Að elta eigin ímyndir

Að elta eigin ímyndir

Í síðasta tölublaði Mundilfara var rætt um kröfuna sem við gerum til umheimsins. Hinu ytra fáum við ekki breytt aðeins hinu innra. Oft viðurkennum við ekki okkar eigin mannlegu takmarkanir.

Hér verður rætt um kröfur sem við gerum á okkur sjálf. Horft verður inn á við en ekki út. Við vinnum stöðugt að því að fullkomna okkur, og reynum að verða sú ímynd sem við höfum sett okkur. Við reynum að gleyma því, hvernig við raunverulega erum en minnumst þess fremur, hvernig við ættum að vera. Hér finnst okkur sjálfsímyndin skipta miklu máli. Við ættum til dæmis alltaf að vera skilningsrík og tillitssöm, eða athafnasöm og mikilvirk.

Í öllum trúarkerfum er lögð áhersla á að menn læri að greina rétt frá röngu, veruleik frá ímyndun. Bæði Búddisminn og Vedanta-heimspekin benda á nauðsyn þess að losnað sé við egóið, ef árangur á að nást og nefna má það því nafni. Ramana Maharshi segir á einum stað: "Egóið er í raun vofa, sem sjálf hefur ekkert form, en heldur sér fast í allt form, sem það nær tökum á. Hafi egóið náð taki á formi, hefst formið á flug. Þar sem allt stendur og fellur með egóinu er eyðing þess með sjálfskönnun eina raunverulega leiðin til að afmá það og öðlast fullkomið frelsi. Ef vitundin losnar við "ég-ið" nær hún raunverulegu ástandi".

Það er of langt mál að telja upp allt það, sem við ætlum að gera, vera, vita, þekkja, vilja, finna o. s. frv. eða hitt, sem við ætlum ekki að vera eða gera. Flestir vilja vera til fyrirmyndar, t.d. fyrirmyndarforeldri, maki, vinur, verkmaður eða félagi. Ef mönnum er sagt, að þeir ætlist til of mikils af sjálfum sér, taka þeir því sem hrósi. Það er viðhorf margra, að betra sé að gera meiri en minni kröfur til sjálfs sín. Og menn hafa jafnan trú á því, að þeim muni takast að einhverju leyti að þvinga sig til þeirra markmiða og ímyndar, sem þeir hafa sett sér.

Ef manni sem er í dásvefni er sagt að gera eitthvað, þegar hann vaknar, hlýðir hann því undantekningarlaust. Ef honum er t.d. sagt að fleygja einhverjum á dyr, af því að hann sé grunsamlegur, verður sá aðili honum grunsamlegur í raun og hann fleygir honum út. Upprunaleg viðhorf mannsins verða ekki greind frá þeim sem honum voru innprentuð í dásvefninum. Sama er að segja um markmið okkar og ímynd, við samsömum okkur þeim og greinum þau ekki frá dýpri veruleik okkar. Tilbúninginn sjáum við ekki. Raunverulegar hugsjónir okkar og viðhorf hverfa, þegar skyldumarkmið og uppgerðarfyrirmyndir hylja þær. Við teljum okkur gerð á einn eða annan veg, þótt allt sé þetta tilbúningur. Sá sem hefur einsett sér samviskusemi trúir að hann sé samviskusamur að eðlisfari og svo framvegis.

Yfirleitt er horft fram hjá því, hvort mögulegt sé að framkvæma markmiðin. Ekki er horfst í augu við þær aðstæður, sem búið er við. Kona hyggst t.d. vera fyrirmyndareiginkona, ástmær og móðir, jafnframt því að vinna úti og vera fyrirmyndarstarfsmaður, stunda félagsstörf af kappi og ná frama í félagsmálum. Takmörkun á tíma og kröftum er ekki viðurkennd. Þegar í ljós kemur að eitt atriðið líður fyrir annað, sem að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt, þá breytir skynsemin engu í því sambandi. Hún skal samt. Sjálfsásakanir gera vart við sig ef henni mistekst á einhverju sviði. Sjálfsskoðun hefur lítið með skynsemi að gera, nema sem upphaf. Skynseminni er oft beitt gegn framförum og þroska. Það sem gildir er að upplifa sjálfan sig tilfinningalega, hæfileikinn til að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og öðrum, og að viðurkenna eigin markmið og gerðir.

