Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Vedanta og Krishnamurti

Í nóvember ´96 hóf ég að bera saman kenningar eða viðhorf J. Krishnamurtis og Vedanta-heimspekinnar hér í föstudagserindi. Á sumarskóla Guðspekifélagsins að Flúðum s.l. sumar hélt ég áfram samanburði þessum og þá aðallega frá sjónarhóli Krishnamurtis, óþekktari hliðar ævi hans voru kannaðar og farið var nánar út  í kenningar hans. Komu þá fram óskir um að halda þessum samanburði áfram og fara næst í heimspeki Vedanta og miða samanburðinn aðallega frá sjónarhóli hennar. Í öðru stefnuskrársatriði Guðspekifélagsins er eins og kunnugt sagt:  “að hvetja menn til að leggja stund á samanburð trúarbragða, heimspeki og náttúrivísindi.“ Rétt er að nefna hér þegar í upphafi, að auk þess sem samanburður þessi er gerður til að upp-götva það sem sameiginlegt kann að reynast hjá þessum tveimur aðilum og þannig til glöggvunar á inntaki og  meginþáttum kenninga þeirra, þá er hann og gerður í þeirri von að leiða til dýpri skilnings, ef nokkur kostur er, ekki aðeins huglægs eða vitræns skilnings heldur og ef vel tekst, lifandi reynslu. Þetta er því ekki fræðileg umfjöllun, heldur gerð með opnu viðhorfi, ekki ósvipuðu því sem K gerir í fyrirlestrum sínum, er hann fjallar um manninn, stöðu hans og vandamál. Hér á eftir verður því áherslan á Vedanta.

Í mörgum fyrirlestrum sínum varpar K oft fram spurningunni:„Hvað er það sem við raunverulega viljum?“ Í umfjöllun um Vedanta hefur verið bent á að vilji menn gera sér grein fyrir muninum á því hvað sé ósvikin Vedanta og svikin, þá fjalli ósvikin Vedanta ekki um það hvernig öðlast megi vald yfir öðrum, hvernig við getum orðið rík, sterk og falleg, spá í framtíðina eða hafa anda í sinni þjónustu. Ósvikin Vedanta-speki felist í því að öðlast skilning á sjálfum sér og að ná sameiningu við sinn æðri veruleika. Óhætt er að fullyrða að viðhorf K eru ekki ósvipuð. 

Í fyrirlestrum hér í félaginu á árum áður, einkum í hinum ágætu fyrirlestrum Grétars Fells, var oft vitnað í þann mann sem um og eftir miðja öldina vakti áhuga Vesturlandamanna á heimspeki og fræðum Austurlanda, breska rithöfundinn Paul Brunton. Paul Brunton var að mörgu leyti dæmigerður Vesturlandamaður, fullur efasemda um andleg mál, alinn upp í vísindahyggju, en samt opinn til að kanna for-dómalaust það sem á vegi hans varð á mörgum ferðum í Austurlöndum. Eftir að hafa kynnst fjölmörgum fræðurum og fræðasetrum á Indlandi upp úr 1930 má segja að hann hafi vissulega greint kjarnan frá hisminu, er hann  laðaðist einna mest að þá óþekktum, auðmjúkum spekingi á Suður-Indlandi, Sri Ramana Maharshi. Brunton varð fyrstur Vesturlandamanna til að vekja athygli á þessum merka fræðara, sem nú er álitinn einn af merkustu Vedanta-spekingum Indverja á þessari öld. Hann kynntist einnig fleiri merkum mönnum eins og Mahendranath Gupta oft nefndur meistari Mahasaya, þeim er skráði ævi Sri Ramakrishna, einnig hinum háandlega Shankar-acharya í Kanchipuram o.fl. Eftir að hafa átt kynni við þessa menn, ígrundað kenningar þeirra, tók hann að stunda íhugun af alvöru og verður fyrir merkilegri reynslu í návist Sri Ramana. Næstu árin hélt hann áfram rækt við íhugun, þar sem hann kannaði betur sinn innri veruleika og varð af og til fyrir andlegri reynslu af ýmsu tagi. Hann tók að vinna betur úr reynslu sinni, skrifaði bækur um þessi málefni í þeim tilgangi að þær kynnu að verða samferðamönnum sínum á Vesturlöndum til einhvers gagns. Smám saman fer hann að huga að því hvað í þessum austurlensku fræðum eigi í raun erindi við nútímamanninn, ekki síst á Vetsurlöndum, en bækur hans urðu einnig þekktar í Austurlöndum.

