II KRAFAN

2.0 INNGANGUR.

2.1 KRAFAN Á HIÐ YTRA.

2.2 EINKENNI KRÖFUNNAR.

2.3 EÐLI KRÖFUNNAR.

2.4 REIÐIN.

2.5 ÁHRIF KRÖFUNNAR.

2.6 HLUTVERK KRÖFUNNAR.

2.7 TVÆR LEIÐIR.

2.8 UM HUGMYNDAFLUGIÐ.

2.9 FRJÁLS VILJI EÐA KNÝJANDI NAUÐSYN.

2.0 INNGANGUR.

Þessi þáttur fjallar um það, hvernig sjálfsmyndin og markmið hugans verka gagnvart hinum ytra heimi. Hvernig reynt er að ná markmiðum og sjálfsmynd gagnvart hinum ytra heimi með kröfugerð. Hvernig maðurinn lifir í heimi eigin ímyndunar rétt eins og hann þurfi ekki að hlíta lögmálum veruleikans og hvernig hann gerir aðra eða umhverfið ábyrga fyrir eigin mistökum sínum.

Í Handbók Epiktets, hins gríska heimspekings, sem dr. Broddi Jóhannesson, íslenskaði, segir svo í upphafi: “Sumt í þessum heimi er á valdi voru, en annað ekki. Hugmyndir, fýsnir, ílöngun og andúð eru á valdi voru. Í fám orðum sagt, allt, sem er vort eigið verk. Líkami vor, fjármunir, virðing og sýsla eru ekki á valdi voru. Í fám orðum sagt, allt, sem er ekki vort eigið verk. Það sem er á valdi voru, er í eðli sínu frjálst, haftalaust og óhindrað. Hitt, sem er ekki á valdi voru, er vanmátta, þrælkað, heft og háð öðrum. Minnstu því, að ef þú hyggur það vera frjálst, sem er ófrjálst í eðli sínu, og ef þú ætlar þér vald á því, sem annarra er, þá hlýtur þú andstreymi af, þjáningu og eirðarleysi og ámælir bæði Guði og mönnum. En ef þú telur þig eiga það eitt, sem þú átt, og annarra efni vera þér óskyld, svo sem þau eru í raun, þá mun enginn geta þröngvað kosti þínum, enginn standa gegn þér, þú munt engan fjandmann eiga, því að ekkert getur vakið þér þjáningu. Ef hugur þinn stendur til svo hárra hluta, þá gerðu þér ljóst, að þú munt ekki aðeins þurfa að leggja þig hóflega fram, heldur hafna ýmsu með öllu, en neita þér um margt um stundarsakir. En ef þú sælist jafnframt eftir því, hvort heldur það er metorð eða auðæfi, þá öðlast þú þau jafnvel ekki, þar sem þú girnist hitt að auki. Að minnsta kosti muntu fara á mis við það, er eitt veitir frelsi og hamingju. Kappkosta þú því að segja við sérhverri ógeðfelldri hugmynd: Þú ert hugarburður einn, en ekki það, sem þú sýnist vera. Því næst skaltu rannsaka hana og prófa með þeim reglum, sem þú hefur tamið þér, en einkum þeirri meginreglu, hvort hugmyndin á við það, sem er á valdi voru, eða ekki. Ef hún á við það, sem er ekki á valdi voru, þá skaltu hafa svarið á takteinum: Þetta kemur mér ekki við”.

Hugurinn sér hina fjarlægustu og takmarkalausu möguleika. Markmið eru sett og æskileg sjálfsmynd búin til. Á hinn bóginn hafa upplag okkar og umhverfi sett sín takmörk. Veruleikinn er oft í litlu samræmi við óskir okkar og kröfur. Segja má, að um tvær veraldir sé að ræða, innri veröld og ytri, sem engan veginn eiga saman. Eins og einhver sagði: “Ef raunveruleikinn truflaði mig ekki, væri allt í lagi”. Við gleymum því oft, að önnur veröldin er óháð okkur og þar höfum við engin yfirráð, en hin er okkar eigin tilbúningur. Innri veröldinni má breyta. Yfir hinni ytri höfum við lítið vald. Einn mesti þröskuldur í mannlegum þroska er einmitt sá, að þessar staðreyndir eru ekki viðurkenndar heldur er þeim afneitað.

2.1 KRAFAN Á HIÐ YTRA.

Við höfum öll okkar takmarkanir og réðum litlu um þá staðreynd. Við réðum ekki upplagi okkar né umhverfi. Við eigum öll við erfiðleika að etja. Hugsun og viðhorf hafa alltaf fólgna í sér erfiðleika, og synd væri að segja, að hin ytri veröld taki okkur sem guði. Við gerum sífellt villur og axarsköft. Við erum ýmist vanvirt eða okkur er sýnd lítil virðing. Við fáum aldrei það sem við viljum. Ýmist er það óhollt, ósiðlegt eða ólöglegt, eins og Churchill komst að orði. Hamingjan er fallvölt. Það sem við hugsum og gerum hefur oft rangar eða slæmar afleiðingar. Að viðurkenna þetta ekki er að afneita lögmálum hugsunar og tilfinninga.

En svo virðist sem við ætlumst til þess, að þetta sé öðruvísi. Við gerum kröfu til þess. Þeirri kröfu verður aldrei fullnægt. Í stað þess að sætta sig við þá staðreynd í eitt skipti fyrir öll, lifum við sífellt í voninni um betri tíð með blóm í haga. Og vissulega getur komið batnandi tíð. En hún kemur ekki hið ytra. Aðeins hið innra.

Í Handbók Epiktets 5. kafla segir: “Ekki eru það atburðirnir sjálfir, sem áhyggjum valda, heldur horf manna við þeim. Dauðinn er t.d. ekki skelfilegur, ella hefði hann einnig komið Sókratesi þannig fyrir sjónir. Skelfileg er einungis sú skoðun, að dauðinn sé skelfilegur. Ef eitthvað hamlar oss, raskar hugarró vorri eða hryggir oss, þá skyldum vér engan annan sakfella en oss sjálf, þ.e.a.s. viðhorf sjálfra vor. Vanþroska maður þekkist af því, að hann sakar aðra um, ef honum farnast miður. Sá, sem áfellist sjálfan sig, er kominn nokkuð áleiðis, en sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum”. Í 20. kafla segir: ” Minnstu þess, að sá svívirðir þig ekki, er hæðir þig eða slær, heldur viðhorf þitt, að þér sé svívirða í slíku. Ef einhver reitir þig til reiði, þá vit, að hugmynd sjálfs þín ein ertir þig. Gæt þess því fyrst, að láta enga hugmynd þína æsa þig. En ef þú hefur stillt þig einu sinni og gefið þér tóm til íhugunar, mun þér síðar verða hægara að stjórna skapi þínu”.

