Hugurinn og eðli hans

Við erum fangelsuð inni í dimmum og þröngum helli sem er okkar eigið verk og við trúum að sé allur heimurinn. Í því ástandi eru aðeins mjög fáir sem geta á ófullkominn hátt ímyndað sér aðra tilveruvídd.

Hin sínýja og byltingarkennda uppgötvun búddhismans er að líf og dauði eru í huganum og hvergi annars staðar. Hugurinn birtist sem grunnur allrar reynslu - uppspretta bæði hamingju og þjáningar, bæði lífs og þess sem við nefnum dauða.

Hugurinn getur birst í mörgum myndum, en tvær eru þó mikilvægastar. Önnur er hversdagshugurinn sem Tíbetar nefna sem. Meistari nokkur útskýrði hann þannig: „Í hversdagshugann er innbyggð aðgreiningarkennd, tilfinning fyrir tvíhyggju - sem reynir að hrifsa sumt til sín en hafna öðru. Frumhvöt hans er að tengjast við „annað“, við „eitthvað“ sem álitið er aðgreint frá þeim sem skynjar.“ Sem er hinn röklegi hugur sem hrærist í tvíhyggju og getur eingöngu starfað með tilliti til eigin frávarpana sem eru ranglega skynjaðar sem ytra viðmið.

Sem er með öðrum orðum hugurinn sem hugsar, gerir áætlanir, finnur til langana, hliðrar aðstæðum sér í hag, fuðrar upp í reiði, skapar sér neikvæðar hugsanir og tilfinningar og veltir sér upp úr þeim. Hann er stöðugt að við að fullyrða, meta og staðfesta „tilvist“ sína með því að búta reynsluna niður, beita við hana hugtökum og hlutgera hana. Hinn hversdagslegi hugur er á sífelldu flökti, ofurseldur áhrifum frá umhverfi, vana og mótun. Meistararnir líkja honum við kertaloga í opnum dyrum sem flöktir fyrir minnsta dragsúgi.

Frá einu sjónarmiði virðist hann flöktandi, óstöðugur, fálmandi og sífellt að skipta sér af málum annarra. Hann eyðir orku sinni í glímu við ytri frávarpanir. Hann minnir mig stundum á apa sem sveiflar sér eirðarlaus á milli greina. En frá öðru sjónarmiði séð býr hversdagshugurinn yfir fölskum og sljóum stöðugleika, sjálfumglaðri og sjálfsverndandi tregðu, steinrunninni rósemi hins áunna vana. Sem er undirförull eins og spilltur stjórnmálamaður, efagjarn, tortrygginn og sérhæfður í vélabrögðum og kænsku, eða eins og Jamyang Khyentse (meistari höfundar) orðaði það: „snillingur í blekkingaleikjum.“ Það er innan reynslumarka sem, í ringulreið hins ruglaða, óagaða og endurtekningarsama hversdagshugar að við hljótum aftur og aftur að þola umbreytingar og dauða.

Hins vegar er svo djúpeðli hugarins. Það er innsti kjarni hans sem er alltaf og algerlega ósnortinn af breytingum og dauða. Í núverandi ástandi dylst hann inni í okkar eigin sem, hversdagshuganum. Hann er umlukinn og kæfður af ys og þys hugsana og tilfinninga. Einhver óvæntur innblástur nær stundum að opna fyrir okkur sýn inn í eðli hugarins rétt eins og sólin og blár himinn koma stundum í ljós þegar sterkur vindur nær að feykja skýjunum burt. Þessir glampar eru misdjúpir og öflugir, en sérhver þeirra kveikir ljós skilnings og flytur með sér nýja merkingu og aukið frelsi. Þetta stafar af því að eðli hugarins er sjálf uppspretta skilningsins. Á tíbetsku er það nefnt rigpa, hin upprunalega, hreina og tæra varurð, sem er allt í senn meðvituð, skynsöm, útgeislandi og stöðugt vakandi. Þetta mætti kalla vitund um sjálfa þekkinguna.

Það væri villa ef við ímynduðum okkur að þetta djúpeðli einskorðaðist við vitund okkar. Það er þvert á móti eðli alls sem er. Það verður aldrei nógu oft endurtekið að skilningur á eðli hugarins er sama og að skilja eðli allra hluta.

