Það sem hér birtist hefur að hluta til birst áður í bók minni Leggðu rækt við ástina, og í Ganglera. Tímariti Lífspekifélags Íslands.
Er maðurinn í eðli sínu góður eða slæmur? Sitt sýnist hverjum þegar þessa spurningu ber á góma. Hugmyndin um eðlislæga eigingirni og árásarhneigð manneskjunnar var lengi ríkjandi í vestrænni menningu en á síðustu áratugum hefur þessi svartsýni á mannlegt eðli vikið fyrir bjartsýnni skoðunum sem eru nær þeim sem koma til dæmis fram í búddískri heimspeki. Þar er gert ráð fyrir að grundvallareðli manneskjunnar einkennist af kærleik og samhygð. Ögun hugans er kjarninn í kenningum Búdda og vestrænir vísindamenn eru nú margir þeirrar skoðunar að umhyggja fyrir öðrum eigi sér djúpar rætur í mannlegu eðli. Við getum orðið bæði umhyggjusöm og kærleiksrík eða ofbeldisfull og andstyggileg; allt eftir því hvaða þætti við leggjum rækt við í fari okkar.
Vangaveltum um eðli mannsins verður sennilega seint svarað með vísindalegri nákvæmni. Samt varða þær okkur öll vegna þess að sýn mín á manninn litar hugann sem ég ber til samvisku minnar og hlutverks hennar í lífi mínu. Sá sem trúir því að í manninum búi ill öfl og ólgandi eðlishvatir sem halda verði niðri hefur aðra afstöðu til samvisku sinnar en sá sem trúir því að maðurinn búi yfir meðfæddri tilhneigingu til að leita heilbrigðis og þroska.
Ef ég trúi því að innsta eðli mitt sé gott þarf ég ekki að lifa lífi mínu í innvortis spennitreyju til að halda í skefjum ólgandi eðlishvötum eða berja mig áfram til ómanneskjulegrar fullkomnunar. Vissulega nær margur árangri með því að selja sjálfan sig undir járnaga en þá er líka hætt við að hann kæfi hæfileika sinn til að elska og vöxt sinn sem manneskju. Sá sem trúir á hið góða í sjálfum sér þarf ekki að afneita þeim hliðum á sér sem honum líkar ekki við því að hann sér fyrir sér aðra og betri lausn – þá að lifa með þeim og vaxa upp úr þeim. Til að vaxa upp úr vanköntum okkar þurfum við að efla sjálfsþekkingu okkar og sjálfsskynjun. Sjálfsþekking er því ekki takmark í sjálfu sér heldur leið til að leysa úr læðingi þroskaöfl sem gera okkur að ástríkari og ástríðufyllri manneskjum.
Maðurinn þarf að þekkja tilfinningasögu sína til að komast í snertingu við sjálfan sig og aðra. Gera sér grein fyrir hvaða tilfinningar hann bældi og hvaða tilfinningar fengu að blómstra og hvernig sjálfsmynd hans mótaðist í uppeldinu. Hann þarf að endurheimta góðar minningar, gera þeim hátt undir höfði og finna glöggt að þær eru hans minningar, hluti af honum sjálfum. Og hann þarf að sættast við sársaukafullar minningar og gæða þær merkingu sem gefa honum þrótt og áræði til að taka lífinu og ástinni opnum örmum.
Ef ég trúi því að innsta eðli mitt sé gott hef ég líka trú á að það sé í mínum höndum að skræla burt lög ranghugmynda, óheppilegrar mótunar og skemmandi lífsvenja þangað til ég kemst að kjarna mínum. Trú mín á manninn kemur fram í trúnni á mitt ástríka eðli – og samviskusamlegri ástundun við að laða það fram.
Andlegur þroski felst í trú á eðli mannsins og þar með trú á sjálfan sig. Þess vegna verða trú og ást ekki sundur skilin. Sönn ást beinist að mannlegum verðleikum hvort sem þeir birtast í sjálfum manni eða öðrum. Hvernig getur sá elskað sem skortir trú á sinn innri mann? Hvernig getur hann haft trú á ást sinni, að hún sé heil og sönn og lifi af bæði súrt og sætt?
