Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Nokkur orð um búddíska sálarfræði

Höfundur: Anna Valdimarsdóttir

Kjarni búddismans er hvorki trúarbrögð né heimspeki segir William L. Mikulas í ágætum kafla sem er að finna í bókinni New Horizons in Buddhist Psychology. Relational Buddhism for collaborative practitioners (2010). Kafli Mikulas nefnist Integrating Buddhist psychology and western psychology og þess má geta að strax á áttunda áratugnum vakti hann athygli á hvað margt væri líkt með atferlismeðferð og sálarfræði Búdda (Mikulas, 1979).

Mikulas býr til hugtakið essential Buddhism (EB) sem hann segir tákna grundvallarlögmálin í Búddískri hugsun sem eru eignuð hinum sögulega Búdda sjálfum sem hét Siddharta Gautama áður en farið var að kalla hann Búdda sem þýðir „sá sem er vaknaður.“

Mikulas segir í kafla sínum í New Horizons in Buddhist Psychology (bls 27): „Kjarni Búddismans (EB) er hvorki trúarbrögð né heimspeki. Búdda gerði ekki tilkall til þess að vera nokkuð annað en manneskja og hélt því ekki fram að hann væri guð. Ekki einu sinni guð í mannslíki. Hann hélt því heldur ekki fram að hann væri innblásinn af guðlegum anda né nokkrum ytri mætti og frábað sér nokkra tilbeiðslu á sjálfum sér. Í grundvallarbúddisma (EB) er engan persónulegan guð að finna né ópersónulegt máttarvald. Þar eru engar trúarjátningar, dogma eða ritúöl, engin tilbeiðsla og ekkert sem þér er ætlað að taka trúanlegt. Framar öllu snýst kjarni búddismans um iðkun og rannsókn (free inquiry) þannig að maður geti sjálfur séð sannleiks- og notagildið í því sem Búdda kenndi. Búdda hafði engan áhuga á að koma á nýrri trú og samfélagið sem hann og lærisveinar lifðu og hrærðust í var menntasamfélag, ekki trúarsamfélag. Búdda sneiddi líka hjá heimspekilegum umræðum og var ekkert gefið um háspekilegar spurningar sem leiddu ekki til neinnar niðurstöðu eins og um sálina eða líf eftir dauðann. Honum var umhugaðra um að finna lausn á þjáningu mannanna hér og nú. Hvernig við getum hreinsað til í lífi okkar og þjálfað huga okkar. Iðkun er mikilvægari en heimspeki“ (bls. 271).

Og Mikulas spyr: „Hvað er grundvallarbúddismi þá ef hann er hvorki trúarbrögð né heimspeki sem honum er þó þráfaldlega ruglað saman við? Hann er augljóslega sálfræði því hann fæst við skynjanir, tilfinningar, geðshræringar, atferliskveikjur, hugsanir, hugarstarf og meðvitund.“ Og Mikulas vitnar máli sínu til stuðnings í grein eftir Wallace og Shapiro (2000) sem fjallar um brúarsmíðina milli búddisma og vestrænnar sálarfræði.

Dalai Lama leggur áherslu á að búddísk nálgun sín sé að auka hamingju og Búdda sagði að sitt aðalstarf væri að draga úr mannlegri þjáningu.

Ég ætla samt ekki að tala um Búdda sem slíkan á námskeiðinu sem ég mun halda á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands í lok febrúar heldur ætla ég að fjalla um sálfræðina í því sem hann kenndi og nefnt er Dharma á sanskrít en Dhamma á pali, tungumálinu sem Theravada búddafræðin voru rituð á. „Þetta er dæmi um að hægt er að kenna Dharma á hvaða máli sem er svo framarlega sem skilaboð Siddharta Gautama eða Búdda rata sinn rétta veg inn í hjörtu mannanna,” segir ritstjóri New Horizons in Buddhist Psychology, Maurits G.T. Kwee, klínískur sálfræðingur, prófessor emerítus og forsöðumaður Institute for Buddhist Psychology and Relational Buddhism í Frakklandi. Tungumálið sem hann leggur til er tungumál Social Constructionist Psychology. Kwee (2010, bls. 17) segir enn fremur: „Dhamma vísar til hins gullna meðalvegar (middle way) Búdda sem á ekki aðeins við milliveginn milli þess að gera lítið úr sjálfum sér og þess að upphefja sjálfan sig heldur vísar hann einnig til millivegarins milli eilífðarhyggju (eternalism) og tómhyggju (nihilism). Það sem Búdda lagði til var að hafna tilvist eilífs Guðs (theism) og hafna líka tilvistarleysi Guðs (atheism). Þannig skilur hann okkur eftir í íhugandi tómi (meditative “emptiness”) ekki-guðshyggju (non-theism) sem hann eftirlætur okkur sjálfum að fylla með góðvild, samhygð, gleði og jafnaðargeði, félagslegum eiginleikum sem eru ætlaðir til daglegrar iðkunar. Kenningar Búdda (Dharma) eru ekki trú á Guð (hvorki á himnum né annars staðar) heldur félagsleg smíð á hreyfingu sem stefnir fram á veginn í sífelldri endurnýjun (bls. 17).