Svo dæmi séu tekin, þá gerum við kröfur á aðra, á stofnanir og þjóðfélagið og jafnvel á lífið sjálft. Þeir, sem alltaf þurfa að hafa rétt fyrir sér, gera kröfu til að vera ekki gagnrýndir eða vefengdir. Þeir, sem sækjast eftir völdum krefjast hlýðni. Þeim, sem gaman hafa af að stríða öðrum eða spila með þá, má aldrei stríða eða gabba. Aðrir heimta skilning eða ást. Sumir heimta frið og að fá að vera ótruflaðir. Gagnvart stofnunum vilja menn njóta hins hagstæða, sem þær hafa að bjóða, en reiðast, gerist hið gagnstæða. Svo merkilegt sem það er, þá hringdi síminn, á meðan ég var að skrifa þetta á skrifstofunni. Í símanum var sonur minn. Hann hafði lokað sig úti ásamt systur sinni og höfðu þau gleymt lyklunum heima. Það fauk aðeins í mig, að vera ónáðaður og þurfa að aka spölkorn í bíl mínum vegna gleymsku barnanna. Mér fannst ég geta gert þá kröfu til þeirra, að þau myndu eftir húslyklunum, þegar þau færu út. Ekki var það óeðlileg ósk. En krafa um, að slík gleymska kæmi ekki fyrir þau, var nokkuð stíf. Sjálfan mig, spurði ég: Var ég ekki gleyminn? Var þetta ekki krafa um að verða ekki ónáðaður og fá að nýta tímann sem best, án þess að því væri spillt af öðrum? Gat ég ætlast til þess? Átti ég algera heimtingu á því? Ekki breytti ég þessum staðreyndum með skapvonsku minni. Eigin viðhorfi gæti ég breytt. Í stað þess að koma yggldur á brún, eins og börnin áttu von á, kom ég hlægjandi til þeirra með lyklana.

Sumir þola ekki umferðarreglur, aðrir ekki próf og enn aðrir ekki lélega tónlist. En við getum aldrei orðið undantekning, en einmitt mjög margar kröfur ganga út á það. Lífið og lögmálin taka jafnan til okkar, hvort sem okkur þykir ljúft eða leitt. Ef við erum stolt, er auðvelt að særa okkur. Ef við höfum enga væntumþykju gagnvart okkur sjálfum, trúum við ekki að aðrir hafi það. Ef við ætlum að ná árangri, verðum við leggja í það vinnu og orku o.s.frv. Í heimi hlutveruleikans, þar sem ég er ég, gildir lögmál orsaka og afleiðinga og við komumst aldrei hjá því. Við erum öll háð sömu náttúrulögmálum og verðum sjálf að breyta okkur sjálfum, ef nokkur árangur á að nást. Enginn er undanþeginn.

Við gerum jafnvel kröfu á lífið sjálft. Lífið er ótryggt og afar takmarkað. Örlögin eru fallvölt. Við getum alltaf orðið fyrir ógæfu, slysi, veikindum og dauða. Og við getum ekkert við því gert eða afar lítið. Við getum ekki krafist lífs, sem er þægilegt og þjáningalaust. Við erum ekki friðhelg eða hin útvöldu. Við getum látið eins og ekkert snerti okkur, eða muni koma fyrir okkur, en svo verðum við fyrir áfalli og brotnum saman. Þá reynum við kannski að gera allar hugsanlegar varúðarráðstafanir. Því krafan á örlögin er ekki lögð niður. Sumum finnst líka ósanngjarnt, að einmitt þeir eigi við tiltekna erfiðleika að etja, en ekki aðrir. En slík krafa á lífið og örlögin er tilgangslaus og á meðan við ekki sjáum það og enn síður upplifum það tilfinningalega, viðhöldum við kvíða, ótta, spennu og hamingjuleysi.

Það væri að æra óstöðugan að telja upp þær kröfur, sem menn gera til annarra, hvort sem þeir eru persónulegir og ópersónulegir aðilar eða lífið og örlögin. Ég vil því, áður en ég byrja að ræða eðli þessara krafna, vitna í Handbók Epiktets, 14. kafla, þar sem segir: “Fávís ertu, ef þú kýst, að börn þín, kona þín og vinir lifi um aldur og ævi, því að þá kýst þú þér vald á hlutum, sem þú átt engin ráð á, og vilt eiga það sem annarra er. Heimskur ertu einnig þá, er þú kýst, að þjóni þínum verði engar yfirsjónir á, því að þá kýst þú, að breyskleikinn sé ekki breyskleiki, heldur eitthvað annað. En ef þú kýst, að ílöngun þín valdi þér ekki vonbrigðum, máttu ráða því. Þjálfaðu þig í því, sem er á valdi þínu. Öllum fremri er sá, er ræður því, hvað hann girnist og hverju hann hafnar, og kann lag á að öðlast annað, en forðast hitt. Sá, er frjáls kýs að vera, má ekkert girnast og ekkert fælast, sem er á valdi annarra, því að ella hlýtur hann að varða þræll þess”.

2.2 EINKENNI KRÖFUNNAR.

Í fyrsta lagi er krafan hugræn, því hún er einungis til í huganum. Yfirleitt er ekki spurt að því, hvort kleift sé að uppfylla hana. Þetta er augljóst, er menn vilja ekki verða gamlir, veikjast eða deyja. Sá sem tekur að sér að halda erindi í Guðspekifélaginu og ætlast til að það sé einföld og létt vinna að undirbúa það, er í sömu stöðu og alkóhólisti, sem ætlast til að allir hjálpi sér. Í hvorugu tilvikinu er hugsað til staðreynda, þ.e. hvaða möguleiki sé fyrir hendi.

Í öðru lagi er augljós eigingirnin og tillitsleysið gagnvart öðrum og tilfinningum þeirra. Gleymska barna minna var í lagi, en ekki þegar ég átti í hlut. Mínar þarfir eru minn raunveruleiki, annarra þarfir óljósar.

Í þriðja lagi er búist við, að hlutirnir gerist án þess að neitt sé á sig lagt. Einmana manneskja ætlast til að aðrir hringi til sín eða heimsæki sig, í stað þess sjálf að gera slíkt hið sama gagnvart öðrum. Hækka á mann í stöðu án þess að hann hafi til þess unnið o. s. frv. Menn ætlast til að fá hlutina upp í hendur sjálfkrafa án erfiðis. Hamingjuna á að færa þeim á silfurfati.

