Við fyrirgefum ekki öðrum, ef við fyrirgefum ekki sjálfum okkur. Við verðum ekki í sátt við sjálf okkur nema með skilningi og fyrirgefningu. Sjálfsviðurkenning er forsenda þess. Viðurkenning er staðfesting. Sérhverri hugmynd er í grundvallaratriðum beint að viðurkenningu. Sama gildir um sjálfsviðurkenningu, hún er forsenda innri þroska. Það sem ekki er viðurkennt, verður ekki þolað, hjálpað né þroskað. Skortur á viðurkenningu veldur áhugaleysi og skeytingaleysi, neikvæðum viðhorfum eða uppreisn gegn því, sem ekki er viðurkennt. Einnig kemur hann í veg fyrir frumkvæði og löngun til að veita því umhyggju, sem þarf að vaxa og þroskast, einkum ef það er veikburða og þarfnast aðhlynningar og umhyggju. Höfnun á sjálfum sér er tengd viðurkenningu að því leyti, að um er að ræða neikvæða staðfestingu.
Um leið og við setjum okkur í þá stöðu að viðurkenna okkur eða hafna, höfum við skapað tvíhyggju, sem öll hugsun reyndar felur í sér og ekki er auðvelt að komast hjá. Við ýmist upphefjum okkur og gyllum eða dæmum og fyrirlítum. Í upphafi er þessi tvíhyggja ekki, en hún kemur með hugsun og þroska. Því eru þeir verr settir, sem mikið hugsa. "There is nothing either good or bad, but thinking makes it so", sagði Shakespeare.
Við þráum að skynja veruleikann og eininguna. Við erum ekki með eða móti rökkri, fullt tungl er hvorki gott né vont. Fuglinn flýgur ekki til að sýna fiðrildinu yfirburði sína. Tré eru hvorki góð eða slæm. Þetta er allt í eðlilegu samræmi við náttúruna.
Allt í náttúrunni er eðlilegt. Veruleikinn er eðlilegur. Eðli okkar og tilvist byggist á góðum, slæmum eða hlutlausum viðhorfum. Ef við værum í samræmi við eðli okkar, væri þroski okkar ekkert vandamál. Vandamálið er að við afrækjum eðli okkar og förum villur vegar. Það gerðum við upphaflega þegar við yfirgáfum aldingarðinn, hið eðlilega og heila. Öll viðleitni gengur því í þá átt að komast til hins upprunalega.
Það sem greinir mann frá dýri er að hann hugsar og býr yfir þekkingu. Hann þarf að bregðast við ýmsu, sem dýr þekkja vísast ekki til, svo sem einsemd, metorðum, góðvild, heilsubresti, elli og að lokum dauða. Allt er þetta óhjákvæmilegt og verður ekki breytt, en erfitt að viðurkenna. Ef maðurinn ætlar að lifa í sátt við sjálfan sig, verður hann að kunna að bregðast við þessu. Það getur hann aðeins gert með því að viðurkenna.
Nota má tvíhyggjuna í þessu sambandi. Ef það er dapurlegt og vont að deyja, hlýtur að vera skemmtilegt og gott að lifa. Ef dauðinn er skelfing, hlýtur lífið að vera blessun. Á þennan hátt má horfa á hið jákvæða og uppbyggilega. Sama gildir um einmanaleik. Sérhver er einn, þegar grant er skoðað. Ég minnist erindis, þar sem Sigvaldi Hjálmarsson benti á hina sameiginlegu einsemd, einmitt til að leggja áherslu á jákvæða hlið málsins. En þegar við horfum til þess, að við erum öll nákvæmlega eins að heita má, þá tengjumst við saman. Einsemdin verður samkennd.
Þegar við horfum út á við og sjáum víðáttuna og hjálparleysi okkar, getum við minnst sérstæðis okkar, því þótt við séum eins, erum við einstæð, hvert um sig. Okkur eru veitt þau forréttindi og sú ábyrgð að hafa sjálfstætt líf. Það gefur okkur styrk. Með því að viðurkenna ótta og hættur, finnum við gæði lífsins. Við sættum okkur við veruleikann eða sannleikann í stað þess að standa í stríði við hann og berjast við vindmillur. Það sættir okkur við hið mannlega og veitir hugrekki til að taka áhættu, þola, þjást og gleðjast.
