Frá táli til veruleika

Um vitringinn Sri Shankaracharya.

Flestir sem eitthvað hafa kynnt sér indverska heimspeki munu kannast við maya, sem þýðir blekking. Mun ég síðar í erindi þessu skýra nokkuð hvað í því orði felst. En hugtak þetta er mjög stór þáttur í heimspekikerfi því meðal Indverja er Vedantismi nefnist og í þeirri tegund yoga sem kölluð er Gnani-Yoga og oft kennd við Sri Shankaracharya. Mun ég í erindi þessu segja lítilháttar frá spekingi þessum og kenningum þeim sem við hann eru kenndar.

Mönnum kemur ekki saman um hvenær Sri Shankaracharya muni hafa verið í heiminn borinn, og mjög er ætt hans og uppruni hulin þoku eins og títt er um marga afburðamenn fortíðarinnar. Og helgisagnirnar hafa að sjálfsögðu haldist utan um nafn hans eins og geislabaugur. Sumir telja hann fæddan skömmu eftir dauða Búddha, aðrir löngu seinna, jafnvel á 8. öld eftir Krists burð. Hann er fæddur í Kerah, og voru foreldrar hans af tignum ættum og nokkuð við aldur, er þeim fæddist þessi sonur. Voru þau bæði lærisveinar Búddha. Helgisagnir eru til um það, að hann hafi í raun og veru verið sonur guðsins Shiva, og er hér eitt af mörgum dæmum þess að afburða andleg stórmenni eru oft talin niðjar guðanna sjálfra, samanber helgisögnina um Jesúm, Búddha, Sri Krishna og fleiri. Segir sagan að Búddha hafi birst foreldrum Sri Shankaracharya í draumi og gefið þeim kost á að og kjósa sér eitt af tvennu: Annaðhvort að eignast einn son er yrði skammlífur en tæki öðrum fram um visku og verðleika eða eignast marga sonu er næðu venjulegum meðalaldri og væru meðalmenn að öllu leyti. Foreldrarnir völdu fyrri kostinn og fæddist þeim þá Sri Shankaracharya.

Sri Shankaracharya var óvenju bráðþroska. Er hann var 8 ára að aldri hafði hann náð fullum tökum á mörgum hinna indversku helgirita og þegar hann var l6 ára að aldri er talið að hann hafi verið búinn að tileinka sér alla menntun samtíðar sinnar. Vildi þá móðir hans láta hann gifta sig en það vildi hann ekki. Hann kaus hitt hlutskiptið, að afneita heiminum og verða helgur maður, sannyasi, og tókst honum loks að fá móður sína til að fallast á það. Ferðaðist hann nú fram og aftur um Indland, frá Himalaya og Khasmir til Comorinskaga, frá Puri í austri til Dwarka í vestri. Alls staðar átti hann tal við lærða menn, rökræddi við þá, leiðrétti rangar hugmyndir þeirra og er sagt að honum hafi jafnvel tekist stundum að víkka andlegan sjóndeildarhring hinna örgustu bókstafstrúarmanna. Því honum var list sú léð að hafa áhrif á sálir manna með mildu sannfæringarvaldi heilbrigðrar skynsemi. Hann hreinsaði trú Hindúa og lyfti henni upp í hærri hæðir háspeki og skilningsþroska en nokkrum öðrum trúarbrögðum hefur tekist að ná. Skammlífur varð hann því hann dó aðeins 32 ára að aldri. En þá hafði hann líka lokið miklu og merkilegu ævistarfi. Hann hafði stofnað fjögur klaustur, eins konar andleg menntasetur er áttu að útbreiða kenningar hans. Og hann hafði gert meira en nokkur annar til þess að gera trúarbrögð Hindúa andlegri og skapa þeim sérstöðu meðal trúarbragða heimsins sem heimspekilegustu trúarbrögðum er heimurinn hefur eignast. Til þess að lýsa honum nokkuð sem manni skulu hér sagðar nokkrar sögur af honum.

