I MANNLEGUR ÞROSKI

1.0 INNGANGUR.
1.1 LEIÐIN ERFIÐA.
1.2 TRÚARBRÖGÐ.
1.3 SÁLFRÆÐI.
1.4 HEIMSPEKI.
1.5 VANDINN.
1.6 MEIRI VANDI.
1.7 ENN MEIRI VANDI.
1.8 LAUSN VANDANS.
1.9 SÓKNIN EFTIR VEGSEMD.

1.0 INNGANGUR.

Allt það, er hér fer á eftir, hafa aðrir sett fram og sagt með sínum hætti. Ég endurtek það í mínum stíl, af því að ég hefi tileinkað mér það og haft á því miklar mætur. Einkum eru það sálkönnuðir og Búddistar, sem ég styðst við.

Sálfræði, heimspeki og trú eru að efni til sama eðlis. Sjónarhornin eru einungis mismunandi. Ég tengi þetta saman til að sýna fram á m.a., að ýmsir sálkönnuðir, heimspekingar og trúarleiðtogar eru og hafa verið á sömu leið og komist að sama sannleik, hver með sínum hætti. Allt ber að sama brunni. En kjarninn í þessari frásögn er sá, að varpa ljósi á það, hvernig við flækjum okkur í eigin hugsunum og tilfinningum og hvernig þessir þættir eru sýndin eða blekkingin ein. Með því að sjá, hvernig við vorum færð í fjötrana, höfum við von til að leysa okkur úr þeim.

1.1 LEIÐIN ERFIÐA.

Við verðum öll að leysa eigin fjötra sjálf. Aðrir gera það ekki fyrir okkur. Okkur ber þó að þiggja alla þá aðstoð og hjálp, sem völ er á.

Þegar mannlegt eðli og siðferði er til umræðu, verða viðhorfin oft mismunandi og trú á mannlegt eðli margs konar. Mig langar til að víkja stuttlega að þremur meginviðhorfum, sem ríkt hafa á víxl á liðnum tímum.

Í fyrsta lagi hefur ríkt sú skoðun, að maðurinn sé í eðli sínu syndugur og fullur af frumstæðum hvötum. Megin markmið allrar siðmenningar er þá, að ná tökum á hinu mannlega eðli, til að temja það, en ekki að þroska það eða þróa. Freud verður að telja frægan málsvara þessa sjónarmiðs.

Í öðru lagi hafa sumir haldið því fram, að mannleg náttúra sé samsett af góðum öflum og illum. Markmiðið er þá, að hin góðu öfl sigri hin illu. Þessu hefur fylgt, að hið syndsamlega og skaðlega er kveðið niður af hinu góða með ýmsum bjargráðum, svo sem trú og skynsemi, viljastyrk eða náð, allt eftir siðferðilegri eða trúarlegri viðmiðun á hverjum tíma. Ekki er aðeins barist við og kveðið niður hið illa, heldur er líka til að dreifa jákvæðri framkvæmdaáætlun, oft með hjálp yfirnáttúrulegra afla. Kristin kirkja sem stofnun hefur verið boðberi þessa sjónarmiðs.

Í þriðja lagi horfir siðferðisvandamálið og mannlegur þroski öðruvísi við, ef því er trúað, að í manninum búi öfl, sem stuðli að jákvæðri uppbyggingu og þróun og hvetji hann og reki áfram til raunsæis. Hann hafi áskapaða tilhneigingu eða hvöt til að gera sér ljósan veruleikann, eigin getu og möguleika. Þá er ekki spurt um hvað sé gott eða illt, enda er ekki talið kleift að skilgreina slíkt, heldur þroskast maðurinn þá samkvæmt sínu eigin eðli og frumkvæði. Þá er ekki um að ræða fyrirframákveðin innri boð og bönn, skorður eða aðhald. Samkvæmt þessari skoðun ber maðurinn fulla ábyrgð á sjálfum sér og gerðum sínum gagnvart sjálfum sér. Hvað við ræktum eða upprætum í sjálfum okkur byggist þá á því, hvort það hvetur eða hindrar mannlegan þroska. Forsvarsmenn þessa sjónarmiðs hafa verið margir síðari tíma sálfræðingar, svo sem Carl G. Jung, Karen Horney, Abraham Maslow, Erich Fromm, Harry Stack Sullivan, Alfred Adler o. fl. Einnig aðhyllast Búddismi og Vedanta trúarbrögðin þessi viðhorf.

