Echart Tolle – Handan heims. hvað merkir það?

Andrew Cohen ræðir við Eckhart Toll

Inngangur:

Á síðustu árum og átatugum hafa áhrif frá austrænum trúar- og heimspekistefnum orðið æ greinilegri á meðal andlegra leitenda á Vesturlöndum. Í þeim hópi er mörgum orðið tamt að nota orðasambandið „handan við“. Hvað merkir það? „Að komast handan við“ er að komast, ef svo má segja, yfir fyrri takmörk, sigrast á hömlum og takmörkunum sem fylgja lífi í heimi efnislegrar tilveru. þetta hugtak er því sérstaklega mikilvægt fyrir alla sem hafa áhuga á andlegri upplýsingu (enlightenment). Í Hjartasútrunni er innsæi Búddha, hins upplýsta, lýst sem „visku sem er handan við“. Hann er auðvitað skínandi dæmi um einstakling sem með vöknun sinni komst greinilega „handan við“ þennan heim. þetta merkir því að losa sig úr öllum fjötrum sem myndaðir eru úr tvenns konar hindrunum upplýsingar: ótta og löngun. „Heimur“ manna, hversdagsheimurinn, er venslakerfi sem er samsett úr mótuðum viðbrögðum hins óupplýsta huga gagnvart þessum hindrunum. Takmark flestra þeirra sem leita upplýsingar er því að brjóta af sér þetta helsi, - „að komast handan við“.

En þetta viðhorf höfðar ekki til allra leitenda. Til eru þeir sem halda því fram að með of mikilli áherslu á að sigrast á ótta og löngunum séu menn að afneita óhjákvæmilegum veruleika líkamstilvistar sinnar, veruleika sem felst í sambandinu við jörð, líkama og tilfinningar.

Dæmigerður fulltrúi fyrir „handan við“ viðhorfið til upplýsingar er Eckhart Tolle. Hann er upplýstur mýstiker, fæddur í þýskalandi en býr nú í Vancouver, B. C. Bók hans The Power of Now (Mátturinn í núinu) hefur vakið feikna athygli og selst í þúsundum eintaka í Bandaríkjunum og víðar.

Eckhart Tolle segir í stuttum inngangi í bókinni: „Allt fram áþrettánda árið var ég haldinn nær stanslausum kvíða sem tók stundum á sig form þunglyndis svo að ég hugleiddi jafnvel sjálfsvíg.“ Tolle var í rannsóknarnámi og leiðbeinandi við Cambridge háskóla þegar hann vaknaði nótt eina við skelfingartilfinningu. þegar hann velti fyrir sér þessum erfiðleikum fann hann að djúp þrá eftir útþurrkun og tilvistarleysi var að sigra hina eðlislægu hvöt að halda áfram að lifa. þessari hugsun, „ég get ekki lifað með sjálfum mér lengur“, fylgdi sá sláandi skilningur að „ég“ og „sjálfið“ væri ekki eitt og hið sama. þessi hugsun slöngvaði honum um leið inn í magnþrungna andlega reynslu sem umbreytti lífi hans varanlega. „Ég vissi auðvitað að eitthvað ákaflega þýðingarmikið og djúpstætt hafði komið fyrir mig, en ég skildi alls ekki hvað það var. það var fyrst mörgum árum síðar, þegar ég hafði lesið andlega texta og hitt andlega kennara, að ég gerði mér ljóst að það sem allir voru að leita að hafði þegar komið fyrir mig. Ég skildi þá að þrýstingur frá hinni miklu kvöl þessarar nætur hafði þröngvað vitund minni til að sleppa samkennd sinni við hið lánlausa og óttafulla sjálf sem er, þegar grannt er skoðað, tilbúningur hugans. ... þá komu tímar þegar ég hafði að engu að hverfa á efnissviðinu. Ég var ekki í sambandi við neinn, var atvinnulaus, átti hvergi heima og hafði ekkert félagslegt hlutverk. Í næstum tvö ár gerði ég lítið annað en að sitja á bekk, gagntekinn af óumræðilegri gleði. ... Fólk kom stundum til mín og sagði: „Ég vil öðlast þetta sem þú hefur. Getur þú gefið mér það eða sýnt mér hvernig ég get öðlast það?“ Og ég svaraði þá oftast: „þú hefur það nú þegar. En þú finnur ekki fyrir því vegna þess að hugur þinn framleiðir svo mikinn hávaða.“ ... Og áður en ég vissi af hafði ég aftur öðlast hlutverk í þjóðfélaginu: ég var orðinn andlegur kennari.“

Tolle er nú fimmtíu og þriggja ára og hefur síðustu tíu árin unnið með litlum hópum fólks í Evrópu og Norður-Ameríku.