Í fjórða lagi er svo hefndarhugurinn. Um sigur og hefnd verður fjallað síðar. En menn réttlæta kröfur sínar oft með því, að þeim hafi verið gert rangt til og því beri þeim að fá það bætt. Mest er þetta óafvitað og þá er gjarnan vísað í huganum til einhvers, sem gerði manni gramt í geði eða olli þjáningu. Geta menn þá orðið mjög herskáir og harðsnúnir í fylgi sínu við eigin málstað.

Sagt hefur verið, að allt hið ytra sýni einstaklingnum, að hann sé ekkert, en allt hið innra sannfæri hann um að hann sé allt. Því meira, sem ímyndunarafl mannsins ræður viðhorfi, þeim mun meira verður líf hans og hann sjálfur, eins og hann þarf að sjá sig og þá verður hann lítið var við eigin kröfur. Hann verður aldrei veikur, fær alltaf gott veður í sumarleyfinu o.s.frv. Öðrum er ljóst, að hann gerir kröfur, en hann réttlætir þær. Honum finnst kröfurnar aldrei óeðlilegar eða óskynsamlegar. Sá sem fer úr góðu og vellaunuðu starfi, telur sig e.t.v. hafa óvenjulegt sjálfstraust, en einnig getur verið um að ræða kröfu um að hafa heppnina og örlögin með sér. Stundum smella kröfur svo vel saman, að enginn verður var við þær. Kona, sem finnur sig hjálparlausa og þjáða, krefst athygli og umönnunar. Karlmaðurinn finnur til sektarkenndar, ef hann uppfyllir ekki allar kröfur konunnar og finnur til sín fyrir að vera verndari hennar og hjálparmaður og fær þannig þeirri kröfu sinni fullnægt.

Kröfur á aðra eru jafnan réttlættar með ýmsum hætti. Að minnsta kosti telur viðkomandi þær aldrei órökstuddar eða ástæðulausar. Annað væri upphafið að grafa undan þeim. Oftast er verðleikum teflt fram, siðvenju stundum, t.d. af því að ég er í þessari stöðu, vinnuveitandi, karl eða kona, móðir þín o. s. frv. Vegna sérstöðu minnar ber þér að gera þetta fyrir mig. Ef við felum öðrum að gera það, sem við erum of óframfærin til að gera sjálf, leiðir það ósjálfrátt til þess að hjálparleysi okkar magnast.

Réttlætið getur stundum gengið nokkuð langt. Til dæmis af því að ég hefi alltaf verið góður og gegn borgari, þá á ekkert mótdrægt eða fjandsamlegt að henda mig. Sumir halda, að dyggð fylgi jafnan umbun eða laun, enda þótt þeir rekist sífellt á sannanir fyrir hinu gagnstæða. Krafan um að hinum dyggðugu sé jafnan launað, er gerð að nokkurs konar “heimspekistefnu”. Og menn snúa þessu við. Kannski vilja til dæmis hinir atvinnulausu raunverulega ekki vinna og eiga því hlutskipti sitt skilið. Og menn vilja að sjálfsögðu fá greiða fyrir greiða og ýkja þá jafnan í huga sér eigin greiða. Því meiri sem hefndarhugurinn er, þeim mun meira verður óréttlætið, sem þeim hefur verið gert. Og svona mætti lengi telja.

Að sjálfsögðu verður að standa fast á kröfum gagnvart öðru fólki, þar sem örlögin og lífið sveigja ekkert af gagnvart slíkum kröfum. Nota menn ýmis óafvituð brögð til þess. Sumir reyna að vekja aðdáun annarra með mikilvægi sínu. Aðrir reyna að geðjast öðrum, heilla þá eða lofa. Enn aðrir vekja samúð gagnvart sér og erfiðleikum sínum, beita hótunum o. s. frv.

Nú held ég því alls ekki fram að við eigum ekki að halda fast á okkar hlut. Auðvitað eigum við að fylgja óskum okkar eftir í einu og öllu. Við eigum að vera ófeimin við að láta hug okkar í ljós og standa á rétti okkar. Í sálfræði nútímans er einmitt mjög áberandi, hve fólk er upplýst um og æft í að ná sínu fram og yfirstíga hömlur og hræðslu við það að vera ekki steypt í sama mót og aðrir. Minn boðskapur er ekki undirlægjuháttur og hömlur, ótti við að vera eigingjarn, áberandi eða fjandsamlegur. Innri bönn og uppgerðarhógværð, sem setja hömlur á víkkun persónuleikans eru skaðleg. Við verðum að hafa hæfileika til að berjast fyrir hagsmunum okkar og verja þá í heimi, þar sem ég er ég. Annað er óraunhæft. Eðlilegt sjálfstraust og sjálfsálit er óhugsandi, ef hömlur eru miklar og menn minnka sjálfa sig og biðjast afsökunar á sér. Þessu sjónarmiði verða gerð nánari skil síðar. Margir sálfræðingar, meðal annars íslenskir, leggja mikið upp úr æfingum í að halda fast á sínum málum. Það eru líka gömul sannindi, að til að vita hvað í okkur býr, verðum við að upplifa það og fá útrás á því. Með því að æfa sig í ágengni, áleitni og annarri árásargirni, opnar maður ýmsar hliðar persónuleikans, sem áður voru bældar. Mönnum er oft mikill sálrænn léttir að veita útrás reiði sinni og ýgi.

En hvað er þá verið að fara? Er ég að segja, að við eigum annars vegar að ganga um eins og úlfar og frekjuhundar og hins vegar að gera alls engar kröfur til annarra? Í fljótu bragði gæti sýnst svo. Við verðum því að átta okkur á því, hvar við erum stödd í sólkerfinu. Vil ég nú víkja að því.

2.3 EÐLI KRÖFUNNAR.

Sú þverstæða, að kröfur og áleitni, séu annars vegar eðlilegar og hins vegar óeðlilegar, vafðist fyrir mér allgóðan tíma fyrir nokkrum árum. En málið skýrðist smátt og smátt. Í fyrsta lagi er eitt að hafa kröfur og annað að vera ófeiminn að láta þær í ljós. Oftast er farsælla að láta kröfur í ljós en bæla þær. Með því verður um að ræða minni fölsun á veruleikanum gagnvart sjálfum sér. Sálfræðingar mæla með því, að menn setji kröfur sínar fram en bæli þær ekki. Með því fæst viss andleg hreingerning og yfirleitt meira andlegt frelsi. Sumir freudistar hafa kallað þetta “liberation of aggression”.