Það, sem hér verður sagt, er byggt á síðastgreinda sjónarmiðinu. Ef við trúum því, að þau öfl búi hið innra með okkur, sem stefni sjálfkrafa til raunsæis og sjálfsþekkingar, þá þurfum við ekki innri spennitreyju til að fjötra “Sjálfið” eða þvinga okkur til fullkomnunar með innri boðum og bönnum. (Hér er með orðinu “Sjálf” átt við atman en ekki egó). Slíkar aðferðir geta vissulega bælt óæskilegar hvatir, en þær draga jafnframt úr þroskaviðleitni okkar. Þær verða óþarfar, því með varurð og skilningi á sjálfum okkur getum við upprætt þessar tilhneigingar. Sjálfsþekking verður þá til þess að leysa úr læðingi öfl, er stuðla að sjálfsþroska okkar. Sjálfsþekking verður þá bæði siðferðileg skylda og eftirsóknaverð forréttindi. Við höfum löngun til að taka þroska okkar alvarlega og því lausari sem við verðum við eigingirni, þeim mun frjálsari erum við. Einnig verður okkur eiginlegra að hafa samúð með öðrum og hjálpa þeim til að finna sig sjálfa, ef þeir hafa stöðvast á þroskabrautinni. Markmiðið verður að frelsa og þroska þau öfl, sem leiða til innsæis og raunsæis.

1.2 TRÚARBRÖGÐ.

Til þess að skynja rót vandans og átta sig á stefnunni, verður ekki hjá því komist að ræða grundvallarviðhorf að baki Vedanta trúarbrögðunum og Búddisma, sem talið er að leiði til fullkomins andlegs frelsis. Um er að ræða frelsi frá allri þjáningu, kvíða, einsemd og öryggisleysi, sem næst með innsýn. Innsýn er sá hæfileiki mannsins, sem er ofar öllum öðrum og jafngildir frelsinu sjálfu.

Í kenningum og boðskap Madhyamika (Miðleiðarinnar), Vijnanavada (t.d. Zen Búddisma) og Vedanta er hið algilda hvorki til að gera sér hugmyndir um né byggt á venjulegum reynslugrundvelli. Samkvæmt okkar reynslu geta aðeins fjögur sjónarmið gilt um hvert viðfangsefni. Grundvallarvalkostirnir eru tveir: tilvist og tilvistarleysi, þ.e. staðfesting og afneitun. Frá þessum sjónarmiðum eru tvö önnur afleidd með því að staðfesta og afneita báðum í senn: bæði tilvist og tilvistarleysi og hvorki tilvist né tilvistarleysi. Ekki er um að ræða millileið. Miðjuviðhorfið er ekkert viðhorf. Þegar um hið algilda er að ræða, er öllum viðhorfum og sjónarmiðum afneitað. Hið algilda er ofar hugtökum og orðum, sem þýðir að það er yfirskilvitlegt eða forskilvitlegt af því það varðar forsendur eða skilyrði skynjunar eða skilnings. Hið algilda er upplifað eða skynjað í yfirskilvitlegri eða forskilvitlegri reynslu, sem er laus við tvíeðli, eða óskipt. Jafnan er lögð á það áhersla, að allar skilgreiningar á reynslu hins algilda séu fjarri sanni og afneitun og þögnin séu hið rétta tungumál.

Þótt lýsingar á hinu algilda í hinum einstöku trúarbrögðum hafi að formi til mörg sameiginleg einkenni, eru aðferðirnar til að nálgast það ólíkar. Að vissu leyti á það einnig við um skilgreiningar á hinu algilda, þótt reynslan eða upplifunin á því sé sennilega sú sama. Það er a.m.k. ekki hægt að fullyrða um neinn mun. Þar er þögnin eina tungumálið. Í öllum þessum trúarkerfum er hið algilda handan við eða hafið yfir skilgreiningu. Allir hlutir búa í því. Það er veruleiki þess sem sýnist, þ.e. okkar hlutveruleiks. Það verður, eins og áður segir, aðeins upplifað með innsýn, sem ekki verður lýst sem neinni reynslu. Með henni fæst tafarlaus og náin vitneskja, þar sem innsta eðli, kjarni hlutanna, tilvist og líf falla saman. Alger eining virðist ríkja um eitt mikilvægt atriði í öllum þessum trúarkerfum. Það atriði varðar eðli og stöðu fyrirbæra, eins og þau eru skynjuð. Þau eru álitin sýndin ein eða það sem sýnist en ekki veruleikinn. Með þekkingu á hinu algilda verður þessi sýnd eða blekking augljós.

