III TAKMÖRK HUGSUNAR

3.0 BYLTING KÓPERNIKUSAR.
3.1 DIALEKTIK.
3.2 ORSAKASAMBAND.
3.3 TÍBESK DÆMI.
3.4 MARKALÍNUR.
3.5 ÚTLÍNUR.
3.6 SAMKARA OG LAO TSU.

3.0 BYLTING KOPERNIKUSAR.

Pólski stjörnufræðingurinn Nikolaus Kóperníkus, sem uppi var á árunum 1473 til 1543, lagði grundvöllinn að nútíma stjörnufræði er hann sýndi fram á að jörðin snúist um möndul sinn og gangi ásamt reikistjörnunum umhverfis sólina (sólkerfiskenningin). Með þessari uppgötvun var jörðin ekki miðpunktur alheimsins, eins og áður var talið.

Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant, sem uppi var á árunum 1724 til 1804, kenndi að inntak þekkingar fengist við skynjun, en að form þekkingarinnar væri ákveðið af fyrirfram gefnum hugkvíum (categories). Niðurstaða Kants var bein afleiðing þeirrar ógangna, sem vestræn heimspeki var komin í vegna hinna ósamþýðanlegu sjónarmiða skynsemishyggju og raunhyggju. Skynsemishyggja er sú kenning, að hin hreina hugsun sé meginundirstaða þekkingar, óðháð skynjunum. Raunhyggja er sú kenning að reynslan sé uppspretta allrar þekkingar. Þessar heimspekikenningar, sem höfðu þróast í kynslóðir fyrir daga Kants, fólu í sér andstæð sjónarmið um veruleikann og þekkinguna. Kant kemst að þeirri niðurstöðu, að tvíhyggja (dualismi) hugsunar skynji ekki veruleikann eða hið skilyrðislausa. Með þessu er athyglinni beint að hugsuninni sjálfri. Hið afmarkaða, einingin eða “égið” er ekki lengur veruleikinn eða miðdepill, sem allt snýst um. Tilkomu heimspeki Kants hefur því verið líkt við Kóperniska byltingu.

Ég hefi í fyrri þáttum lýst hinum andstæðu sjónarmiðum atma hefðarinnar annars vegar og anatma skólans hins vegar. Annarsvegar var um að ræða kjarnaviðhorfið, sem lagði áherslu á verundina, hið varanlega og altæka, þar sem orsök og afleiðing var álitin sami hluturinn. Hinu margbreytilega var hafnað. Hinsvegar var Búddisminn, sem leit á veruleikann sem hið virka en ekki hið varanlega. Aðeins augnablikið væri veruleikinn. Allt breyttist sífellt. Hið varanlega væri það sem sýnist.

Bæði þessi sjónarmið leiða í raun til sömu niðurstöðu, ef litið er á orsök og afleiðingu. Ef orsök og afleiðing er það sama, verður ekkert nýtt til. Ef orsök er annað en afleiðing, getur samhengi ekki verið milli orsakar og afleiðingar. Madhyamika eða miðleiðin kemur svo til skjalanna og sýnir, að ekki aðeins orsakasamband, heldur sérhvert sjónarmið leiði til þverstæðu. Sjónarmið sýnast vera raunsönn, svo lengi sem við íhugum þau ekki. Miðleiðin gagnrýnir bæði sjónarmiðin, þ.e. atma og anatma viðhorfið og kemst að þeirri niðurstöðu, að veruleikinn sé hið algilda, laust við hvers konar hugarsmíð. Með miðleiðinni verður eins konar Kópernísk bylting í indverskri heimspeki með mjög svo svipuðum hætti og hjá Kant, aðeins um 1500 árum fyrr.

Talsmenn miðleiðarinnar benda sérstaklega á, að allir hlutir séu háðir hverjum öðrum innbyrðis, þeir hafi ekkert eigið eðli eða séu sjálfstæður veruleiki. Díalektík miðleiðarinnar varð til vegna gagnrýni á kjarnaviðhorf Vedanta og háttarviðhorf Búddismans. Eins og díalektík Kants er díalektík miðleiðarinnar gagnrýni á öll heimspekikerfi. Aðstöðu og niðurstöðum Nagarjuna og Kants má að mörgu leyti jafna saman. Kant tók þó skemmra stökk, því hann var ekki jafn sannfærður og Nagarjuna á möguleika innsýnar. Innsýnin í þverstæðu og óraunveruleik hugsunar opnaði leið til hins algilda að mati Nagarjuna. Sunyata kenningin varð bein afleiðing af díalektik miðleiðarinnar.

3.1 DIALEKTIK.

Zenon frá Kítíon (336-265 f. kr), hinn gríski heimspekingur, hefur verið álitinn fyrsti upphafsmaður að díalektík, sem er rökmálslist eða þrætulist, sem sýnir fram á að skilgreining eða skoðun leiði til mótsagnar. Kant notaði dialektík, eins og áður sagði til að leiða í ljós sjálfsblekking mannsandans. Zenon sýndi fram á það með órækum og tvímælalausum rökum, að hreyfing, breyting og tóm væri ekki veruleiki. Vísir að díalektik var að finna hjá Plato. Ef þögn Búddha er á hinn bóginn rétt skilin, hefur hann væntanlega heiðurinn af að vera fyrstur til að uppgötva díalektik.