Danski heimspekingurinn Sören Kirkegaard bendir á í bók sinni Uggur og ótti að trúin tilheyri öðru sviði en þekkingin, þar sem hún sé í rauninni ástríða og meira að segja æðsta ástríða mannsins, enda til komin andspænis hinu óskiljanlega og fjarstæðukennda og því ávallt tengd einhverri óvissu og áhættu. Eða eins og Kristján Árnason segir í formála bókarinnar “Að því leyti verður henni (trúnni) helst líkt við ástina og mælist þannig sönn eða ósönn ekki eftir því sem hún beinist að heldur því sem býr í brjósti hins trúaða eða elskandans, hvort það er heitt og innilegt eða hálffvolgt og falskt, samanber hina fleygu setningu að sjálfsveran, innileikinn, sé sannleikurinn.” (Uggur og ótti, inngangur eftir Kristján Árnason bls. 38 )
Þegar við tökum þroska okkar alvarlega lítum við ekki einungis á það sem siðferðilega skyldu að vinna í sjálfum okkur heldur verður það í augum okkar líka forréttindi og æðstu gæði. Við veitum okkur frelsi til að vaxa upp úr hugsunum sem snúast um sjálfhverft stolt og óþarfa áhyggjur og verðum um leið frjáls til að elska aðra og stuðla að þroska þeirra með ráðum og dáð.
Samviskan er viskan sem gerir mig að meiri manneskju. Ég öðlast ekki visku nema ég hlýði rödd samvisku minnar. Það liggur í orðinu sjálfu: Sam-viska. Sú viska sem er sameiginleg okkur mönnunum. Ég hlýði kalli sem maður og leitast við að verða meiri manneskja. Ég leita eftir sameiningu við lífið og samferðafólk mitt um leið og ég hlýði kalli sem mér er einum ætlað og legg mig fram við að rækta hæfileika mína og skapa mér einstakt líf. Ég lít til samvisku minnar í leit að svari við spurningunni um hvað ég eigi að leggja rækt við í fari mínu og hverju ég eigi að venja mig af. Svarið ræðst af því hvort tiltekið viðhorf eða löngun stuðli að eða standi í vegi fyrir þroska og hamingju minni og annarra.
Ég svara ekki grundvallarspurningum um lífið og sjálfa mig í eitt skipti fyrir öll heldur verð ég að halda áfram að spyrja um persónuleg markmið mín, ekki síst þegar ég er komin í hjónaband og maki minn þrýstir á mig að vera eins og hann vill hafa mig og tileinka mér lífsstefnu hans og gildismat. Samviskan kallar mig til sjálfrar mín. Hún er mín eigin innri rödd. Hún kallar mig ekki til blindrar hlýðni við boð og bönn foreldra minna, maka eða almenningsálitsins né ætlast hún til að ég verði óhamingjusöm og vansæl við að þjóna öðrum.
Samt ætlast samviska þín til þess að þú gefir. Hún ætlast til að þú gefir eins og þér einum er lagið og hún ætlast til að þú gleðjist við að gefa. Því að við getum ekki öll gefið með sama hætti. Sumir gefa með peningum og aðrir gefa með hjálp sinni, sumir gefa með því að hlusta og aðrir með því að halda ræðu, sumir gefa með nærveru sinni og aðrir með því að láta sér batna, vera hamingjusamir eða deyja sáttir. Sannasta gjöfin er sú sem gefin er með hjartanu. Ef þú gleðst ekki við að gefa þarftu að gæta að hugarfarinu að baki gjafa þinna og aðgæta hvort þú gefir það sem þú gefur best. Því að óhamingja og biturð eru til marks um að manneskja hafi ekki fylgt sinni innri rödd. Varanleg hamingja er hins vegar til marks um að hún hafi hugsað rétt og breytt rétt. Það er ekki að ástæðulausu að orðið dygð er dregið af orðinu dugur. Enginn fær gott líf að gjöf. Við höndlum ekki lífið sem hentar okkur nema sýna af okkur áræði og dug.
Góð samviska útheimtir kjark og því velur maðurinn stundum að loka hana úti og hlusta ekki á hana. Í því er frelsi hans fólgið, reisn og harmur. Það er ólán okkar mannanna að heyra ekki rödd samvisku okkar þegar við þurfum mest á henni að halda. En mannshugurinn er meistari í að réttlæta fyrir sér alls kyns sjálfsblekkingar. Þegar við erum týnd sjálfum okkur drukknar rödd samviskunnar í hávaðanum sem umlykur okkur þegar við eigum erfitt með að hvíla í eigin huga og gerum hvað sem er til að heyra ekki í nagandi röddinni innra með sjálfum okkur né velviljaðar raddir annarra. Kveikjum á útvarpi og sjónvarpi um leið og við komum inn úr dyrunum, sökkvum okkur í vinnu, spennu eða afþreyingu og sættum okkur við félagsskap fólks sem við kærum okkur í raun ekkert um.
Innri rödd okkar má líkja við áttavita. Hann er afar næmur og því þarf ekki mikið til að trufla hann. Ef áttaviti á að vísa okkur rétta leið verðum við að búa honum rétt skilyrði. Ef við gerum það ekki er hætt við að við lendum á villigötum. Því er eins farið með okkar innri rödd. Hún er lágstemmd og kallar okkur ekki til sín með látum. Hún á það til að hljóma með leyndardómsfullum hætti – í draumum og skyndilegu innsæi. Og stundum birtir hún okkur tælandi, lostafullar myndir og atburðarás sem við látum okkur nægja að dreyma um eða deila með ástvini okkar.
