Öll búum við yfir hæfileikanum, hinu innra næmi, sem kallað er innsæi, eina hæfileikanum sem gerir okkur kleift að sjá menn og hluti í réttu ljósi. Það er eðlishvöt sálarinnar, sem vex með okkur að því marki sem við notum hana og vekur með okkur andlegt næmi og framkvæmdamátt.
H. P. Blavatsky
Jean er að kenna fötluðum táningi að renna ker á hjóli leirkerasmiðs. Hún tekur eftir því að hann nær ekki að einbeita sér. Henni koma rétt orð í hug og hún sýnir honum réttu handtökin og hjálpar stráknum að skilja í hverju verkið felst. Hún hefur beitt innsæi til að skilja vandamál hans og ratað á rétta leið til að ná til hans.
Sem leirkerasmiður, söngkona og lagahöfundur rambar Jean á „hina réttu“ leið til að túlka hugmyndir sínar og tilfinningar í listum. Verk hennar eru frumleg og vitna um sjálfstæði. Hún getur notað sama innsæi til að skilja aðra og vanda þeirra og hvernig á að nálgast þá. Þessi hæfni birtist í því hvernig hún kennir leirkerasmíði og hvernig hún umgengst vini sína, sem leita oft til hennar um leiðsögn og ráð.
Jean beitir innsæi fremur en vilja eða úthugsaðri leið. Þegar hún fær hugmynd að styttu eða lagi, er hún viss um að sýn hennar sé rétt. Hugmyndir hennar koma sjaldan í kjölfar annarra hugmynda, heldur birtast ferskar. Hún öðlast heildarsýn og fæst við smáatriði þegar að þeim kemur í stað þess að setja saman heild úr einstökum hlutum. Hún er hugmyndarík við að yfirvinna vandamál þegar þau verða á vegi hennar. Hún hugsar ekki lausnina stig af stigi, hún birtist henni sem heildarmynd.
Hugur Jean vinnur hratt. Hún kemst að niðurstöðu án þess að leiða rök að henni eftir leiðum skynseminnar. Hún skynjar tilgang og mikilvægi samstundis. Á persónuleikakvarða Myers-Briggs mundi hún flokkast með þeim sem nota innsæi, vegna þeirrar áherslu sem hún leggur á heildina, og úthverfu (extrovert) fólki, vegna þess að hún hneigist að heiminum umhverfis okkur. En listrænt fólk er ekki þeir einu sem stjórnast af innsæi. Þá má einnig finna í viðskiptaheiminum, einkum meðal stjórnenda og framkvæmdamanna, einnig sem kennara, ráðgjafa, vísindamenn, hönnuði, uppfinningamenn, tónlistarmenn, félagsmálafrömuði og rithöfunda.
Innsæi er raunhæf leið til þekkingar, þótt vanmetin sé af vísindasamfélagi samtímans. C. G. Jung taldi innsæi eiga heima með skynjun, hugsun og tilfinningum í flokkun sinni á starfsþáttum einstaklinga. Það er sammannlegur eiginleiki. Frumbyggjar Ástralíu, sem eru ískyggilega næmir á hvar vökva og mat er að finna í eyðimörkum, nýta sér innsæi í vitunarástandi, sem þeir kalla draumtíma. Eins og margir sállæknendur, að Jung meðtöldum, viðurkenna, býr meiri viska í lífverunni allri en í meðvitaða huganum einum. Frances Vaughan talar um „innsæisferli sem krefst aðgangs að vitundarsviðum sem vanabundin hugsun nær ekki til.“ Samkvæmt austrænni hugsun er litið á innsæi sem hæfni sem þroskast með andlegum vexti. Eitt markmiðið í yoga er að þroska innsæi skipulega og er talið eðlisþáttur hærri vitundar þar sem margháttuð þekking er í boði.
Innsæi hefur oft verið rannsakað og meira að segja var gefið út tímarit sem hét Innsæi. Fyrirtæki ráða leiðbeinendur til að þjálfa innsæi framkvæmdastjóra. Þú kynnir að rekast á varaformenn og stjórnendur niðursokkna við að stýra ímyndunum eða að lýsa slysi frá sjónarmiði hægra heilahvels (huglægt, með tilfinningum) eða leita myndlíkingar fyrir rekstur fyrirtækisins. Einn framkvæmdastjóri líkti fyrirtæki sínu við bíl með fimm ökumönnum, sem allir héldu um stýri er ótengd voru við hjólin. Leiðbeinendur hvetja þátttakendur til að gefa gaum að slíkum sýnum og hugmyndum, jafnvel þó þær virðist fjarstæðukenndar, þar eð í þeim kann að dyljast gagnlegt innsæi.
Þú býrð yfir innsæi sem segir þér hvort þú eigir að gera eitthvað eða láta það ógert. Það leiðir þig á vissa vegu svo þú ert á réttum stað á réttum tíma. Það segir þér hvort hugmynd þín eða ætlan er rétt eða röng. Nýjar tengingar myndast milli hugmynda sem þú hefur fengist við, svo að allir þættir falla á sinn stað. Innsæið birtist skyndilega og að óvörum. Þú ert mjög glaður og þráir að innsæi þitt birtist í orðum eða gjörðum.
