Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Sjálfsmynd og gervistolt

Höfundur: Jón L. Arnalds

Egoið er ímynd. Við búum til ímynd um það, hvað við eigum að vera og hvað við getum verið. Ímyndin er alltaf tilbúningur og samræmist ekki hlutveruleikanum, jafnvel þótt hann sé ekki álitinn blekking, því alltaf er um ýkjur að ræða. Þessi ímynd, hefur afgerandi áhrif á persónuleikann. Það fer eftir áhugasviði okkar og markmiðum, hvað er ýkt. Ímyndin og markmiðin haldast í hendur. Raunsjálfið, atman, verður þá alloft fyrirlitlegt, og þar sem ekki er á það horft frá sjónarmiði veruleikans heldur ímyndunar og óskhyggju, verður viðhorfið til þess óraunhæft og fráhrindandi. Hugsjónir eru nauðsynlegar öllum þroska og þróun, en sjálfsímyndin er gagnstætt hugsjónum og háleitum markmiðum venjulega óbreytileg og stöðnuð, föst hugmynd, sem við höfum dálæti á. Sjálfsímyndin stendur oftast í vegi fyrir þroska, því hún ýmist afneitar göllum okkar eða fordæmir þá. Hugsjónir fela í sér viðurkenningu og lítillæti, en sjálfsímyndin er drambsöm. Sjálfsímyndin er kjarni egosins, sem erfitt er að uppræta og okkur veitist jafnvel mjög erfitt að draga úr henni. Hún er að margra dómi mesta fyrirstaðan á leið til þroska.

Sjálfsímyndin kemur venjulega í stað eðlilegs sjálfstrausts og sjálfsálits. Eðlilegt sjálfstraust byggir á eiginleikum okkar og kostum. Hvað til þeirra telst, fer eftir þjóðfélagsviðhorfum á hverjum tíma. Hæfileiki til að hafa sjálfstæðar skoðanir og geta fylgt þeim eftir í raun, eflir sjálfstraust. Einnig eflir sjálfstraustið að geta reitt sig á sjálfan sig með því að byggja á innri styrk, bera ábyrgð á eigin gerðum, meta af raunsæi eigin eiginleika, kosti sem ókosti og takmarkanir, hafa auk þess tilfinningastyrk og hæfni til að stofna til tengsla við aðra og rækta þau. Ef hér skortir eitthvað á, verður sjálfstraustið fallvalt. Eðlilegt sjálfsálit byggir á traustum grunni. Það getur byggst á réttmætri virðingu fyrir sérstökum afrekum, svo sem siðferðilegu þreki og hugrekki eða góðu verki, tilfinningu fyrir gildi okkar og sæmd. Yfirleitt er eðlilegu sjálfsáliti og sjálfstrausti ekki að heilsa. Liggja til þess margar ástæður.

Egoið gerir okkur snemma á ævinni viðskila við atman, sem er okkar eigið sjálf. Við verðum því andlega skipt. Við viljum margt ósamþýðanlegt í senn, en það er veruleiki, sem sprettur af hugsun. Sjálfsímyndin, sem við reynum að fegra fyrir okkur sjálfum, gegnir því hlutverki að lyfta huga okkar yfir hinn hráa hlutveruleik. Upphefðin er að mestu huglæg, en stundum að nokkru raunveruleg. Í staðinn fyrir eðlilegt sjálfstraust og sjálfsálit kemur sjálfsímynd, fegruð meira eða minna, þ.e. gervistolt, byggt á ímynduðum verðleikum. Munurinn á eðlilegu stolti og gervistolti fer ekki eftir magni, heldur gæðum. Gervistolt byggist á þörf egosins fyrir upphefð eða að gylla sig. Það geta verið ytri eiginleikar, eins og þjóðfélagsleg virðing eða eiginleikar og hæfileikar, sem við teljum okkur trú um að við höfum.

Það eru gömul sannindi, að himnaríki kemur ekki utan frá. Hversu fullkomin, sem við teljum okkur vera eða geta orðið, þá skortir okkur það sem við þráum mest, sjálfstraust og sjálfsálit. Við getum verið guðum lík í ímyndinni og öðlast frægð og frama, en erum samt alltaf óörugg. Við þurfum sífellt ytri staðfestingu og ef við missum völd og virðingu, þá finnum við óöryggið. Séum við í annarlegu umhverfi, bregðist stuðningur eða við gerum mistök, hrynur öll upphefðin, kætin, gleðin og sjálfsánægjan, sem sjálfsímyndin hafði byggt upp.

