Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Tilgangur fundanna

Birt í Gangleri 20.2.1946

Höfundur: Jón Árnason, prentari.

Tilgangur fundanna

Það er að minni hyggju nauðsynlegt að gera sér glögga grein fyrir verkefni því, sem felst í fyrirsögn þessarar greinar um það, hver sé tilgangur fundanna í Guðspekifélaginu.

Frá vissu sjónarmiði má skipta tilganginum í tvennt. Það virðist rétt að tala um tvær hliðar á starfinu, er í rauninni fari fram að nokkru leyti samtímis. Má nefna það hina ytri og innri starfsemi.

Ytri starfsemin

Öll andleg starfsemi hefur ævinlega tvær hliðar: Aðra ytri og hina innri. Ytri starfsemin er sá hlutinn, sem fer fram hér í heimi. En hinn innri fer einungis fram í hinum hærri eða innri heimum.

Námið

Hið fyrsta, sem gera verður, er nýr maður æskir að kynna sér Guðspeki, er að láta hann fá heppilegar byrjunarbækur til þess að lesa og kynna sér. Það eru yfirlitsbækurnar, sem fyrst koma til greina. Má í því efni benda á bækurnar um fræðikerfið eða aðalatriðin í hinum guðspekilegu fræðum. Hinar eru bækurnar um veginn. Ýmsir eru þeir, sem ekki treystast til þess að fást við fræðikerfið sjálft, vegna þess, að þegar fram í sækir er það örðugt viðfangs, t. d. lýsingarnar á þróunarkerfinu, svo sem hnattakeðjunum. En námið er frumskilyrði fyrir því, að hlutaðeigandi geti gert félaginu og hreyfingunni verulegt gagn. Það er í sjálfu sér grundvöllurinn, sem starfið hvílir á.

Fræðslan

Þegar frumnáminu er lokið og nemandinn hefur náð sæmilegum tökum á fræðikerfi Guðspekinnar, er hann kominn að því takmarki, að hann er orðinn fær um að skýra hin ýmsu atriði kerfisins og svara sumum þeirra spurninga, sem menn á frumstigi námsins bera upp fyrir honum.

Þess má geta, að margir komast að því takmarki að hafa náð í verulegan hluta námsins, en fara svo eigi lengra. En annars er námið í raun og veru óendanlegt.

Sé nemandinn gæddur ræðumannshæfileikum má gera ráð fyrir því, að hann sé fær um að halda erindi og fyrirlestra um hin ýmsu atriði fræðikerfisins og skýra þau að meira eða minna leyti. Hann byrjar á því að flytja smáerindi á fundum í félaginu eða í les- og námsflokkum og fær þá nauðsynlega æfingu í því að skýra hin ýmsu atriði og gera þau skiljanlegri og ljósari fyrir nemendunum eða félögunum á fundunum.

Útbreiðslan

Síðasta skrefið í hinni ytri starfsemi er útbreiðslan.

Krefst hún góðrar þekkingar og skilgreiningar á því, hvað sé heppilegt að bjóða í hverju einstöku tilfelli og á hverjum einstökum stað. Verður þá að gera sér nákvæma grein fyrir því, hverjir eigi að njóta fræðslunnar og útbreiðslunnar. Það verður að reyna að sníða allt við þeirra hæfi, sem eiga að njóta þess, sem flutt er. Þó er gott að skjóta inn í einstökum atriðum, sem eru ný og áheyrendunum ekki kunn áður, til þess að vekja athygli þeirra og halda þeim við. En þetta verður að gerast með varúð, þegar talað er á nýjum stað, því að sumir gætu ef til vill fengið fullstrembinn skammt og það gæti orðið til þess að gera þá fráhverfa eða vakið hjá þeim þá hugsun, að þetta sé þeim gersamlega óviðráðanlegt verkefni.

Þegar sá, sem flytur fræðslu á nýjum stað eða þeim, sem lítið eða ekkert kunna í Guðspeki, er nauðsynlegt að byrja á því allra einfaldasta og léttasta, en gefa þó aðalyfirlitið yfir fræðikerfið, til þess að menn geti áttað sig að meira eða minna leyti á aðalatriðunum. Þá er hægara síðar að taka þau hvert út af fyrir sig og útlista þau nánar.

Innra starfið

Komum við þá að aðalefninu, sem sé hinni innri hlið starfsins, sem er miklu þýðingarmeira frá sjónarmiði allífsins en sú ytri hlið þess, jafnvel þó að hún sé mjög þýðingarmikil og nauðsynleg, því að hún er að vissu leyti skilyrðið fyrir því, að hin geti notið sín.

Æðri veraldir

Til þess að unnt sé að ræða um hina innri hlið starfsins, verðum við að gera okkur þess fulla grein, að í tilverunni séu fleiri vistarverur en sú, sem við almennt sjáum og þreifum á. Við verðum að gera okkur það ljóst, að til eru efnalög í náttúrunni, sem eru mörgum sinnum fínni og næmari en efni það og efnasamsetningar, sem við skynjum.