Árið 1937 er Brunton gestur hins merka Maharaja af Mysore á Indlandi, þar sem hann gat varið stundum í kyrrþey í ágætu bókasafni hans. Dag einn berst honum boð um að Indverji nokkur sem var honum ókunnugur, en var kunnugur bókum hans, vildi hitta hann. Þessi dularfulli gestur hafði meðferðis þrjár bækur sem hann vildi vekja athygli Bruntons á. Sú fyrsta var Bhagavad Gita, eitt helsta helgirit Indverja. Las hann upp úr ritinu kafla sem hann valdi og vildi með þeim benda Brunton á að yoga-íhugun ein og sér sé ekki fullnægjandi, íhugun sé að vísu ágætur undirbúningur fyrir sjálfa sannleiksleitina en geti ekki ein og sér leitt til hans. Leiðina til sannleikans kallaði hann „yoga heimspekilegrar skarpskyggni“ (Gnani-Yoga) og að æðsta stig hennar væri „yoga handan þversagna“ (Asprasa-Yoga). Næst dró Indverjinn fram bók sem hann kvað fremur óþekkta og lítið lesna, m.a. vegna þess hve torskilin hún væri. Sagði hann að Sri Ramakrishna hefði falið hana undir koddanum og aðeins sýnt hana hinum þekkta lærisveini sínum, Swami Vivekananda, því að hann einn lærisveinanna hefði getað skilið hinar háfleygu kenningar ritsins. Ritð sem hér um ræðir heitir Ashtavakra Samhita  (Söngur vitringsins Ashtravakra).  Fjallar rit þetta um vitringinn Ashtavakra sem náð hafði æðstu stigum viskunnar og kennt Janaka konungi, sem var mikill sannleiksleitandi, en sinnti samt um leið vel störfum sínum sem leiðtogi þjóðar sinnar. Bent er á í síðari köflum ritsins, að sannur vitringur þurfi ekki að flýja upp í hella eða helgisetur, hann geti allt eins lifað eins og venjulegur maður meðal fjöldans og þá losnað við það að vera settur á stall. Ashtavarkra varar einnig lærisvein sinn við því að dvelja ekki ánægður á stigi dulhyggjunnar, á stigi yoga-íhugunar, heldur halda áfram leitinni að heimspeki sannleikans. Þriðja ritið sem þessi dularfulli gestur sýndi Brunton var Mandukya Upanishad með viðauka spekingsins Gaudapada, sem Karika nefnist, ásamt ýtarlegum skýringum sjálfs Shankara. Í viðræðum Krishnamurtis við Pupul Jayakar fyrir nokkrum árum sagði K undir lokin eftir að hafa notað neikvæð rök allan tímann, þ.e. ekki þetta, ekki þetta, eins og við þekkjum af ræðum hans og viðtölum, – að hið eina sem hann gæti sagt jákvætt væri eins og spekingar Indlands til forna sögðu: „Tat Tvam Asi“, „ég er það,“, þ.e. ég er hann, veruleikinn. Það er einmitt í ritum eins og Mandukya Upanishad með Karika Gaudapada þar sem slík viðhorf er að finna. Eins og fleiri Upanishadur fjallar Mandukya Upanishad um hin hinsta veruleika. Í inngangssorðum sínum að bókinni segir V.Subrahmanya Iyer, að hafi einhver ekki tíma til að kynna sér hinar rúmlega eitt hundrað Upanishadur þá nægi það honum að kynna sér  Mundakya, því að sjálfur Shankara hefði sagt það fela í sér inntak þeirra allra. Í inn-gangsorðum sínum þakkar Subrahmanya tveimur mönnum sérstaklega fyrir að kynna fyrir sér Karika Gaudapada, fyrst fræðara sínum og síðan Maharajanum af Mysore, sem nefndur var hér áðan í tengslum við Paul Brunton, en honum (þ.e. Maharaja-num) segist hann eiga það að þakka að hann tók að kynna sér rækilega heimspeki Gaudapada. Þess má og geta, að útgáfa Mandukya Upanishad með Karika Gaudapada og skýringum Shankara í útgáfu Ramakrishna Ashrama í Mysore er sérstaklega tileinkuð Maharajanum af Mysore „fyrir það fordæmi sem hann setti öðrum með óhagganlegri staðfestu í leit sinni að sannleikanum, hvar sem hann finnst, í listum, trúarbrögðum, vísindum eða heimspeki, á hvaða öld sem er eða landi.“