Eðli hugsunar býður stöðugt upp á gagnstæður eða andstæður. Ákvarðanir okkar og óskir eru oftast milli andstæðna. Áttir í rúmi og tíma eru andstæður; upp og niður, norður og suður, fortíð og framtíð. Sama má segja um alla mælikvarða: langt og stutt, gott og illt, stórt og smátt. Og lokst eru vellíðan og þjáning, líf og dauði, frelsi og fjötrar, fallegt og ljótt, gáfulegt og heimskulegt þekkt dæmi. Við tölum líka um sannleik og lýgi, veruleik og blekkingu, tilvist og tilvistarleysi. Hlutveruleikinn er ofinn úr andstæðum.
Það er eðli hugsunarinnar en ekki náttúrunnar að vega og meta. Við tölum ekki um siðlaus tré eða siðspillt, rétt eða röng fjöll eða vötn. Ekkert í náttúrunni er í sjálfu sér fallegt eða ljótt og náttúran biður ekki afsökunar á sjálfri sér, því hún tilheyrir ekki heimi hugsunarinnar. Það eru að vísu til litlir eða stórir hestar, en þeir fá enga minnimáttarkennd eða kvíða út af því. Gamall köttur óttast ekki dauða sinn og sársauki veldur honum engu hugarangri. Dýr kvíða ekki framtíðinni. Þau sakna ekki fortíðarinnar. Í náttúrunni er allt eðlislægt og náttúran veit hvað hún syngur. Elektrónan veit betur en vísindamaðurinn, hvernig henni ber eiga að hegða sér. Náttúran skapaði líka heilann, sem býr yfir hugsuninni.
Allar ákvarðanir okkar og gerðir eru, meðvitað eða ómeðvitað, grundvallaðar á mörkum. Þegar við tökum ákvörðun, verður aðgreining milli þess sem við veljum eða höfnum. Líf okkar snýst um slíkar aðgreiningar. Ef við drögum hring, aðgreinir hann það, sem er innan hans frá því sem er utan hans. En gætum að því, að svæðið innan eða utan hringsins var í sjálfu sér ekki til, fyrr en við drógum hringinn. Með því að draga línu búum við jafnframt til andstæður og í veröld andstæðnanna hljóta óhjákvæmilega að vera átök.
Um leið og aðgreining verður til hjá okkur skulum við búa okkur undir átök eða baráttu, ófrið andstæðnanna milli lífs og dauða, góðs og ills, hamingju og þjáningar. Baráttan hefst við aðgreininguna. Við lifum í heimi átaka, af því að við lifum í heimi aðgreiningar. Því dýpri og fastari, sem þessi aðgreining er, þeim mun djúpstæðari eru átökin. Því meira, sem ég sækist eftir ánægju, þeim mun meira óttast ég þjáningu. Því meira sem ég sækist eftir árangri, þeim mun meira óttast ég mistök. Því meira sem ég met efnisleg verðmæti, þeim mun tilfinnanlegra finnst mér að missa þau. Flest vandamál eru vandamál aðgreiningar og andstæðna sem þau skapa.
Við reynum að leysa flest þessi vandamál með því að þurrka út eða eyða annarri andstæðunni. Vandamál góðs og ills reynum við að leysa með því að útiloka hið vonda. Vandamál lífs og dauða með því að halda í lífið og fela dauðann með einhverjum hætti. Efnishyggjumenn vilja útiloka andann frá efninu og hughyggjumenn hafa tilhneigingu til hins gagnstæða. Af því að við trúum að aðgreiningin sé veruleiki, ímyndum við okkur að andstæðurnar séu aðskildar og ósamþýðanlegar. Ást er ólík hatri sem dagur er nótt, segjum við. Við teljum okkur trú um að lífið væri ánægjulegt, ef við gætum þurrkað út hið neikvæða í hvert skipti, sem við kærum okkur ekki um það. Ef við gætum útilokað þjáningu, dauða, illsku, væri allt algott, eins konar himnaríki á jörð. Ekki má gleyma því, að kristin kirkja boðar stundum, að Himnaríki sé upplifun hins jákvæða hluta andstæðunnar, en að Helvíti sé, þar sem er þjáning, kvíði og sjúkleiki. Kristur boðaði hins vegar frekar upphafningu yfir þessar andstæður.
