Hin alheimslega yogahefð

MEÐ FRAMÞRÓUN vísinda og tækni hefur trúarsannfæring misst tök sín á hugum fólks. Kynslóð sú sem alin hefur verið á vísindum finnur lítinn tilgang í formrænum trúarbrögðum með kirkjuathöfnum, gagnrýnislausri sannfæringarafstöðu, viðtekinni valdastöðu prestastéttarinnar og afskiptum hennar af persónulegu lífi manna. Hins vegar fylla afþreying og spenna velferðarþjóðfélagsins ekki það tóm sem glötuð trú skilur eftir í hjörtum manna, né eru þær farvegur fyrir djúpa þrá í hið yfirskilvitlega sem gerði trúarbrögðin að alheimslegri hreyfingu. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir að innri hamingja og raunveruleg lífsfylling verður ekki fengin með því að hagræða ytri aðstæðum, þær verða að spretta upp úr djúpi sjálfrar vitundarinnar.

Hefðbundnum trúarbrögðum með kennisetningar sínar og helgisiði, boð og bönn, hefur ekki aðeins mistekist að koma til móts við djúpstæða þörf mannsins fyrir andlega uppljómun, heldur hafa þau gert illt eitt. Trúarbrögðin hafa aðgreint mannkynið og gert kirkju og klerkaveldi kleift að misnota fólk bæði efnalega og siðferðilega. Sú barátta og spenna sem rekja má til trúarlegs ágreinings hefur átt drjúgan þátt í mannlegri þjáningu.

En sérhverjum tíma og menningu hefur fylgt fámennur hópur manna sem leitað hafa hið innra, að uppsprettu ljóss og góðleika, óblindaðir af innantómum formum trúarbragðanna eða líflausum guðfræðikenningum. Leit þeirra, sem ekkert á skylt við venjulega siðfræði eða trúarkreddur, birtist á ljósastan hátt í iðkun sem nefnd er yoga. Yogahefðin er ekki bundin við Indland, gagnstætt því sem almennt er haldið og yoga er ekki einhver dulin starfsemi, sem aðeins fáir eiga aðgang að. Yoga er tengt alheimslegri hreyfingu leitar og skilnings, sem streymt hefur gegn um aldirnar um mismunandi skóla sem fengist hafa við ummyndun mannsins: Í Egyptalandi og Grikklandi, hefð súfa, fræðslu búddhista og taóista, í kristinni hefð, Tantra og Vedanta; inn við hjarta ytri kennisetninga liggur lífsmáti og þjálfun, sem hentar hinni innri leit, og sem táknuð er með orðinu yoga.

Yoga er orð sem hefur fengið margar merkingar því það er of innihaldsríkt hugtak til að auðvelt sé að þýða það. Í kjarna sínum er það tengt endalokum hins einstaklingsbundna sjálfs, þess sjálfs sem talar mörgum tungum hugsana og langana. Þegar það misræmi sem hinar aðgreinandi athafnir sjálfsins framkalla, hætta með öllu, uppgötvast hið innsta eðli vitundarinnar. Hápunktur yoga er sagður vera ástand aðgreiningarleysis og eðlilegs samræmis.

Mikill fræðari hefur sagt:

Til er sá vegur, brattur og þyrnum stráður, þar sem hættur leynast við hvert fótmál, vegur samt, sem leiðir til hjarta alheimsins. Ég get sagt þér hvernig finna má þá sem geta sýnt þér hið dulda hlið, sem einungis liggur inn á við og lokast að eilífu á hæla leitandans. Eigi er til sú hætta að óbugað þor geti ekki sigrað, engin þolraun sem óflekkaður hreinleiki kemst ei framhjá, engir þeir erfiðleikar sem styrk hugsun getur ekki yfirstigið. Eftir þeim sem halda ótrauðir áfram bíða laun sem ekki verður lýst - máttur til að blessa og bjarga mannkyninu. Fyrir þá sem mistekst eru önnur líf, þar sem sigur getur leynst.

Meðal þeirra sem velja þennan veg, sem sagður er sem rakhnífsegg, hafa aðeins fáir þor og óbilandi kjark til að ganga hann á enda. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir er sagt. Bhagavad-Gita (Hávamál Indíalands) staðfestir þetta:

Meðal þúsunda er vart einn sem leitar fullkomnunar. Af þeim sem ótrauðir feta veginn er varla nokkur sem þekkir mig [Guðdóminn] til hlítar.