Annar þekktur kennari sem heldur fram „handan við“ viðhorfinu er Joseph Goldstein [sjá grein eftir hann í þessu hefti Ganglera og umsögn og viðtal í 2. hefti ´99 bls. 48]. Tolle og Goldstein leggja báðir á það áherslu að menn geti eingöngu fundið sanna hamingju með því að vaxa upp úr hinni djúpu mótun sem fylgir ég-hugtakinu. Goldstein segir: „Síðustu árin hefur iðkun mín orðið sífellt einfaldari. Í rauninni má lýsa henni með þessum orðum Búddha: ‚Maður skyldi ekki binda sig við neitt sem heitir ég eða mitt. þetta er allt og sumt. þetta er iðkunin. Í þessu felst frelsið.“ Og Tolle lýsir svipuðu viðhorfi til iðkunar: „Lýst með einföldum orðum er hún í kjarna sínum að segja „já“ við þessu augnabliki nú. þetta er ástand uppgjafar - ómengað „já“ við því sem er. Ekki innra „nei“ við því sem er. Og fullkomið „já“ við því sem er er sama og að komast handan við heiminn. þetta er svona einfalt - að vera fullkomlega opinn fyrir hverju því sem upp kemur á þessu augnabliki.“

Tolle og Goldstein eiga það sammerkt að kenna á algerlega kreddulausan hátt. þeir kenna að of mikil áhersla á form, sem hjálpartæki til að finna frelsi, sé oftast tjáning egósins, alls konar hugtök og boð („þú skalt ...“) sem eru, þegar upp er staðið, alls óviðkomandi sjálfu frelsinu. þeir eru báðir skeleggir andstæðingar þeirrar skoðunar að unnt sé að öðlast upplýsingu eftir einhverjum öðrum leiðum en að hafna þeim hugtökum, hugmyndum og bindingum sem andlegt innsæi skynjar sem villandi, rangar og ósannar.

Andrew Cohen: Eckhart, hvernig er líf þitt? Er það satt, sem ég hef heyrt, að þú sért hálfgerður einsetumaður?

Eckhart Tolle: þannig var það áður en bók mín, The Power of Now (Mátturinn í núinu) kom út. Ég var einbúi í mörg ár. En líf mitt breyttist feiknarlega eftir útkomu bókarinnar. Ég ferðast nú mikið og kenni. Og fólk segir við mig: „þetta er furðulegt. þú varst alltaf einbúi en nú tekur þú þátt í hringiðu heimsins.“ Samt finn ég að ekkert hefur breyst hið innra, mér líður rétt eins og áður. þar ríkir órofa friður og ég sætti mig við þá staðreynd að á ytra borði hafi orðið gjörbylting. þannig er ég í rauninni ekki lengur einsetumaður, heldur einmitt hið gagnstæða. þetta kann að vera þáttur í stærra hringferli, það gæti tekið enda og ég yrði aftur einsetumaður. En sem stendur hef ég aðlagast þeirri staðreynd að ég sé næstum alltaf í samskiptum og sambandi við aðra. Stöku sinnum tek ég samt frá tíma til þess að vera einn. það er bráðnauðsynlegt atriði milli þess sem ég sinni kennsluskuldbindingum.

AC: Hvers vegna þarftu að taka frá stundir til þess að vera einn og hvað er það sem gerist þá?

ET: þegar ég er með öðrum er ég andlegur kennari. þetta er það sem ég geri en ekki það sem ég er. Um leið og ég er einn veitir það mér dýpsta gleði að vera ekki neitt og afsala mér kennarahlutverkinu. það er tímabundið starf. Segjum sem svo að ég hitti hóp af fólki. Um leið og það fer er ég ekki lengur andlegur kennari. Ég hef ekki lengur tilfinningu fyrir því að vera eitthvað sérstakt. Ég hverf einfaldlega dýpra inn í kyrrðina. Kyrrðin er sá staður sem ég hef mestar mætur á. Ekki svo að skilja að kyrrðin hverfi þegar ég kenni, vegna þess að orðin spretta upp úr kyrrðinni. En þegar fólkið fer er aðeins kyrrðin eftir.

AC: Álítur þú að þú takir hana fram yfir allt annað?

ET: Nei, ég vil ekki nota orðin „taka fram yfir“. Í lífi mínu ríkir nú jafnvægi sem e.t.v. var það ekki áður. þegar ég upplifði innri umbyltingu fyrir mörgum árum má segja að ég hafi næstum misst jafnvægið. Bara það að vera var svo fullkomið og hamingjuríkt að ég missti allan áhuga á að gera eitthvað eða eiga samskipti við annað fólk. Í nokkur ár týndi ég sjálfum mér í verunni. Ég hafði næstum gefið allar athafnir upp á bátinn nema þær sem rétt nægðu til að halda lífi - og að það skyldi takast var jafnvel kraftaverk. Ég hafði misst allan áhuga á framtíðinni. Svo komst smám saman á jafnvægi aftur, en þó ekki fullkomlega fyrr en ég fór að skrifa bókina. Líðan mín einkennist nú af jafnvægi á milli einveru og samskipta við fólk, á milli þess að vera og gera, en áður ríkti aðeins veran. Hún var djúp, fögur og hamingjurík. En aðrir sáu þetta í öðru ljósi og margir álitu að ég hefði misst jafnvægið eða sturlast. Sumum fannst það lýsa geðveiki að afsala sér öllum veraldlegum hlutum sem ég hafði „eignast“. þeir skildu ekki að ég kærði mig ekki um þá lengur og hafði enga þörf fyrir þá.