Einu sinni er hann var staddur í borginni Kashi, sem síðar hlaut nafnið Benares, var hann ásamt lærisveinum sínum á leið til hins heilaga fljóts, Gangesar, til þess að baða sig. Varð þá á vegi þeirra chandala einn, en svo voru þeir menn nefndir er taldir voru lægstu úrhrök mannfélagsins og var það saurgun mikil ef maður af Brahminaætt kom nálægt þeim, hvað þá ef hann snerti þá. Lærisveinar Shankaracharya hlupu á móti þessum vesalings manni og skipuðu honum að hafa sig í burt hið bráðasta. En þeim til mikillar undrunar lét maður þessi ekki að óskum þeirra en hélt áfram til móts við meistara þeirra. Spurði hann þá hvernig þeir gætu samrýmt þessa drambsömu manngreiningu kenningum meistarans um einingu alls lífs. Þegar Shankarcharya virti hinn tötralega fátækling fyrir sér, þekkti hann undireins í honum hinn blessaða Búddha og sýndi honum ýmis lotningarmerki. Segir sagan að Búddha hafi tekið á sig þetta gervi til þess að veita lærisveinum Shankaracharya holla áminningu og um leið til þess að leggja áherslu á einingarkenningu meistara þeirra.

Það er eftirtektarvert að í Kerala, þar sem talið er að Shankaracharya hafi fæðst, hefir verið barist fyrir því að hefja hina svokölluðu lægstu stéttir, hina útskúfuðu, olnbogabörn þjóðfélagsins, upp úr þeirri niðurlægingu almenningsálitsins er gamlir trúarbragaðahleypidómar höfðu hrundið þeim niður í. Vitanlega hafa þær göfugu tilraunir mætt mikilli mótspyrnu af hálfu þröngsýnna bókstafs-trúarmanna.

Sagt er að Sri Shankaracharya hafi þótt mjög vænt um móður sína. Eins og þegar hefur verið tekið fram var hún fremur ófús til þess að afhenda son sinn hinu heilaga lífi sannyasans sem henni hefur vafalaust fundist vera heimsflótti, sem það og er í vissum skilningi, og auk þess mun henni hafa fundist að þess konar líf tæki einnig son sinn frá sér og er slíkt að vísu afsakanlegt. Hún færði þó að lokum þessa fórn en með því skilyrði að sonur hennar lofaði að vanrækja aldrei neina helgisiði er hún taldi sér nauðsynlega til sáluhjálpar. Sést af þessu að móðir Shankaracharya mun verið hafa verið trúkona að þeirra tíma hætti en hins vegar má sannyasi eða heilagur maður með Indverjum ekki fara með neina helgisiði. Nú kom að því að móðir Shankaracharya veiktist banvænum sjúkdómi og er hann fékk fregn um það hraðaði hann sér að banabeði móður sinnar. Hann flutti henni hinar háleitu kenningar sínar sem að vísu friðuðu sál hennar en voru þó fyrir ofan skilning hennar svo sem til dæmis kenning hans um hinn formlausa guð. Shankaracharya vildi framkvæma hina fyrirskipuðu helgisiði við dauða móður sinnar, en gat ekki fengið neinn til þess að aðstoða sig þar sem hinir rétttrúuðu töldu að sjálfsögðu óhæfu hina mestu að sannyasi færi með helgisiði. Var Shankaracharya jafnvel neitað um eld til þess að brenna lík móður sinnar. En hann lét þetta ekki á sig fá eða koma í veg fyrir að hann efndi loforð það er hann hafði gefið móður sinni. Framkvæmdi hann einn alla hina fyrirskipuðu helgisiði.

Ég skal geta þess í þessu sambandi að þessa skoðun Indverja, að sannyasinn, það er hinn heilagi maður, eigi ekki að hafa um hönd neina helgisiði er í raun og veru heilbrigð og viturleg. Heilagur maður á ekki að þurfa á neinum sérstökum helgisiðum að halda vegna þess að allt hans líf á að vera orðið að einu samfelldu, eðlilegu helgisiðakerfi, það er að allt hans líf er guðsþjónusta. Vitanlega hefur engum verið þetta ljósara en Shankaracharya sjálfum. En hann mat meira að standa við orð sín gagnvart móður sinni.