Þessi viðhorf eru einkum rík gagnvart fortíðinni. Hversu oft og mikið hefur okkur ekki mistekist í lífinu? Þegar fortíðin er dæmd, hættir okkur til að gleyma því, að við fæddumst með ákveðna eiginleika, sem við gátum engu ráðið um hverjir voru og ættum ekki að hrósa okkur af, frekar en kostum hestsins okkar, svo vitnað sé í Epiktet. Það umhverfi, sem við ólumst upp í, fengum við heldur engu ráðið um. Ég er ekki að mæla með ábyrgðarleysi. Það væri ábyrgðarleysi að kenna hér öðrum um. Þeir eru og voru í sömu stöðu. Sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum, sagði Epiktet. Hins vegar er alrangt að dæma fortíðina út frá þörfum og markmiðum nútímans. Við erum í raun að dæma okkur í fortíðinni út frá sjálfsímynd, eins og hún er núna. Sjálfsímyndin er tilbúningur hugans, sem að mestu hefur mótast af umhverfinu. Okkur finnst hún veruleiki, því við höfum einsett okkur að verða hún. Að skella skuldinni á sjálf okkur fyrir að geta ekki verið sú ímynd, sem við höfum búið til, er ábyrgðarleysi, því ekki er horft á staðreyndir. Óskhyggjan ræður ferðinni. Tilgangslaust er að reyna að breyta fortíðinni. Það sem skiptir máli, er hvort við erfiðleika sé að etja núna og hvort sigrast megi á þeim. Meginatriðið er að nota nú sinn innri mann til að komast að rótum vandans og uppræta hann. Nota tímann til innri þroska og horfa fram. Sá, sem hættir sjálfsásökunum og lætur vera að kenna öðrum um, er því kominn á rétta leið.

En við álösum okkur ekki einungis vegna fortíðarinnar. Við erum stöðugt að væna okkur um mistök og fákunnáttu. Okkur líkar miður að hafa gert eða ekki gert eitt eða annað og vissulega getum við skoðað mistök okkar og reynt að læra af þeim. Erum við ekki að reyna að gera okkar besta? En það er ekki nóg, segjum við oft, við hefðum átt að gera betur. Því uppteknari sem við erum af sjálfsímyndum og markmiðum, sem við höfum einsett okkur að ná, þeim mun haldnari erum við af skyldum, sem hljóma eitthvað á þessa leið: ég ætti, ég skal eða ég hefði átt, með tilheyrandi sjálfsásökunum. Alla erfiðleika á þá að yfirstíga fljótt.

Því dýpra sem við lifum í ímyndunarheimi, þeim mun vandlegar breiðum við yfir erfiðleikana. Sumir reyna að fjarlægja erfiðleikana með viljastyrk og gera örvæntingarfullar tilraunir til að láta vandann hverfa. En margur vandinn tekur ekkert mið af viljanum og haggast hvergi. Sumum er það minna áhyggjuefni að sjá ekki vandann en hitt, að geta ekki losnað við hann á stundinni. Í stað þess að skoða vandann, sem er fyrsta skrefið í rétta átt, beinist öll orkan að því að láta hann hverfa. Að skoða vandann í heild sinni og reyna að grafast fyrir erfiðleikana er talið veikleikamerki eða jafnvel ósigur. En gervimennska með viljastyrkinn er venjulega árangurslaus. Í besta falli er vandinn settur undir meiri stjórn, bældur enn meira, og hann gengur þá frekar aftur á dulinn hátt.

Ef við berum saman annars vegar hreinar hugsjónir og háleit markmið og hins vegar þá staðla og skyldur sem við setjum okkur, þá blasir fyrst við að markmið innri skyldna er að uppræta ófullkomnun af einhverju tagi. Það er að segja, við viljum láta líta út, svo sem hinum fullkomna þætti sé náð. Svo er þó ekki, heldur er um að ræða yfirskyn eða sýnd hins fullkomna. Sýnd í eigin og annarra augum. Ekki er um að ræða siðferðilega alvöru, þar sem leitast er við að bæta sig skref fyrir skref, heldur er reynt að ná algerri fullkomnun þegar í stað. Hinu fullkomna er náð í ímynduninni eða það bíður jafnan á næsta leiti. Og niðurstaðan verður fullkomin hegðun, þótt það geti einnig brugðist. Þungamiðjan færist frá hinum innra manni upp á yfirborðið, í allri framkomu. Jafnvel "heimspeki klæðaburðar" tekur við, eins og D.T. Susuki hefur nefnt. Hann segir klæðaburðinn vera heimspeki þess sýndarheims, þar sem allir klæða sig þannig að þeir sýnist í annarra augum, annað en þeir eru.