Díalektík er gagnrýni á hugsunina. Hún snýr að andstæðunum í heimi hlutveruleikans. Í vísindum hversdagsins, koma slíkar andstæður ekki fram. Díalektík er vitund um óleysanlega og algera mótsögn hugsunar og jafnfram tilraun til leysa þessa mótsögn með því að lyfta sér yfir hana eða komast út úr henni. Þessa mótsögn má komast yfir með því að játa báðum eða öllum viðhorfum, sem Jaina trúarbrögðin eða Hegel gera. Samkvæmt því viðhorfi birtir hugsunin veruleikann. Eða þá að fara hina leiðina eins og Kant og fleiri heimspekingar gerðu og líta sem svo á, að veruleikinn verði ekki upplifaður með hugsun. Madhyamika telur, að innsýnin ein sé veruleikinn. Hún hafnar öllum viðhorfum og telur hugsun ekki færa um að skilgreina veruleikann. Veruleikinn sé handan við hugsun. Slík höfnun viðhorfa felur ekki í sér nýtt viðhorf, heldur byggist á þeirri þverstæðu eða mótsögn, sem öll viðhorf hafa að geyma.

Hugsunin býður einungis upp á fjögur sjónarmið. Tilvist eða tilvistarleysi, bæði eða hvorugt. Tvö seinni sjónarmiðin eru þó leidd af þeim fyrri. Sumir gætu haldið, að Madhyamika hefði viðhorf, sem væri mitt á milli hinna tveggja fyrstnefndu, þ.e. tilvistar og tilvistarleysis, af því að oft er talað um miðleið. Svo er þó ekki. Viðhorf Madhyamika er ekkert viðhorf. Það er ofar hugsun, skilgreiningu og orðum. Það er handan við, endurskoðun allra hluta. Játun og neitun hlutar fara ekki saman. Þó má segja, að játun hluta sé jafnframt óbein afneitun, ef við segjum að einhver hlutur sé þríhyrndur, er því jafnframt hafnað að hann sé ferningur. En þetta er ruglandi. Sannleikurinn er alltaf sá innan hugsunar, að tvö gangstæð viðhorf eru mismunandi og að annað verður ekki leitt af hinu. Hér verður ekki farið nánar út í rökfræði. Verða menn því, eins og segir í ráðuneytisbréfum, að taka þetta gott og gilt fyrir sitt leyti eftir atvikum að svo stöddu.

En hvernig hafnar Madhyamika öllum viðhorfum? Með því einu að nota það vopn, að sýna fram á að sérhvert viðhorf feli í sér þversögn eða mótsögn. Sérhverju viðhorfi er snúið að sjálfu sér. Madhyamika afsannar sérhvert viðhorf, en sýnir jafnframt ekki fram á neitt í staðinn. Þetta gerði Kant með sama hætti í bókinni “Gagnrýni hreinnar hugsunar”. Með því að sýna fram á merkingarleysi viðhorfs, erum við ekki einungis að játa gagnstæðu viðhorfi, heldur er hér á ferðinni eins konar andlegt ju jutsu, sem fellir eitt viðhorf eftir annað. Madhyamika hefur því ekki eigið viðhorf. Innsýnin inn í innihaldsleysi allra viðhorfa er veruleikinn. Til þess að útskýra, hvað ég er að fara, verð ég að taka dæmi og þó tími leyfi aðeins fá, sýna þau samt aðferðina. Þessi aðferð er mjög svo tíðkuð í tíbeskum Buddhisma með hugleiðslu og tek ég tvö dæmi úr bók, sem fjallar um hann. Fyrsta dæmið er klassískt Nagarjuna díalektík.

3.2 ORSAKASAMBAND.

Fjögur sjónarmið hafa ríkt um orsök og afleiðingu. Eldri Vedantahefðin hélt sig við það sjónarmið, að orsök væri sama og afleiðing. Eldri Búddismi taldi hins vegar að þetta væri sitthvað. Afleiðingin leiddi til meira en afleiðingar hún skapaði eitthvað nýtt. Jainatrúin hefur haldið hvoru tveggja fram, að orsök sé sama og afleiðing og einnig frábrugðin henni og þannig slegið saman báðum þessum sjónarmiðum. Fjórða sjónarmiðið hafa efahyggjumenn og efnishyggjumenn, að tilviljun ráði gangi mála.

Að sjálfsögðu er marklaust að tala um að eitthvað sé framleitt nákvæmlega eins og annað sem fyrir er. Að telja einhvern hlut vera hinn sama fyrir og eftir orsakasamband, segir það sama og að um orsakasamband sé ekki að ræða. Ef við álítum allt óbreytanlegt, er ekki um orsök og afleiðingu að ræða. Að segja eitthvað vera framleitt felur í sér einhverja breytingu. Á það er einnig að líta, að þótt við segðum að A væri orsök A, hlýtur að vera um að ræða mismun í tíma og rúmi milli orsakar og afleiðingar og samjöfnun eða samsömun orsakar og afleiðingar óhugsandi. Ef um framleiðslu á sjálfu sér eða orsökinni væri að ræða, væru heldur engin endalok á framleiðslunni, þ.e. ekkert kæmi í veg fyrir að frjókornið framleiddi sjálft sig til eilífðar, án þess að jurtin eða blómið yrði nokkurn tíma til. Ef orsök og afleiðing er það sama, hvernig getur þá annað verið orsök og hitt afleiðing? Nagarjuna segir: Samsömun orsakar og afleiðingar er óverjandi, því ella væri enginn munur á þeim sem framkvæmir og því sem hann hefur framkvæmt. Allur munur væri þar með þurrkaður út. Alheimurinn myndi falla saman í litlausan og óbreytilegan klump, sem allur væri eins að eðli og efni.