Flestir vilja skjótan árangur. Þeir eru óþolinmóðir eftir að öðlast gæði andlegs eðlis, en neita um leið að afsala sér veraldarláni sem þeir kunna að hafa. Þá er stutt í vonbrigðin því ekki verður farið í tvær áttir í senn.

Eins og stendur í Rödd þagnarinnar.

Tær vötn eilífðarinnar, glitrandi skær, fá eigi blandast skolugum lækjum monsúnregnsins. Daggardropar himinsins sem sindra í lótusblóminu í fyrstu geislum morgunsólarinnar breytast í leir þegar þeir falla á jörðina. Gef því gaum að perlan er nú korn af mold.

Með því að leitast við að gera hlutina örugga og þægilega fyrir hið líkamlega sjálf, jafnvel þótt ómeðvitað sé, tryggja fávísir nemar sér áreynsluleysi. Tilfinningin um stöðnun leiðir til efa um að andleg framför sé möguleg, og viðleitnin er gefin upp á bátinn. Það verður því að vera ljóst frá upphafi að ögun í yoga má ekki vera síður hnitmiðuð en í þeirri þjálfun sem nauðsynleg er til að verða fær tónlistarmaður eða framúrskarandi stærðfræðingur. Í raun er yoga enn strangara með kröfur um að setja til hliðar venjuleg áhugamál, þægindi og gildi. Yoga felur í sér róttæka ummyndun hugans, sem byggð er á grunni viljans til að breyta algerlega lífsháttum sínum. "Hegðið yður eigi eftir öld þessari; heldur takið háttaskipti með endurnýjungu hugarfarsins." ráðleggur Páll postuli í Rómverjabréfinu (Róm.12,2).

H.P.B. ráðleggur einnig:

Hugleiðsla, bindindi, siðferðileg aðgát, fínleg hugsun, góðar gjörðir og hlý orð, ásamt góðum vilja og alger fjarvera sjálfsins, eru áhrifamestu aðferðir til að öðlast þekkingu og við undirbúning þess að meðtaka æðri visku. (Hagnýt dulfræði.)

Ummyndun hugans, sem náð er með yoga er lýst í hinum ýmsu hefðum sem nýrri fæðingu sem verður eftir dauða hins gamla sjálfs. Kathopanishad ritin segja að yoga sé fæðing og dauði. Hinn þjóðsagnakenndi fönix, sem endurfæðist eftir að hafa brunnið til ösku, hinn táknfulli dans sem fram fer á eldvellinum, rósin sem sprettur úr krossi fórnarinnar, og önnur táknform vísa til endaloka hins gamla, þannig að ný vitund geti komið í ljós. Í hinum sígilda texta Patanjalis, er yoga það að þagga niður í hinum veraldlega huga og hin nýja fæðing er að vakna til hins sanna eðlis vitundarinnar.

H.P.B. skrifar um að nemar Menanders hafi eftir skírn (þ.e. vígslu) verið sagðir rísa frá dauðum. Hún bætir við að upprisan hafi einfaldlega verið "ferð úr myrkri fávísinnar í ljós sannleikans, vöknun hins ódauðlega anda mannsins til eilífs innra lífs. Þetta eru vísindi Rajayoganna."

Bæði dauði og endurfæðing geta í þessum skilningi gerst á meðan líkaminn heldur áfram að vera til. J. Krishnamurti útskýrir þetta:

Dauðinn er ekki endalok lífsins. Dauðinn er nokkuð sem þú lifir með dag hvern, af því að þú deyrð alla daga til alls sem þú þekkir. Dauðinn merkir endurnýjun, alger samskipti, þar sem hugsun starfar alls ekki, því hugsunin er hið gamla. En þegar dauðinn kemur, er fyrir hendi eitthvað sem er algerlega nýtt.

Með afneitun minninga og því að vera óháður er dauði fyrir hendi í daglegu lífi, þá verður vitundin fersk, móttækileg. Þannig gat Angelus Silesius sagt: "Deyið nú, áður en þér deyið, svo þér deyið ekki." Sannur heimspekingur (sá sem elskar visku), eins og Sókrates, nálgast dauðann á hverju augnabliki lífs síns. Hinn merki súfi, Jalaluddin Rumi, þekkti þessi sannindi því hann ráðlagði:

Ó maður, farðu og deyðu

áður en þú deyrð.

Slíkum dauða að þú baðist ljósi,

en ekki þeim sem leiðir þig til grafar.

