Frelsun athyglinnar undan ofurvaldi fastmótaðra hugmynda.
Þér mun reynast auðvelt að hugleiða, aðeins ef þú heldur þér vakandi og veitir athygli því sem fram fer. Þetta mun einnig verða mjög þægileg upplifun og framkalla tilfinningalegt jafnvægi. Sumir segja mér að þeim finnist erfitt að hugleiða vegna þess að það séu svo margar hindranir og truflanir. Hver er ástæðan? Ef til vill hugsar þú þér að upplifa eitthvað eða að losna við eitthvað. Þetta truflar, því hugurinn verður upptekinn af að ná árangri eða finna tilgang. Ef þannig háttar til ertu að vinna með hugmyndir en ekki að ástunda hugleiðingu. Þegar þú hefur ekki vakandi athygli í hljóðum huga verða til erfiðleikar.
Við skulum varast að gera hugleiðingu flókna. Hún er í grundvallaratriðum einföld þótt þú ef til vill teljir svo ekki vera. Hugurinn ímyndar sér eitthvað margslungið vegna þess að hann rangfærir athöfnina og vill ekki horfast í augu við raunveruleikann. Það er allur vandinn. Þegar þú situr í hugleiðingu og verður var við líkamleg óþægindi finnurðu hvöt til að breyta stellingu og þú hreyfir þig í stað þess að beina athygli að óþægindunum. Þú snýrð frá því sem er, því sem þarna er að birtast þér. Þannig þekkirðu venjulega aldrei núið, raunveruleika þess sem er að gerast. Ef þú beinir athygli að tilfinningunni fyrir óþægindum geturðu fundið hvernig hugurinn leitar þæginda. Ef hann leitar þeirra ekki, er engin undirgefni við þægindi. Eða með öðrum orðum sagt, þegar hugurinn leita ekki eftir hinni svo nefndu hamingju, víkur hann ekki frá því sem er, núinu. Ef þú lætur stöðugt eftir löngun í þægindi muntu aldrei skilja raunveruleika óþæginda og þjáningar. Á meðan maður er ekki raunverulega meðvitaður um þjáningu getur ekki verið um að ræða umbreytingu sem leiðir til hugljómunar.
Við lifum í samræmi við ýmsa staðhætti sem tengjast saman og ávallt lúta „lögmáli aðstæðna“. Ef þú temur þér að fylgjast með því sem vekur athygli þína þá mun hugurinn hætta að standa í vegi fyrir veruleikanum eins og hann er. Við höfum alltaf tilhneigingu til að hlaupast á brott frá lífinu, því sem við erum, og leita að einhverju til að koma í stað þess sem okkur fellur ekki. Þessi hlaup er orsök aukinnar þjáningar. Hamingja er raunverulega fundin þegar þjáningu lýkur. En hvernig lýkur þjáningu? Einföld leið og árangursrík er að gefa henni gaum, veita henni eftirtekt frá öllum hliðum. Spurðu sjálfan þig hvers vegna þú þjáist, hver sé ástæðan fyrir því að þú verðir fyrir óþægindum, vonleysi, depurð og öðru neikvæðu í lífinu. Það hlýtur eitthvað að fara úrskeiðis einhvers staðar í huganum. Þegar þjáning kemur í ljós, þá spurðu: „Hver er að þjást?“ Á meðan einhver þjáist verður þjáning, en þegar sá sem þjáist sameinast þjáningunni kemur raunveruleiki þjáningarinnar í ljós og allt hverfur annað en sjálf athyglin, sem er fullkominn skilningur á raunveruleika. Þá er enginn sem þjáist, en samt getur „þú“ enn greint þjáningu ef djúpt er kafað. Að lokum hverfur þjáningin og upp kemur friður, fögnuður og kyrrð.
Við horfum flest framhjá þessum einfaldleika og leitum leiða til að komast hjá þjáningu, jafnvel minnstu óánægju. Við leitum þessara leiða aftur og aftur en komumst aldrei að leiðarlokum. Til þess endist okkur ekki aldur eftir þessari leið. Það getur verið að við ímyndum okkur að við finnum hið raunverulega innsta eðli með endalausri leit, en besta leiðin er að horfa á það sem gerist frá andartaki til andartaks, allt þangað til eðlileg athygli hefur losnað við hugarrótið.
