Að skara framúr

Eitt þeirra augljósu úrræða, sem treysta egoið í sessi og lyfta því upp yfir aðra, er metnaðurinn eða hinn ytri frami. Þjóðfélagið er mettað af þörfinni fyrir að skara fram úr á öllum sviðum. Þessari þörf er þó aðallega fullnægt á þeim sviðum, þar sem hún er framkvæmanleg fyrir hvern einstakling á hverjum tíma. Þess vegna breytist viðfang metnaðarins oft hjá sama einstaklingi.

Metnaðurinn byrjar yfirleitt á námsárunum í sambandi við árangur og einkunnir. Síðar tengist hann öflun fjár eða frama til dæmis í stjórnmálum. Sami maðurinn getur á vissu æviskeiði haft áhuga á að verða íþróttahetja. Síðar kann hann að gangast upp í að skara fram úr í dyggðum og að gerast mesti dýrlingurinn. Hann telur sig þá gjarnan hafa sigrast á metnaðinum. Hann ályktar sem svo, að íþróttaframi hafi ekki verið það, sem hann vildi í raun. Hann áttar sig ekki á að metnaðurinn hefur einungis breytt um mynd. Í raun skiptir ekki máli, að hverju metnaðurinn beinist, því meginatriðið er að skara fram úr eða vera öðrum fremri. Ef við skiljum ekki þetta grunnviðhorf, botnum við ekkert í breytingunum.

Sálfræðingurinn Alfred Adler, taldi baráttuna fyrir yfirburðum vera þungamiðju sálarlífsins. Skoðanir hans eru að vísu full mikil einföldun, þó að hrósa megi honum fyrir að hafa bent á mikilvægi þessarar baráttu og þann búning, sem hún klæðist í. Fullmikið er að segja að baráttan fyrir yfirburðum sé megintilhneiging mannlegs eðlis. Gegnir svipuðu um það og fullyrðingu Nietzsche, sem taldi að viljinn til að öðlast völd gegndi því hlutverki. Adler taldi minnimáttarkennd vera orsök þess að menn sæktust eftir völdum, virðingu og eignum.

Eins og áður sagði er einkenni metnaðarins svipað, hvort sem sóst er eftir að verða leiðtogi í þjóðfélaginu, að skara fram úr sem tónlistartúlkandi, vera hæfasti rithöfundurinn eða best klædda konan. Eðli framans má greina í annað hvort sókn eftir valdi eða eftir virðingu.

Metnaðurinn hefur raunsætt yfirbragð og sú orka, sem menn leggja í hann er augljós. Metnaðurinn virðist einnig raunsær að því leyti, að með heppni virðast menn öðlast, það sem þeir eru að sækjast eftir. Oft er það að þá fyrst þegar náð hefur verið þeim frama, sem sóst er eftir, er komið auga á tilgangsleysi og innhaldsleysi viðleitninnar og að hún er eftirsókn eftir vindi. Hugræn kyrrð, lífsgleði og öryggi eru ekki vaxtarbroddar metnaðarins. Vandinn, sem metnaðinum var ætlað að leysa, verður síst minni en áður. Þetta á við um hvern þann sem sækist eftir frægð, frama og upphefð. Metnaðurinn leiðir aldrei til neins þess konar og er óraunsær. Oft verða þeir gripnir mestri örvæntingu, sem ákafast hafa sóst eftir fé og frama, og öðlast þessi lífsins "lystisemdir" í ríkum mæli.

