Saga félagsins
„Þættir úr sögu guðspeki og Guðspekifélags Íslands.“

Hér að neðan má lesa nokkur atriði úr ritgerð Danívals Toffolo „Þættir úr sögu guðspeki og Guðspekifélags Íslands.“

Ritgerðina í heild sinni má nálgast hér.

Guðspekihreyfingin á Íslandi

Fyrsti íslenski guðspekineminn mun hafa verið Oddur Björnsson, prentmeistari á Akureyri (1865-1945). Hann fór til Kaupmannahafnar til framhaldsnáms í iðngrein sinni og starfaði sem prentari við háskólaprentsmiðju J. H. Schultz á árunum frá 1891 til 1901. Þar kynntist Oddur Björnsson guðspekinni og varð félagi í Norðurlandadeild Guðspekifélagsins.

Oddur Björnsson fluttist til Akureyrar, árið 1901 og setti þar á stofn prentsmiðju. Svo virðist sem hann væri áhugasamur um að kynna fyrir Íslendingum guðspekina og aðra dulspeki sem sjá má í bæklingi sem hann lét prenta sem handrit og gaf út í 49 tölusettum eintökum vorið 1904. Bæklingurinn hét Vegurinn frá mannlífi til heimslífs. Hann var ekki gefinn út í nafni guðspekinnar, en hefur þó að geyma mjög táknrænar guðspekihugmyndir. Oddur gaf einnig út annað smárit, sem var þýðing á riti Pekka Ervast, „The Religion of the Future“(Trúarbrögð framtíðarinnar).

Sama ár, 1904, gaf Oddur Björnsson út annan bækling eða rit þar sem finna má guðspekihugmyndir, en einnig hugmyndir í ætt við spíritisma og sálarrannsóknir. Efni ritsins er þó ekki frá Oddi sjálfum komið heldur frá sr. Jónasi Jónassyni, prófasti frá Hrafnagili (1856 – 1918) og er upprunalega fyrirlestur „sem hann flutti á prestafundi á Sauðárkróki það sama sumar og nefndi Opinberun Guðs“.

Systkinabandið – guðspekistúka

Á fyrsta áratugi 20. aldarinnar voru mikilar hræringar í andlegum og trúarlegum málum á Akureyri og í sveitunum í kring. Þekktir borgarar fóru að koma saman og ræða guðspeki og önnur andleg mál, jafnvel dularfull fyrirbrigði. Oddur Björnsson lánaði hinum bækur úr þessum málaflokki og glæddi það áhuga þeirra á þeim málum. Í framhaldi af því var ákveðið að stofna félagskap og að kvöldi hins 7. júní 1909 varð til lestrarfélag til að kynnast guðspekinni og ræða saman um hana.Það lestrarfélag var nefnt Systkinabandið. Í fyrstu gjörðarbók félagsins eru skráð lög þess og um tilgang félagsins segir svo í annarri grein:

  • Að efla samúðaranda meðal félagsmanna.
  • Að auka mannúð og kærleikshug félaga til alls lífs.
  • Að styðja sameiginlega viðleitni félaga til andlegs þroska og tímanlegrar hagsældar.
  • Að kynna sér eftir föngum trúarbrögð mannkynsins fyrr og síðar.
  • Að rannsaka dularöfl náttúrunnar og mannsins.
  • Að kaupa og lesa bækur og tímarit er fræðslu veita í ofangreindum efnum.
  • Að vekja aðra í kyrrþey til íhugunar um þau mál, er tilgang félagsins varðar.

