Á valdi örlaganna

Í Handbók Epiktets, þýðingu dr. Brodda Jóhannessonar, segir svo í upphafi: "Sumt í þesum heimi er á valdi voru, en annað ekki. Hugmyndir, fýsnir, ílöngun og andúð eru á valdi voru. Í fám orðum sagt, allt, sem er vort eigið verk. Líkami vor, fjármunir, virðing og sýsla eru ekki á valdi voru. Í fám orðum sagt, allt, sem er ekki vort eigið verk. Það sem er á valdi voru, er í eðli sínu frjálst, haftalaust og óhindrað. Hitt, sem er ekki á valdi voru, er vanmátta, þrælkað, heft og háð öðrum. Minnstu því, að ef þú hyggur það vera frjálst, sem er ófrjálst í eðli sínu, og ef þú ætlar þér vald á því, sem annarra er, þá hlýtur þú andstreymi af, þjáningu og eirðarleysi og ámælir bæði Guði og mönnum. En ef þú telur þig eiga það eitt, sem þú átt, og annarra efni vera þér óskyld, svo sem þau eru í raun, þá mun enginn geta þröngvað kosti þínum, enginn standa gegn þér, þú munt engan fjandmann eiga, því að ekkert getur vakið þér þjáningu. Ef hugur þinn stendur til svo hárra hluta, þá gerðu þér ljóst, að þú munt ekki aðeins þurfa að leggja þig hóflega fram, heldur hafna ýmsu með öllu, en neita þér um margt um stundarsakir. En ef þú sælist jafnframt eftir því, hvort heldur það er metorð eða auðæfi, þá öðlast þú þau jafnvel ekki, þar sem þú girnist hitt að auki. Að minnsta kosti muntu fara á mis við það, er eitt veitir frelsi og hamingju. Kappkosta þú því að segja við sérhverri ógeðfelldri hugmynd: Þú ert hugarburður einn, en ekki það, sem þú sýnist vera. Því næst skaltu rannsaka hana og prófa með þeim reglum, sem þú hefur tamið þér, en einkum þeirri meginreglu, hvort hugmyndin á við það, sem er á valdi voru, eða ekki. Ef hún á við það, sem er ekki á valdi voru, þá skaltu hafa svarið á takteinum: Þetta kemur mér ekki við".

Hugurinn sér hina fjarlægustu og takmarkalausu möguleika. Markmið eru sett og æskileg sjálfsmynd búin til. Á hinn bóginn hafa upplag okkar og umhverfi sett sín takmörk. Veruleikinn er oft í litlu samræmi við óskir okkar og kröfur. Segja má, að um tvær veraldir sé að ræða, innri veröld og ytri, sem engan veginn eiga saman. Eins og maðurinn sagði: "Ef raunveruleikinn truflaði mig ekki, væri allt í lagi". Við gleymum því oft, að önnur veröldin er óháð okkur og þar höfum við engin yfirráð, en hin er okkar eigin tilbúningur. Innri veröldinni má breyta. Yfir hinni ytri höfum við lítið vald. Einn mesti þröskuldur í mannlegum þroska er einmitt sá, að þessar staðreyndir eru ekki viðurkenndar heldur er þeim afneitað.

Við höfum öll okkar takmarkanir og ráðum litlu um þá staðreynd. Við ráðum ekki upplagi okkar né umhverfi. Þótt við trúum á karma fáum við engu breytt um fortíðina. Við eigum öll við erfiðleika að etja. Hugsun og viðhorf hafa alltaf fólgna í sér erfiðleika, og synd væri að segja, að hin ytri veröld taki okkur sem guði. Við gerum sífellt villur og axarsköft. Við erum ýmist vanvirt eða okkur er sýnd lítil virðing. Við fáum aldrei það sem við viljum. Ýmist er það óholt, ósiðlegt eða ólöglegt, eins og Churchill komt að orði. Hamingjan er fallvölt. Það sem við hugsum og gerum hefur oft rangar eða slæmar afleiðingar. Að viðurkenna þetta ekki er að afneita lögmálum hugsunar og tilfinninga.

En svo virðist sem við ætlumst til þess, að þetta sé öðruvísi. Við gerum kröfu til þess. Þeirri kröfu verður aldrei fullnægt. Í stað þess að sætta sig við þá staðreynd í eitt skipti fyrir öll, lifum við sífellt í voninni um betri tíð með blóm í haga. Og vissulega getur komið batnandi tíð. En hún kemur ekki hið ytra. Aðeins hið innra.

