Dharma

Af þeim sanskrítarorðum sem tekin hafa verið upp í hina andlegu hugmyndafræði er Dharma e.t.v. hið torskildasta eða tvíræðasta í hugum vestrænna andlegra nema. Dharma hefur stundum verið þýtt með lögmál, skylda, lífsstefna o.s.frv.

Ég ætla mér ekki hér að segja ykkur hér hver hin raunverulega merking orðsins er, það veit ég einfaldlega ekki, en mig langar til að íhuga með ykkur a.m.k. eina merkingu þess, þá sem hefur gefið mér mesta innsýn í andlegt líf og um leið verið mér eitt hagnýtasta íhugunarefni í hugræktarviðleitninni.

Það liggur beint við að tengja Dharma við annað mun frægara sanskrítarorð, nefnilega Karma. Þau eru nátengd, en eru þó ólíks eðlis og gegna mismunandi hlutverkum. Karma er lögmál, ópersónulegt, algilt, óbreytanlegt og alheimslegt. Það er alltaf í gildi og allsstaðar eins. Dharma er ekki lögmál, það er einstaklingsbundið og síbreytilegt, þ.e. hver einstaklingur, hópur einstaklinga, tegund eða heild á sér sitt sérstaka eða einstaka Dharma, sem tekur sífellt breytingum eftir athöfnum, viðhorfum og jafnvel ytri aðstæðum. Á vissan hatt má segja að Dharma sé sambandið milli svokallaðs áunnins Karma og hinnar alheimslegu reglu eða samræmis tilverunnar.

Mitt prívat Dharma er þannig mín prívat og jafnframt "eðlilega" leið til alheimslegs samræmis og þannig mín "skylda" gagnvart tilverunni eða Guði. Og það ber enginn sömu skyldu og ég. Allir hafa sitt eigið Dharma og það er í raun engin leið að bera saman Dharma mismunandi einstaklinga. Þannig getur það að vera "róni" verið það næsta sem hann kemst því að uppfylla sitt einstaklingsbundna Dharma. Sem róni hefur hann hlutverk eða dharma, sem hann rækir vel eða illa eftir atvikum.

Það er hinsvegar varla hægt að ætlast til af nokkrum breiskum manni að hann geti allar stundir og án undantekningar uppfyllt sitt Dharma til hlýtar. Það er aðeins á færi fullnumans eða Arhatsins, sem lifir samræmi tilverunnar andartak fram af andartaki og skapar því ekki lengur Karma.

Hvernig get ég vitað hvert mitt dharma er?

Dharma er mitt eðlilega lífsflæði. Það er hin eðlilega leið á hverju andartaki lífsins og að vissu marki má líta á það sem hluta af mínum örlagaþræði. Dharma setur lífinu ekki skorður, það er aðeins vísbending um leiðina til baka, leiðina heim.

Við skulum líta aðeins á hinn frjálsa vilja mannsins, það að geta valið. Hinn frjálsi vilji merkir ekki að við getum valið hvað sem er. Við erum ekki almáttug, en við höfum samt býsna mikið frelsi til að móta líf okkar og tilveruna í kringum okkur. Segja má að flestir valmöguleikar okkar séu út úr samræmi við tilveruna, þ.e. séu ekki sakvæmt Dharma andartaksins. Við megum þó ekki halda að Dharma gefi bara einn réttan möguleika í hverri aðstöðu. Það eru enn óteljandi möguleikar eftir í spilinu þótt við kjósum að gera rétt.

Dharma fjallar ekki um að setjast niður og finna hina réttu leið í eitt skipti fyrir öll og lífa síðan í samræmi við þá hugmynd það sem eftir er. Til að nálgast Dharma verðum við að nálgast sjálft lífið andartak fram af andartaki og aðlaga líf okkar á hverju andartaki þeim aðstæðum sem þá ríkja. Dharma fjallar um það að læra af andartakinu, að vera næmur fyrir áhrifum athafnanna og leiðrétta án tafar það sem ekki reynist vera í samræmi. Það er einfaldlega ekki hægt að nálgast Dharma með hugsun, því þegar hugsunin er mótuð er Dharma orðið eitthvað allt annað en hugmyndin sem mótuð var um það.