Þessi saga um Shankaracharya er gott dæmi þess að formleysi, sem hinir bókstafsbundnu trúmenn gerðust talsmenn fyrir í þessu tilfelli, sem annars er sjaldgæft um þá tegund manna, getur stundum átt rót sína að rekja til formalisma og einskis annars og að alls staðar getur verið um samkeppni að ræða milli lífs og forms, bókstafs og anda.

Loks skal hér sögð saga ein um Shankaracharya. Hann rökræddi eitt sinn við mann einn, Mandana Mishra að nafni, er var einn helsti rétttrúnaðarriddari með Indverjum á þeim tíma. Rökræddu þeir um það, hvort hefði meira til síns ágætis, líf sannyasans, hins heilaga manns, eða líf hins, er lifir hjúskaparlífi og rækir aðrar borgaralegar skyldur. Hvor þeirra er biði lægri hlut í rökræðunum skyldi leggja niður sína lífshætti og semja sig að siðum sigurvegarans. Mandana Mishra átti mjög lærða og gáfgaða konu, Bharati að nafni og átti hún að dæma á milli keppendanna, samkvæmt ósk Shankaracharya. Svo fór að Mandana Mishra varð að láta undan síga í rökræðunum eftir margra daga kappræðu og fór kona hans þá fram á að fá að rökræða við Shankaracharya. Hófst nú rökræðan á milli Shankaracharya og Bharati og stóð hún einnig dögum saman. Fór svo að Bharati var að því komin að bíða ósigur, en þegar hún tók að rökræða um gildi ástarinnar var Shankaracharya ekki við því búinn að mæta öllum rökum hennar. Á þessu sviði varð spekingnum sjálfum svarafátt, enda hafði hann alla sína ævi verið ókvæntur og aldrei við konu kenndur.

Nú segir sagan, að einmitt um þetta leyti hafi konungur einn dáið og verið mjög harmdauði drottningum sínum. Shankaracharya yfirgaf nú líkama sinn um hríð og tók líkama hins látna konungs til notkunar. Drottningarnar er hugðust hafa heimt konung sinn úr helju, fögnuðu mjög og ekki síst vegna þess að þeim virtist hinn endurlífgaði konungur mikið betri og vitrari en hann áður var. Dvaldi Shankaracharya einn mánuð í líkamlegu gervi konungsins meðal kvennanna, en að þeim tíma liðnum tók hann aftur sinn eiginn líkama. Gat hann nú tekið þátt í rökræðum um gildi ástarinnar við Bharati og einnig á því sviði varð hann ofjarl hennar og gat snúið henni til sinnar eigin lífsskoðunar og urðu þau hjón bæði lærisveinar hans.

Saga þessi er merkileg. Hvort sem menn vilja taka hana trúanlega eða ekki er hún ágæt hugvekja eða áminning um það að enginn, jafnvel ekki spekingurinn sjálfur, kemst af án reynslunnar. Reynslan er fræðari fræðaranna og alla þætti venjulegs mannlegs lífs verða menn að þekkja til þess að geta leitt aðra til æðra lífs, sem hefir í sér fólgna meiri fullnægingu hinnar innstu þrár, meiri fegurð, meiri fögnuð og frið.

Í upphafi máls mín minntist ég á hugtak sem nefnt er maya eða blekking. Stundum hefir þessi kenning um blekkinguna verið túlkuð svo hér á Vesturlöndum, að veröldin með öllu því sem í henni er, sé í raun og veru ekki til, sé sjónhverfing ein, en það er fjarri sanni. Maya eða blekking er fólgin í því að það sem við skynjum er í raun og veru allt annað og meira en það sem okkur virðist það vera. Fyrir því verður afstaða okkar til þess alltaf að einhverju leyti röng. Tveir eru höfuðþættir maya, nefnilega annar avarana á sanskrít og gætum við þýtt það sem hjúpun eða takmörkun. Hinn er vikshepa, og mætti að líkindum nefna það umhverfingu eða útvörpun, og er það í raun réttri eins konar sköpunarþörf. Sri Shankaracharya farast meðal annars svo orð um báða þessa höfuðþætti maya.