Stundum gengur þetta það langt að skoðanir, tilfinningar, hugsanir og gerðir eru mótaðar af því sem aðrir ætlast til. Annarra skoðanir skipta þá miklu máli. Menn verða þá að hafa skoðanir sem falla í kramið. Nauðsynlegt er að hafa réttar skoðanir og þá hegðun sem við á við ríkjandi aðstæður. Listaverk, bókmenntaverk og tónlist verða góð eða vond eftir því, hver hefur skapað þau. Gagnrýnið hugarfar er bælt. Tæmandi lýsing verður ekki gefin á þessum skyldum, sem að miklu leyti ráða þeirri tilhneigingu manna að vilja vera eðlilegir og "normal", eða eins og almennt er ætlast til. Aðlögun að ríkjandi siðum og hugsunarhætti verður á kostnað Sjálfsins. Hegðun verður öll siðvenjubundin og viðkomandi hegðar sér vélrænt, eins og hann sé án vilja eða vitundar. Því þarf ekki endilega að vera um siðferðilegar skyldur að ræða, því skyldurnar fylgja sjálfsímyndinni og þjóðfélagið hvetur til annarra ímynda en siðferðilegra.

Því betur sem við sjáum eðli hinna innri skyldna, verður okkur ljósari munur á þeim og einlægum og hreinræktuðum siðferðismarkmiðum og hugsjónum. Ekki er um að ræða mun á magni, heldur gæðum. Auðvitað er siðferði mikilvægt í okkar lífi og nauðsynlegt allri þroskaviðleitni. Eðlilegar hugsjónir eru manns eigin innstu óskir sem veita frelsi og styrk. Að hlýða skyldunum, er eins og hlýðni við lög þjóðfélagsins. Það er alvarlegt mál, ef ekki er farið eftir þeim. Ef ekki er orðið við skyldunum, kostar það venjulega sjálfsásakanir og kvíða, sem oft er ekki veitt athygli.

Stundum standa menn frammi fyrir gagnstæðum skyldum svo að erfitt getur verið að taka ákvörðun. Kona ætlar t.d. að vera hvorutveggja, fyrirmyndar móðir og fyrirmyndar eiginkona. Hið síðarnefnda getur þá leitt til þess, að hún þurfi að sýna endalausa þolinmæði gagnvart drykkfelldum eiginmanni. Oft er um að ræða tvö gagnstæð skyldumarkmið, sem rekast á og viðkomandi finnst að hann þurfi að sinna báðum. Ef menn spyrja sig, hvað þeir raunverulega vilji sjálfir, kemur oft í ljós, að bæði markmiðin falla um sjálf sig og þriðja óskin kemur upp á yfirborðið. Sú ósk hafði verið bæld, en var næst sjálfinu. Sem dæmi mætti nefna, að maður verður andvaka vegna þess að hann getur ekki tekið ákvörðun um, hvort hann á að fara í ferðalag með eiginkonunni, af því að hún ætlast til þess eða vera í vinnunni, af því að vinnuveitandinn ætlast til þess. Maðurinn veltir fyrir sér væntingum konunnar annars vegar og vinnuveitandans hins vegar og hvorum aðila hann ætti frekar að geðjast, en kemst ekki að neinni niðurstöðu. Hann spyr sig ekki að því, hvað hann vilji raunverulega sjálfur.

Þannig eru skyldurnar oft skinheilagar og einkennast af uppgerð og yfirdrepskap. Menn sýna dyggðir, sem þeir þykjast hafa. Máli skiptir fyrir þá, hvort tvöfeldnin er uppgötvuð eða ekki. (T.d. hvort maki kemst að framhjáhaldi eða ekki.) Hvort Guð almáttugur sér til, skiptir þá litlu máli, nema skyldan sé honum tengd. Frægustu skilgreiningu á mismuninum á yfirborðslegri uppfyllingu skyldunnar annars vegar og heilshugar athafnar hins vegar, er að finna í fyrsta Korintubréfi Páls postula, 13. kafla, sem hefst með þessum orðum: "Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, yrði ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að ég yrði brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari".

