Innri sátt

Á hinum þyrnum stráða vegi til andlegrar vöknunar er sagt að neminn sé hengdur upp milli skauta tveggja andstæðra afla. Annarsvegar verði hann að berjast neðanfrá í leit sinni að hinu andlega takmarki, en hversu mikið sem hann berjist eða leitist meðvitað eftir lausn, mun sú viðleitni aldrei færa hann alla leið að markinu, því sjálft sé það í raun ónáanlegt og handan mannlegrar viðleitni.

Á hinn bóginn er fyrir hendi vonin um hina guðlegu náð, hin mystiska hjálp að ofan, sem einnig er andstæð allri viðleitni eða jafnvel hinni fíngerðustu tegund meðvitaðrar vonar, en sem hreinsar út húsakynni sálarinnar þegar hún lætur svo lágt að heimsækja hina mannlegu sálargerð. En uns hinn afkastamikli sópur birtist af himnum ofan, verðum við sjálf að annast hina sálrænu hreinsun, vitandi að ólíklegt er að hin mystiska reynsla kveðji dyra meðan við höfum ekki hreinsað að minnsta kosti verstu haugana af hugrænu sorpi sem safnast hafa upp hið innra í áranna rás. Það er verkefni þessa erindis að fjalla um fáeina punkta sem að gagni kunna að koma í hinni hugrænu vorhreingerningu.

Vettvangur þessa erindis er sem sagt vitundarlíf hins venjulega manns, sálarlíf þess sem er í þann mund að leggja inn á hina innri leið í átt til mystiskrar einingar. Flest erum við á valdi hinnar ytri tilveru, sem í mörgum tilfellum reynir okkur og krefur til hins ýtrasta. Við höfum þó öll einhverja reynslu af öðrum heimi, hinni innri tilveru okkar sjálfra, en flest erum við fremur fálmandi um eðli hennar og samband hins innri og ytri veruleika.

Vegna yfirgnæfandi kröfu hinnar ytri tilveru á líf okkar, ásamt uppeldisáhrifum, sem öll miðast við ytri viðfangsefni, höfum við tamið okkur að nota aðferðir úr heimi hlutanna á vandamál hinnar innri tilveru okkar, með heldur vafasömum árangri. Þetta sést best á þeim vandamálum sem mannkynið á við að glíma enn þann dag í dag, eftir árþúsunda leit að hamingjunni. Það eru hinsvegar til einstaklingar, og hafa alltaf verið til, sem uppgötvað hafa og skilið þau lögmál sem gilda hið innra, og sem lært hafa að notfæra sér þessa þekkingu til að gera innri byltingu í átt til hamingjuríkara og fyllra lífs, þeirrar hamingju sem aldrei fölnar og þeirrar lífsfyllingar sem óháð er ytri skilyrðum. Við skulum ganga saman örlítinn spöl inn í smiðju þessara lífsvitringa og kanna hvort við getum orðið einhvers vísari um listina að lifa.

Það gilda önnur lögmál yfir hinn innri heim heldur en þau sem við höfum tamið okkur að nota í hinum ytri heimi. Þetta eru fyrstu og mikilvægustu sannindin sem hinir vitru boða okkur.

Dæmi: Til að breyta ytri veruleika þarf vilja og aflsmuni eða krafta. Ef reynt er að nota vilja á hinn innri veruleika verður árangurinn innri barátta, innra ósamræmi og streita.

Dæmi: Til að koma reglu á hinn ytri veruleika þarf umhugsun, rök og tímaplan eða áætlanir. Ef reynt er að beita sömu þáttum á hina innri tilveru verður árangurinn mótsagnir, ótti og vonbrigði.

Dæmi: Það dettur fáum í hug að nota kærleika til að smíða vél eða grafa skurð, en hinir vitru segja að í hinni innri tilveru geri kærleikurinn kraftaverk, sem jafnvel megi greina áhrifin af langt út í hina ytri tilveru.

Dæmi: Hin ytri tilvera lýtur lögmálum rúms og tíma, þar sem allir hlutir eru samsettir og hafa gagnverkandi áhrif hver á annan í tíma og rúmi. Hin innri tilvera hefur hvorki rúm né tíma. Þar ríkir einn, óskiptur veruleiki og þar gerast atvik sjálfkvæmt, andartak fram af andartaki, án línulegs innbyrðis samhengis.