Öll leitum við einhvers. En hvert er raunverulegt markmið þessar leitar? Ég giska á að það sé innsta eðlið. Hvernig getum við fundið innsta eðlið, hvar er það? Ég held að það sé nauðsynleg að vita að hverju stefnt er, hvers leitað er. Ef það liggur ekki ljós fyrir lýkur leitinni aldrei. Hvert er innsta eðli lífsins? Hvar er það? Það er ekki auðvelt að skilgreina innsta eðli lífsins vegna þess að þegar verið að reyna að skilgreina hið óskilgreinanlega verður það einna líkast því að setja hinu takmarkalausa takmark. Með því er veruleikinn gerður óljósari. En jafnvel þó við getum ekki skilgreint þetta ættum við að skilja það. Hinsta eðli hlýtur að vera eitthvað handan við sköpun, takmarkalaust og alfrjálst, jafnvel frá frelsi sem stundum er bundið af hugmyndum og lögmálum eins og tíminn. Þetta á við um skammtímalausn eða þegar frelsi er á tilteknum stað eða stund. Þetta er ekki innsta eðlið sem við leitum að. Innsta eðlið sem við erum að leita að er laust við allar hindranir, áhrif eða fyrirmyndir. Það er fullkomið í sjálfu sér og á það verða engar hömlur lagðar.
Getum við fundið þetta innsta eðli? Það lætur í eyrum fjarlægt og háfleygt. Hinn takmarkaði hugur telur erfitt að ná til þess og segir: „Fjarstæða, slíkt er ekki til.“ En til að skilja innsta eðli raunveruleikans þarf hugurinn að vera frjáls og dvelja í kyrrð.
Við getum sagt að hið innsta eðli lífsins sé hið fullkomna siðgæði, að lifa samkvæmt siðareglum sem settar eru af samfélagi okkar til þess að við aðlögumst öllu því sem þjóðfélag okkar viðurkennir. Það siðferði takmarkast af sjálfsupphafningar-aðgerðum því tilfinning okkar fyrir að vera siðfáguð styrkir egóið, tilfinninguna um að við séum öðrum fremri, tærari, hreinni. Okkur getur fundist að aðrir séu siðlausir og okkur geðjist ekki að þeim eða við jafnvel hötum þá. Við aðgreinum okkur sem siðferðislega góða en aðra teljum við siðferðislega slæma. Þannig er hið fullkomna siðvit enn innan þeirra skilyrða sem lífið setur og það er ekki innsta eðli.
Þá er einnig fullkomnun einbeitingar þess sem sækist eftir „háum“ andlegum árangri. Enn og aftur er tilfinning aðgreiningar, að vera andlega fremri, sem stundum er ómeðvituð. Þetta stjórnast af „sjálfi“ sem talið er hafa áhrif á einbeitingu hugans. Sú einbeiting þarf samt sem áður vissar aðstæður, svo sem sérstakt umhverfi eða tíma og er ekki sveigjanleg. Þess vegna ert þú ekki fullkomlega frjáls í einbeitingu þinni vegna þess að þar er viðleitnin til að einangra og útiloka sjálfið frá einhverju öðru. Mjög einbeitt fólk á oft við mikinn vanda að stríða í lífinu vegna þess hve hugurinn er strangur og stoltur af ímynd sinni um eigin fullkomnun. Slíkur einstaklingur hugsar sem svo: „Ég er yfir aðra hafinn.“ Hann er eigi að síður meðvitaður um vonleysi og depurð og þess vegna verður hann ruglaður og vonsvikinn. Þetta getur ekki verið innsta eðlið.
Hvað innsæisþekkingu víðvíkur þá kann að sýnast að hún hljóti að vera innsta eðlið því hún feli í sér það sem þú telur vera fullkomlega þig sjálfan. En það þarf ástundun og tíma til að leiða hana í ljós eða að minnsta kosti einhverjar aðferðir við að tengjast henni og tileinka sér hana. Innan fullkomins ástands innsæisþekkingar er enn þörf fyrir að láta hana í ljósi við aðstæður sem mæta þér. Það er sama hve fullkomin sem hún er, hún er skilyrt af viðburðum og tíma. Þar sem hún getur auk þess vakið tilfinningar fyrir yfirburðum, er hún ekki innsta eðli.
Hvað er þá innsta eðli í raun og veru? Það hlýtur að vera þetta tímalausa og rúmlausa frelsi eða lausn sem á palí er nefnt asamayavimokkha. Án þessarar lausnar höfum við skoðanir og viðhorf sem hindra okkur, gera okkur ókleift að halda lengra og við teljum hið raunverulega vera hið óraunverulega og hið óraunverulega vera hið raunverulega, og ruglum innsta eðli saman við það sem það ekki er. Með því að velja eina stefnu eða komast að ákveðinni niðurstöðu stöðnum við og hættum að læra. Við höldum fast við það sem við höfum komist að raun um og lokum huganum fyrir öðru. Við viljum ekki vita annað og meira. Komi eitthvað í ljós sem samrýmist ekki viðhorfi okkar, höfnum við því umsvifalaust af því að það sé „ekki rétt.“ Við búum okkur til rök til að verja viðhorf okkar. Þau rök eru á vettvangi fávísi, ruglings og sjálfsblekkingar. Besta leiðin til að finna raunveruleikann er vakandi athygli án þess að hengja sig í neinar hugmyndir. Með því getum við horft á lífið með fullri meðvitund og viturlega án þess að setja nokkur skilyrði. Slíkur hugur getur skilið raunveruleikann, það er þekkt innsta eðlið.