Helgir menn og mýstikerar hafa á öllum tímum gefið uppgötvun sinni mörg ólík nöfn og túlkað hana á ýmsa vegu, en það sem þeir hafa þó allir upplifað er þetta sama sanna eðli hugarins. Kristnir menn og gyðingar kalla það „Guð“; hindúar kalla það „Sjálfið“ (atman), „Shíva“, „Brahman“ eða „Vishnú“; súfar nefna það „hinn dulda kjarna“ og búddhistar nefna það „búddha-eðli“. Innsti kjarni allra trúarbragða er sú vissa að til sé frumsannleikur og að lífið sé heilagt tækifæri til að uppgötva hann og leiða hann í ljós.

Þegar við segjum Búddha hvarflar hugsunin eðlilega til Gautama Siddharta sem öðlaðist hugljómun á sjöttu öld f.Kr. og kenndi síðan andlega leið sem nefnd er búddhismi og milljónir manna fylgja um alla Asíu. Orðið Búddha hefur samt miklu dýpri merkingu. Það á við hvern þann einstakling sem vaknað hefur af draumsvefni fáviskunnar og opnað sig fyrir möguleikum viskunnar. Búddha er sá sem hefur sigrast endanlega á þjáningu og vonbrigðum og uppgötvað varanlega hamingju og frið handan dauða.

En mörgum okkar hlýtur að finnast, á þessari öld efans, að slíkt ástand hljóti að vera ímyndun eða draumur eða þá eitthvað sem sé algerlega utan seilingar. En við skulum ekki gleyma að (hinn sögulegi) Búddha var maður rétt eins og ég og þú. Hann hélt því aldrei fram að hann væri guðlegur, hann vissi aðeins að í honum og um leið í öllum öðrum mönnum bjó búddha-eðli, frækorn hugljómunar. Sérhver skyni gædd vera er einfaldlega fædd með þetta búddha-eðli. Þetta eru góðu fréttirnar sem Búddha færði okkur eftir hugljómun sína við Bodhgaya. Boðskapur hans, að allir geti öðlast þessa reynslu, gefur mörgum mikla von og innblástur. Með iðkun getum við einnig náð að vakna. Þessu til sönnunar er reynsla óteljandi einstaklinga á fyrri tímum og allt fram til þessa dags.

Sagt er um Búddha að hann hafi eftir hugljómun sína í rauninni aðeins viljað benda mönnum á hvert er eðli hugarins og gefa þeim hlutdeild í reynslu sinni. En af sinni óendanlegu samúð var honum einnig ljóst hve erfitt yrði fyrir okkur að skilja boðskap hans.

Þó að við höfum sama innra eðli og Búddha höfum við ekki enn gert okkur grein fyrir því vegna þess að við erum svo innilokuð og umlukin hinum hversdagslega einstaklingshuga. Hugsaðu þér tóman vasa. Rúmið inni í vasanum er nákvæmlega sama og rúmið fyrir utan. Brothættir veggir vasans eru hið eina sem aðgreinir þetta tvennt. Búddha-eðlið er umlukið veggjum hversdagshugarins. En við hugljómun sundrast vasinn og rúmið „innan í“ sameinast rúminu „fyrir utan“. Þau verða eitt: Þá gerum við okkur ljóst að þau voru aldrei ólík eða aðskilin, þau voru alltaf eitt og hið sama.

Himinn og ský.

Hvernig sem lífi okkar er háttað er búddha-eðlið alltaf fyrir hendi. Og það er alltaf fullkomið. Menn taka svo til orða að hvorki geti búddhar endurbætt það með takmarkalausri visku sinni né skyni gæddar verur spillt því með villuráfi sínu sem virðist endalaust. Líkja má hinu sanna eðli okkar við himininn og rugli hverdagshugarins við skýin. Þegar við horfum til himins er stundum erfitt að trúa því að himinninn sé eitthvað annað en samfelld skýjabreiða. En þá nægir að bregða sér í flugferð upp fyrir skýin til þess að uppgötva endalausa víðáttu af bláum himni. Þaðan sýnast skýin sem áður huldu himininn lítil og langt fyrir neðan.