Grunnatriðið í þessum "innri" viðhorfum má finna í staðhæfingunni um einingu hins innri veruleika. Þessi eining kemur fram í hinni "mystisku reynslu" sem upplifuð staðreynd, en það má í raun taka hana í notkun í eigin innri tilveru og sannprófa gildi hennar á heimavelli. Sumum finnst að hér sé um órökrænar staðhæfingar að ræða, en ég held að hin innri viðhorf standist öll rök þegar forsendur einingarinnar hafa á annað borð verið samþykktar, enda þótt sjálf einingin sé handan allra raka og yfir öll rök hafin.

Þegar kemur að hinum hagnýtu aðferðum við hina innri tiltekt þurfum við að velja okkur hugrænt módel til að vinna eftir. Um fjölmörg módel er að ræða í flóru hinna andlegu iðkana, sem hvert um sig gagnast við viss skilyrði, en ekkert þeirra er algilt eða fullkomið. Raunar verður neminn ávallt að hafa í huga að allar hugmyndir um veruleikann eru rangar, og honum ber að líta einungis á þær sem áhöld til að komast út úr blekkingunni.

Það módel sem hér verður stuðst við er sótt að hluta til í þær greinar sálfræðinnar sem fjalla um dulvitundina, sumpart í forn og ný mystisk viðhorf og sumpart í andleg fræði mystikera á borð við Krishnamurti.

Hér skulu tiltekin nokkur meginatriði í þessu módeli dulvitundarinnar:

1) Vitund er grunnur tilverunnar og um leið innsti eðliskostur hvers einstaklings. Vitundin er ein, en birtist sem sértækir vitundarpunktar í "einstaklingum" tilverunnar.

2) Vitundin starfar í "lögum" eða "sviðum", sem aðgreinast því meir sem utar kemur, (nær formi og efni). Þó er ávallt aðeins um eina vitund að ræða.

3) Vitund mannsins skiptist í dagvitund, dulvitund og samvitund, eftir þéttleika vitundarsviðanna. Dagvitund og dulvitund einstaklingsins innihalda einstaklingseðli hans, sem meðal annars ræður örlögum hans, (karma).

4) Öll ytri form, - hin birta tilvera eins og hún leggur sig - eiga upptök sín í sameiginlegri vitund tilverunnar og birtist í tíma og rúmi í gegnum dulvitund og dagvitund einstaklinganna.

5) Öll atvik eru hluti algildrar reglu og innihalda alheimslega meiningu. Það er engin tilviljun til.

6) Uppsafnað karma hvers einstaklings býr í dulvitund hans, en birtist dagvitundinni sem ytri atvik rúms og tíma.

7) Hinn ytri heimur og hinn innri heimur eru tvö birtingarstig sama veruleika. Allt sem er hið ytra er einnig hið innra.

8) Samskipti einstaklinga eru ávallt í algerri sátt á innstu sviðum tilverunnar, sama hversu ósættanleg þau virðast á hinum ytri sviðum. Þessi algilda sátt hið innra nefnist kærleikur á hinum ytri sviðum.

Hér er aðeins verið að draga saman nokkur þeirra "viðhorfa" sem tilheyra mystiskri eða esóterískri innsýn, en hér ber enn og aftur að árétta að allt eru þetta viðhorf, lýsing á veruleikanum, og verða aldrei annað en ófullkomið og brenglað endurskyn þess raunveruleika, sem aðeins verður upplifaður beint í hinni háu mystísku hugljómun.

Það sem gefur þessum viðhorfum gildi umfram hin venjulegu viðhorf hlutveruleikans er að þau passa betur að flóknu mynstri mannlegrar sálgerðar og nýtast því betur við hina innri tiltekt sálarlífsins. Við skulum líta eilítið nánar á hagnýta notkun þessara viðhorfa í hinu daglega lífi.

Við höfum áður minnst á viljann og hina innri baráttu í vitundargerð mannsins. Það er eðli hinnar hugrænu starfssemi að aðgreina tilveruna í hluti og atvik eða rúm og tíma. Öðruvísi getur vitundin ekki upplifað tilveruna. Rúm og tími innihalda andstæður skiptingarinnar og þar með ytri baráttu. Við sjáum þetta allsstaðar í náttúrunni og þar er þetta eðlilegur hlutur, reyndar hluti af framþróun lífsins, og aðferð hlutveruleikans til að birta samræmið hið ytra, sbr. fullkomleika rósarinnar. Hið innra með manninum er baráttan hinsvegar aðskotahlutur, sem ekki á þar heima. Hún er tilkomin vegna notkunar hugrænna aðferða á sviðum hinnar innri meðvitundar. Hugurinn býr til blekkinguna um innra rúm og innri tíma, þ.e. innri hluti og innri atvik, á sama hátt og hann þekkir hið ytra og stillir þeim síðan upp gagnvart hinum ytri hlutum og atvikum.