En þetta skýrir ekki að fullu af hverju æskilegt er að sýna kröfur og vera með útblástur. Fleira kemur til. Ekki gengur lengi í þessum heimi að vera einhver engill og já maður. Sagt hefur verið, að sá sem er óhræddur við hvort tveggja í senn, að slást og elska, sé frjáls maður. Mikið er til í því. En margt af því, sem við köllum hógværð, er ekki hin sanna hógværð hjartans, sem Páll postuli boðaði, heldur hræðsla, kvíði og sjálfsfyrirlitning. Í öðrum tilvikum er hógværðin ásetningur og markmið, og eins og ég sagði áður, þá eru sumir stoltir af hógværð sinni, enda þótt hógværð og stolt geti aldrei samþýðist í raun, heldur aðeins í hugsun og lógík. Þegar menn ásetja sér að vera hógværir, ósíngjarnir og göfugir, eru þeir oft að snúast gegn sjálfum sér, af því að þeir gera þetta að markmiði og móta sig að þessu, en meina það ekki í hjarta sínu. Öll slík uppgerð er tilgangslaus og einungis sýndarmennska. Hógværðin er þá sprottin af veikleika, en raunveruleg hógværð er styrkleiki. Hógvær maður er jafnframt ekki hræddur við bardaga.

Og það sem meira er, þeir sem gerast hógværir fyrir hræðslu sakir, gera engu minni kröfur en aðrir og þá meina ég þær kröfur, sem þessi þáttur fjallar um. Þeir gera einungis aðrar kröfur. Þeir heimta samúð, hjálp, tillitssemi, þakklæti og ást og þeir hafa þörf fyrir að vera virtir og meta mikils að aðrir þarfnist þeirra. Lausnin er þannig ekki í þeim sjálfum, heldur öðrum. Þessar kröfur á umhverfið eru engu betri en aðrar, þótt þær séu ekki fólgnar í ágengni eða ýgi. Þær kröfur, þ.e. ágengnin og ýgin eru aðeins bældar.

En þetta skýrir ekki mikið. Hvenær er eðlilegt að vera með kröfur og útblástur og hvenær ekki? Svarið við því er, að málið snýst ekki um það, hvort við eigum að láta kröfur í ljósi eða ekki, heldur hvort við höfum þær eða ekki. Eitt er að rétta úr gervihógværð, annað er að losna við þær kröfur, sem hér er um að ræða. En eiga þá engar kröfur rétt á sér?

Ljóst er, að gróðurinn vex sjálfkrafa upp á við. Fuglinn étur orminn. Útþensla og árásarhneigð er eitt eðli náttúrunnar. Það gerir málið flóknara að hið gagnstæða, þ.e. umhyggjan, ástúðin, hógværðin eru einnig náttúrueðli. Raunverulega er þetta einfalt, en hugurinn sem gerir þetta flókið. Þegar hugurinn er annars vegar, rekumst við sífellt á óleysanlegar þverstæður. Þetta er ein þeirra. Þá er einnig ljóst, að hugurinn er hugsanir og að innan hugans verðum við að hlíta lögmálum hugsananna. Kristur sagði “Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er og guði það, sem guðs er.” Í heimi hlutveruleikans verðum við að hlíta lögmálum orsaka og afleiðinga og öðru sem hlutveruleikanum tilheyrir. Þessi hugarins tilvist hlítir rökréttum lögmálum, sem ganga að vísu aldrei upp, en eru ævinlega virk. Því má spyrja: Eru vissar kröfur óeðlilegar og aðrar eðlilegar?

Það sem skilur á milli feigs og ófeigs í þessum málum er þetta: Kröfur, sem koma af sjálfsímynd og markmiðum, eru óeðlilegar og einungis tilbúningur. Þær valda kvíða og þjáningu. Við sitjum ætið uppi með þær sem afleiðingu hugsana og tilfinninga. En við getum komið auga á tilbúning þeirra. Og við getum upprætt þær og gert óskaðlegar eftir að hafa séð fánýti þeirra og innihaldsleysi, séð hversu óþarfar þær eru, og þjóna markmiðum gagnstæðum lífinu sjálfu. Einkum þó þegar við sjáum, hvernig þær þjóna egóinu og hindra okkur á leið til þroska. Aðrar kröfur koma ósjálfrátt og frjálslega og samrýmast eðli náttúrunnar. Þær eru í raun aldrei neinar kröfur og menn eru frjálsir af að velja eða hafna því sem í þeim býr. Valið er á milli þess sem er þvingun eða hins sem gerist af sjálfsdáðum, á milli markmiða, ímyndaðrar dýrðar eða sjálfkrafa þróunar lífsins, á milli ímyndunar þess sem sýnist eða sannleikans, á milli framtíðar eða þess sem gerist á líðandi stund.

Skal nú reynt að gera ítarlegri grein fyrir þessum sjónarmiðum, því eðlismunur er á náttúrulegum óskum og þeim kröfum, sem hér er fjallað um.

2.4 REIÐIN.

Grundvallarmunur er á leið “ég-sins” (egósins) og leið Sjálfsins eða persónulegs þroska. Því skal hér rætt nánar um hlutverk kröfunnar, viðbrögðin, þegar orðið er við henni, áhrif hennar á persónuleikann og hve fast maðurinn heldur í kröfuna. Skýrast þá andstæðar leiðir ég-sins (egósins) annars vegar og Sjálfsins eða persónulegs þroska hins vegar.

Þegar kröfum manna er ekki fullnægt, verða þeir gramir og jafnvel reiðast. Sumir sálfræðingar hafa haldið því fram, að maðurinn bregðist við með fjandskap, verði hann vonsvikinn. Þetta er hins vegar ekki rétt. Hægt er að verða fyrir miklum vonbrigðum án þess að reiðast. Maður reiðist einungis ef honum finnst að farið sé ósæmilega með hann, óheiðarlega, eða með ósanngirni. En það er einmitt einkenni þeirrar kröfu, sem ég ræði hér um, að mönnum finnst illa með sig farið, og þeir bregðast reiðir við. Misgjörðin er jafnvel ýkt, þannig að sá, sem gerir á hlut manns, er talinn fyrirlitlegur, grimmur, illgjarn eða ekki á hann að treysta. Við aukum á grunsemdir okkar gagnvart honum, og leiðir það venjulega aðeins til aukins öryggisleysis fyrir okkur sjálf. Oft er þessi reiði bæld og við verðum hennar jafnvel ekki vör. Sumir hefna sín strax og útdeila sínu réttlæti. Aðrir fyllast sjálfsmeðaumkun, verða særðir og þeim finnst þeir beittir rangsleitni. Verða þeir jafnvel hugsjúkir og segja sem svo: “Hvernig gátu þeir gert mér þetta?” Auðveldara er að sjá þetta hjá öðrum en sjálfum sér einfaldlega vegna þess, hve oft eigin réttlæting kemur í veg fyrir sjálfsskoðun.