Í þessum fínni efnalögum er sveifluhreyfingin að sama skapi tíðari og stórfelldari en í hinu jarðneska efni og verkanir hennar tiltölulega víðtækari.

Æðri öfl

Það lætur því að líkum, að í hinu fínna og hærra efni séu verkanirnar miklu víðtækari en hér í heimi og er það svo. Þar kemur til greina bæði hraði og öldulengd. Því fínna og samfelldara sem efnið er, því móttækilegra og viðkvæmara er það fyrir utanaðkomandi áhrifum. Sveiflumagnið í því verður tíðara og hraðara, Það er því að miklum mun léttara að hreyfa þetta efni en hið jarðneska.

Óhjákvæmileg afleiðing þessa er sú, að hugsunin hefur að miklum mun víðtækari áhrif þar en hér. Er hún í raun og veru hin mikla skapandi orka tilverunnar, einnig hér í heimi, en þeim muninum meiri orka er hún, þegar hún vinnur í efni, sem er mörgum sinnum næmara fyrir áhrifum hennar. Og það gefur að skilja, að hún er það ekki minnst á því sviði, sem er hennar raunverulega heimkynni og aðaláhrifasvæði hennar – hugheimarnir. Enginn smávægilegur hlutur, hversu lítilmótlegur sem hann er, verður til, án þess að hann hafi verið hugsaður áður en hann varð til og þá þegar hefur hann verið mótaður í þeim heimum með hugsun. Allt, sem gerist, birtist þar og á þar uppruna sinn að nokkru leyti. Og allt, sem gerist er því hugsað áður og öll fyrirbrigði í tilverunni eru árangur af orku hugsunar. Og öll þessi fyrirbrigði eru árangur af vinnu vitsmunavera. Æðri öfl vinna því í fullu samræmi við lögmál þau, sem ráða tilverunni.

Meistarar og vinna þeirra

Lítið er ritað um vinnu meistaranna og er það að vonum, því að það er nálega ekkert, sem vitað er um möguleika þá, sem þeir hafa til þess að koma fyrirætlunum sínum í framkvæmd. Þó er vitað, að þeir hafa mismunandi verkefni með höndum. Fer það að nokkru eftir því á hvaða geisla þeir eru í þróuninni. Þó vinna sumir þeirra á fleiri en einum geisla.

Einn þeirra vinnur aðallega á leið siðaathafna og notar hana sem farveg fyrir æðri orku til þess að lyfta undir þróunina. En hann vinnur einnig á hinni svonefndu „pólitísku“ leið. Hann hefur umsjón með hinni „pólitísku“ starfsemi í Norðurálfunni. Einkum hefur hann umsjón með hernaðarþjóðunum. Einn hefur umsjón með Engilsaxnesku þjóðunum og enn einn með þjóðum Ameríku. Og öll þessi vinna er unnin á bak við tjöldin – á hinum æðri sviðum tilverunnar eða í gegnum þau. Þeir hafa vald til þess að meðhöndla náttúruöfl, sem okkur eru gersamlega ókunn og beina þeim, ef svo mætti segja, í þá átt að lyfta undir þróunina hér á jarðríki og leiða hana að fyrirhuguðu takmarki.

Þegar talað er um takmark í sambandi við lífið og þróunina, má aldrei skilja það svo, að þar sé um endalok að ræða, heldur er þá átt við ákveðinn áfanga á hinum hækkandi vegi.

En fleiri starfsgreinar með mönnum eru notaðar sem farvegur æðri afla en siðaathafnir þar sem þær eru um hönd hafðar. Einnig eru einstaklingar notaðir í þessu augnamiði, annað hvort vitandi eða óafvitandi. Í þeim flokki eru lærisveinar meistaranna og eru þeir sér þess fullvitandi, allflestir, að þeir eru samverkamenn í starfi meistaranna. Eru þeir í raun og veru ekki tækir sem nemendur meistaranna, nema því aðeins, að þeir séu þess umkomnir að vinna ákveðin störf í þágu þróunarinnar.