Kwee bendir á að það geti verið einmanalegt á vegi Búdda með engan Guð að tala við en þrátt fyrir það hafi Búdda sjálfur ekki leitað skjóls í hugmyndum um himneskar heilagar kýr heldur hafi hann horfst í augu við einmanleika og ömurlegar ytri aðstæður sem hann lagði sjálfur á sig uns hann fann lykilinn að því hvernig mætti binda enda á tilvistarþjáningar mannanna (dukkha) (Kwee, 2010, bls 17-18).

Og Ven. Henepola Gunaratana búddamúnkur, heimspekidoktor og háskólakennari í búddískum fræðum tekur í sama streng í inngangi að bók sinni: Mindfulness in plain English (sem má hlaða niður á vefnum): „Búddadómur er í heild sinni mjög ólíkur þeim trúarbrögðum sem fólk í vestrænum löndum þekkir best. Hann er bein innganga inn í hið andlega eða himneska svið án milligöngu guða eða annarra „umboðsmanna“. Hann er mjög klínískur í eðli sínu og líkist því miklu meira því sem við mundum kalla sálarfræði heldur en því sem við köllum venjulega trúarbrögð. Hann er stöðug rannsókn á raunveruleikanum, smásjárprófun á sjálfu skynjunarferlinu. Tilgangur hans er að slíta sundur hulu lyganna og ranghugmyndanna sem við horfum í gegnum þegar við horfum á heiminn, og leiða þannig í ljós hinn endanlega veruleika. Innsæ íhugun er ævaforn og elegant tækni til að ná því.“ (http://www.buddhistinformation.com/mindfulness_in_plain_english.htm. Hlaðið niður 5/11 2005, bls. 3)

Að lokum má vitna í Christopher K. Germer sem skrifar í hinni ágætu bók Mindfulness and Psychotherapy: „Þegar meðferðaraðilar lesa hin fornu búddísku fræði munu þeir sannfærast um að Búdda var í rauninni sálfræðingur“ (Germer, 2005, bls 13).

Og hver er hún svo, aðferð starfsbróður okkar Búdda til að binda enda á þjáningar mannanna? Hún felst í leið athyglinnar (sati, mindfulness) sem Búdda kenndi lærisveinum sínum fyrir meira en 2500 árum síðan. Hún er ekki flókin en er engu að síður erfið í framkvæmd og felst í stuttu máli í því að veita undanbragðalausa athygli því sem gerist um leið og það gerist. Horfast í augu við reynslu sína og upplifanir, samþykkja þær og jafnvel umfaðma. Þetta lífsviðhorf hafa austræn fræði lagt áherslu á í meira en tvö þúsund ár og nú eru rannsóknir í nútímasálarfræði að staðfesta gildi þeirra (Hayes, Follette og Linehan, 2004). Þeirra á meðal nýjar heilarannsóknir sem sýna að heilinn er enn mótanlegri á fullorðinsárum en menn höfðu gert ráð fyrir.

Leið athyglinnar felst í því að vera vakandi fyrir því sem gerist, ekki síst innra með manni og láta ekki vana, gamlar skilyrðingar og sterkar geðshræringar stýra gerðum sínum og sljóvga huga sinn heldur vera vakandi fyrir því hvar hann er staddur frá einu andartaki til annars. Við getum eflt eftirtekt okkar og einbeitingu með því að ástunda innsæja íhugun (vipassana: að sjá skýrt). Með því að taka okkur tíma til að vera ein með sjálfum okkur, kyrra hugann og veita kærleiksríka athygli því sem gerist í huga og líkama virðumst við geta ýtt undir uppbyggingu svæða í heilanum sem gegna stóru hlutverki í góðum tengslum við aðra og okkur sjálf (Siegel, 2007).