Við ættum alltaf að reyna að muna: Skýin eru ekki himinninn og eru ekki „hluti“ hans. Þau „hanga“ bara á himninum og líða hjá á sinn óháða og skringilega hátt. En þau geta aldrei skilið þar eftir spor sín.

Hvar er þá nákvæmlega þetta búddha-eðli? Það er þetta í huganum sem líkist heiðum himni. Það er fullkomlega opið, frjálst og takmarkalaust en samt svo einfalt og náttúrulegt að aldrei er hægt að flækja það, spilla því eða óhreinka það. Það er svo tært að það er handan hugmynda um hreinleika eða óhreinleika. Að tala um að djúpeðli hugarins líkist heiðum himni er auðvitað aðeins myndlíking sem auðveldar okkur að ímynda okkur takmarkaleysi þess. Himinninn býr að sjálfsögðu ekki yfir geislandi tærri varurð eins og búddha-eðlið. Sagt er: Það er gallalaust, stöðugt nálægt, meðvitandi tóm, nakið og vakandi.

Fjórar hindranir.

Hvers vegna reynist fólki þá eins erfitt og raun ber vitni að ímynda sér djúpeðli hugarins, dýpt þess og fullkomnun, hvað þá að upplifa það? Hvers vegna sýnist mörgum þessi hugmynd svona framandleg og ótrúleg?

Talað er um fjórar hindranir sem koma í veg fyrir að við getum hér og nú upplifað eðli hugarins:

1. Djúpeðli hugarins er of nálægt okkur til þess að við getum komið auga á það.

2. Það er djúpstæðara en svo að við náum að höndla það. Við getum ekki ímyndað okkur hversu djúpstætt það er; ef við gætum það hefðum við þegar uppgötvað það að vissu marki.

3. Þetta er of auðvelt til þess að við getum trúað því. Í rauninni þurfum við aðeins að slaka á í nakinni hreinni varurð, sem er alltaf nálæg, til þess að upplifa það.

4. Þetta er of undursamlegt til þess að við getum meðtekið það. Ógnarstærð þess kemst ekki fyrir innan okkar þrönga sjóndeildarhrings. Við getum einfaldlega ekki trúað þessu. Það getur ekki verið, hugsum við, að hugljómun sé hið raunverulega eðli okkar eigin hugar.

Ef þetta var sönn greining á hinum fjóru hindrunum í hinu tíbetska menningarumhverfi, sem helgaði sig nær eingöngu leitinni að hugljómun, hversu miklu fremur hlýtur þetta ekki að eiga við í okkar nútímamenningu sem hefur mestan part beitt sér að dýrkun blekkinga. Hvergi er að finna almenna fræðslu um eðli hugarins. Rithöfundar og lærdómsmenn minnast tæpast á það, heimspekingar nútímans tala aldrei beint um það, meirihluti vísindamanna hreinlega afneitar því. Þess sést tæpast nokkurs staðar merki í nútíma menningu: Enginn syngur um það, það er aldrei minnst á það í leikritum, þess er aldrei getið í fjölmiðlum. Í almennri skólagöngu er okkur beinlínis talin trú um að ekkert sé raunverulegt nema það sem skynfærin fá greint.

En þrátt fyrir þessa næstum yfirþyrmandi afneitun verðum við samt stöku sinnum vör við hverfula glampa frá djúpeðli hugarins. Þetta getur stundum gerst þegar við hlustum á stórbrotna tónlist eða í þeirri heiðríku hamingju sem við finnum stundum fyrir úti í óspilltri náttúru og stundum vaknar það við hversdagslegustu aðstæður í daglegu lífi. Þetta gerist ef til vill þegar við horfum á snjókorn falla mjúklega til jarðar, þegar sólin er að koma upp á bak við fjall eða við virðum fyrir okkur sólargeisla sem þrengir sér í gegnum gluggatjöld í hálfrökkvuðu herbergi. Öll upplifum við slík augnablik hugkyrrðar, friðar og hamingju og dularfull áhrif þeirra fylgja okkur lengi á eftir.

