Hinn einfaldi leyndardómur

Satsang með  Gangaji 28. október 1995

Satsang er sanskrít og merkir samneyti við sannleikann, oftast notað yfir fund meistara og nemenda, en einnig yfir fund manns og innri kennara (satgurus) og fund manns og Sjálfs. Í því sem hér fer á eftir eru spurningar og tilsvör nemandans aðgreind með skáletri.

Tilfinningaleg úrvinnsla getur vissulega verið mjög gagnleg. En að því kemur að þú sættir þig ekki við neitt minna en sannleikann. Þegar þú hefur á einhvern hátt beðið um hann þá kemur satsang uppí flasið á þér og segir þér að hætta. Hætta að segja söguna. Hætta öllum útskýringum. Hætta allri greiningu. Hætta - og sjá.

Gangaji: Allt sem sagt er á satsang er einskonar tæki til að stöðva hugann, svo að við höfum möguleika á að gera okkur það ljóst sem við höfum aldrei áður séð, aldrei heyrt, aldrei hugsað og aldrei fundið. Að þessu leyti er satsang ævinlega eitthvað nýtt og lifandi. Satsang snýst ekki um kenningar og trúarsetningar. Hér mætumst við í sannleika, lifandi sannleika.

Þessa stuttu stund, þennan klukkutíma eða svo, skulið þið leyfa athyglinni að hvíla í varurðinni sjálfri, uppsprettu allrar athygli. Þá er hugsanlegt að þið berið aftur kennsl á ykkar sanna sjálf, Sjálfið, Uppsprettuna. Og að endingu munið þið komast að því að allt sem athygli ykkar beinist að er einnig þessi Uppspretta. Ekkert er nokkurntíma skilið frá henni. Mannssálin verður ekki greind frá sannleika Guðs.

Á satsang mætumst við í innilegri viðurkenningu á því hvaðan við komum, viðurkenningu á því sem gefur okkur lífið, því sem við hverfum til og því sem við greinum okkur ekki frá eitt andartak, ekki einu sinni þegar allra verst lætur. Þegar þið hafið fundið það getið þið litið yfir farinn veg og séð hvort það hafi nokkurntíma látið sig vanta. Já, þið verðið hissa! Því að þið sjáið gervalla fortíð ykkar einsog hún hafi verið breidd á hreina, ósnortna Verund. Forréttindaánægja manneskjunnar felst í hæfileika hennar til að bera kennsl á sjálfa sig sem eilífan Veru-leika, eilífa Verund, sem er þarna áðuren við fæðumst, á meðan við lifum og eftirað við deyjum. Í þessum kennslum er ekki aðeins fólgin mikil viska heldur elskum við líka það sem við berum kennsl á.

Ég finn stundum þetta rými sem þú lýsir, en ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að dvelja þar. Ég er sálfræðingur og veit ýmislegt um djúpstæð bernskusár, sár í kjarnanum. Ég hef rekið mig á að þau hverfa oft í bakgrunninn um tíma en koma svo venjulega uppá yfirborðið að nýju. Geturðu sagt okkur eitthvað um hvernig þér finnst að hægt sé að græða sár eftir erfið áföll í bernsku?

Bíddu nú hæg. Þú talar um kjarna sem er sár eftir áföll. Hér verð ég að vera þér ósammála. Eða geturðu á þessu andartaki fundið þennan særða kjarna sem þú talar um? Ef þú getur það komumst við hjá því að ræða þetta fræðilega, mínar skoðanir gegn þínum, hvar við erum sammála og hvar ekki. Núna, hérna í þessu herbergi, geturðu fundið kjarnann í sárinu og sagt mér að hverju þú kemst?

Ég kalla það mitt helga sár.

Ég er ekki að biðja þig um nafn á það. Ég spyr aðeins hvort þú getir farið inní kjarna þess sem þú kallar „sár“ - og þá skiptir ekki máli hvort það er gott sár eða vont.

Allt í lagi. Ég finn aðskilnað.

Nú ertu að segja sjálfri þér sögu. Farðu inní kjarna þessarar reynslu þinnar að vera aðskilin og segðu mér hvað þú finnur. Hættu að halda þér í yfirborðinu.

En mér finnst ég vera ein og stök.

Hættu að segja „ég er ein og stök“ eða „ég er aðskilin“ og vertu það. Skilurðu mig? Láttu af öllum þessum athugasemdum og skýringum. Þetta snýst um beina reynslu af „bernskusári.“

Mér finnst ég vera yfirgefin.

„Mér finnst ég vera yfirgefin“ er bara athugasemd. Upplifðu það að vera yfirgefin. Slepptu „mér“ og slepptu „finnst“ og vertu yfirgefin og ekkert annað. Sannaðu til, það er ekki hægt nema þú hættir að tala við sjálfa þig.

