Fingurinn og tunglið

Raunveruleg einbeiting er dálítið furðulegt ástand sem gæti virst mótsagnakennt vegna þess að hún er í senn hámark varurðar og lágmark ég kenndar.

Forn kristinn málsháttur hljóðar svo: Crux medicina mundi, krossinn er lyf heimsins. Þetta er athyglisvert orðatiltæki vegna þess að það gefur til kynna að trúin sé mönnum meðal en ekki fæði. Munurinn liggur vitaskuld í því að meðal er eitthvað sem menn taka inn stöku sinnum, eins og t.d. penicillin, en fæði er til daglegrar neyslu. Auðvitað má ekki ganga of langt í samlíkingunni vegna þess að til eru lyf eins og t.d. insúlín sem sumir þurfa að taka inn daglega. En í samlíkingunni felast sannindi sem koma einnig fram í öðru latnesku orðatiltæki sem ekki er kristið heldur eftir Lúkretíus: Tantum religio potuit suadere malorum, of mikil trú getur leitt til ills. Ég er þá hvorki með í huga arðrán fátækra af spilltri prestastétt né hið augljósa böl sem fylgir trúaröfgum og ofstæki. Ég er að hugsa um gömlu, búddhisku samlíkinguna um kenninguna sem fleka sem notaður er til að fleyta sér yfir á. Þegar hinum bakkanum er náð ber maður ekki flekann með sér á bakinu heldur skilur hann eftir.

Þetta á ekki eingöngu við um þá tiltölulega fáu sem segja má að náð hafi hinum bakkanum heldur um flest okkar. Svo við höldum aðeins áfram með samlíkinguna: Ef við ætlum yfir ána verðum við að flýta okkur. Ef við drollum aðgerðarlaus á flekanum ber straumurinn hann með sér og til hafs - og þá sitjum við framvegis föst á flekanum! Og það er svo dæmalaust auðvelt að sitja fastur hvort sem það nú er á fleka, í trúarbrögðum, í sállækningum eða í heimspeki. Svo notuð sé önnur samlíking úr búddhisma: Kenningin er eins og fingur sem bendir á tunglið. Menn mega samt ekki rugla þessu tvennu saman og álíta að fingurinn sé tunglið. Ég er hræddur um að margur maðurinn sjúgi fingur trúarbragðanna sér til hugarhægðar í stað þess að aðgæta hvert hann bendir.

Mér virðist að fingur trúarbragðanna bendi á eitthvað sem er alls ekkert trúarlegt. Trúarbrögðin með allar sínar hugmyndir og iðkun gera ekkert annað en benda og þau benda ekki á sig sjálf. Og þau benda ekki heldur á guð af því að guðshugmyndin er hluti af trúarbrögðunum. Ég gæti orðað þetta svo að trúarbrögðin bendi á veruleikann, en þá skiptum við einfaldlega út trúarlegri hugmynd fyrir heimspekilega. Og vel má hugsa sér fjölda annarra hugmynda sem geta komið í stað hugmyndarinnar um guð eða veruleika. Við gætum sagt að þau bendi á hið raunverulega Sjálf, á hið eilífa nú, á hinn orðvana heim, á hið óendanlega og ósegjanlega. En ekkert af þessu kæmi að miklu gagni. Það er bara verið að benda með öðrum fingri. Þegar Joshu spurði kennara sinn, Nansen: „Hvað er taó, vegurinn?“ svaraði Nansen: „Þinn hversdagslegi hugur er taó.“

En varla er mikil hjálp í þessu heldur. Þegar ég reyni að skilja hvað átt er við með „hversdagshuga“ og reyni síðan að halda mér fast við hann er ég aðeins að sjúga annan fingur. En hvers vegna koma þessir erfiðleikar upp? Ef einhver bendir í raun og veru á tunglið sný ég mér bara við og horfi á það án nokkurra erfiðleika. En þetta, sem hinir trúarlegu og heimspekilegu fingur benda á, virðist ósýnilegt og þegar ég sný mér við og horfi er ekkert að sjá og ég er tilneyddur að líta aftur á fingurinn og aðgæta hvort ég skildi stefnuna rétt. Og það er ekki um að villast, aftur og aftur kemst ég að því að stefnan var rétt skilin, en eigi að síður get ég ekki komið auga á þetta sem hann bendir á.

Þetta er ekki síður gremjulegt fyrir þann sem bendir vegna þess að hann langar til að sýna mér eitthvað sem fyrir honum er svo augljóst að hvaða flón sem er ætti að geta skilið það. Honum hlýtur að líða eins og okkur öllum líður þegar við reynum að útskýra fyrir tregu barni t.d að tvisvar sinnum núll sé jafnt og núll en ekki tveir eða einhverja aðra mjög einfalda staðreynd.

