Grunnur Guðspekifélagsins

Í síðasta tölublaði Mundilfara var rætt um skoðanafrelsi innan Guðspekifélagsins. Meðal annars var sagt, að afmörkuð guðspeki væri ekki til né hefði nokkru sinni til verið. Það sem kallað væri Guðspeki eða guðspekifræði, væru hugmyndir eða kenningar sem hefðu verið kynntar í félaginu en félagsins ekki að öðru leyti, því eðli félagsins samkvæmt boðaði það engar kenningar né trúarfræði, sbr. einkunnarorðin: "Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri." Guðspeki væri afstaða til spurnar og rannsóknar, opið hugarfar í sífelldri endurnýjun.

Spurt hefur verið, hvort einhver tilgangur væri í því að reka félag, sem engar trúarsetningar eða kenningar hefur og ekkert boðar? Er það kleift? Verður félagsskapurinn ekki of sundurlaus, þegar hann hefur enga boðskap eða skoðun til að sameinast um? Verður þetta ekki aðeins kjaftaklúbbur eða tesopafélag; guðsbakarí, þar sem geðþótti félagsmanna ræður ferðinni? Óhjákvæmilegt er að viðurkenna, að ákveðinn veikleiki felst í því að innan félagsins rúmist allar skoðanir. Engin ein leið eða stefna er boðuð. Hættan er fólgin í því að menn finni ekkert sameiginlegt og tapi áttum í leit sinni.

Við megum jafnframt ekki gleyma því aðalatriði, að í þessum veikleika felst styrkleiki félagsins. Félagið er vettvangur fyrir viðleitni okkar til að reyna að skilja stöðu okkar í tilverunni og efla andlegan þroska okkar. Við getum eflt tengsl okkar í leit að visku eða einingu, kjarna kærleikans. Trúarviðhorf eru almennt grundvölluð á viðleitni til að losna við eigingirni og til að leita kærleika og réttlætis. Við getum því leitað þess sannleika, sem er grundvöllur allra trúarbragða og enginn getur eignað sér. Með þessum félagsskap gefst okkur meiri kostur á en ella að kynnast heimspeki, trúarbrögðum, vísindum og mannþekkingu almennt og við sjáum að verið er að fást við sama viðfangsefnið út frá mismunandi sjónarmiðum. Þótt við hlýðum á erindi með ólíku innihaldi, má hafa gagn af þeim öllum, þar sem þau hafa að geyma sameiginlega þætti, sem hjálpa í viðleitni okkar að skynja, skilja og fá innsýn inn í veruleikann, hið algilda eða guðdóminn.

Í Guðspekifélaginu getum við leitað þekkingar eða skilnings á andlegum kennisetningum, uppgötvað duldar meiningar helgirita og fengið innsýn í dulhyggju og dulspeki og jafnvel þá hugljómun, sem svo oft er um rætt. Í myrku skoti er samanburður og öflugt þekkingarljós besta leiðin til árangurs. Í félaginu getum við skoðað og rannsakað og reynt að upplifa. Við setjum markið hátt. Grundvöllur félagsins er þannig víðfeðmari og að því leyti merkilegri en þeirra félaga sem byggja á einstökum trúarsetningum eða kreddum. Í félaginu geta menn lyft sér upp í hæðir og horft yfir sviðið.

Sérstaða félagsins liggur þannig í því að kleift er að fjalla um lífið og tilveruna á víðara grunni en almennt þekkist í öðrum félögum. Samanburður trúarbragða væri óhugsandi, ef félagið héldi sig við ákveðnar kenningar eða kreddur. Í félaginu er fólk með gjörólík viðhorf til lífsins og einstakra trúarbragða. Í félaginu fara menn ferða sinna án bindingar við ákveðið trúarviðhorf eða hugarfar. Þeim er frjálst að gagnrýna og meta fyrir sjálfa sig gildi einstakra kenninga.