Um það hvað sé álitin blekking eða sýnd er þó mismunandi eftir trúarkerfum. Madhyamika afneitar hugmyndum og hugarsmíð. Slíkt falsi veruleikann, sem er innsýn eða breyti honum. Vijnanavada hafnar hlutlægni og hlutlægum viðhorfum, þar sem þau virðist smita vitundina (vijnana) með tvígreiningu í verund og viðfang (subject og object). Vedanta afneitar allri greiningu eða mismun, þar sem veruleikinn er altækur og samur. Segja má að öll trúarkerfin leggi áherslu á að afneita blekkingu eða sýnd hlutveruleiks reynslunnar. Hið algilda næst með því eða afneita tvíeðli eða tvíhyggju (dualism).

Í öllum þessum trúarbrögðum er vitsmunalegri innsýn aljafnað við frelsi. Um er að ræða þekkingarvandamál, þ.e. innsýn inn í raunveruleikann. Yfirburðir vitsmunanna og vald þeirra yfir öðrum þáttum persónuleikans er sá hornsteinn, sem þjálfunar og hegðunarreglur einstakra skóla eru byggðar á. Ekki viljinn heldur vitsmunirnir eru sá æðsti hæfileiki mannsins, sem aðrir hæfileikar hlíta. Þekking er ofar vilja.

1.3 SÁLFRÆÐI.

Ef við samsömum Sjálfið einhverju öðru, látum við stjórnast af því síðarnefnda. Ef við samsömum okkur einhverju algerlega, tileinkum okkur það og gerum að hluta af okkur, þá drottnar það yfir okkur. Á hinn bóginn getum við stjórnað og hagnýtt okkur það, sem hugar og tilfinningatengsl okkar eru laus við. Því mun minni tök, sem viðhorf okkar, hugmyndir og tilfinningatengsl hafa á okkur, þeim mun frjálsari erum við. Mörgum yfirsjást þessi augljósu sálfræðilegu sannindi.

Aðeins að því leyti sem við gefum tálsýnir upp á bátinn, tálsýnir um sjálfa okkur og markmið okkar, höfum við möguleika á að finna raunverulega getu okkar og byggja hana upp. Aðeins að því leyti sem við losnum við stolt okkar, verðum við minna fjandsamleg Sjálfi okkar og getum ræktað sterkt sjálfstraust. Aðeins að því leyti sem við látum innri skyldur þvinga okkur minna, finnum við okkar eigin tilfinningar, óskir, skoðanir og hugsjónir. Aðeins að því leyti sem við losnum við gagnstæð markmið, finnum við einingu í sál okkar o.s.frv.

Þótt þetta sé allt kærkominn og gamall sannleikur, er ekki auðvelt að fylgja honum. Við erum sannfærð um, að viðhorf okkar, lífstíll og lausnir séu réttar og teljum að þær leiði til friðar og fullnægju. Okkur finnst til dæmis stoltið gefa okkur styrk og gildi og við óttumst, að látum við af skyldum, fari allt úr böndum og úr verði óreiða og glundroði. Þetta finnst okkur og þess vegna höngum við lengst af samkvæmt því. Okkur finnst jafnvel, að ef við ríghöldum ekki í eigin gildismat, þá sé lífsgrundvöllurinn í stórhættu. Við teljum bráðnauðsynlegt að hafa völd, virðingu, eignir, ástir og vinsemd og traust annarra. Við tökum stefnu og viljum ná taki á lífinu, vera frjáls, sína kærleik eða hafa víðsýni, en þessi markmið verða áráttukennd, skyldubundin og þvinguð, og gerast ekki sjálfviljugt. Vegna einingarþarfar sálarinnar verður eitthvert þessara markmiða oft látið ganga fyrir. Völd og virðing verða þá yfirgangur, frelsið verður flótti frá lífinu, kærleikurinn undirlægjuháttur eða hömlur og víðsýnið reynist aðeins stefnuleysi.

Við verðum að breyta þeim þáttum í persónuleikanum, er hindra þroska okkar. Með þessu er ekki átt við breytingu á hegðun. Hegðun breytist ósjálfrátt með hverri innsýn. Með breyttum viðhorfum og að sjá veruleikann í réttu ljósi, breytist maðurinn sjálfur. Hið mikla gildi sjálfsþekkingar, er þó ekki innsýnin ein og breytingin, sem af henni leiðir, heldur veitir innsýnin tækifæri til að endurskoða, breyta og aðlaga á ný tilfinningar, viðhorf og markmið í samræmi við hina nýju sýn. Ekki þarf að kenna tré að vaxa, það gerist ósjálfrátt, ef aðstæður leyfa. Möguleikar þess og geta þróast sjálfkrafa. Sama gildir um manninn. Ef engar hindranir eru, þróast og þroskast Sjálf hans.

