Egóið

Það gæti verið fróðlegt og gagnlegt að athuga merkingu orðsins egó. Fá orð hafa valdið meiri ruglingi, sérstaklega á meðal áhugafólks um yfirpersónuleg svið. Innan þessara áhugahópa og sömuleiðis nýaldarfólks hafa orðin egó og skynsemi (rationality) mjög neikvæðan og óhreinan merkingarblæ. Fáir fræðimenn sem fjalla um þessi efni hirða um að skilgreina orðið og þegar þeir gera það eru skilgreiningarnar á ýmsa vegu.

Við ráðum því auðvitað hvernig við skilgreinum orðið egó svo framarlega sem við erum sjálfum okkur samkvæm í notkun þess. Flestir nýaldarhöfundar nota orðið mjög losaralega í merkingunni égkennd sem er aðgreind frá öðrum og hinni andlegu frumuppsprettu. Gallinn er bara sá að þessir höfundar gera ekki skýran greinarmun á ástandi sem ríkir áður en egóið þroskast (pre-egoic) og því sem tekur við þegar maðurinn hefur vaxið frá egóinu (transegoic). Þar af leiðandi eru margar leiðbeiningar þeirra hvatning til afturhvarfs til frumstæðari viðhorfa (regression) sem eðlilega veldur tortryggni og taugatitringi á meðal fræðimanna sem vinna á hefðbundinn hátt. Samt er það almenn skoðun áðurnefndra höfunda að andlegt ástand sé „handan egós“ sem er rétt svo langt sem það nær en ruglar samt myndina herfilega ef þetta er ekki útskýrt nánar.

Á meðal þeirra sem skrifa um sálkönnun merkir egó „það sem kemur reglu á sálarlífið“. Með það í huga kjósa margir rannsóknarmenn fremur orðið sjálf, sem hefur almennari merkingu. Egóið (eða sjálfið), það sem kemur á samhengi og einingu í huganum, er þá bráðnauðsynlegt skipulagsmunstur og undirstaða. Að komast „handan við egóið“ þýddi þá ekki lausn heldur stórslys. Þessum fræðimönnum á hefðbundnum leiðum er þess vegna algerlega óskiljanlegt hvað „handan egós“ gæti þýtt og að nokkur maður gæti sóst eftir slíku ástandi. Og þeir hafa alveg rétt fyrir sér þegar miðað er við þessa skilgreiningu á orðinu (við komum aftur að þessu hér á eftir).

Í heimspeki er almennt gerður greinarmunur á raunsjálfi (empirical ego), sem er sjálfið sem menn geta kannað með innskoðun, og hinu hreina egói sem er handan þess sem unnt er að kanna (Kant, Fichte, Husserl). Það er hreint súbjekt ( sjálfið sem horfir) og verður aldrei skynjað sem hlutur eða fyrirbæri af neinu tagi. Í þessum skilningi er hið hreina egó eða sjálf í rauninni það sama og hindúar nefna atman (hið hreina vitni sem enginn sér en felur í sér alla hluti).

Samkvæmt heimspekingum eins og Fichte er þetta hreina sjálf eitt með andanum, veruleikanum sjálfum, sem er sama og hindúiska formúlan atman = brahman. Nýaldarmenn fara algerlega út af sporinu þegar þeir heyra talað um andann sem hreint egó. Þeir þekkja sjaldnast feril orðsins í sögunni og vilja að orðið egó merki „djöfull“ - hið illa (þó að þeir séu hjartanlega sammála jafngildri hugmynd um að atman sé sama og brahman).

Þeir verða alveg jafnruglaðir í ríminu þegar fræðimaður eins og Jack Engler, sem hefur kannað snertifleti geðsjúkdómafræði og hugleiðingar, heldur því fram að hugleiðing styrki egóið. Það gerir hún vissulega vegna þess að „styrkur egós“ í skilningi geðsjúkdómafræðinnar merkir „hæfileikinn að geta mætt heiminum með hlutlægu viðhorfi“. En nýaldarmenn halda að hugleiðing sé „handan egós“ og þess vegna hljóti styrkur egósins að þýða eflingu hins illa. Þannig heldur ruglingurinn áfram.

Orðið ego er einfaldlega latína og þýðir „ég“. Freud notaði t.d. aldrei orðið ego heldur þýska fornafnið das Ich, égið. Í ensku þýðingunni á verkum Freuds (Strachey) var þvi miður notað orðið ego. Andstætt éginu var það sem Freud nefndi Es sem er þýska fornafnið það og var því miður einnig þýtt með latnesku orði, id (það), orð sem Freud notaði aldrei. Hin stórmerka bók Freuds, Das Ich und das Es (1923) nefndist á ensku The Ego and the Id (1961) en hefði betur heitið The I and the It (Ég og það). Það sem Freud átti við með þessum orðum var að menn hafa ákveðna égkennd, en stundum finnst þeim að hluti af sjálfinu sé fjarlægur, framandi og eins og aðskilinn frá þeim - líti út sem „það“. Við segjum „Kvíðinn veldur mér óþægindum“ eða „Löngunin í mat er sterkari en ég!“ og fleira í þeim dúr og höfnum þannig ábyrgð á eigin sálarástandi. Þegar hlutar égsins klofna frá eða eru bældir birtast þeir okkur sem eitthvað „það“ sem við höfum enga stjórn á.