Hver var heimspekingurinn Gaudapada?  Hann er jafnan talinn fyrstur Vedanta-spekinga sem sögur fara af, uppi líklegast fyrir daga Buddha, þ.e. fyrir meir en 500 f.Kr. Sagt er að hann hafi verið kennari Shankara, sem uppi var á 7 öld e.Kr. og vegna þessa töldu sumir að hann hafi verið samtímamaður Shankara. Prabhavananda er þeirra skoðunar að hann hafi verið uppi fyrir daga Buddha og bendir á að hafi Shanakra hitt Gaudapada hafi það hugsanlega getað verið á andlegu tilvistarsviði. Ef hin andlega sjón lærisveinsins opnast sé það mögulegt að ná beinu sambandi við sálir úr fortíðinni. Ekki skal hér lagður neinn dómur á slíka leyndardóma tilverunnar, við vitum hreinlega ekki nógu mikið um þá á þessu stigi og því líklega viturlegra að fullyrða ekki um of. Hvert svo sem tímabilið var sem Gaudapada lifði þá líta ind-verskir heimildarmenn jafnan á hann sem fyrsta Vedanta-spekinginn og jafnvel einn af mestu sjáendum allra tíma. Til að ná æðstu sannindum verður heimspekin sam-kvæmt viðhorfum Gaudapada að taka til greina ekki aðeins vökuástand, heldur og aðra hliðar vitundar mannsins eins og draumvitund og draumlausan svefn, og samhæfa alla þessa þætti í leitinni að hugsanlegu upphafi allrar vitundar. Gaudapada og rishíar (vitringar) Upanishadanna stóðust þessar kröfur.  Subrahmanya segir: „Ágæti Gaudapada felast í áherslu hans á því að ógjörningur sé að ná æðsta sannleika nema því aðeins aðallar  hliðar mannlegrar reynslu og þekkingar séu teknar með í reikninginn.“ Í tengslum við þetta kemur Prabhavananda með eftirfarandi athugasemd: „Gagnstætt þessu virðist vestræn heimspeki  hafa lent í lokaðri götu, ekki aðeins vegna þess að hún neitar tilveru æðri vitundarstiga heldur og vegna þess að hún gerir enga tilraun til að samhæfa hin þrjú stig vitundarinnar.“ Heimspeki Gaudapada og Shankara,“ segir Subrahmanya, „ er túlkun á heild mannlegrar reynslu eða lífinuí heild frá sjónarhóli sannleikans. Heimspeki er því ein heild, þar sem trú, dulhyggja (yoga), guðfræði, skólaspeki, íhugun, listir og vísindi eru aðeins hlutar í hinni mikilfenglu byggingu mannlegrar þekkingar sem heild. … Markmið heimspekinnar samkvæmt viðhorfum þessara ágætu indversku heimspekinga er hamingja og velferð allra lífvera í þessum heimi.“  Þessi heildrænu sjónarmið eru einnig veigamikill þáttur í kenningum Krishnamurtis, sem leggur mikla áherslu á að taka alla þætti mannlegrar reynslu með í reikninginn, en um leið reynir hann að einfalda þá svo þeir komi manninum að gagni. Hér komum við að öðru atriði sem er ólíkt með indverskri og vestrænni heimspeki. Um þetta segir Prabhvavanda: „Orðið darsana sem venjulega er þýtt heimspeki þýðir í sanskrit að sjá eða reyna.  Af þessu má áykta að með indverskri heimspeki sé ekki aðeins átt við háspekilega ígrundun heldur eigi hún rót sína að rekja til milliliðalausrar skynjunar. Guð og sálin eru í augum Hindúans ekki aðeins hugtök, fræðileg og torráðin eins og í vestrænni heimspeki, heldur sem hlutir sem unnt er að þekkja með beinum hætti. Það er ekki aðeins hlutskipti  hinna fáu útvöldu að þekkja þessa hluti og upplifa, heldur er það mögulegt öllu mannkyni.“  Þetta er einmitt einnig grunntónninn í ræðum og ritum Krishnamurtis. Munurinn í framsetningu hans er sá, að hann vill ekki nota hugtök eins og guð eða sál o.fl., því að maðurinn hafi tilhneigingu til að búa sér til ímyndir af orðum og taka síðan ímyndirnar fyrir raunveruleikann. Þess vegna forðast hann slík hugtök og leiðir hlustendur eða lesendur sína, með aðstoð tungumálsins, út að endamörkum þess hugsanlega og reynir með sínum sérstaka hætti að leiða menn yfir í beina reynslu af veruleikanum.

Gaudapada, eins og allir helgir spekingar Indverja, benda á að leiðin til andlegrar uppljómunar sé hið innra í sál hvers og eins. Með þolinmæði og þrautseigju, segir hann okkur, getum við reynt að ná valdi á dyntum hugans. Með ræktun dómgreindar verðum við að læra að hafa hemil á munaði skynfæranna og að lokum með iðkun einbeitingar hugans og íhugunar getum við náð vissu stigi andlegrar sælu, lægra stigi samadhi (yfirvitundarástands). Hér kemur mikilvæg og athyglisverð ábending frá Gaudapada, er hann segir, að við verðum að losna við það að verða háð þessari sælu ef við ætlum okkur að ná æðra ástandi eða með orðum Gaudapada: „Hugurinn ætti ekki að leyfa sér að njóta sælu hrifningarástandsins. Hann á að losa sig undan slíku sæluástandi með því að rækta dómgreindina. Þegar hugurinn týnir ekki sjálfum sér í aðgerðaleysi og gleymsku eða er langanir trufla hann ekki, þ.e.a.s. þegar hugurinn nær kyrrð og myndar ekki nýjar hugsanir– þá sannlega verður hann Brahman.“