Ég held að við skiljum stundum hálfpartinn þessa glampa, en skortur á samhengi við nútímamenningu gerir þá nær óskiljanlega. En það sem verra er: Í stað þess að hvetja okkur til að kanna þessa glampa nánar og leita að uppsprettu þeirra erum við hvött leynt og ljóst til að útiloka þá. Við vitum að enginn tekur okkur alvarlega ef við reynum að trúa öðrum fyrir reynslu okkar. Þess vegna látumst við ekki vita af því sem gæti verið stórkostlegasta uppgötvun í lífi okkar ef við bara skildum hana. Þetta er ef til vill dekksta skuggahlið okkar nútímamenningar - fáfræði hennar og bæling á því hvað við raunverulega erum.

Að horfa inn á við.

Gerum ráð fyrir að við snúum alveg við blaðinu. Gerum ráð fyrir að við hættum að horfa aðeins í eina stefnu. Okkur hefur verið kennt að eyða lífinu í það að eltast við hugsanir okkar og frávarpanir. Jafnvel þegar „hugurinn“ er til umræðu er aðeins átt við hugsanir og geðsveiflur og þegar rannsóknarfólk kannar það sem kallað er hugur lítur það eingöngu á frávarpanir hans. Enginn skoðar í alvöru hugann sjálfan, grunninn sem allt þetta kemur frá. Og afleiðingarnar eru sorglegar.

Hvernig má snúa þessu við? Það er mjög einfalt. Í huganum er um tvennt að velja: að horfa út eða horfa inn.

Nú skulum við horfa inn á við. Sú viðhorfsbreyting kemur af stað feiknarlegri breytingu sem gæti jafnvel komið í veg fyrir þau stórslys sem nú ógna heiminum. Þegar æ stærri hópur fólks skilur sinn eigin huga kann það um leið að meta þann undursamlega heim sem það lifir í og berst því af hugrekki og einlægni fyrir því að vernda hann. Það er merkilegt að orðið yfir „búddhista“ í tíbetsku er nangpa. Það merkir „innkönnuður“, maður sem leitar sannleikans í sjálfu eðli hugarins en ekki í ytri tilveru. Allar kenningar og öll þjálfun í búddhisma beinast að þessu sama marki: að horfa inn í sjálft eðli hugarins og losa okkur þannig við óttann við dauðann og vekja okkur til skilnings á lífinu.

Að horfa inn á við krefst af okkur hárfíns skilnings og mikils hugrekkis sem er ekkert minna en alger afstöðubreyting til lífs og vitundar. Við erum svo háð því að horfa út á við að við höfum næstum því misst sambandið við okkar innri mann. Tilhugsunin að horfa inn á við skelfir okkur vegna þess að ekkert í menningu okkar gefur til kynna við hverju við megum búast. Við gætum jafnvel haldið að slík könnun bjóði heim hættunni á geðveiki. Þetta er eitt af síðustu en um leið snjöllustu kænskubrögðum egósins til þess að koma í veg fyrir að við getum uppgötvað okkar sanna eðli.

Með því að fylla líf okkar með friðlausum erli og óróa losum við okkur við áhættuna að þurfa að horfa inn á við. Jafnvel hugmyndin um hugleiðingu getur hrætt fólk. Þegar menn heyra orð eins og „ég-laus“ eða „tóm“ (sunyata) ímynda þeir sér að það sé eins og að vera fleygt út úr geimskipi eða svífa um að eilífu í dimmu, köldu tómi. Ekkert gæti verið fjær sannleikanum. En í heimi þar sem fólk lifir fyrir afþreyingu hlýtur þögn og kyrrð að skelfa fólk, og það reynir að verjast slíkum „ógnunum“ með hávaða og óðakappi. Að horfa inn í eigið eðli hugarins er það síðasta sem við myndum hætta á.

Það hvarflar sundum að mér að menn þori ekki að spyrja sig marktækra spurninga um hverjir þeir eru vegna óttans við að uppgötva kannski annan veruleika. Hvernig litu fyrri lífshættir okkar út í ljósi þessarar nýju uppgötvunar? Hvernig litu vinir okkar og samstarfsmenn á málið? Hvernig notuðum við þessa nýju vitneskju? Nýrri þekkingu fylgir ný ábyrgð. Það kemur fyrir að fanginn kýs að sitja sem fastast þó að fangelsisdyrnar séu opnaðar upp á gátt.

Fyrirheit hugljómunar.

