III SKYLDAN

3.0 INNRI MARKMIÐ.
3.1 EINKENNI SKYLDUNNAR.
3.2 SAMANBURÐUR VIÐ EINLÆGA STAÐLA.
3.3 VIÐHORF TIL SKYLDUNNAR.
3.4 ÁHRIF SKYLDUNNAR.
3.5 NÁNARI SKILGREINING.

3.0 INNRI MARKMIÐ.

Í síðasta þætti var rætt um kröfuna sem við gerum til umheimsins. Við lifum í heimi ímyndunarinnar og sköpum ímyndaðan rétt á umhverfið. Hinu ytra fáum við ekki breytt aðeins hinu innra. Samt gerum við umhverfið ábyrgt, ef okkur tekst ekki að vera okkar eigin sjálfsímynd. Oft viðurkennum við ekki okkar eigin mannlegu takmarkanir.

Í þessum þætti verður fjallað um kröfurnar sem við gerum á okkur sjálf. Horft verður inn á við en ekki út. Við vinnum stöðugt að því að fullkomna okkur, og reynum að verða sú ímynd sem við höfum sett okkur. Við reynum að gleyma því, hvernig við raunverulega erum en minnumst þess fremur, hvernig við ættum að vera. Hér finnst okkur sjálfsímyndin skipta miklu máli. Við ættum alltaf að vera skilningsrík og tillitssöm, eða athafnasöm og mikilvirk svo dæmi séu tekin.

Í öllum trúarkerfum er lögð áhersla á, að menn læri að greina rétt frá röngu, veruleik frá ímyndun. Bæði Búddisminn og Vedanta heimspekin bendir á nauðsyn þess að losnað sé við egóið, ef árangur á að nást og nefna má það því nafni. Ramana Maharshi segir á einum stað: “Egóið er í raun vofa, sem sjálf hefur ekkert form, en heldur sér fast í allt form, sem það nær tökum á. Hafi egóið náð taki á formi, hefst formið á flug. Þar sem allt stendur og fellur með egoinu er eyðing þess með sjálfskönnun eina sanna leiðin til að afmá það og öðlast fullkomið frelsi. Ef vitundin losnar við “ég ið” nær hún raunverulegu ástandi”.

Það er of langt mál að telja upp allt það, sem við ætlum að gera, vera, vita, þekkja, vilja, finna o. s. frv. eða hitt, sem við ætlum ekki að vera eða gera. Rétt er þó að nefna nokkur almenn atriði. Flestir vilja vera til fyrirmyndar, t.d. fyrirmyndarfaðir eða móðir, eiginmaður eða eiginkona, vinur, verkmaður eða félagi. Margur vill vera grandvar, heiðarlegur, ábyrgur, hreinskilinn, ráðvandur, réttsýnn, hugrakkur eða ósíngjarn. Flestir vilja sýna reglusemi, aðgætni, skyldurækni og samviskusemi. Enn aðrir leggja mest kapp á að sýna þolgæði, og að þeir umberi alla. Margir varast að sýna framhleypni, heimtufrekju og áleitni. Þeir gera litlar kröfur, eru hæverskir, hófsamir, lítillátir og jafnan kyrrlátir. Þeir leitast við að sýna ekki óvild, og varast árekstra eða útistöður.

Þá eru þeir, sem velja þann kostinn að tengjast engum eða engu. Þeir vilja ráða tíma sínum sjálfir og vera frjálsir í einu og öllu, vera áhyggjulausir og lausir við allar skyldur og bönd, og öðrum óháðir andlega. Þeir vilja ekki verða fyrir áhrifum frá öðrum eða öðru. Óttast jafnvel að þarfnast annarra, nálægðar þeirra eða óska. Ekkert á að skipta þá máli. Þeir ætla aldrei að særast eða láta neitt trufla sig, en alltaf að lifa í heiðríkju hugans og njóta lífsins.

Þá eru enn aðrir, sem ætla sér alltaf að stjórna tilfinningum sínum. Þeir ætla að ráða við alla innri erfiðleika sína, og hafa hemil á þeim með viljanum. Þeir verða að vera framsýnir, forspáir, skilja allt og hafa ríka skipulagsgáfu. Þeim finnst, þeir eiga að leysa vandamál sín og annarra á augabragði. Sigrast verður á hvers konar erfiðleikum jafnskjótt og þeir birtast. Þeir mega aldrei þreytast eða verða veikir. Þeir verða að vera rökfastir, leiðandi og sannfærandi. Þeir ætla sér oft að framkvæma það á einni klukkustund, sem ekki verður gert á skemmri tíma en þremur klukkustundum.

Þessi dæmi kunna að virðast öfgar, en fjarri fer því að svo sé. Finnst ykkur þessar kröfur of miklar? Ef mönnum er sagt, að þeir ætlist til of mikils af sjálfum sér, taka þeir því sem hrósi. Menn viðurkenna undir niðri og það er einmitt viðhorf margra, að betra sé að gera meiri en minni kröfur til sjálfs sín. Og menn hafa jafnan trú á því, að þeim muni takast að einhverju leyti að þvinga sig til þeirra markmiða og ímyndar, sem þeir hafa sett sér.

