Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Samhyggð og kærleikur

Höfundur: Halldór Haraldsson

Stutt erindi samið fyrir Evrópuráðstefnu Guðspekifélagsins og aldarafmælis finnsku deildarinnar 17. júlí 2007.

Ég var beðinn að flytja stutt erindi um Samhyggð-kærleika – grundvöll friðar og skilnings. Ég vil byrja á því að ræða svolítið um frið og skilning. Er við lítum í kringum okkur í heiminum í dag virðist ástandið ekki beinlínis friðsamlegt og ekki virðist heldur ríkja mikill skilningur milli þjóða af ólíkri menningar- og trúarhefð. Það sem fyrst kom upp í huga minn er ég hugleiddi þessa setningu var upphafið á velþekktri bók, Trúarbrögðum mannkyns, eftir Huston Smith. Þar segir hann: “Þegar sagnfræðingar horfa aftur til okkar tíma (1958) munu þeir ekki minnast þeirra vegna uppfinningar kjarnorkunnar eða útbreiðslu kommúnismans, heldur sem þess tíma þegar allar þjóðir heims urðu í fyrsta sinn að taka hverja aðra alvarlega.” Eins og oft hefur verið bent á hefur tæknivæðing undanfarinna ára haft það í för með sér að heimurinn hefur minnkað, ef svo má segja, þannig að í hvaða landi sem er í dag má finna fólk af ýmsu þjóðerni í sama herberginu. Þetta höfum við öll orðið vitni að og þekkjum sem staðreynd. En eins og Próf. Smith gefur í skyn, býður þetta vandamálum heim og við vonum að sjálfsögðu, að fólk taki hvort annað alvarlega. En því miður er þessu ekki þannig farið – ekki ennþá.

Orð annars þekkts manns komu einnig upp í hugann, orð í formála á bók eftir sagnfræðinginn Arnold Toynbee þar sem hann segir: “Það er þegar að verða ljóst, að þáttur sem átti sér vestrænt upphaf mun verða að eiga sér indverskan endi, ef þessu á ekki eftir að ljúka með sjálfseyðingu mannkynsins. Á þessum einstaklega háskalegu vegamótum í sögu mannkynsins (sem við nú lifum á) er indversk leið einasta leiðin, ef forða á mannkyninu frá glötun… Þar höfum við þá afstöðu og þann anda sem gerir mannkyninu mögulegt að þróast saman í eina fjölskyldu.” Og síðar: “Framtíð sjálfs mannkynsins er í veði. Samt er hið voldugasta og ærlegasta nytsemdar sjónarmið alls ekki mginástæðan fyrir því að rétt er að ganga á hönd þeirri kenningu, sem runnin er frá Ramakrishna, Gandhi og Asóka og gera hana að veruleika. Meginástæðan er sú, að þessi boðskapur er sannur – og hann er sannur vegna þess að bak við hann hvílir ósvikin upplifun andlegs veruleika.”