Engu að síður finna menn til samkenndar. Jafnvel er það svo að félagsmönnum finnst í raun fleira sameina þá en sundra. Leitin sameinar okkur; hið rannsakandi viðhorf, hugarfar undrunar og spurnar. Félagsskapurinn einn og sér hefur mikið gildi. Hann eflir bræðralag og verður hverjum og einum hvatning. Við hlustum saman í viku hverri á hin ólíkustu viðhorf. Slíkt væri óhugsandi nema við héldum fast við þá stefnuskrá, að félagið sjálft boði engar fastar kenningar.

Áður hefur verið bent á, að við einblíndum á þekkingu og ytri leiðir. Í raun þarf að fara innri leiðir, inn að sínum innsta kjarna, sem er kjarni alls. Leiðin er ekki vörðuð fyrirfram hið ytra, hún er okkar eigin persónulega leið, eins og við upplifum hana og reynum. Þótt ytri leiðir eins og kenningar ákveðinna trúarbragða eða trúarskólar hjálpi okkur, ferðumst við sjálf á eigin innri leið, sem aldrei getur verið afmörkuð fyrir aðra. Ytri leiðir trúarkenninga og trúarskóla geta verið vegvísar eða eins konar landakort á þroskaleiðum, sem aðrir hafa útbúið okkur til aðstoðar, en kennsla sem kemur utanfrá hefur takmarkað gildi. Sjálfsmenntun er sú menntun sem mesta gildi hefur. Sannfæring sem kemur innan frá og það sem við tileinkum okkur og gerum að hluta af okkur skiptir mestu máli. Í þessari sjálfmenntun okkar, er félagið kjörinn vettvangur.

Mikla endurbætur hafa verið gerðar á húsi félagsins. Húsakynnin er nú bæði hlýleg og glæsileg. Bókasafn og bókaþjónusta gefa okkur tækifæri til andlegrar sóknar, þótt ekki komi annað til. Margt er þó ógert. Til dæmis er löngu orðið tímabært að skrá sögu félagsins hér á landi. Hefur stjórn félagsins samþykkt að hefja það starf. Saga félagsins sýnir einnig í skýrara ljósi það frelsi, sem ég hefi gert hér að umtalsefni. Við sjáum þá hversu slæmt það hefði verið, ef staðnað hefði verið í ákveðnum viðhorfum, sem uppi hafa verið hjá félögunum á einstökum tímaskeiðum. Sem betur fer hafa viðhorf félagsmanna verið í sífelldri þróun. Við vitum að lífið er ekki vandamál sem við leysum í eitt skipti fyrir öll með einhverri aðfenginni töfraformúlu, heldur reynsla sem við sjálf upplifum.

Mannkynið hefur komið mönnum til mánans og landað vélmenni á Mars, atómið hefur verið klofið, erfðaefni ráðin og dýr klónuð og kenningar settar fram um uppruna alheimsins. Fullyrt er að Stóri hvellur hafi verið upphaf alheims, sem hafi smám saman þróast eftir flóknum eðlis- og efnafræðilegum lögmálum til lífs, skynsemi og menningar. Maðurinn getur síðan litið aftur og íhugað tilgang og merkingu þessa alls. Þetta á að hafa gerst af sjálfsdáðum án guðlegra afla. Er það undrunarvert.

Þótt umhverfi okkar vitni um gáfur og tækni, eru margir þeirrar skoðunar, að við höfum vanmetið okkur sjálf, einkum vegna þeirrar glýju sem tækniframfarir nútímans hafa veitt í augu okkar. Við höfum firrt okkur okkar eigin innri veröld, við höfum fjarlægst innra Sjálf okkar. Við höfum leitað svara hið ytra, þótt þau sé aðeins að finna hið innra. Við höfum afneitað hinu huglæga og guðlega. Okkur hafa yfirsést duldir hæfileikar hugans. Við höfum stofnað jarðarlífi í hættu og lifað í sameiginlegu móki, sem enginn veitir athygli og allir telja eðlilegt. Innra með okkur búa samt sem áður duldir en órannsakaðir hæfileikar, dýpri vitundarstig, sem fáir þekkja.

Jón L. Arnalds

© Guðspekifélagið