Í Handbók Epiktets 5. kafla segir: "Ekki eru það atburðirnir sjálfir, sem áhyggjum valda, heldur horf manna við þeim. Dauðinn er t.d. ekki skelfilegur, ella hefði hann einnig komið Sókratesi þannig fyrir sjónir. Skelfileg er einungis sú skoðun, að dauðinn sé skelfilegur. Ef eitthvað hamlar oss, raskar hugarró vorri eða hryggir oss, þá skyldum vér engan annan sakfella en oss sjálf, þ.e.a.s. viðhorf sjálfra vor. Vanþroska maður þekkist af því, að hann sakar aðra um, ef honum farnast miður. Sá, sem áfellist sjálfan sig, er kominn nokkuð áleiðis, en sannmenntaður maður ber hvorki sjálfan sig né aðra sökum". Í 20. kafla segir: " Minnstu þess, að sá svívirðir þig ekki, er hæðir þig eða slær, heldur viðhorf þitt, að þér sé svívirða í slíku. Ef einhver reitir þig til reiði, þá vit, að hugmynd sjálfs þín ein ertir þig. Gæt þess því fyrst, að láta enga hugmynd þína æsa þig. En ef þú hefur stillt þig einu sinni og gefið þér tóm til íhugunar, mun þér síðar verða hægara að stjórna skapi þínu".

Svo dæmi séu nefnd, þá gerum við kröfur á aðra, á stofnanir og þjóðfélagið og jafnvel á lífið sjálft. Við gerum kröfu til þess að hafa vald yfir því, sem við höfum ekkert vald yfir. Þeir, sem alltaf þurfa að hafa rétt fyrir sér, gera kröfu til að vera ekki gagnrýndir eða véfengdir. Þeir, sem sækjast eftir völdum krefjast hlýðni. Þeim, sem gaman hafa af að stríða öðrum eða spila með þá, má aldrei stríða eða gabba þá. Aðrir heimta skilning eða ást. Sumir heimta frið og að fá að vera ótruflaðir. Gagnvart stofnunum vilja menn njóta hins hagstæða, sem þær hafa að bjóða, en reiðast, gerist hið gagnstæða.

Sumir þola ekki umferðarreglur, aðrir ekki próf og enn aðrir ekki lélega tónlist. En við getum aldrei orðið undantekning, en einmitt mjög margar kröfur um vald á hinu ytra ganga út á það. Lífið og lögmálin taka jafnan til okkar, hvort sem okkur þykir ljúft eða leitt. Ef við erum stolt, er auðvelt að særa okkur. Ef við höfum enga væntumþykju gagnvart okkur sjálfum, trúum við ekki að aðrir hafi það. Ef við ætlum að ná árangri, verðum við að leggja í það vinnu og orku o.s.frv. Í heimi hlutveruleikans, þar sem ég er ég, gildir lögmál orsaka og afleiðinga og við komumst aldrei hjá því. Við erum öll háð sömu náttúrulögmálum og verðum sjálf að breyta okkur sjálfum, ef nokkur árangur á að nást. Enginn er undanþeginn.

Við gerum jafnvel kröfu um vald yfir lífinu sjálfu. Lífið er ótryggt og afar takmarkað. Örlögin eru fallvölt. Við getum alltaf orðið fyrir ógæfu, slysi, veikindum og dauða. Og við getum ekkert við því gert eða afar lítið. Við getum ekki krafist lífs, sem er þægilegt og þjáningalaust. Við erum ekki friðhelg eða hin útvöldu. Við getum látið eins og ekkert snerti okkur, eða muni koma fyrir okkur, en svo verðum við fyrir áfalli og brotnum saman. Þá reynum við kannski að gera allar hugsanlegar varúðarráðstafanir, því krafan um vald á örlögunum er ekki lögð niður. Sumum finnst líka ósanngjarnt, að einmitt þeir eigi við tiltekna erfiðleika að etja, en ekki aðrir. En slík krafa á lífið og örlögin er tilgangslaus og á meðan við ekki sjáum það og enn síður upplifum það tilfinningalega, viðhöldum við kvíða og hamingjuleysi.

