Hver hlutur hefur sína útlínu og hvarvetna má sjá útlínur. Útlína líkama og lofts er mörkuð af hörundinu og ströndin markar útlínu lands og sjávar. En útlína gerir meira en að aðgreina eitt frá öðru. Segja má að hún sé einnig það sem sameinar. Þannig er útlínan sem í senn greinir að andstæður og sameinar þær. - Þetta er eðli allra marka
Drögum upp dæmi af sviga. Hann er dreginn þannig: ) og er í senn innhverfa og úthverfa. Svigi er lína sem bæði er íhvolf og gúlpar, verður til við að móta hvoru tveggja í senn. Segja má að sviginn aðskilji íhvolfu og gúlp vegna þess að hann er tvær hliðar á sama fyrirbæri, sem hvorugt getur án hins verið. Þannig er svigi jafnt útlína hins íhvolfa sem gúlpsins. Það finnst ekkert íhvolft í tilverunni án þess að gúlpur fylgi. Allar andstæður fallast þannig eilíflega í faðm.
Kjarni málsins er, að öll mörk í náttúrunni aðgreina og sameina í senn. Mörkin blekkja með því að líta út eins og þau aðskilji hið óaðskiljanlega. Í heimi hlutveruleikans eru ímyndaðar línur, ekki raunveruleg mörk. Lína verður markalína, þegar við ímyndum okkur andstæðurnar sem hluta en ekki heild. Það er meinlaust að draga línur, ef við tökum þær ekki sem mörk. Það má gera mun á vellíðan og þjáningu, en það er ómögulegt að aðskilja vellíðan frá þjáningu.
Við erum sífellt að búa til mörk og útlínur. Við mörkum línur við yfirborð hlutanna og einnig í okkar eigin huga. Við flokkum allt. Við gerum til dæmis mun á steini og ekki steini, því sem er ánægjulegt og ekki ánægjulegt. Þessi munur verður ósjálfrátt mörk af því að við sjáum ekki heildina. Við gefum síðan einstökum hlutum og flokkum nafn. Við segjum að eitthvað sé ljóst eða dökkt, uppi eða niðri. Við getum notað þessi nöfn sjálfstætt og talað um vellíðan án þess að nefna þjáningu. Við getum með hugsun aðgreint vellíðan frá þjáningu, þótt vellíðan finnist raunverulega aldrei aðgreind frá þjáningu. Þessi ímyndaði munur verður sannfærandi. Við festumst í neti tvíhyggjunnar. Hugur og hlutur, subjekt og objekt, tími og rúm, andi og efni, frelsi og fjötrar. Sannleikurinn, sem er einn, verður afstæður og því ekki sannleikur, heldur andstæður. Tveir heimar verða til úr einum.
Við ruglum saman mörkum, sem engin eru og náttúrunni. Við búum til eins konar landakort af veruleikanum, sem ekki er veruleikinn sjálfur. Landakort er einn hlutur og land annar. Landakortið er ekki landið. Við lifum þó í heimi landakortanna og orðanna eins og það sé veruleikinn. Við lifum í draumaheimi ímyndaðra marka og landakorta. Við þurfum að vakna af þeim draumi og losa tök hinna ímynduðu marka. Flest vandamál okkar í lífinu byggjast á ímyndun um að aðgreina megi andstæður og að það skuli gert. Þetta verður eins konar endalaus togstreita.
Okkur þarf að skiljast, að sá öðlast frelsi sem sér í gegnum þessa blekkingu markalínanna. Hann verður frjáls frá samstæðum andstæðnanna, ef svo má að orði komast. Hann verður laus við heimskuleg vandamál og baráttu andstæðnanna. Hann beinir ekki einni andstæðu gegn annarri, heldur lyftir sér yfir báðar. Ekki gott eða illt, heldur handan við gott og illt. Ekki líf eða dauði, heldur vitund sem er handan við hvoru tveggja. Markmiðið er þá ekki að aðskilja andstæðurnar og með því stefna að framförum, heldur að sameina hið jákvæða og hið neikvæða og finna hinn sameiginlega grundvöll, sem tekur til beggja andstæðna, svo hefja megi sig yfir hvoru tveggja. Afnám tvíhyggju er ekki aðeins búddismi, heldur og boðskapur Advaita Vedanta og hjá Kristi himnaríki á jörðu. Í Lankavatara Sutra segir svo: Blekking ímyndunarinnar kennir okkur að fyrirbærin ljós og skuggi, langt og stutt, svart og hvítt séu mismunandi og aðgreinanleg. Þau eru þó ekki óháð hvort öðru, heldur mismunandi viðhorf til sama hlutar. Þetta eru orð yfir samband eða afstæði, sem er ekki sjálfur raunveruleikinn. Forsendur tilvistar eru aldrei ósamrýmanlegar í eðli sínu. Kjarni hlutanna er einn en ekki tveir.