Þegar við reiðumst óeðlilega, skyldum við athuga okkar gang. Sérstaklega þegar okkur finnst aðrir fyrirlitlegir eða illgjarnir eða við beitt ranglæti og viljum svara eftirminnilega fyrir okkur eða taka í lurginn á þeim sem hlut á að máli. Ef við finnum, að reiðin er meiri en efni standa til, er nauðsynlegt að athuga, hvort ekki leynist krafa undir niðri. Ef við vitum, hverju við sækjumst eftir og hvernig við reiðumst, er þetta ekki erfitt verk.

Mig langar í þessu sambandi að nefna dálítið tæknibragð. Eins og ég sagði í fyrsta þætti, þá erum við á valdi þess, sem við samsömum okkur. Þetta er ekki aðeins sálfræði, heldur eitt meginviðhorf atman-vedanta heimspekinnar. Ramana Maharsi ráðleggur mönnum að spyrja sig: “hver er ég?” Þetta er m.a. notað til hugleiðslu. Ein slík hugleiðsluaðferð í anda atman-traditionarinnar er eins konar aðskilnaðaraðferð. Hún er fólgin í því, að skilja sig frá einstökum þáttum persónuleikans og sjálfsmyndum í honum. Að segja t.d. ég hef líkama, en ég er ekki líkaminn, ég skynja, en ég er ekki skynjanirnar, ég er ekki tilfinningarnar, hugsanirnar o.s.frv. Það sem eftir stendur, sem ekkert er, er sjálfið eða atman. Zen Buddhistar kalla það hreina eða tæra vitund.

Afbrigði af þessari tækni mætti kalla ópersónulega athygli, sem er í sjálfu sér sama eðlis og aðskilnaðaraðferðin. Hún byggir á því sjónarmiði, að oft sé óæskilegt að bregðast við of skjótt, þ.e. á því augabragði, sem skyndileg hugdetta eða löngun eða þörf til athafnar gerir vart við sig. Skyndihvöt eða áköf tilfinningaleg upplifun getur oft haft skaðleg áhrif, sem maður iðrast síðar. Þá er betur heima setið en af stað farið. Þess vegna er reynt að læra að temja sér að setja inn á milli hugarins og aðgerðarinnar ákveðið íhugunar eða umhugsunarþrep, þar sem staðan er metin og skyndihvötin athuguð, einkum til þess að leita uppruna hennar og grunns. Ef viðkomandi fær grun um, að ekki sé allt með felldu, er málið tekið til frekari íhugunar. Allavega er skyndihvötin tekin undir stjórn og ekki látin sigla sinn sjó, nema undir stjórn hugans, sem verður þó að vera með þeim hætti, að skyndihvötin sé aldrei bæld. Ef hún, að athuguðu máli á rétt á sér, er hún látin fá útrás undir stjórn. Mjög mikilvægt er, að ekkert sé bælt, aðeins athugað og sett undir stjórn. Stjórn án bælingar er kjarni þessarar aðferðar. Bæling veldur því, að ekkert að gerist. Aðeins er veittur frestur í stuttan tíma. Með þessu vinnst margt. T.d. verða menn varir við tilhneigingar, tilfinningar og viðhorf, sem var áður óafvitað. Kleift er að stjórna orkunni og nýta hana, auk þess að tjá sig með áhrifameiri og jákvæðari hætti en áður.

Trú á eigin réttsýni og réttlæting hindrar oft sjálfsskoðun. En ef við finnum óeðlilega sterk viðbrögð gagnvart óréttlæti, sem við erum beitt, þá er rétt að kanna málið. Auðvitað höfum við ekki losnað við egoið, þótt við uppgötvum eina og eina óeðlilega kröfu, en hvert skref færir okkur nær frelsinu.

2.5 ÁHRIF KRÖFUNNAR.

Sá, sem býr við kröfur á umhverfið, verður alltaf meira eða minna óánægður og vonsvikinn, þótt fleira stuðli jafnan að slíku. Menn einblína gjarnan á það, sem þá skortir eða það sem reynist erfitt. Þeir verða óánægðir með allt og alla og telja sig svartsýna að eðlisfari. Ekki hefur ræst úr einhverju barnanna sem skyldi. Þeir njóta e.t.v. ekki ferðalags í góðu veðri, af því einhver bílstjóri plataði þá um 1000 krónur. Þessir hlutir verða svo fyrirferðamiklir í huganum, að hætt er að meta hið góða. Sumum finnst undarlegt, hve þeir horfa sífellt á hinar dökku hliðar mannlífsins.

Þótt erfiðleikar lífsins séu miklir, verða þeir sýnu meiri, meðan búið er við þessi viðhorf. Erfiðleikarnir aukast, ef við teljum þá ósanngjarna. Þetta tekur t.d. til vinnu. Ef okkur finnst vinnan ósanngjörn, verður hún margfalt erfiðari. Einnig ef við ætlumst til að hún sé létt. Við missum hæfileikann til að mæta erfiðleikum lífsins. Alvarleg reynsla, sem brýtur okkur niður er sjaldgæf. En smáatvik geta komið okkur í uppnám eða orðið meiriháttar ógæfa. Svo er gjarnan litið til bjartra hliða hjá öðrum. Hann á stærra hús, efnilegri börn, hann þénar meira, er hærra settur o.s.frv. Þótt þetta sé augljóst, eigum við erfitt með að viðurkenna það sjálf. Okkur finnst svo raunverulegt, þetta sem okkur vanhagar um og aðrir hafa. En bókhaldið er villandi, því heildin er ekki borin saman. Um er að ræða tilfinningalega blindu, sem skapar öfund og tilfinningaleysi gagnvart öðrum, gagnvart lífinu í heild. Stundum finnst mönnum þeir vera útilokaðir frá öðrum og öðru, vera einmana og yfirgefnir. Vonleysi breiðist yfir persónuleikann. Hví skyldu aðrir, sem búa við betri kjör en hann, vænta einhvers frá honum. Kröfurnar verða fastari í sessi.

Vegna krafna verða menn einnig óöruggir um rétt sinn. Menn sem eru uppfullir af kröfum á lífið, eru oft jafnframt feimnir, hemlaðir og hikandi við að standa á rétti sínum. Þetta getur gengið svo langt, að þeim finnst þeir vera meira og minna réttlausir. Þeir sjá ekki sínar eigin kröfur. Þetta á einkum við um þá, sem ganga upp í því að vera hógværir og geðjast öðrum, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þeirra kröfum er lýst hér að framan (2.3 Eðli kröfunnar).

