"Guðspekinni hefur verið lýst sem hinni tímalausu visku , því hún skírskotar
stöðugt til einhvers í manninum sem er hafið yfir tíma. Hún skýrskotar til
lífsins í öllum þess myndum, til eiginleika þeirra sem einkenna manninn og
til þess upphafsdjúps náttúrunnar sem bæði maðurinn og lífið í heild eru í
tenglum við. Allt þetta útheimtir skilning sem grípur ekki aðeins yfir hina
formrænu eða vélrænu hlið hlutanna, heldur einnig yfir sannleika sem hver
einstaklingur getur aðeins uppgötvað í sjálfum sér, þann sannleika sem er
gjörólíkur í eðli sínu öllu því sem eðlisfræði og heimspekileg
ákvörðunarhyggja getur fjallað um, en er fremur í ætt við frelsið, frumleika
og sköpum.
Þekking sú sem aðferðir vísindanna geta fundið verður – hversu verðmæt sem
hún kann að vera – að þurrum lærdómi, nema hún sé á einhvern hátt tengd
lífinu og þekkingu hvers einstaklings á sjálfum sér. Lærdómur breytir í
sjálfum sér engu innri afstöðu okkar til þeirra sem við umgöngumst daglega.
Slík þekking færir okkur ekki frið né vekur með okkur góðleika, en án
góðleika getur líf mansins ekki öðlast fyllingu. Vísindin eru í fullu gildi
á sínu sviði en sá sannleikur er birtist í listum og trúarbrögðum er ekki
síður nauðsynlegur til þess að maðurinn geri skilið lífið djúpum skilningi.
Kjarninn í listum og trúarbrögðum (en ekki hvers konar sérvisku og hugarórar
sem bendla sig við þessi svið) er nátengdur hinum sönnu gildum lífsins.
Aðeins í ljósi þess sannleika er heyrir til hinu raunverulega, upprunalega
eðli mannsins, óskyldu áunnum eiginleikum, öðlast orðið “allsherjarbræðralag
manna” rétta merkingu. Þennan sannleika verður fyrst að finna og reyna, og
þá fyrst er hægt að túlka hann í hugsunum og orðum. Þroski þess eðlis,
birtingu þess sannleika, nefnum við fegurð, góðleika og kærleika. Allt
raunverulegt siðgæði á rætur sínar að rekja til þess sanna manneðlis.
Til eru guðspekilegar kenningar er fjalla um ýmis svið náttúrunnar sem
takmökuð skilningarvit okkar ná ekki til, þó að til aðstoðar þeim séu
fullkomnustu rannsóknartæki nútímans. En kjarni guðspekinnar er nú samt ekki
þekking á ytri hlutum, heldur sá þroski sem kemur innanað, dýpkun
vitundarinnar sem hefur áhrif á það hvernig maðurinn mætir, reynir og
skilur alla hluti sem hann er tengdur beint eða óbeint. Þegar við skiljum
guðspekina á þennan hátt sjáum við að þessi merkilega viska svo gjörólík
hinum hversdagslegu hugmyndum og sjónarmiðum, og félag sem hefur hana fyrir
leiðarstjörnum, á sér ekki aðeins tilverurétt í nútíma-lífi og
hugsunarhætti, heldur getur einnig beint lífi nútímanna til heilbrigðrar
stefnu, stefnu sem hefur ekki fyrir markmið sýndarverk og
yfirborðsframfarir, heldur djúpar, varanlegar umbætur á mannlífinu.
Það er gleðilegt til þess að hugsa að leitandi frjálst hugsandi menn, skuli
nú á tímum hafna hinum dauða bókstaf skiplagðra trúarbragða. Menn geta
aldrei skynjað sannleikskjarna þess sem þeim er þröngvað til að trúa. Auk
þess er það eðli mannsins að leita, meðvitað eða ómeðvitað, leiðar til þess
sannleika er getur skapað lífi hans fyllingu, sannleika sem flytur með sér í
senn innri frið og innra frelsi, Á þessum tímum vísindalegra uppgötvana og
afreka er fjöldamargt fólk að leita einhvers – það veit ekki hvers – sem
getur útrýmt tómleikanum í lífi þess og komið með fyllingu í staðinn. Þetta
fólk finnur að eitthvað, sem er beinlínis lífsnauðsynlegt, skortir í líf
þess, eitthvað sem tæknin geta ekki fært mönnum eða bent þeim á. Allar þær
skemmtanir og þægindi sem standa okkur til boða og geta veitt okkur gleymsku
frá sjálfum okkur auka aðeins á tómleikann í lífi okkar.
Það eru til svo ótalmargar kreddur og kenningar. Er guðspekin það sem menn
þarfnast á hvaða aldri sem þeir eru eða í hvaða kringumstæðum sem þér kunna
að lifa. Svarið fer algerlega eftir því hvað við meinum með guðspeki. Við
þekkjum orðið “guðspeki” vel, en e. t. v. höfum við aðeins greint ofurlítinn
glampa af merkingu þess. Ef við skiljum sem guðspeki einhverja mynd sem e.
t. v. er dregin upp í ákveðinni bók eða bókum og einfaldlega trúum því að
þetta sé hin rétta mynd, þá má auðvita deila um það hvort hún sé
sannleikanum samkvæmt og hvort ákveðnir þættir hennar séu ímyndanir eða
brenglun á sannleikanum. En ég held að verkefnið okkar sé allt annað: Það er
að hver máli sína eigin mynd samkvæmt eigin skilningi og líti aðeins á það
sem hinar bestu bækur kunni að segja sem bendingar um útlínur og liti. Það
er bendingar sem höfða til innsæis okkar og skynsemi og eru í samræmi við og
gera útskýrt merkingu og gildi tilveru okkar.
Það kunna að vera aðrir, sem halda því sama fram og við sjálf. En eins og
hver maður verður að lifa sínu eigin lífi þannig hlýtur hann einnig að túlka
sannleikann á sinn sérstæða hátt. Engir tveir menn túlka hann með nákvæmlega
sömu litum. Sannleikurinn er ótakmörkuð uppspretta og enginn farvegur rúmar
hann allan. Hann ljómar með nýrri fegurð frá hverjum þeim er birtir hann í
lífi sínu og hugsunum." Þýðing SB