Aðalmarkmiðið í sállækningum Freuds var þess vegna að sameina „ég“ og „það“ á ný og lækna rofið sem þar á milli hafði myndast. Hina frægu yfirlýsingu Freuds um markmið sállækninga „Þar sem id var á egó að vera“ ætti að lesa: „Þar sem það var á ég að vera.“ Hvort sem maður er Freudsinni eða ekki er þetta enn nákvæmasta og stysta samantekt á öllum tegundum afhúpandi sállækninga. Hún bendir á leið til útþenslu á égkenndinni til þroskaðra og víðara einstaklingseðlis sem heilgerir sig þáttum sem áður voru framandi.

Orðið egó er greinilega notað í mismunandi merkingu, frá mjög víðri til mjög þröngrar, og það er bráðnauðsynlegt að það komi skýrt fram hvernig orðið er notað. Annars getur farið af stað ruglingur og endalausar deilur sem stafa aðeins af ólíkri merkingu sem menn leggja í orðið.

Í breiðasta skilningi merkir egó sjálf eða „súbjekt“. Þegar Piaget talar um að fyrstu þroskastig einstaklingsins séu sjálfhverf („egósentrisk“) er hann ekki að tala um egó sem er greinilega aðgreint frá umheimi (sjá grein um þroskakenningar í fyrra hefti Ganglera 99). Það sem hann á við er einmitt þveröfugt: Sjálfið er ekki aðgreint frá umheimi. Greinilegt egó hefur ekki enn myndast og þess vegna er litið á heiminn sem framhald sjálfsins. Það er fyrst þegar fram kemur sterkt egó (þegar egóið hefur náð þroska með hlutbundinni og síðar formlegri rökhugsun) að sjálfhverfan tekur að hjaðna. Sjálfhverfan er mest á stigum hins vanþroska egós!

Það er fyrst á stigi formlegrar rökhugsunar sem fram kemur verulega sterkt egó sem er aðgreint frá líkamsþörfum og fyrirfram gefnum þjóðfélagsreglum. Heimspekingurinn Habermas nefnir það persónu-egó (ego indentity) sem er fullsköpuð einstaklingskennd.

Þegar Freud og aðrir sálkönnuðir, Habermas o.fl. nota orðið egó felst í því minni sjálfhverfa („egósentrismi“) en í fyrri þroskastigum.

Í ritum mínum nota ég oftast orðið egó í þessari þrengri merkingu, einstaklingsbundin sjálfskennd sem er aðgreind frá ytri heimi, þjóðfélagslegum hlutverkum og frá hinni duldu hlið sálarlífsins (id =því).

Þegar orðið er notað þannig er ljóst að á fyrstu þroskastigum barnsins (frumsviði og töfrasviði - eða skynhreyfistigi og foraðgerðastigi) er egóið ekki enn myndað nema sem „egókjarnar“ sem sálkönnuðir nefna svo. Það er illa eða alls ekki aðgreint frá innri og ytri heimi. Þessi svið eru sjálfhverfust. Þar sem barnið skortir sterkt egó heldur það að heiminum líði eins og því líður, vilji það sem það vill og fullnægi hverri ósk þess: Það lítur á heiminn sem framhald af sjálfu sér.

All stöðugt egó tekur að birtast á goðsagnastiginu (stigi hlutbundinnar hugsunar) í líki persónu og hlutverks og nær frekari þroska á stigi formlegrar rökhugsunar. Þá er egóið sjálf sem aðgreinir sig greinilega frá ytri heimi og hinum ýmsu hlutverkum og persónum í honum. Þetta eru egó-sviðin. Síðan getur tekið við frekari þroski til andlegri sviða sem nefnd eru einu nafni handan egós (transegoic). Þá er egóinu hafnað en um leið er því haldið eftir sem starfssjálfi í venjulegum hversdagsheimi. Um sjálfið á þessum efri stigum nota ég orðið Sjálf (Self - með stórum staf) en ekki „hreint egó“ þar sem það gæti valdið misskilningi. Ég nefni þessi þrjú aðalsvið undirmeðvitað (pre-egoic) svið, sjálfsmeðvitað (egoic) svið og yfirvitundar (trans egoic) svið eða forpersónulegt, persónulegt og yfirpersónulegt svið eða forskynsemistig (prerational), skynsemistig (rational) og handan skynsemi (transrational).

Á hverju þessara stiga minnkar sjálfhverfan þegar einstaklingurinn þoskast nær hinu hreina Sjálfi. ... Með öðrum orðum: Sérhvert þessara stiga (og undirstiga sem hér er ekki rætt um) er handan fyrirrennara síns og sjálfhverfan því minni. Það er síður flækt í þrengri og grynnri sjónarmið. Stöðugt fleiri og jafn markverð heili falla undir áhrifavald sjálfsins og um leið minnkar sjálfhverfan (um heili: sjá áðurnefnda grein í Ganglera II. 99).

Þegar við fylgjum þróuninni til yfirpersónulegra sviða sjáum við að þau stefna öll að einu lokamarki sem er innsæi um hið guðlega, Sjálfið sem er sameiginlegt öllum mönnum og öllum vitundarverum. Þessi leið að hinu mikla takmarki einkennist af minnkandi sjálfhverfu, litla sjálfið losar tökin og opnar sig fyrir hinu mikla Sjálfi. Þannig leysast smám saman upp sjónarmið litla sjálfsins, t.d. eigingirni, flokkadrættir og þjóðremba. Sjálfið hefur misst sjálfhverfu sína, miðpunkturinn er horfinn og það felur allt í sér (eða eins og menn segja í Zen: „Sjálfið sem er ekki sjálf“).

Hvað annað gæti verið fólgið í andlegri þróun og minnkandi sjálfhverfu?

Úr bókinni Sex, Ecology and Spirituality; lausl. þýtt, Sv. B.s