Miklar kröfur leiða til aðgerðarleysis. Þær lama athafnaþörf. Á hinn bóginn getur viljandi iðjuleysi verið hvíld og skemmtun. Sú tegund aðgerðarleysis, sem leiðir af kröfum, stafar af sálrænni lömun. Viðkomandi aðhefst lítið, hugsar lítið. Viðhorf hans mótast af kröfum hans. Raunverulega verða kröfur almennt til þess, að viðkomandi reynir ekki að leysa vandamál sín. Þær lama hann þannig sálrænt. Þær stuðla að allsherjar andúð á allri viðleitni. Ásetningurinn einn á að leiða til árangurs. Viðkomandi ætlar sér að ná markmiðum sínum, án þess að þurfa að eyða orku sinni og hann ætlast oft til að aðrir geri það fyrir sig. Þreyta leggst að sumum, ef þeir eiga að gera nokkurn skapaðan hlut. Öðrum finnst það ekki vera sitt að gera neitt jákvætt eða uppbyggilegt fyrir sig eða aðra. Það sé hlutverk annarra, örlaganna eða lífsins.

Ég þekki það, að kleift er að breyta slíkum mönnum. Ef mönnum líst ekkert á eitthvað verk og þeir eru fyrirfram leiðir og þreyttir, má benda þeim á, að þeir geti tekið verkefnið sem áskorun eða próf í hugvitssemi og hæfni. Þá hverfur þreytan og menn geta afkastað ótrúlegum hlutum. Þetta sannar aðeins hversu viðhorfið ræður miklu. Ég get ekki stillt mig um að vitna enn einu sinni í Handbók Epiktets, 10. kafla: “Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þú sérð fagran karl eða fagra konu, er þér styrkur að sjálfsstjórn þinni. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar, og ef þú ert svívirtur, neytir þú umburðar þíns. Ef þú temur þér þetta, munu engir dyntir leiða þig afvega”. Og 9. kafli: “Sóttin er hamla álíkamanum, en ekki viljanum, nema hann kjósi sjálfur, að svo sé. Heltin hamlar fætinum að vísu, en viljanum ekki. Segðu sjálfum þér þetta, hvert sinn er á bjátar, og þú munt komast að raun um, að atburðirnir hamla einhverju öðru en þér”.

Í sannleika sagt, þá finnst mér stundum, sem lífið sé sífellt að leggja fyrir okkur þrautir til að leysa. Oft eigum við fullt í fangi með viðfangsefnið, svo ekki sé meira sagt. Við eigum að sjálfsögðu að taka þessu eins og prófi, raun, sem sett er fyrir okkur til að við lærum af henni, þroskumst. Því miður standast margir ekki prófið og láta bugast. Það sem gildir, er í raun að nota erfiðleikana og mótlætið til sjálfsþroska. Erfiðleikarnir eru raunverulega fagnaðarefni, sé þannig á þá litið. Þeir eru hvatning og veita tækifæri, sem ella kæmu ekki til. Mótlætið er til þess gert að þroska okkur. Og lífið hefur engan annan tilgang.

2.6 HLUTVERK KRÖFUNNAR.

Krafan hefur mikið huglægt gildi og réttlæta má hana með ýmsu móti. Egóið er að berjast fyrir tilveru sinni. Krafan er oft talin léttvæg og skaðlaus. Afleiðingarnar eru augljósar. Menn eru skapvondir og óánægðir, og halda fast í kröfuna. Þeir sjá að vísu, að æskilegt er að vera aðgerðarmeiri og ætlast ekki til að allt komi til þeirra á silfurfati. Þeir sjá að ávinningurinn af kröfum er lítill. Að vísu er stundum hægt að þvinga menn til eins eða annars, en kröfur á lífið eru tilgangslausar. Þótt við viljum skara fram úr á öllum sviðum, breytir það engu um okkur sjálf.

Þó menn sjái sé að kröfur og afleiðingar þeirra séu tilgangslausar, breytir það oft litlu. Þær minnka e.t.v, en verða ekki upprættar og stundum bældar í auknum mæli. Hér kemur ímyndunaraflið til sögunnar. Þótt tilgangsleysi krafnanna sé augljóst, er samt haldið áfram að trúa á mátt viljans. Ef óskað sé nógu einlæglega og lengi og viljastyrkur nógu mikill er því trúað, að ekkert sé ómögulegt og óskir muni rætast. Ekki er þá talið, að verið sé að sækjast eftir hinu ómögulega, heldur hitt að ekki hafi verið sýndur nógur vilji. Einhver töfra eða galdrahyggja er í spilinu.

Í þessu sést hlutverk kröfunnar. Krafan er óhjákvæmileg í viðleitninni til að ná markmiðum eða sjálfsímynd af einhverju tagi. Hún gegnir því hlutverki að koma markmiðum eða sjálfsímynd í kring. Markmiðunum er ekki náð með því að reyna að skara fram úr öðrum með afrekum og árangri, en krafan gefur viðkomandi eins konar fjarvistarsönnun eða afsökun. Hann verður í raun að treysta því, að hann sé hafinn yfir venjuleg lögmál. Þótt aðrir verði ekki við kröfum hans, sannar það að hans áliti alls ekki, að hann eigi við erfiðleika og mistök að etja. Slíkt afsannar ekki hina ótakmörkuðu möguleika. Hann álítur það aðeins sanna, að hingað til hafi honum ekki hlotnast sanngjarnt hlutskipti. Ef hann haldi fast í kröfu sína, muni hún síðar verða að veruleika. Þannig er krafan trygging fyrir framtíðarárangri.

Hann er eins og maður, sem bíður eftir arfi. Í stað þess að reyna að gera eitthvað jákvætt við líf sitt og sjálfan sig, leggur hann alla kraftana í að ná fram kröfum sínum. Hið raunverulega líf gefur honum þá sífellt minna og minna gildi. Hann missir áhuga, vanrækir allt og gerir ekkert, sem veitir gildi í lífinu. Hann lifir aðeins meira og meira fyrir framtíðarmöguleika. Þótt hann véfengi ekki skaðann, sem krafan veldur honum, er skaðinn lítill að hans mati í samanburði við hina glæstu möguleika framtíðarinnar.

Í raun er hann verr settur en sá sem bíður eftir arfi, því að undir niðri býr sú tilfinning, að hann missi alla von á framtíðarmöguleikunum, ef hann fái áhuga á sjálfum sér og eigin þroska. Þetta er rökrétt miðað við forsendur hans, því fái hann áhuga á sjálfsskoðun og sjálfsþroska, mun viðleitnin til gera markmiðin og sjálfsmyndina að veruleika verða meiningarlaus.