Dæmi um innsæi
Sumar breytingar sem orðið hafa á lífi okkar og hugsun hafa orðið vegna innsæis. Á 19. öld reyndi Elias Howe, sem var úrvals vélsmiður að búa til saumavél, en mistókst sífellt. Nálaraugað var á nálinni miðri í vélum hans. Eina nóttina dreymdi hann stórbrotinn draum, sem honum fannst mjög raunverulegur. Hann var tekinn til fanga að villimönnum og færður fyrir konung þeirra, sem skipaði honum að ljúka við saumavélina samstundis eða bíða bana ella. Hann reyndi en mistókst. Stríðsmenn umkringdu hann. Þeir ætluðu að lífláta hann með spjótum. Hann veitti því athygli að nálægt spjótsoddunum voru augnlaga göt. Hann vaknaði og hannaði strax hina fyrstu saumavél með nálaraugað við nálaroddinn, eins og verið hafði á spjótunum og er á saumavélum samtímans.
Sálfræðingurinn Abraham Maslow segir frá tveimur gerðum vísindamanna. Önnur gerðin líkist smágerðum sjávardýrum eins og kóröllum, sem skeyta staðreyndum í rólegheitum saman. Hinir eru „ernir vísindanna“ sem láta hugarflugið bera sig og valda byltingu í hugsun. Maslow hélt því fram að Einstein sem örn hefði tekið „innsæisstökk“ og að kenningar hans væru „frjáls sköpun ímyndunaraflsins.“ „Hugartilraunir“ hans voru hugmyndanir, sem hann beitti oft á meðan hann rakaði sig. Í einni hugartilraun sinni ímyndaði Einstein sér tvíburabræður; annar dvaldi heima á jörðu niðri á meðan hinn barst um alheiminn á ljósgeisla. Þessi tilraun með ímyndunaraflið opnaði augu Einsteins fyrir því, að sá er á jörðu dvaldist myndi eldast hraðar en alheimsferðalangurinn. Byltingarkennd kenning hans um afstæði tímans varð honum ljós vegna þessarar ímyndunar.
Í teiknimynd eftir Sidney Harris sem heitir „Andartak sköpunar“ stendur Einstein við skólatöflu, í krumpuðum buxum og hvað eina, og skrifar „E=ma2, E=mb2, ...“. Það sem er fyndið við teiknimyndina er að hún gefur í skyn að kenning Einsteins sé afrakstur línulegrar rökhugsunar, þegar Einstein sjálfur sagði: „Skynsemin er vanmáttug á leið uppgötvana. Vitundin verður að taka undir sig stökk sem kalla má innsæi eða eitthvað annað og lausnin er þér þá ljós án þess að þú vitir hvernig eða hvers vegna.”
Helen Keller hafði ekki sömu áhrif á heiminn með innsæi sínu og Einstein, en það breytti hennar lífi. Fyrir sex ára aldur var þessi blinda og mállausa stúlka villt og sneydd siðmenningu. Hún borðaði með höndunum og var ófær um að sjá um sig á nokkurn hátt. Þá kom Annie Sullivan, hæfileikaríkur kennari, á heimili Keller fjölskyldunnar til að hjálpa Helen. Hún sló orð í lófa Helenar með Morse stafrófinu, en Helen tengdi það ekki við merkinguna. Dag nokkurn fór Annie með Helen að vatnspumpunni og á meðan hún sló orðið vatn í annan lófann, pumpaði hún vatni í hinn. Helen varð fyrir opinberun. Hún skildi tenginguna. Að kvöldi hafði hún lært þrjátíu orð. Hún fór einnig að verða félagslyndari og viðráðanlegri. Seinna skrifaði hún: „Ég skildi að það sem kennarinn sló í lófa mér táknaði þetta kalda fyrirbæri. Orðið „vatn“ kom í huga mér líkt og sól í vetrarríki. Það vakti mig.”
Á svipaðan hátt læra kornabörn að tengja hljóð við hluti, að skilja að orð getur þýtt eitthvað annað. Við höfum öll reynt slíkt innsæi. Umfang þessa grunnþáttar mannsins skilur okkur frá dýrum. Tungumálið einkennir mennina og hvert barn lærir það með innsæi.
Hvað er innsæi?
Merriam-Webster orðabókin skilgreinir innsæi sem „ástand eða hæfni til að vita milliliðalaust án þess að rökhugsun sé beitt.“ Aðrar skýringar orðsins eru „þekking sem býr innra með þér eða lýtur eðlisávísun“ og „skyndilegur og fullmótaður skilningur.“ Enska orðið „intuition“ er komið úr latínu, in+tueri, að skoða. Innsæi felur í sér að þekkingin kemur að innan en ekki að utan. Dane Rudhyar, sem er heimspekingur og tónskáld, kallar það „yfirskilvitlega skynjun, andlega sýn.“ Því má líkja við eldingu, sem skyndilegar lýsir upp dimmt landslag.
Innsæi er tengt buddhi, hugtaki úr sanskrít sem táknar þann eðlisþátt okkar að hafa tilfinningu fyrir einhverju. Orðið innsæi er vanmáttug þýðing á því hugtaki. Buddhi, mannlegur eðlisþáttur og grunnþáttur sjálfsins, er frábrugðið huganum. Líkt og það er eðli efnislíkamans að framkvæma, eru tilfinningar eðli kama eða tilfinningaþáttar okkar, hugsun eðli manas eða hugans, er innsæi eðli buddhi. Þessi þáttur er hluti hins djúpa þáttar vitundarinnar sem inn á við veit og er náskyldur kjarna tilverunnar - lífsins eina, guðs eða Brahman. Það er hluti hins sammannlega sjálfs. Samt er innsæi í jarðbundnari birtingu einnig hæfileiki í andartakinu sem við getum notað daglega.