Ef manni sem er í dásvefni er sagt að gera eitthvað, þegar hann vaknar af svefninum, hlýðir hann því undantekningarlaust. Ef honum er t.d. sagt að fleygja ákveðnum aðila á dyr, af því að hann sé grunsamlegur, þegar hann vaknar, verður sá aðili honum grunsamlegur í raun og hann fleygir honum út. Grunnviðhorf mannsins verða ekki með neinu móti greind frá þeim viðhorfum, sem innprentuð hafa verið honum í dásvefninum. Sama er að segja um markmið okkar og ímynd, við samsömum okkur þeim og greinum þau ekki frá dýpri veruleik okkar. Tilbúninginn sjáum við ekki. Raunverulegar hugsjónir okkar og viðhorf hverfa, þegar skyldumarkmið og uppgerðarfyrirmyndir hylja þær. Við teljum okkur gerð á einn eða annan veg, þótt allt sé þetta tilbúningur. Sá sem hefur einsett sér samviskusemi trúir að hann sé samviskusamur að eðlisfari o. s. frv. Ekki er úr vegi að athuga betur einkenni þessara markmiða, og auðvelda það að greina kjarnann frá hisminu.

3.1 EINKENNI SKYLDUNNAR.

Oftast er horft fram hjá því, hvort kleift sé að framkvæma markmiðin. Ekki er horfst í augu við þær aðstæður, sem búið er við. Kona hyggst t.d. vera fyrirmyndareiginkona, ástmær og móðir, jafnframt því að vinna úti og vera fyrirmyndarstarfsmaður, stunda félagsstörf af kappi og ná frama í félagsmálum. Takmörkun á tíma og kröftum er ekki viðurkennd. Þegar í ljós kemur að eitt atriðið líður fyrir annað, sem að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt, þá breytir skynsemin engu í því sambandi. Hún skal samt. Sjálfsásakanir gera vart við sig ef henni mistekst á einhverju sviði. Sjálfsskoðun hefur lítið með skynsemi að gera, nema sem upphaf. Skynseminni er oft beitt gegn framförum og þroska. Það sem gildir er að upplifa sjálfan sig tilfinningalega, hæfileikinn til að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og öðrum, og að viðurkenna eigin markmið og gerðir.

Margir hafa ofurtrú á gáfum og gera ráð fyrir skjótum breytingum. Þótt við sjáum kröfur okkar, eins og ég ræddi í síðasta þætti, þá merkir það ekki að við höfum losnað við þær. Öll sjálfsskoðun krefst þolinmæði og ekkert breytist fyrr en hin tilfinningalega nauðsyn, sem að baki liggur, hefur verið aflögð. Þeir sem trúa því að skynsemin ein breyti hlutunum, verða alltaf fyrir miklum vonbrigðum.

Skapvondur maður eða uppstökkur breytir engu með því að einsetja sér að vera ekki skapvondur eða uppstökkur. Hver verður ekki skapvondur einhvern tíma? Oft viðurkennum við ekki mannlegar takmarkanir og enn síður eigin skapgerð. Það er langur og strangur skóli fyrir hvern og einn að komast að því, að engu breytir slíkur ásetningur. Ég “skal” breytir engu í þessu sambandi og þjónar í raun einungis þeim tilgangi að afneita því að viðkomandi sé skapvondur og uppstökkur. Um leið og að fullu er viðurkennt innst inni að meira þurfi til en einfalda fyrirskipun til sjálfs sín eða skyldu, lagast ástandið. Að aga sig með eigin vilja einum saman er í raun sama viðhorf og að telja að umbúðir breyti innihaldinu. Menning okkar er þó gegnsýrð af því viðhorfi. Með þessu er ekki sagt að skapvondur og uppstökkur maður eigi ekki að hafa vilja til eða reyna að breyta þessu, heldur hitt að einföld ákvörðun og skylda, sem menn setja sér til að ná markmiðum sínum og ímynd, er sama og að fara í norðurátt, þegar maður ætlar suður.

Þótt við viljum hafa ákveðna kosti, höfum við ekki öðlast þá einungis með því að vilja hafa þá eða þykjast hafa þá. Sá, sem vill í alvöru öðlast eitthvað og sér jafnframt hindranir á veginum, rannsakar málið rækilega og reynir að grafast fyrir rætur vandans til þess að sigrast á honum. Sá sem er skapstyggur án gildra ástæðna, reynir auðvitað fyrst að hafa hemil á skapstyggð sinni. Ef árangur verður ekki nægilegur, reynir hann að grafast fyrir um það hvaða þættir í persónuleikanum valda þessu og tekur síðan til við að breyta þeim. En við bregðumst yfirleitt ekki þannig við. Flestir reyna að gera lítið úr skapstyggð sinni og réttlæta hana eða ásaka sjálfan sig fyrir hana og reyna að bæla hana enn meira. Ef slík stjórnun á skapstyggðinni bregst, ásaka menn sig fyrir að hafa ekki hemil á sér. Þannig lokast oftast hringurinn og ekkert frekar er að gert. Hinn innri maður er aldrei skoðaður og ekkert breytist. Sagan endurtekur sig.