Ef við tökum fyrir hitt tilvikið og segjum, að orsök og afleiðing sé ekki það sama. Þá er ljóst að afleiðingin er algerlega frábrugðin orsökinni, og ekki hægt að segja að hún stafaði af henni, og þá stafi allt af engu. En því er ekki að heilsa. Ef við höldum mismuni fram á orsök og afleiðingu, þá slítum við tengslunum milli þeirra. Þá verður engin orsök. Ef tveir hlutir eru algerlega mismunandi, þá eru þeir óskyldir og eiga ekkert sameiginlegt. Þá er hvort fyrirbrigði fyrir sig, þ.e. orsök og afleiðing, sérstætt og ósambærilegt. Ef afleiðing væri annars eðlis en orsök, væru engin tengsl milli þessa tveggja, sem aftur þýddi, að allt gæti orsakast af öllu alls staðar. Steinn gæti fætt af sér jurt eins og frækorn, þar sem plantan er jafn frábrugðin hvoru tveggja að eðli. Öll framleiðsla væri óskýranleg eftir þessari fræðikenningu. Ef að afleiðingin hefur engin tengsl við orsökina, hvernig getur hún þá hafa leitt af henni? Einnig gefur það auga leið, að frækornið þurfti að hætta að vera til, til þess að jurtin verði til. Ef svo er, þá er orsökin ekki til, þegar afleiðingin birtist. Þessi tvö fyrirbrigði eru þá aðskilin í tíma. Á hitt er þó að líta að, ef tengsl eiga hugsanlega að vera milli tveggja hluta, þá verða þeir að vera til samtímis. Fjölmargar aðrar sannanir er að finna í þessum ritum Nagarjuna, sem of langt mál er upp að telja og læt ég því þessar nægja um þessi fyrstu tvö sjónarmið.

Við stöndum þannig frammi fyrir vandamáli. Annað hvort að halda fram mismun á orsök og afleiðingu og þar með gefa á bátinn orsakasamband og tengsl, eða viðurkenna orsakasamband og tengsl og afneita öllum mun. Öðru hvoru verðum við að hafna, en viljum í reynd halda í hvoru tveggja, þótt það sé þverstæða. Ekki stöndum við betur að vígi, ef við ætlum að slengja báðum sjónarmiðum saman. Með því aukum við einungis á erfiðleikana. Veruleikinn hefði þá tvo eiginleika í senn, en það er ekki eitt sem hefur tvo gagnstæða eiginleika. Ekki eru tök á hér að rekja þá rökfræði, sem hafnar því viðhorfi, að um báða möguleikana sé að ræða samtímis, en segja má að rökin og niðurstaðan séu fólgin í því sem við höfum áður sagt um hvort fyrir sig.

Sú fullyrðing, að hlutir orsakist hvorki af sjálfum sér né frá öðru, þ.e. að um tilviljun sé að ræða, er grunnhyggni sem gengur þvert á reynslu. Við sjáum að vissar afleiðingar leiði af ákveðnum orsökum. Það er ekki ýkja sannfærandi að segja að hlutir verði til fyrir tilviljun eða að þeir orsakist ekki af neinu. Er sú niðurstaða þá einnig tilviljun en ekki rökfræði.

Ég gæti tekið fleiri rökræður um orsakasamband, en hugleiðing um það atriði virðist hafa tekið mikið rými í indverskri heimspeki. Það væri þó að æra óstöðugan í stuttu erindi. Flest grundvallarfyrirbrigði, eins og tími, rúm, hreyfing o. s. frv. voru þó tekin til athugunar með sama hætti. Gagnrýni á orsakasamband var jafnframt gagnrýni á viðhorf, annarra heimspekikerfa. Fyrir daga miðleiðarinnar höfðu Búddhistar, Jainatrúarmenn og Brahmanhefðin játað orsakasambandið sem lögmáli. Hver skýrði það með sínum hætti, en álitu það raunveruleika. Madhyamika sýndi hins vegar fram á að orsakasamband eins og önnur frumhugtök, tilveruhættir eða tilverumyndir hlutveruleikans tilheyrðu honum einum. En gagnvart hinu algilda eða óþekkjanlega er þetta allt blekking. Kant hefði líklega sagt, að tilverumyndirnar væru raunverulegar í hlutveruleik okkar, en gagnvart hinu óskilvitlega eða óþekkjanlega væru þær huglægar, tilbúningur hugans eða hugkvíar. Madhyamika sýndi fram á að öll sjónarmið, sem tilverumyndirnar byggjast á, samjöfnun, mismunur, bæði eða hvorugt, byggjast á þverstæðum. Tilverumyndirnar eru því afstæðar og takmarkast við hlutveruleikann.

Kant sýndi fram á, að tilverumyndir hlutveruleikans, svo sem tími, rúm, orsakasamband o. s. frv. væru innbyggðar í okkur frá fæðingu, en Hume hafði áður haldið því fram, að þær byggðust á hugmyndum einum og vana. Hume leit ekki einu sinni svo á, að orsakasamband hefði gildi í hlutveruleik okkar. Skoðanir hans gengu því þvert á vísindin og svokallaða heilbrigðra skynsemi. Kant sýndi fram á hvoru tveggja annars vegar að þessar tilveruhugmyndir væru innibyggðar, meðfæddar hugkvíar, sem aðeins tækju til hlutveruleikans, og hins vegar væru þær ekki hinn hinsti veruleiki.