Hugsun og innsæi
Grundvallarmunur er á innsæisþekkingu og starfsemi hugans. Hugsun er táknræn eða hún er óhlutbundin, hún er landakortið fremur en svæðið. Þegar þú hugsar býrð þú til innri fulltrúa veruleikans með táknum og orðum, sem þú ferð með að vild. Þú lítur á það sem þú hugsar um sem eitthvað „ytra”, sem óháð er þér sem hugsandanum. Þú hugsar um eitthvað með hjálp þessara innri fulltrúa.
Á hinn bóginn fæst innsæi náið og milliliðalaust við veruleika en ekki tákn. Orð geta ekki tjáð innsta eðli skynrænnar upplifunar, eins og t. d. bláan lit. Samt veistu samstundis hvað er blátt þegar þú sérð það. Slíkur tímalaus skilningur einkennir líka innsæisþekkingu, en með henni vitum við eitthvað með „allri veru okkar og fullkominni sannfæringu“ eins og Virginia Tower skrifaði, er hún var að lýsa ögurstund innsæis: „Slíkt andartak kyrrðar er líkt andartakinu þegar sjór kyrrist við klettaströnd, aldan hljóðnar og verður kyrr og varir nógu lengi til að við sjáum undraveröld glitrandi skelja og sjávarlífs á hafsbotni. Það er undarlegt og undursamlegt andartak skýrleika og sannfæringar.“
Hugsun og innsæi sem andstæðar leiðir til þekkingar hafa nýlega verið rannsakaðar í könnun á hægra og vinstra heilahveli. Tilraunir voru gerðar á sjúklingum, þar sem tengsl milli heilahvelanna höfðu verið skorin sundur í aðgerð. Slíkar tilraunir sýndu, að vinstri hliðin fæst einkum við sundurgreiningu, rökleiðslu, tungumál og þá sýn á heiminn að hann sé samsettur úr aðskildum hlutum. Hins vegar fæst hægri hliðin við samþættingu og skilur hluti sem heila og algera. Hún er heildræn og innsæistengd. Þessir eiginleikar einkenna buddhi eða innsæi.
Arthur Deikman, sem er geðlæknir, gerir greinarmun á tvenns konar vitunargerðum sem heyra til hægra og vinstra hveli. Hin „vélræna“ gerð vitundarinnar skynjar ósjálfrátt aðskilnað, greinir milli okkar og annarra og sér okkur sem aðskilda frá öllu öðru. Sú gerð er ráðandi þegar þú fæst við hagnýt vandamál daglegs lífs eins og innkaup, skrifa ávísun, semur viðskiptabréf og gerir verkefnalista. „Móttökugerð“ vitundarinnar dregur hins vegar úr tilfinningu þinni fyrir aðskilnaði og myndar samruna við umhverfi þitt, eins og þegar þú ferð í heitt bað, nýtur sólaruppkomu eða hugleiðir. Þegar vitundin er móttakandi hægist á hugsuninni og orðrænn skilningur verður ógleggri. Tilfinningin fyrir því að vera aðskilinn frá öðru dvínar. Þú stjórnar ekki lengur hlutunum, heldur ert opinn og næmur. Deikmann kallar þessa gerð „andlegt sjálf“ því þá hættum við að vera sjálfmiðuð og samkennum okkur lífinu í heild. Í því felst frekar þjónusta en einkahagsmunir. Innsæi er líklegra til að vera virkt í þessari móttakandi gerð hægra heilahvels.
Innsæið vinnur hins vegar ekki í tómarúmi. Það upplýsir hugann en útilokar hann ekki. Heimspekingurinn Immanuel Kant sagði í riti sínu, Gangrýni hreinnar skynsemi: „Hugsun án innsæis er blind og innsæi án hugsunar er innihaldslaust.“ Innsæið birtist oft þegar hugurinn hefur verið að fást við vandamál. Lausnin á saumavél Howes birtist í draumi eftir miklar vangaveltur. Kekule, flæmskur efnafræðingur á 19. öld, fann fræga lausn í draumi. Árum saman hafði hann glímt við samsetningu bensen sameindarinnar. Kvöld eitt rann honum í brjóst við arininn, dauðþreyttum eftir að hafa reynt að finna lausnina. Hann sá í sýn frumeindir hverfast hverjar um aðra. Bráðlega tók hann eftir uppbyggingu í óreiðunni. Frumeindirnar tóku á sig mynd snáka. Síðan beit einn snákurinn í hala sinn. Efnafræðingurinn hrökk upp og vissi að bensen sameindirnar eru hringlaga. Þetta innsæi var brátt staðfest og lagði grunninn að kenningu nútímans um byggingu sameinda í lífrænni efnafræði.
Samkvæmt skilgreiningu hefur innsæið alltaf rétt fyrir sér. Samt geta þrár dulvitundarinnar skyndilega skotið upp kollinum og líkt þannig eftir innsæi. Ekki er alltaf auðvelt að greina raunverulegt innsæi frá slíkri hvöt sem langanir valda. Hvötum er eiginlegt að uppfylla langanir og belgja út sjálfið, en innsæi er heildrænt. Hvatir líða fljótt hjá, en innsæi er viðvarandi og knýr jafnvel á.