Eitt hlutverk sjálfsímyndarinnar er að uppfylla þörf okkar fyrir að vera eitthvað sérstakt. Við lifum ekki í tómarúmi, heldur innan um fólk, sem sífellt er að svíkja aðra og lítillækka. Við höfum því þörf fyrir að bera okkur saman við aðra, ekki af hégóma einum saman, heldur af nauðsyn. Þar sem okkur finnst stundum sem við séum lítils virði, leitum við ósjálfrátt að einhverju, sem gerir okkur betri eða meira virði. Löngun til yfirburða birtist oft á þann hátt að vilja sigra aðra. Hefndarsigur felur í sér þörf fyrir að vera eitthvað sérstakt. Sjálfsímyndin getur því gegnt mikilvægu hlutverki í þessu efni.

Segja má að við séum oft ráðvillt og vegalaus. Sjálfsímyndin gefur lífinu ákveðið innihald og tilgang, veitir okkur leiðsögn. Við sjáum greinilega hversu ráðvillt við verðum og rugluð, ef grafið er undan sjálfsímyndinni. Þá sjáum við hvað raunverulegar hugsjónir og markmið eru í raun, en sjálfsímyndin kemur í stað þeirra. Þá hjálpar sjálfsímyndin okkur að mála yfir galla og ókosti, sem við viljum ekki sjá í okkur, af því þeir eru andstæðan við ímynd okkar og markmið. Við breiðum einnig yfir árekstra og klofning í persónuleikanum og yfirleitt allt sem þar er mótdrægt og andsnúið. Í raun er sjálfsímyndin oft eins konar listaverk, þar sem mótsagnir eru sættar og sameinaðar eða að því er virðist að minnsta kosti á yfirborðinu. Við tölum um litríka persónuleika og margar hliðar á sama persónuleika. Sjálfsímyndin hefur þannig margþættu hlutverki að gegna. Hún hefur mikið huglægt gildi og heldur persónuleikanum saman. Þó hún sé einungis huglæg hefur hún mikil áhrif í samskiptum manna.

Sjálfsímyndin er ekki hið raunverulega sjálf. Hún er í senn tálmynd og kjarni egosins. Óskhyggjan ræður sköpun hennar, einnig hjá þeim, sem teljast raunsæir efnishyggjumenn. Sjálfsímyndin er venjulega sambland af ímyndun og veruleik og hefur að geyma markmið okkar og hugsjónir. Sjálfsímyndin verður til af nauðsyn og hefur ákveðið hlutverk. Hún hefur mikil áhrif á skapara sinn og aðra.

Þótt sjálfsímyndin sé byggð á tilbúningi og hugmyndaflugi er hún raunveruleg í augum okkar. Við viljum ekki missa hana og bregðumst hart við ef að henni er vegið. Án sjálfsímyndar finnum við okkur vegvillt og ráðlaus, jafnvel andlega dauð. Sá möguleiki, að verða meiri maður og meira virði en allur mikilfengleiki sjálfsímyndarinnar, er að vísu guðspjall, sem lætur vel í eyrum, en hefur samt enga merkingu, því það er stökk út í óvissuna, sem fáir þora að taka. Í raun er yfirleitt ókleift að ráðast gegn sjálfsímyndinni, nema vegna hinna miklu ókosta hennar. Oftast uppgötva menn þá ekki fyrr en eftir langa og stranga reynslu, sem kemur oft ekki fram fyrr en á miðjum aldri. Jung hefur bent á erfiðleika og uppgjör fólks eftir að hafa náð fertugs aldri.

Sjálfsímyndin er spilaborg hugmynda, sem getur hrunið hvenær sem er. Í henni er falin sprengja og varnarleysi. Gagnrýni, mistök og sérhver innsýn laskar ímyndina. Þá eru oft gerðar ráðstafanir til verndar og forðast allar aðstæður, þar sem hættu má vænta. Mesti galli sjálfsímyndarinnar er að með henni yfirgefum við sjálf okkar, atman, og hyljum eigin veruleik og kjarna. Við reynum jafnvel að útrýma honum. Við missum áhuga á lífinu, af því að við lifum því ekki sjálf og við getum ekki tekið ákvarðanir, af því við vitum ekki hvað við viljum.

Sjálfsímyndin er steinbarn, sem við göngum með í brjóstinu og mikill léttir er að losna við. Helsti háskinn frá sjálfsímyndinni er, að við sköpum mynd, sem við setjum gagnstætt veruleikanum, sjálfinu eða atman. Með því ætlum við að leysa vandræði okkar, en með því hefjast þau fyrir alvöru, því við snúumst gegn eigin sjálfi, innri veruleik okkar og því sem máli skiptir í þessum heimi. Við hættum að læra og missum áhuga á raunverulegum þroska okkar. Við höldum jafnvel, að þroskinn sé fólginn í að skapa fullkomnari ímynd og nálgast hana.