Þessu til viðbótar um orsakasamband og díalektik, ætla ég að taka tvö önnur dæmi úr tíbeskum Búddhisma, sem þar hafa verið notuð sem hugleiðsludæmi.

3.3 TÍBESK DÆMI.

Ef hugleitt er á egóið eða égið og markmiðið er að hugleiða á tómið, þá er eftirfarandi rökfræði hugleidd fyrst. Ég tek aðeins fáein dæmi af mörgum:

1. Égið er ekki hugur né líkami, af því að þá væri fullyrðing um sjálfstætt ég út í loftið. Slík fullyrðing væri aðeins annað nafn á hug og líkama. Hugur og líkami er samsafn fjölþættra atriða, en égið er eitt. Hið fjölþætta er ekki eitt.

2. Égið er ekki eitthvað annað en hugur og líkami, því ef það væri svo, hefði það ekki eiginleika hugar og líkama. Ef égið væri ekki hugur eða líkami, væri enginn grundvöllur fyrir merkinguna ég, sem sjálfstætt hugtak. Égið væri þá ekki afleiðing neins og óbreytanlegt, sem er gagnstætt því sem við reynum. Ef égið væri sjálfstætt og óháð hug og líkama, myndum við skynja það með þeim hætti, en svo er ekki.

3. Égið er ekki grundvöllur hugar og líkama, því þá væri égið annars vegar og hugur og líkami hins vegar aðgreind atriði, en svo er ekki. Sama gildir að sjálfsögðu um þá fullyrðingu, að hugur og líkami sé grundvöllur égsins.

4. Égið á ekki hug eða líkama, eins og persóna, sem á kú, því ef svo væri, væri ég annars vegar og hugur og líkami hins vegar sjálfstæðar einingar. Því var áður hafnað. Égið á ekki hug og líkama, eins og bein á sinn merg, því þá væri ég annars vegar og hugur og líkami hins vegar eitt og hið sama, en svo er ekki. Því var áður hafnað.

Fjölmargar aðrar hugleiðingar í svipuðum dúr um égið gagnvart hug og líkama eru stundaðar, sem ekki er tóm til að rekja hér. Þeir telja, að byrjendur þurfi að melta þessa röksemdafærslu á löngum tíma, áður en tómið verður skynjað.

Ef tekið er annað dæmi um hugleiðingu á epli, þá hljóðar það þannig: Afurð, sem hvorki er til né ekki til, bæði eða hvorugt er ekki afurð, því aðeins fjögur sjónarmið eru til.

1. Epli sem hefur eðlislæga og sjálfstæða tilvist, hefur aldrei verið til, því það sem hefur eðlislæga og sjálfstæða tilvist hlýtur alltaf að vera til og þarf því ekki að vera afurð. Eða epli sem hefur sjálfstæða tilvist, þegar það varð til, varð aldrei til, því orsakir og skilyrði skapa ekkert sem þegar er til.

2. Epli, sem aldrei hefur orðið til, er ekki afurð, því þá gæti horn á kanínu eða hár á skjaldböku verið afurð. Margar fleiri gáfulegar röksemdir eru gegn epli, sem ekki er til og ég get ekki rakið hér.

3. Epli, sem er bæði til og ekki til, er ekki afurð af því að enginn slíkur hlutur er til. Tilvist og tilvistarleysi útiloka hvort annað. Að epli er hvorki til né ekki til, er ekki afurð af því að enginn slíkur hlutur er til.

Yoginn sér því, að epli hefur ekki eðlislæga eða sjálfstæða tilvist, þ.e. að eplið er ekki til sem slíkt. Rétt er að bæta því við að hugleitt er á ýmsar grundvallarmyndir hlutveruleikans, svo sem óraunveruleik rúms og tíma, svo og nirvana og óraunveruleik hins óraunverulega.

3.4 MARKALÍNUR.

Eðli hugsunar býður stöðugt upp á gagnstæður eða andstæður. Ákvarðanir og óskir okkar eru oftast milli andstæðna. Áttir í rúmi og tíma eru andstæður, upp og niður, norður og suður, fortíð og framtíð o.s.frv. Sama gildir um allt mat, t.d. langt og stutt, gott og illt, stórt og smátt o. s. frv. Vellíðan og þjáning, líf og dauði, frelsi og fjötrar, árangur og mistök, fallegt og ljótt, sterkt og veikt, gáfulegt og heimskulegt o. s. frv. eru sígild dæmi. Við tölum líka um sannleik og lygi, um veruleik og blekkingu, tilvist og tilvistarleysi. Hlutveruleikinn er samsetning andstæðna.

Þetta er eðli hugsunar en ekki náttúrunnar. Við tölum ekki um siðlaus tré eða siðspillt, rétt eða röng fjöll eða vötn. Ekkert er í náttúrunni í sjálfu sér fallegt eða ljótt og hún biður ekki afsökunar á sjálfri sér, því að hún skynjar ekki heim hugsunarinnar. Það eru að vísu til litlir eða stórir hestar, en þeir fá enga minnimáttarkennd eða kvíða út af því. Ekki óttast gamall köttur dauða sinn og sársauki veldur engu hugarangri. Dýr kvíða ekki framtíðinni. Þau sjá ekki eftir fortíðinni. Í náttúrunni eru hlutirnir eðlislægir og náttúran veit hvað hún syngur. Elektrónur vita betur en vísindamenn, hvernig þær eiga að hegða sér. Náttúran skapaði líka heilann, sem geymir hugsunina.