Nú ríkir jafnvægi á milli einveru og samfunda við fólk. Og það er gott. Ég hef fulla athygli á þessu þannig að jafnvægið glatist ekki. Nú eru uppi kröfur um meiri athafnir. Fólk úr ýmsum áttum biður mig að tala - það er ekkert lát á beiðnum. Ég veit að ég þarf að sýna aðgát og gæta þess að missa ekki jafnvægið og týna mér í athafnsemi. Samt held ég að það gæti tæpast gerst, en vissrar athygli er þörf.

AC: Hvaða áhrif hefði það að týna sér í athöfnum?

ET: það hefði í för með sér stanslaus ferðalög, kennslu og samskipti við aðra. Ef svo færi kynni flæðið og kyrrðin að hverfa. Ég veit það ekki, e.t.v. væri þetta óbreytt. Einnig er mögulegt að ég örmagnaðist líkamlega. En ég finn nú að ég þarf reglulega að snúa aftur til hreinnar kyrrðar. Og þegar ég kenni þarf að leyfa leiðbeiningunum að koma upp úr þessari kyrrð. Kennsla og kyrrð eru þannig nátengd. Kennslan kemur frá kyrrðinni. En þegar ég er einn ríkir aðeins kyrrð og þar vil ég helst vera.

AC: Ertu lengi í einu hreyfingarlaus þegar þú ert einn?

ET: Já, ég sit stundum í tvær klukkustundir án þess að nokkur hugsun bæri á sér. það ríkir aðeins órofa kyrrð. Stundum ríkir einnig kyrrð þegar ég fer í gönguferðir, skynjanirnar framkalla þá enga huglæga merkimiða. það ríkir aðeins fegurð sem er um leið opin vitund, undrun og lotning.

AC: Í bók þinni, The Power of Now segir þú: „Lokamarkmiðið með heiminum finnst ekki í heiminum, heldur handan hans.“ Geturðu útskýrt hvað þú átt við með þessu?

ET: Að komast handan við heiminn táknar ekki að draga sig út úr heiminum, aðhafast ekkert eða leggja niður samskipti við fólk. Handanleiki er að starfa og eiga í samskiptum án þess að leita neins fyrir sjálfan sig. Með öðrum orðum: það er að starfa án þess að reyna að efla sjálfskennd sína með athöfnum sínum eða sambandi við aðra. Að lokum merkir það að maður þarfnast ekki framtíðarinnar lengur til þess að öðlast fullnægju fyrir sjálfskennd sína eða veru. Menn leita ekki neins með athöfnum sínum, hvorki meiri, fyllri né stærri sjálfskenndar í heiminum. þegar þessi leit er horfin getur maður verið í heiminum án þess að vera heimsins. Maður leitar ekki lengur neins þarna úti til þess að samkenna sig við.

AC: Áttu við að maður hafi lagt niður tengsl við heiminn sem einkannast af eigingirni og efnishyggju?

ET: Já, það þýðir að maður reynir ekki lengur að efla sjálfskenndina, að öðlast dýpri eða stærri sjálfskennd. Í venjulegu vitundarástandi leitar fólk þess með athöfnum sínum að vera meira það sjálft. Á vissan hátt á það sama við um bankaræningjann (svo dæmi sé tekið). Maður sem keppir eftir hugljómun er að leita hins sama vegna þess að hann er að reyna að öðlast ástand fullkomnunar sem er ástand fyllingar, þar sem ekkert skortir á, einhvern tímann í framtíðinni. Menn leita eftir einhverjum ávinningi með athöfnum sínum. þeir leita hamingju en þegar allt kemur til alls eru þeir að leita að sjálfum sér - eða leita guðs, en þannig má einnig orða það. Þeir leita að sjálfum sér á stað þar sem þetta er alls ekki að finna, nefnilega í hinni venjulegu, óupplýstu vitund, vegna þess að hin óupplýsta vitund er alltaf í leitarham. Þetta þýðir: þeir tilheyra heiminum - eru í heiminum og eru um leið eign heimsins.

AC: Áttu við að þeir horfi fram á við í tíma?

ET: Já, heimurinn og tíminn eru í eðli sínu tengd. þegar maður lætur af allri leit í tímanum sjálfum sér til handa getur maður verið í heiminum án þess að vera eign heimsins.

AC: Hvað áttu nákvæmlega við þegar þú segir að tilgangurinn með heiminum liggi handan hans

ET: Heimurinn lofar okkur uppfyllingu óska einhvern tímann í framtíðinni og síðan leita menn stöðugt að efndum þess loforðs í tímanum. það kemur fyrir að fólki finnst: „Já, nú hef ég loks fundið það sem ég leitaði,“ en fljótlega gerir það sér ljóst að það hefur ekki náð því og við leitnin heldur þá áfram. þetta er vel orða› í bókinni A Course in Miracles en þar segir að viðkvæði egósins sé: „Leitið en finnið ekki.“ Fólk horfir með eftirvæntingu til framtíðar í leit að hjálpræði - en framtíðin kemur aldrei.

þegar allt kemur til alls stafar þjáningin af því að við finnum ekki það sem við leitum. Og það er upphaf vöknunar - þegar við uppgötvum að þetta sé e.t.v. blindgata. það sé eins víst að ég komist aldrei þangað sem ég stefni og það sem ég leita bíði mín alls ekki í framtíðinni. Fyrst villumst við í heiminum en fyrir þrýsting frá þjáningunni vaknar skilningur á því að svaranna sé ekki að leita í veraldlegri velgengni í framtíðinni.