„Starfsemi hjúpunarinnar, avarana, sem á rót sína að rekja til tregðu, tamas, felur hið skínandi sjálf, sem er takmarkalausum hæfileikum gætt, alveg eins og skuggi mánans hylur sólskífuna. Þegar hið raunverulega, alhreina og skínandi sjálf mannsins er þannig hulið, heldur hann að hann sé líkaminn, en líkaminn er ekki sjálfið. Þá er hann og hrelldur af þeim mætti ástríðueðlis sem nefndur er úthverfing, vikshepa og kemur í ljós sem ástríða, reiði o.fl. Þannig reikar þessi óvitri maður, sneiddur sannri þekkingu á sjálfinu, vegna þess að hin mikla blekking hefur svelgt hann í sig og rís hann ýmist eða hnígur í úthafi takmarkaðrar tilveru. Eins og skýin, sem sköpuð eru af sólinni, hjúpa hana sjálfa, þannig hylur sjálfshyggja sjálfið, sem hún á rót sína að rekja til, ef hún fær að þróast. Og eins og þykk ský gleypa sólina á óveðursdegi, en skýin eru aftur á móti hrakin til og frá af hvössum, köldum vindum þannig verður sá maður, er heilbrigða dómgreind skortir, fyrir ýmsum hrellingum af völdum óstýrilátrar úthverfingar. Maðurinn er fjötraður af báðum þessum öflum, blekktur af þeim reikar hann um og heldur að líkami hans sé hann sjálfur.“

Blekkingin á að miklu leyti rót sína að rekja til þess, að afstaða okkar til hlutanna er persónuleg afstaða, ákvörðuð og mótuð af persónulegum þörfum og þrám. Ég get ekki í þessu stutta erindi farið frekar út í það að rökstyðja þessa kenningu um maya eða blekkinguna og hina tvo höfuðþætti hennar. En næsta skrefið verður að gera sér grein fyrir, hvernig fara eigi að því að sigra blekkinguna. Sri Shankaracharya heldur því fram, að til þess að slíkur sigur verði unninn, verði maður að taka allan sinn persónuleika til rækilegrar og róttækrar meðferðar. Dugar þar ekkert hálfkák eða einhver vettlingatök yfirborðskenndrar siðfágunar. Maður verður að rækta og þroska alla þrjá höfuðeðlisþætti sálarlífsins, vilja, tilfinningar og vitsmuni, knýja þá til samstarfs og óbrigðullar sannleikshollustu og þjónustu í þágu hans. Taldi Sri Shankaracharya, að nauðsynlegt væri að menn lærðu að aðgreina sig frá hugsunum sínum og tilfinningum, til þess að geta litið á þær sem hlutlausir áhorfendur, og hafið sig á þann veg yfir hin persónulegu viðhorf og sjónarmið, sem svo mjög rugla sanna dómgreind manna. Hugleiðing sú, er Shankaracharya vildi að menn iðkuðu, er aðallega fólgin í því að sá sem hugleiðir gerir sér sem ljósasta grein fyrir því að hugsanir hans og tilfinningar eru ekki hann sjálfur, og þá auðvitað enn þá síður líkami hans. Þetta eru allt starfstæki, sem honum er ætlað að ná fullum tökum á og stjórna. Með öðrum orðum: Sá sem hugleiðir á að leitast við að finna sjálfan sig, og þegar hann hefur fundið sjálfan sig mun hann komast að raun um að hann er eitt með öllum öðrum. Það eru ekki til margar sálir. Í raun og veru er ekki til nema ein sál, - guð! Fyrir því segir í fræðum þessum: Sarvam khalwidam brahma, en það þýðir: Allt er vissulega guð og: Ekam sat vipra bahudha vadanti, sem þýðir: Til er aðeins ein vera, enda þótt skáldin nefni hana ýmsum nöfnum. Af þessu leiðir að sá, sem hefur með þessu hætti týnt sjálfum sér og fundi sig aftur í hinni einu sál, hlýtur einnig að líta á aðra menn sem mismunandi opinberunarhætti sömu sálar eða sem öldur sama hafs. Þetta er hin sann dómgreind, viveka..