Yoga er ekki dulfræði í venjulegum skilningi. Það fæst ekki við iðkun kynngi, þróun yfirskilvitlegra hæfileika eða könnun á duldum öflum náttúrunnar. Ekki er yoga neinskonar tilbeiðsla með væmnu algleymi og tilfinningalegri umbun, né er það upplifun vitundarútvíkkunar sem getur stundum hent okkur. Það felur í sér ákveðna þjálfun sem leiðir til frelsis frá kröfum líkamans og hins stjórnlausa huga. Þetta frelsi er hvorki hægt að kaupa með góðverkum né söfnun þekkingar. Framfarir sem veita innri ummyndun verða aðeins með því að gefa á bátinn venjubundna eftirsókn og ég-viðmiðaðan tilgang. Afneitun er ekki aðeins að afneita veraldlegum eignum og bindingum, né er það einkaréttur munka og einsetumanna. Jafnvel hugur sem leitar þekkingar, dyggða og annarra, að því er virðist, eftirsóknarverðari hluta, getur verið innst inni upptekinn af sjálfum sér og því eigingjarn. Thomas á Kempis skrifaði:

Að koma sér upp [trúar] venjum og að raka hvirfilinn kemur að litlu gagni, en breyting á siðvenjum og fullkominn dauði ástríðnanna skapa raunverulega trúaðan mann.

Vedafræðin leggja áherslu á hugræna afneitun en ekki líkamlega fjarlægð freistinga sem höfuðatriði í uppfyllingu yoga. Hin kunna Ashtavakrasamhita segir:

Frelsi er náð þegar hugurinn þráir ekki né syrgir, hafnar ekki né meðtekur, finnur hvorki til hamingju né reiði.

Megin munurinn á Rajayoga og Hathayoga eru aðferðir til að stjórna líkamanum og andardrættinum, til að þjálfa hugann og öðlast siddhis eða yfirskilvitlega hæfileika. Rajayoga viðurkennir gildi heilbrigðrar, samræmisfullrar og skipulagðrar notkunar líkamans, og inniheldur þess vegna fjölda öndunar- og líkamsæfinga. En þær eru aðeins tilfallandi og aukaatriði, þar sem aðalatriðið er að koma á þeirri umbreytingu vitundarinnar sem við höfum minnst á. Frú Blavatsky segir: "sá sem numið hefur bæði kerfin, Hathayoga og Rajayoga, finnur á þeim reginmun. Annað er algerlega sálarlíkamlegt, hitt algerlega sálarandlegt." (CW,XII,616).

Hér má gera útúrdúr og nefna að hugtakið Hathayoga er nú víða notað utan Indlands til að lýsa iðkun æfinga og stellinga sem leyfilegar eru einnig í Rajayoga, en í indverskri hefð vísar Hathayoga til þess kerfis sállíkamlegrar þjálfunar sem H.P.B. minnist á, og sem innihéldu yfirdrifið líkamlegt meinlæti og notkun fáránlegra aðferða til að öðlast andlega hæfileika. Þær aðvaranir sem gerðar hafa verið á ýmsum tímum gegn Hathayoga eiga við um slík kerfi og aðferðir þeirra.

Það ætti að vera ljóst að engin orsakatengsl eru frá líkama til hugar þannig að með því að þjálfa líkamann sé sjálfkrafa hægt að öðlast þjálan huga. Heilbrigður líkami er aðeins hjálp við að halda huganum í vakandi ástandi. Á hinn bóginn færir hugur, sem er skýr, athugull og nærgætinn, reglu í hið líkamlega og sálræna hylki, því að þau áhrif sem koma að innan eru alltaf sterkari en ytri kringumstæður. Democritus á að hafa sagt:

Fullkomnun sálarinnar mun leiðrétta óeðli líkamans, en óeðlilegur styrkur líkamans mun ekki bæta sálina.

Jafnvel sú kyrrð hugans, sem nauðsynleg er í yoga, næst ekki með þvingunum og vilja, heldur með grandvarleika og skilningi, með því að "sjá hið lægra sjálf í ljósi hins æðra." Hinn íhugli hugur er hljóður, ósnortinn af velmegun eða fátækt, ofgnótt eða hungri.

