Dagvitund

Fyrsta stigi vitundarþroska má líkja við ferð eftir hringferli. Annað stigið er ferð inn að miðju hringsins.

Allir punktar á hringferlinum eru jafn langt frá miðjunni. Frá miðjunni séð kann sérhver atburður á hringferlinum að skynjast á ummyndaðan hátt. Það er reynsla mín að margir, sem hafa til dæmis orðið fyrir áhrifum af ritum Krishnamurtis, hafa veitt því athygli hvernig við erum á valdi hins þekkta (þess umhverfis/heims sem við þekkjum; þýð.) Þetta getur ruglað menn í ríminu. Þetta má kannski orða svo að það líkist því að hafa annan fótinn í miðjunni en hinn á hringferlinum. Að nokkru leyti eru menn rólegir í núinu, en að hluta til eltast þeir við skugga á hringferlinum. Hvað er til ráða? Hvernig getum við orðið kyrra augað í hringiðu heimsins?

Ef vandamálið er skoðað frá trúarlegum forsendum kunna trúarlegar lausnir að hæfa. Trúarleg tilfinning fyrir návist guðs gæti veitt svar. En hvað er til ráða ef menn geta ekki litið á vandamálið frá þessu sjónarmiði? Trúarlega lausnin byggist á óbeinu táknsæi en freistandi er að ímynda sér að það hljóti að vera til bein lausn á vandanum. En það er einfaldlega útilokað. Ekki er til neitt tungumál eða hugtakakerfi sem getur fjallað um veruleikann eins og hann er. Og ekki er heldur til neitt hlutlægt táknmál eða ytri hugtakaaðferð eða verkfæri sem getur ummyndað sjálf okkur.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta með samlíkingu sem Ramana Maharshi notaði. Hugtök sem eru notuð til þess að brjótast í gegnum margræð form eins og „ég“ eða „sjálf“ líkjast stöfum sem notaðir eru við bálfarir á Indlandi. Menn sem sjá um líkbrennslu nota stafi til þess að skara í bálkestinum og sjá þannig um að allt brenni. Þessum stöfum eða spýtum er síðan einnig fleygt á eldinn. Varla eru nokkur hugtök óbrennanlegri en þau trúarlegu. En á eldinn fara þau samt ásamt stóru stöfunum heimspekinga og félagsfræðinga. Ef veruleiki guðs er handan við allar hugmyndir um guð þá hlýtur slíkt hið sama að gilda um veruleika sem trúlaus hugtök fjalla um.

Áhorfandi og umhverfi.

Athugum nú aftur vanda þeirra sem álíta sig vera á valdi hins þekkta. Engin hugsunaraðferð virðist tiltæk sem nota má til þess að brjótast út úr prísundinni. Okkur kann að finnast að með venjulegum trúarhugmyndum fjarlægjumst við veruleikann. En jafnvel nýjustu hugmyndir, vísindalegar og hlutlausar segja okkur ekki neitt um hvað og hvernig heimurinn er þegar öllum hugmyndum um hann er sleppt. Þó að okkur sé ljóst að hugmyndum verður ekki útrýmt með öðrum hugmyndum viljum við samt spyrja hinnar „ómögulegu“ spurningar sem Krishnamurti lagði fyrir okkur: Hvernig getur hugurinn sig undan hinu þekkta? Er eitthvað sem ég get gert? Get „ég“ með ummyndað „mig“ sem er í dásvefni? Við getum reynt, en öll viðleitni virðist enda með vonbrigðum, eða svo notuð sé líking R. H. Blyth: Rétt áður en við hittum fluguna með flugnaspaðanum flýgur hún upp og sest á spaðann. Ram Dass kemst að þessari niðurstöðu:

„Fyrr eða síðar verður okkur ljóst að ekkert í hugsuninni nær þessu. Ekkert í reynslunni felur í sér lausnina. Hugur minn fæst við hluti og ég og hluturinn eru alltaf aðskildir. Það liggur alltaf eins og örþunn hula á milli mín og hlutarins sem ég hugsa um. Þegar ég skynja eitthvað eða verð fyrir reynslu eru alltaf þessi skil á milli reynslunnar og mín sem fyrir reynslunni verður eins og örstutt tímabil eða þunn slæða. En hversu þunn hún er skiptir ekki máli vegna þess að hún virðist óvinnandi eins og stál. Hún aðgreinir þig ævinlega frá því sem er að gerast.“ (Úr „Grist for the Mill“).