K  segir einhvers staðar: „Þegar hugurinn er algjörlega kyrr, getur það sem heilagt er komið í ljós.“ Í sama streng taka margir spekingar Indverja með einum eða öðrum hætti. T.d. sagði Brahmananda, einn af helstu lærisveinum Sri Ramakrishna,  læri-sveinum sínum að nema ekki staðar við þá sælu sem þeir fyndu í djúpri íhugun, heldur ættu þeir að halda áfram, dýpra og dýpra.“ Í lok merkilegra viðræðna við tvo þekkta vísindamenn kemur K inn á þessi mið er hann segir að mikilvægt sé að veita ástandi hugans athygli. Eins og kunnugt er trúði hann ekki á einbeitingu  hugans, heldur lagði áherslu á vakandi athygli, sem hann sagði að ætti að beina að ástandi hugans og ef við fyndum að við færum handan hans ættum við ekki að nema staðar þar, heldur halda áfram að veita því ástandi sem þar birtist sömu vakandi athygli,sem hann nefndi vitsmuni (intelligence) því að þá kæmi enn annað ástand eða vídd í ljós, nokkuð sem hann kallaði heilagleika (sacredness), og ef því ástandi væri veitt sama vakandi athyglin uppgötvuðum við uppsprettu alls sem er. Hann bætti við:“ Upphaf alls“. Og vísindamennirnir spurðu hvort hann ætti við vitundina og einnig efnislega heiminn og hann sagði: „Upphaf þessa alls!“  Hér mætast hann og hinir fornu Vedantaspekingar í sama punkti, en þeir héldu því fram að heimurinn, öll tilveran væri ein eining og þeir nefndu Advaita.  Ath.samanburð á K og koshas. 1)

Þar komum við að Shankara, sem oft er talið að hafi verið uppi frá 788 – 820. Var sem sagt 32ja ár er hann lést. Því hefur verið haldið fram að Shankara sé með skarpgreindustu mönnum sem uppi hafa verið. Hann var vitsmunalegt undrabarn. Tíu ára að aldri er sagt ðað hann hafi ekki aðeins kunnað öll helstu heimspekirit Indverja utan að, heldur hafi hann þá þegar skrifað skýringar við mörg þeirra. Sem ungur maður var hann óánægður, hann hafði ógeð á innihaldslausum bókarlærdómi og hann sá, að kennararnir hegðuðu sér ekki eftir því sem þeir kenndu. Hér er ekki ætlunin að rekja frekar ævi hans, en ungur að aldri sannfærði hann móður sína um að leyfa sér að sverja munkaheiti. Á bökkum Narmada-fljóts er sagt, eins og áður hefur komið fram, að hann hafi hitt hinn forna speking Gaudapada og beðið hann að veita sér vígslu. Gaudapada á að hafa neitað honum og beint honum til hins fremsta meðal lærisveina sinna, Govindapada. Govindapada gaf Shankara vígslu og kenndi honum íhugun og hinar fjölmörgu hliðar yoga-fræða og iðkana. Er ekki að orðlengja að Shankara náði skjótum og miklum andlegum framförum. Skerfur Shankara til heimspekibókmennta Indverja er gífurlegur. Hann ritaði ekki aðeins skýringar við Vedanta Sutras, helstu Upanishadurnar og Bhagavad Gita, hann samdi og tvö mikil heimspeikrit, Upadesasahasri og Vivekachudamani (Gimstein dómgreindarinnar). Þá samdi hann fjölda ljóða, trúarljóða, bæna og minni háttar rit um Vedanta.

„Brahman –  hin algjöra tilvera, þekking og andleg hamingja –  er raunveruleg. Alheimurinn er ekki raunverulegur. Brahman og Atman eru eitt.“  Þessi orð eru heimspeki Shankara í hnotskurn. Hvað á hann við með raunverulegur og ekki raun-verulegur? Um þetta segir Prabhavananda: „Ýmis heimspekikerfi Indverja eins og Samkhya, Yoga og Nyaya halda því fram að hinn birti alheimur eigi sér hlutlægan veruleika, þótt hann virðist ekki svo í augum uppljómaðrar sálar. Advaida Vedanta (advaita þýðir ekki-tvíhyggja, þ.e. að guð, sál og alheimurinn séu eitt)  neitar þessum hlutlæga veruleika. Þetta er mikilvægt atriði. Hugur, efni, fallvaltir hlutir og sambönd þeirra, segir Shankara, eru aðeins mistúlkun á Brahman – og annað ekki. Þegar Shankara segir að heimur hugsana og efnis séu ekki raunverulegur á hann ekki við að hann sé ekki til. Hinn sýnilegi heimurer og er ekki. Í ástandi vanþekkingar (okkar daglega vitundarástand) erum við okkur meðvitandi um hann og í okkar augum er hann til eins og hann kemur okkur fyrir sjónir. Í ástandi andlegrar uppljómunar erum við okkur ekki meðvitandi um hann og hann hættir að vera til. Shankara lítur ekki á neina reynslu sem hún sé ekki til svo lengi sem  einhver verður fyrir henni, en hann gerir eðlilega mikinn greinarmun á einkablekkingu einstaklingsins og alheims- eða heimsblekkingunni. Þá fyrrnefndu nefnir hann pratibhasika ( blekkjandi) og hina síðarnefndu vyavaharika (skynjanlega). T.d. eru draumar mannsins einkablekkingar hans. Þegar hann vaknar hverfa þeir. En heimsblekkingin – blekking fyrirbæra alheimsins –  heldur áfram allt líf mannsins í vöku á enda  nema því aðeins að hann uppgötvi sannleikann fyrir tilstuðlan þekkingu á Brahman.  Hér stöndum við augliti til auglitis við þverstæðu – heimurinn er og er ekki. Hann er hvorki raunverulegur né óraunverulegur. Samt samrýmist þverstæða þessi tilveru þess sem Shankara nefnir maya.   Maya ,  þessi sýnilegi heimur á rót sína að rekja til Brahmans, hins eilífa.