Það er óhugsandi að vitna hér í öll þau fjölmörgu indversku heimspekirit, sem segja þetta sama. Veruleikinn er sameining andstæðnanna. Það eru markalínurnar, sem við hyljum veruleikann með og greina hann í óteljandi pör andstæðna. Því gera allar þessar trúarhefðir kröfu til, að veruleikinn sé hreinsaður af þessum pörum eða samstæðum andstæðnanna, sem jafngildir því að leggja niður öll mörk.
En hvað gerist, ef við sjáum, að engar andstæður eru í tilverunni? Hvað verður um framfarir? Að sjálfsögðu munu framfarir í venjulegri merkingu ekki stöðvast. Við munum hins vegar skynja, að hamingjan er ekki háð framförum. Vafasamt er að tala um himnaríki á jörð, en svo mikið er víst að við verðum vinsamleg öllu, ekki aðeins helmingi hlutveruleikans. Við munum sjá heildina.
Í síðasta blaði Mundilfara var sagt, að sjálfsviðurkenning sé jafnan byggð á vissum stöðlum, siðferðilegum, fagurfræðilegum eða félagslegum. Ef miðað er við siðferði, er dæmt um gott og illt. Ef viðmiðunin er fagurfræðileg, þá er það fallegt og ljótt, en snúi hún að mannfélaginu, þá fjallar gildismatið um mikilvægi og léttvægi. Sjálfsviðurkenning sérhvers einstaklings, sem þjóðfélagsþegns eða að því leyti sem hún snýr að öðrum, er undir því komin að einstaklingurinn standi sig siðferðilega, að hann geðjist öðrum og sé félagslega mikilvægur. Hin siðferðilega skipting milli góðs og ills gengur í raun út frá því, að aðeins alger ást á mannkyni sé siðferðilega viðeigandi.
Með því að viðurkenna óæskilegar hliðar á sjálfum sér, einkum þó veikleika og galla, hjálpum við okkur til frelsis og að taka sjálfstæðar ákvarðanir í lífinu. Þegar við viðurkennum eða höfnum okkur sem félagsverum eru vissir staðlar óafvitað notaðir. Viðurkenning á sjálfum sér sem einstaklingi er kjarni vandamálsins. Það er eins og við gerum jafnan ráð fyrir að vita, hvað sé gott eða illt, fallegt eða ljótt, mikilvægt eða lítilvægt. Við göngum líka út frá því að hafa fullt valfrelsi. Svo er þó ekki. Spurningin um, hvað sé gott og illt, æskilegt eða óæskilegt, aðgengilegt eða óaðgengilegt, á sér ekkert einfalt svar. Því án ills væri ekkert gott. Við höfum aðeins afstætt valfrelsi, valið er skilorðsbundið. Það sem máli skiptir er að velja, þ.e. hin valkvæða athöfn, en ekki það sem við veljum. Baráttan skiptir meira máli en markmiðið. Hún gefur þroska okkar líf og reisn.
Við verðum að kanna, hvað hindrar og hvað eflir sjálfsviðurkenningu. Mannlegur harmleikur á meðal annars rót sína að rekja til óskar um að vera góður, fagur og mikilvægur. En óskin og þörfin á að velja og viðurkenna aðeins hið góða, hið fagra og mikilvæga er órökræn. Meðan við getum ekki viðurkennt okkur eins og við erum, getum við ekki viðurkennt okkur sem heild, þ.e. samsafn hins góða, illa og hlutlausa eða það sem ekki er hægt að flokka undir gott eða illt. Þetta veldur sundrung í okkur sem einingu eða heild. Við verðum að viðurkenna bæði hið heilbrigða og óheilbrigða í okkur, hið ánægjulega og óæskilega. Við verðum viðurkenna það sem er ósamþýðanlegt eða stangast á í okkur.
Ég hefi áður bent á hvernig hagnýta má lögmál hinna hreinu andstæðna. Ekkert er vont án hins góða. Sama gildir um hvítt og svart og ást og hatur. Hatur er ekki til nema vegna þess að ást er möguleg. Feimni er dulin ósk um að sýna sjálfsöryggi. Þegar átt er við ósamþýðanlega hluta persónuleikans, er gott að gæta að þessu lögmáli. Að sjá, að hið illa er gagnhverfa hins góða, hjálpar okkur til að sættast við innri átök og þverstæður.