Áhorfandinn hlýtur alltaf að vera annað en það sem horft er á og þess vegna verður það alltaf lygi eða blekking sem við hugsum um sjálf okkur, „ég“ verð aðeins hugmynd (hér er að sjálfsögðu talað um hugann í venjulegu ástandi. Í hugkyrrð getur súbjekt og objekt eins og runnið saman í eitt; þýð.). Tilraunir til að fullkomna sjálfan sig sýna einmitt þessa blekkingu. Þráin eftir hugljómun er löngun sem kemur frá hinu blekkta sjálfi. En hún kennir okkur samt ýmislegt. Í einum fyrirlestra sinna ræðir Alan Watts um hvað gerist þegar vatni er hellt niður. Ef það lendir í halla rennur vatnið niður í móti og skilur eftir sig bleytutauma. Hugsum okkur að vatnið gæti talað! Myndi það kvarta sáran þegar það rennur niður í móti: „Æ, ég hef brugðist!“ A. Watts bætir við að slíkt vatn hlyti að teljast taugaveiklað! Jörðin er einfaldlega að segja vatninu hvernig hlutirnir eru. Og vatnið bregst eðlilega við. Á sama hátt kennir tilraunin að gera hið ómögulega okkur einn hlut: Ummyndunin getur ekki orðið á þennan hátt. Hver er þá rétta leiðin?

Hugleiðing.

Svarið gæti verið: að horfa. Einfaldlega að fylgjast með því sem fram fer án þess að reyna að flokka eða dæma. Mörgum kann að finnast þetta óviðráðanleg krafa. Við erum forfallin í hugsunum og túlkum beina reynslu sífellt með táknum. Hins vegar er mögulegt að hlusta á sínar eigin hugsanir eins og við myndum hlusta á umferðarhávaða, það er sem einskæran hávaða. Í þessu ástandi fylgjumst við með „innri“ hugsunum okkar á sama hátt og við myndum venjulega fylgjast með „ytri“ heimi, það er við lítum á „innri“ tilfinningar og hugsanir sem „ytri“ atburði. Hefðbundna orðið um þetta ástand er að sjálfsögðu hugleiðing. En þá má ekki líta á það sem leikni til þess að ná ákveðnum árangri. Eins og sumir lesendur munu kannast við hafnar J. Krishnamurti hugleiðingu sem aðferð til að bæta sjálfan sig eða ná ákveðnum árangri. Sem slík lýsir hún einungis fíngerðri eigingirni iðkandans eins og fram kemur í eftirfarandi sögu frá Indlandi. Konungur nokkur bauð fakír einum sinn besta reiðhest að launum ef hann gæti lifað af í heilt ár grafinn lifandi í djúpu samadhi-ástandi. Fakírinn lét grafa sig en gleymdist síðan þegar stríð braust út og konungur missti völdin. Nokkrum árum síðar fannst fakírinn og var vakinn með hinu helga orði „óm“. Fyrstu orð hans voru: „Hvar er hesturinn?“

Afstaða Krishnamurtis til hugleiðingar virðist í fljótu bragði tvíbend eða jafnvel mótsagnakennd. Hann hafnar henni sem úthugsaðri aðferð en mælir með henni sem viðvarandi hugarástandi. Rit Krishnamurtis eru sérkennilegt fyrirbæri. Hvað eftir annað gagnrýnir hann hugleiðingariðkun. Skilningsríkur lesandi uppgötvar hins vegar að hann er ómeðvitað kominn í hugleiðingarástand um leið og hann er að lesa gagnrýni á hugleiðingariðkun. Tök hins þekkta hafa á fíngerðan hátt verið losuð um leið og Krishnamurti sýnir fram á hvernig hugleiðing getur orðið úthugsuð iðkun, þrungin væntingum.

Hvert er þá markmiðið?

Hvert leiðir hún okkur? Svarið er: Ekkert og til einskis staðar. En þessu svari er ekki ætlað að hrella lesandann með tómhyggju. Hæpið er að tala um markmið. Markmið truflar okkur frá upplifun þess sem er hér og nú. Takmark og tilgangur eru röng orð. „Inntak“ eða „merking“ væru e.t.v. betri. Merkingin felst í því að sjá heiminn einfaldlega eins og hann er. Mahayana-búddistar kalla það þessleika (suchness), tathata á sanskrít. Á þann veg er heimur eða líf ekki vandamál sem áhorfandinn, „ég“ þarf að glíma við. „Ég“ er þá ekki aðgreindur frá veruleikanum. Vitund eða varurð er - að sjálfsögðu. Eins og William James benti á, „ég“ er nafn á afstöðu sem merkir „vitund hér“. Þar kemur varurð mitt í veruleikanum í stað einstaklingsvitundar. Hugsunin telur okkur trú um að við stöndum andspænis heimi. Svo aftur sé vitnað í Ram Dass:

„Hugsanir klæðist alls kyns prjáli og skarti og segja: „Ég er ekki ein af þessum hugmyndum ... ég er þú. Þú skilur, ég er raunveruleg. Þessi ályktun er eina sanna hugsunin.“ En þetta er bara eins og hver önnur hugsun. Allur þessi leikur er hugsanir.“ (Úr „Grist for the Mill“).