Erfitt reyndist að fá inngöngu í félagið, vegna þess að umsækjandi þurfti meðmæli eins félagsmanns og síðan samþykki allra félagsmanna. Eftirfarandi setning úr þriðju grein laganna rennir frekari stoðum undir þá skoðun að Systkinabandið var lokað félag:

„Allri starfsemi félagsins skal haldið leyndri fyrir almenningi og varðar brottrekstur úr félaginu ef út af er brugðið.“

Á stofnfundinum, sem haldinn var að kvöldi mánudagsins 7. júní 1909, voru samankomnir 15 manns. Þar má nefna Aðalbjörgu Sigurðardóttur kennara, Odd Björnsson prentsmiðjustjóra, bræðurna Hallgrím, Sigurð og Aðalstein Kristinssyni, Ingimar Eydal kennara, Láru Ólafsdóttur, sr. Jónas Jónasson, sem þá starfaði sem kennari á Akureyri og Jónas Þórarinsson (Þór) vefmeistara og síðar verksmiðjustjóra.

Á fundi hinn 16. júní 1909 var fyrsta stjórn félagsins kosin, en hana skipuðu:

Oddur Björnsson, prentmeistari, forseti, Hallgrímur Kristinson, kaupfélagsstjóri, ritari og Páll Jónsson, féhirðir. Á fundi hinn 11. nóvember 1909 afhenti forseti félagsins, Oddur Björnsson, „ritara 28 bindi af bókum og ritum til varðveislu og útlána til félagsmanna. „og eru þessar bækur nú til í bókasafni stúkunnar Systkinabandsins.

Í Systkinabandinu voru ekki haldnir fundir árlega fyrr en guðspekistúkan Systkinabandið var stofnuð. Félagarnir höfðu ákveðið að breyta lestrarfélaginu í formlega stúku og höfðu út af því staðið í bréfaskriftum við aðalritara Norðurlandadeildar Guðspekifélagsins í heilt misseri. Stofnfundur Guðspekistúkunnar Systkinabandsins var haldinn hinn 18. maí 1913 og samkvæmt gjörðarbók, þar sem skráð eru lög stúkunnar, stendur að hún sé stofnuð hinn 20. apríl 1913, en dagsetning stofnskrár (Date of Charter) var hinn 24. apríl 1913.

Á fundi sem félagsmenn Systkinabandsins höfðu haldið fyrir stofndag stúkunnar höfðu verið kosin í stjórn: Jónas Jónasson, fyrrum prestur, formaður, Hallgrímur Kristinsson, kaupfélagsstjóri, gjaldkeri, Sigurður Kristinsson, verslunarmaður, bóka­vörður og Aðalbjörg Sigurðardóttir, kennslukona, ritari. Fyrir stofnfund hafði nefnd verið kosin til þess að skoða lög Reykjavíkurstúkunnar, sem stofnuð var ári áður, og laga þau að þörfum stúkunnar Systkinabandsins. Lög Reykjavíkurstúkunnar ásamt breytingum nefndarinnar voru lesin upp á stofnfundinum og rædd lið fyrir lið. Síðan voru þau samþykkt með nokkrum breytingum.

Reykjavíkurstúkan

Í Reykjavík var hin fyrsta formlega stúka, Reykjavíkurstúkan stofnuð á heimili Ludvigs Emils Kaabers, konsúls, hinn 17. nóvember 1912. Aðrir stofnendur voru eiginkona konsúlsins, Astrid Kaaber, Harriet Kjaer, yfirhjúkrunarkona, Georgía Björnsson, (síðar forsetafrú) Sigurður Kristófer Pétursson, rithöfundur, Þorkell Þorláksson stjórnráðsritari og Jón Aðils Jónsson dósent og sagnfræðingur. Á þessum fyrsta fundi varð stud. theol. Jakob Kristinsson félagi í stúkunni og varð hann seinna fyrsti deildarforseti Guðspekifélagsins hér á landi. Reykjavíkurstúkan var undir yfirstjórn Norðurlandadeildar Guðspekifélagsins þar sem Ísland var ennþá hluti af Danaveldi. Í byrjun voru fundir stúkunnar haldnir á heimili Ludvig E. Kaabers, konsúls, en síðar voru þeir haldnir annars staðar.