Þetta er mikilvægur áfangi fyrir marga, þessi djúpa sálarkreppa þegar heimurinn eins og þeir hafa skilið hann og sjálfskenndin sem fleir hafa alið með sér missa gildi sitt. þetta kom fyrir mig. Ég var í sjálfsmorðshugleiðingum, en þá gerðist eitthvað allt anna - dauði sjálfskenndar sem hafði lifað á samkenningu við sögu mína og hlutina umhverfis mig, heim minn. Eitthvað vaknaði á því augnabliki, djúp og orkuþrungin og lifandi kyrrð, veran. Síðar nefndi ég það „návist“. Ég skildi - sem þó var ekki vitsmunaleg niðurstaða - að þetta er það sem ég er, handan orðanna, þessi bráðlifandi, djúpa kyrrð.

Nokkrum árum síðar nefndi ég þetta „hreina vitund“ og allt annað „mótaða vitund“ (conditioned consciousness). Mannshugurinn er mótuð vitund í formi hugsana. Mótaða vitundin er allur heimur okkar og búinn til úr mótuðum hugsunum. Allt sem við upplifum er mótuð vitund, jafnvel hlutirnir. Mótuð vitund fæðir af sér formin sem síðan mynda heiminn. Svo er að sjá að mönnum sé það nauðsyn að villast í hinum mótaða heimi, það virtist vera hluti af þroskaleið þeirra, að villast í hugsuninni sem er mótuð vitund.

Vegna þjáningarinnar sem fylgir villunni kemst maður að því að hið ómótaða er maður sjálfur. þess vegna þörfnumst við heimsins til þess að komast handan við heiminn. þess vegna er ég óendanlega þakklátur fyrir að hafa villst.

Tilgangurinn með heiminum er að menn villist í honum og þjáist, að skapa þjáningu sem virðist nauðsynleg til þess að menn vakni. þegar menn loks vakna skilja þeir um leið að á því augnabliki er þjáningin ónauðsynleg. þeir hafa bundið enda á þjáninguna af því að þeir eru handan heimsins. þar er engin þjáning.

Þetta virðist vera leiðin sem liggur fyrir öllum að fara. Kannski ekki fyrir alla í þessu lífi, en þetta virðist vera allra leið. Ég trúi því að jafnvel án andlegrar leiðsagnar muni allir að lokum fara þessa leið. En það getur orðið bið á því.

AC: Löng bið.

ET: Mjög löng. Markmið andlegrar fræðslu er að spara tíma. Grunnboðskapur hennar er að maður þurfi ekki lengri tíma og þarfnist ekki meiri þjáningar. Ég segi við fólk sem kemur til mín: „þú ert tilbúinn að heyra þetta vegna þess að þú hlustar á það. Enn eru milljónir manna sem vilja ekki hlusta á þetta. þeir þurfa lengri tíma. En ég er ekki að tala við þá. það sem þú heyrir nú er að þú þarft ekki meiri tíma og þú þarfnast ekki meiri þjáningar. þú hefur leitað í tímanum og leitað frekari þjáningar.“ Og að heyra þetta, „þú þarfnast þess ekki framar“ - bara það er fyrir suma augnablik ummyndunar.

Hið fagra og góða við andlega fræðslu er að hún bjargar mönnum frá æviskeiðum ...

AC: Ónauðsynlegrar þjáningar.

ET: Já. þannig er það í sjálfu sér af hinu góða að fólk skuli villast í heiminum. Ég nýt þess að ferðast til New York og Los Angeles þar sem fólk virðist algerlega flækt í atburðarásina. Ég var staddur í New York rétt við Empire State bygginguna að vinna með hópi fólks og leit út um gluggann. Allir voru að flýta sér, næstum hlaupandi. Allir virtust haldnir taugaspennu og kvíða. þetta er í raun og veru þjáning þó að það sé ekki almennt viðurkennt sem slíkt. Og ég hugsaði með mér: „Hvert er allt þetta fólk að flýta sér?“ það er auðvitað að hlaupa inn í framtíðina. það er allt að reyna að ná einhverju sem er ekki hér. þetta snýst um punkt í tíma: ekki nú - heldur þá. Allir eru á hlaupum eftir þá. þeim líður illa án þess að gera sér grein fyrir því. En jafnvel að horfa á þetta fyllti mig gleði. Það hvarflaði ekki að mér að hugsa: „Ó, þau ættu að vita betur!“ þau eru á sinni andlegu þroskabraut. Nú sem stendur er þetta þeirra andlega leið og hún skilar fagurlega sínum árangri.

AC: Orðið upplýsing (enlightenment) er oft túlkað svo að það merki endalok tvískiptingar innan sjálfsins og um leið uppgötvun á sjónarmiði eða heildarsýn sem er laus við tvíhyggju. Sumir, sem reynt hafa, telja að hinn æðsti skilningur leiði í ljós að enginn munur sé á heimi og guði eða hinu algera, á samsara og nírvana, á hinu birta og hinu óbirta. En til eru aðrir sem halda því fram að samkvæmt æðsta skilningi sé heimurinn í rauninni alls ekki til - að heimurinn sé aðeins blekking, gersneydd merkingu, gildum eða veruleika. Hver er þín reynsla: er heimurinn raunverulegur, óraunverulegur eða hvort tveggja?