Guðspekistúkan

Margir halda, að aðalstarf Guðspekifélagsins sé einmitt hið ytra starf þess, sem ég hefi lítils háttar minnst á hér að framan og lengi vel hættir mönnum við að hugsa svo. En er fram í sækir, ef náminu hefur miðað allvel áfram, mun þessi skoðun taka breytingum. Þeir, sem einlægir eru og áhugasamir í viðleitni sinni, munu fyrr eða síðar verða þess varir – einkum ef þeir eru sæmilega næmir fyrir hærri áhrifum – að sérstök áhrif eða straumar, sem fljóta í gegnum þá á fundum, eru til staðar. Þetta getur verið mjög vægt í fyrstu og ekki mjög áberandi að þeim finnst, en við stöðuga þátttöku mun næmleikinn vaxa og skynjun þessara strauma verða æ meir áberandi. Sumir félagar eru þann veg í garðinn búnir, að þeir verða einskis varir, en það er í rauninni engin sönnun þess, að áhrif þessi séu ekki til staðar. Það er margra manna reynsla, að þessi áhrif, sem ég hef nefnt, eru til staðar í meiri eða minni mæli, að þeim finnst á hverjum fundi. Það eru margar orsakir, sem ráða því, að áhrifin eru mismunandi. Þeir, sem sækja fundina, geta verið í mjög misjöfnu ástandi eða misjafnlega fyrirkallaðir og það hefur ákaflega mikil áhrif á næmleika þeirra í hvert sinn. Þeir þurfa að vera í fullkomnu jafnvægisástandi ef vel á að vera. Þá eru þeir best undir það búnir að veita áhrifunum viðtöku. Áhrif þessi njóta sín best eða virðast sterkust, ef fundur er haldinn nálægt fullu tungli – þó frekar undir vaxandi tungli en minnkandi. En þegar menn fara að vera þjálfaðir og vanir, þá hefur hið ytra að miklum mun minna að segja, því að þá flæðir orkan í gegnum þá stöðugt og óhindruð. Að lokum getur þjálfunin náð svo langt, að hver einstaklingur verði sjálfstæður farvegur fyrir þessa orku og jafnvel eins sterkur og sameiginlegur fundur margra manna, þó að vel samstæður sé og samfelldur.

Á bak við …

Hvernig eru samböndin? Hvað er aðhafst á bak við stúkurnar? Frá því hefur verið skýrt, að tveir meistarar Hins Hvíta Bræðralags hafi tekið að sér það hlutverk að láta stofnsetja Guðspekifélagið og reka það. Afleiðing þess er sú, að félagið er og verður undir stöðugri vernd þeirra á meðan það er þess megnugt að vinna verk það, er því var ætlað í upphafi.

Þeir hafa hjá sér eins konar landabréf af hnettinum og á það eru markaðar allar þær stúkur, sem starfa í heiminum og allar aðalstöðvar hinna ýmsu deilda félagsins ásamt höfuðstöðvunum í Adyar á Indlandi. Á milli meistaranna og allra þessara höfuðstöðva og stúkna eru lagðar leiðslur í hærri veröldum, sem tengja þær saman og við þá. Á þessum uppdrætti sjá þeir hverja stúku hvar í heimi sem hún starfar og hvernig hún stendur að vígi í starfinu og fylgjast því með öllu, sem gerist í félaginu um allan heim. Þeir veita ákveðinni tegund af orku í gegnum þessar leiðslur til sérhverrar stúku og hún veitir viðtöku því af þessari orku, sem henni er undir öllum kringumstæðum unnt að veita viðtöku. Á hverjum fundi er þessari orku veitt í gegn og er það gert á sama augnabliki og fundurinn á að hefjast. Dragist fundarsetning nokkuð, er hætt við, að sumt af orkunni fari forgörðum, því að félagarnir voru ekki tilbúnir til þess að veita henni viðtöku, því að þeir, sem vinna á bak við, hafa engan tíma til þess að bíða eftir seinlæti og óstundvísi. Það er því afar nauðsynlegt að fundirnir séu settir á nákvæmlega réttum og tilsettum tíma. Sé þessari sjálfsögðu kröfu fullnægt, hefur orkan notið sín til fulls, og þegar hún er komin í gegnum þá, sem á fundinum eru, hefur hún náð sambandi við þennan heim og hefur breytist í það ástand, sem gerir hana nothæfa til þess að vinna það verk, sem henni er ætlað að vinna.

Hinn rétti áróður

Þegar talað er um áróður, þá hljómar það orð ekki vel í eyrum. Það þykir ekki viðfelldið hugtak. Það er engu líkara en að því fylgi ætíð einhver þvingunarkennd. Það er ekki slíkur áróður eða áróðursaðferð, sem ég ætla hér að minnast á. Sú aðferð, sem ég bendi á hér, er allt annars eðlis. Áróður þessi fer fram í fullkominni kyrrð, vegna þess að upptökin eru ekki hér í heimi. Nokkuð af þeirri orku, sem veitt er í gegnum fundina, er veitt yfir umhverfið, þar sem fundirnir eru haldnir og hefur hún áhrif alls staðar, þar sem einhver móttækileiki er fyrir hana, þar sem sál einstaklinganna hefur í sér sams konar móttækileika og þegar hin réttu utanaðkomandi áhrif berast opnast hlutaðeigandi fyrir þessum áhrifum og veitir þeim viðtöku, og þá fljóta inn hugmyndir, sem eru hans eigin eign og hann fer að vinna með þær. Það er meðal annars af þessari ástæðu, að dr. Annie Besant sagði, að þar sem Guðspekistúka hefði haldið reglulega fundi, þar væru menn tilbúnir til þess að veita fræðslu hennar viðtöku. Af þessum ástæðum er það afar nauðsynlegt, að fundirnir séu haldnir reglulega og byrji á nákvæmlega réttum tíma.

Fyrri Brot úr þróunaráætlun
Efnisyfirlit