Samkvæmt Shankara samanstendur hún (maya) af nöfnum og formum. Hún er ekki tilverulaus, en samt er hún ólík veruleikanum, Brahman, sem hún byggir tilveru sína á. Hún er ekki raunveruleg vegna þess að hún hverfur í ljósi þekkingar á hinum eilífa grunni. Hinn sýnilegi heimur er maya; aðeins sjálfið, Atman, er raunverulegt.“   Síðar heldur Prabhavananda áfram og segir: „Það sem er svo aðlaðandi við Vedanta er hið kreddulausa, tilraunalega viðhorf til sannleikans. Shankara biður okkur ekki að viðurkenna tilveru Brahmans sem kenningu áður en við hefjum andlegt líferni. Nei – hann býður okkur að uppgötva það sjálf. Ekkert – enginn fræðari, engin helgirit – geta gert þetta fyrir okkur. Fræðarar og helgirit eru okkur aðeins hvatningar til dáða.“

Þetta hljómar líklega kunnuglega í eyrum þeirra sem lesa bækur K. Að vísu fellst   hann ekki það að við þurfum á fræðurum að halda né helgiritum. Hann getur samt ekki neitað þeirri staðreynd að hann sjálfur hefur í mörg ár verið að hvetja fólk til að vakna úr móki blekkingar, hvetja fólk til að gera sér grein fyrir því að það hefur verið mótað í hin ýmsu mót frá fæðingu allt eftir því hvar á jörðunni það hefur alist upp og síðast en ekki síst til að losna við blekkingar vitundarinnar og hugans og sjá og upplifa veruleikann frá sjónarhóli „vakandi vitundar sem velur ekki úr“, er laus við fordóma og því frjáls. Þannig er hann óneitanlega í hlutverki fræðara þótt með óhefðbundnum hætti sé. Hann er með öðrum orðum að setja fram eldforn sannindi sem hæfa hugsunarhætti og orðalagi nútímamannsins. Áður en við förum út í það að kanna hvað felist í því að losna úr viðjum maya,  skulum við rifja upp í stuttu máli hvernig K sjálfur og um leið nokkrir Vedantaspekingar hafa upplifað andlegan veruleika. Er við kynnum okkur andlegan feril K kemur í ljós að hann lagði ungur stund á hugleiðslu, sá sýnir af meisturum Guðspekifélagsins eins og KH og M, einnig Maitreya og sjálfum drottni Buddha. Hann hefur lýst því hvernig hann „sá í gegnum“ sýn af KH og hvernig mynd hans leystist upp. Hann fór sem sagt í gegnum formlega andlega reynslu yfir í formlausa. Sri Ramakrishna sá fyrst sýnir af guðsmóðurinni, en með hjálp ábendinga frá Vedantaspekingnum Tota Puri leysti hann upp myndina af henni og upplifði æðri andlegan veruleika formlausan. Ramana Maharshi aftur á móti er merkilegt dæmi um mann sem virðist hafa upplifað æðri veruleika þegar í fyrstu reynslu sinni. Þegar það gerðist var hann skyndilega gripinn hræðslu við dauðann. Hann lagðist niður endilangur á gólfið, lá grafkyrr, lokaði augunum og ímyndaði sér að hann væri að deyja: Þá komu hugsanir eins og: „Er ég dauður þótt líkaminn deyi? Er líkaminn ég?“  o.s.frv. Þá virtist hann falla í djúpt dá, en vissi þó af sér, og vitund hans virtist sogast inn í uppsprettu sjálfsins, innra eðli tilverunnar.

