þá getum við einmitt fallið í þá gryfju að gera ráð fyrir blekkingunni sem veruleik og með því styrkja og viðhalda þeirri blekkingu, sem ætlunin var að eyða. Í stað þess að gera ráð fyrir markalínu sem veruleik og að ætla að eyða henni, er betra ráð að leita að markalínunni sjálfri. Ef við leitum að sjálfum okkur finnum við okkur ekki. Þar sem við teljum okkur hafa sjálfstæða tilvist og sú tilfinning er meginhindrunin til að upplifa hið algilda, náum við miklum áfanga, þegar við leitum að sjálfum okkur og finnum okkur ekki. Til hvers að leita, ef enginn er leitandinn?

Þegar betur er að gáð, þá er sú tilfinning hin eina og sama sem við höfum fyrir innri veruleik okkar og hinum ytra veruleik. Hinn ytri og innri heimur skynjast sem eitt og hið sama. Ókleift er að aðgreina í raunupplifun það sem reynt er frá þeim sem fyrir reynslunni verður. Oft hefur verið bent á það, að augað sér ekki sjálft sig. Hversu vel sem við hlustum, heyrum við aldrei í hlustandanum. Af hverju heyrum við ekki í heyrandanum eða sjáum sjáandann? Jú, einfaldleg af því að heyrandinn og sjáandinn eru ekki til.

Af þessum ástæðum ályktuðu eldri skólar Búddhismans sem svo, að gerandi væri ekki til, aðeins væri um að ræða gjörðina. Sjáandinn eða heyrandinn væru ekki til, aðeins sýnin og heyrnin. Þegar að er gáð, verður gerandinn aldrei upplifaður frá gjörðinni, hvernig sem það er reynt. Þeim mun meira sem við reynum að finna sjáandann, þeim mun meiri verður undrunin. Við sjáum aldrei sjáandann, aðeins það sem séð verður. Sjáandinn er því ekkert annað en það sem séð verður. Ef við horfum á eitthvað, t.d. borð, þá er það svo að reynslan er aðeins ein. Ekki er um að ræða upplifun, sem við getum kallað borð og aðra upplifun, sem við gætum kallað að sjá borðið. Upplifunin er aðeins ein, þ.e. að sjá borðið. Alltaf þegar við leitum að sjálfstæðum geranda, sem aðskilinn er frá upplifuninni eða reynslunni, þá verðum við aldrei var við annað en reynsluna eina í heilu lagi. Við finnum aldrei hugsanda, sem hugsar um eitthvað, aðeins hugsunina sjálfa. Ef við fyndum hugsanda sjálfstætt frá hugsuninni, þá gætum við hugsað um hugsandann, sem er að hugsa hugsunina. Þetta hljómar flókið og ruglingslegt. En var nokkur var við hugsanda, sem hugsaði “ég er ruglaður”? Nei, aðeins sú hugsun kom til “ég er ruglaður”. Þegar við því leitum að hugsanda, finnum við aðeins nýjar hugsanir. Samkvæmt þessu er hugsandi og hugsun eitt og hið sama.

Þetta er að sjálfsögðu allt gott og gilt og eldri skólar Buddhismans notuðu þessar staðreyndir til að afsanna atman. Þeir litu svo á, að hlutveruleikinn sjálfur væri með þessu móti, þ.e. án geranda. Þetta var kallað háttarviðhorf. Þegar fulltrúar miðleiðarinnar, Nagarjuna og Candrakirti, höfnuðu þessu viðhorfi á sinni tíð, kom það eins og köld vatnsgusa yfir Búddhista þeirra tíma. Þeir benda á að hlutveruleikinn verði aldrei skýrður með þessum hætti. Nagarjuna fullyrðir, að engin gjörð sé án geranda og öfugt. Hann segir þá fáfróða um boðskap Búddha, sem annað hvort aðhyllist veruleika atman eða þá hins vegar ástandið eða gerðina aðskilda frá gerandanum. Hann segir, ef orsök og afleiðing eru ekki það sama, þá eru þær heldur ekki mismunandi. Í raun var miðleiðin fyrst og fremst gagnrýni á háttarviðhorf eldri Búddhismans. Frumkvöðlar miðleiðarinnar sáu, að ekki var fært að líta á annan helming samlokunnar sem eðli hlutveruleikans.