Nauðsynlegt er að sjá eigin andstæður og viðurkenna tilvist þeirra. Það er forsenda þess að skynja þær, og leysa þær upp eða losna við þær. Spyrja mætti, hvort andstæður séu ekki alltaf ósættanlegar og því ekki hægt að viðurkenna þær samkvæmt eðli sínu. Árekstur leiðir til aðskilnaðar og upplausnar. Við verðum að gæta að því, hvað veldur árekstrinum og skapar mótstæðurnar. Misræmi og gagnstæður verða ævinlega til. Þær eru uppruni aflsins. Þær skapa fjölbreytnina. Gagnstæðar skoðanir og ólík viðhorf styrkja stefnu og stöðu mála. Gagnstæður taka til allra möguleika. Aðeins öfgar eða hinar algjöru andstæður útiloka hver aðra. Walt Whitman sagði:
Er ég í mótsögn við sjálfan mig?
Gott og vel, þá er ég í mótsögn við sjálfan mig,
(Ég er víðfeðmur, í mér býr margbreytileiki.)
Hvenær eru andstæður samþýðanlegar? Minni háttar andstæður virðast oft ósamrýmanlegar. Möguleikinn á samþýðanleikanum hverfur, ef við veljum aðeins hið góða, fallega og mikilvæga. Þróunin í þessum heimi gerist ekki með vélrænni útilokun hins óæskilega eða óhæfa, heldur með því að upplifa það í reynd. Að þessu leyti getum við sagt að barátta sé árangur. Hið eftirsóknarverða er að komast í baráttuna en ekki úr henni. Allt sem er skipt, útilokað eða firrt er sjúklegt. Allt það sem hjálpar til að sameina eða stefna saman og til að stofna til eðlilegrar samvinnu er heilbrigt. Með því að viðurkenna mismun og andstæður, sérstaklega með því að hafa hugrekki til að mæta valkostum, nálgumst við mannlegan sannleik, sem er eðlilegur, raunsannur og siðferðislegur. Það tryggir sjálfsþroska.
Gott og illt eru ekki skýrgreinanleg gæði, heldur tímabundin viðhorf á tengslum eða sambandi hluta. Illt er sundurgreining, samkeppni og ósamþýðanleiki. Gott er nálgun, samleitni og samvinna. Eins og einingin er undanfari óeiningar, er gott undanfari hins illa. Gott og illt verða til við sundurgreiningu í vitundinni. Áður en sú sundurgreining hófst, réði gott ríkjum í skilningi eðlilegrar samvinnu. Á þroskabraut okkar förum við þannig aftur til upphafsins, til baka í tíma til þess, er ekkert var gott eða illt og hugsunin bjó það ekki til. Svið hins góða er víðáttumikið og umlykur einnig hið siðlausa og illa. Synd og siðferði eru ekki gagnstæður, heldur eitt. En ég veit, að orustuvöllur tilfinninga okkar verður að viðurkennast til þess að við komumst á áfangastað og til að við getum stuðlað að sjálfsþroska. Hæfileikinn til að sjá sjálfan sig í víðu ljósi hjálpar til að komast handan við átökin og árekstrana. Ekki til að halda sig í fjarlægð frá þeim, heldur til að upplýsast og fá útskýringu á fyrirbærunum.
Jafnvel við hagstæðustu kringumstæður erum við háð vissum takmörkunum, sem við komumst aldrei yfir. Það er ofar mannlegum skilningi að vita gott og illt og við getum ekki vænst slíks valfrelsis. Við reynum hið góða og vonda. Við upplifum baráttuna og njótum ávaxta hennar. Mannleg örlög eru þau að plægja og sá og skera upp í hverfulleikanum, gleði og sorg. Þegar menn telja sig alvitra, eru þeir brottrækir úr paradís. Þeir hafa fjarlægst uppruna sinn og getu. Þeir tapa sínum náttúrulegu hæfileikum. Ef úr minna er að velja, verður minna valið. Hin óskammfeilna þekking á góðu og illu, veldur því að menn skammast sín fyrir að vera eins og þeir eru. Eins og þeir eigi val á því að vera öðru vísi. Menn geta því ekki viðurkennt sjálfa sig.
Gagnlegt er að viðurkenna sig sem eina heild og við hvers konar aðstæður, og það er eina leiðin til þess að við getum hafist handa og breytt okkur. Óánægja og höfnun stafa af því að við höldum að við hefðum getað gert betur en við gerðum. Að viðurkenna ekki takmarkanir okkar er skaðlegt og jafngildir því að eyðileggja eigin innri getu. Það er eðlilegt og mannlegt að vera takmarkaður og hafa takmarkanir. Við verðum að viðurkenna þessa staðreynd sem hluta af hinu mannlega í stað þess að álasa okkur og fyrirlíta. Það er hægt að afneita og hafna hinu óæskilega, en það hjálpar ekki til að takast á við það. Allt í tilverunni, sem við höfum ekki getað eða viljað viðurkenna, eykur tilfinningu okkar fyrir eigin getuleysi og óvirðingu.
Jón L. Arnalds Grein þessi birtist í Mundilfara janúar 1999
© Guðspekifélagið