Meðal hins mikilvægasta í yogaþjálfun er sú rósemi sem einkennir fræðslu Bhagavad Gita. Meistari hins hljóða huga haggast ekki af duttlungum örlaganna. "Andlegt jafnvægi er yoga" (B.G.II.48) er ein af hinum mörgu sláandi skilgreiningum á yoga sem gefnar eru í gítunni, sem bætir við: "drýgðu athöfn, ávallt dveljandi í því samræmi sem er yoga, sem afneitar bindingu, og er í jafnvægi jafnt í villu sem velgengni." Yoginn er í vitundarástandi sem er ró og fullnægja, öllum stundum (sem ekki má misskilja sem sjálfsánægju). Maður heimsins er aðeins ánægður þegar hann fær það sem hann þráir, gagnstætt yoganum sem sækist ekki eftir neinu en er ánægður með það sem til hans kemur, bregst jafnt við lofi og ásökun, laus við öfund, ótta og önnur vandamál.

Í Dammapada, sem sögð er vera samantekt orða sjálfs Búddha, segir einnig:

Eins og klettur gegnheill

óbifaður af gnauði vinda,

fær ei skens og skjall

vitrum haggað.

Hinn kyrri hugur er meðvitaður um hverfulleik náttúrunnar, um að allt líður hjá í heimi hlutanna og um hinn óbreytanlega veruleika sem býr að baki atburðarásar hlutveruleikans. Alls staðar sér hann aðeins þennan veruleika og er þess vegna ósnortinn af breytingunum. Þetta er tekið fyrir í Isha Upanishad sem lýsir yoganum sem þeim sem sér sjálfan sig í hjörtum allra vera og allar verur í eigin hjarta. Með orðum Plótínusar:

Sérhver vera geymir í sér allan hinn skiljanlega heim. Þess vegna er allt alls staðar. Hver og einn er allt og allt er sérhver.

Í yogaiðkun er mælt með samneyti við náttúruna. Aldagamalt skilyrði fyrir uppljómun innifelur; "þögn á ákveðnum tímum, til að náttúran geti talað til þess sem kemur til hennar í leit að þekkingu." Kyrrð vatnanna, þögn fjallanna eða einangrun skógarins hjálpar til við að öðlast kyrrð hugans. Náttúran gefur til kynna guðleg lögmál svo sem fegurð og reglu sem hugurinn kemst í snertingu við í gegn um þetta samneyti. Þess vegna eru mörg trúar- og hugleiðslusamfélög reist í náttúrulegu umhverfi. En tilurð næmni, sem er merki um innri þroska, felur ekki aðeins í sér viðbrögð við fegurð náttúrunnar, heldur vaxandi skilningsríkt samband við allt líf. Krishnamurti íhugar:

Það er einkennilegt að við skulum hafa svona lítið samneyti við náttúruna, með skordýrum sínum, stökkvandi frosknum og uglunni sem vælir í hæðunum og kallar á maka sinn. Við virðumst aldrei hafa tilfinningu fyrir öllu því sem lifir á jörðinni. Ef við gætum komið upp djúpum viðvarandi tengslum við náttúruna myndum við aldrei deyða dýr okkur til matar, við myndum aldrei meiða eða limlesta apa, hund eða tilraunadýr okkur í hag... Þetta er ekki tilfinningaleg eða rómantísk ímyndun, heldur raunveruleiki samkenndar við allt sem lifir og hrærist á þessari jörð.

(Krishnamurti við sjálfan sig.)

Næmur hugur uppgötvar í nálægðinni við náttúruna innsýn í aðra heima sem innihalda enn mikilfenglegri raunveruleika. Þannig skrifaði Wordsworth:

Hávær ár, sem augnablik í verund

úr eilífð þagnar, sannindi sem vakna,

og aldrei farast.

Sem hvorki hugleysi né ákefð mikil,

né maður eða drengur,

né allt, sem er í andstöðu við gleði,

fær nokkurn tíma skaðað eða eytt!

Þess vegna, í árstíð blíðra vinda,

þótt inn í óbyggðir við hverfum,

í sálinni við eilíft hafið sjáum,

sem setti okkur hér á þessa tinda.

Hin viðnámslausa leið taóistanna leiðir einnig til meiri næmni. Viðnám gerir hugann ónæman fyrir öllu nýju, fíngerðu og djúpu. Þegar Jesú hvatti áheyrendur sína til að verða eins og börnin var hann að hvetja þá til að vera auðsæranlega, ekki með auðsæranlegan huga sem hægt er að særa, heldur opinn og saklausan eins og barn. Lao Tzu sagði að hinn grannvaxni reyr sem svignar undan straumhörðu vatninu hafi meiri styrk en stinnur stofn trésins sem stendur gegn straumnum. Ósveigjanleiki og styrkur leiða til dauða, sveigjanleiki og viðkvæmni leiða til lífsins.