Skoðum málið frá aðeins öðru sjónarhorni. Hver ætlar sér ekki að vera skilningsríkur, samúðarfullur og hjálpsamur? En hverjum tekst það fullkomlega? Var Kristur það, er hann var að agnúast út í fíkjutréð. Samúð hans virtist ekki rík, er hann var að hreinsa til í musterinu. Jafnast nokkur á við Krist í þessum kostum? E.t.v. Búdda. En hvað gerum við? Við spyrjum ekki hvort við séum þessum kostum búin, heldur að við skulum hafa þá, hvort sem tilfinningar okkar leyfa það eða ekki. Við skipum okkur fyrir í þessum efnum. Það leiðir einungis til frekari blekkinga og sjálfsásakana. Við búum til sjálfsímynd og göngum síðan að því sem sjálfsögðu, að ekkert skuli vera okkur ómögulegt. Þess vegna þarf málið ekki, að okkar dómi, frekari rannsóknar við.

Þessi viðhorf eru sérstaklega rík gagnvart fortíðinni. Hversu oft og mikið hefur okkur ekki mistekist í lífinu? Þegar fortíðin er dæmd, hættir okkur til að gleyma því, að við fæddumst með ákveða eiginleika, sem við gátum engu ráðið um hverjir voru og ættum ekki að hrósa okkur af, frekar en kostum hestsins okkar, svo vitnað sé í Epiktet. Það umhverfi, sem við ólumst upp í, fengum við heldur engu ráðið um. Ég er ekki að mæla með ábyrgðarleysi. Það væri ábyrgðarleysi að kenna hér öðrum um. Þeir eru og voru í sömu stöðu. Sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum, sagði Epiktet. Hins vegar er alrangt að dæma fortíðina út frá þörfum og markmiðum nútímans. Við erum í raun að dæma okkur í fortíðinni út frá sjálfsímynd, eins og hún er núna. Sjálfsímyndin er tilbúningur hugans, sem að mestu hefur mótast af umhverfinu. Okkur finnst hún veruleiki, því við höfum einsett okkur að verða hún. Að skella skuldinni á sjálf okkur fyrir að geta ekki verið sú ímynd, sem við höfum búið til, er ábyrgðarleysi, því ekki er horft á staðreyndir. Óskhyggjan ræður ferðinni. Tilgangslaust er að reyna að breyta fortíðinni. Það sem skiptir máli, er hvort við erfiðleika sé að etja núna og hvort sigrast megi á þeim. Meginatriðið er að nota nú sinn innri mann til að komast að rótum vandans og uppræta hann. Nota tímann til innri þroska og horfa fram. Sá, sem hættir sjálfsásökunum og lætur vera að kenna öðrum um, er því kominn á rétta leið.

En við álösum okkur ekki einungis vegna fortíðarinnar. Við erum stöðugt að væna okkur um mistök og fákunnáttu. Okkur líkar miður að hafa gert eða ekki gert eitt eða annað og vissulega getum við skoðað mistök okkar og reynt að læra af þeim. Erum við ekki að reyna að gera okkar besta? En það er ekki nóg, segjum við oft, við hefðum átt að gera betur. Því uppteknari sem við erum af sjálfsímyndum og markmiðum, sem við höfum einsett okkur að ná, þeim mun haldnari erum við af skyldum, sem hljóma eitthvað á þessa leið: ég ætti, ég skal eða ég hefði átt, með tilheyrandi sjálfsásökunum. Alla erfiðleika á þá að yfirstíga fljótt.

Því dýpra sem við lifum í ímyndunarheimi, þeim mun vandlegar breiðum við yfir erfiðleikana. Sumir reyna að fjarlægja erfiðleikana með viljastyrk og gera örvæntingarfullar tilraunir til að láta vandann hverfa. En margur vandinn tekur ekkert mið af viljanum og haggast hvergi. Sumum er það minna áhyggjuefni að sjá ekki vandann en hitt, að geta ekki losnað við hann á stundinni. Í stað þess að skoða vandann, sem er fyrsta skrefið í rétta átt, beinist öll orkan að því að láta hann hverfa. Að skoða vandann í heild sinni og reyna að grafast fyrir erfiðleikana er talið veikleikamerki eða jafnvel ósigur. En gervimennska með viljastyrkinn er venjulega árangurslaus. Í besta falli er vandinn settur undir meiri stjórn, bældur enn meira, og hann gengur þá frekar aftur á dulinn hátt.

3.2 SAMANBURÐUR VIÐ EINLÆGA STAÐLA.

Ef við berum saman annars vegar hreinar hugsjónir og háleit markmið og hins vegar þá staðla og skyldur sem við setjum okkur, þá blasir fyrst við að markmið innri skyldna er að uppræta ófullkomnun af einhverju tagi. Það er að segja, við viljum láta líta út, svo sem hinum fullkomna þætti sé náð. Svo er þó ekki, heldur er um að ræða yfirskyn eða sýnd hins fullkomna. Sýnd í eigin og annarra augum. Ekki er um að ræða siðferðilega alvöru, þar sem leitast er við að bæta sig skref fyrir skref, heldur er reynt að ná algerri fullkomnun þegar í stað. Hinu fullkomna er náð í ímynduninni eða það bíður jafnan á næsta leiti. Og niðurstaðan verður fullkomin hegðun, þótt það geti einnig brugðist. Þungamiðjan færist frá hinum innra manni upp á yfirborðið, í allri framkomu. Jafnvel “heimspeki klæðaburðar” tekur við, eins og D.T. Susuki hefur nefnt. Hann segir klæðaburðinn vera heimspeki þess sýndarheims, þar sem allir klæða sig þannig að þeir sýnist í annarra augum, annað en þeir eru.