Okkur er því nauðsynlegt að vera meðvituð um sjálfsímynd okkar í smáatriðum, skilja hlutverk hennar og gildi og finna, hversu mikið við þjáumst undir henni. Þá sjáum við, að hún er of dýru verði keypt. En við losnum ekki við sjálfsímyndina, nema við getum minnkað þær þarfir, sem sköpuðu hana.

Við gerum okkur gildismat, sem ákveður hvað við höldum í heiðri og hverju við höfnum, forðumst og fyrirlítum. Gervistolt byggist alltaf á hinni upphöfnu útgáfu sjálfsímyndarinnar. Annað hvort eru það ytri kostir svo sem orðstír, álit, virðing og upphefð eða eiginleikar og hæfileikar, sem við teljum okkur hafa.

Af þessum kostum virðist þjóðfélagslegt álit eðlilegast. Það gera þjóðfélagshættirnir. Að vera stoltur af því að tilheyra mætum félagsskap, vera vinsæll, hafa samskipti við mikilvæga menn, eiga stórt hús og góðan bíl o. s. frv., telst eðlilegt í okkar þjóðfélagi. Þessir hlutir skipta þó suma engu máli, en aðrir eyða allri orku sinni í eftirsókn eftir þessum gildum. Auðvitað segjast þeir helst hafa áhuga á málefninu og telja eðlilegt að sóst sé eftir frama. En sjálfir rísa þeir og falla með velgengni sinni í þessum efnum og þótt hugur þeirra sé yfirfullur af hugleiðingum um þessi efni, sjá þeir ekkert athugavert við það af þeirri einföldu ástæðu að viðhorfið þykir sjálfsagt og er inngróið í menningu okkar. En vissulega er á ferðinni vafasamur sjúkleiki, sem gerir fólk tækifærissinnað og óheilt. Hér eru ekki á ferðinni eðlilegir hlutir, heldur alvarleg truflun, þar sem stoltið byggist á þáttum, sem liggja utan við okkur. Enginn skyldi hreykja sér af hesti sínum, sagði Epiktet.

Gervistolt byggist ennfremur á eiginleikum, sem við ímyndum okkur að við höfum, þeim eiginleikum og hæfileikum, sem tilheyra sjálfsímyndinni. Við erum yfirleitt ekki stolt af því, sem við raunverulega erum. Við erum jafnvel ekki hreykin af hæfileikum okkar, enda höfum við vegna sjálfsímynunar takmarkaða vitund um þá og afneitum þeim jafnvel. Erum við t.d. hreykin af vinnusemi okkar eða viðleitni til þroska? Á hinn bóginn erum við oft hreykin af afrekum og hæfileikum, sem við í raun höfum ekki. Sumum finnst þeir afklæðist persónuleikanum, ef þeir verða að breyta sjálfsmatinu smávegis. Sumir eru hreyknir af ímyndun sinni og fyrirlíta þar með hversdagslegt fólk, sem baslar við að leita sannleikans. Oftast er stoltið þó tengt skynsemi, gáfum, rökhyggju og viljastyrk. Það er eðlilegt, ef litið er til þess, að sjálfsímyndin er einmitt tilbúningur hugans. Allt snýst þetta um vald hugans. Því fjarlægari, sem við erum sjálfi okkar eða atman, þeim mun meiri veruleiki verður hugurinn. Sumir hafa nánast enga tilvist utan hugans. Þeir sjá veruleikann í spegli hans eða sem hugsanir sínar um heiminn og sig sjálfa. Því er eðlilegt að menn verði stoltir af gáfum og yfirburðum hugans.

Við getum verið stolt af að orðið er við kröfum okkar, af heilsuhreysti, heppni eða velheppnuðu sumarleyfi. Einnig af því að fylgja kröfum eftir, sýna samúð eða hafa stjórn á öðrum. Stolt getur verið bundið skyldusjónarmiðum. Oft sýnist slíkt stolt traust á yfirborðinu, en er þrungið yfirskini og uppgerð. Sá sem telur sig fullkomið foreldri er það venjulega í ímynduninni einni. Sá sem þykir sig vera mjög heiðarlegur, segir ekki beinlínis ósatt, en er oft fullur af dulvituðu óhreinlyndi. Sá sem þykir sig vera óeigingjarn og er stoltur af því, gerir ekki augljósar kröfur, en notar hjálparleysi sitt og þjáningu í staðinn. Hömlur á að hafa sig í frammi eða láta að sér kveða, telur hann gjarnan vera innbyggða hógværð.