1.4 HEIMSPEKI.

Af hverju er ég, ég en ekki þú, eða einhver annar? Þeirrar spurningar spyr maður sig sem barn og ekki að ástæðulausu. Barnið finnur að rökfræðin, “staðreyndirnar”, sem verið er að kenna því og hinn “hugsaði” veruleiki er ekki það sem sýnist. Barnið áttar sig ekki frekar á þessu, enda er það umsvifalaust heilaþvegið með svarinu: þú ert þú og ég er ég, annað er rugl. Þetta hefur þó verið þrálát spurning heimspekinga. Fræg er staðhæfing heimspekingsins og stærðfræðingsins Descartes: “Cogito, ergo sum”, ég hugsa, þess vegna er ég til. Þannig lagði hann grundvöllinn að heimspekiviðhorfi sínu. Ályktun hans var raunverulega sú sama og annarra, sem fá sig til að slá þessu föstu. Þessari ályktun fylgir grunnkvíði, sem enginn losnar við, nema átta sig á því, hve hin upprunalega ályktun var hæpin. Þótt hún sé handhæg, er hún að sama skapi takmörkuð.

Freistandi væri að ræða vangaveltur heimspekinga og heimspekistefnur. Eftir árekstrana milli raunhyggju og skynsemishyggju, sýndi Kant fram á tilgangsleysi allra viðhorfa, hyggjuvits, rökhyggju og dómgreindar til að sjá og skynja hið algilda og skilyrðislausa. Að hans mati tilheyra öll viðhorf heimi fyrirbrigðanna og hann telur að við getum aldrei skynjað veruleikann skilyrðislaust og óbundið með skynseminni. Nú á tímum eru ritaðar bækur um skammtasviðsfræði eðlisfræðinnar, þá grein eðlisfræðinnar, sem fjallar sérstaklega um frumeindir efnisins og þaðan af minni eindir, er styðja þessi sjónarmið sterklega.

Hugsun, sem er ekki afstæð, er engin hugsun (Bradley). Allir hlutir eru smitaðir af afstæði, gagnstæði og þverstæði. Tilvist sérhvers hlutar er háð sambandi eða samhengi við eitthvað annað. Hugtök, hugmyndir og orð eru ekkert í sjálfu sér án sambands eða tengsla. Tilvist og tilvistarleysi geta hvorugt án hins verið. Það sem er skilyrðisbundið eða háð tenglsum, er ósjálfstætt, sýnd en ekki veruleiki. Hugsun gefur hlutunum tíma og rúm. Hún frystir veruleikann, sem er hreyfing (Bergson). Sumum finnst hugsun höggva veruleikann í parta eða hakka hann niður í einingar.

Existensialistar hafa margir talið, að ótti við tilvistarleysi sé undirrót kvíða. Jafnvel að kvíði sé ótti við tilvistarleysi (Kierkegaard) eða ótti við að vera ekki til (Tillich). J.P. Sartre hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að horfast í augun við tilvistarleysið, en játar að mikið hugrekki þurfi til.

Hugsunin leiðir menn í fjötra, en hún leysir líka úr fjötrum, segir gömul austræn speki. Og við eigum ekki að hætta að hugsa, enda getum við það ekki. En okkur ber að átta okkur á takmörkum hugsunar. Hún er bráðnauðsynleg og í praktísku lífi lifðum við stutt án hennar. Hún er undirstaða allrar efnislegrar velgengni mannkynsins. Hún er undirstaða vísinda (ekki lista) og hefur fólgna í sér ótalda og óborna möguleika til blessunar. En engu að síður hefur hún sín þröngu mörk innan veruleikans. Mannkynið hefur meira og minna samsamað sig henni.

Eftir að punkturinn er settur fastur, þ.e. einingin ég er ég, er stefnan mörkuð. Hugsun hefur fólgnar í sér áttir og viðmiðanir, markmið og leiðir. Ekki er kleift að fara í margar áttir í senn. Því verður að velja eina. Hugsunin þrengir því sífellt tilveruna, þótt hún skýri á vissan hátt huglægt, það sem í henni felst á hverju augnabliki.

Hugsunin skapar tilfinningarleg viðhorf. Þau er erfitt að uppræta, eftir að þau hafa skapast. Nagarjuna segir á einum stað: “Hið skapandi ímyndunarafl elur af sér bindingu, óbeit, andúð og blinda hrifningu, allt eftir góðum, vondum og heimskulegum viðhorfum okkar. Tilvist, sem byggist á þessu, er ekkert í sjálfu sér. Hin óhreinu öfl og ástríður eru blekking”. “Frelsi er niðurlagning ástríðna, sem stafa frá ímyndunaraflinu. Þær hverfa við þekkingu á falsi þeirra og innihaldsleysi (sunyata)”. Buddha segir á einum stað: “Löngun, þekki ég uppruna þinn? Þú kemur úr ímyndunaraflinu. Ekki skal ég dekra meir við ímyndunaraflið. Ég mun engar óskir hafa frekar.”