Allar andlegar leiðbeiningar fjalla í raun um það hvernig við getum nálgast Dharma. Hugleiðingin er hin beina leið til að upplifa það hvernig við erum og hvert við stefnum. Hún er hluti þess að skynja Dharma. En skynjun er ekki næg nema til komi samræmd athöfn. Það er einungis í sjálfu lífinu sem við komumst í raunverulega snertingu við Dharma.

Við megum ekki ímynda okkur að það þurfi innri átök til að uppfylla Dharma. Allar athafnir sem krefjast áreynslu, afneitunar, sjálfsstjórnar eða innri baráttu eru örugglega í andstöðu við Dharma. Dharma er leið samræmis og getur því ekki verið fólgin í neinskonar misræmi, hvorki hið ytra né hið innra. Leitin að dharma er leitin að innra samræmi, sem síðan leiðir óhjákvæmilega til ytra samræmis. Þegar þú finnur þitt Dharma "veistu" að þú ert að gera rétt. Og farið nú ekki að halda að ég sé að tala um eitthvað merkilegt sem aðeins á við um fáa menn eða kemur aðeins sjaldan fyrir. Við eigum öll okkar stundir þegar við erum í sátt við tilveruna og gerum góðverk með því einu að vera til. Við eigum öll stundir þegar allt er í stakasta lagi, svo fullkomið að við tökum hreinlega ekki eftir því. Gefið gaum að þessum stundum því þá eruð þið næst ykkar Dharma. Þetta þýðir ekki að Dharma þurfi alltaf að fylgja einhver lognmolla í lífinu. Kúnstin er einmitt fólgin í að færa samræmi inn í allar aðstæður lífsins, nokkuð sem fólgið er í orðum Leiðarljóss: "Stand afsíðis í orustunni, sem í vændum er, og vertu ekki bardagamaðurinn þótt þú berjist". Það er einmitt um þetta að ræða að vera ekki alltaf að gera eitthvað heldur að vera það sem tilveran gerir hlutina með. Þetta er fjarvist sjálfsins, en um leið sameiningin við guðdóminn, sameiningin við eigið Dharma.

Hvernig eigum við svo að fara að því að nálgast okkar Dharma og lifa upp til þess í hinu daglega lífi? Hvaða kröfur gerir Dharma til okkar?