Þarna er Arnold Toynbee að vitna í Vedanta-heimspekina sem vakti athygli ekki ófárra hugsandi manna í lok síðar heimsstyrjaldar eins og Aldous Huxley, Christopher Isherwood, Gerald Heard og annarra. Þar sem þeir voru fæddir í yfirstéttarfjölskyldum höfðu þeir bundið vonir við sósjalisma, en síðan orðið fyrir vonbrigðum með hann eins og hann birtist í Þýskalandi og Sovétríkjunum og urðu þeir þá sannfærðir um mikilvægi þess að gerast friðarsinnar. Er þeir leituðu að heimspekilegum grundvelli friðarstefnu uppgötvuðu þeir grundvallaratrði Vedanta-heimspekinnar. Það sem hafði gildi fyrir þá í Vedanta-heimspekinni var að hún viðurkennir ólíkar andlegar leiðir að sama marki og myndar því víðsýni hennar sterkan grunn fyrir bæði frið og skilning. Þennan hugsunarhátt finnum við líka í fyrsta stefnuskráratriði Guðspekifélagsins, sem í raun fór töluvert lengra með því að stefna að því að móta kjarna úr allsherjarbræðralagi mannkynsins, án tillits til kynstofna, trúarskoðana, kynferðis, stétta eða hörundslitar.
Unnt er að skilja orð fyrsta stefnuskráratriðsins á venjulegan hátt, en það er einnig hægt að skilja þau af meir dýpt. Þ.e.a.s. að í fyrsta lagi eigum við ekki aðeins að sýna umburðarlyndi og skilning fólki af hvaða kynstofni sem er, hvaða trúarbrögðum sem er o.s.frv. heldur og að eiga við það vinsamleg samskipti. Í örðu lagi mætti skilja þau sem andlega umbreytingu einstaklingsins sem þá mundi upplifa raunverulega samhyggð-kærleika og losna við hvers konar fordóma og þröngsýni og mundi því sýna öðrum vinsemd og ástúð. Hið fyrrnefnda gæti einnig þýtt umburðarlyndi og skilning gagnvart öðrum félögum en þeirra deild Guðspekifélagsins sem þeir tilheyra og hvar sem þeir kunna að búa. Við vitum og erum að öllum líkindum samþykk því, að við sjálf verðum fyrst að sýna skilning með eigin framkomu. Hið sama gildir gagnvart þjóðfélaginu og heiminum, að Guðspekifélagið getur orðið fyrsti vettvangur tilrauna okkar. Innri uppbygging Guðspekifélagsins er ólík flestum öðrum félögum. Hún er mjög sérstök. Sem félagar tilheyrum við ekki sömu andlegu leiðinni. Í Guðspekifélaginu hafa félagarnir tækifæri til að sýna hvernig fólk með ólíkan andlega og heimspekilegan bakhjarl og ólík áhugamál geta unnið saman í sátt og samlyndi. Guðspekifélagið er ekki trúfélag. Það er ekki eðli þess. Umfang þess er vítt, nógu vítt fyrir mörg sjónarmið og skoðanir, þar sem sérhver meðlimur getur vaxið á sinn eigin hátt og virt aðra um leið. Þeir sem kynnt hafa sér sögu félagsins vita, að það hafa komið tímar, jafnvel tímabil, þar sem mikil hætta var á, að þessi einkenni breyttust og að það mundi breytast í andlega einstefnu, jafnvel fá á sig sértrúareinkenni. Það var sannarlega ekki ætlunin í upphafi að stofna enn einn sértrúarsöfnuðinn! Við höfum hins vegar verið svo lánsöm að eiga vitra leiðtoga sem komu í veg fyrir að það mundi gerast.