Komum við þá að tilfinningunum. Eins og þegar hefur að nokkru leyti verið tekið fram hélt Shankaracharya því fram að menn þyrftu að læra að aðgreina sig frá tilfinningum sínum. En það er nú einmitt það sem ákaflega mörgum veitist einna örðugast. Ekkert er algengara en að sá mælikvarði sem lagður er á hluti, menn og málefni, sé því nær eingöngu smíðaður úr tómum persónulegum tilfinningum. Það sem verkar þægilega á tilfinningarnar er kallað gott, hitt illt. Verða þó jafnvel sumir þeirra sem mjög virðast á valdi þessa persónulega tilfinningamats að viðurkenna að margt af því sem tilfinningum þeirra er óþægilegast hafi orðið þeim til blessunar. Þessi hæfileiki, að láta ekki blekkjast af viðhorfi tilfinninganna einna, er nefndur á sanskrít vairagya, en vairagya þýðir eiginlega litleysi eða hlutleysi.

Höfum við nú rennt augum yfir þá ræktun hugar og tilfinninga er Shankaracharya taldi nauðsynlega. En hann taldi einnig nauðsynlegt að menn áynnu sér alveg sérstaka eðliskosti og voru þeir sex að tölu og eru stundum nefndir heilráðin sex eða eitthvað svipað því. Eðliskostir þessir eru:

1. Stjórn á huganum

2. Stjórn á líkamanum

3. Ánægja

4. Þolinmæði

5. Einlægni

6. Marksækni

Skulum við staðnæmast ofurlítið við þriðja eðliskostinn, sem nefndur er ánægja. Sanskrítarorðið er uparati. Felur það meðal annars í sér ánægju með alla þá sem maður verður af einhverjum ástæðum að vera samvistum við. Því miður einkennir það stundum þá menn er vilja láta telja sig mjög andlega sinnaða menn og siðfágaða að þeir eiga erfitt með að þola aðra menn sem eru þeim ef til vill ólíkir um lífsskoðanir og hegðun. Slíka menn vantar stóran þátt þess sem felst í orðinu uparati. Ameríski heimspekingurinn Emerson sagði einu sinni eitthvað á þessa leið: Líttu á hvern mann sem á vegi þínum verður sem dularfullan sendiboða alverunnar til þín. Varla getur hjá því farið að mínum dómi að ef þetta viðhorf yrði almennt, yrðu hinir persónulegu árekstrar færri og sambúð mannanna að öllu leyti unaðslegri. Framkoma manna mundi fágast og heflast alveg ósjálfrátt, og það mundi ekki verða ýkja mikil þörf fyrir utanaðærða mannasiði! Þessi ánægja með það fólk sem örlögin hafa úthlutað hverjum einstaklingi til að umgangast eða hafa einhver viðskipti við er ekki annað en einn þáttur þess feginleikaviðhorfs gagnvart allri reynslu, sem heimspeki Sri Shankaracharya gerir svo mikið úr og telur svo nauðsynlegt.

Sé nú öllum þeim skilyrðum, sem hér hefur verið bent á, fullnægt, getur ekki hjá því farið að dómi Shankaracharya, að hið sanna, innsta eðli manna taki að ná sér niðri ef svo mætti segja. Eilífðareðli mannssálarinnar fer að heimta rétt sinn. Vald blekkingarinnar missir smám saman tök sín á þeirri mannssál er gengur þessa björtu, beinu braut andlegrar skyggni og það fer að gera vart við sig er nefnt er lausnarlöngun (mumukshatwa).

Ég skal geta þess til fróðleiks að þessi þroskaleið mannssálarinnar, sem kennd er við Sri Shankaracharya, er ekki með öllu ókunn hér á Vesturlöndum enda þótt lítið hafi verið að því gert að lýsa henni beinlínis í ræðu og riti. Það er ekki víst að margir viti að í bókinni Við fótskör meistarans, sem margir kannist við, er þessari leið lýst, en að vísu er sú lýsing mjög stafrófskennd og að sumu leyti ófullkomin enda þótt bókin sem heild sé hugnæm.