1.5 VANDINN.

Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi segir svo m.a. í riti sínu Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna: “Þá er jeg var kominn svo langt, að jeg hugsaði með orðum, spurði jeg sjálfan mig, af hverju það mundi vera: að jeg var jeg, en ekki einhver annar, að jeg var núna, en ekki einhvern tíma áður, og að jeg var hjer, en ekki einhver staðar annars staðar. Mér hvarflaði jafnvel sú spurning í hug: Skyldi jeg vera ætlaður til einhvers sjerstaks og því vera svona einkennilegur? Slík spursmál ráku hvert annað hjá mjer. Og þó vissi jeg vel, að svar upp á þau var hvergi að fá. Ekki bar jeg þetta mál undir álit nokkurs manns, ekki einusinni móður minnar. Var jeg þó annars vanur að segja henni hvað eina sem mjer lá á hjarta. En bæði fann jeg, að jeg gat ekki gjört mig skiljanlegan um þetta efni, og líka var mjer ljóst, að enginn gat skýrt það fyrir mjer.”

D. T. Suzuki talar á einum stað í grein, sem hann nefnir “Fyrirlestrar um Búddisma” um tvenns konar kvíða, almennan kvíða og grunnkvíða og hann er ekki einn um það. En hann heldur því fram að almennur kvíði hverfi sjálfkrafa, ef grunnkvíðinn sé leystur upp. Hann segir ennfremur, að allar kvíðamyndir í okkur stafi af þeirri staðreynd, að einhvers staðar í vitund okkar sé tilfinning fyrir ófullkominni þekkingu á stöðunni og þessi þekkingarskortur leiði til öryggisleysis og síðan kvíða í sínum stigbreytilegu myndum. “Égið” er alltaf í miðju hverrar stöðu, sem við upplifum. Þegar þetta “ég” er ekki fullkomlega þekkt, þá kvelja spurningar eins og eftirgreindar okkur sífellt: “Hefur lífið tilgang?” “Er allt hégómi?” og Suzuki rekur nokkrar spurningar í svipuðum dúr í grein sinni, en segir svo: “En hver er “ég”, sem stend að baki öllum þessum ráðgátum og brennandi spurningum? Hvar er að finna öruggan grunn, sem ég get staðið á án nokkurs kvíða? Eða, hvað er “ég”? Því þetta “ég” gæti sjálft verið hinn öruggi grunnur. Gæti þetta verið sú staðreynd, sem mér hefur ekki tekist að uppgötva til þessa? “Égið” verður því að uppgötva. Og ég verð í lagi”. Síðan heldur Suzuki áfram að kanna þessi mál í grein sinni í samræmi við sjónarmið Zen Búddisma.

Allir þekkja spurningu Ramana Maharsi: Hver er ég? Ramana er þó sprottinn upp úr gerólíkum jarðvegi. Þótt aðferðir hans séu aðrar en Zen Búddismans, leiða þær til hins sama.

Þetta er rakið hér til að árétta, að grunnkvíðinn liggur í öllum mönnum, svo lengi sem þeir hafa ekki áttað sig á stöðu hugsunarinnar eða réttara sagt haldleysi hennar. Hér er á ferðinni sá grunnur, sem öll seinni vandamál spretta af. Því miður er málið ekki svo einfalt, að kleift sé að losna við grunnkvíðann, án þess að leysa fyrst upp önnur efri lög, sem myndast hafa í mannssálinni. Skal nú næst vikið að því hvernig þau myndast.

1.6 MEIRI VANDI.

Að ég er ég hefur sínar takmarkanir og vandamál. En vandinn hefst aðeins við þessa grundvallarákvörðun. Ákvörðunin er praktísk og nauðsynleg og í alla staði óhjákvæmileg. En öll hugsun skapar einangrun, árekstra og kvíða. Þegar það stóra stökk er tekið, að líta á sig sem einingu gagnvart öllum öðrum einingum, verður að styrkja þá stöðu. Til að hafa innra öryggi og frelsi, til að hafa eigin hugsanir og tilfinningar og geta tjáð sig, er hlýja og góðvilji annarra mikils virði. Leiðbeiningar og hvatning hefur ómetanlegt gildi fyrir þann, sem ekki er viss í sinni sök.