Stundum gengur þetta það langt að skoðanir, tilfinningar, hugsanir og gerðir eru mótaðar af því sem aðrir ætlast til. Annarra skoðanir skipta þá miklu máli. Menn verða þá að hafa skoðanir sem falla í kramið. Nauðsynlegt er að hafa réttar skoðanir og þá hegðun sem við á við ríkjandi aðstæður. Listaverk, bókmenntaverk og tónlist verða góð eða vond eftir því, hver hefur skapað þau. Gagnrýnið hugarfar er bælt. Tæmandi lýsing verður ekki gefin á þessum skyldum, sem að miklu leyti ráða þeirri tilhneigingu manna að vilja vera eðlilegir og “normal”, eða eins og almennt er ætlast til. Aðlögun að ríkjandi siðum og hugsunarhætti verður á kostnað sjálfsins. Hegðun verður öll siðvenjubundin og viðkomandi hegðar sér vélrænt, eins og hann sé án vilja eða vitundar.

Ekki þarf endilega að vera um siðferðilegar skyldur að ræða, því skyldurnar fylgja sjálfsímyndinni og þjóðfélagið hvetur til annarra ímynda en siðferðilegra. T.d. verða þeir, sem þurfa að vera gáfaðir, að vita allt, en það er algengt fyrirbrigði meðal menningarvita. Þegar slíkur maður fær spurningu, sem hann getur ekki svarað, lætur hann líta svo út, sem hann hafi tök á því, fremur en að viðurkenna vanþekkingu sína, þó það yrði ekki til að draga úr virðingu fyrir vitsmunum hans. Ég man eftir manni nokkrum í sjávarútvegsráðuneytinu, sem svaraði öllum fyrirspurnum, sem hann fékk í síma, hvort sem hann vissi svörin eða ekki. Þessi maður var bæði virðulegur og vel gefinn.

Því betur sem við sjáum eðli hinna innri skyldna, verður okkur ljósari munur á þeim og einlægum og hreinræktuðum siðferðismarkmiðum og hugsjónum. Ekki er um að ræða mun á magni, heldur gæðum. Auðvitað er siðferði mikilvægt í okkar lífi og nauðsynlegt allri þroskaviðleitni. En hver er munurinn á þessum setningum? Ég skal hafa lítið fyrir að skrifa þennan þátt og það skal taka mig stuttan tíma eða ég ætti að koma vel fyrir, er ég les hann upp. Ég tel hvoruga málsgreinina hafa neitt með siðferði að gera. Báðar eru eigingjarnar og hrokafullar og hafa það markmið að auka á sjálfsímynd og upphefð mína. Í raun eru þær siðlausar. Einkenni þeirra er líka þvingunin, þ.e. ég skal, ég ætti o. s. frv., sem skilur þær frá eðlilegum hugsjónum, sem búa yfir frelsi og eigin ákvörðun. Eðlilegar hugsjónir eru manns eigin innstu óskir sem veita frelsi og styrk. Að hlýða skyldunum, er eins og hlýðni við lög þjóðfélagsins. Það er alvarlegt mál, ef ekki er farið eftir þeim. Ef ekki er orðið við skyldunum, kostar það venjulega sjálfsásakanir og kvíða, sem oft er ekki veitt athygli.

Stundum standa menn frammi fyrir gagnstæðum skyldum svo að erfitt getur verið að taka ákvörðun. Kona ætlar t.d. að vera hvorutveggja, fyrirmyndar móðir og fyrirmyndar eiginkona. Hið síðarnefnda getur þá leitt til þess, að hún þurfi að sýna endalausa þolinmæði gagnvart drykkfelldum eiginmanni. Oft er um að ræða tvö gagnstæð skyldumarkmið, sem rekast á og viðkomandi finnst að hann þurfi að sinna báðum. Ef menn spyrja sig, hvað þeir raunverulega vilji sjálfir, kemur oft í ljós, að bæði markmiðin falla um sjálf sig og þriðja óskin kemur upp á yfirborðið. Sú ósk hafði verið bæld, en næst sjálfinu. Sem dæmi mætti nefna, að maður verður andvaka vegna þess að hann getur ekki tekið ákvörðun um, hvort hann á að fara í ferðalag með eiginkonunni af því að hún ætlast til þess eða vera í vinnunni, af því að vinnuveitandinn ætlast til þess. Maðurinn veltir fyrir sér væntingum konunnar annars vegar og vinnuveitandans hins vegar og hvorum aðila hann ætti frekar að geðjast, en kemst ekki að neinni niðurstöðu. Hann spyr sig ekki að því, hvað hann vilji raunverulega sjálfur.

Þannig eru skyldurnar oft skinheilagar og einkennast af uppgerð og yfirdrepsskap. Menn sýna dyggðir, sem þeir þykjast hafa. Máli skiptir fyrir þá, hvort tvöfeldnin er uppgötvuð eða ekki, t.d. hvort maki kemst að framhjáhaldi eða ekki. Hvort Guð almáttugur sér til, skiptir þá litlu máli, nema skyldan sé honum tengd. Frægustu skilgreiningu á mismuninum á yfirborðslegri uppfyllingu skyldunnar annars vegar og heilshugar athafnar hins vegar, er að finna í fyrsta Korintubréfi Páls postula, 13. kafla, sem hefst með þessum orðum: “Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, yrði ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að ég yrði brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari”.