ET: Jafnvel þegar ég á í samskiptum við fólk eða geng eftir götu í borginni eða fæst við hversdagslega hluti, skynja ég heiminn sem gárur á yfirborði verunnar. Undir yfirborði skynjana og hugarstarfs eru þessar reginvíðáttur verunnar. það er óravítt rými. það er órofa kyrrð og á yfirborðinu hrærast litlar gárur sem eru þó ekki aðskildar frá kyrrðinni fremur en öldurnar frá hafinu.

Samkvæmt minni skynjun er því ekki um neina aðgreiningu að ræða. það eru engin skil á milli verunnar og hins birta heims. En hið óbirta er svo miklu stærra, dýpra og meira en það sem gerist í birta heiminum. Sérhvert fyrirbæri í birta heiminum er skammætt og hverfult. það má næstum því orða það svo að frá sjónarmiði verunnar, sem er tímalaus veruleiki eða návist, sé allt sem gerist á ytra sviðinu líkast skuggaleik. það líkist gufu eða þoku þar sem sífellt ný form birtast og hverfa, birtast og hverfa. Sá sem stendur djúpum rótum í hinu óbirta gæti því kallað hið birta óraunverulegt. Ég kalla það ekki óraunverulegt vegna þess að ég sé það ekki sem aðgreint frá neinu öðru.

AC: Það er þá raunverulegt?

ET: Eina sem er raunverulegt er sjálf veran. Vitund er það eina sem er, hrein vitund.

AC: Ertu að segja að skilgreiningin á „raunveruleika“ sé það sem er óháð fæðingu og dauða?

ET: Það er rétt.

AC: Samkvæmt því væri það eitt raunverulegt sem aldrei fæðist og ekki getur dáið. Og þar sem birti heimurinn er endanlega óaðskilinn frá óbirta heiminum, samkvæmt því sem þú segir, hlýtur maður að álíta að hann sé raunverulegur

ET: Já, og hið ódauðlega býr jafnvel í sérhverju formi sem er háð fæðingu og dauða. Kjarni sérhvers forms er ódauðlegur. Jafnvel í grasstrái er innsti kjarninn ódauðlegur. þess vegna er veröld formanna heilög. Svið hins heilaga er ekki eingöngu veran eða hið óbirta. Í mínum augum er veröld formanna einnig heilög.

AC: Segjum sem svo að einhver spyrji þig rétt sem svona: „Er heimurinn raunverulegur eða óraunverulegur?“ Myndir þú segja að hann sé raunverulegur eða myndir þú skilyrða svarið?

ET: Ég myndi líklega skilyrða svarið.

AC: Og segja hvað?

ET: Hann er tímabundin birting veruleikans.

AC: Ef heimurinn er tímabundin birting veruleikans, hvernig eru þá hin upplýstu (enlightened) tengsl við heiminn?

ET: Í augum hins óupplýsta er heimurinn hið eina sem er. Ekkert annað er til. þessi tímabundna vitundargerð heldur sér dau›ahaldi í fortíðina og skynjar sig sem afsprengi hennar. Hún þarfnast heimsins, þar leitar hún hamingju og uppfyllingar óska. Heimurinn getur því mikil fyrirheit en er um leið stórkostleg ógnun. Í því felast ógöngur hinnar óupplýstu vitundar. Hún er sundruð eða klofin af tveimur andstæðum öflum, væntingum sem hún gerir sér um heiminn og ógninni sem henni stafar af honum. Manneskjan vonar að hún finni sjálfa sig í heiminum en um leið óttast hún að hann tortími sér, sem hann og gerir. þetta ástand eilífrar togstreitu er hlutskipti hinnar óupplýstu vitundar þar sem löngun og ótti togast á í sífellu. þetta er skelfilegt ástand.

Hin upplýsta vitund á sér rætur í hinu óbirta og er endanlega eitt með því. Hún veit sig vera það. Það má næstum orða það svo að hún sé hið óbirta sem horfir út. Jafnvel einfaldur hlutur eins og að skynja form, t.d. blóm eða tré: Ef maður skynjar það glaðvakandi og í djúpri kyrrð, óháð fortíð og framtíð, Þá er það á því augnabliki hið óbirta. Á því augnabliki ert þú ekki lengur ákveðin persóna. Hið óbirta skynjar sjálft sig sem form. Og í þeirri skynjun er ævinlega tilfinning fyrir hinu góða og fagra.