Það væri að æra óstöðugan að telja upp þær kröfur, sem menn gera til valds yfir hinu ytra, hvort sem eiga í hlut persónulegir og ópersónulegir aðilar eða lífið og örlögin. Ég vil vitna enn í Handbók Epiktets, 14. kafla, þar sem segir: "Fávís ertu, ef þú kýst, að börn þín, kona þín og vinir lifi um aldur og ævi, því að þá kýst þú þér vald á hlutum, sem þú átt engin ráð á, og vilt eiga það sem annarra er. Heimskur ertu einnig þá, er þú kýst, að þjóni þínum verði engar yfirsjónir á, því að þá kýst þú, að breyskleikinn sé ekki breyskleiki, heldur eitthvað annað. En ef þú kýst, að ílöngun þín valdi þér ekki vonbrigðum, máttu ráða því. Þjálfaðu þig í því, sem er á valdi þínu. Öllum fremri er sá, er ræður því, hvað hann girnist og hverju hann hafnar, og kann lag á að öðlast annað, en forðast hitt. Sá, er frjáls kýs að vera, má ekkert girnast og ekkert fælast, sem er á valdi annarra, því að ella hlýtur hann að verða þræll þess".

Ímyndunaraflið gegnir miklu hlutverki í öllum þessum leik. Allar þessar kröfur um að hafa hið ytra á okkar valdi eru sprottnar af ímyndunaraflinu. Sjálfsímyndin er aðeins hugmynd eða tilbúningur. Sá sem er óraunsær gagnvart sjálfum sér, er óraunsær gagnvart öllu öðru. Öll andleg starfsemi er hlaðin ímyndunarafli. Ímyndunaraflið getur gert okkur andlega rík eða fátæk og það getur verið nær eða fjær sannleikanum. Ekki skiptir máli, hvort einn hefur meira ímyndunarafl en annar, heldur hitt, hvernig hann notar það. Notum við það í þjónustu óska okkar, þarfa og girnda, dreymir okkur um stóra hluti í veraldlegum efnum eða notum við það í þeim praktíska tilgangi, sem það er skapað til, að gera okkur lífið léttara í heimi hlutveruleikans? Samsömum við okkur hugmyndunum og gerumst þjónar þeirra í stað þess að stjórna þeim og láta þær þjóna okkur? Sannast sagna eru því ekki takmörk sett, hvað ímyndunaraflið getur teygt sig langt. Þar er um að ræða ótakmarkaða möguleika.

Að samsama sig eigin hugmyndum um sjálfsímynd, sem er einungis óskhyggja, er í raun ferðalag inn í gæfusnauða veröld. Þeirri veröld hafa öll stórmenni sögunnar hafnað. Þar má minnast Jesú, er hann afneitaði freistaranum. Takmarkaleysi ímyndunaraflsins er leið hinna takmarkalausu blekkinga. Takmarkaleysi hins algilda er afneitun ímyndunaraflsins sem veruleika. Til þess að svo megi verða, þurfum við að sjá, hvert ímyndunaraflið leiðir okkur, hvaða hugmyndir við gerum um okkur sjálf, hvaða sjálfsímynd við tileinkum okkur. Fyrsta forsendan er að losna við egóið í einhverjum mæli. Það gerist varla í einni svipan. Við þurfum smátt og smátt að brjóta það niður. Egóið verður ekki upprætt nema það sé skoðað og undan því grafið frá öllum hliðum. Að losna við kröfur um vald á umheiminum er einn liðurinn í þeirri viðleitni og fyrsta lífsreglan sem við ættum að setja okkur.

Eðlilegar óskir spretta af eðlislægri hneigð hvers og eins. Við höfum öll okkar líkamlegu og andlegu þarfir. Við þurfum að þroska getu okkar, vaxa, upplifa o. s. frv. Krafan um vald á hinu ytra sprettur hins vegar af tilbúningi okkar eigin huga, markmiðum og sjálfsmynd. Grundvallarmunur er á þessum forsendum. Afleiðingarnar verða líka mismunandi. Ólíkt er að læra stig af stigi eða heimta það að vera útlærður. Eitt er að ganga á fjall, annað að vilja aðeins vera á toppnum. Menn missa sjónar á þróun og þroska. Einnig gerist það, að sjálfsímynd og markmið falsa hlutveruleikann að því leyti, að hann verður meir og meir innri hugmyndir, óháðar hinu ytra. Menn hætta að sjá mismun hins raunverulega og óraunverulega. Menn vilja sýnast í stað þess að vera.