Það er mikil grunnfærni að einblína á þau form sem eftirsókn eftir valdi, virðingu eða fjármunum taka á sig í þjóðfélagi okkar. Þetta breytist með breyttum tímum og nýju þjóðfélagsformi. Kjarni málsins er áráttan og hvernig hún gegnsýrir allar athafnir okkar, bæði leik og starf og öll önnur þjóðfélagssamskipti og fjölskyldulíf. Við skulum athuga dálítið nánar þá samkeppni, sem um er að ræða og fram kemur vegna þessara tilhneiginga. Um er að ræða grundvallarviðhorf, sem fremur verður að líta á en afleiðingarnar eða einkennin, sem birtast í stöðu manna og aðstöðu, svo og þjóðfélagsformum. Þrjú atriði eru öðrum augljósari:

Í fyrsta lagi berum við okkur saman við aðra, jafnvel í atriðum og aðstæðum, sem ekki snerta samkeppni. Við berum okkur saman við fólk, sem ekki stefnir að sömu markmiðum og við, og er ekki á neinn hátt að keppa við okkur. Alltaf er verið að meta hver er betur gefinn, vinsælli eða meira aðlaðandi. Allir vilja vera fremstir og bestir á öllum sviðum. Um leið missum við áhugann á sjálfu málefninu eða efni máls. Það skiptir ekki lengur máli, hvað við erum að gera, heldur árangurinn, áhrifin eða álitið, sem fæst. Hjá sumum er þessi samanburður svo ósjálfráður, að þeir verða ekki varir við hann eða hversu mikilvægur hann er þeim.

Í öðru lagi felst metnaðurinn í mörgu öðru en því að ætla sér meira en aðrir. Hann er einnig fólginn í því að vilja vera einstæður eða óvenjulegur. Ef metnaðurinn er bældur, kemur þetta fram í draumórum, hugarburði eða óskhyggju um sérstakar gáfur, fegurð, siðferðilega yfirburði eða afrek og frama af einhverju tagi. Þetta er svo algengt að það fer fram hjá flestum og þeir veita slíkum hugsunum ekki athygli. Verði menn ekki varir við metnaðinn sjálfan, láta vonbrigðin sjaldnast lengi bíða eftir sér. Ef menn standast ekki próf, ná ekki árangri eða þeim mistekst, þótt ekki sé nema í smámunum, verður slíkt oft mikið mál fyrir þá.

Í þriðja lagi er mikill fjandskapur fólginn í samkeppninni og metnaðinum. Þetta felur í sér eftirfarandi viðhorf: Enginn annar en ég skal vera gáfaður, fallegur, ná árangri o. s. frv. Sigur eins er ósigur annars. Mönnum finnst þetta meira að segja eðlilegt. Sumum er jafnvel mikilvægara að sjá aðra sigraða en að sigra sjálfir. Framkoma þeirra er jafnan eins og að mikilvægara sé að sigra aðra en að þeir nái sjálfir árangri. Auðvitað er eiginn árangur mikilvægur. En þar sem margir eru haldnir miklum hömlum gagnvart velgengni, er oft sú eina leið opin að þeim finnist þeir hafa yfirburði með því að rífa aðra niður, draga þá niður á eigið plan eða neðar. Samkeppnisaðilanum er þá oft haldið niðri eða hann skaðaður. Um aðra eru höfð niðrandi ummæli, þeir lítillækkaðir og rægðir eða reynt að koma óorði á þá. Stundum skaðar þetta jafnvel eigin hagsmuni. En viðhorfið er þrungið tilfinningum og þar sem aðeins einn kemst áfram að hans áliti, skal það vera hann sjálfur.

Við lifum í samkeppnisþjóðfélagi og eigi má skilja orð mín svo að ég sé á móti samkeppni. Hún á sér sitt eðlilega hlutverk. En hana má ekki tengja lífshamingju og lífsviðhorfi manna, þannig að inntak lífstefnunnar verði að vera fremri og betri. Margir telja samkeppni alltaf óeðlilega. Ef við lítum á náttúruna, má sjá að samkeppnin, er þáttur hennar. Hér er ein þverstæða lífins, sem við sjáum ekki í gegnum fyrr en við höfum nálgast sjálf okkar, þ.e. atman og losnað við egoið. Meðan samkeppnin er tengd egoinu, er hún óeðlileg og óheilbrigð.