Innri sátt er fólgin í að sjá og skilja eðli skiptingarinnar hið ytra og einingarinnar hið innra án þess að rugla þessu saman. Það eitt að gera sér grein fyrir hvernig vitundin starfar leiðréttir skekkjur vitundarlífsins vegna þess að við það hættir hin innri barátta af sjálfu sér. Þegar við skiljum að sú vitund sem vill breyta því hvernig við erum, er sama vitundin og breyta á, sjáum við að það er eitthvað bogið við sjálft viðhorfið að breytinga sé þörf. Innri sátt er jú að sætta sig við hvernig við erum og um leið hvernig heimurinn er, en til þess þurfum við að losa okkur við allar hugrænar blekkingar, það er að sjá hvernig við og tilveran erum í raun og veru.

Það er auðvitað ekki hægt að færa slíkan skilning í búning hugtaka og orða, en þó hafa hinir mestu andans menn ætíð reynt að miðla þessari visku einingarinnar til þeirra sem hafa viljað hlusta og hugsa málin. Við skulum því enn taka nokkur slík viðhorf og reyna að átta okkur á hinu raunverulega innihaldi þeirra.

Allir hlutir eru eins og þeir eiga að vera. Það sem virðist hið argasta óréttlæti hið ytra verður sættanlegt hið innra þegar meining þess er skilin raunverulegum innri skilningi. Slíkur innri skilningur, eða innri sátt, sem við stundum nefnum innsæi, er sjálfur kærleikurinn, sem ekki dæmir og ekki fer í manngreinarálit.

Allt sem gerist hefur meiningu eða tilgang, og við dýpstu rætur tilverunnar er þessi tilgangur einn og samur fyrir alla hluti og öll atvik. Það er hlutverk allrar andlegrar viðleitni að nálgast hinn eina sannleika sem að baki tilveruundursins býr, að skynja hina einu meiningu sem birtist í öllum hlutum þess og að fylgja framvindu sköpunarinnar sem fullgildir samstarfsmenn.

Vandamál eru í eðli sínu aðeins hugræn ósátt hið innra. Þau eru tilkomin vegna þess að við viljum hafa hlutina öðruvísi en þeir eru. Öll vandamál má leysa með því að breyta viðhorfinu til þeirra og sætta sig við raunverulega stöðu mála. Þannig verða vandamál að verkefnum, sem hafa í sér fólgna meiningu eða tilgang. Upplifun meiningar atvikanna og hin innri sátt fara ávallt saman. Það að sætta sig við lífið er að skilja það og það að skilja lífið er að vera sáttur við það. Kærleikur og skilningur fara ávallt saman því um er að ræða sama hlutinn.

Flest vandamál koma upp í samskiptum manna og því vert að skoða hið flókna ferli sem við nefnum mannleg samskipti.

Á sama hátt og vilji eða frekja eiga ekki við á hinum innri sviðum vitundarinnar, leiða þau til baráttu í samskiptum milli manna. Hér er vandamálið hinsvegar flóknara, vegna þess að greina verður á milli innri sáttar og ytri vægðar eða undanlátssemi. Að fara að vilja annarra er ekki merki um góðvild, heldur flónsku. Hinn eini rétti mælikvarði á eigin athafnir er eigin skilningur og kærleikur, en athafnir annarra á maður yfirleitt ekki að dæma. Hér þarf að koma til djúpur innri skilningur á mannlegu eðli ásamt ríkum kærleika eða væntumþykju.

Fyrsta undirstöðuatriði samskipta er helgi sjálfsákvörðunarréttarins. Þú átt ekki að ráðskast með aðra, né láta aðra ráðskast með þig. Þetta ráð er ekki auðvelt í framkvæmd, vegna þess að það snertir flesta þá þætti sem upp koma í samskiptum fólks. Fyrsta skal nefna eignarhaldsáráttuna.