Öll athöfn sprettur síðan frá þessu og er gjörólíkrar gerðar en athafnir frá óupplýstri vitund sem þarfnast alltaf einhvers og leitar verndar fyrir sjálfa sig. Þarna er raunverulega upphaf þessara óáþreifanlegu en dýrmætu eiginleika sem við nefnum ást, gleði og frið. Þeir eru allir eitt með hinu óbirta. þar er uppspretta þeirra. Manneskja sem lifir í þessu sambandi og starfar síðan og á í samskiptum við aðra er blessunarríkt afl fyrir plánetuna, en hinn óupplýsti veldur þar þyngslum. Plánetan þjáist vegna milljóna af óupplýstu fólki. Byrðin sem plánetan þarf að þola er næstum því of mikil. Mér finnst stundum eins og plánetan segi: „Ó, nei, ekki meira.“

AC: Þú hvetur fólk til að hugleiða eða eins og þú lýsir því: „dvelja í núinu“ („rest in the Presence of the Now“) eftir því sem við verður komið. Hefur þú trú á að andleg iðkun geti nokkurn tíma orðið verulega djúpstæð og leitt til lausnar, ef menn hafa ekki þegar a.m.k. að einhverju leyti hafnað heiminum og því sem hann táknar?

ET: Varla er hægt að halda því fram að iðkunin sjálf frelsi. Lausn er aðeins möguleg þegar maður gefur sig algerlega á vald því sem er hér og nú. Ég hef ekki trú á því að iðkunin færi manni fullkomna uppgjöf. Alger uppgjöf gerist venjulega í lífinu sjálfu. Líf þitt er vettvangurinn þar sem þetta gerist. það kann að verða uppgjöf að hluta til og opnun og síðan stundi maður einhverja andlega iðkun. En hvort sem iðkunin er tekin upp þegar ákveðnu innsæi er náð eða hún stundu› hennar sjálfrar vegna, getur hún ekki ein og sér framkallað þetta.

AC: Ég hef orðið þess var í mínu eigin fræðslustarfi að andleg reynsla, hversu öflug sem hún kann að vera, leiðir ekki til neinnar lausnar nema menn hafi áður séð í gegnum blekkingu heimsins að vissu marki og séu þar af leiðandi reiðubúnir að sleppa honum.

ET: Það er rétt og viljinn til að sleppa er uppgjöf. það er lykillinn. Án hans gerist ekki neitt og þá breytir engu hversu mikla iðkun menn ástunda eða jafnvel hversu mikla andlega reynslu þeir hafa upplifað.

AC: Já, margir segjast vilja hugleiða eða stunda aðra andlega iðju án þess að leit þeirra fylgi vilji til að sleppa neinu áþreifanlegu.

ET: Nei, hún getur einmitt einkennst af hinu gagnstæða, að hún sé leit að einhverju nýju til að samkenna sig við.

AC: Segir þú að sönn andleg iðkun eða reynsla eigi að leiða til þess að menn hafni heiminum, losi um fjötra sem binda þá heiminum?

ET: Já. Fólk spyr stundum: „Hvernig nær maður þessu? Þetta virðist svo dásamlegt, en hvernig kemst maður á þetta stig?“ Með mjög einföldum orðum má segja að í grundvallaratriðum sé þetta fólgið í því að segja „já“ við þessu augnabliki núna. það er ástand uppgjafar - undanbragðalaust „já“ við því sem er. Og þetta algera „já“ er sama og að komast handan við. Þetta er nú ekki flóknara en þetta - alger opnun gagnvart öllu sem gerist á þessu augnabliki. Hin venjulegu viðbrögð vitundarinnar eru mótþrói, að hlaupast burt frá því sem er, að neita að horfast í augu við það.

AC: Þegar þú talar um að segja já við því sem er, áttu þá við að maður forðist ekki neitt og mæti öllu augliti til auglitis?

ET: Já, það er rétt. það er að fagna þessu augnabliki, umfaðma þetta augnablik og það er raunveruleg uppgjöf. þetta er í raun og veru það eina sem krafist er. Eini munurinn á meistara og ekki meistara er að meistarinn umfaðmar fullkomlega allt sem er. þegar horfinn er allur mótflrói gegn því sem er kemst á friður. Hliðið stendur opið, hið óbirta er hér og nú. þetta er kröftugasta leiðin. Við getum ekki nefnt hana iðkun vegna þess að hún er utan tímans.

AC: Nú á dögum á sér stað andleg bylting þar sem mætast áhrif frá austri og vestri. Flestir þátttakendur í þeirri byltingu líta á Gátama Búddha og Ramana Maharshi, einhvern virtasta vedantista okkar tíma, sem óviðjafanleg dæmi um fullkomna hugljómun. En fyrir andlegan leitanda hlýtur það að teljast athyglisvert hve kenningar þeirra um rétta afstöðu til heimsins eru ólíkar. Búddha hafnaði heiminum og hvatti einlæga leitendur til að yfirgefa heiminn og fylgja sér, lifa heilögu lífi, lausir við áhyggjur af heimilishaldi. En Ramana Maharshi réð nemendum sínum frá því að yfirgefa heimilislífið í leit sinni að skýrari og öflugri andlegri sýn. Í rauninni réð hann mönnum frá því að sýna nokkur merki höfnunar en hvatti þá þess í stað leitandann til að horfa inn á við og uppgötva orsakir fávísi og þjáningar í sjálfinu. Margir fylgjenda hans nú á dögum halda því meira að segja fram að löngunin til að hafna sé í rauninni verk egósins, einmitt þess hluta sjálfsins sem þeir þurfa að losna við ef fleir ætla að öðlast frelsi. En Búddha lagði auðvitað mikla áherslu á höfnun, óhæði, iðni og stillingu sem grunninn sem leiðir af sér frelsandi innsæi.