Fyrsta andlega reynsla Ramakrishna gerðist er hann var sex ára að aldri. Sumardag nokkurn gekk hann eftir mjóum stíg á hrísgrjónaakri, leit hann þá upp til himins og sá þá þykkt og fagurt þrumuský breiða sig yfir himininn. Er það breiddi úr sér, flaug hópur snjóhvítra trana framhjá. Fegurð þessara miklu andstæðna hafði svo mikil áhrif á drenginn að hann féll niður meðvitundarlaus. Hann sagði síðar að hann hefði fundið til ólýsanlegrar gleði, er þetta gerðist. Nokkrum árum síðar, er Ramakrishna er að gæta musterisins í Dakshineswar varð hann gripinn ákafri löngun til að sjá hina raunverulegu móður að baki Kali-styttunnar. Er hann spurði sig spurninga eins og: „Ertu raunveruleg, móðir, eða er þetta allt saman tilbúningur – skáldskapur án nokkurs veruleika? Er andlegur veruleiki hreinn hugarburður og ert þú aðeins ímyndun mannsins?“  Hann hefur sjálfur lýst því er óvissan var að verða honum óbærileg og  ákvað að binda enda á líf sitt. Þegar hann stökk eins og óður maður og greip sverð sem geymt var í musterinu, segir hann,  „birtist hin blessaða móðir mér mér skyndilega. Byggingarnar, hinir ýmsu hlutar þeirra, musterið og allt annað hvarf mér algjörlega sjónum og í þeirra stað sá ég ótakmarkað, óendanlegt og skínandi haf vitundar.“ Lýsing hans er talsvert lengri en þetta verður að nægja í þessari umfjöllun. Þarna er um að ræða andlega reynslu sem tengist formi og virtist koma þegar hann ætlaði að granda sjálfum sér. Í stað þess að deyja líkamlega er eins og að „ég“ hans deyji, ekki ósvipað og hjá Ramana. Aftur gerist þetta, en í þetta sinn á æðra stigi, undir leiðsögn Tota Puri sem greip upp glerbrot, beindi því á milli augabrúna hans og sagði: „Einbeittu huganum að þessum punkti.“ Er móðirin britist honum notaði hann sundurgreiningu hugans og skar mynd hennar í tvennt. Þá stóð ekkert í veginum og hann upplifði hreina æðri vitund.

Ef við skoðum örlítið nánar reynslu þessara manna kemur í ljós að þeir nota hugann, en hugurinn einn og sér færir þeim ekki svör, þeir nota hann sem eins konar þrep, eða stökkbretti. Það sem er merkilegt við Ramakrishna sér í lagi er að hann virðist hafa getað veitt öðrum ósvikna, andlega reynslu, þ.e. ef þeir voru tilbúnir. Athyglisverð er reynsla Vivekananda, helsta lærisveins hans er hann var eitt sinn að ræða við annan lærisvein í gamasömun tón um advaita vedanta.  sem Ramakrishna hafði verið að fræða þá um.  “Getur það verið mögulegt að vatnskannan sé guð?“ Er Ramakrishna heyrði þetta kom hann út úr næsta herbergi til þeirra og sagði: “Hvað eruð þið tveir að ræða saman?“ og snerti Vivekananda um leið, sem fór samstundis í samadhiástand og upplifði þar einingarvitundina. Vivekananda segir sjálfur frá þessu með eftirfarandi orðum: „Það varð gjörbylting á ástandi hugar míns augnablikið sem meistarinn snerti mig. Ég varð furðu lostinn yfir því að sjá að það var ekkert í öllum heiminum nema guð. En ég þagði alveg yfir þessu, þótt ég sæi það og ákvað ég að sjá til hve lengi ástand þetta mundi vara. En það breyttist ekkert þennan dag. Ég snéri heim. Allt var með sama móti þar. Svo virtist sem allt sem ég sæi væri hann (guð). Er ég sat við matarborðið sá ég, að maturinn, diskurinn, sá sem bjó til matinn og ég –  allt var þetta hann. Síðan þá hef ég aldrei getað efast um eininguna sem ríkir í allri tilverunni.“

Þegar svokallað „ferli“ byrjar hjá K í Kalíforníu 1922 segir hann svo frá 17. ágúst:

„Fyrsta daginn meðan ég var í þessu ástandi og meðvitaðri um það sem í kringum mig var, varð ég fyrir í hæsta móta óvenjulegri reynslu. Ég sá mann vera að gera við veginn; þessi maður var ég; hakinn sem hann hélt á var ég; sjálft grjótið sem hann var að höggva upp var hluti af mér; mjúk grasstráin voru sjálf verund mín, og tréð við hlið mannsins var ég“  o.s.frv. Síðar segir hann: „Ég var í öllu eða, öllu fremur, allt var í mér, lifandi og dautt, fjöllin, ormarnir og allt sem lífsanda dró. Ég var í þessu sæluástandi allan daginn.“

Þannig gætum við haldið áfram að skoða lýsingar þessara manna á andlegri reynslu sinni. En rétt er að minna á, að það eru ekki aðeins nafnkunnir menn og konur sem hlotið hafa slíka reynslu. Til eru heimildir um fólk af ýmsum stigum þjóðfélagsins, í ýmsum löndum og tímum sem orðið hafa fyrir slíkri reynslu. Er það þessi  reynsla sem við viljum?  Viljum við í raun og veru verða fyrir slíkri andlegri reynslu? Eða viljum við bara lesa um hana eða heyra henni lýst?  Það er ekki neman eðlilegt að þegar þeir sem fyrst eru að reyna hugleiðingu verði smeykir, þegar þeir verða varir við einhverja breytingu á vitund sinni. Það er aðeins mannlegt. Þar erum við að fara út í hið óþekkta og vitum ekki hvað við tekur. Sé aðeins um huglæga íhugun að ræða, þ.e. sé ekki verið að æfa stífar pranayama-æfingar umfram það sem eðlilegt getur talist, heldur aðeins huglæga íhugun, segja þeir sem reynslu hafa af slíkri iðkun, að ekki sé hætta á ferðum. Komi upp ótti við eitthvert ferli sem byrjar, gengur það sjálfkrafa til baka. Í upphafi þessa erindis töluðum við um að fá skilning á sjálfum okkur og að ná reynslu af okkar innra eða æðra sjálfi. Ef við viljum ekki hætta á neitt í þessum efnum telja margir, jafnvel geðlæknar mæla með því, að tryggja sér tíma til stuttrar slökunar og íhugunar svo sem tvisvar á dag. Slík iðkun hefur góð áhrif á bæði sál og líkama. Þeir sem taka að iðka einfalda slökun og íhugun finna til vellíðunar innra með sér og jákvæðra áhrifa á samskipti við aðra.