Það skiptir máli að halda vakandi athygli vegna þess að hugurinn á það til að draga okkur niður í vítahring vanlíðunar og niðurrifshugsana þegar við erum ekki á varðbergi. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir hvað er að gerast þeim mun meiri möguleika eigum við á því að ákveða sjálf hvort við tökum hugsanir okkar alvarlega eða ekki. Þannig getum við smátt og smátt losað okkur undan ofurvaldi hugans með því að ákveða meðvitað hvort við tökum mark á honum eða ekki.

Með því að leggja rækt við huga okkar getum við betur gert okkur grein fyrir hvar athygli okkar er niðurkomin frá einu andartaki til annars og tekið því sem gerist með sátt og jafnaðargeði. Vakandi athygli eða gjörhygli getur haft umbreytandi áhrif á líf manns í gleði og sorg og allt þar á milli. Hún getur orðið til þess að við fáum meiri ánægju út úr „hversdagslegum“ hlutum eins og að borða, ganga og vera til og einnig til þess að við getum tekið áföllum og erfiðleikum af meira jafnaðargeði. Á leið athyglinnar er lögð áhersla á að halda vakandi góðviljaðri athygli í núinu og losna þannig undan harðstjórn hugsana sinna.

Og læknirinn og rithöfundurinn Jon Kabat Zinn sem á stóran þátt í að gera hina fornu leið athyglinnar þekkta í Vesturheimi bendir á að djúphygli (eða gjörhygli, leitin að orði heldur áfram!) sé sammannleg og meira en tækni eða aðferð. Hún sé leið til að lifa lífinu og snúist um að fínpússa hæfileika okkar til að taka eftir og laða fram innsæi sem er handan hugsana þó svo við tjáum það gegnum hugsanir. Hann segir í formála bókarinnar Mindfulness-based cognitive therapy for depression eftir Segal, Williams og Teasdale (2002): „Strangt til tekið er djúphygli hvorki tækni né aðferð þótt til séu margar mismunandi aðferðir og margs konar tækni til að rækta hana með sér. Það er fremur við hæfi að lýsa henni sem leið til að vera eða leið til að sjá… Vissulega felur það í sér að þróa og fínpússa aðferð til að verða nánari reynslu sinni með kerfisbundinni sjálfsathugun. Það felur í sér að slá viljandi á frest að meta og dæma upplifanir sínar. Með því sköpum við sjálfum okkur tækifæri til að komast handan við pytti skilyrtra vanabundinna hugsanamynstra og óyfirvegaðra tilfinningaviðbragða“ (bls. viii).

Hann segir einnig að samþætting hugrænnar sálarfræði og innsærrar íhugunar feli „ekki aðeins í sér fyrirheit um að þróa betur fræðikenningar okkar um samspil hugsana og tilfinningar heldur einnig um að efla skilning okkar á hinum djúpu, innri eiginleikum mannsins til að græða sjálfan sig og lifa lífi meiri visku, jafnvægis og hamingju“ (bls. ix-x).

Og þetta þykja mér góð lokaorð á þennan pistil.

Heimildir

Germer, C.K., Siegel, R.D. & Fulton, P.R. (Útg.). (2005). Mindfulness and psychotherapy. New York: Guilford.

Gunaratana ,H. (1993). Mindfulness in plain English. Boston, MA:Wisdome Publications.

Hayes, S.C., Follette, V.M. & Linehan, M.M. (Útg.). (2004). Mindfulness and acceptance: Expanding the cognitive-behavioral tradition. New York: Guilford Press.

Kabat-Zinn, J. (2002). Foreword í Segal, Z.V., Williams, J.M.G. og Teasdale, J.D. Mindfulness-based cognitive therapy for depression. A new approach to preventing relapse. New York: The Guilford Press.

Kwee, M.G.T. (2010) New horizons in Buddhist psychology. Relational Buddhism for collaborative practitioners. Chagrin Falls: Taos institute publications.

Mikulas, W.L. (1978) Four noble truths of Buddhism related to behaviour therapy. Psychological record, 31, 331-342.

Siegel, D,J. (2007). The mindful brain: Reflection and attunement in the cultivation of well-being. New York: Norton.

Wallace, B.A. & Shapiro, S.L. (2006). Mental balance and well-being: Building bridges between Buddhism and western psychology. American psychologist, 61,690-701.

Efnisyfirlit