Hefurðu nokkurn tíma leitt hugann að því hvers vegna hugmyndir sumra manna hafa svona mikil áhrif á aðra? Ef þú hugsar einungis eftir einni leið verður þú mjög fastmótaður og þróttmikill, skoðunum þínum verður ekki auðveldlega haggað. Hvers vegna er þetta svona? Búddismi telur þetta vera vegna bindingar við eina hugmynd eða hugmyndakerfi. Slík fastheldni er villandi í lífinu og þú ert raunverulega ekki vakandi, vel á verði og athugull, en gengur með hugmyndir sem koma í veg fyrir að þú sjáir á nýjan hátt. Raunveruleikinn er alltaf nýr og hann hefur ekki ákveðið form. Það er vissulega ekki hægt að sjá hann á meðan við erum bundin af einhverju öðru. Þegar Búdda hafði skýrt munkum sínum frá kenningunum sextíu og tveim í indverskri heimspeki, sagði hann: „Þótt Thatagata hafi skilið fullkomleg öll þessi kerfi er hann ekki bundinn af neinu þeirra.“
Laus frá öllum fjötrum uppgötvaði hann sannleikann. Það var athyglisvert við Búdda hve óháður hann var því sem hann vissi. Þannig erum við ekki. Þú getur reynt að sanna hlutina fyrir öðrum en mun betra er að benda þeim á leiðina sem þeir geta farið til að uppgötva sjálfir. Þú verður að leiða hjá hér skoðanir þínar og hugmyndir. Að öðrum kosti skilja aðrir þig ekki og segja: „Þetta er einungis þín skoðun. Þú ert alinn upp í að trúa þessu, en við erum ekki sama sinnis.“ Þannig myndast skil á milli þín og annarra, sem þýðir að um tengsl er ekki að ræða. Önnur fyrirstaða beinna tjáskipta er málnotkun. Við reynum að nota orð til að fela í sér sannleika í stað þess einungis að vera tákn fyrir hann. Við megum ekki reyna að láta orðin nægja, lifa á þeim, næra okkur á þeim, ef svo má að orði kveða. Þess í stað þurfum við að skyggnast inn í raunveruleikann að baki orðanna, finna innri merkingu þeirra, ef niðurstaðan á að verða annað en ímyndun. Við sjáum ekki Búdda ef við erum bundin af ímynd hans. Við sjáum ekki Guð ef við erum bundin af ímynd hans og trúum því að hún sé Guð. Til að þekkja Guð þurfum við að verða eitt með honum. Til að þekkja raunveruleikann þurfum við að sameinast honum. Á meðan við burðumst með hugmyndir um raunveruleikann getum við ekki upplifað hann sjálfan.
Þess vegna er okkur sífeld endurmenntun nauðsynleg, að læra af hverju atviki í lífinu.Þá verður lífið endalaus námsbraut. Hvað er átt við með menntun? Menntun felst ekki í því að ávinna sér námsgráður, heldur aðferðin til að opinbera það sem í manninum býr. Yfirleitt verður öflun þekkingar til þess eins að troða í okkur ruglingslegri og flókinni fróðleiksblöndu. Raunveruleg menntun gerir tilkall til mikillar þolinmæði svo að í ljós komi hvað í henni býr. Þá getum við nýtt hana meðvitað í lífinu. Annars spillist það sem ávinnst og við beitum aldrei innri hæfileikum okkar til athafna og hamingju. Menntun getur átt sér stað á hverju andartaki lífsins að því gefnu að við lærum bæði af þjáningum, þægindum og hverju því sem hendir okkur. Lífið býr yfir öllum fyrirbærum og tækifærið að læra á hverju andataki mun ekki framhjá okkur fara ef við erum vakandi og höfum fulla aðgát. Með því móti lærum við að losna við skilyrta fordóma okkar þar til við verðum „aflærð“ (óháð) eða sá „fullkomnaði“ sem lifir í tímalausu frelsi utan rúms. Slík lausn er hið innra en einnig hið ytra því í innsta eðli er engin aðgreining. Þar er einungis eining með eitt í öllu og allt í einu.
Úr bókinni „The Real Way to Awakening“; Jóhannes Ágústsson þýddi.