Það getur orðið tilefni stolts að staðlar séu háleitir og strangir. Sumir vita ævinlega, hvað gott er eða illt og telja sig hafa siðferðilega yfirburði. Oft liggur stoltið í vitneskjunni einni um það, hvað sé siðferilega rétt. Stoltið á ekki rætur að rekja til siðferðisins sjálfs, heldur siðferðiskrafnanna. Ef slíkur maður ásakar sig fyrir siðleysi og þjáist undan þeirri ásökun, er það aðeins tákn um yfirburði siðferðilegrar vitundar hans. Þannig heldur hann stoltinu við.

Í raun getur hvað sem er orðið tilefni stolts. Það sem einn telur kost, finnst öðrum löstur. Sumir eru stoltir af að geta blekkt náungann, aðrir hafa á því skömm. Sumir eru stoltir af að treysta fólki, aðrir af því að vantreysta því. Þetta virðist ruglingslegt, en í raun fylgir stoltið alltaf sjálfsímyndinni. Þarfir verða þá kostir eða þeim er breytt í kosti, sem við erum stolt af. Á hinn bóginn er því hafnað, sem gengur þvert á sjálfsímyndina. Við gerumst þá býsna frjálslegir myndasmiðir og málum í sterkum litum, það sem við teljum æskilegt, en allt annað í daufum litum, ef við málum ekki yfir það. Ósamkvæmni verður þá frelsi, uppreisn gegn siðastöðlum hefur okkur yfir fordóma, hömlur á að gera eitthvað fyrir okkur sjálf verður að ósérplægni og óeigingirni, þörf fyrir að friðmælast verður að góðleika, ósjálfstæði að ást, hagnýting annarra að eigin kænsku, svo dæmi séu tekin. Hæfni í að ná fram sínum kröfum, kallast þá styrkur, hefndarsigur verður réttlæti, að svekkja aðra verður að slungnu vopni, verkleiði verður andstaða gegn vinnuþrælkun.

Við höfum minni áhuga á að kanna stolt okkar, heldur en það sem stendur í veginum fyrir vexti þess. Okkur þykir ekkert athugavert við það, sem við erum stolt af, einkum vegna þess að við teljum það einmitt sýna yfirburði okkar. Við finnum þó til ósveigjanleika þess, truflunar í samskiptum manna og orkueyðslu. Við vitum að ásókn okkar er oft eftir vindi, og að við gætum gert ýmislegt gagnlegra. Stoltið er byggt á sandi og getur hrunið eins og spilaborg við minnsta gust. Við erum særanleg að sama marki sem við erum stolt. Stolt okkar má særa innan frá og utan og annað hvort finnum við til lítillækkunar eða við skömmumst okkar. Ef við gerum, hugsum eða finnum eitthvað, sem særir stolt okkar skömmumst við okkar. Ef aðrir særa stolt okkar eða uppfylla ekki kröfur þess, finnum við til lítillækkunar. Þegar við því finnum til lítillækkunar eða skömmumst okkar, skyldum við spyrja þessara spurninga: Hvað orsakaði þessi viðbrögð og hvaða stolt var sært? Milli þessara spurninga er samhengi og oft er erfitt að svara þeim. Sama atvikið getur leitt til hvoru tveggja, lítillækkunar og tilfinningar fyrir skömm, þótt annað hvort hafi jafnan yfirhöndina. Ef athugasemd fær ekki undirtektir, getur viðkomandi fundið til lítillækkunar og hugsað sem svo, að viðmælendur hans séu heimskingjar, sem skilji hann ekki eða hann skammast sín fyrir klaufaskap og ráðaleysi. Ef einhver hagnast á honum, getur honum fundist það lítillækkun eða skömm að hafa láta snúa sig, svo dæmi séu tekin.

Meðan við lifum í sjálfglöðum draumi sjálfsímyndarinnar, getum við ekki verið sjálfum okkur trú. Bilið milli sjálfsímyndar og sjálfs eða atman verður ekki brúað. Engin millilausn er til. Ef við lifum í heimi ímyndunaraflsins, þar sem við leitum eigin upphefðar, spilum við með gildismat okkar. Með því að leita upphefðar á einn eða annan hátt fjarlægjumst við sjálfið (atman), og hættum leit að sjálfsþekkingu og hins hinnsta veruleika. Gervistolt er aldrei annað en tvöfeldni. Ef við vitum að stolt okkar tilheyrir einvörðungu sjálfsímynd okkar, eigum við í raun auðvelt með henda reiður á því. Þær tilhneigingar, sem þjóna sjálfsímyndinni og markmiðum hennar, veita stoltinu brautargengi. Stolt og sjálfsímynd haldast alltaf í hendur.

Jón L. Arnalds

© Guðspekifélagið

Fyrri Grunnur Guðspekifélagsins
Næsta Viðhorf Guðspekifélaga
Efnisyfirlit