Eina leiðin út úr þessu er að flýja ekki frá baráttu við sjálfan sig. Annars höldum við eilífðarvélinni gangandi. Við verðum að athuga, hvað okkur finnst lítillækka okkur, vanvirða og sýna getuleysi okkar. Við verðum að gangast undir þá lítillækkun að ráða ekki lífi og dauða, að við erum háð lögmálum orsaka og afleiðinga, óttumst bæði menn og hluti, skiljum ekki allt í einu vetfangi, sitjum uppi með ófullkomið fólk, ófullkomna félaga o.s.frv. Í raun erum við að vilja það ómögulega. Með því að viðurkenna takmarkanir okkar sem manneskjur, getum við smátt og smátt fundið okkur sjálf. Sá veggur, sem er milli okkar og innra manns okkar, lækkar þá og rofnar. Kierkegaard sagði eitt sinn: "Svo virðist sem við skynjum því aðeins hið mögulega, að við óskum ekki hins ómögulega. Það gefur okkur tilfinningu fyrir innra frelsi". Við verðum að upplifa okkar eigin ótta til að finna brautina til frelsis og sjálfsþroska.

Ef mönnum lýst ekki á eitthvert verk og þeir eru fyrirfram leiðir og þreyttir, má benda þeim á, að þeir geti tekið verkefnið sem áskorun eða próf í hugvitssemi og hæfni. Þá hverfur þreytan og menn geta afkastað ótrúlegum hlutum. Þetta sannar aðeins hversu viðhorfið ræður miklu. Ég get ekki stillt mig um að vitna enn einu sinni í Handbók Epiktets, 10. kafla: "Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þú sérð fagran karl eða fagra konu, er þér styrkur að sjálfsstjórn þinni. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar, og ef þú ert svívirtur, neytir þú umburðar þíns. Ef þú temur þér þetta, munu engir dyntir leiða þig afvega". Og 9. kafli: "Sóttin er hamla á líkamanum, en ekki viljanum, nema hann kjósi sjálfur, að svo sé. Heltin hamlar fætinum að vísu, en viljanum ekki. Segðu sjálfum þér þetta, hvert sinn er á bjátar, og þú munt komast að raun um að atburðirnir hamla einhverju öðru en þér".

Í sannleika sagt er lífið sífellt að leggja fyrir okkur þrautir til að leysa. Oft eigum við fullt í fangi með viðfangsefnið, svo ekki sé meira sagt. Við eigum að sjálfsögðu að taka þessu eins og prófraun, sem lögð er fyrir okkur til að læra af henni, þroskast. Því miður standast margir ekki prófið og láta bugast. Það sem gildir, er í raun að nota erfiðleikana og mótlætið til sjálfsþroska. Erfiðleikarnir eru raunverulega fagnaðrefni, sé þannig á þá litið. Þeir eru hvatning og veita tækifæri, sem ella kæmu ekki til. Mótlætið er til þess gert að þroska okkur. Lífið hefur ef til vill ekki annan tilgang.

Sá sannleikur verður aldrei of oft sagður, að því lausari sem við erum við hugmyndir okkar og markmið og þau verða ekki hluti af okkur sjálfum, þeim mun frjálsari, sjálfstæðari og góðviljaðri verðum við. Óskir okkar skipta þá minna máli og við getum betur upprætt þær og losnað við þær. Og því meira sem við nálgumst sjálf okkar, þeim mun færri verða óskirnar. Þótt ég hafi gert mun á óeðlilegum kröfum á hið ytra og eðlilegum, virðast allar kröfur óþarfar, þegar allt kemur til alls. Þegar við nálgumst hið algilda eru allar óskir horfnar. Þær hafa misst gildi sitt.

Kröfur um vald á umhverfinu, sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni, eru einn hlekkur í keðju, sem heldur okkur í fjötrum egósins. Þessi keðja er þannig, að alla hlekkina verður að rjúfa, ef losna á við fjötrana. Krafan á hið ytra er ekki ómerkilegri hlekkur en aðrir hlekkir. Ef byggja á hús, er nauðsynlegt að byrja á kjallaranum. Gott er að hafa hann traustan. Þótt hann sé oft talinn ómerkileg húsakynni, gegnir hann sínu mikilvæga hlutverki. Sálfræði er að mínu mati að mörgu leyti kjallarinn í þeirri byggingu, sem við stöndum að, til að búa í haginn fyrir mystíska reynslu eða skynjun heimsblekkingarinnar. Ég geri ekki lítið úr gildi annarra hæða byggingarinnar, en sumum virðist stundum yfirsjást bygging kjallarans, áður en farið er að reisa aðrar hæðir.

Mín reynsla er sú, að ekki sé kleift að nálgast hið algilda, án þess að losa sig samtímis við egóið. Við léttum fjallgönguna miklu til hins algilda að svo miklu leyti, sem við losum tak egósins á Sjálfi okkar. Til fjallstindsins liggja margar leiðir. Sérhver finnur ósjálfrátt sína bestu leið.

Jón L. Arnalds