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð, segir í upphafi Jóhannesarguðspjalls. Maðurinn gaf hlutunum nafn. Þetta gekk e.t.v. ekki svo mikið út á nafngjöf, frekar að aðskilja hluti og tegundir, flokka og sortera. Sérstaklega var þetta aðferðin að greina í sundur, setja markalínur og landamæri. Þetta erum við stöðugt að gera daginn út og daginn inn. Allar ákvarðanir og gerðir okkar eru grundvallaðar á markalínum, meðvitað eða ómeðvitað. Þegar við tökum ákvörðum, setjum við markalínu milli þess sem við veljum eða höfnum. Við greinum á milli ánægjulegs eða sársaukafulls, milli rétts og rangs, góðs og ills, fallegs og ljóts, mikilvægis og léttvægis o. s. frv. Lærdómur fellst mikið í því, að draga markalínur, að ekki sé talað um grein eins og lögfræði. Svipað gildir um aðrar námsgreinar. Líf okkar snýst um slíka afmörkun hlutanna.

Ef við drögum hring, aðgreinir hann það, sem er innan hans frá því sem utan hans. En gætum að því, að svæðið innan eða utan hringsins var í sjálfu sér ekki til, fyrr en við drógum hringinn. Með því að draga línu búum við jafnframt til andstæður. Við lifum í veruleik andstæðnanna vegna þess að við erum sífellt að draga markalínur. Veröld andstæðnanna hlýtur óhjákvæmilega að vera veröld átaka. Þótt við séum hreykin af því að hafa gefið hlutunum nafn og höfum hæfileikann til að draga markalínur, höfum við lítt gert okkur grein fyrir afleiðingum þess að vera þar með rekin úr Paradís. Í staðinn fyrir að þurfa að taka hluti í hendi sér, gat Adam höndlað þá með nafni í höfði sér, en orð eru tvíeggjað sverð, sem geta snúist að okkur sjálfum. Viskutréð var tré andstæðnanna, góðs og ills.

Sérhver markalína er jafnframt möguleg bardagalína, svo að um leið og við setjum upp markalínu, skyldum við búa okkur undir átök eða bardaga, ófriði andstæðnanna. Bardagann milli lífs og dauða, góðs og ills, hamingju og þjáningar o. s. frv. Bardaginn hefst við markalínuna. Við lifum í heimi átaka, af því að við lifum í heimi markalína. Þeim mun dýpri og fastari, sem þessar markalínur eru, þeim mun rótfastari eru átökin. Þeim mun meira, sem ég sækist eftir ánægju, þeim mun meira óttast ég þjáninguna. Þeim mun meira sem ég sækist eftir árangri, þeim mun meira óttast ég mistök. Því meira sem ég met efnisleg verðmæti, þeim mun tilfinnanlegra finnst mér að missa þau o. s. frv. Flest vandamál eru vandamál markalína og andstæðna, sem þau skapa.

Við reynum að leysa flest þessi vandamál með því að þurrka alveg út eða eyða annarri andstæðunni. Vandamál góðs og ills reynum við að leysa með því að útiloka hið vonda. Vandamál lífs og dauða með því að halda í lífið og fela dauðann með einhverjum hætti. Efnishyggjumenn vilja útiloka andann frá efninu og hughyggjumenn hafa tilhneigingu til hins gagnstæða. Við teljum markalínuna sem raunverulega og förum að ráða fram úr andstæðum sem hún skapar. Af því að við trúum að markalínan sé veruleiki, ímyndum við okkur að andstæðurnar séu aðskildar og ósamþýðanlegar. Ást er ólík hatri sem dagur og nótt, segjum við. Við teljum okkur trú um, að lífið væri ánægjulegt, ef við gætum þurrkað út hið neikvæða eða í hvert skipti, sem við kærum okkur ekki um í það. Ef við gætum útilokað þjáningu, dauða, illsku o. s. frv., væri allt algott, eins konar Himnaríki á jörð. Ekki má gleyma því, að kristin kirkja boðar stundum, að Himnaríki sé upplifun hins jákvæða hluta andstæðunnar, en að Helvíti sé, þar sem er þjáning, kvíði og sjúkleiki. Kristur boðaði hins vegar frekar upphafningu yfir þessar andstæður.

Þessi aðskilnaður andstæðnanna og sú árátta að upplifa aðeins annan helming þeirra, þ.e. hinn jákvæða, er sterkt einkenni vestrænnar menningar. Framfarir eru þá þróun frá hinu neikvæða til hins jákvæða. Þrátt fyrir þessa miklu baráttu frá hinu neikvæða til hins jákvæða öldum saman og aldrei meir en á síðustu og þessari öld, þá er fólkið síður en svo hamingjusamara. Ekki er fólk ánægðara eða býr við meiri innri frið. Kvíði og leiðindi er aldrei meiri en á þessari öld hinnar efnalegu velmegunar. En hér erum við einmitt að tala í andstæðum. Krafa um framfarir felur í sér óánægju með núverandi stöðu. Því er það, að þeim mun meira, sem við sækjumst eftir framförum, þeim mun óánægðari verðum við. Með því að sækjast blint eftir framförum, erum við að bjóða upp á vonbrigði. Þegar við leggjum áherslu á hið jákvæða og viljum eyða hinu neikvæða, megum við ekki gleyma því, að hið jákvæða er skýrgreint með hinu neikvæða. Ef við hefðum ekki nóttina, væri dagur óskýrgreindur. Því meiri sem framfarirnar verða, þeim mun meira mistekst okkur og þeim mun meiri verða vonbrigðin.