Ég vona að ég sé ekki farinn að rugla menn óhæfilega í rýminu, því það sem ég ætla hér að segja er ætlað að skýra hlutina og gera þá augljósari, en ekki torskildari. En röksemdir þeirra miðleiðamanna minna mig á setningu eftir Shakespeare, þar sem hann lætur Cesar gefa hermönnum sínum heilræði um það, hvað þeir skuli gera þegar til Rómar kemur. Cesar segir: “When in Rome, do as the Romans do”, sem útleggst eitthvað á þá lund: “Þegar við verðum í Róm, þá hegðum við okkur eins og Rómverjar”.

Þegar við lifum í hlutveruleikanum, verðum við að játast lögmálum hans. Eðli hugsunar er það, að bæði gerandi og gjörð er óhjákvæmileg. Candrakirti bendir á, að hlutveruleikanum verði ekki lýst með því að sleppa gerandanum. Hann segir, að ef verið sé að lýsa hlutveruleikanum, komumst við ekki hjá að viðurkenna bæði geranda og gerð. Engir eiginleikar séu til án forms eða efnis, meðan við höldum okkar innan hugsunar og máls. Slíkar lýsingar, þ.e. að gerandi sé ekki til, gefi ekki rétta mynd af hlutveruleikanum. Þær gefi ekki heldur mynd af hinu skilyrðislausa eða algilda.

Ef tekið er annað dæmi. Það er ljóst, að hvernig sem við reynum að aðgreina eiginleika hlutar frá efni hans, þá verður það ekki gert. Með því að segja, að hluturinn sé ekkert annað eiginleikar hans, hefur það vissan sannleik að geyma. Einnig ef við segjum að hlutur sé ekkert annað en efnið í honum. Engir eiginleikar eða gæði í hlutnum eru til án efnisins og ekkert efni í honum er til án eiginleika eða gæða. Sumir hafa freistast til að taka aðeins annan þáttinn og líta á hann sem veruleik, t.d. eiginleikana en viðurkenna ekki efnið og öfugt. Viðhorf miðleiðarinnar er það, að í hlutveruleik okkar getum við ekki án beggja þáttanna verið. Við verðum að viðurkenna bæði efnið og eiginleikana sjálfstætt. Gagnvart hinu algilda fær hvorugt staðist. Þar sem annað atriðið getur ekki án hins verið, er hvorugt veruleiki, þ.e. hið algilda, þótt þau séu bæði fyrirbrigði í hlutveruleikanum.

En til hvers var ég þá að ræða svona ítarlega áðan um engan geranda, bara gjörð? Er það einhvers virði, ef það er ekki hvorki hlutveruleikinn né heldur hið algilda? Hefur slíkt tal þá eitthvert gildi? Skal nú vikið nánar að því.

4.3 HVER ER ÉG?.

Margir hinir upplýstu hafa ráðlagt þá aðferð að leita sjálfsins. Nægir að minna Sri Ramana Maharshi, sem ráðlagði okkur að spyrja “hver er ég?”. Þeir leggja ekki til að við eyðum Sjálfinu, heldur leitum aðeins að því. Sú leit leiðir til þess að við finnum ekkert sjálfstætt Sjálf. En menn segja sem svo: Þótt við skiljum vel að ekki finnist sjálfstæður sjáandi, heyrandi, hugsandi eða annar gerandi, þá höfum við samt fyrir því tilfinningu innst inni í okkur, að við höfum sjálfstætt, aðskilið eða sérskilið Sjálf. Við höfum tilfinningu fyrir því, að við séum aðskilin frá veröldinni utan við okkur. Þótt ég því hvorki sjái, heyri o.s.frv. neitt innra Sjálf, þá finnum við ákveðið til okkar sjálfra.

Þetta er enn ekki rétt, því hver er það, sem finnur þetta allt. Að finna þann, sem hefur þessa tilfinningu, er ekkert annað en önnur tilfinning. Kjarni málsins er sá, að ekkert sjálfstætt sjálf eða sál er til aðskilið frá heiminum að öðru leyti. Okkur finnst sem um sé að ræða sjálfstæðan aðila sem upplifir reynsluna, en útkoman er alltaf reynslan ein. Alan Watts hefur gert þessu sérstaka skil. Það er ekki hægt að tala um eina aðskilda einingu, sem við köllum “ég” og svo eitthvað annað, sem við köllum tilfinningu. Þetta tvennt er einn og sami hluturinn, ef að er gáð.

