Nú fer að líða að miðju sumri sem í þetta sinn lendir á 20. júní klukkan 02:42. Sólstöður á miðju sumri standa í raun nokkra daga. Þá rís sól upp nyrst við sjóndeildarhringinn í norðvestri á sama stað í nokkra daga og heita því sól-stöður. Daginn sem sól fer að lækka og sólrispunkturinn fer aftur af stað suðurleið er kallaður Jónsmessa. Þá byrjar ferðin til jóla. Þessi tvö ferðalög norður til hásumars og suðurs til miðsvetrar tákna tengsl við ljósið, himin og guðdóm himins og innri guðdóm mannsins annarsvegar og tengsl við myrkrið, jörðina og krafta jarðar og líkama hinsvegar.
Í landinu er þetta oft táknað sem steinn eins og Steinafjall og svo óskasteinn eins og við Tindastól Eilífs Arnar í Skagafirði. Forn-Íslendingar höfðu í hávegum stefnuna til sólarupprásar á miðju sumri. Til dæmis séð frá Almannagjá við Öxarárfoss á Þingvöllum þá reis sólin upp yfir Ármannsfelli. Gjáin rammar af þessa sólarupprás og varð því fyrir valinu því þá var sett alþingi á hverju sumri.
Þar undir Ármannsfelli er Hofmannaflöt þar sem goðin hafa mögulega komið saman fyrir og eftir þingið. Þetta er og sögusvið sem var fært var í letur í Ármanns rímum Jóns Guðmundssonar lærða og Ármanns þætti Jóns Þorlákssonar. Þá fer hetjan á Skálabrekku og leysir þrautir undir handleiðslu Ármanns í Ármannsfelli sem var verndarvættur Alþingis og æðsti landvættur Íslands.
Félagið hélt í marga áratugi viku samveru út á landi um mitt sumar og var hún kölluð sumarskólinn. Var
hann lengst af leiddur af Englendingnum Edwin C Bolt sem í raun var aðalmaðurinn við að efla félagið á Norðurlöndum á sínum tíma. Seinni árin hefur samveran verið í húsi félagsins. Í þetta sinn munum við
hittast í húsinu laugardaginn 21. júní klukkan 12. Þá mun Margrét Hugrún með fleirum í stúkunni Mörk leiða hugleiðslu og hreyfingu. Í kjölfarið mun Helgi Garðar Garðarsson í Reykjavíkurstúkunni
taka fyrir enn eitt ævintýrið.
Á sunnudeginum 22. júní mun Valgeir Skagfjörð leiða göngu á Helgafell við Hafnarfjörð og eða
kringum fjallið fyrir þá sem það vilja. Þar vísa örnefni á Riddara, Kastala og svo Gullkistugjá suður af
fjallinu. Gullkistan gæti verið í Kastalanum syðst í fjallinu og gæti verið tilvísun til hásumars táknfræði
eins og óskasteininn sem þjóðsögur segja að komi upp í vissum stöðum á Jónsmessunótt. Fjallið
geymir eins og mörg fjöll á Íslandi vakandi vitund og verður gaman að heyra hvað menn upplifa í
göngunni af vitund, orku, litum og ljósi. Sumir fá kannski ráð og handleiðslu.
Með kærri kveðju,
Haraldur Erlendsson forseti