En það eru einmitt þessir þættir í mannlegum samskiptum, sem oft á tíðum sárlega vantar. Foreldrar og aðrir drottna yfir barninu. Aðrir hræða og skelfa. Sumir eru skapvondir og kröfuharðir. Aðrir reikulir, hlutdrægir eða kuldalegir. Ýmist er verið að ávíta eða dekra, lofa og svíkja, sýna tillitsleysi og lítilsvirða. Alls konar öfundsýki og fjandskapur viðgengst. Ógnanir, bönn og refsingar eru ekki fjarlægar og svo framvegis. Egóið á undir vök að verjast og baráttan er oft upp á líf og dauða. Kirkjan kennir, að maður eigi að elska náungann, en þjóðfélagið að maður eigi að vera fyrstur og leggja aðra að velli. Hugsunin felur í sér endalausar þverstæður. Upp kemur meiri almennur kvíði. Tilfinning verður viðvarandi fyrir að vera einangraður og hjálparvana í veröld, sem er fjandsamleg.

Þetta ég, sem myndast úr þessu, verður hér eftir kallað egó, enda er það egó Freuds, sem hann var svo svartsýnn að halda, að ekki væri hægt að losna við. Eðlisþættir viðkomandi og umhverfið ráða framhaldinu. Sumir reyna að geðjast öllum og kaupa sér frið. Sumir berjast og troða aðra undir. Aðrir gerast stefnulausir, láta reka og skeika að sköpuðu og aðrir draga sig út úr þessu öllu og leggja á flótta. Þar sem ekki er kleift að gera allt þetta í senn, velja menn eina leið aðallega. Fer það mikið eftir upplagi og stöðu gagnvart umhverfinu.

Eins og ég sagði áður, er einn þáttur hugsunar, leiðir og markmið. Markmið hafa jafnan fólgnar í sér þverstæður. Sjaldan er hægt að geðjast manni og sigra hann í sömu andránni. Og alls ekki er hægt að flýja og láta reka í einu. Því verður að velja einhverja eina aðferð eða stefnu. Ákveðnar stefnur eru jafnan dýrkaðar og flokkun er talinn til grundvallarskynsemi. Einu sinni KR ingur alltaf KR ingur segja menn og eru stoltir. Ekki er þetta eina ástæðan fyrir ósveigjanleika, heldur veldur hinn mikli almenni kvíði því, að val leiða verður jafnan öfgafullt og stirt. Hlýhugur verður þá aðferð til að koma sér í mjúkinn, velvild verður hreinn undirlægjuháttur o. s. frv. Eftir að hafa árangurslaust ætlað sér að fara margar áttir í einu, er gefist upp og ein leið valin. Lífstíllinn er mótaður. En þetta er aðeins byrjunin.

1.7 ENN MEIRI VANDI.

Eins og lýst hefur verið, hefur fyrst verið ákveðinn punktur, þ.e. að ég er ég og egóið verður til. Ennfremur hefur verið ákveðið að taka strik eða stefnu og viss lífstíll, þótt brotakenndur sé, hefur myndast. Með því að taka upp ákveðnar aðferðir í lífsmáta, myndast vissar þarfir, kenndir, hömlur og siðferði. Sá sem sífellt er að geðjast, reynir að vera ósíngjarn og góður. Sá sem gerir uppreisn eða reynir að keyra aðra undir sig, leggur áherslu á styrkleika og þolgæði, og svo mætti lengi telja. Oft á sér stað að skipt er um lífsstíl. En markmiðið er að gera líf sitt heildstæðara og bærilegra, einkum sig sjálfan meira samkvæman.

Þótt einstaklingurinn verði þannig heilsteyptari út á við, verður hann það ekki hið innra. Hann bælir niður andstæður þess lífsstíls og tækni, sem hann hefur valið sér. Hann reynir sífellt að bæta úr hinum einhliða lífsmáta og ná því að verða heilsteyptari. En margt skortir á hjá honum. T.d. hefur hann ekki öðlast sjálfstraust, þar sem hann hefur sífellt verið í vörn og skiptur innra með sér. Hann getur ekki notað þær hliðar persónuleikans, sem bældir eru vegna lífsstílsins.

Við lifum í samkeppnisþjóðfélagi, sem þýðir að ósigur er vansæla og menn hljóta því að finna sig ekki nógu merkilega gagnvart þeim, sem þeir telja að allt leiki í lyndi hjá eða gangi allt í haginn. Minnimáttarkennd er óhjákvæmileg. Þar með innri einangrun og fjandskapur.

Þörfin fyrir að lyfta sér yfir aðra verður knýjandi. Alfred Adler taldi baráttu fyrir yfirburðum vera meginmarkmið og inntak allrar lífsbaráttu. En fleira kemur til.