En því er ég þá, eins og ég sagði áður, að leggja svona mikla áherslu á þetta fyrirbrigði, ef það telst hvorki hlutveruleikinn né hið algilda. Jú, þetta er aðferð til að sjá tilvist hins algilda og nálgast það. Segja má að þessi aðferð verki eins og brú frá hlutveruleikanum til hins algilda. Þegar við sjáum, að ekkert bil er milli okkar og reynslu okkar, þá verður okkur augljós sú staðreynd, að það er ekkert bil á milli okkar og reynsluheimsins. Við erum það sem við skynjum og finnum. Gerandi, gjörð og ytri hlutir eru mörg heiti á því eina og sama. Þetta er ekki eitthvað sem við eigum að finna, þetta er það eina sem við getum fundið.

Vitund okkar hefur því vitund um hið algilda, hvort sem við gerum okkur þess grein eða ekki. Við erum alheimurinn, við erum öll okkar reynsla í heild sinni. Sjálfstætt Sjálf er blekkingin mikla. Við þurfum ekki að eyða því, því það er ekki til. Að leita að því og finna það ekki, leiðir til vitundar um allífið. Þetta hefur öllum hinum upplýstu verið augljós staðreynd og er okkur augljós staðreynd, ef við aðeins þorum að horfast í augu við hana. Það er þessi skilningur, sem leiðir til frelsi frá þjáningu. Ef við erum allt, þá getur enginn utanaðkomandi bakað okkur þjáningu. Um er að ræða frelsi frá þeirri hugsun, að til sé sjálfstætt Sjálf, sem þjáist. Wei Wu Wei sagði: “Hvers vegna ertu óhamingjusamur? Af því að 99,9% af öllu sem þú hugsar og öllu sem þú aðhefst, er um sjálfan þig, en það er enginn þú.” Hann segir ennfremur: “Fæðingin er fæðing ég hugtaksins, dauðinn er dauði ég hugtaksins. Það er engin önnur fæðing. Það er enginn annar dauði.” Hann segir enn: “Auðmýkt er undantekningarlaust það sálarástand, sem skapast við algera fjarvist ég hugtaksins. Án slíkrar fjarvistar er auðmýkt aðeins gríma stærilætisins, sem er andstæða hennar.” Enn segir hann: “Hvað gengur að þér? Það að þú heldur þig vera, annað en það, sem þú ert.”

Aðeins hluti getur þjáðst, ekki heildin. Þegar við sjáum, að hlutinn er blekking, þá er ekki um að ræða neitt aðskilið Sjálf, sem þjáist. Heildin kemst hjá örlögum hlutans, sem alltaf er þjáning og dauði. Tat tvam asi, þetta ert þú. Þetta er raunsjálfið eða atman. Þeirri spurningu er ósvarað, af hverju Vedanta leggur áherslu á atman, raunsjálfið og af hverju ég tala alltaf um Sjálf í mínum fyrirlestrum, þegar því er haldið fram að ekkert sjálfstætt Sjálf sé til. Er nú rétt að víkja að því.

4.4 ATMAN.

Innsta eðli mannlegrar náttúru er heilleiki, skýr óskiptur veruleiki hér og nú. Sumir tala um innri kjarna, að himnaríki sé að finna innra með okkur sjálfum, þar sé hin algildi sjáandi og þekkjandi, alger huglægni o.s.frv. Þetta raunsjálf gengur undir ýmsum nöfnum, svo sem Atman, Búdda eðli, Tao, andi, yfirsjálf og stundum Guð. Shankara segir: “Til er sjálfstæður veruleiki, sem er grundvöllur vitundar okkar um egoið. Þessi veruleiki er vitni að hinum þrem vitundarstigum, vöku, draumi og svefni og hann er aðgreindur frá hinum fimm líkamssviðum. Þessi veruleiki er sá, sem þekkir allt vitundarástand. Hann veit, hvenær hugurinn er til staðar og hvenær ekki. Þetta er Atman, almættið, frumeðlið”. Búddistar hafa gjarnan talað um, að veruleikinn sé hin algilda huglægni, sem er handan við huglægni og hlutlægni hlutveruleikans. Hið eilífa Tao verður ekki um rætt. Atman er óskipt heild. Engin tilvist fyrirfinnst þar fyrir utan, þar sem Atman (Brahman) hefur að geyma tíma og rúm, en Atman er rúm og tímaleysi, óendanleikinn og eilífðin.