Við skulum fyrst athuga hvernig Karma virkar í lífi okkar. Orðið Karma merkir tvennt - í fyrsta lagi lögmál orsaka og afleiðinga, það hvernig afleiðingarnar tengjast orsökunum - í öðru lagi er Karma notað yfir karmaskuldir okkar, þ.e.a.s. þær orsakir sem ekki hafa ennþá öðlast afleiðingar. Lögmálið segir svo að allt sem fyrir okkur kemur, andartak fram af andartaki, hverja einustu sekúndu lífs okkar frá vöggu til grafar - séu karmaskuldir í uppfyllingu. Það sem kemur fyrir okkur á þessu andartaki er afleiðing fyrri athafnar eða samspils athafna og sú einstaka afleiðing eða karmaskuld er þarmeð uppfyllt og kemur aldrei aftur. Það mekir ekki að það komi ekki önnur eins eða samsvarandi. Það fer eftir því hvernig við bregðumst við því sem kemur til okkar, eða öllu heldur, hvort við bregðumst við yfir leitt. Við skulum taka mjög einfaldað dæmi. Segjum að ég sé sleginn utanundir, þ.e. löðrungaður af einhverjum. Samkvæmt lögmálinu á ég það skilið vegna þess að ég hef einhverntíma sjálfur gefið viðkomandi á hann. Við erum því kvittir ef... - ef ég bregst ekki við löðrungnum. Ef ég hinsvegar slæ viðkomandi strax aftur á móti, geld líkt með líku, hef ég aftur komið á misræmi, sem vinna verður upp síðar.Í flestum tilfellum er þetta ekki alveg svona einfallt. Karma vinnur nefnilega fyrst og fremst í gegnum tilfinningarnar, því það er í dulvitundinni sem við geymum karmaskuldirnar. Það fer því e.t.v. fyrst og fremst eftir því hvernig eða hvort við bregðumst við tilfinningalega, hvort við skiljum eftir okkur slóð karma eða hvort við göngum um heiminn án spora. Það eru sjaldnast ytri athafnir sem segja til um hvort við gerum rétt, heldur innri afstaða, innri tilfinning eða innri skilningur. Sá sem starfar af fullkomnum skilningi og kærleika gerir aldrei illt, hverjar sem athafnir hans kunna að vera! Í þessu er fólginn leyndardómur þess að vera réttlátur. Líttu á afstöður þínar fremur en verk þín, þegar þú reynir að meta hvort þú ert að gera rétt og farða afar varlega í að dæma athafnir annarra því þær segja ekki alltaf sannleikann um innrætið. Hér erum við farin að nálgast Dharma, en það er þó meira en bara það að gera rétt. Dharma felur nefnilega í sér tilganginn með lífi þínu. Ekki þinn persónulega tilgang, ekki þinn tilgang, heldur miklu æðri og meiri tilgang - tilgang tilverunnar með lífi þínu! Og til að finna út hvert þitt Dharma er þarftu fyrst að finna hver tilgangur tilverunnar í heild er og síðan hvert þitt sérstaka hlutverk er, ekki var, ekki verður í framtíðinni, heldur er núna. Þú skalt ekki leita langt frá þér, hjá vitringum eða í bókum, því þitt Dharma er hvergi að finna nema í þér.

Leyfið mér að leggja á borðið auðskilið dæmi um Dharma. Þegar egg frjófgast hefst ferli sem nefnt er frumuskipting. Það fara að myndast frumur í milljónatali og til að byrja með virðast þær allar vera eins. fljótlega kemur þó að því að þær fara að greinast í hópa, sem síðar verða að limum og líffærum verðandi fósturs. Þótt allar frumur virðist eins í upphafi er eins og stasetningin í líkamanum gefi þeim mismunandi hlutverk eða Dharma. Í heilbrigðum og eðlilegum líkama vinna þessir milljarðar fruma eins og ein órofa heild. Þær sinna allar með tölu skyldum sínum á einhvern undursamlegan hátt. Og yoginn segir að þær mundu gera það miklu lengur en raun ber vitni ef ekki kæmi til tilfinningar og hugsanir íbúandans, þín og mín. Og hvað gerist ef einhver fruman slítur sig út úr hópnum og fer að lifa sínu eigin lífi, taka sitt líf í sínar hendur? Eitt sem við vitum að getur gerst er nefnt krabbamein, stjórnlaus frumuskipting án tillits til umhverfisins.

Þetta gefur okkur e.t.v. eilitla en þó raunhæfa mynd af því hvers eðlis Dharma er. Það segir okkur að þitt Dharma, mitt Dharma og Dharma allra annarra eru samtengd í eina heild og að mínar athafnir, mínar afstöður koma öllum heiminum við. Við erum öll ein órofa heild, frumur í einu stóru lífsblómi. Lifum við í dag samkvæmt samkvæmt því? Hvað ætli séu margar "heilbrigðar" frumur í mannkynslíkamanum?

En það sýnir okkur líka hver leyndardómur rétts lífernis er. Lykilorðið er auðsjáanlega eining, sem í okkar lífi merkir það sama og bræðralag. Alger fjarvist eigingirni, að lifa fyrir og í samræmi við heildina, að rækja sitt hlutverk í stað þess að vera alltaf að skipta sér af hlutverki náungans, en fyrst og fremst að skilja og þykja vænt um tilveruna eins og hún er og vita sinn stað í alheiminum. Þetta er leiðin til Dharmans, leiðin til fullkomnunarinnar.

Erindi á sumarskóla Guðspekifélagsins 1996.

Einar Aðalsteinsson

© Guðspekifélagið