Margir hafa séð, að önnur stefna og önnur gildi, hljóta að vera þroskavænlegri en að keppa við aðra og skara fram úr þeim. Hin eina sanna lífsstefna er sjálfsþroski. Sú lífsstefna er frekar fólgin í því að losna við stefnur fremur en búa þær til. Því verður þó ekki neitað að við höfum öll tilhneigingar metnaðarins. Spyrja má hvers vegna upplifum við þær ekki og af hverju látum við ekki metnað okkar hafa óhefta útrás?

Þar kemur mjög margt til. Mikill kvíði fylgir samkepninni, einkum af því að menn telja að aðrir séu eins viðkvæmir og sárir og þeir sjálfir gagnvart ósigri. Við sjáum hin skaðlegu og eyðileggjandi áhrif metnaðarins og samkeppninnar. Við fyllumst kvíða, ef við ætlum að láta þessar tilhneigingar fá óhefta útrás. Ein ástæðan er að við óttumst svar í sömu mynt. Við vitum, að ef við stígum ofan á aðra, þá óska þeir að svara með svipuðum hætti. Þess vegna er allt gert til að réttlæta þessar tilhneigingar eða bæla þær. Þá snýst þetta oft við, eins og áður var lýst og menn geta þá ekki haft skoðanir eða tekið ákvarðanir. Menn einblína á neikvæðar hliðar eð galla annarra. Hefndarsigurinn gægist fram með óbeinum hætti. Við vitum einnig undir niðri, að metnaður og frami eru fánýtið eitt og oftast þjóðfélagslega skaðlegir. Ekki eru þetta þó alltaf nægar ástæður. Margir sjá engan annan tilgang í lífinu og hafa komist á "toppinn" með kænsku sinni og útsjónarsemi.

Kvíðinn, sem fram kemur vegna samkeppni og óhefts metnaðar, stafar af tvennu: Ótta við árangursleysi og ótta við árangur. Ef við lítum fyrst á ótta við árangursleysi, er hann í raun ótti við þá lítillækkun, sem árangursleysi hefur í för með sér. Öll mistök verða þá stórslys. Menn hafa ásett sér að ná ákveðnu ytra markmiði, t.d. árangri í skóla og þola ekki þá smán að fá lægri einkunn en þeir ætluðu sér. Stundum heldur viðkomandi, að aðrir muni hlakka yfir óförunum, viti þeir af metnaði hans. Þá óttast hann ekki aðeins lakan árangur, heldur það að aðrir verði varir við metnað hans og vilja til að ná árangri og þá miklu vinnu og erfiði, sem hann leggur á sig til að ná honum. Árangursleysi eitt sér væri þá fyrirgefið að hans mati, en hafi hann sýnt áhuga á annað borð, þá sitji fyrir honum óvinir, sem hakki hann í sig og hlægi að honum, ef hann sýnir veikleika, mistök eða árangursleysi.

Niðurstaðan getur því orðið með ýmsu móti. Ef viðkomandi óttast aðeins árangursleysi, verður það til þess að hann eykur viðleitni sína til að ná árangri og gerir allt til að forðast mistök. Ef hann á hinn bóginn óttast að aðrir uppgötvi metnað hans kemur hið gagnstæða í ljós. Þá þykist hann engan áhuga hafa og gerir ekkert í málinu. Sams konar ótti getur þannig leitt til gagnstæðrar afstöðu. Þar sem þetta er mjög algengt, má segja margar sögur af þessum viðhorfum, en aðstæður leyfa það ekki hér. Í stuttu máli má segja að mörgum finnst öruggara að forðast það, sem þá langar til að gera. Þeir taka enga áhættu, láta lítið bera á sér og eru hógværir frekar en að taka þátt í samkeppninni, sýna metnað sinn og hætta á ósigur.