Ef við hins vegar viljum halda okkur við upphafleg áform, þ.e. að veita betur athygli huga okkar og vitund, hvernig getum við þá verið viss um að verða ekki fórnarlömb einhvers konar sefjunar, sjálfsdáleiðslu og að það sem við upplifum sé ekki aðeins eigin hugarfóstur og því einhvers konar blekkingar?  Þeir sem hafa orðið fyrir ósvikinni, andlegri reynslu leggja áherslu á, að í henni séu þeir miklu meira vakandi en í venjulegri dagvitund. Margir yogar tala um að flest séum við í eins konar dásvefni daglega og að iðkun yoga sé eins konar „af-dáleiðsla“,  þ.e. til þess gerð að koma sér úr dásvefninum. Annað getum við einnig merkt, sem sé að þeir sem fyrir slíkri reynslu hafa orðið breytast til betri vegar, reynslan virðist hafa haft mjög góð áhrif á þá sem manneskjur, þeir verða jákvæðir gagnvart öðrum og vilja gjarnan vekja aðra til sömu vitundar. Þetta gerðu hinir fornu rishiar, þetta gerðu Rama- krishna, Vivekananda og aðrir fræðarar  Vedanta-hreyfingarinnar. K varði öllu ævistarfi sínu í þágu annarra, að gera mennina frjálsa. Í ævisögu Pupul Jayakar um K er að mörgu leyti farið dýpra í hlutina en í flestum öðrum bókum um K. Bæði er Pupul sjálf að kanna þessi mál af fullri alvöru og hún segir mjög nákvæmlega frá viðtölum sínum og kynnum af K. Hún varð oft vitni að andlegri reynslu hans. En hún segir einnig frá því að hann hafi oft haft áhyggjur af því hvers vegna enginn þeirra sem til hans komu, jafnvel ekki nánustu vinir hans sem reyndu í fullri alvöru að skilja hann og upplifa það sem hann var að tala um, tókst ekki að upplifa eða að „umbreytast“ eins og hann orðaði það. Í lok ævi sinnar gaf hann merkilega yfirlýsingu, sem við fórum í hér í fyrra erindi, um það að enginn hafi breyst eins og hann hafði stefnt að. Ekki vantar að ræður hans og rit höfða mjög til nútímamanns-ins. Það er því að vissu leyti einkennilegt, að hin mjög skýra framsetning hans skuli ekki hafa borið tilætlaðan árangur. Hann fékkst aldrei til að segja hvernig  ætti að fara að því að losna undan blekkingu égsins, og þeirrar mótunar sem við erum föst í, því að hvernig  hefur í för með sér kennivald, einhvern sem segir hvað eigi  að gera. Það þýðir aðferð og hætta er á að festast í aðferðinni. Skoðum þetta nánar. Í ræðum sínum með áheyrendur fulla af athygli, með opinn huga til að skilja, sem halda athyglinni vakandi o.s.frv. leiðir hann þá eftir vissum brautum, hann notar hugann til að gera sér grein fyrir því hvernig hann starfar, takmörk hans o.s.frv. og leiðir síðan hlustandann að endimörkum þessara hugsana, en stökkið yfir í það sem liggur handan hugans tekst ekki. Ef við skoðum aðferðir yogaiðkunar, þá er hugurinn einnig notaður, margt er þar ekki ósvipað, t.d. neti, neti-aðferð jnani yoga, ekki þetta, ekki þetta, og stefna þannig út á svipað stökkbretti. Jafnvel í bhakti yoga má segja að hugurinn sé þar notaður til að mynda ímyndir, sem síðan eru smám saman leystar upp og eftir ríkir, ef allt tekst vel, huglæg kyrrð sem jafnvel leiðir yfir í æðra vitundarástand. Vitað er að iðkendur ýmissa yogaleiða upplifa yfirvitundarástand. Ýmsir fylgjendur K efast hins vegar um raunveruleik slíkrar reynslu. Í því sem hér hefur verið rætt í þessu erindi má segja, að það eru ekki ólík viðhorf sem koma fram hjá K annars vegar og Vedanta-spekingum hins vegar, þ.e. að æskilegt sé að ná tærleika hugans, gera sér grein fyrir því hvernig hugurinn starfar,ekki stöðvast við sæluástand hugleiðslunnar, heldur fara handan við slíkt ástand og ná tærri vitund. K hefur notað orðið tærleika (lucidity) og í Vedanta er talað um fjórða ástandið (fjórðu víddina) eða turiya.. Skýring Vedanta á turiya eða fjórða ástandinu er að fyrsta, annað og þriðja eru vaka, draumur og djúpur svefn. Rétt eins og þegar reipi getur verið tekið fyrir staf, snák eða blómsveig, þá getur reipið, grunnur þeirra verið nefnt hið fjórða.