Þegar hér er komið sögu kemur til ný lausn á öllum vanda. Lausn, sem verður til hægt og bítandi. Maðurinn býr sér til ákveðin ytri markmið til að keppa að í lífinu og jafnframt sjálfsmynd. Ýmist hefur hann þá náð þessum markmiðum eða er þessi ímynd, eða reynir sífellt að nálgast markmiðin eða ímyndina. Þarna verður bylting í viðhorfum. Sjálfímyndin og markmiðin verða allsherjarlausn. Með því gerir hann hvort tveggja í senn: Að fá tilfinningu fyrir að vera eitthvað og að fá tækifæri til að lyfta sér yfir aðra.

1.8 LAUSN VANDANS.

Eins og áður sagði er nú lausn fengin með því að nota ímyndunaraflið. Sjálfsímynd er mótuð og markmið sett. Þessi sjálfsmynd og markmið eru byggð á persónulegri reynslu, þörfum, hæfni og getu viðkomandi einstaklings. Horft er fram hjá göllum eftir því sem kleift er eða þeir að minnsta kosti færðir til betri vegar. Myndin mótast af þeim lífsstíl og tækni sem notuð hefur verið gagnvart umhverfinu. Í myndinni eru margir persónuleikar oftast ósamþýðanlegir, sem betur sést þegar dæmi eru nefnd.

Þeir sem gangast upp í geðjast öllum og vera góðir, verða í eigin huga góðir menn að eðlisfari. Þeir, sem fórna öllu fyrir ást, t.d. á félögum, fjölskyldu, vinum eða föðurlandi, verða ýmist frábærir elskhugar og vinir allra eða hreinlega dýrlingar, sem hafa til að bera botnlausa fórnfýsi, umburðarlyndi og kærleik. Þeir setja sér jafnan að vera afburðahógværir og eru stoltir af hógværð sinni. Þeir, sem lagt hafa áherslu á að verða ofan á, leggja áherslu á styrkleika sinn, þolgæði og leiðtogahæfni. Hjá þeim byggist allt á skynsemi og framsýni. Ef þeir sækjast eftir virðingu, en ekki völdum, þurfa þeir að koma öllum vel fyrir sjónir, heilla fólk og hrífa, vera háttsettir eða í áliti þjóðfélagslega og sýna hæfni á hinum ýmsu sviðum. Ef þeir eru á flótta, eru þeir sjálfstæðir og engum háðir o.s.frv.

Yfirleitt er einn persónuleikinn valinn sem aðallífsstíll, en hinir, venjulega tveir, sitja í bakgrunni. Þessu er þá hrært saman með ýmsum hætti. Gagnstæðir eiginleikar eru þá vegsamaðir eða upphafðir. Tilhneigingar verða hæfileikar og hæfileikar afrek. Menn geta haft þessa persónuleika í bakgrunni vitundarinnar, einangraða, þannig að einn er upplifaður í einu eða litið er á þá sem margar hliðar ríks persónuleika.

Með því að samsama sig ímynd sinni og markmiðum, verða þau raunverulegri en upprunalegar tilfinningar og viðhorf. Maðurinn fjarlægist sjálfan sig, þ.e. sinn atman eða Sjálf meira og meira. Ímyndin er talin vera það, sem maður raunverulega sé og því verður hinn sanni veruleiki óraunverulegri. Ímyndin er lausn á vandanum, en hún setur okkur í enn meiri vandræði, sem ég ætla ekki á þessu stigi að rekja hér. Málið versnar sífellt. Hegðun verður skyldubundin og áráttukennd. Öll orkan fer í að láta rætast úr ímynd sinni í stað þess að gera sér grein fyrir veruleikanum og gera sinn innri mann raunverulegri, nálgast Sjálf sitt og guðdóminn.

1.9 SÓKNIN EFTIR VEGSEMD.

Eins og lýst hefur verið, leiða sjálfsímyndin og ytri markmið til þess, að öll orka og geta mannsins fara í að reyna að nálgast þessi atriði. Inn á við er þessi mynd fegruð og gyllt. Þörfin fyrir fullkomnun verður aðaldriffjöðrin í því að gera þessa ímynd að veruleika. Markmið þessarar þarfar verður að móta persónuleikann, svo að hann verði þessi ímynd. Alls konar skyldur, boð og bönn eru tekin upp til að ná fullkomnun sjálfsímyndarinnar. Þessa harðstjórn skyldunnar verður ekki rakin nánar að þessu sinni.