2.7 TVÆR LEIÐIR.

Mönnum finnst það sem ég er hér að segja ef til vill ganga heldur langt. Að þetta tal sé óraunhæft. Ég er að minnsta kosti ekki svona, segir sjálfsagt einhver við sjálfan sig. Nauðsynlegt er því að rifja upp algengar kröfur. Í raun geta allar þarfir orðið að kröfum. Eins og ég hefi áður sagt krefjast margir samúðar, tillitssemi, hjálpar, ástúðar eða velvilja og þola ekki fjandskap. Sérstaklega er ástúðarkrafan sterk hjá þeim, sem sér fyrir sér maka, sem á að uppfylla allar óskir og þarfir. Sumir krefjast hlýðni og undirgefni og að þeir séu virtir. Sumir þurfa að stjórna öðrum af framsýni og fyrirhyggju, jafnframt því sem þeim er nauðsyn að sýna andlega yfirburði. Aðrir þurfa að hagnast á öllum og öllu. Krafan er þá fyrir hendi að nýta fé og hugmyndir eða nota tilfinningar annars eða nota hann kynferðislega. Ýmsir þurfa aðdáun og virðingu. Þeir þurfa að ná langt í þjóðfélaginu eða vera aðdáanlega vel gefnir eða vel gerðir. Oftast þurfa karlmenn að vera gáfaðir og konur fallegar. Þetta eru afar algengar kröfur. En einnig vilja sumir vera fremstir og skara fram úr, vera mestu elskhugarnir, íþróttamennirnir, rithöfundarnir, vinnuþjarkarnir o. s. frv., allt eftir því hver sjálfsímyndin er. Þeir sem vilja vera sjálfstæðir og sjálfum sér nógir, gera auðvitað kröfu til þess. Þeir eiga þá aldrei að þarfnast hjálpar annarra, verða fyrir áhrifum frá þeim eða bundnir nokkru. Þetta eru örfá dæmi um almennar kröfur, sem við öll höfum í meira og minna mæli.

Með því að viðhalda slíkum kröfum, erum við að spilla sjálfsorku okkar. Í staðinn fyrir að gera eitthvað sjálf, t.d. í sambandi við samskipti okkar við aðra, erum við að krefjast þess að aðrir lagi sig að okkur. Í staðinn fyrir eigið starf, er ætlast til að aðrir vinni fyrir okkur. Í stað þess að taka sjálf ákvarðanir, erum við að heimta, að aðrir geri það fyrir okkur. Með þessum hætti notum við ekki þann skapandi kraft sem í okkur býr og verðum minna og minna ákvarðandi um okkar eigið líf. Á meðan við erum uppfull af einhverju hugrænu framtíðartakmarki, er hin leiðin lokuð, þ.e. leiðin til sjálfsþroska. Því sú leið þýðir einfaldlega, að við verðum að sjá okkur öll dauðleg, hafandi fullt af erfiðleikum. Það þýðir, að við verðum sjálf að bera ábyrgð á gerðum okkar og að það sé okkar að glíma við erfiðleikana og að þroska getu okkar. Með þessu finnst mönnum e.t.v. sem þeir vera að missa allt. En leiðin til sjálfsþroska er aðeins kleif að svo miklu leyti, sem við getum yfirgefið þá lausn, sem við höfum fundið með sjálfsímynd okkar.

Hlutverk þeirra krafna, sem ég hefi fjallað um, er að viðhalda tálsýnum um okkur sjálf og gera aðra ábyrga fyrir gerðum okkar. Með því að þarfirnar verða að kröfum, afneitum við vandamálum okkar og flytjum ábyrgðina yfir á annað fólk, umhverfi og örlög. Jafnan þegar við stöndum frammi fyrir innri hættu, þá fyllumst við kvíða og næmið minnkar á það, sem er að gerast innra með okkur. Einhver versta aðferð í þessu tilliti byggist á aðferðinni: “Ef ég reyni ekki, mistekst mér ekki.” Með þessu höldum við okkur niðri. Við ræktum tilfinningu fyrir getuleysi, réttleysi eða kæruleysi. Með því að reyna ekki á getu okkar, er þeim möguleika viðhaldið, sem byggist á viðhorfinu: “Ég gæti, ef ég reyndi.” Þá reynir aldrei á þá sjálfsímynd og þau markmið, sem kröfurnar byggjast á. Um verður að ræða andlega eilífðarvél, þar sem aldrei reynir á hæfileika eða getu.

Eina leiðin út úr þessu er að flýja ekki frá baráttu við sjálfan sig. Annars höldum við eilífðarvélinni gangandi. Við verðum að athuga, hvað okkur finnst lítillækka okkur, vanvirða og sýna getuleysi okkar. Við verðum að gangast undir þá lítillækkun að ráða ekki lífi og dauða, að við erum háð lögmálum orsaka og afleiðinga, óttumst bæði menn og hluti, skiljum ekki allt í einu vetfangi, sitjum uppi með ófullkomið fólk, ófullkomna félaga o.s.frv. Í raun erum við að vilja það ómögulega. Með því að viðurkenna takmarkanir okkar sem manneskjur, getum við smátt og smátt fundið okkur sjálf. Sá veggur, sem fyrir er milli okkar og okkar innra manns, lækkar þá og rofnar. Kierkegaard sagði eitt sinn: “Svo virðist sem við skynjum því aðeins hið mögulega, að við óskum ekki hins ómögulega. Það gefur okkur tilfinningu fyrir innra frelsi”.

2.8 UM HUGMYNDAFLUGIÐ.

Eftir er að svara því, hvaða samræmi sé í því að boða veraldlegar takmarkanir, sem jafnframt eiga að vera leiðin til þroska. Er hér ekki einmitt verið að hefta persónuleikann? Er hið algilda ekki takmarkalaust? Hvernig á að þrengja sig og takmarka á alla vegu, en jafnframt víkka sig út andlega? Allt byggist þetta á ímyndunaraflinu og skal nú vikið að því.

Ímyndunaraflið gegnir miklu hlutverki í öllum þessum leik. Allar þessar þarfir og kröfur eru sprottnar af ímyndunaraflinu. Lýsti ég því í inngangi þessa þáttar. Sjálfsímyndin er aðeins hugmynd eða tilbúningur. Sá sem er óraunsær gagnvart sjálfum sér, er óraunsær gagnvart öllu öðru. Öll andleg starfsemi er hlaðin ímyndunarafli. Ímyndunaraflið getur gert okkur andlega rík eða fátæk og það getur verið nær eða fjær sannleikanum. Ekki skiptir máli, hvort einn hefur meira ímyndunarafl en annar, heldur hitt, hvernig hann notar það. Notum við það í þjónustu óska okkar, þarfa og girnda, dreymir okkur um stóra hluti í veraldlegum efnum eða notum við það í þeim praktíska tilgangi, sem það er skapað til, að gera okkur lífið léttara í heimi hlutveruleikans? Samsömum við okkur hugmyndunum og gerumst þjónar þeirra í stað þess að stjórna þeim og láta þær þjóna okkur? Sannast sagna eru því engar takmarkanir settar, hvað ímyndunaraflið getur teygt sig langt. Þar er um að ræða ótakmarkaða möguleika.