Það er afar fróðlegt að kynna sér hinar ýmsu bækur sem ritaðar voru á vordögum félagsins. Einkunnarorð félagsins: “Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri” voru djörf á sínum tíma og eru enn. Það er okkur mikilvægt, að gleyma ekki hugmyndum brautryðjendanna annars vegar og hins vegar að vera vakandi fyrir því sem er að gerast í dag. Varðandi sum skipulögð trúarbrögð sem ögra friði nú á dögum, verðum við að sýna umburðarlyndi, en um leið tel ég að verðum við að reyna að skilja eðli þeirra. Við erum líklega sammála um að viss sannleikur felsist í sérhverjum trúarbrögðum, en um leið verðum við að gera okkur grein fyrir því að þau aðskilja mann frá manni. Með öðru stefnu-skráratriði Guðspekifélagsins erum við reyndar hvött til að leggja stund á samanburð trúarbragða, heimspeki og náttúruvísindi. Þar erum við ekki hvött til að kynna okkur ein trúarbrögð heldur að bera saman trúarbrögð og því öðlast skilning á þeim. Endurspegla þau andleg gildi og eru þau á einhvern veg nálægt sannleikanum? Hvað því viðvíkur langar mig að lesa nokkur orð úr athyglisverðu bréfi um þetta mál sem skrifað var fyrir allöngu síðan eða árið 1882 og er frá meistaranum KH. Þar segir hann:” “Vanþekkingin skapaði guðina og kænskan notfærði sér tækifærið. Lítið á Indland og horfið á Kristindóminn og Islam, Gyðingdóminn og skurðgoðadýrkun. Það eru svik prestastéttanna sem gerðu guðina svo hræðilega manninum; það eru trúarbrögðin sem gerðu prestana eigingjarna kreddukarla, ofstækismennina sem hata menn sem standa utan söfnuðar þeirra án þess að bæta þeim það upp á nokkurn hátt. Það er trúin á guð og guði sem gerir tvo þriðju hluta mannkyns að þrælum örfárra sem blekkja þá undir því falska yfirskini að þeir séu að bjarga þeim.” Og hann heldur áfram: “Er maðurinn ekki ávallt reiðubúinn að fremja hvers konar illvikri sem guð hans eða guðir krefjast af honum – sjálfviljugt fórnarlamb ímyndaðs guðs, auðmjúkur þræll slóttugra presta? Írski, ítalski og slavneski bóndinn sveltir sig og fjölskyldu sína til að fæða prest sinn og páfa. Í tvö þúsund ár hefur Indland stunið undan þunga stéttaskiptingarinnar, Brahminarnir einir hirða gæði landsins og nú á dögum berast fylgjendur Krists og Múhameðs á banaspjótum í nafni dýrðar sinna goðsagna.” Síðan segir hann, að mannleg þjáning muni aldrei minnka fyrr en “betri helmingur mannkyns rífur niður altöru falskra guða í nafni sannleikans, siðferðis og alheimslegs kærleika.”
Hann hefði getað verið að lýsa ástandinu í dag! Þetta eru athyglisverð orð í bréfi frá 1882 og í fullkomnu samræmi við einkunnarorð okkar: “Engin trúarbörgð eru sannleikanum æðri.”

Þetta leiðir okkur að samhyggð-kærleika. Eins og við skiljum hann, þá er ekki um neinn frið eða skilning að ræða ef ekki ríkir samhyggð-kærleikur. Þar sem samhyggð-kærleikur er þekkt hugtak í Búddisma, minnir það mig á orð sem Dalai Lama sagði ekki fyrir allöngu: “Samhyggð-kærleikur veitir okkur tærleika, en þegar tilfinningarnar bera okkur ofurliði, skyggja þær á hina tæru sýn á veruleikann og valda því margs konar misskilningi sem leiðir til deilna (og jafnvel vopnaðra átaka).” En hvað er samhyggð-kærleikur? Samkvæmt amerísku Oxford orðabókinni er hann: “Samúðarfull meðaumkun og umhyggja fyrir þjáningu eða ógæfu annarra.” Einkennandi við indversku hefðina er, að þekking, viska og samhyggð-kærleikur eru ekki eitthvað sem við nálgumst utan frá, heldur eitthvað sem býr innar með hverjum manni. Þetta viðhorf finnum við í Vedanta og í Búddisma. Innsta eðli Bodhisattvans er samhyggð-kærleikur (karuna). En hve raunhæft er þetta fyrir okkur í dag og er það á nokkurn hátt mögulegt fyrir okkur að upplifa þetta? Þetta er eitthvað sem við verðum að vinna að, mikilvægasta verkefni okkar. Án þessa eru engin raunveruleg samskipti milli fólks, engin samhyggð-kærleikur, enginn friður, enginn skilningur. Við vitum að leiðirnar eru margar og við förum þá leið sem okkur þykir eðlilegust. Og þó, – ef til vill er það eðlilegast nútímamanninum einfaldlega að veita sjálfum sér athygli, veita ytra og innra umbhverfi sínu meiri athygli og sér í lagi samskiptum við aðra. Verandi tónlistarmaður leyfi ég mér að skoða betur það sem stundum gerist í okkar starfi. Til að ná meira valdi á tækni, að ekki sé talað um túlkun, þarfnast ekki aðeins tærleika hugans heldur og innsæis. Í þessu tilviki verðum við að vera mjög næm, hlusta einstaklega vel og veita fulla athygli bæði smæstu smáatriðum sem og heildinni. Ég er ekki að reyna að láta þetta hljóma merkilegra en það er. Þetta er einfaldlega eins og það er. Verandi þannig í nánum tengslum við verkefnið með galopna athygli þá gerist það stundum, að eitthvað innra vaknar, eitthvað sem þú getur ekki útskýrt og það er fullt samræmis, fegurðar og samhyggðar-kærleika. Þegar þetta gerist er túlkun eða kennsla eins hún gerist best. Við getum einnig fengið djúpa reynslu einingar við það að hlýða á tónlist. Á slíkum augnablikum höfum við þá tilfinningu, að við höfum komist í snertingu við það sem nefna mætti samhyggð-kærleika. Það er vissulega ekki tilfinning sem slík. Fyrir þeim, sem hljóta slíka upplifun eru þetta sjaldgæf og dýrmæt augnablik.