Að óttast árangur hljómar einkennilega. Við vitum að árgangur skapar öfund og oft fjandskap, ekki síst milli samkeppnisaðila. Flestir verða aldrei varir við óttann, sem felst í því að vilja ekki styggja vini sína með betri árangri. Slíkur ótti er ekki óalgengur en oftast svo bældur að hann kemur aðeins fram óbeint, t.d. í hömlum. Margir tapa leik fyrir slysni, þegar sigurinn er vís, tala í lágum rómi og eru óáberandi, þegar þeir eru að segja mikilvæga hluti og afgerandi og setja sig á lægra andlegt plan til að þóknast viðmælanda sínum o. s. frv. Óttinn við að særa og lítillækka aðra með sigri sínum, býr þá í undirvitundinni og kemur ekki upp á yfirborðið.

Þá er á það að líta, að þótt menn nái árangri, gera þeir lítið úr honum, telja hann heppni o. s. frv. og margir verða í raun fyrir vonbrigðum vegna þess að árangurinn varð ekki eins mikill og til stóð. Ef við viljum vera fremst og fyrst en höfum jafnframt miklar hömlur gagnvart slíkum árangri, þá gerum við sama hlutinn ýmist vel eða illa. Alls konar höft myndast og við gerum minna úr okkur en efni standa til. Oft setjum við okkur á lægri stall en aðrir eða sköpum fjarlægð milli okkar og annarra og hlöðum þá hrósi, til að okkar "stóri" hlutur verði ekki of áberandi.

Minnimáttarkenndin er einn mesti skaðvaldur mannkyns, en hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Með því að gera lítið úr sér í eigin huga og setja sig á lægri stall en aðrir og halda metnaði sínum í skefjum, drögum við úr kvíða, sem metnaðinum og samkeppninni fylgir. Með því að gera lítið úr okkur, drögum við úr sjálfstrausti okkar. Sjálfstraust er þó alltaf nauðsynlegt til að ná árangri. Lögmálið er einmitt fógið í því, að við gerum minnst úr þeim hæfileikum, sem við viljum helst hafa eða að skari fram úr hjá okkur. Ef framaþörfin er á ákveðnu sviði gáfna eða hæfileika, er einmitt minnst gert úr þeim gáfum eða hæfileikum o. s. frv.

Þótt minnimáttarkennd þurfi ekki að vera vísbending um að við séum minni máttar í raun, er mjótt mundangshófið milli ímyndunar og veruleika. Með því að hafa vitund um eigin metnað, sjá að árangur verður sjaldan til jafns væntingar, vegna þeirra hamla og annarra þátta, sem ég hefi rakið, verður raunin sú að við gerum mistök eða okkur gengur ekki eins vel og vera ætti. Munur verður á getu og árangri, sem aftur eykur á minnimáttarkenndina. Draumórar koma í stað árangurs og þeir aukast í réttu hlutfalli við vöxt minnimáttarkenndar. Bilið breikkar stöðugt á milli draums og veruleik. Upp kemur öfund og reiði út í þá, sem betur vegnar og það myndast andlegur vítahringur, sem stöðugt eykur á minnimáttarkenndina. Vonleysi kemur upp og þar með meiri sannfæring um eigin smæð. Tilfinning vonleysis, biturleiks og vonbrigða heltekur sálina. Þannig hefur metnaðurinn, sem upphaflega var ætlað að lyfta sálinni og útvíkka persónuleikann, leitt til hins gagnstæða. Metnaðurinn snýst alltaf að lokum upp í andhverfu sína.

Enginn hefur lýst þessu þróunarferli eins meistaralega og Steinn Steinarr í kvæði, sem hann nefndi "Í draumi sérhvers manns". Það er í ljóðabókinni "Ferð án fyrirheits".

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.

Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg

af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið

á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir

að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.

Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,

og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti

og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,

í dimmri þögn, með dularfullum hætti

rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum

í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.

Hann lykur um þig löngum armi sínum,

og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Jón L. Arnalds:

© Guðspekifélagið