Og svo er annað sem er jafnvel enn gremjulegra. Ég er viss um að mörg ykkar hafa eitt hverfult augnablik skynjað í skýrri leiftursýn það sem fingurinn benti á. Á því augnabliki voruð þið jafn undrandi og leiðbeinandinn að þið skilduð aldrei hafa komið auga á þetta fyrr. Þið sáuð þetta svo ljóslega að þið voruð viss um að þið gætuð aldrei gleymt því ... og síðan misstuð þið sjónar á því! Síðan fylgir ykkur árum saman nagandi eftirsjá. Hvernig getum við fundið leiðina til baka, hvernig finnum við dyrnar á veggnum sem virðast nú horfnar eða veginn til Paradísar sem við vissulega fundum þó að hann sé hvergi sýndur á kortum? En nú grípum við í tómt. Þetta er eitthvað svipað því og að reyna að leita uppi einhvern sem maður varð ástfanginn af við fyrstu sýn og missti svo sambandið við; maður fer aftur og aftur á sama staðinn og reynir til einskis að taka upp þráðinn á ný.

Ef mér leyfist að lýsa þessu á skelfing klunnalegan og ófullnægjandi hátt: Þessi hverfula leiftursýn var skynjun þess að ósköp venjulegt augnablik í venjulegu hversdagslífi hins hversdagslega sjálfs, þetta hér og nú, rétt eins og það kemur fyrir, sé svo fullkomið og í sjálfu sér nægilegt að engin orð geti lýst því. Við þráum ekkert og þurfum einskis að leita. Við vitum að engin trú er nauðsynleg, engar aðferðir eða andleg þjálfun, hvorki heimspeki né trúarbrögð. Takmarkinu er náð. Það er þessi núverandi reynsla rétt eins og hún kemur fyrir. Þetta var augsýnilega það sem fingurinn var að benda á. En skömmu síðar, þegar þú horfir aftur, er augnablikið búið að taka á sig sinn fyrri hversdagsblæ þó að fingurinn bendi á það rétt eins og áður.

En það hversu hverful sýnin er á sér mjög einfalda skýringu. Hún tengist því sem ég sagði í upphafi um nauðsyn þess að losa sig við flekann þegar maður er kominn yfir ána, að trúin sé meðal en ekki fæði. Til þess að þetta atriði sé ljóst þurfum við að líta svo á að flekinn samsvari hugmyndum, orðum og öðrum táknum sem notuð eru til þess að túlka trúarskoðanir eða heimspeki sem benda á tungl veruleikans. Um leið og við höfum skilið hreina og beina merkingu orðanna hefur flekinn um leið lokið hlutverki sínu. Við erum komin yfir á hinn bakkann. Allt og sumt sem nú þarf að gera er að framkvæma það sem orðin segja: sleppa flekanum og ganga áfram á þurru landi. En til þess að það sé mögulegt verðum við að sleppa flekanum. Með öðrum orðum, við getum ekki á þessu stigi bæði hugsað um trú og samtímis iðkað hana. Til þess að sjá tunglið verðum við að gleyma fingrinum sem bendir og einfaldlega horfa á tunglið.

Þarna kemur skýringin á því hvers vegna allar austrænar heimspekileiðir byrja með iðkun einbeitingar, það er að horfa með athygli. Það er eins og þær vilji segja: „Ef þið viljið vita hvað veruleikinn er verðið þið að horfa beint á hann og upplifa hann sjálf. En til þess að þetta megi verða þarf ótruflaða athygli vegna þess að veruleikinn er ekki tákn, ekki orð eða hugsanir, ekki hugrenningar eða myndlíkingar. Til þess að sjá verður hugurinn að vera laus við spuna orða og draumóra minnisins.“ Ekki er ólíklegt að menn svari þessu þannig: „Gott og vel, en þetta er hægara sagt en gert.“ Það virðist alltaf vera erfileikum bundið að umbreyta lýsingu í orðum yfir í athöfn og þetta gildir sérstaklega um svokallað andlegt líf. Við stöldrum því við gagnvart þessu vandamáli og verðum mjög upptekin af umræðum um aðferðir, tækni og ýmiss konar stuðning við einbeitinguna. En það er auðvelt að sjá að þetta er ekkert annað en bið og frestun. Ekki er hægt í senn að einbeita sér og hugsa um einbeitingu. Það er hljómar kjánalega er eigi að síður satt að eina leiðin til að einbeita sér er að einbeita sér! Þegar maður gerir það hverfur um leið hugmyndin að maður sé að einbeita sér. Á sama hátt getum við sagt að trúin (religion) hverfi um leið og hún vaknar og verður raunveruleg.

