Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Viðhorf Guðspekifélaga

Höfundur: Jón L. Arnalds

Í síðustu heftum Mundilfara var rætt um tilgang og tilverurétt Guðspekifélagsins. Þar var m.a. fyllyrt, að engin sérstök guðspeki væri til. Guðspekifélagar væru þó sammála um margt. Mætti því líta á þau efni sem viðhorf guðspekifélaga.

Mikið áhugasvið guðspekifélaga er að sækja inn á við, djúpt í eigin vitund eða til upptaka vitundar handan egósins eða hins einstaklingsbundna sjálfs. Öll dulspeki og jógalærdómur tekur við, þegar komið er handan við hug. Tala mætti um Sjálf með stóru essi gagnstætt egói. Hér er á ferðinni það sem kallað hefur verið ýmsum nöfnum, svo sem tómið, þögnin, vitnið, núið, hrein vitund, Atman, Kristseðli, Búddaeðli, Tao, Yfirsjálf, stundum Guð, o.s.frv.

Trúarleiðtogar og spekingar allra tíma hafa fullyrt, að vitundin, Sjálfið, nái til guðs. Vitnisburður hinna upplýstu hefur verið, að hið mikla djúp vitundar nái óendanleikanum. Sjálfið vaki yfir huganum og fari handan hans. Einhver kjarni sé allur raunveruleiki, grundvöllur alls og við séum það. Sjálfið birtir þannig eigin uppruna, sjálft tómið, þar sem allt á sinn uppruna í og hlutveruleikinn birtist í. Sjálfið inniheldur hug og líkama en fer þó handan við hvoru tveggja.

Svo virðist sem þeim sem innri trúarlega reynslu hafa reynt beri saman í höfuðdráttum, þótt flokka megi þessa upplifun með ýmsu móti eftir reynslulýsingum. Flestir háskólamenn afneita öllu þessu og telja það í mesta lagi frumspeki, þar sem ekkert sé hægt að sanna. Sá sem ekki reynir, upplifir ekkert. Hann skyldi því ekki gera lítið úr reynslu annarra. Að hlæja að öðrum en reyna ekki sjálfur, lýsir mikilli einfeldni.

Fremstu heimspekingar á öllum tímum hafa verið þeirrar skoðunar að skipting í huglæg og hlutlæg viðhorf séu í fyrstu ekki til í vitundinni, tvíhyggjan komi síðar til, en heimspekingarnir setja lokapunktinn þarna. Heimspekingarnir halda sig alltaf innan hugsunar, hún er lögmál þeirra og veruleiki. Margir trúarskólar svo sem skólar Veda og Búddisma byrja hins vegar þar sem hugsun lýkur. Sama gildir um guðspekinema.

Sálfræðingar nútímans eru viðgerðarmenn egósins. Þeir reyna að aðlaga það þeim ytra veruleik, sem viðkomandi telur staðreynd, svo og breyta og bæta sjálfsímynd, en ekki uppræta eða leysa egóið eða sjálfsímyndina upp. Ekki er lagt til grundvallar að hugurinn sé tilbúningur og að innri viðhorf eigi sér dýpri rætur. Ekki er litið til upprunans, heldur er litið á sjálfímyndina sem eins konar fastan hlutveruleik. Þessi sjálfhelda sálfræðinnar leysist ekki meðan viðfangsefnið er egoið og sjálfsímyndin og ekki er litið svo á að hrófla megi við þessum hugsmíðum og hugkvíum sem slíkum, heldur eingöngu kleift að lagfæra þær og aðlaga þær umhverfinu.

Vitund okkar hefur vitund um hið algilda, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Við erum alheimurinn, við erum öll okkar reynsla í heild sinni. Sjálfstætt, einstaklingsbundið sjálf er blekkingin mikla. Í raun þurfum við ekki að eyða því, því það er ekki til. Að leita að því og finna það ekki, leiðir til vitundar um allífið. Þetta hefur öllum hinum upplýstu verið augljós staðreynd og er okkur augljós staðreynd, ef við aðeins þorum að horfast í augu við hana. Það er þessi skilningur, sem leiðir til frelsis frá þjáningu. Ef við erum allt, þá getur enginn utanaðkomandi bakað okkur þjáningu. Um er að ræða frelsi frá þeirri hugsun, að til sé sjálfstætt sjálf, sem þjáist. Wei Wu Wei sagði: „Hvers vegna ertu óhamingjusamur? Af því að 99,9% af öllu sem þú hugsar og öllu sem þú aðhefst, er um sjálfan þig, en það er enginn þú.“ Hann segir ennfremur: „Fæðingin er fæðing ég‑hugtaksins, dauðinn er dauði ég‑hugtaksins. Það er engin önnur fæðing. Það er enginn annar dauði.“ Hann segir enn: „Auðmýkt er undantekningarlaust það sálarástand, sem skapast við algera fjarvist ég‑hugtaksins. Án slíkrar fjarvistar er auðmýkt aðeins gríma stærilætisins, sem er andstæða hennar.“ Enn segir hann: „Hvað gengur að þér? Það, að þú heldur að þú sért annað en það, sem þú ert.“