Í apríl 1917 keypti Ludvig E. Kaaber hús Sjöundadags aðventista að Ingólfsstræti 22, en það hafði verið guðshús aðventista. Kaaber gaf það Reykjavíkurstúkunni með þeim skilyrðum að húsið yrði samnýtt með Ými, stúku Samfrímúrara. Húsið var formlega helgað fyrir guðspekilega starfsemi hinn 13. júlí 1917. Tveimur árum síðar, sumarið 1919, voru gerðar víðtækar breytingar á húsinu og hafa þar síðan verið höfuðstöðvar Íslandsdeildar Guðspekifélagsins.

Aðrar guðspekistúkur

Önnur guðspekistúka var stofnuð í Reykjavík hinn 16. apríl 1920. Hún hlaut nafnið Septíma.

Hinn 23. apríl 1920 var haldinn sameiginlegur fundur Reykjavíkurstúkunnar og hinnar nýstofnuðu stúku Septímu. Mikill áhugi var hjá félagsmönnum í báðum stúkunum um að komið yrði á fót íslenskri deild innan guðspekihreyfingarinnar hér á landi og samkvæmt 132. fundargjörð Reykjavíkurstúkunnar bar Jón Árnason, prentari, félagi í Septímu, upp svohljóðandi tillögur:

  1. Reykjavíkurstúkan og Septíma samþykkja fyrr sitt leyti að deild sé stofnuð fyrir Ísland.
  2. Að þriggja manna nefnd sé kosin til að undirbúa málið og hrinda því í framkvæmd.

Báðar tillögurnar voru samþykktar samhljóða.

Í undirbúningsnefnd að stofnun Íslandsdeildar voru kosin: Ludvig E. Kaaber, Jón J. Aðils og Aðalbjörg Sigurðardóttir.

Fyrstu stúkurnar, sem stofnaðar voru hér á landi voru: Reykjavíkurstúkan í Reykjavík (17.11.1912), Systkinabandið á Akureyri, (24.04.1913) og Septíma í Reykjavík, (23.01.1920).

Stofnun Íslandsdeildar Guðspekifélagsins

Stofnfundur Íslandsdeildar innan Alþjóðahreyfingar Guðspekifélagsins var haldinn hinn 12. ágúst 1920 í Guðspekifélagshúsinu. Stúkufyrirkomulagið innan hreyfingarinnar tengdist þá vafalaust þeirri reglu að í landi eða landshluta, þar sem sjö stúkur störfuðu, mætti stofna deildarfélag. Stofnfundinn sátu 40 félagar.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar las Aðalbjörg Sigurðardóttir skýrslu nefndarinnar. Bréf hafði verið sent til allra stúkanna til að fá samþykki þeirra fyrir stofnun íslenskrar deildar. Það var auðfengið enda mæltu stærstu stúkurnar eindregið með þeirri framkvæmd. Sótt hafði verið um samþykki dönsku deildarinnar fyrir íslenskri félagsdeild og lá það samþykki þegar fyrir.

Nefndin sendi símskeyti til forseta Guðspekifélagsins dr. Annie Besant varðandi stofnun deildarinnar. Hún sendi þegar samþykki sitt fyrir stofnun deildarinnar en taldi að ritari dönsk-íslensku félagsdeildarinnar þyrfti og að ljá samþykki sitt. Á stofufund Íslandsdeildarinnar mættu fulltrúar frá flestum guðspekistúkum landsins. Stofnskrá deildarinnar var undirrituð hinn 5. janúar 1921 af dr. Annie Besant þáverandi heimsforseta samtakanna.

Á stofnfundinum voru lög Íslandsdeildar Guðspekifélagsins samþykkt.

Í fyrstu stjórn Íslandsdeildarinnar voru kosin: Séra Jakob Kristinsson deildarforseti, Páll Einarsson, hæstaréttardómari, varaforseti, Einar Indriðason Viðar, kaupmaður, féhirðir, Ludvig E. Kaaber, bankastjóri og Aðalbjörg Sigurðardóttir, kennari meðstjórnendur og Vilhelm Knudsen, forstjóri og Aðalsteinn Kristjánsson, verslunarmaður endurskoðendur.


Efni uppfært 3. nóvember 2022 02:54