Þetta er einsog djúp hola.

Já, ég skil, þér líður einsog þú sért í holu. Kannski sérðu hana fyrir þér. Kannski er það þetta sem þú hefur kallað „höfnun.“ Stingdu þér nú inní miðjuna á þessari holu, þessu hyldýpi, og gættu þess að hugsa ekki um hvað bíður þín. Taktu aðeins eftir því ef þú klöngrast uppúr hyldýpinu aftur, og eins ef þú tekur að segja sjálfri þér einhverja sögu um það og hversvegna þú ert í því, hver hafnaði þér o.s.frv. Þetta er kallað „Sagan um hyldýpið.“ Hún er ekki slæm í sjálfri sér, en núna, á þessu andartaki, hefurðu tækifæri til að hætta að segja hana og þess í stað að gera þér hyldýpið ljóst, finna það. Til að svo megi verða þarftu að hætta að gefa því nöfn, hætta að berjast gegn því, hætta að afneita því og hætta að láta einsog það sé heimsins mesti harmleikur. Þú þarft ekki að gera neitt annað en að vera það. - Jæja, segðu mér nú hvar þú ert.

Mér líður einsog laufi sem flýtur á vatni.

Þetta er mjög fallegt líkingamál, en ennþá ertu samt í yfirborðinu. Finnurðu það ekki? Tilhneigingin er að hverfa inní líkingamál, útskýringar, greiningu, mat á stöðunni og jafnvel að draga síðan einhverjar yfirborðslegar ályktanir af öllu saman.

Slakaðu nú á. Gleymdu laufinu. Gleymdu hyldýpinu. Gleymdu mér. Gleymdu þér. Vertu bara.

(Löng þögn.)

Það er svolítið kaldhæðnislegt, en það var einmitt þetta sem þú óttaðist: að vera ekkert. Og af þessum ótta hafa sprottið ótal sögur um sár og harm og allskyns hrylling. En að lokum kemur sá tími að þú hættir einfaldlega að segja söguna og gerir þér ljóst „hver“ var særð. Segðu mér eitt. Geturðu fundið hana, þessa særðu?

Nei. Þar sem ég hætti „að segja söguna“ urðu mörkin óljós á milli mín og alls hins - og ég varð einfaldlega alheimsleg vitund.

Já, þetta er dásamleg reynsla. En það er samt hérna sem vitleysan liggur. Þú varðst ekki alheimsleg vitund. Þú ert alheimsleg vitund. Það sem verður er saga af þér og mér og þessu og hinu, hverjum leið illa og hverjum ekki, hversvegna við þjáumst og hvernig við getum losnað undan vanlíðan. Þetta er það sem verður. Og það verður í alheimslegri vitund, er til í henni og hverfur til hennar aftur. En þegar þú ert tilbúin að sleppa takinu og vera allt þetta sem þú hefur verið að hörfa undan - hyldýpið, óttinn við að vera ekkert - þá uppgötvarðu að það er engin sem er særð. Það er aðeins alheimsleg vitund.

Biddu nú sárið að koma til þín aftur. Og taktu eftir hvað þú þarft að gera til að það komi. Sjáðu ganginn í þessu. Sjáðu hvað til þarf. Þú verður að kalla fram hugsun eða mynd af einhverju, og síðan verðurðu að hugsa aðra hugsun um myndina eða hugsunina sem þú ert nýbúin að kalla fram. Og áðuren þú veist af er „sárið“ á sínum stað og þar með sársaukinn. Semsé, fyrst er hugsun um sársauka, síðan minning um hann og það sem honum tengist, síðan varnirnar gegn honum og allt hugarvílið í kringum hann. Skilurðu? Prófaðu nú aftur að hætta. Vertu sársaukinn. Á þann hátt geturðu séð hvort hann er raunverulegur eða ekki. Þegar þú ert reiðubúin að vera yfirgefin, algerlega og gersamlega alein og yfirgefin, þá geturðu komist að því „hver“ það var sem var yfirgefin, „hver“ það var sem þjáðist.

Ég er ekki að biðja þig að afneita þessari reynslu þinni. Það hefurðu gert margsinnis og ekki komið að haldi. Ég er aðeins að biðja þig að hætta að dekra við reynslu þína af eigin þjáningu. Ef til vill kveikir dekrið eða eftirlátsemin með þér meiri tilfinningu en afneitunin, og þá er stutt í að þú dragir þá ályktun að eftirlátssemin sé betri eða dýpri eða mikilvægari. Ég bið þig hvorki að bæla þjáninguna, afneita henni né að dekra við hana. Vertu aðeins hún og sjáðu það sem þú sást áðan og við urðum öll vitni að.