Næmi vex við viljann til að læra. Lífið er til að læra af því. Brihadaranyaka Upanishad svarar spurningunni um hvernig uppgötva megi einingarvitund (atman): "Atman finnst með því að sjá, hlusta, hugsa og hugleiða, sem allt eru aðferðir til að læra." Fullnumi skrifaði: "Lærðu að nema vísbendingar hvaðan sem þær koma. Jafnvel steinar geta haldið ræður."

Ef við skoðum hið hólógrafíska módel sem vísbendingu um hvernig náttúran vinnur, sjáum við að með því að skoða hluta hennar getum við fengið innsýn í hvernig heildin vinnur. Með innsæi gerði Blake grein fyrir þessu þegar hann skrifaði:

Ef veröld viltu í einu korni sjá

og himininn í villtu blómi grundar,

óendanleikann höndum gríptu þá

og eilífð fang í tómi einnar stundar.

Sérhver smáheimur speglar stórheiminn, og því er hæfnin til sveigjanleika og næmleika mikilvæg til þekkingar. "Ef hjarta þitt er réttlátt, þá mun sérhver lífvera verða þér spegill lífsins og heilög bók." (Thomas á Kempis)

Það er trú manna að hinir vitru geti gefið fræðslu sem hafi ómetanlegt gildi. En ef hugurinn er ónæmur og ófær um að læra, getur hann ekki skilið boðskapinn í því sem sagt er. Hinn næmi hugur greinir ekki aðeins dýpri meiningu orðanna, heldur greinir hann þau sannindi sem koma til hans gegn um lífið allt. Þannig segir Krishnamurti: "Við hlustum aldrei á fuglana, á óm hafsins eða á betlarann, svo við missum af því sem betlarinn segir. Það getur verið sannleikur í því sem hann er að segja en alls enginn í því sem ríki maðurinn eða valdamaðurinn segir." (Life Ahead)

Aðrir hæfileikar eru eins mikilvægir og alvara og næmleiki hugans. Einn þeirra er óhæði í daglegu lífi. Hinn andlegi nemi verður að lifa í þessum heimi eins og krossfari sem reikar um á veginum um stundar sakir. Í ljóði Fitzgeralds, Ómar Khayyam, lesum við:

Ég sáði með þeim fræjum viskunnar

með höndum mínum kom henni á legg

og þetta var sú uppskera sem fékkst -

"Ég kom sem regn,

sem vindurinn ég fer."

Eknath, miðalda skáld og dýrlingur frá Vestur-Indlandi söng eftirfarandi:

Fuglinn tyllir sér í hallargarðinn

en dvelur hann þar lengi?

Þannig skyldi maðurinn lifa lífi sínu

meðan fjötrar karma halda honum hér.

Dammapada kemur með aðra fagra líkingu:

Eins og flugan ekki skaðar

blómsins lit og angan,

- flýgur burt,

guðaveigar með sér flytur.

Þannig skyldi hinn vísi

um byggðir ganga.

En líf yogans felst ekki í því að temja sér vélrænt ákveðnar dygðir. Dygð verður að fæðast sem andsvar falskra gilda vegna vöknunar skarpskyggninnar eða viveka. Bæði Yogasútrur Patanjalis og Bhagavad Gita vísa til abhyasa sem er stöðug athugun á eigin hugsunum, tilfinningum og athöfnum í daglegu lífi, til að uppgötva hvort og hvernig þær eru afleiddar af röngum skilningi. Allt er hverfult, jafnvel jörðin og fjöllin, stjörnurnar og alheimurinn hafa afstæða tilvist. Hið eina raunverulega er lífið sem á sér enga hrörnun eða endi. En hið forgengilega og óraunverulega virðist algerlega raunverulegt fyrir vitund sem ekki er vöknuð.

Vegna rangrar skynjunar er hugurinn bundinn fjölda hluta og fólki, og upplifir baráttu og sorgir. Að temja sér dómgreind leiðir til óhæðis og þaðan til sjónarhóls áhorfandans - "öll tilveran er leiksvið." Hann gerir sér grein fyrir að persónuleiki hans er gríma og að sjálfsmynd hans er byggð á yfirborðskenndum þáttum persónueinkenna, svo sem stöðu í lífinu, viðhorfum og afrekum. Með aukinni varurð á sér stað huglægt óhæði frá hinu yfirborðskennda, tilviljanakennda og skammvinna og ný útsýn kemur til, útsýn sem er ekki lengur í gegnum hulur sjálfsins með langanir sínar, munað og hugarangur.