Vandinn felst þannig í tilhneigingunni til að líta á andstæðurnar eins og þær séu ósamþýðanlegar, sem aðskilda parta eða einingar. Að selja og kaupa er sami gerningur, sami atburðurinn, þótt við greinum þarna á milli. Það er augljóst, þeim sem skoðar málið, að hversu miklar sem andstæðurnar reynast, þá eru þær óaðskiljanlegar og háðar hvor annarri. Önnur hefur enga tilvist án hinnar. Í öðrum þætti í Tao Te Ching, segir Lao Tsu:

Allir í heimi sjá fegurð sem fegurð, vegna tilvistar ljótleikans.
Allir þekkja gott sem gott vegna tilvistar hins vonda.

Tilvist og tilvistarleysi birtast samtímis.
Hið auðvelda leiðir af sér hið torvelda.
Stutt er dregið af löngu með samanburði.
Hátt og lágt byggja á afstöðu til hvors annars.
Rödd og hljómur samræma hvort annað.
Fram og aftur fylgjast að.

Þess vegna vinnur hinn vitri án erfiðis og kennir án orða.
Allir hlutir verða til og eyðast án afláts.
Skapandi án þess að eigna sér,
starfandi án þess að stæra sig.
Verk er unnið og síðan gleymt.
Þess vegna er það eilíft.

Þessi sameining andstæðnanna er ekki lengur einkamál austrænna og vestrænna spekinga, því ef við lítum til nútíma eðlisfræði, þá er veruleikinn skýrgreindur sem sameining andstæðnanna. Ef litið er á afstæðiskenninguna, er kyrrstaða og hreyfing innbyrðis samofnar, svo er og um elektromagnetiskar bylgjur og efni, t.d. ljósið. Efni og orka voru sameinuð í formúlunni E=mc2. Talað er um tímarúm o.s.frv. Nútíma eðlisfræði hefur gengið enn lengra, sem ekki eru tök á að rekja hér. Væri það efni í sérstakt erindi.

Gestaltistar benda á að ljós verði ekki skynjað án myrkurs, t.d. sæjum við ekki stjörnurnar á himninum nema vegna hinnar myrku jarðar. Við skynjum ekki heldur hreyfingu nema sem mótsetningu við kyrrstöðu. Við vissum ekki hvað vellíðan væri nema sem andstæðu þjáningar. Ef við hefðum ekki upplifað þjáningu, vissum við ekki hvað vellíðan væri. Þótt ég vilji ánægjuna en hafni vansælunni, get ég samt sem áður ekki einangrað þessi fyrirbrigði frá hvoru öðru. Af þessu getum við skilið betur, hvers vegna lífið er eintóm vonsvik, þegar litið er á það með augum andstæðnanna og hvers vegna framfarir hafa orðið til lítils þroska. Það er í raun mikið óraunsæi að sækjast eftir ánægju án þjáningar, lifi án dauða, góðu án ills. Heimspekingurinn Ludvig Wittgenstein segir, að vegna þess að markmið okkar eru háleit, verði þau erfið, en af því að þau eru blekking, þá séu þau fávísleg. Ekki er rétt að líta á öldutoppinn einan, aldan er í senn lægð og hæð og allt þar í milli. Enginn öldutoppur er án öldudals.

Við eigum stundum erfitt með að trúa því, að andstæðurnar séu óaðskiljanlegar. Þetta er vegna þess, að við álítum markalínurnar veruleika. Það eru þær sem skapa tilvist andstæðnanna. Að segja að veruleikinn sé handann andstæðnanna er það sama og að segja, að hinn hinsti veruleiki sé án markalína. Sannleikurinn er sá, að markalínu er hvergi að finna. Hún er aðeins ímyndun þeirra, er kortleggja. Víkjum nánar að þessu.

3.5 ÚTLÍNUR.

Við sjáum útlínur hvarvetna. Ströndin markar útlínu lands og sjávar. Hörundið útlínu líkama og lofts. Allir hlutir hafa sínar útlínur. En greina allar útlínur eitt frá öðru? Markalínan eða fjaran á ströndinni, skilur ekki einungis að sjó og land, heldur er hún einnig sú lína, þar sem sjór og land snerta hvort annað. Segja mætti því að þessi lína tengi eða sameini jafnmikið og hún aðskilur. Hún er því ekki endilega markalína. Sjónarmiðið er sem sagt, að markalína skilji ekki aðeins að, heldur sameini andstæður. Þetta er eðliskjarninn í öllum markalínum, þær afmarka andstæðurnar, en sameina þær jafnframt. Drögum upp dæmi:

íhvolfa ) bunga

Sama lína myndar íhvolf og bungu. Með því að skapa annað, verður samtímis hitt til. Við getum ekki sagt, að línan aðskilji hið íhvolfa frá bungunni, af því að línan er ein og tilheyrir báðum flötum. Í stað þess að línan aðskilji hið íhvolfa frá bungunni verður að segja, að annað geti ekki án hins verið. Útlína hins íhvolfa er jafnframt útlína bungunnar. Við getum aldrei fundið neitt í tilverunni, sem er íhvolft án þess að bungan fylgi. Allar andstæður eru og verða alltaf í faðmlögum að eilífu.