Buddhi sem innsæi
Innsæisáhrif geta verkað á þig á ýmsum sviðum. Lama Govinda segir: „Innsæi getur verið virkt á öllum sviðum, frá hinu skynræna og til hinnar æðstu andlegu reynslu.“ Frances Vaughan telur einnig að andlegt innsæi sé sá grunnur sem allt annað innsæi byggist á. Samkvæmt þessu er hægt að upplifa innsæi á mismunandi hátt og getur birst á og örvað mismunandi svið.
Sjálft buddhi er einingarvitund. Á hærri sviðum buddhireynslu rennur vitund þín saman við skynjun þína. En lægri gerð innsæis fylgir ekki endilega einingarvitund, þó í venjulegu innsæi felist einhvers konar innri, ómeðvituð innsæistenging við aðstæðurnar, eins og þegar þú veist á einhvern hátt að þú átt að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma.
Birtingarsvið
Innsæi getur birst líkamlega, tilfinningalega og hugrænt. Líkamlega gætir þú greint innsæi sem líkamsskynjun, dofa eða jafnvel sem tog til annarrar hvorrar áttar. Ef þú nemur með innsæi erfiðleika framundan, kynnir þú að finna fyrir höfuðverk, kviðaróþægindum eða stífni í herðum. Eða þú kynnir að framkvæma eitthvað, þó þú vitir ekki af hverju, sem í ljós kemur að er hið rétta. Til dæmis lagði bókhaldari nokkur bíl sínum á rigningardegi í sitt venjulega stæði nálægt vinnustaðnum. Síðan fór hann, án nokkurrar ástæðu, aftur inn í bílinn og færði hann. Síðar sama dag féll stórt tré um koll vegna lélegs halds í jarðvegi gegnvættum af regni og það féll þar sem bíllinn hafði áður staðið.
Ef innsæi birtist þér tilfinningalega eða með samsemd, skynjar þú ef til vill hvernig öðrum líður, jafnvel þó þeir gefi það ekki til kynna. Eða eitthvað sem þú skipuleggur virðist rétt eða rangt. Ef til vill líkar þér samstundis vel eða illa við einhvern, upplifir jafnvel ást við fyrstu sýn. Ekki er hins vegar víst að tilfinningaviðbrögð komi frá innsæinu, þau kunna að endurspegla það sem þú vonar eða óttast. Ef til vill hrífst þú til dæmis af ákveðnum bíl á bílasölu, sem reynist vera drusla. Það krefst dómgreindar að skilja á milli eigin tilfinninga og innsæis.
Hugrænt innsæi getur birst sem orð, setningarhlutar, líking, tákn, myndir, tölur eða hugmyndir. Þau kunna að vísa til raunverulegra hluta sem lægri vitundin hefur skynjað, eins og nálin í saumavél Howes. Eða þau eru óhlutbundin eins og aðdráttarafl og afstæði, sem æðri vitund skynjar. Innsæi tjáir sig oft með ímyndum. Jung hélt því fram að sjálfið (sem í hans hugtakafræði táknar þann hluta persónuleikans sem er handan einstaklingseðlis) sjái egóinu fyrir ímyndum. Ímyndir veita þér ef til vill ábendingar um lausn hagnýtra vandamála eða innsæi í innra ástand þitt. Stundum skilur þú skilaboðin samstundis og stundum þarf að ráða í þau.
Að kalla fram ímyndir
Til að kalla fram og túlka ímyndir þróaði Marcia Emery aðferð sem kallast „hugartilfærsla“ og felst í sex þrepum:
1. Skilgreina vandann
2. Einbeita sér
3. Vera móttækilegur
4. Kalla fram ímyndir
5. Túlka ímyndir
6. Beiting
Þegar þessi aðferð er notuð, byrjar þú á að skilgreina vandann skýrt og festa á blað. Síðan einbeitir þú þér með því að nota fullyrðingu eða setningu til einbeitingar eins og „friður, vertu hljóður“ eða „ég er sjálfið.“ Síðan reynir þú að verða móttækilegur með því að slaka á, til dæmis með því að anda rólega og djúpt í nokkrar mínútur og slaka svo meðvitað á herðum og öðrum hlutum líkamans. Svo fylgist þú með ímyndum, sem kunna að birtast af sjálfu sér eða sem þú kallar fram með hugmyndun eða ímyndun. Emery er með tillögur um margar slíkar hugmyndanir. Þar næst túlkar þú ímyndirnar og ef þér er ekki samstundis ljóst hvaða þýðingu þær hafa fyrir þig, getur þú notað aðferðir eins og orðatengsl þar til upp rennur fyrir þér ljós. Þegar þú svo að lokum veist lausn vandans, beitir þú henni.
Prófessor í ensku notaði þessi þrep í vinnubúðum. Hún vildi skipta um starf og var að leita eftir ábeiningu um hvert halda skyldi. Ábendingarnar sem ímyndirnar veittu henni voru penni og bók, sem opnaðist við orðið „guð“. Hún túlkaði þetta svo, að hún ætti að fást við einhvers konar andleg ritstörf. Hún sótti um námsstyrk og varði nokkrum mánuðum í að skrifa bók um dulhyggju í enskri ljóðagerð. Þar á eftir breytti hún um vinnu, fann starf við kennslu og hélt áfram með bókina. Hún lauk aldrei við hana, en hún fór að yrkja andleg ljóð, sem voru sum hver birt.