3.3 VIÐHORF TIL SKYLDUNNAR.

Það sem raunverulega gerist í okkar eigin huga og sál, finnst okkur oft að gerist utan við okkur, milli okkar og annarra eða á milli annarra. Þannig útvörpum við huganum. Manni finnst hann t.d. fyrirlíti aðra eða að aðrir fyrirlíti hann, þegar hann raunverulega fyrirlítur sjálfan sig. Hverfa þá eigin óskir og kröfur á hann en upplifast í staðinn sem raunverulegar eða ímyndaðar óskir eða kröfur annarra. Óskir annarra eru honum þá jafnþvingandi og eigin skyldur. Hann verður að fullnægja þeim eða berjast gegn þeim. Viðbrögðin eru stundum þau, að hann reynir í einu og öllu það, að vera eins og aðrir vænta af honum. Virðing og frami verður þá eini mælikvarðinn á gildi hans. Eigin réttur er á þennan hátt framseldur öðrum, og áherslan breytist frá því að vera, í það að sýnast. Það sem þá gildir er rétt hegðun, tilhlýðileg störf, gott útlit. Í stuttu máli, það sem gildir, er hvaða hlutverki hann gegnir og hvernig áhrif hann hefur á aðra. Væntingar annarra, reglur og venjur koma í stað eigin stefnumörkunar. Hann lifir eftir leiðsögn og líður jafnvel illa, ef hann veit ekki hvers er vænst af honum. Oft fylgir þessu innri tómleiki, vonleysi og lífsleiði. Menn gleyma sér þá í vinnusemi, ofáti eða ofdrykkju. Meginstefnan er þá að horft er út en aldrei inn.

Auðvitað upplifir sami einstaklingur skyldurnar með ýmsu móti. Hér eru einhliða myndir dregnar upp en hjá því er ekki komist vegna skipulags og verksparnaðar. Einnig hallast sérhver einstaklingur fremur að einni lausn en annarri. “Flest mál eru blönduð mál”, sagði William James.

Sá sem leggur alla áherslu á að ná tökum á lífi, umhverfi og öðrum, samsamar sig jafnan skyldum sínum, þannig að hann er meðvitað eða ómeðvitað hreykinn af eigin stöðlum og skyldum. Hann efast ekki um gildi þeirra og framkvæmir þær með einum eða öðrum hætti. Hann reynir að hegða sér í samræmi við þær. Hann ætlar að vera öllum allt og vita allt betur en aðrir, aldrei að gera mistök og uppfylla allar skyldur. Í huga sínum gerir hann það líka. Dramb hans getur verið svo mikið og ofmetnaður að hann gerir ekki ráð fyrir, að mistök séu möguleg og jafnvel afneitar þeim, ef þau henda, því í ímynd sinni gerir hann ekki mistök. Ef ímyndunaraflið hefur náð tökum á honum, verður minni nauðsyn að sýna viðleitni. Ef hann er óttalaus og heiðarlegur að eigin áliti, ruglar hann saman því sem hann ætti að vera og gera og því sem hann er og gerir. Sjálfsréttlæting kemur oftast í veg fyrir sjálfsskoðun.

Sú manngerð, sem ímyndar sér að hann sé fullur af ást og hógværð, lítur gjarnan á skylduna sem lögmál, sem ekki verði véfengt. En þótt sá maður reyni eftir megni að uppfylla skylduna, finnst honum sér oftast mistakast. Sjálfsgagnrýni er þá í fyrirrúmi og sektarkennd yfir að uppfylla ekki skyldurnar. Sektarkenndin hefur í för með sér, að sjálfsskoðun og innsýn inn í ófullkomleika eða galla hefur óheillavænleg áhrif, en veitir ekki frelsi.

Ákveðin manngerð hefur sjálfstæði og frelsi að meginmarkmiði. Það leiðir gjarnan til flótta frá öllum og öllu og ekki síst frá skyldum. Maður af þessari gerð gerir gjarnan uppreisn gegn skyldum, því hann er næmur fyrir allri þvingun. Slík uppreisn getur verið með óvirkum hætti. Allt, sem hann á að gera, vekur dulda reiði og áhugaleysi. Uppreisnin gegn skyldunum getur verið virkari. Þá gerir hann það sem hann vill og þegar honum sýnist. Oft tekur þessi uppreisn á sig þá mynd að barist er gegn öllum ytri takmörkunum.

3.4 ÁHRIF SKYLDUNNAR.

Áhrif skyldunnar á persónuleika manna eru afar mismunandi, þótt viss áhrif séu almennt óhjákvæmileg og reglubundin. Skyldan veldur alltaf streitu, sem verður þeim mun meiri, sem öll hegðun mótast af skyldunni. Sumir einkennast af þrotlausri spennu, en aðrir ótímabærri þreytu. Enn aðrir eru hamlaðir og sérsinna eða óþjálir. Ef svo heppilega vill til, að viðhorf skyldunnar samræmast þjóðfélagsviðhorfum viðkomandi, getur óskynjanleg eða ógreinanleg streita þannig valdið því að hann óskar þess að draga sig í hlé frá skyldum og störfum.

Vegna þess að skyldunni er varpað út, eins og áður er lýst, veldur hún alltaf með einum eða öðrum hætti truflun eða röskun á mannlegum samskiptum. Menn verða t.d. oft ofurnæmir fyrir gagnrýni, og sjá hana þar sem hún er ekki, taka henni illa þó hún sé réttmæt, hvort sem hún er vinsamleg eða óvinsamleg. Aðrir verða mjög dómharðir á allt og alla.