Þess ber að gæta, að þegar verið er að tala um eilífð í þessu sambandi, eins og þegar Kristur talaði um eilífa lífið, þá er að sjálfsögðu ekki átt við tíma sem vari alltaf, t.d. eftir dauðann, heldur tímaleysi, þ.e. að vera handan tímans. Eilífðin var ekki meint sem tilvist um mjög langan eða ókominn tíma í gulli skreyttu himnaríki, heldur grundvöll tilvistarinnar, veruleik án tíma og rúms. Ekki er átt við ódauðleika, heldur snerting við hinn tímalausa uppruna okkar, þar sem við og alheimurinn erum eitt, hinn tímalausa grundvöll, sem inniheldur allan tíma. Á sama hátt og þegar talað er um óendanleikann, þá er ekki átt við eitthvað óendanlega stórt, heldur hinn rúmlausa grundvöll, sem inniheldur allt rúm. Sá sem er laus við tímann, kvíðir engu. Sá sem sér að hann og allt annað er eitt, óttast ekki lífið. Sá sem sér að tilvist og tilvistarleysi er eitt, óttast ekki dauðann.

Þegar því er haldið fram, að raunsjálfið sé Atman, innri kjarni eða algild huglægni, þá hljómar það e.t.v. eins og þversögn, þegar verið er að halda því fram samtímis, að enginn gerandi sé til heldur aðeins gjörð, engin eining sé til, heldur aðeins heild o.s.frv. Þó er ekki um að ræða þversögn. Deilur Búddhista á Atman, sem innri kjarna áttu sér stað að mestu, áður en algildishyggjan hélt innreið sína í Vedanta skólana með Shankara og Advaita Vedanta. Eftir það má segja, að bæði Búddhismann og Vedanta skólana greini vart á um form hins algilda, þótt þá greini á um aðferðir til að nálgast það. Að formi til skiptir því ekki máli, hvort við tölum um Búddha eðli eða Atman, þótt aðferðirnar til að nálgast hið algilda séu ekki þær sömu.

Þá verður að viðurkenna, að erfitt er fyrir hina upplýstu að lýsa hinu algilda, sem engin orð ná yfir. Orð okkar og hugsanir eru bundnar takmörkunum og hið algilda er handan við þessar takmarkanir. Því er eðlilegt að erfitt sé að beita tungumálinu með árangri án þess að lenda í þversögn. Ekkert tungumál getur skilgreint eðli hins algilda. Því fara hinir upplýstu gjarnan þá leið, að benda á leiðina, þ.e. þá leið sem við getum farið til að öðlast sömu reynslu sjálf. Þeir leggja áherslu á að trúa engu blint heldur treysta eiginn skilningi og reynslu.

En hvert skal líta. Allir leggja þeir áherslu á að líta í eigin barm. Raunsjálfið, himnaríki býr í okkur sjálfum. Hinir upplýstu eru ekki að lýsa raunsjálfinu innra með okkur, eins og það sé sett inni í okkur, heldur eru þeir að benda inn. Öll vandamál eru innri vandamál, lokasvarið er að finna hið innra, ekki hið ytra. Ef við á hinn bóginn leitum inn finnum við fyrr en seinna að allt hið ytra er hið innra eða öfugt. Hið innra og hið ytra, hið huglæga og hið hlutlæga falla saman í eitt. Með því að tala um raunsjálfið, verkar það eins og þversögn miðað við það sem við höfum áður sagt, en með því að fylgja ráðum hinna upplýstu, sjáum við að niðurstaðan verður sú sama.

Lao Tsu segir svo í 14. erindi í Bókinni um Veginn: “Þegar við skyggnumst eftir því, festum við ekki sjónar á neinu og köllum það þess vegna formlaust og litlaust. Þegar við hlustum, heyrum við ekkert og köllum það þess vegna þögnina. Þegar við þreifum, festum við ekki hönd á neinu, og nefnum það þess vegna ásjáanlegt. Þessi viðhorf, sem verða ekki skynjuð, eru okkur ímynd hins Eina”. “Það er ekki ljóst að ofan, ekki myrkt að neðan. Óþrotlegt í starfi sínu, og verður ekki orðfest, það hverfur aftur í tilvistarleysið. Það er form hins formlausa, birting hins dulda, hyldýpi leyndardómsins”. “Þegar við mætum því, sjáum við ekki ásjónu þess, þegar við eltum það, eygjum við það ekki. Að öðlast hina fornu þekkingu á Tao og breyta samkvæmt henni, það er að vera kominn á veg lífsins”.