Svo gripið sé til líkingar sem ég notaði hér að framan, hugsanir okkar um sjálf okkur tilheyra hringferlinum, lokuðu kerfi sporvagnsteina þar sem hugsanir eru um hugsanir og þær aftur um aðrar hugsanir. Ekki er ólíklegt að frá miðjunni séð líti hringurinn út sem töfrahringur í stað vítahrings. Hringur er gamalt tákn hins eilífa og með trúarlegu orðavali er varurðin sem ég er að reyna að lýsa hið „eilífa nú“, að sjá lífið frá miðjunni, sub specie aeternitatis (lat., frá sjónarmiði eilífðar; orðalag frá Spinoza).

Áþreifanlegt dæmi

kann að varpa á þetta ljósi. Sumir lesenda kannast e.t.v. við svo kallaða „draugavöggu“ („ghost cradle“). Það er skemmtitæki sem boðið er upp á í sumum tívolí-görðum. Hún líkist stórum báti sem er opinn til endanna. Tveir bekkir eru við hvora hlið og á þeim sitja gestirnir, tveir hópar andspænis hvor öðrum. Báturinn er hengdur upp þannig að hann getur vaggað til hliðanna. Þetta fer fram í litlu herbergi. Vaggan tekur að sveiflast svo að annar hópurinn er næstum kominn upp í loft og horfir niður á hinn hópinn sem horfir upp næstum frá gólfinu. Engin öryggisbelti eru notuð og enginn dettur niður. Vaggan sveiflast síðan til baka á hinn veginn. Fólkið verður alveg ringlað. Skýringin er ofur einföld. Það er herbergið sem veltur en vaggan er kyrr. Um leið og menn átta sig á þessu hverfur óráðstilfinningin. Skynjunina má sem sagt túlka á tvo vegu, að ég sveiflist til í herberginu eða ég sitji og horfi á herbergið sveiflast.

Þetta er mjög einfalt dæmi beint af efnissviðinu um tvenns konar mögulegt vitundarástand (án þess að ytri aðstæður breytist neitt). Varurð frá miðjunni, vitund í hinu eilífa núi - eða hvað sem menn vilja nú kalla þetta ástand - hefur alltaf sömu afstöðu til sérhvers punkts á hringferlinum. Punktar á ferlinum eru mislangt hver frá öðrum en eru allir í sömu fjarlægð frá miðjunni. Með hversdagslegri orðum lýsir þetta sér eitthvað á þessa leið: Við upplifum venjulega heiminn eins og hann sé á leiðinni eitthvað. Sumum finnst e.t.v. að hann muni á endanum tortíma sér. Aðrir trúa því að hans bíði björt framtíð. Í báðum tilvikum skynjum við þetta sem feril og sögu. Þegar menn líta sér nær finnst þeim að sífellt gangi á lífið. Menn tala um að lifa frá degi til dags. Miðjuvitund skynjar hins vegar tímann sem blekkingu og aðeins sem aðferð til þess að mæla breytingar. Þær eru vissulega staðreynd en þær eru samt ekki eins og hreyfing lestar eftir spori. Fremur má líkja þessu við að allt hvolfist inn í núverandi augnablik. Líf og hreyfing er alls staðar en veröldin er samtímis búin að ná takmarki sínu. Venjuleg vitund dregur reynsluna í hugtakadilka - eins og ljósgeisli í myrkri sem lýsir aðeins upp afmarkaðan flöt - og er blekkt á þann veg að reynslan sé ófullkomin og einangruð. Það er ófullkomin athygli sem framkallar þessa brotakenndu reynslu. Miðjuvitund, sem eins má kalla dagvitund (til aðgreiningar frá næturvitund ljósgeislans), skynjar hins vegar að það sem aðgreinir er aðeins hugtök. Í raun og veru gerist allt saman og samtímis. Það sem virtist einangrað í ljósgeislanum um nótt er það ekki lengur þegar dagur rennur.

Vísbendingar í hversdagsreynslu.

Við finnum vísbendingar í hversdagsreynslunni sem gefa til kynna hvernig miðjuvitund lýsir sér. Börn eru stundum svo niðursokkin í leik sinn að þau taka ekki eftir sérkennum sem fullorðnum eru augljós. Foreldrar sögðu mér eitt sinn frá því að sonur þeirra kom heim og sagðist hafa fundið nýjan leikfélaga. Faðir hans spurði hvort hann væri svartur eða hvítur. Sonurinn svaraði blátt áfram að hann hefði ekki tekið eftir því. Svipuð reynsla er þó ekki óþekkt í heimi fullorðinna. Við öflun þekkingar og lærdóms á Vesturlöndum beina menn athyglinni að einstökum atriðum í röð og leggja þau á minnið. Þekking er minni. Menn fá þess vegna á tilfinninguna að heimurinn sé eintómir molar og bútar eða „staðir og stökk“ - eins og Bertrand Russel orðaði það. Líkast til hefur Clutton Brock hugsað eitthvað á þessa leið þegar hann sagði að vísindin kenni okkur fjölmörg lítil sannleikskorn til þess að þjóna stórri lygi og trúarbrögðin margar litlar lygar í þjónustu mikils sannleika.