Þessi aðgreining sem kemur fram í andstæðunum og sú árátta að upplifa aðeins annan helming þeirra, hinn jákvæða, eru sterk einkenni vestrænnar menningar. Framfarir eru þá þróun frá hinu neikvæða til hins jákvæða. Þrátt fyrir þessa miklu baráttu frá hinu neikvæða til hins jákvæða öldum saman og aldrei meir en á síðustu tveim öldum, þá er fólkið síður en svo hamingjusamara. Þeð er ekki ánægðara eða býr við meiri innri frið. Kvíði og leiðindi er aldrei meiri en á þessari öld hinnar efnalegu velmegunar. En hér erum við einmitt að tala í andstæðum. Krafa um framfarir felur í sér óánægju með núverandi stöðu. Því er það, að því meira, sem við sækjumst eftir framförum, þeim mun óánægðari verðum við. Með því að sækjast blint eftir framförum, erum við að að bjóða upp á vonbrigði. Þegar við leggjum áherslu á hið jákvæða og viljum eyða hinu neikvæða, megum við ekki gleyma því, að hið jákvæða er skilgreint með hinu neikvæða. Ef við hefðum ekki nóttina, væri dagur óskilgreindur. Því meiri sem framfarirnar verða, þeim mun meira mistekst okkur og því meiri verða vonbrigðin.
Vandinn felst þannig í tilhneigingunni til að líta á andstæðurnar eins og þær séu ósamþýðanlegar, aðskildir hlutar eða einingar. Að selja og kaupa er sami gerningur, sami atburðurinn, þótt við greinum þarna á milli. Það er augljóst þeim sem skoðar málið, að hversu miklar sem andstæðurnar reynast, þá eru þær óaðskiljanlegar og háðar hvor annarri. Önnur hefur enga tilvist án hinnar. Í öðrum þætti í Tao Te Ching, segir Lao Tsu:
Allir í heimi sjá fegurð sem fegurð, vegna tilvistar ljótleikans. Allir þekkja gott sem gott vegna tilvistar hins vonda.
Tilvist og tilvistarleysi birtast samtímis.
Hið auðvelda leiðir af sér hið torvelda.
Stutt er dregið af löngu með samanburði.
Hátt og lágt byggja á afstöðu til hvors annars.
Rödd og hljómur samræma hvort annað.
Fram og aftur fylgjast að.
Þess vegna vinnur hinn vitri án erfiðis og kennir án orða.
Allir hlutir verða til og eyðast án afláts.
Skapandi án þess að eigna sér,
starfandi án þess að stæra sig.
Verk er unnið og síðan gleymt.
Þess vegna er það eilíft.
Þessi sameining andstæðnanna er ekki lengur einkamál austrænna og vestrænna spekinga, því ef við lítum til nútíma eðlisfræði, þá er veruleikinn skilgreindur sem sameining andstæðnanna. Samkvæmt afstæðiskenningunni eru kyrrstaða og hreyfing innbyrðis samofnar, svo er og um electromagnetiskar bylgjur og efni, t.d. ljósið. Efni og orka voru sameinuð í formúlunni E=mc2. Talað er um tímarúm o.s.frv. Nútíma eðlisfræði hefur gengið enn lengra, en ekki eru tök á að rekja það hér.
Bent hefur verið á að ljós verði ekki skynjað án myrkurs. Við sæjum ekki stjörnurnar á himninum nema vegna hins myrka himins. Við skynjum ekki heldur hreyfingu nema sem mótsetningu við kyrrstöðu. Við þekkjum ekki vellíðan nema sem andstæðu þjáningar. Ef við hefðum ekki upplifað þjáningu, vissum við ekki hvað vellíðan væri. Þótt ég vilji ánægjuna og hafni vansælunni, get ég samt sem áður ekki einangrað þessi fyrirbrigði frá hvoru öðru. Af þessu ættum við að skilja betur, hvers vegna lífið eru stöðug vonbrigði, þegar á er horft með augum andstæðnanna og hvers vegna framfarir hafa orðið til lítils þroska. Það er í raun mikið óraunsæi að sækjast eftir ánægju án þjáningar, lifi án dauða, góðu án ills. Heimspekingurinn Ludvig Wittgenstein segir, að vegna þess að markmið okkar eru háleit, verði þau erfið, en af því að þau eru blekking, þá séu þau fávísleg. Ekki er rétt að líta á öldutoppinn einan, aldan er í senn dalur og hæð og allt þar í milli. Enginn öldutoppur er án öldudals.
Við eigum stundum erfitt með að trúa því, að andstæðurnar séu óaðskiljanlegar. Þetta er vegna þess, að við álítum aðgreininguna veruleika. Það er hún sem skapa tilvist andstæðnanna. Að segja að veruleikinn sé handan andstæðnanna er hið sama og að hinn hinsti veruleiki sé án marka. Sannleikurinn er sá, að aðgreiningu er hvergi að finna. Hún er aðeins ímyndun þeirra sem kortleggja.
Jón L. Arnald
Grein þessi birtist í Mundilfara vor 1999
© Guðspekifélagið