Ég skynja hver ég er og skynjun mín smýgur undan orðunum og tekur á sig óvæntar myndir. Takmörk tungumálsins koma í ljós andspænis tilfinningum sem erfitt er að henda reiður á og því eru sumir fræðimenn feimnir við sjálfið. Það hafa skáld hins vegar aldrei verið. „Sálin í mér er stelpa sem krotar á veggi. Útskeif með aflraunalæri og gengur á tám … og ferðast um búningsklefann á teygjuslappri brók,“ yrkir Steinunn Sigurðardóttir, í ljóði sem hún kallar Sjálfsmyndir á sýningu, og bandaríska skáldið Walt Whitman sem kallaði sig skáld tilfinninganna og holdsins skrifaði að sjálfið byggi brú til sálarinnar.
Ef þú vilt skynja sjálf þitt skaltu staldra við og hlusta fremur en brjóta heilann. Vera í kyrrð með sjálfum þér svo að þú getir heyrt svarið þegar það stígur upp úr djúpum vitundar þinnar. Því að sjálfið er það sem við vitum sannast um okkur; það er okkar innstu og helgustu tilfinningar fyrir því hver við erum og hvað við höfum að gefa.
Ég get ekki útskýrt sjálf mitt, veit það eitt að ég get ekki án þess verið. Vitneskjan um sjálfið kemur innan frá og hún er misskýr eftir því hvað er að gerast í lífi mínu og hvað er að gerast innra með mér. Og mig langar að trúa því að ég lifi í samræmi við sjálf mitt þegar ég skynja af djúpri fullnægju að ég er það sem mér var ætlað að verða, geri það sem ég geri best og elska af nautn og heitu hjarta.
Sannleikann er ekki að finna í bókum, ekki einu sinni góðum bókum sagði Nóbelsskáldið okkar Halldór Laxness. Sannleikann er að finna í mönnum með heitt og gott hjarta. Lifandi, ástríðufullur maður lætur sér ekki nægja að viða að sér þekkingu, hann leitar sannleika sem stuðlar að hamingju og frelsi.
Hann lætur sér ekki nægja að tyggja ómelt upp eftir öðrum það sem ‚haft er fyrir satt‘. Lætur sér ekki nægja að verða fullorðinn og gera það sem ætlast er til af honum. Ef til vill vaknar hann einn góðan veðurdag og spyr: Er þetta allt og sumt? Snýst lífið einungis um öryggi og þægindi? Og svar hans er nei.
Hann vill meira og leit hans að sjálfum sér hefst að nýju. En leit hans er af öðrum toga en á unglingsárunum því nú hefur hann öðlast ákveðinn þroska, leyst verkefni fullorðinsáranna og veit hvað í því felst að vera ábyrgur þjóðfélagsþegn. Hann gerir uppreisn; en sú uppreisn beinist ekki gegn einhverju eins og uppreisn unglingsáranna heldur gerir hann uppreisn með sjálfum sér. Hann verður ‚ástfanginn‘ af óþekktum möguleikum sjálfs sín og hefur innri leit. Ef til vill dregur hann sig svolítið í hlé eða syndir móti straumnum í þeirri merkingu að hann setur spurningarmerki við ríkjandi gildismat og því hefur leit hans stundum truflandi áhrif á aðra.
Ástríðufullum manni dugar ekkert minna en njóta til fulls. Líf hans er ofgnótt og hann gefur af sjálfum sér. Hann andar frá sér lífskrafti sínum og þarf ekki að sitja á sjálfum sér af ótta við að verða sér til skammar. Hann er fullur áhuga á umhverfi sínu og lífgar hvaðeina sem hann snertir. Hann lifir sig inn í það sem hann gerir, spyr áleitinna spurninga og hlustar af áhuga. Fólk lifnar við í návist hans og þegar hann kveður finna báðir að eitthvað hefur gerst. Tveir andar hafa mæst og fara auðugri af þeim fundi.