Innsti kjarninn..

Það er einkennileg birta - eitthvert himneskt heiði - yfir kenningum Sri Shankaracharya. Hinn heimspekilegi kjarni þeirra er kenningin um guð - hin dásamlega algyðiskenning, er ein fær svalað sálum manna til lengdar og er hið frjósama móðurskaut hinna fegurstu vona. Siðakenningar hans má ef til vill draga saman í eina setningu, er hljóðar svo:

Lifðu í samræmi við hið æðsta og besta í sjálfum þér. „Live up to your highest,“ eins og Englendingar segja.

Sjálfur var Shankaracharya fögur fyrirmynd um hegðun alla og er talið að líf hans hafi verið lýtalaust. Hann var máttugur og framkvæmdi mörg svokölluð kraftaverk. Virðist enginn vafi á að hann hafi staðið á hærra vitundarstigi en allur þorri manna og verið einn af þeim er ég kalla mennska menn enda minnir ýmislegt af því sem um hann er sagt á þessa konar menn svo sem til dæmis á Búddha og Krist.

Helsta rit, sem Shankaracharya er eignað, heitir Mimamsa, sem þýðir rannsóknir eða athuganir og er það skýringar við rit eftir Vedantafræðing einn, Badarayana, en í því riti er Vedantaheimspekin fyrst sett í kerfi, að því er fræðimenn Vesturlanda telja, nálægt fæðingu Krists. Shankaracharya getur því ekki beinlínis talist höfundur Vedantismans, en hann hreinsar þessa heimspekistefnu og lyftir henni á hærra stig. Vedantafræðin þurftu að fara í gegnum heila og hjarta þessa mikla spámanns til þess að hreinsast og slípast og verða að þeirri frjóvgandi áveitu er þau hafa reynst svo mörgum hálfskrælnuðum sálarökrum sem þeim hefur verið leyft að flæða yfir hvar sem það hefur verið í heiminum.

Ég sagði áður að hinn heimspekilegi kjarni kenninga Sri Shankaracharya væri kenningin um alveruna, en sem kenning sem ef til vill mest ber á er kenningin um maya. Í raun og veru er hér um sömu kenninguna að ræða. Hin mikla blekking er sem sé að miklu leyti í því fólgin að menn sjá ekki guð í öllu. Þeir horfa á einangruð gervi og einangruð fyrirbrigði, en vita ekki að allt er þetta ólíkar opinberunarmyndir hins Eina. Þeir sjá ekki að „frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir.“ Þá vantar hina miklu yfirsýn, hina miklu heildarskynjun, er ein getur gert mönnum fært að sjá hið innra samhengi ólíkustu hluta og fyrirbrigða og skilja tilgang þeirra og gildi. Allt er eitt, og það er engin leið að skilja neitt til hlítar með því að líta á það sem algjörlega einangrað fyrirbrigði, enda ekkert til sem er algjörlega einangrað.

Kenningar Sri Shankaracharya eru gáfulegustu leiðbeiningar sem ég þekki til sannleikans um lífið og tilveruna - til veruleikans. Og það er enginn efi á því að mínum dómi að hverjum þeim sem tækist að fylgja þeim leiðbeiningum, jafnvel þó ekki væri nema að litlu leyti, mundi fljótt birta fyrir augum í andlegum skilningi. Því vegur Sri Shankaracharya liggur frá myrkri til ljóss, til meira og meira ljóss, þekkingar og skilnings. Og kenningar hans eru sígildar. Því frá brjósti hins þjáða mannkyns stígur alltaf við og við titrandi andvarp, sem er orðlaus yfirlýsing um það, að hégóminn og blekkingin sé því ekki nóg, það þrái eitthvað annað og meira,- orðlaus bæn til alverunnar, sem þýðir í raun og veru þetta eitt:

Leið mig frá táli til veruleika.

Úr bókinni „Á vegum andans“.