Að samsama sig eigin hugmyndum um sjálfsímynd, sem er einungis óskhyggja, er í raun ferðalag inn í gæfusnauða veröld. Þeirri veröld hafa öll stórmenni sögunnar hafnað. Þar má minnast Jesú, er hann afneitaði djöflinum. Takmarkaleysi ímyndunaraflsins er leið hinna takmarkalausu blekkinga. Takmarkaleysi hins algilda er afneitun ímyndunaraflsins sem veruleika. Til þess að svo megi verða, þurfum við að sjá, hvert ímyndunaraflið leiðir okkur, hvaða hugmyndir við gerum um okkur sjálf, hvaða sjálfsímynd við tileinkum okkur. Fyrsta forsendan er að losna við egóið. Það gerist aldrei í einni svipan. Við þurfum smátt og smátt að brjóta það niður. Egoið verður ekki upprætt nema það sé skoðað og undan því grafið frá öllum hliðum. Að losna við kröfur á umheiminn er einn liðurinn í þeirri viðleitni.

2.9 FRJÁLS VILJI EÐA KNÝJANDI NAUÐSYN.

Ég vona, að flestum sé ljós munurinn, annars vegar á eðlilegum óskum og frjálsum vilja og hins vegar kröfum, sem byggjast á markmiðum og sjálfsmynd. Einkenni hins síðarnefnda birtast í knýjandi nauðsyn, en ekki sem óskir og viðleitni, sem upp koma sjálfkrafa. Viðkomandi verður fyrir miklum vonbrigðum, ef ekki er orðið við nauðsyn hans. Oft fylgir því einnig kvíði eða sektarkennd. Ekki er um að ræða frómar óskir, sem menn geta lagt til hliðar, ef þær rætast ekki, heldur kröfur, sem hætta virðist fylgja, sé þeim ekki fullnægt. Kröfurnar taka ekki tillit til aðstæðna og stundum virðast þær óseðjandi. Að minnsta kosti eru menn fullir vonbrigða, ef þeim er ekki fullnægt.

Eðlilegar óskir spretta af eðlislægri hneigð hvers og eins. Við höfum öll okkar líkamlegu og andlegu þarfir. Við þurfum að þroska getu okkar, vaxa, upplifa o. s. frv. Krafan sprettur hins vegar af tilbúningi okkar eigin huga, markmiðum og sjálfsmynd. Grundvallarmunur er á þessum forsendum. Afleiðingarnar verða líka mismunandi. Ólíkt er á að læra stig af stigi eða heimta það að vera útlærður. Eitt er að ganga á fjall, annað að vilja aðeins vera á toppnum. Menn missa sjónar á þróun og þroska. Einnig gerist það, að sjálfsímynd og markmið falsa hlutveruleikann að því leyti, að hann verður meir og meir innri hugmyndir, óháðar hinu ytra. Menn hætta að sjá mismun hins raunverulega og óraunverulega. Menn vilja sýnast í stað þess að vera.

Ég hefi áður bent á, að menn eigi að standa á sínu og fylgja kröfum sínum eftir í einu og öllu. Þeir eigi að vera ófeimnir við að láta hug sinn í ljós og standa á rétti sínum. Með þessu verða kröfur okkar ljósar og við komumst ekki hjá að fylgja eftir eðlilegum óskum okkar. Við komumst ekki á jafnsléttu, nema við losnum við hömlur og feimni, sem einmitt stafa mikið af óhóflegum kröfum. Menn verða að fá útrás og upplifa það, sem í þeim býr. Talið er hollt að opna fyrir reiði sína og ýgi. Þjóðir þurfa stundum að sundrast til að geta sameinast síðar og oft verðum við að fara, að því er virðist, öfuga leið í sálrænum efnum. Ekki má heldur gleyma því, að því minna, sem markmið og sjálfsímynd þrúga okkur, verðum við frjálsari til allra átta, ekki bara til að sýna velvild og tillitssemi, heldur og til allrar baráttu. Allt verður leyfilegt.

Hitt er sannleikur, sem mér er afar ljós og aldrei verður of oft sagður, að því lausari sem við erum við hugmyndir okkar og markmið og þau verða ekki hluti af okkur sjálfum, þeim mun frjálsari, sjálfstæðari og góðviljaðri verðum við. Óskir okkar skipta þá minna máli og við getum betur upprætt þær og losnað við þær. Og því meira sem við nálgumst Sjálf okkar, þeim mun færri verða óskir okkar. Þótt ég hafi gert mun á óeðlilegum kröfum og eðlilegum, virðast allar kröfur óþarfar, þegar allt kemur til alls. Þegar við nálgumst hið algilda eru nær allar óskir horfnar. Þær hafa misst gildi sitt.

Kröfur þær, sem ég hefi hér gert að umræðuefni, eru einn hlekkurinn í keðjunni, sem heldur okkur í fjötrum egósins. Þessi keðja er þannig, að alla hlekkina verður að rjúfa, ef losna á við fjötrana. Krafan er ekki ómerkilegri hlekkur en aðrir hlekkir. Að þeim verður vikið í næstu þáttum.

Ef byggja á hús, er nauðsynlegt að byrja á kjallaranum. Gott er að hafa hann traustan. Þótt hann sé oft talinn ómerkileg húsakynni, gegnir hann sínu mikilvæga hlutverki. Sálfræði er að mínu mati að mörgu leyti kjallarinn í þeirri byggingu, sem við stöndum að, til að búa í haginn fyrir mystíska reynslu eða skynjun heimsblekkingarinnar. Ég geri ekki lítið úr gildi annarra hæða byggingarinnar, en sumum virðist stundum yfirsjást bygging kjallarans, áður en farið er að reisa aðrar hæðir.

Mín reynsla er sú, að ekki sé kleift að nálgast hið algilda, án þess að losa sig samtímis við egóið. Við léttum fjallgönguna miklu til hins algilda að svo miklu leyti, sem við losum um tak egósins og afléttum því af Sjálfi okkar. Til fjallstindsins liggja margar leiðir og hver og einn finnur ósjálfrátt sína bestu leið.