Spurningin er því þessi: Hvers vegna álítur þú að þessi tveir andlegu ljósberar hafi nálgast viðfangsefnið á svo ólíkan hátt?

ET: Engin ein leið er lausnin. Á ólíkum tímum nálgast menn viðfangsefnið á ólíka vegu, það sem gildir á einum tíma kann að vera áhrifalítið á öðrum. Heimurinn í dag er miklu þéttari í sér, meira allt um lykjandi. Orðið „heimur“, sem ég nota, felur í sér mannshugann sem hefur verið að vaxa og þroskast allt frá dögum Búddha fyrir 2500 árum. Mannshugurinn er í dag hávaðasamari en áður, hann er alls staðar nálægur og egóin eru stærri. Egóið hefur verið að stækka í þúsundir ára og nú er vöxtur þess kominn að mörkum geðveikinnar, hámarkinu var náð á 20. öldinni. það nægir að lesa sögu 20. aldar til að sjá að þá náði geðveiki mannkyns hámarki - ef mælikvarðinn á hana er ofbeldið sem menn beita meðbræður sína.

Nú á dögum geta menn ekki lengur sloppið undan heiminum, við getum ekki sloppið undan áhrifum hugans. Við þurfum að upplifa uppgjafarástand á meðan við erum í heiminum. það virðist vera áhrifamesta leiðin í heiminum eins og hann er í dag. Hugsanlega hefur verið miklu auðveldara að draga sig út úr heiminum á dögum Búddha. Mannshugurinn var þá ekki orðinn eins yfirþyrmandi og nú á dögum.AC: En ástæða þess að Búddha hvatti leitendur til að sniðganga heimilislíf var sú að hann vissi að því fylgja vandamál, áhyggjur og ótti og í því sambandi yrði erfitt að sinna skyldum heilags lífs. þegar litið er til þess sem þú segir um hávaða, ónæði og truflun í heiminum er það í rauninni nákvæmlega það sem Búddha var að tala um og var ástæða þess að hann valdi líf án heimilis og hvatti aðra leitendur til að gera það sama.

ET: Já, hann nefndi sínar ástæður, en við vitum samt ekki endanlega hvers vegna Búddha lagði áherslu á að menn höfnuðu heiminum í stað þess að segja eins og Ramana Maharshi: „Gerðu þetta í heiminum.“ En mér virðist samkvæmt athugunum mínum að í dag sé það áhrifameiri leið að gefast upp (surrender) í heiminum í stað þess að reyna að yfirgefa hann og mynda að stæður sem auðvelda leitandanum að gefast upp. þarna er strax á ferðinni mótsögn: að skapa sér aðstæður sem gera uppgjöf auðveldari. Hvers vegna ekki að gefast upp núna? Ef maður býr sér aðstæður til að auðvelda uppgjöf er það ekki lengur sönn uppgjöf. Ég hef dvalist í Búddhaklaustrum og séð hve auðveldlega menn falla í þessa gildru - þeir afsala sér nafni sínu og taka upp nýtt nafn, þeir raka höfuð sín og klæðast kuflum ...

AC: Þú átt við að menn hafni einum heimi og halli sér að öðrum. Menn hafna einni samkenningu en taka upp nýja í staðinn, eitt hlutverk tekur við af öðru. Í rauninni hefur engu verið hafna.

ET: Það er rétt. þess vegna: Gerðu þetta eins og þar sem þú ert hér og nú. það er engin þörf að leita uppi einhvern annan stað, annað ástand eða aðrar aðstæður. þar sem þú ert er rétti staðurinn fyrir uppgjöf. Alveg án tillits til þess í hvaða ástandi þú ert getur þú sagt „já“ við því sem er, og það er síðan grunnur allra athafna.

AC: Nú á dögum halda margir fræðarar því fram að löngunin til að afsala sér komi frá egóinu. Hvað segir þú um það?

ET: Löngunin til að hafna heiminum er einnig þörf fyrir ákveðið ástand sem maður telur sig skorta. Hugurinn varpar frá sér ímynd um eftirsóknarvert ástand - ástand höfnunar. Sjálfið vill efla sig í framtíðinni. þannig skilið er þetta ein birting egósins. Raunverulegt afsal einkennist ekki af löngun til að hafna, það birtist sem uppgjöf. Maður getur í rauninni ekki haft löngun til að gefast upp vegna þess að löngunin er afneitun uppgjafar. Uppgjöfin verður skyndilega, stundum hjá fólki sem hefur ekki einu sinni orð til að túlka þetta. Og ég veit að opnun á sér stað hjá mörgum nú á dögum. Margir sem til mín koma eru mjög opnir. Stundum nægja örfá orð til að kveikja skilningsneista, fólkið hefur fundið bragð uppgjafar. það endist e.t.v. ekki lengi, en opnunin er fyrir hendi.