Þegar þú ert djúpt snortinn aftur og aftur, opnast hjarta þitt og hugarþelið verður hlýrra. Þú átt auðveldara með að njóta og auðveldara með að setja þig í spor annarra vegna þess að þú kemst fyrr við og kemur auga á svipbrigði sem annars hefðu farið fram hjá þér. Þú skynjar það sem býr að baki orðanna og ósögðu orðin í þögninni vegna þess að ímyndunarafl þitt verður auðugra. Ímyndunarafl sprettur af lifandi huga og það þarf lifandi huga til að skynja aðra lifandi veru. Hálfsofandi maður er ekki næmur á líðan annarra. Hann veit tæpast hvernig honum líður sjálfum. Innri virkni felur í sér sannleiksleit og lifandi maður leggur sig fram við að komast að rótum sannleikans. Því að þekking ein og sér án innri þroska og sjálfsögunar færir okkur ekki hamingju. Margur viðar að sér þekkingu án þess að komast að sannleikanum sem skiptir máli fyrir líf hans. Sá sem er vitur veit að hann veit fátt eitt með vissu og að hann má aldrei standa í stað í þekkingarleit sinni. Gagnrýnin hugsun er hluti af virku innra lífi. Og gagnrýnin hugsun tekur í hnakkadrambið á sjálfri sér þegar þörf krefur. Viska sprettur af sannleiksleit sem á upptök sín í heitu hjarta.
Lifandi maður lítur ekki á þekkingu sína sem eign sem hann þurfi að varðveita í óbreyttu ástandi og gæta þess að hvorki falli á hana blettur né bornar séu á hana brigður. Hann er reiðubúinn að leggja þekkingu sína að veði í leit að kjarna málsins. Hann kemur að samræðum með opnum huga og fullur forvitni um hvert þær muni leiða. Kemur ekki með það markmið að sjarmera hinn upp úr skónum eða vinna hann á sitt band. Ákveður ekki umræðuefnið fyrirfram né reynir að stýra samræðunum inn á öruggt svið þar sem hann getur látið ljós sitt skína. Stendur ekki ógn af því að opna huga sinn gagnvart því sem hinn hefur fram að færa. Leyfir að gerast því sem gerist. Mætir til leiks opinn og til í hvað sem er eins og einn rithöfundur okkar tók til orða þegar hann mætti í sjónvarpsviðtal. Reiðubúinn að gefa af sjálfum sér og sýna með því hið sanna örlæti.
Ástríðufullur maður er ‚lifandi‘ í bestu merkingu þess orðs. Hann gefur ástríðum sínum lausan tauminn þegar það er óhætt og heldur engu eftir. Hann flæðir út yfir bakka sína og hræðist hvorki gleði né nautn. Hann þarf ekki að halda dauðahaldi í egó, stolt eða virðingu. Hann sleppir takinu þegar við á og lætur sig berast á vængjum lífsorku, nautnar og gleði.
Sönn ástríða er okkur í blóð borin og því þurfum við ævinlega að beita dómgreind okkar og samvisku. En hlutverk hennar er ekki að bæla niður allar öfgar heldur greina á milli hvenær þær eru til góðs og hvenær til ills. Öfgar leiða til hallar viskunnar, segir einhvers staðar. Í því getur falist göfug dygð að gefa sig ástríðum sínum á vald og kanna sjálfan sig í tilfinningum, hugarflugi og ímyndunarafli. Við getum orðið betri manneskjur með því að verða frjálsar og gefandi kynverur.
Tilbúnar ástríður eru þær sem verða til vegna gerviþarfa og skrumskælingar á eðli mannsins. Stundum lifir maðurinn um of í hinum efnislega heimi og verður firrtur sínu innsta sjálfi. Orð hans tjá ekki lengur meiningu hans og gerðir hans endurspegla hvorki sannfæringu hans né tilfinningar. Hann lærir að bregðast við með yfirborðshugsunum og breytni hans endurspeglar væntingar og siðferðisreglur annarra.
Og erótíkin getur verið skrýtin tík engu síður en pólitíkin. Hún er líka komin út fyrir okkur sjálf. Hún er ekki lengur talin búa í manneskjunni heldur utan á henni, í myndum af fáklæddum stúlkum sem eru reiðubúnar að sýna líkama sinn – stundum fyrir beinharða peninga, stundum fyrir athyglina og auglýsinguna og stundum vegna ytri þrýstings, þvert ofan í sína eigin sannfæringu. Líkami manneskjunnar og innsti kjarni, kynlífið sjálft, er notað til að selja okkur hvers kyns varning hvort sem það er hljómdiskar og ilmvötn eða skófatnaður og bíldekk. Nútímamaðurinn er á góðri leið (eða öllu heldur vondri leið) með að ræna kynlífið leyndardómi þess og gera það að hversdagslegri neysluvöru.
En Eros er leyndardómsfullur og því við hæfi að hann sé hjúpaður hulu og dulúð. Kynveran í sjálfum okkur býr yfir nærandi myrkri sem er hluti af leyndardómi lífsins og leyndardómar skapa ástríðu og þrá eftir að leita svara. Spyrja má: Ef við erum guðdómlegar verur erum við þá ekki líka guðdómlegar kynverur?