Categories
Fréttir

Lífspekifélagið á Íslandi 100 ára

Fyrsta stúkan, Reykjavíkurstúkan, var stofnuð 1912 og stúkan á Akureyri árið 1913. Eftir það voru fimm stúkur stofnaðar þar til 1920 að félagar ákveða að stofna Íslandsdeildina. Árið 1921 fær deildin formlega staðfestingu frá alsherjarforseta. Fyrsti forseti hennar var Jakob Kristinsson. Kristín Matthíasson tók við 1929. Rit deildarinnar, Gangleri, kom fyrst út prentað 1926 og hefur komið út óslitið síðan.

Grétar Fells var kosin forseti árið 1935 og gengdi því starfi í 21 ár, var jafnframt ritstjóri Ganglera í 30 ár. 1956 var Sigvaldi Hjálmarsson kosinn
deildarforseti og var það í samanlagt 14 ár. 1965 tók hann við ritstjórn Ganglera. Núverandi forseti og ritstjóri Ganglera er Jón Ellert Benediktsson.

Frá upphafi félagsins hefur verið stöðugt starf yfir vetrarmánuðina með fyrirlestrum, hugleiðingum, spjalli og námskeiðum. Saga deildarinnar er samofin húsi félagsins, án hússins hefði sennilega lítið eða ekkert orðið af félagsstarfi. Árið 1917 keypti Ludvig Kaaber einnar hæðar kirkju Aðventista og gaf félaginu. Tveimur árum seinna voru víðtækar breytingar gerðar á húsinu, byggð ofan á það ein hæð og ris.
Árið 1970 er ýmislegt farið að láta á sjá í húsinu og 1975 var ráðist í verulegar endurbætur, þak endurnýjað og húsið klætt að utan og betur einangrað. 1992 var skipt um gólf á efri hæð og nýir burðarbitar settir undir gólfið. 1994 voru gerðar endurbætur á forstofu, uppgangi og forsal niðri. Grafið langt niður undir grunn og steyptar burðarsúlur. Steyptir veggir inni, nýr stigi steyptur. Horn hússins sem var orðið laust frá, bundið
með þessari steypuvinnu. Snyrting færð og snyrting sett einnig uppi. Millilofti breytt og mikið lagað. Gísli V Jónsson á mestan heiður af þessum
endurbótum öllum.

Lífspekifélagið (The Theosophical Society) var ekki stofnað til að boða neina kenningu. Það var stofnað til þess að vera vettvangur fyrir fólk að
leita sanninda um lífið og tilveruna, þar með aðallega sína eigin tilveru, hver á sinn hátt og eftir sinni leið.

Lífspekifélagið var fyrsta félagið sem vakti athygli á austrænum viðhorfum á Vesturlöndum. Þau voru talin áhugaverð þótt engin væri hvattur til að taka þau beinlínis upp og fleygja sínum gömlu viðhorfum. Það var líka fyrsta félagið sem hvatti til frjálsrar stúdíu á dulrænum fræðum
almennt, bæði austrænum og vestrænum. Og nú skipta þau félög, skólar og stofnanir hundruðum, sem beint eða óbeint eiga rót sína að rekja til þessa
kynningastarfs.

Lífspekifélagið var frá upphafi hugsað fyrir mannkynið allt. Það var ekki búið til á einum stað og breiddist síðan út um heiminn, það var þegar í
upphafi stofnað sem alþjóðafélag, sennilega hið fyrsta þeirrar tegundar.
Afmörkuð lífspeki (guðspeki) í nafni félagsins er ekki til né hefði nokkru sinni til verið. Það sem kallað væri lífspeki eða lífspekifræði, eru hugmyndir eða kenningar sem hafa verið kynntar í félaginu en félagsins ekki að öðru leyti, því eðli félagsins samkvæmt boðar það engar kenningar né trúarfræði, sbr. einkunnarorðin: ,,Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.” Lífspeki er afstaða spurnar og rannsóknar, opið hugarfar í sífelldri endurnýjun.

Lífspekifélagið er hlutlaust gagnvart öllum trúarhreyfingum og ann þeim öllum góðs gengis. Samt er því ekki neitað að lífspekistarf glæðir andlegan
áhuga einmitt hjá þeim sem trúarbrögð ná ekki til, og þess vegna ætti það að njóta velvilja.