Skyldan brenglar alltaf tilfinningalífið. Óskir, hugsanir og viðhorf mótast allt af henni. Einlægar og upprunalegar tilfinningar eru ekki látnar í ljós. Hæfileikinn til að tjá eigin tilfinningar dvín eða deyr alveg. Við hættum að greina á milli þess sem okkur ætti að finnast og hins, sem okkur finnst í raun. Okkur finnst hlutirnir þá vera, eins og okkur á að finnast þeir vera. Í raun er ekki mögulegt að falsa tilfinningar eða þvinga þær fram, því þá eru þær ekki lengur sannar. Með skyldunni er þó verið að gera slíkt og það sýnist heppnast. Menn verða fyrir nokkru áfalli, þegar þeir uppgötva gervitilfinningar sínar. Mikil óvissa kemur upp, ef menn, sem telja sig þykja vænt um alla, uppgötva að þeim þykir ekki einu sinni vænt um sína nánustu. Þá koma í ljós ótti, grunur og reiði, sem áður hindruðu frjálst flæði tilfinninga. Slík sjálfsskoðun og leit að hinu ósvikna og einlæga er þó mjög jákvæð og flestum er mikill léttir að komast að sannleikanum og sjá innihaldsleysi skylduviðhorfa. Menn verða þó að hafa öðlast nokkra rótfestu í sjálfinu til að standast slíkt frelsi. Miklar breytingar verða á persónuleikanum, þegar gerviviðhorfum er aflétt. Að afklæðast spennitreyju skylduviðhorfa er mikill léttir.

Mest ber á tilbúningi gervitilfinninga hjá þeim, sem hafa góðleika, ást og göfuglyndi að markmiði og sjálfsímynd. Þeir eiga að vera tillitssamir, umburðarlyndir, þakklátir, samúðarfullir, örlátir og velviljaðir. Þeim finnst, sem þeir hafi þessa eiginleika. Þeir tala og hegða sér eins og þeir séu góðir og ástríkir og af því að þeir eru sjálfir sannfærðir um það, sannfærast aðrir um það líka, tímabundið að minnsta kosti. Þeir eru sjálfum sér samkvæmir á meðan þeir eru ekki vefengdir, en þessar jákvæðu tilfinningar hafa ekki dýpt né varanleika og eru hverfular og haldlitlar.

Að sjálfsögðu má ýkja tilfinningar harðlyndis, miskunnarleysis og óbilgirni. Þá eru bældar þær, sem sýna blíðu, samúð og traust á sama hátt og bældar voru þær tilfinningar er sýndu fjandsamlegheit og hefndarhug. Tilfinningalífið verður þá mjög litlaust. Slíkt fólk telur sig eiga að geta lifað án náinna persónusambanda og telur sér trú um, að það þarfnist ekki annarra og að því sé sama um allt og alla. Slíkt tilfinningalíf verður mjög fátæklegt.

Tilfinningatjáningin þarf ekki að vera svo einföld og augljós, sem hér hefur verið lýst. Um miklar andstæður getur einnig verið að ræða. Sumir eru mjög samúðarfullir og tillitssamir eina stundina en aðra stundina miskunnarlausir og harðir. Menn eru þá harðsvíraðir og velviljaðir á víxl. Stundum bæla menn allar óskir og langanir, sem aftur veldur aukinni dulvitaðri kröfugerð og síðan vonbrigðum þegar kröfunum er ekki fullnægt, og því fylgir enn ný ákvörðun um að umbera allt og svo koll af kolli. Málið getur orðið æði flókið að ekki sé meira sagt. Þá flækju verður hver og einn að sjá og greiða úr henni sjálfur.

Við vitum lítið um þann skaða, sem við vinnum okkur tilfinningalega með skyldusjónarmiðum. Við greiðum háan toll fyrir að reyna að móta okkur eftir þessari ímynd fullkomleika. Þegar við setjum okkar tilfinningar undir harðstjórn skyldunnar, skapast óvissa í sálarlífinu, sem hefur mikil áhrif á tengsl okkar við sjálf okkur og aðra. Styrkleika skyldumarkmiðanna er ekki hægt að meta til fulls. Því meir sem við einsetjum okkur að ná markmiðum okkar, þeim mun meiri verður drifkraftur skyldunnar í lífi okkar.

Þótt við uppgötvum skyldumarkmiðin, getum við oftast lítið að gert. Okkur finnst bókstaflega að ekkert myndi gerast, ef við gæfum þau upp á bátinn. Við teljum þvingun meira og minna nauðsynlega. Að þvinga sjálfan sig og aðra sé hreyfiafl hlutanna. Það er ekki fyrr en við uppgötvum önnur öfl í okkur, sem starfa sjálfkrafa, að við getum kvatt skylduna. Í þessu sambandi megum við ekki gleyma mikilvægum þætti, sjálfsásökuninni og sjálfsfyrirlitningunni, sem ég fjalla um síðar í öðru erindi. En ég vil þó benda á hvað við gerum, ef við uppgötvum, að við getum ekki fullnægt skyldusjónarmiðum okkar, t.d. sem fyrirmyndarforeldri. Við ásökum okkur og fyrirlítum. Því er ekki gott að átta sig á hve sterk ítök skyldusjónarmiðin eiga í okkur, án þess að gera sér ljóst hversu samofin þau eru sjálfsásökunum. Sú hótun sjálfsásakanna sem liggur að baki skyldusjónarmiðanna lýsir ógnarstjórn þeirra hvað best.