Þegar menn uppgötva djúpeðli hugarins fylgja því ákveðnir eiginleikar. Í heimi nútímans finnast fá dæmi um slíka menn. Þess vegna reynist okkur torvelt þó ekki sé nema að ímynda okkur ástand hugljómunar eða skynjun veru í því ástandi. Að ímynda okkur að við getum sjálf náð þessu ástandi virðist jafnvel enn fráleitara.

Þjóðfélag okkar miklar sig af að því að virða mikilvægi og frelsi einstaklingsins. En samt virðist gert ráð fyrir að menn séu blindaðir af hugsuninni um völd, kynlíf og peninga og að sérhverja stund þurfi að leiða athygli þeirra frá raunverulegu lífi og dauðanum. Ef grunur læðist að okkur að til séu djúpstæðir möguleikar trúum við því samt ekki. Ef við getum á annað borð hugsað okkur andlega ummyndun er það helst sem hlutskipti helgra manna og meistara fyrr á öldum. Dalai Lama talar oft um það hvernig marga í nútímanum skortir raunverulega sjálfsást og sjálfsvirðingu. Grunnviðhorf okkar er taugaveikluð vissa um eigin takmarkanir. Þetta útilokar alla von um vöknun og er í sorglegri mótsögn við höfuðsannindin í kenningu Búddha: Í sönnu eðli okkar erum við öll þegar fullkomin.

Ef okkur hefði ekki verið sagt frá djúpeðli hugarins og möguleikanum að geta fundið það misstum við strax alla von um að ná því marki þegar við lítum á samsetningu hins hversdagslega hugar: reiði, græðgi, afbrýðisemi, illkvittni, grimmd, losta, ótta, kvíða og æstar tilfinningar.

En hugljómun er raunveruleiki og nú á þessari stundu eru uppi einstaklingar sem náð hafa þessu stigi. Ef við hittum einhvern slíkan hrærir það okkur inn að innstu hjartarótum og við komumst að því að orð eins og „hugljómun“ og „viska“, sem við héldum að væru bara hugmyndir, tákna eitthvað raunverlegt. Þrátt fyrir hætturnar er heimur nútímans samt spennandi. Nútímamaðurinn er smám saman að vakna til nýrrar sýnar á veruleikann. Í sjónvarpinu bregður fyrir miklum kennurum eins og Dalai Lama eða móður Teresu, margir andlegir meistarar frá Austurlöndum kenna nú á Vesturlöndum og stöðugt fjölgar þeim sem heillast af bókum um mýstkiskar höfuðstefnur. Neyðarástand víða á jörðinni er smám saman að vekja fólk og það sér að þörf er almennrar viðhorfsbreytingar.

Hugljómun er raunveruleiki. Sérhvert okkar getur við réttar aðstæður og með réttri þjálfun uppgötvað djúpeðli hugarins og skilið hvað það er í okkur sem er að eilífu hreint og handan dauða. Þessu er haldið fram í öllum mýstiskum höfuðstefnum og þúsundir manna hafa sannprófað það.

Hið undursamlega við þetta fyrirheit er að þetta er ekki eitthvað framandi eða fjarstæðukennt eða aðeins fyrir útvalda, heldur stendur öllu mannkyni til boða. Og þegar við uppgötvum það, segja meistararnir, kemur okkur á óvart hvernig það er ekki utan hins hversdagslega. Andleg sannindi eru ekki eitthvað flókið og leyndardómsfullt, heldur djúpstæð almenn skynsemi. Þegar maður loks skilur eðli hugarins losnar maður undan blekkingafargi. Maður „verður ekki búddha“, heldur einfaldlega leysist blekkingaþokan smám saman upp. „Að vera búddha“ er ekki að vera eitthvert andlegt ofurmenni, heldur að vera loks sannur maður.

Í einni af höfuðgreinum búddhismans er djúpeðli hugarins nefnt „viska hins hversdagslega“. Ég hlýt að endurtaka: Hið sanna eðli allra og okkar sjálfra er ekki eitthvað furðulegt eða afbrigðilegt. Það er kaldhæðnisleg staðreynd að það er einmitt hinn svo kallaði venjulegi heimur sem er flókinn og fáránleg blekking brenglaðrar upplifunar (samsara). Það er þessi „afbrigðilega“ upplifun sem fjötrar okkur í hversdagshuganum. Hugsum okkur búddha sem virti fyrir sér ástandið sem við erum í. Dapur í bragði myndi hann furða sig á banvænni snilld þess blekkingarvefs sem við erum flækt í!