Sálfræðingurinn Philip Goldberg er sammála því, að innsæi geti bent okkur á hvert halda skuli. Hann segir: „Innra með okkur er ónotuð orka og viska sem er hluti af okkur og skilur hvers við þörfnumst og hver við erum - þó ósiðir og vanþekking skyggi á - og hlutverk hennar er að leiða okkur til þekkingar á öllu því sem við erum fær um.“
Yfirskilvitleg skynjun
Sumir rithöfundar, eins og Frances Vaughan og Marcia Emery, telja yfirskilvitlega skynjun vera birtingarform innsæis. Samt er andlegum hefðum tamt að greina þar á milli og telja innsæi vera andlegt, en ofurmannlegan mátt, eins og hughrif, forspá og skyggni, vera jarðneskan. Samkvæmt Yoga sútrum Patanjalis (3:38), er siddhi (yfirnáttúrulegur máttur) hindrun sem getur leitt leitanda afvega á andlegu brautinni. H. P. Blavatsky útskýrir, að til séu tvær gerðir af siddhi. Önnur notar lægri sálræna og hugræna orku, en hin er andleg og krefst hinnar æðstu andlegu yogaþjálfunar til að þroskast.
Í raun er oft erfitt að greina á milli yfirskilvitlegrar skynjunar og innsæis. Sumt sem við köllum innsæi - eins og dofi, tilhneiging, tilfinningaviðbrögð um að eitthvað passi eða passi ekki og ímyndir sem skjóta upp kollinum - eru ef til vill í raun ákveðin gerð yfirskilvitlegrar skynjunar. Slíkar skynjanir eru vitanlega frábrugðnar innsæisreynslu hins hreina buddhi. En þær kunna að vera fjarlægur ómur af ólærðri þekkingu buddhi, sem hrífur lægra eðli á mismunandi hátt. Allar gerðir yfirskilvitlegrar skynjunar kunna að vera tilbrigði við einn grundvallar yfirskilvitlegan þátt, eins og sumir fræðimenn hafa lagt til. Ef til vill eru yfirskilvitlegi þátturinn og andleg „vitneskja“ innsæis mismunandi svið í einum yfirnáttúrulegum þekkingargrunni.
Yfirskilvitleg skynjun samræmist skilgreiningu á innsæi, sem þekking sem við öðlumst án skynsemi. Líkamlegar skynjanir, sem byggjast ekki á skynsemi, eiga sér hliðstæðu í skyggni og dulheyrn, sjón og heyrn sem eru óháð skynfærum. Hughrif og forspá koma oft upp í hugann af sjálfsdáðum, án þess að rökum sé að þeim leitt. En yfirskilvitlega skynjun skortir oftast heildarsýn innsæis. Það að skynja til dæmis að verðandi yfirmaður sé ekki alúðlegur, felur ekki endilega í sér að starfið í heild verði ekki heilladrjúgt.
Eðlisþættir buddhi
I.K. Taimni ræðir um innsæi sem: „upplýsandi mátt handan vitundarinnar.“ Hann lítur á það sem eitthvað æðra og andlegra en hugboð eða yfirskilvitlega skynjun. Hann tengir einnig fleiri eðlisþætti við buddhi en innsæið eitt í almannaskilningi þess hugtaks, þ. e. a. s. við vitsmuni og skilning, andstætt hugrænni skynsemi og utanbókarþekkingu. Við getum safnað að okkur gífurlegum staðreyndaforða með því að nota vitund okkar sem vitræna ryksugu, án þess að gera okkur grein fyrir samhengi þekkingarinnar eða mikilvægi og nytsemi þess sem við höfum lært. En þegar buddhi hefur léð því mátt, gerir æðri hugurinn sér grein fyrir heildarmyndinni að baki smáatriðum, eins og að átta sig á leyndri merkingu í ruglingslegum hlutum í pússli barns.
Annað sem Taimni telur einkenna buddhi eða innsæi er glöggskyggni. Þegar þú skilur á milli skaðlegs orðróms og raunverulegra staðreynda, milli útlits einhvers og innri manns, milli mistaka af misgáningi og meðvitaðrar hindrunar, notar þú glöggskyggni sem innsæisþátt. Hún getur valið úr hvað hafi vægi í ógrynni upplýsinga sem engu máli skipta. Þegar okkur í dag berst slíkt upplýsingamagn á öllum sviðum, eins og á veraldarvefnum, þurfum við sérstaklega á þessum hæfileika að halda.
Tilfinningum og huga er tamt að ýkja og gefa smáatriðum óhóflegt vægi. Buddhi og innsæi veita yfirvegaða heildarsýn, sem setur hluti í rétt samhengi. Samkvæmt Taimni: „Buddhi sér hluti milliliðalaust, sannleikanum samkvæmt, heildrænt og í réttu samhengi, en skynsemin sér þá óbeint, brotakennt og úr samhengi.“
Andleg skynjun
Buddhi sem eiginleiki geislar frá upplýstum einstaklingi. Gefum okkur að þú farir á námskeið í búddisma í nálægum háskóla. Kennarinn lætur þig læra utanbókar hin fjögur göfugu sannindi, hinn göfuga áttfalda veg, gimsteinana þrjá, hinar tólf nidana og hina fimm skandha. En þú kynnist ekki anda búddhisma sem lifandi viskuleiðar. Gefum okkur nú að þú værir svo heppinn að fá að læra hjá D. T. Suzuki, sem er upplýstur zenmeistari auk þess að vera kennari. Ef til vill myndir þú ekki öll atriðin í öllum upptalningunum, en þú myndir skilja tilgang andlegrar iðkunar, sem er uppljómun og öðlast vissu um að einhverjir hefðu öðlast hana.
