Að upplifa beint

Öll getum við nálgast betur vitund okkar en margir hafa ekki fengið ábendingar um hvernig það er hægt. Um gildi þess er heldur ekki rætt daglega.

Okkur er mikilvægt að hverfa af og til inn í vitundardjúpið eða að færa það upp á yfirborðið. Mikils virði er að láta hreina vitund snerta hið upplifaða.

Hvað er verið að tala um? Er verið með uppskrúfað orðalag sem enginn skilur, ekki einu sinni sá sem ritar? Eru þetta innihaldslaus orð sem búið er að venja sig á?

Hér er verið að reyna að koma til skila mikilvægi þess að upplifa allt sem milliliðalausast.

Almennt förum við þannig með hugann að hann verður veggur milli okkar og þess sem er hið ytra og innra. Hann verður stífla á allt líf og alla orku sem getur flætt til okkar og frá. Við venjum okkur smátt og smátt á hugarnotkun sem lokar fyrir flest. Og sér til hjálpar í þessu dundi getur hugurinn notað tilfinningar og venjur líkamans. Afleiðingin verður sú að sífellt dregur af okkur eftir því sem árin líða, sífellt fjarlægjumst við flest eðlilegt vitundarástand og að lokum hverfum við héðan uppgefin á nær öllu.

Því fjær sem við erum hæfileikanum að upplifa án afskipta hugans, því eldri erum við, daprari, líflausari, sljórri og óhamingjusamari. Því betur sem við nemum allt hið ytra og innra, þ.e. betur og beinna, því yngri, orkumeiri og hamingjusamari erum við. Aldur og sálarástand veltur á meðhöndlun okkar á huganum.

Ástand okkar byggist á hæfninni til að upplifa á beinan og milliliðalausan hátt og öll höfum við þá hæfni. Kúnstin er að kunna að nota hana. Við getum það flest stutta stund í einu, oft óvart en þurfum að komast upp á lag með að gera það meðvitað.

Þegar okkur tekst að sjá heiminn án afskipta hugans, sjáum við lífið sem fylgir forminu. Þegar okkur tekst að hlusta á heiminn án íhlutunar hugans, heyrum við líf og þegar við finnum milliliðalaust fyrir, finnum við líf í tilverunni. Þegar hugurinn er hreinn af hugsunum streymir til okkar líf en þegar hugarskýin hrannast upp sjáum við aðeins formið.

Hugarskýin eru þetta vanabundna hugarreik sem e.t.v. 90% snýst um sjálf okkur. Gagnslitlar hugsanir sem ekki leiða til neins nema þess að gera okkur erfiðara með að upplifa án hugans og þeirra fjötra sem hann leggur á vitundina.

Verkefnið er að fjarlægja hugarreikið, mókið, og nota hugann kröftuglega þegar á þarf að halda en hvíla hann af hugsunum þess á milli. Það sem þá tekur við er athyglin, hrein, opin athygli. Athygli á öllu hið ytra og innra. Ekki túlkun á því sem upp kemur heldur aðeins athygli.

Þetta eru tvö skref: láta gagnslaust hugarreik dvína og halda athyglinni glaðvakandi.

Næsta skref er að bíða án tíma. Það er bara beðið, ekki vænst. Ekki búist við að biðin taki enda eftir einhverjar mínútur, klukkutíma eða daga. Það þarf að vera í „biðástandi”.

Þetta merkir ekki að maður sé aðgerðalaus, þvert á móti sífellt starfandi án strits. Þegar búið er að fjarlægja óþarfar hugsanalestir eða venjur sem íþyngja og taka frá okkur orku og tíma, er nægur tími og kraftur til að koma hlutum í verk. Reyndar er þá búið að fjarlægja þá hugsun að ekki sé nægur tími eða kraftur fyrir verkin. Hægt er að starfa án tíma, lifa án tíma. Lífið breytist í áreynslulaust ferli sem sífellt heldur áfram og er sjálfnærandi í andartakinu.

Þannig getum við öll látið lífið vera en fáum tekst það að marki.

Hamingjan, lífsgleðin og viðhorf okkar gagnvart öðrum eru í okkar höndum — en viljum við ná tökum á þessu?

Hægt er að byrja smátt. Setjast t.d. niður einn, loka augum og fylgjast með hvernig loftstraumurinn snertir nasirnar þegar við öndum að okkur og frá. Látum ekki glepja okkur til að halda að þetta sé merkilegra og flóknara en það er. Látum ekki neinn selja okkur þessa einföldu upplifun eða setja hana í heilagar eða dularfullar umbúðir orðagjálfursins. Látum ekki aðra telja okkur trú um að þeir geti gert þetta fyrir okkur eða við þurfum á öðrum að halda þegar um eigið innra líf er að ræða. Eigin þroski og þroskastefna verður að vera eigin ákvörðun. Gott er að fá ábendingar og einhverja fræðslu en reyna síðan sjálf(ur). Við verðum að prófa sjálf, gerum líklega mistök en höldum síðan áfram.

Frá vakandi athygli sem nemur allt án flokkunar er stutt yfir í ástand sköpunar. Þegar búið er að opna fyrir þann straum lífs eða þau lifandi tengsl sem eru alls staðar, kemur af sjálfu sér að við förum að skapa, búa eitthvað til. Á milli þessara tveggja vitundarástanda er svo stutt að annað getur vakið hitt. Það að skapa eitthvað getur á sama hátt leitt til vakandi athygli sem er laus við íþyngjandi hugsanir.

Í ástandi sköpunar streymir af sjálfu sér til okkar eitthvað sem við verðum að gefa frá okkur. Þetta er svo óljóst, fíngert og handan orða að við setjum það ekki á bása skilgreiningar heldur sýnum það í verki. Ekki skiptir höfuðmáli hvaða form sköpunin tekur á sig; hvort það er ljóð, saga, tónverk, málverk, smíðisgripur eða eitthvað annað. Gildi sköpunar liggur í ástandinu og þeim áhrifum sem það hefur á okkur og aðra, í lífinu sem streymir í gegnum okkur.

En formið ber með sér líf og þess meiri fegurð og samræmi sem er í forminu, því betur birtist lífið í gegnum það. En við þurfum ekki að hafa áhyggjur af formhlið lífsins, hún fær þegar mikla athygli, frekar þurfum við að huga að „lífhlið” lífsins sem of oft vill læðast fram hjá okkur.

Mikil endurnæring eða endurnýjun felst í að búa eitthvað til, það er vegna þess að þá streymir í gegnum okkur orka sem við föngum ekki í hinum eigingjarna huga heldur gefum frá okkur. Í ástandi sköpunar er vitundin farvegur og sá straumur sem getur farið þar um hreinsar um leið farveginn.