Það eitt að vera opinberar þér alheimslega vitund. Þú fagnar könnun þíns eigin Sjálfs. Hér er spurningin ekki hver, hvernig og hversvegna, heldur er hér um að ræða könnun á þeirri takmarkalausu, alheimslegu vitund sem þú ert, sem af náð sinni hefur gefið þér form og sem þú munt hverfa til einhvern daginn. Það sem gerðist áðan var aðeins þetta: þú hættir að segja söguna þína. Þú leyfðir henni að deyja út. Og það var undursamlegur dauði. Þögull dauði. Þú bauðst þig velkomna á satsang, velkomna í fang sannleikans.

Þakka þér fyrir.

Þakka þér sömuleiðis. Þú sýndir okkur á skýran hátt hvernig hægt er að kynna sig fyrir eigin Sjálfi. Þínu sanna Sjálfi. Kjarnanum sem engin sár reynsla hefur nokkurntíma snert, kjarnanum sem er og heldur áfram að vera frjáls, heill, saklaus, hreinn og geislandi friður.

Ég bið þig að misskilja mig ekki. Ég hef ekkert á móti gömlum sárum og þeirri vinnu eða þeirri meðferð sem þau krefjast. Þetta á auðvitað allt rétt á sér. Alveg einsog við segjum börnum ævintýri til að þau slaki á og dafni eðlilega, þannig hafa þér verið sagðar ákveðnar sögur til að þú gætir tekist á við samsömun þína við fortíðaráföll af ýmsu tagi. Tilfinningaleg úrvinnsla getur vissulega verið mjög gagnleg. En að því kemur að þú sættir þig ekki við neitt minna en sannleikann. Þegar þú hefur á einhvern hátt beðið um hann þá kemur satsang uppí flasið á þér og segir þér að hætta. Hætta að segja söguna. Hætta öllum útskýringum. Hætta allri greiningu. Hætta - og sjá.

Kannski snúa útskýringarnar aftur, en nú veistu þó hvað þú átt að gera. Þér hefur verið gefið tæki, sannkallaður leyndardómur. Og þennan leyndardóm, sem við köllum Sjálfs-eftirgrennslan, þáði ég af kennara mínum, Papaji, og kennara hans, Ramana Maharshi. Sjálfs-eftirgrennslan felst í því að beina huganum innávið til að sjá „hver" það er sem þjáist þegar allt kemur til alls, í stað þess að elta hugann útum víðan völl í endalausri leit að svari við hversvegna, hvernig, hvenær og hver gerði hvað við hvern. Þetta er mjög einfalt. Og það er til marks um þroska að þú skulir geta látið þennan einfaldleika eftir þér. Sumir kljást við mig tímunum saman, dansandi flókna stríðsdansa í kringum sárið sitt og allar minningarnar um það. Fúsleiki þinn er dásamleg vísbending um þroska og sanna löngun til að frelsa þig undan samsömuninni við gömul áföll.

Ef til vill varstu þegar laus undan afneitun þinni á sárið. Nú geturðu hætt að velta þér uppúr því. Ekki með því að vera fræðileg í hugsun, heldur með beinni reynslu af sjálfri þér sem hinni eilífu heild. Ekki af því ég segi það, heldur vegna þess að þú hefur sjálf gert þér þennan sannleik ljósan. Gegnum allar sögurnar þínar um sár og áföll sástu þrátt fyrir allt grilla í þá geislandi fegurð sem þú ert. Þú getur verið þakklát fyrir þá hamingju sem þér býðst að upplifa á þessu æviskeiði. Hættu að votta sáraguðunum virðingu þína. Hylltu í staðinn það sem þú hefur nú gert þér ljóst að er alheimsleg vitund. Og sjáðu síðan hvert þig ber.

Bein reynsla er undirstaðan. Við höfum reynt að koma okkur hjá henni með því að reyna að sveigja veruleikann undir hugsunina. Þetta er kallað jákvæð hugsun, og hún getur vissulega verið mjög gagnleg. Hún er ótvírætt betri en neikvæð hugsun. En hún nær of skammt. Og að því kemur að þú kýst þá beinu reynslu sem þarf ekki að styðja sig við hugsun. Þá skiptir ekki máli hvaða tilfinningar og hugsanir um sjálfa þig spretta fram, því þú hefur leyndardóminn í hendi þér, lykilinn sem gengur að þínu læsta hjarta og gerir þér kleift að sjá sjálfa þig sem frjálsa og takmarkalausa vitund.

Ef ykkur finnst þetta ekki undravert þá hafið þið ekki heyrt hvað ég var að segja. Það er ekki hægt að vera áhugalaus um sannleikann. Ef þið verðið leið á honum hafið þið umturnað honum í einhverskonar trúarsetningar eða kreddur. En sannleikurinn er ævinlega ferskur, nýr, lifandi. Hann er alltaf í fyrsta sinn.

Og hann er mesta undrið

VL þýddi