Einn þeirra Vesturlandamanna sem lagt hafa stund á Vedanta og eiga mikla reynslu að baki í iðkun íhugunar af ýmsu tagi er Bandaríkjamaðurinn Lex Hixon, sem lést á s.l. ári. Lex Hixon gerðist nemandi Swami Nikhilananda, yfirmanns Vedanta Society í New York, er hann var við háskólanám þar í borg. Nikhilananda er m.a. þekktur fyrir frábæra þýðingu sína á hinu mikla riti, „Gospel of Sri Ramakrishna“  yfir  á enska tungu. Hixon skrifaði margar athyglisverðar bækur um andleg mál. Í bók sinni, „Heimkomunni“, kemur hann einmitt inn á  það sem við erum að ræða hér, fjórðu víddina eða turiya. Hann segir um hana m.a.:“ Nikhilananda sagði stundum að turiya  gegnumsmjúgi öll fyrirbæri tilverunnar eins og eyðimörkin gegnumsmýgur hillingarnar, en hillingarnar væta ekki eitt einasta sandkorn.“  Nikhilananda skrifaði bók um ævi Vivekananda. Þar segir hann á einum stað frá merkilegu atviki varðandi fjórða ástandið: „ Við sjáum Vivekananda dag einn þar sem hann situr á bedda undir mangotré í klausturgarðinum. Munkar og nýliðar eru í kringum hann við deglegar skyldur sínar. Einn þeirra var að sópa garðinn með stórum sópi. Swami Premananda var að koma upp þrepin að musterinu að loknu baði. Skyndilega segir Vivekananda við einn lærisveininn: „Hvert ferðu til að leita að Brahman?  Hérna, hérna er hinn sýnilegi Brahman! Vei þeim sem sækjast eftir öðrum hlutum og vanrækja hinn sýnilega Brahman. Sérðu ekki? Hérna, hérna er Brahman!“ Orð þessi lustu þá sem í kringum hann voru eins og raflost. Sópurinn í höndum þess sem sópaði stöðvaðist. Allir upplifðu ólýsanlegan frið. Að lokum sagði Swami við Premananda:„Nú getur þú farið inn í musterið.“ Um turiya segir Hixon m.a. „Rétt eins og turiya er ekki vitundarástand en birtist gegnum öll stig vitundarinnar, þannig er turiya ekki reynsla.“ Hljómar þetta ekki kunnuglega í eyrum þeirr sem stúdera Krishnamurti?

Hann segir ennfremur: Turiya er ekki nein sérstök reynsla heldur er hún það sem myndar alla reynslu.Turiya lætur hvorki í té nýjar upplýsingar, staðreyndir né nýja sýn. Turiya er frumvitundin þaðan sem sérhver himnesk eða jarðnesk reynsla myndast…Þótt turiya sé æðst er ávallt greiður aðgangur að henni. Við þurfum ekki að vera uppljómaðir spekingar eins og Vivekananda til að upplifa turiya. Fyrsta upplifun turiya getur komið fyrir hvern sem er. Til þess þarf ekki margra ára iðkun hugleiðslu. Eins og Ramana Maharshi sagði þurfum við ekki spegil til að vita að við erum til…“ Í lok bókar sinnar segir Hixon frá andlegri reynslu sinni af turiya. Síðan segir hann: „Fimm árum síðar, á þriðjudagskvöldi, sat ég einn með kennara mínum, Swami Nikhilananda, í bókaherbergi hans. Fjórða vídd íhugunar eða turiya opnaðist óvænt. Ég hafði ekki upplifað hana í nokkur ár. Gullna sviðið kom aftur eins og af sjálfu sér, síðan hvíta sviðið og þá gegnsæja sviðið. Sá skilningur vaknaði innra með mér að þetta gegnsæja svið hefði dyr sem einnig væru gegnsæjar. Engin sýnileg myndhvörf gætu staðið fyrir gegnsæjum dyrum, en ég vissi að þær voru þarna. Er ég fór yfir lokaþröskuldinn, hvarf hið yfirskilvitlega vitni eins og  þegar persónuleiki minn hafði horfið áður er hann kom inn á hið gegnsæja svið. Allt í einu birtust sviðin þrjú, gyllt, hvítt og gegnsætt, samtímis, án hindrunar, þar sem þau komu hvert út úr öðru og hurfu síðan inn í hvort annað. Öll sviðin voru sama sviðsleysið. Jafnvel hinn daglegi heimur virtist vera án ósamræmis, takandi þátt í þessari fjórðu vídd íhugunar: Þarna sat Swami Nikhilananda í hægindastól sínum reykjandi indverskan vindling og lesandi New York Times í rólegheitum. Það er aðeins turiya.“

25. mars 1998,

Halldór Haraldsson

Fyrri Samhyggð og kærleikur
Efnisyfirlit