AC: Hvað segir þú um sjálfvakin boð frá hjartanu um að hafna öllu sem er falskt og blekkjandi, öllu sem byggt er á efnishyggjuviðhorfi til lífsins. Sem dæmi má nefna þegar Búddha ákvað að yfirgefa heimili sitt - ef við lítum á árangurinn, gefum við tæpast sagt að eigingjarnar hvatir hafi legið að baki þeirri ákvörðun. Og Jesús sagði: „Fylg þú mér en látið hina dauðu jarða hina dauðu.“

ET: Þetta er að skynja falsið í hinu ósanna, sem gerist aðallega hið innra, að gera sér grein fyrir hvernig menn samkenna sig blekkingum. Menn taka eftir hinum hávaðasama huga og ósannri samkenningu við ímyndir. þessi kennsl eru fögur reynsla. Og frá þeim kann að spretta athöfn, þú sérð hvernig blekkingin hefur stjórnað lífi þínu og aðstæðum og þú kannt þá að hafna þeim - eða láta það ógert. En kennsl og afsal á falsi og blekkingum gerist fyrst og fremst hið innra í vitundinni.

AC: Þessi tvö dæmi um Búddha og Jesú sýna þá öflug viðbrögð við þessum innri skilningi.

ET: Rétt er það. Enginn getur sagt fyrir um hvað þessi innri kennsl geta haft í för með sér. Í tilviki Búddha er ástæða umskiptanna að sjálfsögðu sú að hann er orðinn fullorðinn þegar hann gerir sér ljóst að fólk deyr, verður veikt og eldist. Og reynslan var svo öflug að hún knúði hann til að horfa inn á við og hann hugsaði með sér að ef þetta væri allt og sumt sem lífið snerist um væri það merkingarlaust.

AC: Hann var þá tilneyddur að fara og afsala sér konungdómi. Hann hefði getað sagt: „þetta er allt hér og nú, ég þarf aðeins að gefast upp fyrir því sem er.“ Ég býst við að þá hefði útkoman orðið nokkuð önnur: upplýstur konungur!

ET: En á því augnabliki gat hann ekki vitað að uppgjöfin ein var nægileg.

AC: Þegar Jesús bauð fiskimönnunum að fylgja sér og yfirgefa allt annað og Búddha fór um borgir og benti mönnum á að segja skilið við fyrra líf, sýndu þeir uppgjöf sína á áþreifanlegan hátt, þeir sögðu „já“ við Jesú og Búddha og afsöluðu sér eignum og öllu sem tengdi þá fyrra lífi. Og að sjálfsögðu þurftu fleir samtímis að rjúfa innri fjötra. þegar þeir slepptu þeim var það ekki aðeins myndlíking innri umskipta, heldur þýddi það bókstaflegt afsal.

ET: Hjá sumum er þetta partur af ferlinu. þeir segja skilið við venjubundið starf og lífshætti, en meginatriðið er hvort þeir hafa komið auga á blekkinguna hið innra. Ef svo er ekki, er ytra afsal aðeins dulbúin síngirni.

AC: Síðasta spurning mín fjallar um hvernig skilningur þinn á upplýsingu eða upplifun óskiptrar (nondual) vitundar tengist þátttöku í heiminum.

Í gyðingdómi er litið á fulla flátttöku í heimi og mannlífi sem fullnustu hinnar trúarlegu köllunar. ...

Kenningar eins og þínar um óskipta vitund leggja áherslu á upplýsingu einstaklingsins. Að komast handan við heiminn virðist vissulega vera aðalatriðið. En bræður okkar í gyðingdómi virðast hvetja til einhvers annars: að gera heiminn andlegan (spiritualize ...) með undanbragðalausri þátttöku í honum. Spurningin er því: Getur verið að kenningar um óskipta vitund komi í veg fyrir að við störfum í heiminum af heilum hug

ET: Nei, vegna þess að rétt athöfn sprettur aðeins frá ástandi þar sem vitundin er handan við heiminn. Öll önnur athöfn sprettur frá egóinu og jafnvel góðverkum fylgir karma ef hvatinn til þeirra á sér rætur í egóinu. „Sprottinn frá egói“ merkir að um er að ræða dulda tilætlun (motive). Það eflir t.d. sjálfsímynd þína ef þú verður andlegri manneskja í sjálfs þín augum og það líkar þér vel. Annað dæmi gæti verið von um umbun í öðru lífi eða á himnum. þess vegna er athöfnin ekki hrein ef á bak við hana er dulin tilætlun. Ef ekki er um að ræða vitund sem er „handan við“ lýsa athafnir ekki streymi hreins kærleika, þær eru ekki tengdar sviðinu sem er uppspretta kærleikan

AC: Þú átt við hreina athöfn sem er ólituð af egóinu?

ET: Já. Fyrst kemur uppgötvun og lausn og það er síðan uppspretta hreinna og ólitaðra athafna sem eru án nokkurs karma. Annars styrkjum við egóið með góðum verkum okkar og þá gildir einu hve háleitar hugsjónirnar eru. því miður er það svo að menn geta ekki uppfyllt „boðorðin“ nema þeir séu ególausir og slíkir menn eru mjög fáir, eins og þeir hafa sannfærst um sem reynt hafa að lifa eftir kenningum Krists. Ein meginkenning hans var: „þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Og þú getur ekki framfylgt því boðorði, hversu mjög sem þú reynir, ef þú veist ekki hver þú ert á hinu dýpsta sviði. Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig merkir að þú sjálfur ert hann og að skynja þá einingu er kærleikur.

Sv. B. þýddi úr „What is Enlightenment?“