Það að eiga er tvíþættur þrældómur. Annarsvegar er tilhneigingin til að ráðskast með eignina og hinsvegar er eigandinn á valdi eignarinnar og því ekki frjáls maður. Það að eigna sér aðra persónu er því tvíþætt ofbeldi, gagnvart þolanda og gagnvart sjálfum sér. Þetta eignarhald tekur á sig hinar ýmsu myndir hjá fólki, allt frá heitri ást, með íbúandi löngun til að þóknast og þjóna, til argasta ofríkis.

Innan þessa geira afskiptaseminnar eru fjölmörg afbrigði sem almennt sigla undir fölsku flaggi. Þar má telja ýmsa forsjárviðleitni, boðun hugmynda og trúarkenninga, gjafafár nútímans og allt góðgerðatilstandið, sem oft er fyrst og fremst fyrir gerandann, jafnvel að þolandanum forspurðum. Einnig má nefna öfund og afbrýðisemi, sem aðeins eru ytri einkenni þess að vera haldinn eignaráráttu og ofríkiskennd. Það sem mikilvægast er að átta sig á er að eignarhald er viðhorf en ekki verknaður og því oft erfitt að dæma hvort um eigingirni er að ræða út frá verkinu.

Að gefa er að eignast, að hrifsa er að missa. Hér erum við að ræða um innri gildi, en þess ber að geta að það sem er hið innra speglast fyrr eða seinna í hinu ytra. Gjafmildi hið innra leiðir til nægta hið ytra, en græðgin leiðir aftur á móti að lokum til skorts og fátæktar hið ytra.

Sjálft "viðhorfið að eiga" þarfnast athugunar við. Að eiga er að ráða yfir, stjórna, og það er í sjálfu sér eðlilegur og sjálfsagður þáttur í samskiptum okkar í hinu ytra umhverfi. Það er eðlilegt að hver maður ráði yfir líkama sínum, persónulegum hlutum, persónulegum eignum, o.s.frv. Það er einnig eðlilegt að einhver taki að sér að ráða á vinnustað, hafa mannaforráð, stjórna fyrirtæki eða að hafa þjóðfélagsleg völd. Í öllu þessu skilur á milli hvort viðhorf stjórnandans eru ábyrgð eða ráðríki, hvort hann lítur á hlutverk sitt sem eign eða gjöf. Sá sem hefur það viðhorf að hann hafi alla hluti að láni og beri ábyrgð á varðveislu þeirra gagnvart réttmætum eiganda, sem gæti t.d. verið Guð, náttúran eða tilveran, er farinn að nálgast frelsi þess að gefa. Í stað eignarhalds er komin ábyrgðartilfinning, en hún á ekki að vera í ætt við kvöð eða byrði. Ef svo er, ertu enn með dulda eigingirni í farteskinu, sem gangast verður við.

Trúnaðartraust til tilverunnar er lykill að frelsi. Að vera trúaður, í merkingunni að bera traust til guðs, gagnstætt því að vera sannfærður, er hin eiginlega merking trúarinnar. Sá sem er sannfærður lifir í blekkingu blindrar sannfæringarinnar, en sá sem ber einlægt traust er ávallt viðbúinn hverju því sem mætir honum með opinn huga, án fyrirframskoðana eða væntinga. Hann mætir mönnum og atvikum æðrulaust en með fullri athygli og bregst við öllu í andartakinu. Að treysta er einfaldlega það að vera óttalaus í ólgusjó lífsins.

Að vera óháður er hið eina raunverulega frelsi. Það er ekkert ytra frelsi til í venjulegri merkingu þess orðs, en innra frelsi, sem fólgið er í að vera algerlega óháður jafnt innri sem ytri aðstæðum, leiðir einnig til frelsis til sköpunar hið ytra. Að vera háður er að vera á valdi skilyrtra innri viðbragða. Þú getur ekki ráðið því hvað mætir þér í lífinu, en þú átt alltaf val um það hvernig þú tekur á móti atvikum lífsins á hverju andartaki. Öll viðbrögð sem eiga rætur í fortíðinni eru takmörkuð og háð, en ef atvikum er mætt með hreinni athygli og opinni góðvild verður eitthvað nýtt og skapandi til sem leiðréttir allar athafnir.

Leiðrétting karma er ekki fólgið í að skapa gott karma í stað slæms karma. Hún er fólgin í að brenna allt karma upp í eldi skilnings og kærleika.

Flutt í Guðspekifélaginu í nóv. 1993.

Einar Aðalsteinsson

© Guðspekifélagið