Kjarni málsins er sá, að allar þær markalínur, sem við finnum í náttúrunni, skilja að og binda saman í senn. Markalína er blekking, því að hún lætur líta út sem hún aðskilji hið óaðskiljanlega. Í heimi hlutveruleikans eru ímyndaðar línur, en í raun engar raunverulegar markalínur. Lína verður markalína, þegar við ímyndum okkur að andstæðurnar sem mismun en ekki heild. Það er auðvitað meinlaust að draga línur, ef við tökum þær ekki sem markalínur. Það má gera mun á vellíðan og þjáningu, en það er ómögulegt að aðskilja vellíðan frá þjáningu.

Við erum sífellt að búa til markalínur og útlínur. Við búum til línur við yfirborð hlutanna og einnig í okkar eigin huga. Við flokkum allt. Við gerum til að mynda mun á steini og ekki steini, mun á því sem er ánægjulegt og ekki ánægjulegt. Þessi munur verður ósjálfrátt markalínur af því að við sjáum ekki heildina. Við gefum síðan einstökum hlutum og flokkum nafn. Við segjum að eitthvað sé ljóst eða dökkt, uppi eða niðri. Við getum notað þessi nöfn sjálfstætt. Við getum talað um vellíðan án þess að nefna þjáningu. Við getum sem sé með hugsun aðgreint vellíðan frá þjáningu, þótt í veruleikanum finnist vellíðan ekki einangrað frá þjáningu. Þessi munur í huganum verður sannfærandi. Við festumst í neti tvíhyggjunnar. Hugur og viðfang, subjekt og objekt, tími og rúm, andi og efni, frelsi og fjötrar, frjáls vilji og löghyggja. Sannleikurinn, sem er einn, verður afstæður og því ekki lengur sannleikur, heldur andstæður. Tveir heimar verða til úr einum.

Við ruglum saman markalínum og náttúrunni, þar sem engar eru. Við búum til eins konar landakort af veruleikanum, sem ekki er veruleikinn sjálfur. Landakort er einn hlutur, land annar, landakortið er ekki landið. Við lifum þó í heimi landakortanna og orðanna eins og það sé veruleikinn. Við lifum í draumaheimi ímyndaðra markalína og landakorta, sem við verðum að vakna af í stað þess að standa í slagsmálum á hinum ímynduðu markalínum. Flest vandamál okkar í lífinu byggjast á þeirri ímyndun, að kleift sé að aðgreina andstæður og það skuli gert. Þetta verður eins konar óendanlegt reiptog.

Okkur ætti því að fara að skiljast, að sá er frjáls sem sér í gegnum þessa blekkingu markalínanna. Hann er frjáls frá samstæðum andstæðnanna, ef svo mætti að orði komast. Hann er laus við heimskuleg vandamál og baráttu andstæðnanna. Hann meðhöndlar ekki andstæðurnar hvora gegn annarri, heldur lyftir sér yfir báðar. Ekki gott eða illt, heldur handan við gott og illt. Ekki líf eða dauði, heldur vitund sem er handan við hvoru tveggja. Markmiðið er þá ekki að aðskilja andstæðurnar og með því stefna að framförum, heldur að sameina hið jákvæða og hið neikvæða og finna hinn sameiginlega grundvöll, sem tekur til beggja andstæðna, svo kleift sé að hefja sig yfir hvoru tveggja. Afnám tvíhyggju er ekki aðeins Buddhismi, heldur og boðskapur Advaita Vedanta og hjá Kristi himnaríki á jörðu. Í Lankavatara Sutra segir svo: Blekking ímyndunarinnar kennir okkur, að fyrirbæri sem ljós og skuggi, langt og stutt, svart og hvítt séu mismunandi og aðgreinanleg. Þau eru þó ekki óháð hvort öðru, einungis mismunandi viðhorf til sama hlutar, orð yfir samband eða afstæði, en ekki veruleikinn. Forsendur tilvistar eru aldrei ósamrýmanlegar í eðli sínu. Kjarni hlutanna er ekki tveir heldur einn.

Það væri að æra óstöðugan að vitna í öll þau rit í indverskri heimspeki, sem segja þetta sama. Veruleikinn er sameining andstæðnanna. Það eru markalínurnar, sem við hyljum veruleikann með, sem greina hann í óteljandi pör andstæðna. Því er það krafa allra þessara trúarhefða, að veruleikinn sé hreinsaður af þessum pörum eða samstæðum andstæðnanna eða krafa um að leggja niður markalínur.

En hvað gerist, ef við einn góðan veðurdag sjáum, að engar andstæður eru í tilverunni? Hvað verður um framfarir? Að sjálfsögðu munu þær ekki stöðvast, þ.e. þær framfarir, sem við meinum venjulega. Við munum á hinn bóginn skynja, að hamingjan er ekki háð framförum. Vafasamt er að tala um himnaríki á jörð. En eitt er víst, við verðum vinsamleg öllu, ekki aðeins helmingi hlutveruleikans. Við munum sjá heildina.