3.5 NÁNARI SKILGREINING.

Ég minntist hér að framan á dáleiðslu og dásvefn. Skoðum það dálítið nánar. Ákveðinn maður (A) er dáleiddur. Dávaldurinn segir honum, að þegar hann vakni af dásvefninum, fái hann löngun til að kanna peningaveskið sitt en finni þar ekki fimm þúsund krónur, sem hann telji sig hafa verið með. Hann álíti þá að maður, sem viðstaddur er, köllum hann B, hafi stolið peningunum og hann muni reiðast. Honum er líka sagt að gleyma því, að honum hafi verið gefin þessi fyrirmæli í dásvefninum. Við göngum út frá því, að A sé ekki fyrirfram neitt fjandsamlegur B og hann hafi ekki borið fimm þúsund krónur á sér.

A er síðan vakinn af dásvefninum. Eftir stutta stund leitar hann í veskinu og málið þróast stig af stigi og A ásakar B fyrir stuldinn. Þetta gerist mjög eðlilega og með tilheyrandi sannfæringarkrafti. A gengur jafnvel svo langt að rökstyðja ítarlega af hverju B hafi gengið þetta til, þ.e. að stela fénu. Hann er hjartnæmur, þegar hann lýsir tjóni sínu. Nú kemur þriðji maðurinn til aðvífandi, C. Hann veit ekkert um aðdraganda málsins. C er ekki í nokkrum vafa um, að A segi aðeins það sem honum finnst og að hann hugsi svona. Í huga C snýr vafinn aðeins að því, hvort fullyrðingar A eigi við rök að styðjast, þ.e. hvort B hafi stolið frá A í raun. Slíkt hvarflar ekki að þeim, sem fylgst hafa með málinu frá upphafi. Þeir vita, að ekki erum að ræða eigin hugsanir og tilfinningar A, heldur atriði, sem dávaldurinn hafði innprentað honum.

Við vitum að dáleiða má menn til að gera ótrúlegustu hluti. En enginn dáleiðsla er jafn auðveld og sjálfsdáleiðslan. Við höfum hugsanir, tilfinningar og óskir, sem okkur finnst vera okkar eigin, en eru raunverulega komnar utan frá, frá umhverfinu og öðrum. Þegar betur er að gáð eru þær fjarlægar okkur, og alls ekki það sem við hugsum, finnum eða óskum í raun. A vildi fá peninga sína. Hann hélt að þeim hefði verið stolið og brást reiður við. Þó átti ekkert af þessu uppruna í honum sjálfum, heldur allt komið utan frá en honum fannst þetta vera eigin hugsanir sínar, tilfinningar og óskir. Hann bætir að meira segja við, hann réttlætir viðhorf sitt og finnur ástæður fyrir ásökunum sínum. Hann finnur ýmislegt upp til að rökstyðja málstað sinn. Dáleiðslutilraunin sýnir okkur, að þótt við séum sannfærð um að vilji okkar sé frjáls, þá getum við verið undir áhrifum utanaðkomandi afla.

Sannleikurinn er sá, að þessi áhrif eru ekki bundin við dáleiðslu. Margir hafa haldið því fram, að gervivilji sé reglan, en einlægur vilji undantekning. Það, sem við höfum verið að fjalla um í þessum kafla snýr að hugmynd Freuds um superegó og engin tök eru að útlista nánar hér, en engin furða er, þó að sá gamli hafi verið nokkuð svartsýnn. Ég hefi heldur ekki tök á að telja hér upp dæmi um gervihugsanir, gervitilfinningar og gervivilja, en um það hefur verið mikið ritað. Munurinn á Freud og svokölluðum NeoFreudistum er m.a. sá, að Freud hélt að við gætum í mesta lagi áttað okkur á þessu og aðlagað okkur því og e.t.v. eitthvað létt á þessu fargani, en NeoFreudistar telja að kleift sé að uppræta þetta allt. Aldrei má þó gleyma því, að Freud var upphafsmaðurinn og vafalaust mesti snillingurinn.

Þegar í æsku, tökum við mikið tillit til annarra, einkum foreldra. Við höldum þá gjarnan, að hinir fullorðnu hafi rétt að mæla. Þegar við gerum okkar eigin mælistiku á það, hvað er gott eða vont, æskilegt eða óæskilegt o. s. frv., þá tökum við að einhverju leyti að láni mælikvarða annarra. Ef sá mælikvarði er algerlega tekinn utan frá og eigin dómgreind ræður litlu, þá færist þungamiðja sálarlífsins úr sjálfum okkur og yfir til umhverfisins. Þetta hefur samt verið mörgu barninu óhjákvæmilegt og nauðsynlegt. Ekkert rúm er hér til að útlista það, en nefna má að börn kaupa sér frið með því. Sá sem almennt fylgir viðurkenndum þjóðfélagsstöðlum, kemst hjá árekstrum við umhverfið. Meira að segja, telur margur maðurinn sig sýna yfirburði með því að fylgja siðastöðlum stranglega. Hann getur þá dæmt aðra, sem hann telur vera á lægra þroskastigi. Sá sem hefur selt vilja sinn fyrir skyldur, reglur og staðla, hefur e.t.v. enga aðra útleið en að reyna að sigra aðra með yfirburðum í “dyggðum og réttlæti”.