Framagirni og þörf fyrir réttlátan sigur eða hefndarsigur verða hinir ytri þættir þessarar sjálfsímyndar. Framagirni er öllum augljós. Menn sækjast eftir völdum eða virðingu. Á hinn bóginn hættir mörgum til að yfirsjást hefndarsigurinn. Markmið hans er að gera öðrum skömm, lítillækka þá eða sigra þá með eigin árangri eða frama. Ekki þarf þessi hefndarsigur að vera upplifaður í raun, því oftast sigra menn aðra í ímyndun sinni. Hugarflugið er hér tekið í þjónustu tilhneigingarinnar. Ímyndunaraflið hefur meginhlutverki að gegna í allri þessari þróun yfirleitt. Sjálfsímyndin er jú hugarins tilbúningur. Þessi atriði, þ.e. framagirnin og hefndarsigurinn, eru of viðamikil til að gera þeim skil hér.

Þessi tilhneiging, að verða sín eigin sjálfsímynd, reynist þvinguð og áráttukennd. Hún verður óseðjandi og ógagnrýnin á aðstæður. Takist mönnum ekki að ná ímynd sinni og markmiðum, verða þeir fyrir miklum vonbrigðum og gera því kröfur á aðra. Þeir telja sig eiga rétt á því vegna sérstöðu sinnar og reyna að ná fram þeim rétti sínum með öllum ráðum. Af því að menn skortir í raun sjálfsálit og sjálfstraust, þá koma þeir sér upp gervistolti. Menn koma sér þá upp einkagildismati og ákveða hvað þeir meðtaka af sjálfum sér, hvað skuli fegrað og gyllt og af hverju þeir skuli vera stoltir.

Mönnum tekst aldrei að vera ímynd sín fullkomlega né ná markmiðum sínum og þess vegna koma til sjálfsásakanir, sjálfsfyrirlitning og sjálfshatur. Minnimáttarkenndin, sem alltaf er viðloðandi, eykst venjulega og birtist í ótal myndum. Á flest hið neikvæða í þjóðfélaginu rót sína að rekja til þess.

Margt fleira væri fróðlegt að ræða. Sumum finnst þessi mál afar flókin og að sjálfsögðu eru þau ekki einföld, því miður. Ekkert er einfalt í þessum málum. Skynsemi og rök eru góð og gild og nauðsynleg til að skilja vandann, en þó leysist ekkert með skynseminni. Hún getur aldrei verið nema fyrsta skrefið. Innsýnin og tilfinningaleg upplifun er lykillinn að öllu. Að honum fengnum sjáum við, að öll þessi bygging hugmyndaflugsins er óþörf og skaðleg. Hún er sýndin ein og hefur ekkert gildi. Eftirsókn eftir gloríu og glamri er ekki aðeins eftirsókn eftir vindi, heldur og sala á sál sinni. “Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig”, sagði djöfullinn er hann freistaði Jesú.

Það dylst engum, sem leitar sannleikans, sem gerir mann frjálsan, að egóið í öllum sínum myndum er mesti þröskuldurinn. Egóið er fráhverft því að vilja vera viðstatt eigin útför. Sögur eru sagðar af því, er menn öðlast í einu vetfangi eða andrá satori, nirvana eða hvað menn kalla hið algilda. Og rétt er það, að öll innsýn gerist á augabragði. En til þess að öðlast innsýn verður að undirbúa jarðveginn. Enginn öðlast innsýn nema að hann hafi undirbúið málið og það tekur oftast mjög langan tíma og mikla vinnu, vinnu sem snýr að honum sjálfum. Þótt öll þróun gerist í stökkum, er það alltaf svo, að mikill undirbúningur liggur jafnan að stökkinu. Þetta sést í náttúrunni. Í sannleika er það því svo, að við vöknum hægt og hægt og verðum smátt og smátt frjáls, þótt oft séu stór stökk tekin. Við hvert stökk breytist lífsviðhorfið þó í grundvallaratriðum.

Átökin við egóið minna á baráttu við orm, sem vex í sína upprunalegu stærð, jafnharðan og höggvið er af honum. Barátta við einstaka þætti egósins virðist því stundum til lítils og ormurinn stóri virðist stundum stærri en nokkru sinni fyrr, einkum eftir mikla sigra gegn honum. Þetta á allt sínar skýringar. Hitt er víst, að hvert skref miðar í áttina. Ormurinn stóri er hrein blekking. En auðvitað gildir það eitt að lokum að losna við allt hyskið í heild sinni.

Að skynja hið algilda er ekki takmark eða markmið í sjálfu sér. Markmiðið er að losna undan markmiðum. Losna við allt sem fjötrar okkur, einkum blekkingu hugsunar og hugarflugs. Leiðtogar Búddismans segjast alls ekki vera upplýstir. Þeir tala um Búddanáttúru og upprunalegt andlit. Markmiðið er að losna við blekkinguna. Hlutveruleikinn verður ekki uppgötvaður sem sýnd eða blekking, fyrr en egóið hefur verulega orðið að láta undan síga. Af þeim ástæðum getur verið hentugt að líta til sálarfræðinnar.