Samt er það svo að mest af þessu tali um vanda í athöfnum eða erfiðleika í einbeitingu er hrein vitleysa. Ef við sitjum saman að snæðingi og ég segi við þig: „Gætir þú rétt mér saltið,“ þá einfaldlega gerir þú það án nokkurra erfiðleika. Þú staldrar ekki við til þess að hugleiða hver sé rétta aðferðin. Þú byrjar ekki á að velta fyrir þér: „Nú þegar saltstaukurinn hefur verið tekinn upp hversu lengi þarf ég þá að einbeita mér að honum til þess að geta rétt hann yfir borðið?“ Það er bókstaflega enginn munur á þessu og því að beina athyglinni til þess að sjá inn í eðli veruleikans. Ef þú getur einbeitt athyglinni í tvær sekúndur getur þú það eins í tvær mínútur og ef þú getur það í tvær mínútur getur þú það eins í tvo klukkutíma. Ef þú endilega vilt gera þetta skelfilega erfitt geturðu að sjálfsögðu tekið tímann. Í stað þess að einbeita athyglinni ferð þú að hugsa um hvort þú ert að einbeita þér, hve lengi þú hefur einbeitt þér og hve lengi þú getur haldið það út. Allt þetta er út í hött. Einbeittu athyglinni í eina sekúndu. Ef hugurinn reikar skaltu einbeita þér í aðra sekúndu og svo aftur aðra. Enginn þarf nokkurn tíma að einbeita sér í meira en eina sekúndu - þessa sem nú er að líða. Þess vegna er algerlega út í bláinn að taka tímann og keppa við sjálfan sig og hafa áhyggjur af framförum og árangri í listinni. Þetta er einfaldlega gamla sagan um að gera erfitt verk auðvelt með því að taka eitt skref í einu.

En okkur kann að mæta annar vandi. Í einbeitingarástandi eða réttara sagt ástandi ótruflaðrar athygli finnur maður ekki fyrir neinu sjálfi, þ.e. í því er engin sjálfsvitund. Ástæðan er sú að hið svo kallaða sjálf er samsett úr orðum og minningum, úr ímyndunum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum hér og nú. Hindrunin, sem svo mörg okkar finna fyrir, á milli orða og athafna, á milli tákns og veruleika stafar af því að vilja bæði halda og sleppa. Við viljum upplifa gleði og við óttumst að gleðin verði að engu ef við gleymum okkur - skemmtun án þess að nokkur sé viðstaddur til að njóta hennar. Þetta er skýringin á því hvers vegna sjálfsvitundin er sífelld hindrun í vegi skapandi athafna eins og sjálfvakin og óviðráðanleg ónýting viðleitninnar. Þjóðmenning sem þjáist af þessum kvilla í of miklum mæli verður kolbrjáluð og gæti fundið upp á því að tortíma sjálfri sér og öðrum með kjarnorkuvopnum. Sjálfsvitundin er hindrun. Hún er því lík að maður stöðvaði söng eftir hverja nóta til þess að hlusta á bergmálið og verða svo ergilegur yfir því að missa taktinn.

Hún er sálarástand þess sem lýst er í málshættinum „Langt þykir þeim sem búinn bíður.“ Ef við reynum að fylgjast með hvort hugurinn er einbeittur og við förum að svipast um eftir einhverju innsæi í veruleikann er einbeitingin um leið horfin. Raunveruleg einbeiting er þess vegna dálítið furðulegt ástand sem gæti virst mótsagnakennt vegna þess að hún er í senn hámark varurðar og lágmark égkenndar. Þarna virðast sum vestræn sálfræðikerfi hafa rangt fyrir sér þegar þau samkenna vitundina egóinu. Í raunverulegri einbeitingu er virkni hugarins í hámarki en ætlun eða markmið hans í lágmarki vegna þess að maður getur ekki samtímis einbeitt sér og ætlast til árangurs af einbeitingunni.