Allri gervimennsku fylgir kvíði, m.a. fyrir því að í gegn um mann verði séð. Allt sem við gerum verður tilgangslaust og leiðigjarnt, ef við gerum það að skyldu. Það er munur á þeirri grímu, sem snýr út og þeim bakgrunni, sem inn snýr. Jung notaði orðið “persóna” yfir þessa grímu. Ótti við vanþóknun annarra situr þá í fyrirrúmi. Við getum heldur ekkert gert við því, þótt við höfum innbyrt mikið af gervisiðferði. En minnumst þess, sem William James sagði: “Að gefa sýndarmennsku upp á bátinn er jafnmikill léttir og að fá henni fullnægt.”

Skyldan er alltaf í eðli sínu skaðleg, því hún setur okkur í spennitreyju og rænir okkur innra frelsi. Ef okkur tekst að móta okkur til fullkominnar hegðunar, gerum við það alltaf á kostnað frjáls vilja, ósvikinna tilfinninga og upprunalegra eða trúverðugra óska okkar. Markmið skyldusjónarmiða er útrýming einstaklingsins eða sjálfsins. Gildir um þetta ekki ósvipað og þegar þjóðir búa við pólitíska harðstjórn. Andrúmsloftinu er t.d. vel lýst í bókinni “1984″ eftir George Orwell, þar sem öll sjálfstæð hugsun og tilfinningar liggja undir grun. Krafist er skilyrðislausrar hlýðni, sem engum finnst þó vera hlýðni. Þegar um er að ræða pólitíska harðstjórn, þá reyna menn öll ráð til að komast hjá henni. Menn sýna þá tvöfeldni, sem þeim er þó alveg ljós. Aftur á móti þegar um er að ræða hina innri harðstjórn, þá er hún ómeðvituð, og tvöfeldnin ber keim af uppgerð og tilbúningi, þ.e. einkenni hennar er ómeðvituð sjálfsblekking.

Ég mun síðar ræða um afleiðingar þess, að skyldunni er ekki hlýtt, þ.e. um sjálfsásakanir og sjálfsfyrirlitningu. Sú ógnun er ekki síður mikilvæg en sú hlið málsins, sem ég hefi lýst í þessum þætti. Skyldunni hefur í þessu tilliti verið líkt við byssumann, sem hótar að skjóta, ef viðkomandi lætur ekki eigur sínar af hendi. Hótun byssumannsins er þó mildari að því leyti, að viðkomandi getur bjargað sér með því að verða við óskum byssumannsins, en skyldunum verður aldrei fullnægt. Að vera skotinn og liggja dauður er léttara en að þjást ævilangt vegna sjálfsásakana og sjálfsfyrirlitningar.

Eins og ég hefi rakið áður er skyldumarkmiðunum ætlað að móta okkur eftir hinni fullkomnu ímynd eða þvinga okkur til að ná markmiðum dyggða, siðferðis og fullkomnunar. Við ætlum okkur að láta ófullkomleikann hverfa með ákvörðunum okkar og viljastyrk og láta líta svo út sem markmiðunum og sjálfsímyndinni sé náð. Það er því ljóst, að við losnum ekki við skylduna nema einungis með því að varpa frá okkur þessari sjálfsímynd og markmiðum eða a.m.k. hætta að tileinka okkur þau og gera þau að hluta af okkur. Við getum aldrei mótað okkur í hina fullkomnu mynd. Við getum aðeins fullkomnað okkur með því að nálgast Sjálf okkar með því að draga úr áhrifum viðhorfa, markmiða og sjónarmiða, þ.e. með því að starfa í samræmi við innsta eðli, sjálfkrafa og án þvingunar.

Að lokum ætla ég að leyfa mér að fara með 38. vers úr Bókinni um veginn, þ.e. Tao te king, sem rituð er eftir Lao Tse í þýðingu Jakobs J. Smára og Yngva Jóhannessonar, sem heitir “Manngildi og siðir”: “Hin æðri dyggð ljómar ekki, og það er ágæti hennar. Hin óæðri dyggð hreykir sér og er þess vegna lítils verð. Hin æðri dyggð starfar ósjálfrátt og þarf ekki að halda sér á lofti. Hin óæðri dyggð sér sinn hag og vill láta á sér bera. Hin æðri ástúð starfar og er ósérplægin. Réttlætið starfar, en sér einnig sinn hag, þótt það sé göfugt. Siðir og venjur færast mikið í fang, en eru sífellt á stjái og ryðja sér til rúms með ofbeldi, ef þeim er ekki viðtaka veitt. Þess vegna er ekki unnt að draga dul á, að þegar Alvaldið hverfur, kemur dyggðin í ljós. Þegar dyggðin er horfin, er ástúðin eftir. Þegar ástúðin missist, kemur réttlætið til sögunnar. þegar réttlætið er farið veg allrar veraldar, setjast siðir og venjur að völdum. Siðir og venjur eru aðeins skugginn af sannri sæmd og eru undanfari óeirða. Grunnfærninn eltir vafurlogann og er upphaf heimsku. Sannarlegt mikilmenni reisir á traustum grundvelli og fer ekki eftir yfirborðsgljáa. Hann hirðir ávöxtinn, en ekki blómið. Hann fleygir hisminu, en hirðir kjarnan.”