Við flækjum hlutina að óþörfu. Þegar andlegur meistari reynir að útskýra eðli hugarins fyrir okkur finnast okkur ábendingar hans of einfaldar til þess að hægt sé að taka mark á þeim. Hversdagshugurinn segir okkur að svona geti það ekki verið, það hljóti eitthvað meira að liggja að baki. Þetta hljóti að vera eitthvað „dýrðlegt“ - geislandi ljóshaf, englar með flaksandi gullið hár sem komi svífandi niður til okkar og djúp rödd galdrakarlsins í Oz tilkynni: „Nú hefur þú fengið að kynnast djúpeðli hugar þíns!“ Ekkert þessu líkt gerist.

Þar sem gáfur eru ofmetnar í okkar menningarheimi ímyndum við okkur að andlegur skilningur krefjist óvenjulegra vitsmuna. En í rauninni valda margar tegundir greindar aðeins enn meiri flækjum. Tíbetskt máltæki segir: „Ef þú ert of gáfaður geturðu ekki séð aðalatriðið.“ Patrul Rinpoche sagði: „Rökhugurinn virðist merkilegur en hann er fræ blekkingarinnar.“ Fólk getur orðið gagntekið af eigin kenningum en um leið gjörsamlega blint á allt sem skiptir máli. Í Tíbet segjum við: „Kenningar eru eins og blettir á yfirhöfn, dag einn veðrast þeir af.“

Ég ætla að segja ykkur uppörfandi sögu:

Meistari nokkur sem uppi var á síðustu öld hafði nemanda sem var frekar tregur til skilnings. Meistarinn margreyndi að útskýra fyrir honum djúpeðli hugarins. En ekkert gekk. Þar kom að lokum að kennarinn byrsti sig og sagði: „Sjáðu til, ég ætlast til að þú berir þennan poka fullan af höfrum upp á fjallið sem þú sérð þarna. En þú mátt alls ekki nema staðar og hvíla þig. Haltu bara áfram þangað til að þú nærð tindinum.“ Nemandinn var fremur einfaldur maður en var fullur lotningar í iðkun sinni og bar fullkomið traust til kennara síns og gerði þess vegna nákvæmlega það sem fyrir hann var lagt. Pokinn var þungur. Hann greip pokann, sveiflaði honum á bak sér og lagði af stað upp fjallshlíðina. Hann gekk og gekk og pokinn varð þyngri og þyngri, en hann þorði ekki að stansa eitt augnablik. Hann var lengi á leiðinni. Loks náði hann tindinum og fleygði frá sér pokanum. Hann hlammaði sér niður, yfirkominn af þreytu en um leið feginn að hafa lokið þessu erfiða verki. Hann slakaði á og fann ferska fjallagoluna við andlit sér. Allt viðnám var horfið og með því hversdagshugurinn. Öll tilveran virtist nema staðar. Á því augnabliki upplifði hann djúpeðli hugarins. „Ah! Þetta er það sem meistari minn var alltaf að reyna að sýna mér,“ hugsaði hann. Hann flýtti sér niður af fjallinu og ruddist inn í herbergi meistarans (sem var brot á öllum kurteisisvenjum). „Ég held ég skilji þetta núna ... Ég hef raunverlega skilið það!“

Meistarinn brosti íbygginn: „Já, þetta var athyglisverð fjallganga, var ekki svo?“

Þú sem þetta lest getur öðlast þessa sömu reynslu og nemandinn í sögunni og hún mun gefa þér kjark til að komast klakklaust í gegnum líf og dauða.

En hver er besta og fljótlegasta leiðin til þess að nálgast þetta? Fyrsta skrefið er iðkun hugleiðingar. Hugleiðingin hreinsar smám saman hversdagshugann, hún sviptir hann blekkingum og sofandahætti vanans og þá getum við, þegar rétta stundin rennur upp, uppgötvað hver við raunverulega erum.

Sv. B. þýddi úr The Tibetan Book of Living and Dying.