Hinn búddhíski iðkunarskóli vipassana, sem leggur áherslu á að allar hliðar persónuleikans séu athugaðar, jafnvel hvernig maður gengur og talar, fyrir utan tilfinningar og viðbrögð, miðar að því að maðurinn vaxi í góðleika og eyði persónuleikanum. Með vaxandi varurð er sérhverri hugsun, tilfinningu og viðleitni sem viðheldur sjálfsmeðvitundinni eytt. Að auki verður neminn að gera allt sem hann getur til að leiða hugann til alheimslegs samræmis. Í Hagnýtri dulfræði ráðleggur H.P.B. eftirfarandi:

Hugurinn verður að vera ónæmur fyrir öllu nema hinum algildu sannindum náttúrunnar.

Hugurinn verður að því sem hann hugsar um. Því frekar sem hann dvelur við eðli hins alheimslega lífs, visku, ást og kærleika í sinni algildu mynd, því betur samlagar hann sig hinu ódauðlega eðli.

Hugleiðsla er kjarni yogaiðkunar. Hún er ekki eins og hvert annað starf. "Ef ekki er hugleiðing, þá ertu eins og blindur maður í heimi mikillar fegurðar, ljóss og lita" (Krishnamurti). Hún er eins nauðsynleg fyrir þróun hins andlega eðlis eins og fæða er fyrir vöxt líkamans. En hugleiðsla fyllir ekki vitundina né markar heilann meiri áhrifum og minningum. Hún tæmir hann af innihaldi sínu. Margt af því sem við höfum verið að athuga til þessa býr hugann undir innra frelsi.

Í skóla Pýthagórasar urðu allir að læra að hlusta. Að hlusta var fyrsta skrefið í þríliða hugleiðsluaðferð samkvæmt hinni indversku hugleiðsluhefð, sem sagði að hlustun og íhugun væru forleikur að skynjun sannleikans í hugleiðslu. Þegar hlustað er hvílir miðja vitundarinnar í hjartanu, og að sameina huga og hjarta er mikilvægt atriði í yoga.

Í Hagnýtri dulfræði segir H.P.B.:

Hugsun nemans verður fyrst og fremst að beinast að hjartanu, til að reka þaðan burt sérhverja fjandlega hugsun til nokkurrar lifandi veru. Það (hjartað) verður að vera fullt af tilfinningunni um eigið aðgreiningarleysi frá öðrum verum, sem og öllu í náttúrunni, því annars verður enginn árangur.

Í textum um yoga er einnig minnst á að hugurinn skuli hvíla í hjartanu.

Ef það að hlusta, á aðeins við um að hlusta með hinu ytra eyra, heyrir viðkomandi aðeins hljóð. Ef hann hlustar eingöngu með huga og eyra heyrir hann orð og hugtök. En þegar hann lærir að hlusta með vitundinni staðsettri í hjartastað, hverfa allar hugsanir og truflanir og ástand hins hljóða næmleika ríkir. Þetta er sjálft upphaf hugleiðslunnar.

Athygli tekur á sig mörg form. Að hlusta er athygli, en athyglin er einnig þögul athugun. Í Tattvarthadhigama sútru, sem er þýðingarmikill texti úr Jainatrúnni, segir: "Hinn einkennandi þáttur sálarinnar er athyglin." Í fjarveru athyglinnar glatast meðvitundin um eigið rétta eðli. Til að uppgötva hið sanna eðli er því nauðsynlegt að lifa í athygliríku hugarástandi.

Í yogaþjálfun er nemum ráðlagt að gera allt með athygli, að athuga hvernig þeir borða, hlæja, starfa o.s.frv. Venjulega eru flestar athafnir framkvæmdar í reikulu hugarástandi. Venjulegar hversdagslegar athafnir verða svo vanabundnar, að það er hægt að framkvæma þær með hluta hugarstarfsins eingöngu á meðan aðrir hlutar fást við aðra hluti. Þannig er hugurinn mestan hlutann skiptur og reikull. Á meðan talað er, getur maður verið að skipuleggja eitthvað sem er samræðunum óviðkomandi.