Þótt við uppgötvum skyldumarkmiðin, getum við oftast lítið að gert. Okkur finnst ekkert gerast, ef við gefum þau upp á bátinn. Við teljum þvingun meira og minna nauðsynlega. Að þvinga sjálfan sig og aðra sé hreyfiafl hlutanna. Það er ekki fyrr en við uppgötvum önnur öfl í okkur, sem starfa sjálfkrafa, að við getum kvatt skylduna.

Þegar í æsku, tökum við mikið tillit til annarra, einkum foreldra. Við höldum, að hinir fullorðnu hafi rétt að mæla. Þegar við gerum okkar eigin mælistiku á það, hvað er gott eða vont, æskilegt eða óæskilegt o. s. frv., þá tökum við að einhverju leyti að láni mælikvarða annarra. Ef sá mælikvarði er algerlega tekinn utan frá og eigin dómgreind ræður litlu, þá færist þungamiðja sálarlífsins úr sjálfum okkur og yfir til umhverfisins. Þetta hefur samt verið mörgu barninu óhjákvæmilegt og nauðsynlegt. Ekkert rúm er hér til að útlista það, en nefna má að börn kaupa sér frið með því. Sá sem almennt fylgir viðurkenndum þjóðfélagsstöðlum, kemst hjá árekstrum við umhverfið. Meira að segja, telur margur maðurinn sig sýna yfirburði með því að fylgja siðastöðlum stranglega. Hann getur þá dæmt aðra, sem hann telur vera á lægra þroskastigi. Sá sem hefur selt vilja sinn fyrir skyldur, reglur og staðla, hefur e.t.v. enga aðra útleið en að reyna að sigra aðra með yfirburðum í "dyggðum og réttlæti".

Allri gervimennsku fylgir kvíði, m.a. fyrir því að í gegn um mann verði séð. Allt sem við gerum verður tilgangslaust og leiðigjarnt, ef við gerum það að skyldu. Það er munur á þeirri grímu, sem snýr út og þeim bakgrunni, sem inn snýr. Jung notaði orðið "persona" yfir þessa grímu. Ótti við vanþóknun annarra situr þá í fyrirrúmi. Við getum heldur ekkert gert við því, þótt við höfum innbyrt mikið af gervisiðferði. En minnumst þess, sem William James sagði: "Að gefa sýndarmennsku upp á bátinn, er jafnmikill léttir og að fá henni fullnægt."

Skyldan er alltaf í eðli sínu skaðleg, því hún setur okkur í spennitreyju og rænir okkur innra frelsi. Ef okkur tekst að móta okkur til fullkominnar hegðunar, gerum við það alltaf á kostnað frjáls vilja, ósvikinna tilfinninga og upprunalegra eða trúverðugra óska okkar. Markmið skyldusjónarmiða er útrýming einstaklingsins eða sjálfsins. Gildir um þetta ekki ósvipað og þegar þjóðir búa við pólitíska harðstjórn. Andrúmsloftinu er vel lýst í bókinni "1984" eftir George Orwell, þar sem öll sjálfstæð hugsun og tilfinningar liggja undir grun. Krafist er skilyrðislausrar hlýðni, sem engum finnst þó vera hlýðni. Þegar um er að ræða pólitíska harðstjórn, þá reyna menn öll ráð til að komast hjá henni. Menn sýna þá tvöfeldni, sem þeim er þó alveg ljós. Aftur á móti þegar um er að ræða hina innri harðstjórn, þá er hún ómeðvituð, og tvöfeldnin ber keim af uppgerð og tilbúningi, þ.e. einkenni hennar er ómeðvituð sjálfsblekking.

Við getum aldrei mótað okkur í hina fullkomnu mynd. Við getum aðeins fullkomnað okkur með því að hætta að samsama okkur við þessa ímynd, sjá innihaldsleysi hennar og nálgast Sjálf okkar, atman, með því að starfa í samræmi við innsta eðli, sjálfkrafa og án þvingunar.

Jón L. Arnalds Grein þessi birtist í Mundilfara Janúar 2000

© Guðspekifélagið