MERKI LÍFSPEKIFÉLAGSINS er sett saman úr mörgum táknum. Öll hafa þau verið notuð frá fornu fari til þess að túlka með djúpstæðar andlegar og heimspekilegar hugmyndir um manninn og alheiminn. Þau má finna í mismunandi formi innan hinna miklu trúarbragða heimsins, og algildi þeirra kemur ennfremur fram í því að þau eru notuð í ólíku menningarumhverfi. Það getur orðið til aukins skilnings að rannsaka hvert tákn út af fyrir sig. Saman í merkinu gefa þau til kynna geysimikla þróunarheild sem felur í sér alla náttúruna efnislega og andlega, og athugun þeirra leiðir hinn alvarlega leitanda til umhugsunar um dýpstu leyndardóma tilverunnar.
Það er ekki hægt að útskýra táknin með þröngri nákvæmni. Ástæðan er sú að þau eru eldforn og mjög erfitt er að gera sér grein fyrir uppruna þeirra. Rétt er að líta á útskýringarnar þannig að þær gefi til kynna sannleikann sem þau eiga að túlka fremur en sem nákvæma skilgreiningu á merkingu þeirra.
Í MIÐJU merkisins er Ankh eða Crux Ansata, hið forna egypska tákn upprisunnar. Það er gert úr Tá eða T-laga krossi með litlum hring ofan á. Oft má sjá egypskar styttur halda á þessu tákni, einnig er það algengt á egypskum veggmyndum og málverkum.
Tá-krossinn táknar efnisheiminn eða formið, hringurinn táknar andann eða lífið. Ankh gefur þess vegna til kynna sigur andans yfir efninu, lífsins yfir dauðanum, sigur hins góða. Það er kross lífsins, tákn upprisu og ódauðleika. Tá-krossinn táknar einnig takmark mannlegrar þróunar hinn fullkomna mann (krossinn gefur til kynna mannsform).
DAVÍÐSSTJARNAN er samsett úr tveimur þríhyrningum. Annar er bjartur og bendir upp, hinn er dökkur og bendir niður á við. Þeir tákna andann og efnið, og birtingu andans í takmörkun efnisins. Um leið tákna þeir hið eilífa samspil andstæðnanna, ljóss og myrkurs í náttúrunni og manninum. Þegar hinn tvöfaldi þríhyrningur er sýndur innan í hring höggormsins táknar það alla hina birtu náttúru, alheiminn innan takmarka rúms og tíma. Í Gyðingdómi eru hinir samfléttuðu þrihyrningar nefndir innsigli Salómons eða stjarna Davíðs.
HÖGGORMURINN hefur eins og hin táknin ýmsar merkingar. Hann er alltaf settur í samband við visku, sérstaklega þá duldu þekkingu sem er andleg viska af hæstu gráðu. Hér er höggormurinn látinn gleypa sinn eigin hala og þá táknar hann eilífðina án byrjunar eða enda. Hér má minna á Miðgarðsorm í Ásatrúnni.
SVASTIKAN er eitt af hinum fjölmörgu krosstáknum. Hún er eldkross og maður hugsar sér hana snúast réttsælis með eldörmum. Þannig táknar hún hina takmarkalausu orku náttúrunnar sem stöðugt skapar og leysir upp formið í þróunarframvindunni. Í trúarbrögðum sem gera ráð fyrir þrenningu guðdómsins er Svastíkan sett í samband við þriðju persónu þrenningarinnar, skaparann og eyðandann: Shiva í Hindúisma og Heilagur andi í Kristindómi.
FYRIR OFAN táknið eru sanskrítar stafir. Þetta er hið heilaga orð Hindúismans, venjulega gefið upp sem OM, orð sem býr yfir djúpri merkingu. Segja má að það tákni hið skapandi orð eða Logos, þann ósegjanlega veruleika sem er upp spretta allrar tilveru. Það er máttarorð sem aðeins má fara með með hugarfari tilbeiðslu.
EINKUNNAHORÐ Lífspekifélagsins, „engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri“, umlykja merkið. Þessi setning er ónákvæm þýðing úr fornri sanskrítarsetningu þar sem orðið „dharma“ er þýtt sem trúarbrögð, en merking orðsins er miklu víðtækari. Til dæmis gæti orðið kenning verið hér eðlilegri þýðing. Sérhver guðspekisinni leitar sannleikans hver sem trú hans kann að vera og öll hin miklu trúarbrögð eru að einhverju leyti birting þess sannleika og leið til þess að uppgötva hann.
Upplýsingarnar sem hér eru gefnar eru aðeins fátæklegar ábendingar um hina víðu og djúpu merkingu í merki Lífspekifélagsins. Að nema táknfræði þess er næstum því óþrjótandi viðfangsefni. Þeim sem vilja kynna sér þetta efni nánar er bent á eftirtaldar bækur:
The Theosophical Seal eftir Arthur M. Coon, eða The Secret Doctrine eftir H. P. Blavatsky. The Hastings Dietionary of Religion and Ethies inniheldur einnig kafla um almenna táknfræði og upplýsingar um einstök tákn.