Í samræðum Krishnamurtis við dr. Bohm og dr. Schainberg er á einum stað rætt um samhyggð-kærleika í tenglsum við þjáningu. K. er að tala um, að ef við getum veitt þjáningu mannsins næma athygli, ekki persónulegri þjáningu heldur hinni alheimslegu þjáningu, það að maðurinn lifi í algerri vanþekkingu um sjálfan sig o.s.frv. að ef við getum veitt öllu þessu vakandi athygli, þá þegar hugsunin stöðvast geti samhyggð-kærleikur birst. Þá fæðist orka samhyggðar-kærleika, segir hann. Og ennfremur: ”Endalok þjáningarinnar er sæla samhyggðar-kærleika.”

Helsta viðfangsefni hans var: umbreyting mannsins. Þeir sem kynnt hafa sér Kenninguna huldu (Secret Doctrine) eftir Blavatsky vita, að fyrir utan alla þekkinguna sem þar er að finna, er það umbreyting vitundar mannsins sem er aðal markmiðið. Raunveruleg breyting á þjóðfélaginu felst í breytingu hvers einstaklings. Ef við eigum að skilja dýpri merkingu þess “að móta kjarna úr allsherjar bræðralagi mannkynsins” gætum við haldið því fram, að guðspekisinni nútímans sé ekki einhver sem heldur sér við ákveðna trú (trúarsetningar), heldur einhver sem lætur sig varða umbreytingu vitundarinnar. Próf. Raymond Martin við háskólann í Maryland í Bandaríkjunum, fyrsti prófessor háskólasamfélagsins sem skrifar bók um viðhorf og kenningar Krishnamurtis í röð bóka um heimspekinga, tekur saman viðhorf hans í lok bókar sinnar á eftirfarandi hátt: Ef vitund sérhvers okkar mun ekki breytast eins og K talar um mun þrennt gerast: 1) Líf okkar verða full innri togstreitu; 2) Innri togstreita okkar mun birtast í ytri hegðun okkar; og 3) Ytri hegðun okkar mun valda öðrum alvarlegum vanda. Ef okkur aftur á móti tekst að umbreytast frá grunni mun sérhvert okkar lifa í sátt og samlyndi við okkur sjálf, sem birtast mun í ytri hegðun okkar og við getum því orðið öðrum til hjálpar. Við veltum því sennilega oft fyrir okkur að þó svo að vitund okkar mundi umbreytast, hvernig áhrif það hefði á aðra og hvernig það gæti orðið heiminum til góðs. Ágætur vinur túlkaði formþroskunar-samstillingu (morphic resonance) á eftirfarandi hátt: “Þegar þú brosir, brosa aðrir, og þegar aðrir brosa verða til margir kílómetrar af brosum.” Hljómar betur á ensku: “When you smile other people smile, and when other people smile there will be miles and miles of smiles.”

20.02 2007.
Halldór Haraldsson
Þýðing úr ensku: 21. júní 2007.

Fyrri Neti og iti
Næsta Vedanta og Krishnamurti
Efnisyfirlit