Þeim sem hlotið hefur takmarkaða kennslu kann að virðast allir hlutir flóknir og hættir til að leggja áherslu á það sem litlu máli skiptir. Upplýstur einstaklingur er hreinn og beinn og snertir við okkur. Eins og Lao-Tzu segir í Tao Teh Ching:
Lærður maður bætir við sig dag hvern.
Maður tao gefur frá sér dag hvern.
Sá, sem veist hefur skíma innsæis, öðlast sálarvisku, ekki bara höfuðlærdóm, eins og H. P. Blavatsky segir í Rödd þagnarinnar. Hún varar leitandann við: „Jafnvel vanþekking er betri en höfuðlærdómur án sálarvisku til að upplýsa og leiðbeina. Hugurinn þarfnast andvara sálarvisku, til að feykja burt skúmi tálmynda okkar.“
Æðsta innsæisupplifun er með ómenguðu buddhi, óháðu skynjunum, tilfinningum, hugsunum eða yfirskilvitlegum skynjunum. Blavatsky útskýrir slíkt innsæi þannig: „Ljósið sem aldrei brá birtu sinni á haf eða land, geisli guðlegs innsæis, neisti sem sindrar hulinn í andlegri skynjun sérhvers karls og konu og aldrei svíkur.“ Á öðrum stað kallar hún þennan geisla innsæisins „rödd þagnarinnar“ og segir að mátturinn til að heyra hana felist í að rækta með sér skynjun sem sé innsæiskennd og andleg. Hún getur veitt okkur innsæi í hin dýpstu andlegu sannindi.
Siðleg notkun innsæis
Samkvæmt guðspekilegum kenningum er þroskun buddhi næsta þrep mannsins í þróuninni. Við höfum lengi einbeitt okkur að því að efla hugræna getu okkar. Fullur þroski vitundarinnar er enn langt undan, þannig að þróun hennar mun taka aldir. En samhliða hugrænum framförum eru sumir jafnvel nú að þroska buddhi og leiðir til að örva birtingu þess eru að koma fram. Samt má ekki rugla sönnu innsæi saman við ónákvæma og hraðsoðna hugsun.
Þekking sem við öðlumst með innsæi, eins og sú sem fengin er með hugsun eða yfirskilvitlegri skynjun, má nota bæði til góðs og ills. Þó það eigi upphaf sitt í buddhi, getur jafnvel raunverulegt innsæi mengast af persónulegum áhyggjum okkar, því innsæi má nota til að þjóna egóinu og beina því að hlutum sem reynst geta okkur eða öðrum hættulegir. Yfirsýn þess á heild og jafnvægi kann að glatast við löngun okkar til að nota það til máttar og metorðagirndar okkur sjálfum til góða. Í fyrirlestri við Naropa stofnunina í í Colorado sagði Ram Dass: „Metorðagirnd er fyrir innsæi það sem ranabjalla er fyrir kornhlöðu.“ Þó að hluti innsæis kunni að snerta okkar eigin málefni, eins og val á starfi og skynsamlega notkun fjár, er raunverulegt innsæi komið frá buddhi og er öllum til blessunar, ekki bara okkur sjálfum og er sannarlega ekki öðrum til tjóns.
Hluti af nýkomnum áhuga á innsæi byggist á hagnaðarvon í viðskiptum. Ekkert er rangt við að nota innsæi við ákvarðanir í viðskiptum, ef þær leiða ekki til ósiðlegra verka. En eins og Ellen Armstrong sagði: „Það skiptir máli hvernig innsæi er notað. Er það hugsanlega enn einn göfugur eðlisþáttur sem rangsnúinn er eða flekkaður með því að gera hann að samviskulausum þjóni gróða og valda?“ Mikilvægt er að hafa í huga heildarafleiðingar þess að fylgja því sem virðist vera innsæi og vera viss um að niðurstaðan verði heiðarleg og siðræn. Þar að auki er raunverulegt innsæi ekki bundið við efnisleg gæði, heldur veitir innsæi í andleg málefni.
Þroskun innsæis
Þú getur þroskað innsæi þitt og lært að hlýða á „hægláta, hljóða rödd“ þess, en hvort þú nært því marki, veltur á tíma, stað, geðslagi, afstöðu og hugarástandi. Ef þú ert dapur og þreyttur, kann að lokast fyrir innsæið. Þú verður að hefja þig yfir sterkar langanir og ótta svo að raunverulegt innsæi birtist. Ef þú ert óhóflega störfum hlaðinn eða tími þinn of skipulagður, kann að vera að innsæið nái ekki að hafa áhrif á huga þinn, því að ofvirkur hugur, sem hefur ekki tíma til kyrrðarstunda, er ekki næmur fyrir fínlegum skynjunum. Ef þú ert ekki opinn fyrir einhverju nýju og óttast að taka áhættu, er ólíklegt að þú hleypir innsæi nærri þér. Ef þú ert vantrúaður á að þú getir þroskað innsæi þitt, munt þú líklega ekki geta það. Það vex hjá þeim sem örva það.
