Samband manns og guðs
Guðspekifélagið er félag sérstaks eðlis. Innan á kápu hvers eintaks af Ganglera er jafnan gerð grein fyrir stefnuskrá félagsins og hugsanafrelsi. Þar segir m.a.: “Guðspekifélagið hefur nú breitt úr sér um allan hinn siðmenntaða heim, og fylgismenn allra trúarbragða hafa gengið í það, án þess að hverfa frá hinum sérstöku trúarsetningum sínum. Sökum þess er talið æskilegt að brýndur sé fyrir mönnum sá sannleikur að engin kennisetning, engin skoðun, hver sem heldur henni fram, er með nokkrum hætti bindandi fyrir nokkurn félagsmann. Þeir geta aðhyllst hana eða hafnað henni alveg eftir vild. … Enginn fræðari eða rithöfundur hefur nokkurn rétt til að binda félagsmenn við skoðanir er hann heldur fram. Allir hafa jafnan rétt til að fylgja hvaða fræðara eða kenningum sem þeim sýnist, en þeir hafa engan rétt til að heimta að aðrir fylgi hinu sama og þeir. … Aðalstjórn Guðspekifélagsins brýnir alvarlega fyrir félagsmönnum að halda fast við þessi grundvallaratriði félagsins, verja þau og breyta samkvæmt þeim - brýnir fyrir þeim að nota sér óhræddir réttinn og frelsið til að hugsa og láta hugsanir í ljós innan þeirra takmarka er kurteisi og tillit til annarra heimta.”
Segja má að félagið sé vettvangur fyrir viðleitni okkar til að reyna að skilja stöðu okkar í tilverunni og efla andlegan þroska okkar. Við getum eflt hugartengsl okkar í þeirri leit að visku eða einingu sem er kjarni kærleikans. Afmörkuð guðspeki er ekki til né hefir nokkru sinni til verið. Það sem hefur verið kallað Guðspeki eða guðspekifræði, eru hugmyndir eða kenningar sem hafa verið kynntar í félaginu en eru ekki félagsins að öðru leyti, því eðli félagsins samkvæmt boðar það engar kenningar né trúarfræði, sbr. einkunnarorðin: “Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.” Guðspeki er afstaða til spurnar og rannsóknar, opið hugarfar í sífelldri endurnýjun.
Trúarviðhorf eru almennt grundvölluð á viðleitni til að losna við eigingirni. Við eyðum egóinu seint, en losa má tök þess á okkur og við getum verið óbundin því. Ekki aðeins trúarbrögð heldur og heimspeki og mannþekking hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að sjálfsþekkingin leysir úr læðingi öfl sem stuðla að sjálfsþroska okkar. Því lausar sem við erum við eigingirni, þeim mun frjálsari verðum við. Hver sá, sem fer að þekkja sjálfan sig tilvistarlausan, kynnist guði sem tilvist.
Guð er ekki talinn nauðsynlegur í öllum trúarbrögðum. T.d. mætti með gildum rökum segja, að guði sé ofaukið í Buddismanum, sem alltaf hefur lagt áherslu á persónulega viðleitni og afneitað guðum. Buddisminn hefur fyrst og fremst verið trúarbrögð verka, en ekki náðar. Þó hefur Buddistum fundist þörf vera fyrir miðil eða milligöngu milli hins algilda og hlutveruleikans. Budda er sá miðill eða meðalgöngumaður. Í prajna er hann hið algilda, en sem maður hefur hann sínar takmarkanir sem fyrirbæri. Budda var snemma talinn guðlegrar náttúru. Uppljómun hans var ekki talin tilviljun, heldur ákveðin af guðdómnum. Er því rétt að hafa í huga, að Gautama Budda er aðeins einn af mörgum, sem birst eða munu birtast í framtíðinni. Budda er heldur ekki öðru vísi en aðrir. Allir eru eins og hann að því leyti, að þeir eru hinir verðandi Buddar. Röknauðsyn þótti bera til að finna miðil milli hins algilda og hlutveruleikans og með þeim hætti er guðdómurinn viðurkenndur.
Erfitt er að hugsa sér trúarbrögð án veru, sem hafinn er yfir hlutveruleikann eða er yfirskilvitleg. Mörg trúarbrögð leggja áherslu á þann mun, sem er á guðdóminum og hinum takmarkaða manni. Kristin trú, Gyðingadómur og Múhameðstrú að undanskildum Súfisma, skerpa þennan mun. Svo mjög á stundum, að á milli guðs og manns er óbrúanlegt djúp. Munurinn er talinn eðlismunur og eilífur. Þessi trúarbrögð gera lítið úr þeirri grundvallarstaðreynd, að guð og maður tengjast í andanum. Ekki getur verið um eðlismun að ræða, því þá væru öll tengsl ókleif. Maðurinn getur ekki tilbeðið eitthvað annars eðlis. Guð myndi varla svara til bjargar manninum. Sérhver tengsl ganga alltaf út frá einhverju sameiginlegu, einhverjum grundvelli fyrir mismuninum, sem er afstæður. Á þessa hlið málsins leggja trúarbrögð eins og Buddisminn, Vedantaskólinn, Súfisminn og jafnvel Jainatrúin áherslu á. Þau telja ekki eðlismun á guði og manni.
Spyrja mætti, hvernig útskýra megi trúarvitund án mismunar, þ.e. mismunar á guði og manni, eða hinu yfirskilvitlega og hinu mannlega. Svarið liggur í því, að mismunurinn þurfi ekki að vera eðlismunur né eilífur, heldur aðeins stigmunur eða ástandsmunur sömu veru. Nógur munur er á hinu æskilega annars vegar og hinu ríkjandi eða núverandi hins vegar til að halda uppi trúarvitund. Ein afleiðing þess, ef ekki er gerður munur á guði og manni, er sú, að litið er á guð og mann, sem tvær hliðar á dýpra grundvelli, hinu algilda. Þær hliðar eru ásýnd, en ekki hinn hinsti veruleiki. Guð er persónubundin birting á hinu algilda, einstaklingseðli hins algilda. Engar takmarkanir fyrirfinnast þá í fjölda, formum eða tilefnum slíkra birtinga. Allar verur eru þá guð. Með þessu samsamast allar verur, guð og maður í hinu algilda.
Margir telja, að hæpið er að tala um ákveðnar leiðir eða að ein leið sé annarri réttari. Ytri leiðir trúarkenninga og trúarskóla geti verið vegvísar eða eins konar landakort á þroskaleiðum, en þær séu skoðanir og viðhorf sem eru tilbúningur hugans; veruleiki sem aðrir hafa útbúið okkur til aðstoðar, en ekki sjálfstæður eða algildur veruleiki, ef svo má að orði komast. Þær leiðir sem máli skipta séu því okkar innri leiðir. Sjálfsagt eru þær jafnmargar og mennirnir.