Ósjálfráð viðbrögð hafa vissulega sitt gildi í ákveðnum tilfellum. Það væri sóun á orku ef halda þyrfti athygli við allar athafnir, þar á meðal öndunina, en þegar viðbrögð ná yfirhöndinni, taka venjurnar við og verða það sterkar að þær verða að lífsmáta. Við spyrjum okkur ekki hvers vegna við höfum ákveðnar skoðanir, hvaða gildi við gefum samskiptum, hvaða hvatir knýja okkur áfram o.s.frv. Tal, athafnir og svaranir gerast vélrænt samkvæmt þeim forsendum sem fyrir eru. Skilyrðing er ómeðvituð tileinkun hugsana og viðhorfa sem koma frá umhverfinu, frá foreldrum, kennurum, kunningjum og annars staðar að. Athygli innifelur athugun á þessum sálfræðilegu gildrum og að starfa af athygli og skynsemi en ekki eingöngu út frá vana. Samkvæmt Dammapada er athygliskortur leið dauðans. Árvekni bjargar einstaklingnum frá sálfræðilegri blindu og frá því að vera á valdi hvata sem koma að innan.

Við höfum sagt að athugult líferni dragi úr tilhneigingu til hugarreiks og sundraðra hugsana og geri huganum kleift að sjá og starfa heildrænt. Hugljómun (samadhi) merkir slíka samansöfnun á orku vitundarinnar, að það ríkir óskipt varurð á hinum eina sannleika. Áður en slík háleit uppljómun á sér stað verður að iðka íhygli. Eins og segir um iðkun fasthygli í bókinni Við fótskör meistarans: "þú verður gefa alla athygli þína í hverja athöfn um leið og þú framkvæmir hana." þetta þýðir að mikla alúð verður að leggja í athöfn andartaksins, ótruflað af hugsun og væntingum um árangur í framtíðinni.

Annar mikilvægur þáttur athyglinnar er gaumgæfni. Í hinu veraldlega lífi er ýmist fyrir hendi gleymska eða fáfræði um stefnu lífsins. Flestir eru eigingjarnir. Sumir vilja vera óeigingjarnir, en burtséð frá einstöku hugsun í þá átt eru þeir villtir. Gaumgæfni hefst þegar hugsuninni er þráfaldlega beint að sannleika og gildi lífsins. Stundum er sagt að gaumgæfni sé það að muna að starfa í samræmi við vilja Guðs. Undirgefni Islamstrúar og sú uppgjöf sjálfsins sem kennd er af sumum trúræknum söfnuðum, er í ætt við þetta. Gaumgæfni getur verið fyrir hendi í bakgrunni hugans jafnvel þótt sinna þurfi hversdagslegum skyldum. Í samræðum bróður Lawrence, sem skráðar eru sem iðkun nærveru við Guð, segir:

Hjá honum voru bænastundir ekki frábrugðnar öðrum stundum. Hann hafði ætlað þeim stundir, sem ábótinn hafði lagt til, en hann hvorki vildi þær né bað um þær því jafnvel kröfuhörðustu störfin trufluðu hann ekki frá Guði... Helgun okkar er ekki háð sérstökum störfum heldur því að gera fyrir Guð það sem við venjulega gerum fyrir okkur sjálf. Leitt er að sjá hversu margir gera meðalið að tilgangi.

Á sama hátt kenndi Eckhart:

Hreint hjarta er það sem er óheft, áhyggjulaust, óháð og sem ekki krefst neins fyrir sjálft sig, er frekar sameinað kærleiksríkum vilja Guðs og hefur afneitað sjálfinu. Hversu lítilfjörlegt sem starf er, mun það aukast af gildi og árangri sé það unnið af hreinu hjarta.

Í vedatextanum Jivanmuktiviveka, er samanburður gerður við einstakling sem er ástfanginn. Í slíkum einstaklingi er tilfinning um gleði, söngur í hjarta, sem endist allar stundir, jafnvel þótt hann vinni veraldleg störf, svo sem að elda eða þvo föt. Á sama hátt er bakgrunnur varurðar um hið heilaga fyrir hendi í gaumgæfninni jafnvel þótt maður sé upptekinn af öðrum hlutum.

Þetta hugarástand rekur burt ímyndanir sem koma upp í hugann af sjálfu sér - að njóta, öðlast eða auðnast. Þegar athöfn er framkvæmd, meðvitað eða ómeðvitað er venjulega fyrir hendi afstaðan: "ég geri þetta."

Ahamakara, eða ég-geri starfsemi hugans tileinkar öll verk miðju, sem nefnd er ÉG. Þess vegna er hugsunin ég veit tengd því þegar einstaklingur lærir eitthvað. Þegar hann gerir eitthvað, segir undirmeðvitundin eða hið meðvitaða, ég er gerandinn. Þegar um er að ræða upplifun ánægju eða fegurðar, verður strax til hugmyndin, ég nýt þessa. Þannig er égið stöðugt byggt upp og því viðhaldið. En í gaumgæfni er afstaðan meira í ætt við verði þinn vilji. Í Bhagavad Gita segir að allar athafnir stafi frá hinum þrem gúnum, (eða tilhneigingum í náttúrunni) og að það séu aðeins hinir fávísu, sem ímyndi sér að þeir séu upphafsmenn athafnanna.