Til eru margar leiðir til að þroska og efla innsæi. Ein slík aðferð, sem sagt er að Sigmund Freud hafi þróað, er eftirfarandi: Gerum ráð þú verðir að ákveða af eða á um einhvern hlut, til dæmis hvort þú eigir að leggja til við yfirmann þinn breytingar á starfsemi annarrar deildar. Tillagan kann að reynast áhættusöm, þar sem deildin kemur þér ekki við. Ættir þú að gera það? Þú kastar upp peningi, fiskar já, skjaldarmerki nei. En hvaða tilfinning vaknar við ákvörðunina sem tekin var með peningnum? Ertu feginn? Ósáttur? Kvíðinn? Sáttur? Með því að taka eftir tilfinningum þínum, veltir þú málinu aftur fyrir þér og tekur ákvörðun á grunni viðbragða þinna við peningnum, ekki niðurstöðunni sem fékkst með því að kasta peningnum sjálfum. Þú vissir sjálfur ómeðvitað hvað þú áttir að gera. Það að kasta peningnum veitti aðeins meðvitund þinni aðgang að vitneskjunni.
Helena Blavatsky kenndi einnig einfalda en erfiða aðferð til að vekja innsæi. Þó hún væri óðfús kennari, þegar nemendur hennar komu með spurningar, sagði hún þeim að velta þeim vandlega fyrir sér frá öllum hliðum og finna svarið sjálf. Ráðleggingar hennar hvetja til sjálfstæðrar hugsunar og örva einnig innsæið.
Fyrrnefnd tilfærsluaðferð Marciu Emery hjálpar einnig til við að þroska innsæi og sama gera ýmsar aðferðir í bókum Frances Vaughan og Philip Goldberg. Dagbókarfærslur, þar sem þú getur um innsæishugboð þín, örva frekari hugboð. Veitið því athygli hvort hugboð ykkar reynast rétt. Þegar af og til er farið yfir færslurnar vaknar skilningur á því hver munurinn á sönnu innsæi og stundarhugdettum.
Tengsl við náttúruna hjálpa einnig til að kyrra hugann og heimila buddhi að hafa áhrif á hann. Eins og Virginia Tower segir okkur skáldlega, skynjum við í leiftri „hinar hljóðu áminningar sem berast okkur í næturkyrrð á stundum skarprar skynjunar, þegar við virðum fyrir okkur tré, ský eða foss. Í stað þess að vísa slíkum andartökum með eftirsjá á bug, sækjumst við eftir merkingu þeirra, eins og þegar blásið er í glæður til að lífga eldinn.“
Önnur leið til að vekja buddhi er að gaumgæfa og meðtaka mikilvæga hluta þess sem lesið er. Reynið að brjóta til mergjar merkinguna handan orðanna. Ljóðmæli eða ögrandi andleg verk hæfa vel slíkri hugleiðingu. Launhelgaverkið Leiðarljós inniheldur margar hentugar setningar, eins og þessar:
„Hlustaðu á söng lífsins. ... Lífið sjálft talar og er aldrei þögult. Það hrópar ekki, eins og hinir sljóu halda, það er söngur. Lærðu af því, að þú ert hluti þessa samræmis, lærðu af því að hlýða lögmálum samræmisins.“
Að hugleiða þessar setningar kann að sýna þér alheiminn, ekki sem vélrænt ferli eða kerfi, heldur sem söng í lífrænni heild sinni sem þrunginn er samræmi og gleði.
Kristið afbrigði af innsæislestri er kallað lectio divina eða „andleg lesning.“ Ein leið er eftirfarandi: Dragðu djúpt andann nokkra stund og finndu þinn innri kjarna. Lestu síðan eitthvað, til dæmis einhverja innblásna hugverkju úr ritningunum, aftur og aftur hægt, þar til einhver setning höfðar til þín. Lokaðu síðan augunum og endurtaktu setninguna þar til innsæið svarar þér með ímynd, tilfinningaviðbrögðum eða innsýn. Taktu eftir viðbrögðunum og vertu svo hljóður um stund. Þegar þér finnst viðeigandi að ljúka æfingunni, þakkaðu þá fyrir þá innsýn sem þér hefur hlotnast.
Enn ein aðferð til samruna við buddhi er að fylgjast hlutlægt með huganum án þess að fella dóma. Ef þú getur fylgst með huganum, þegar hann býr til myndabók sína með því að móta raunveruleikann með venjum sínum, fordómum og hugsanavana, verður þú meðvitaður um að þú ert ekki hugurinn. Þú ert eitthvað dýpra sem getur staðið að baki og fylgst með hugsanaferli þínu. Slíkt innsæi getur hreyft við þér, svo þú sért snortinn af buddhi-vitund.