Til þess að nálgast raunsjálfið ráðleggur Sri Ramana Maharshi að menn spyrji sig: “Hver er ég? Ég er ekki líkaminn, ég er ekki skilningarvitin, ég er ekki sá hugur sem hugsar þá hugsun”. Halda má áfram, ég er ekki tilfinningarnar, ég er ekki þekkingin né minnið o.s. frv. Með því að leita þannig inn, gerum við okkur smátt og smátt grein fyrir því, að raunsjálfið verður ekki fundið fyrr en við sjáum að það er allt, tat tvam asi, þetta ert þú, Brahman.

Af því að raunsjálfið er hvorki hið innra eða hið ytra og af því að hið huglæga og hið hlutlæga er eitt og hið sama, þá tala hinir upplýstu með ýmsum hætti sem verkar sem þversögn. Hitt er einnig, að þótt hið algilda virðist það sama að formi til, þá eru leiðirnar til þess margar og því verða leiðbeiningarnar með ýmsu móti. Væri það efni í sérstakt erindi. En stundum er aðeins verið að útlista, að hinn innri heimur og hinn ytri séu aðeins tvö hugtök yfir sama veruleik.

Eftir er að spyrja, hvort nálgast megi raunsjálfið eða Búddha eðlið stig af stigi eða hvort það verði aðeins gert í einu stökki. Er einhver brú milli hlutveruleikans og hins algilda? Er kleift að ná hinu algilda í áföngum? Eru sumir þroskaðri en aðrir? Skal nú að því vikið.

4.5 UPPLJÓMUN.

Í heimspeki Prajnaparamita er hinu algilda jafnað við innsýn inn í veruleikann án tvíhyggju. Þar er ekki reiknað með framþróun. Með framþróun er gengið út frá því að markmiði sé náð skref fyrir skref með ákveðinni röð og þar með sé kleift að mæla slíka framför með eins konar magnmælingu. Prajna er þekking á veruleikanum í eitt skipti fyrir öll. Þessa þekkingu má öðlast án sérstakra hæfileika, hagstæðra kringumstæðna eða undirbúningsfræðslu. Að upplifa hið algilda smátt og smátt er þess vegna ósamrýmanlegt þessu viðhorfi.

Hinu má hins vegar ekki gleyma, að það er viðurkennt, að hindrunum megi eyða smátt og smátt, þ.e. þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir að við skynjum veruleikann. Viðurkennt er, að stökk eiga sér stað með breyttu vitundarástandi án þess að hið algilda hafi beinlínis verið upplifað. Þegar við sjáum, að einhver markmið eða myndir, sem vald hafa á okkur, eru blekking, kemur sú innsýn með ljóshraða og okkur léttir. Við verðum frjálsari. En oft hefur sú innsýn haft langan aðdraganda og mikinn undirbúning. Vandinn í þessu er sá, að verið er að losna við markmiðin og blekkingarnar, en ekki ná þeim. Ef við heyrum fallega tónlist, þá er sú upplifun milliliðalaus og bein og án þrepa, en við getum hafa undirbúið málið með ýmsum hætti, þannig að við hefðum ekki notið tónlistarinnar nema vegna undirbúningsins. Að ætla sér svo að lýsa tónlistinni með orðum eftir að heyra hana e.t.v. rökfræðilegri uppbyggingu hennar, myndi með engu móti koma til skila upplifuninni og sjálfsagt hjálpa fáum til að ná sömu upplifun við hlustun tónlistarinnar.

Tengslin milli hins algilda og heims fyrirbrigðanna, þ.e. hlutveruleikans eru ekki þau, að um tvennt ólíkt sé að ræða. Þegar við lítum á hið algilda með okkar eigin hugkvíum, þá sjáum við heim fyrirbrigðanna eða hlutveruleikann. Ef hlutveruleikinn væri laus við þessi hugsanaform, sæjum við hið algilda. Hið algilda er eini veruleikinn. Það er aðeins einn sannleikur. Það sem við því venjulega köllum sannleik í daglegu máli er blekking. Það er blekking frá sjónarmiði hins algilda, en í daglegum störfum okkar höfum við lítinn áhuga á hinu algilda. Draumar verka sem veruleiki meðan okkur dreymir þá, en við lítum á þá sem blekkingu, þegar við vöknum. Ekkert millibil er þarna í milli eða stigsmunur.