Dygð missir gildi sitt þegar fyrir hendi er sjálfsvitund. Þegar einhver hugsar, "ég er auðmjúkur", er hann það ekki. Raunveruleg auðmýkt verður ekki vör við sjálfa sig. Í hinu búddhíska riti Suttanipata er okkur sagt: "Hinir bestu líta ekki á sjálfa sig sem fremri, né venjulega, né lægri." Sama finnum við hjá H.P.B. sem skrifaði: "Vei sé þeim sem vitur er í eigin augum." Máttur Raja Yoga er ekki á torg borinn. Öll tilhneiging til sjálfsupphafningar og sú venja að gefa sjálfum sér gildi með því að segja "ég er þetta eða hitt" hverfur við viðvarandi sjálfsskoðun og athygli.

Yoginn er ekki lengur barn foreldra sinna né foreldri barna sinna, né þegn ríkisins nema í líkamlegum skilningi. Hugh af Saint Victor skrifaði: "Sá er veikburða sem elskar ættjörðina en sterkur sem á öll lönd fyrir ættjörð, en sá er fullkominn sem upplifir heiminn sem stað útlegðar ."

Þegar sjálfsímyndin er leyst upp, ríkir hin sanna þögn. Þögnin ríkir á mismunandi sviðum. Til er þögn tungunnar, sem er gagnleg. Stöðugt blaður skapar óróleika í huganum og er vísbending um innri óróa. Trúarsamfélög hvaðanæva í heiminum hvetja til ástundunar þagnar á ákveðnum tímum. En þótt varirnar séu þöglar þarf hugurinn ekki að vera það. Með iðkun rósemi og mismunandi athygliæfingum verður hugurinn þögulli, en dýpra inni í vitundinni er enn fyrir hendi ímyndin um égið, hvort sem það kemur fram ljóslifandi eða hvílir sem veik mynd í undirmeðvitundinni. Þetta er þörfin fyrir tilveru sem aðgreind skynjanleg verund, sem nefnd hefur verið síðasta klesa eða fjötur hugans. Á meðan hún er fyrir hendi viðhelst vonin um framtíð, á himnum, í öðru lífi eða við bættar andlegar aðstæður. Aðeins þegar algert frelsi frá tilvistarlönguninni tekur við kemst á þögn og tóm í grundvallar verund mannsins. Þetta er endanlegt takmark búddhista; að uppgötva að sjálfið á sér enga sjálfstæða tilveru.

Hin endanlega uppgötvun er ekki-tvíhyggja. Hún upplifist ekki á meðan fyrir hendi er sjálfs-tilvera, meðan tilfinningin um sjálfið er fyrir hendi, er einnig ekki-sjálf og þess vegna tvíeðli. Í djúpri þögn handan-viðleikans eins, er þekking á hinum alheimslega kjarna. Súfar kenna að viska sé nær þögninni en sjálfinu. Sankaracharia segir okkur að þegar hinn vitri hafi verið spurður þrisvar um eðli Brahman (hins endanlega veruleika), hafi hann allan tímann verið þögull, en að lokum svaraði hann: "Ég fræði ykkur en þið skiljið ekki. Þögnin er atman, það er þangað sem hugleiðslan leiðir."

Eftirfarandi samtal úr kínversku riti gerir sannleikann ljósan:

"Hver er tilgangurinn með því að leita hið ytra?"

"Allt sem þú sérð þar eru hlutir! Snúðu þér við og horfðu inn á við."

"Sé ég þá hið óhlutræna í staðinn?"

"Ef þú gerir það muntu samt sjá hluti. Þannig eru hlutir hvert sem þú lítur."

"Get ég þá ekki séð sjálfan mig?"

"Þú getur ekki séð það sem ekki er til."

"Hvað mun ég þá sjá?"

"Kannski muntu greina fjarveru sjálfs þín, þetta sem horfir. Það hefur verið nefnt tómið."

Tómið er nirvana (hugljómunin). En það er ekki tómt. Það er fylling, fylling sem er kærleikur, blessun, friður handan skilnings. "Alger þekking er ekkert annað en alger kærleikur."

Erindi haldið á aldarafmæli ensku Guðspekideildarinnar

þann 30. júlí 1988.

Þýtt úr The Theosophist af E.A.