Eina leiðin til þess að komast í þetta ástand er bara að hella sér út í það án hiks eða tafa - bara gera það. Þetta er ástæðan fyrir því að ég forðast venjulega að ræða hvers konar austræna hugleiðingartækni eins og yóga. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir flesta vesturlandabúa verði slíkar upplýsingar fremur til trafala en hjálpar við einbeitingu. Það er t.d. alls ekki eðlilegt og tilgerðarlaust að reyna að komast í lótusstellingu og leggja á sig alls konar andlega hugarleikfimi. Margt fólk á Vesturlöndum er svo sjálfsmeðvitað í þessu, svo upptekið af hugmyndinni um einbeitingu að það kemst í rauninni aldrei í það ástand. Af sömu ástæðu er ég fremur tortrygginn á of mikið Zen, sérstaklega þegar því fylgja ýmsar tilfallandi umbúðir frá Japan sem eru í rauninni aðeins tæknileg formsatriði. Sama er að segja um langdregnar og tilgangslausar umræður um hvort þessi eða hinn hafi upplifað satori eða um fjölda kóana sem maður hafi leyst eða hve margar klukkustundir á dag maður sitji í zazen eða hugleiðingu. Svona lagað bla-bla er ekki Zen eða yóga, heldur bara sýndarmennska í anda stundartísku og lýsir einmitt sjálfsvitund og tilgerð en ekki sjálfgleymi og eðlileika. Ef við ráðum hins vegar raunverulega við þetta, það er ef við getum lært að vakna og einbeita huganum eins og hendi sé veifað, getum við notað umbúðirnar eða hafnað þeim að vild.

Ótti við dýrkun á hinu framandlega ætti þó ekki að fæla okkur frá því að njóta þess sem er raunverulega fagurt í austrænni menningu svo sem kínverskar málaralistar, japanskrar húsagerðarlistar, indverskrar heimspeki o.s.frv. En þá má þetta aðalatriði ekki gleymast: Við getum ekki raunverulega upplifað anda þessara hluta nema við uppgötvum fyrst þá sérstöku tegund áreynslulausrar einbeitingar sem er nauðsynleg til þess að geta metið þá að verðleikum.

Þessir hlutir færa okkur ekki þessa getu - hún er eitthvað sem kemur frá okkur sjálfum. Ef menn þurfa að flytja hana inn frá Asíu er það af því að þá sjálfa skortir hana algerlega. Mikilvægast er þess vegna einfaldlega að byrja - hvar sem þú ert og hver sem þú ert. Ef þú situr þessa stundina og ert ekkert sérstakt að gera skaltu bara sitja. Ef þú ert að reykja pípu þá bara reyktu hana. Ef þú ert að hugsa um eitthvert vandamál skaltu aðeins hugsa. En gættu þess þá að láta ekki hugann reika að nauðsynjalausu, knúinn áfram af sínum eigin taugaveiklaða vana. Í Zen er það kallað að hugurinn leki - eins og gömul og óþétt tunna sem lekur á samskeytum. (Hér á A.W. líklega við að hugsa markvisst en láta ekki hugann reika út og suður þegar nauðsyn krefst markvissrar hugsunar. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við hugarreik þegar það á við; þýð.).

Jæja, þetta ætti að vera nægilegur skammtur af meðali í bili. Leggjum þess vegna frá okkur meðalaflöskuna og förum út til þess að virða fyrir okkur tunglið.

Sv. B. þýddi.

[1] Ariel Glucklich 1997, bls. 211.

[1] "The Mantra in Vedic and Tantric Ritual". Mantra. Útg. Harvey P. Alper. Albany: State University of New York Press 1989, bls. 96; "The Indian Mantra". Selected Studies. Leiden: E.J.Brill 1975, bls. 249

[1] Ariel Glucklich 1997, bls. 209-10.

[1] Knud Rasmussen: Songs and Stories of the Netsilik Eskimos. Þýð. Edward Field. Newton, Mass.:Education Development Center, bls. 7-8.

[1] David M.Guss: The Language of the Birds. Tales, Texts & Poems of Interspecies Communication. San Francisco: North Point Press 1985, bls. xi.

[1] David M.Guss 1985, xiii-xv

[1] "...both may have derived as a secondary result of another adaptational success, for instance ballistic movement - the earliest human hunting skill". Ariel Glucklich 1997, bls. 210. Sjá ennfremur William H.Calvin: The Cerebral Symphony: Seashore Reflections on the Structure of Consciousness. New York: Bantam Books 1990, bls. 296.Calvin gerir ýtarlegri grein fyrir kenningum sínum í The Throwing Madonna: Essays on the Brain. New York: Bantam Books 1991

[1] The Selected Poetry of Vicente Huidobro. Útg. David M. Guss. New York: New Directions 1981, bls. 158-159.

[1] Bernard Haile: Origin Legend of the Navajo Enemy Way . New Haven: Yale University Press 1938.

[1]Þorsteinn frá Hamri: Spjótalög á spegil. Reykjavík: Iðunn 1982