Nú er það svo, að við fáum af og til nýja innsýn inn í einstaka þætti tilverunnar. Þetta getur gerst án þess að við veitum því sérstaka eftirtekt. Einnig getur þetta verið dramatískara, við getum sagt ósjálfsrátt “aha” af því að við uppgötvum skyndilega einhvern sannleik. Kannski höfum við reynt að leysa þraut að kvöldi og vöknum með lausnina að morgni. Fræg er sagan af Arkimedes, er Hiero konungur í Syracusu bað hann að finna út hvort gull í kórónu, sem gerð hafði verið fyrir hann væri silfri blandað. Arkimedes var djúpt hugsi og utan við sig í marga daga meðan hann var að leysa þessa þraut. Sagan segir, að þegar hann ætlaði að baða sig, og steig ofan í vatnið hafi hann stokkið upp úr því og hlaupið nakinn um allan bæinn hrópandi “eureka, eureka” eða “ég hefi fundið það, ég hefi fundið það”, Arkimedes uppgötvaði þarna frægt lögmál, sem upplýsti leyndardóminn um hversu mikið gull og hversu mikið silfur væri í kórónunni.

Slíkar “eureka” innsýnir eru sjaldgæfar, en oft verðum við sem þrumu lostin við mikinn sannleik. Í sálfræðinni er þetta alþekkt. Í hvert skipti sem við uppgötvum innihaldsleysi viðhorfs, sem hefur fjötrað okkur, léttir okkur mikið og við verðum frjálsari. Þannig getum við orðið frjálsari og nær okkur smátt og smátt. Víst er það, að ekki er kleift að ráðast á viss viðhorf fyrr en létt hefur verið á öðrum og fer hver sína leið í því. Þessi reynsla í sálarfræðinni hefur orðið til þess að sumir sálfræðingar, sem aðhyllast austræn heimspekiviðhorf, hafa ekki viljað viðurkenna uppljómun sem skyndilausn, heldur líta á hana sem lokastig í langri þróun.

Þá er einnig ljóst, að bæði Búddisminn og Vedanta skólar telja, að sérstakt líferni með hugleiðslu og fræðslu sé æskilegt á þessari leið. T.d. leggja skólar Zen Búddismans, þar sem satori er lokaupplifunin, áherslu á hugleiðslu ásamt ýmsu fleiru, t.d. að svara spurningum, sem hafa að geyma þverstæður o.fl. Allt er þetta gert til að auðvelda mönnum leiðina. Má því segja að þróun sé með vissum hætti viðurkennd.

Auðvitað er mikill munur á því annars vegar að sjá einhvern mikinn sannleik og að einstök fyrirbrigði hlutveruleikans séu innihaldslaus og hafi ekkert gildi eða hins vegar að upplifa hið algilda og uppljómast. Í síðarnefnda tilvikinu sér maður blekkinguna í heild sinni í eitt skipti fyrir öll. Slík uppljómun virðist samt sem áður oftast hafa einhvern aðdraganda eða undirbúning.

Augljóst er að öll sú vinna, sem við leggjum í að sjá okkur sjálf, eðli okkar og vandamál, er vinna sem stefnir í rétta átt og er ekki unnin fyrir gíg. Við getum ekki árætt að horfa framan í veruleikann, nema að vera í þokkalegri sátt við sjálfa okkur. Það er mun léttara verk, ef við erum andlega sterk og heilbrigð í hinu daglega lífi fyrirbrigðanna, þ.e. í hlutveruleikanum. Þeir, sem öðlast uppljómun eða fá af henni snert, hafa jafnan sterkt ego í þessum heimi, ego sem er í jafnvægi og lýtur stjórn, en ekki öfugt, enda þótt þeir séu jafnframt fullir af hjartans hógværð.

Ég hefi áður sagt, að barátta okkar við eigin tilhneigingar væri oft, eins og að höggva sneið af ormi og sjá hann síðan vaxa í sína upphaflegu stærð. Þótt okkur virðist svo, veit ég að hvert högg gildir.

Copyright © 2012 lifspekifelagid.is