Að kyrra hugann og lofa venjubundnu hugsanaferli og væntingum að hljóðna er önnur leið til að bjóða buddhi heim. Blavatsky kenndi að hugur sem altekinn er af venjubundnum hugsunum, fordómum eða tortryggni geti ekki meðtekið æðri sannleika. Í blaðagrein segir frú Norman Vincent Peale:
„Ef ég á við vandamál að stríða og vil njóta leiðsagnar guðs, byrja ég á því að kyrra hugann. Þegar hugurinn er hljóður, getur þú slakað algerlega á og sagt: „Kæri guð, veittu mér leiðsögn. Segðu mér hvað ég á að gera.“ Það er undravert hversu oft þú færð svar sem þú hugsaðir ekki um sjálf. Þegar þú hugleiðir hugmyndina og ferð eftir henni fara nýir hlutir að koma í ljós.“
Aðferð frú Peale minnir mjög á tilfærsluaðferð Marciu Emerys, sem þegar hefur verið sagt frá: skilgreindu vandamálið, einbeittu þér og vertu opinn fyrir viðtöku, leitaðu eftir vísbendingu eins og ímynd, túlkaðu hana og framkvæmdu. Þessa aðferð má einnig nota til andlegrar innsýnar.
I.K. Taimni telur að ein besta aðferðin til að nálgast buddhi sé með tilbeiðslu, þar eð buddhi eigi greiða leið að tilfinningunum. Við einlæga tilbeiðslu til Jesú, Búdda, guðs eða dýrlings, týnum við okkur í æðri vitund. Taimni mælir einkum með gayatri möntrunni, sem er hindúabæn til guðs sem sólar logos, máttugrar miðju alheimslífs í sólkerfi okkar. Endurtekning á orðum með einlægri tilbeiðslu getur borið þig inn í buddhi samruna við það sem tilbeðið er. Hin forna Jesúbæn („Drottinn Jesú Kristur, sonur guðs, ver mér náðugur”) eða einföld fullyrðing eins og „Jesú, ég treysti þér“ getur sameinað okkur kristsvitund. Davíðssálmur 42:1, „Eins og hindin sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó guð“ getur haft svipuð áhrif.
Búdda kenndi hugleiðsluaðferð sem er óháð trúarskoðunum. Hann lagði til að vitundin „uppfyllti fjórðung heimsins með hugsunum um meðaumkun, samúð og frið, síðan annan fjórðung, svo þann þriðja og loks hinn fjórða. Og þannig um allan heiminn, fyrir ofan og neðan, umhverfis og alls staðar, heldur hjarta meðaumkunar, samúðar og rósemdar áfram að uppfylla, um víða vegu, vaxandi, án takmarkana og alltumlykjandi.“ (Tilv. Goddard). Sú víkkun vitundar sem slík hugleiðing felur í sér auðveldar að rjúfa takmarkanir einstaklingskenndarinnar. Í slíku ástandi fyllir kærleikur og góðvilji vitund okkar.
Að kyrra hugann með reglulegri hugleiðingu ryður innsæinu braut að meðvitund þinni. Gott er að hefja nám í hugleiðingu í hóp eða lesa góða bók um hana. Margar leiðir eru til að ýta úr vör, til dæmis að fylgjast með andardrættinum án þess að skipta sér af honum, sjá fyrir sér merkingarþrungið tákn eins og kross eða mynd af Kristi eða Búddha, fagurt landslag eða náttúrulegan hlut eins og rós eða bara hvítt ljós. Að hafa yfir möntru kyrrir hugann og gerir hann einbeittari og sömu áhrif hefur að fara með bæn eða fullyrðingu.
Þegar hugurinn er orðinn hljóður er rétt að hvíla um stund í kyrrðinni. Buddhi getur haft áhrif á hljóðan huga og veitt innsæi. Jafnvel þó þú leitir ekki þessa stundina leiðsagnar í ákveðnu vandamáli, opnast innsæinu leið, svo það getur veist þér síðar.
Þegar þú hefur rutt því leið, getur innsæisvitund orðið eðlilegt ástand. Við veraldlega beitingu getur hún hjálpað þér til að taka góðar ákvarðanir í erli dagsins. Á æðstu sviðum hennar getur hún veitt þér aðgang að buddhi og skynjun grunneiningar með öllum verum. Hinar fornu ljóðlínur, sem meistaraverk Blavatskys, Hin leynda kenning, byggist á, segja að mannkyni hafi verið veitt „vitund til að umlykja alheiminn.“ Innsæi getur þokað okkur nær vitund handan einstaklingseðlis, nær „innsæisupplifun óendanleikans og alltumlykjandi einingar alls sem er.“ (L. A. Govinda)
Sigurður Bogi Stefánsson þýddi úr Quest.
Shirley J. Nicholson er þekktur guðspekisinni og fyrrverandi útgáfustjóri Quest Books. Hún hefur gefið út nokkur safnrit, þ. á m. The Goddess Re-Awakening, Shamanism og Karma. Þetta er útdráttur úr síðustu bók hennar: The Seven Human Powers: Luminous Shadows of the Self (Quest: 2003).
Bækur sem vitnað er í:
H. P. Blavatsky: Rödd þagnarinnar (til á íslensku)
Mabel Collins: Leiðarljós (til á íslensku og auk þess Leita vegarins: skýringar við Leiðarjós eftir Rohit Mehta sem birst hafa í síðustu 9 heftum Ganglera)
Marcia Emery: Intuition Workbook
Dwight Goddard : A Buddhist Bible
Philip Goldberg: The Intuitive Edge
Lama Anagarika Govinda: Foundations of Tibetan Mysticism
Jean Huston: A Mythic Life
J. og Dorothy Shallcross: Intuition: An innar Way of Knowing
I. K. Taimni: A Way of Self-Discovery
Virginia Tower: The Process of Intuition
Frances Vaughan: Awakening Intuition og Shadows of the Sacred