3.6 SAMKARA OG LAO TSU.

Ég ætla að leyfa mér að ljúka máli mínu með því að vitna í Samkara, sem var aðalhöfundur Advaita Vedanta. Hann segir:

Hvernig getur orðasambandið “neti neti”, “ekki þetta, ekki þetta”, hjálpað til að koma til skila eðli þess lögmáls, sem kallað er “veruleiki hins raunverulega”? Okkar svar er að það gerist með því, svörum við, að afneita öllum ytri aukahlutum. Hið algilda er þar, sem hvergi er að finna sérstöðu neins. Þar er ekkert nafn, form, athöfn, engin aðgreining, engir flokkar, engin gæði. Það eru þessar ákvarðanir einar, sem málið byggist á og ekkert af þeim tilheyrir hinu algilda. Hið algilda verður því ekki kennt með setningum eins og “þetta er svo og svo”. Orðasamböndum Uphanisada eins og “hið algilda er alsæla vitundarinnar”, “umtak vitundar”, “Brahman”, “Atman”, vísa til hins algilda. Þar er með tilbúnum hætti verið að gefa því nafn, form og helga því starfsemi og tala um það á nákvæmlega sama hátt og vísað er til hluta, sem við skynjum, eins og þegar við segjum “þessi hvíta kýr með hornin rykkir sig til”. En ef útskýra á hið sanna eðli hins algilda, sem er tómt af ytri hlutum og sérstæði, er það ekki hægt með jákvæðum hætti. Eina mögulega aðferðin er að vísa til þess með alsherjarafneitun sérhverra eiginleika, sem því hafa verið eignaðir í fyrri ritum og segja: “ekki þetta, ekki þetta”. (III.3.51)

Ekki er heldur kleift að vísa svo viðeigandi sé til hins algilda með slíkum orðum eins og tilvist eða tilvistarleysi. Því öll orð eru notuð til að koma til skila merkingu og þegar þau eru heyrð af þeim sem hlusta á þau, þá flytja þau þá meiningu, sem talandinn hafði í huga. En merking sem flytja má milli manna er alltaf takmörkuð án undantekninga við flokkun, hreyfingu, starf, gæði, tengsl og afstæði. Til dæmis orðin “kýr” eða “hestur”, flytja merkingu um ákveðinn flokk. Í tilvikinu “hann matbýr” eða “hann les” er merking af því að þar er starf eða hreyfing. Orð eins og “hvítt” og “svart” merkja tilvist gæða. Í orðasambandi eins og “auðugur maður” eða “eigandi kúa”, er merking vegna tilvistar tengsla og afstöðu (hér eignin).

En hið algilda tilheyrir ekki neinum flokki, svo það verður ekki tjáð með nafni, svo sem “tilvist” eða “tilvistarleysi”. Tilvist án gæða verður ekki lýst með neinu lýsingarorði sem táknar gæði. Og tilvist án starfs eða hreyfingar, verður ekki tjáð með orði, er táknar starf eða hreyfingu. Uphanisadar tala um “án parta, án starfs, í kyrrð”. (III.3.52) Ekki hefur það heldur nein tengsl við neitt. Því það er “eitt”, “án annars”, “ekki hlutur” og “Sjálfið”. Því verður það ekki tjáð með orðum. Og Uphanisad textarnir sjálfir staðfesta þetta, þegar sagt er “Það sem orð hopa frá”. (III.3.53)

Ekki er kleift að velja hluta af samstæðu, þegar um valkvæða möguleika er að ræða, sem sannan kjarna alls, sem liggur ofan við orð og hugtök og segja annað hvort að eitthvað sé eða sé ekki, annað hvort að það sé eitt eða að það sé margt, annað hvort að það hafi að geyma gæði eða hafi ekki að geyma gæði, annað hvort að það hafi að geyma þekkingu eða að það hafi ekki að geyma þekkingu, annað hvort að það starfi eða starfi ekki, annað hvort að það beri árangur eða beri ekki árangur, annað hvort að það beri í sér frjókorn framtíðarathafna eða það beri ekki slíkt í sér, annað hvort að það sé hamingjusamt eða að það sé ekki hamingjusamt, annað hvort að það sé í miðju eða ekki miðju, annað hvort að það sé tómt eða ekki tómt, annað hvort að það sé ólíkt mér eða ég ólíkur því. Sá sem vill gefa eðli Sjálfsins einkenni á þennan hátt er eins og sá sem vill vefja himininn upp eins og leður og stíga upp á það eins og það væri þrep. Hann er eins og sá, sem vonar að hann finni spor eða far eftir fiskinn í vatninu eða fuglana á himninum. Því við höfum rit Uphanisada sem segja “ekki þetta, ekki þetta” og “það sem orð hopa frá” og orðfæri úr Rg. Ved, “Hver veit eiginlega?” (III.3.54).

Í fyrsta þætti í Tao Te Ching, segir Lao Tsu svo:

Það Tao, sem kleift er að segja frá, er ekki hið eilífa Tao.
Það heiti, sem unnt er að fá því, er ekki hið óbreytilega nafn.
Hið nafnlausa er uppruni himins og jarðar.
Sem nafn er það móðir allra hluta.

Sá, sem lyftir sér yfir hneigðir, opnar fyrir leyndardóminum.
Heillaður af hneigðum, sér hann aðeins yfirborðið.
Þetta tvennt hefur sama uppruna, en mismunandi heiti.
Bæði nefnast þau undirstaðan.
Djúp á bak við djúp.
Hlið leyndardómsins.

Copyright © 2012 lifspekifelagid.is