Aðeins hluti getur þjáðst, ekki heildin. Þegar við sjáum, að hlutinn er blekking, þá er ekki um að ræða neitt aðskilið sjálf, sem þjáist. Heildin kemst hjá örlögum hlutans, sem alltaf eru þjáning og dauði. Tat tvam asi, þetta ert þú. Þetta er raunsjálfið eða atman. Innsta eðli mannlegrar náttúru er heilleiki, skýr óskiptur veruleiki hér og nú. Sumir tala um innri kjarna, að himnaríki sé að finna innra með okkur sjálfum, þar sé hin algildi sjáandi og þekkjandi, alger huglægni o.s.frv. Shankara segir: „Til er sjálfstæður veruleiki, sem er grundvöllur vitundar okkar um egoið. Þessi veruleiki er vitni að hinum þrem vitundarstigum, vöku, draumi og svefni og hann er aðgreindur frá hinum fimm líkamssviðum. Þessi veruleiki er sá, sem þekkir allt vitundarástand. Hann veit, hvenær hugurinn er til staðar og hvenær ekki. Þetta er Atman, almættið, frumeðlið“. Búddhistar hafa gjarnan talað um, að veruleikinn sé hin algilda huglægni, sem er handan við huglægni og hlutlægni hlutveruleikans. Hið eilífa Tao verður ekki um rætt. Atman er óskipt heild. Engin tilvist fyrirfinnst þar fyrir utan, þar sem Atman hefur að geyma tíma og rúm, er rúm‑ og tímaleysi, óendanleikinn og eilífðin.

Þess ber að gæta, að þegar verið er að tala um eilífð í þessu sambandi, eins og þegar Kristur talaði um eilífa lífið, þá er að sjálfsögöu ekki átt við tíma sem vari alltaf, t.d. eftir dauðann, heldur tímaleysi, þ.e. að vera handan tímans. Eilífðin var ekki meint sem tilvist um mjög langan eða ókominn tíma í gulli skreyttu himnaríki, heldur grundvöllur tilvistarinnar, veruleiki án tíma og rúms. Ekki er átt við ódauðleika, heldur snertingu við hinn tímalausa uppruna okkar, þar sem við og alheimurinn erum eitt, hinn tímalausa grundvöll, sem inniheldur allan tíma. Á sama hátt og þegar talað er um óendanleikann, þá er ekki átt við eitthvað óendanlega stórt, heldur hinn rúmlausa grundvöll, sem inniheldur allt rúm. Sá sem er laus við tímann, kvíðir engu. Sá sem sér að hann og allt annað er eitt, óttast ekki lífið. Sá sem sér að tilvist og tilvistarleysi er eitt, óttast ekki dauðann.

Viðurkenna verður, að erfitt er fyrir hina upplýstu að lýsa hinu algilda, sem engin orð ná yfir. Orð okkar og hugsanir eru bundnar takmörkunum og hið algilda er handan við þessar takmarkanir. Því er eðlilegt, að erfitt sé að beita tungumálinu án þess að lenda í þversögn. Ekkert tungumál getur skilgreint eðli hins algilda. Því fara hinir upplýstu gjarnan þá leið, að benda á leiðina, þ.e. þá leið sem við getum sjálf farið til að öðlast sömu reynslu og þeir. Þeir leggja áherslu á að trúa engu blint heldur treysta eiginn skilning og reynslu.

En hvert skal líta. Allir leggja þeir áherslu á að líta í eigin barm. Raunsjálfið, himnaríki býr í okkur sjálfum. Hinir upplýstu eru ekki að lýsa raunsjálfinu innra með okkur, eins og það sé sett inni í okkur, heldur eru þeir að benda inn. Öll vandamál eru innri vandamál, lokasvarið er að finna hið innra, ekki hið ytra. Ef við á hinn bóginn leitum inn finnum við fyrr en seinna að allt hið ytra er hið innra eða öfugt. Hið innra og hið ytra, hið huglæga og hið hlutlæga falla saman í eitt.

Lao Tsu segir svo í 14. erindi í Bókinni um Veginn: „Þegar við skyggnumst eftir því, festum við ekki sjónar á neinu og köllum það þess vegna formlaust og litlaust. Þegar við hlustum, heyrum við ekkert og köllum það þess vegna þögnina. Þegar við þreifum, festum við ekki hönd á neinu, og nefnum það þess vegna ónáanlegt. Þessi viðhorf, sem verða ekki skynjuð, eru okkur ímynd hins Eina“. „Það er ekki ljóst að ofan, ekki myrkt að neðan. Óþrotlegt í starfi sínu, og verður ekki orðfest, það hverfur aftur í tilvistarleysið. Það er form hins formlausa, birting hins dulda, hyldýpi leyndardómsins. Þegar við mætum því, sjáum við ekki ásjónu þess, þegar við eltum það, eygjum við það ekki. Að öðlast hina fornu þekkingu á Tao og breyta samkvæmt henni, það er að vera kominn á veg lífsins“.

Til þess að nálgast raunsjálfið ráðleggur Sri Ramana Maharshi að menn spyrji sig: „Hver er ég? Ég er ekki líkaminn, ég er ekki skilningarvitin, ég er ekki sá hugur sem hugsar þá hugsun, ég er ekki“. Halda má áfram, ég er ekki tilfinningarnar, ég er ekki þekkingin né minnið o.s. frv. Með því að leita þannig inn, gerum við okkur smátt og smátt grein fyrir því, að raunsjálfið verður ekki fundið fyrr en við sjáum að það er allt, tat tvam asi, þetta ert þú, Brahman. Af því að raunsjálfið er hvorki hið innra eða hið ytra og af því að hið huglæga og hið hlutlæga er eitt og hið sama, þá tala hinir upplýstu með ýmsum hætti sem stundum verkar sem þversögn.

Ég sagði í upphafi að sá sem reyndi ekki, upplifði ekkert. Lítils virði væri að gera lítið úr reynslu annarra. Að ætla sér að upplifa reynslu í gegnum aðra er heldur ekki vænlegt til árangurs. Mestu máli skiptir eigin viðleitni og fordómaleysi.

Jón L. Arnalds

© Guðspekifélagið

Fyrri Sjálfsmynd og gervistolt
Næsta Þroskaleiðir
Efnisyfirlit