Að einbeita sér að molum og bútum - jafnvel að flokka alla vitneskju þannig - getur fest þá „lygi“ í hugum manna að veruleikinn sé í raun og veru safn mola og búta. Fyrir nokkrum árum var brúðupersóna búin til fyrir barnasjónvarp og nefndist „Ljósi“ (Torchy). Hann hafði á höfði hjálm námumanna sem varpaði mjóum ljósgeisla fram fyrir sig. Á þann veg skoðum við heiminn. Menntunin sem við hljótum framkallar „ljósgeislavitneskju“ sem er, þó að það hljómi sem mótsögn, eins konar fáfræði. Við hunsum óskipt eðli heimsins og ímyndum okkur að hugtakaflokkun geri aðgreininguna raunverulega.

Annað einfalt dæmi sem gæti gefið lesandanum hugmynd um mismunandi vitundarástand er að bera saman kvikmynd og leiksýningu. Í fjölmiðlaviðtali við leikarann Ralph Richardson lýsti hann muninum á þessum leikformum. Eitt af því sem hann minntist á varpar ljósi á miðjuvitundina sem ég hef reynt að ræða um í þessari grein. Eðli sínu samkvæmt rennur kvikmynd skeið sitt vægðarlaust til enda. Fyrir leikara virðist leiksýning oft renna jafn vægðarlaust áfram. Richardson líkti því við járnkúlu sem veltur niður halla. Leikarinn fer með setningu og annar svarar á fyrir fram æfðan hátt. En samt, segir Richardson, getur mikill leikari „stöðvað“ leikinn með kunnáttusasamlegri tímasetningu og eins og fullkomnað leikinn á því augnabliki þó að sjónleikurinn velti áfram frá venjulegu tímasjónarmiði.

Undan oki hins þekkta.

Að losna undan oki hins þekkta er að sjá heiminn að sumu leyti eins og leikarinn sér sjónleikinn á augnablikum sem þessum. Heimurinn er skynjaður sem dularfullur og óumræðilegur veruleiki. Og sama gildir um annað fólk þegar við upplifum það án þess að draga það í dilka eftir einhverjum reglum og hlutverkum. Það er eins og maður segði við einhvern: „Nú skulum við reyna að skilja hvor annan eins og við hefðum enga hugmynd um við hverju á að búast.“ Ef einhverjum finnst heimurinn almennt venjulegur og án undrunarefna er ólíklegt að honum finnist nokkur mannvera dularfull, nema þá í stuttan tíma. Í bók sinni, Listin að elska, lýsir Erich Fromm hvernig leyndardómur hins elskaða fölnar allt of fljótt. Við höldum áfram og búumst ekki við öðru en að hið sama gerist aftur og aftur. Við getum hins vegar bætt því við athugasemdir Fromms að hinn elskaði er alltaf dularfullur. Við verðum leið á hugmyndum okkar um hann. Í „þessleika“ sínum er hann alltaf jafn heillandi.

Eftirfarandi zen-saga lýsir vel þeirri algengu tilhneigingu að trana fram sínum eigin skoðunum með því að ætla öðrum hlutverk í stað þess að viðurkenna dularfullan „þessleika“ þeirra.

Maður nokkur stóð upp á hæð. Þrír göngumenn komu auga á manninn úr fjarlægð. Þeir tóku að deila um það hvers vegna maðurinn stæði þarna. Einn þeirra sagði: „Hann hefur líklega týnt hundinum sínum.“ Annar var ósammála: „Nei, hann er líkast til að svipast um eftir vini sínum.“ Sá þriðji sagði: „Hann er áreiðanlega þarna til þess að njóta góða loftsins.“ Þeir gátu ekki komið sér saman um þetta og deildu enn þegar þeir nálguðust manninn sjálfan. Sá fyrsti spurði manninn: „Hefurðu týnt hundinum þínum?“ „Nei,“ var svarið, „ég hef ekki týnt honum.“ Annar spurði: „Ertu að leita að vini þínum?“ „Nei, ég er ekki að leita að honum.“ Sá þriðji: „Ertu hérna til þess að njóta góða lofstins?“ „Nei,“ svaraði maðurinn. „Til hvers ertu þá eiginlega hérna fyrst þú svarar öllum okkar spurningum neitandi?“ Maðurinn: „Ég bara stend hérna.“

Úr bókinni „Into every Life a little Zen must fall“. Sv. B. þýddi.