Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Neti og iti

Höfundur: Halldór Haraldsson

Erindi flutt í Guðspekifélagi Íslands 27. 4. 2001.

Munurinn á virkri og óvirkri andlegri leit og hvernig þetta tvennt getur farið saman.

„Það hafði rignt alla nóttina og mestallan morguninn og nú var sólin að hverfa bak við dimm og þungbúin ský. Himinninn var sem litlaus, en ilmur af regnvættri jörðinni fyllti loftið. Froskarnir höfðu kvakað alla nóttina, en með morgninum urðu þeir hljóðir.“
Þannig hefst ein af mörgum náttúrulýsingum J. Krishnamurtis sem gefa okkur nokkra innsýn í þann hug sem býr yfir andlegum tærleika og það hvernig hann sér og upplifir umhverfið eða öllu heldur þegar það á sér stað skoðun, handan skoðanda og hins skoðaða.
Síðan heldur hann áfram: „Trjástofnarnir voru dökkir af regninu og laufblöðin, sem ryk sumarsins hafði skolast af, mundu aftur verða græn og full af lífi eftir fáeina daga. Grasvellirnir mundu líka verða grænni, trjárunnarnir mundu bráðum blómstra og gleðin ríkja. Hve regnið var velkomið eftir allan hitann og rykið! Fjöllin handan hæðarinnar virtust ekki vera of fjarri og golan frá þeim var bæði svöl og hrein. Það mundi verða meira um vinnu, gnægð matar og hungur mundi heyra fortíðinni til. Einn þessara stóru, brúnu arna hnitaði hringa í loftinu, svífandi í andvaranum án þess að blaka vængjunum. Hundruð fólks á reiðhjólum voru á heimleið eftir langan vinnudag á skrifstofunni.“
 
Gesturinn sem beðið hafði um viðtal var fyrrverandi embættismaður hjá stjórninni. Hann hafði hlotið fyrsta flokks menntun bæði heima og erlendis. Hann var kvæntur og átti uppkomin börn. Vel að sér í sanskrít og þekkti helgiritin. Skyndilega fékk hann óstjórnlega löngun til að verja því sem eftir var ævinnar í íhugun, helga lífið andlegri leit. Hann tjáði þetta konu sinni og tveim sonum sem voru við háskólanám. Hann hafði lagt til peninga handa konu sinni og fyrir námi sona sinna. Þetta hafði gerst fyrir 25 árum. Hann beitti sjálfan sig hörðum aga sem var honum erfitt eftir þægilegt líf. Það tók hann langan tíma að ná stjórn á ástríðum sínum. Að lokum tók hann að fá sýnir af Búddha, Kristi og Krishna, töfrandi af fegurð og dögum saman lifði hann í eins konar leiðslu.
„Ég hafði tekið að mér nokkra lærisveina og einn þeirra benti mér á að hlýða á einn af fyrirlestrum yðar. Þar var sagt að án sjálfsþekkingar væri öll íhugun sjálfsdáleiðsla, endurspeglun eigin hugsana og óska.“ Í lok viðtalsins við Krishnamurti segir gesturinn: „Ég hef verið upptekinn af íhugandanum, leitandanum, þeim sem reynsluna hlýtur, sem er ég sjálfur. Ég hef lifað í skemmtilegum garði, búnum til af sjálfum mér og hef verið fangi í honum. Ég sé núna, óljóst að vísu, að allt þetta er falskt – en ég sé það.“
 
Heiti þessa erindis er „Neti og iti.“ Uppgötvun gestsins hér í viðtalinu er gott dæmi um neti sem bókstaflega þýðir „ekki þetta“ og stendur fyrir það viðhorf að losna undan blekkingu maya með eins konar útilokunaraðferð. Hisminu er hafnað, lagt til hliðar og það sem eftir verður er kjarninn, hinn andlegi veruleiki.
Krishnamurti segir meðal annars við gest sinn: „Þú hefur iðkað sjálfsstjórn, náð tökum á huganum og einbeitt þér að áframhaldandi reynslu. Slík iðkun er sjálfshyggja, ekki íhugun. Að skilja að það sé ekki íhugun er upphaf íhugunar.“ Og ennfremur: „Frelsið undan hinu falska næst ekki með því að óska þess að ná því, það kemur þegar hugurinn er ekki lengur háður hugsuninni um árangur, að komast að niðurstöðu. Það verður að hætta allri leit, en þá fyrst er möguleiki á að fram komi það sem nafnlaust er. Hugurinn er afsprengi tímans eins og öll hugsun er árangur hans, og hugsun, sem vinnur að því að leysa sig frá tímanum, styrkir aðeins fjötra sína við tímann. Tíminn er aðeins til þegar reynt er eyða í sálarlífinu bilinu á milli þess sem er og þess sem ætti að vera, sem nefnt er hugsjón, takmark. Meðvitund um hið falska í þessum hugsunarhætti veitir um leið frelsi frá honum – sem krefst hvorki áreynslu né iðkunar.“
 
Í eyrum sumra hljómar þetta e.t.v. heldur kaldranalega. Hér er Krishnamurti að taka frá þessum ágæta manni heim fegurðar sem hann hefur lifað í. Hvað er rangt við það að iðka jákvæða íhugun, byggja sér upp heim andlegrar fegurðar og jafnvel sjá sýnir af helgum mönnum? Hafði þessi ágæti andlegi leitandi sóað tíma sínum til einskis með andlegum iðkunum sínum? Þessum viðhorfum hafa áreiðanlega margir velt fyrir sér. Við skulum skoða þau örlítið nánar.
 
Viðhorfið sem fram kemur í svari Krishnamurtis er hið svokallaða „neti“ viðhorf. Sanskrítarorðið neti þýðir bókstaflega „ekki þetta“, ne-ti, en í því felst að við þurfum að losa okkur við allt það safn hugsana sem skyggir á hinn andlega veruleika hið innra. Það þurfi því að leysa upp allt hugsanasafnið með vakandi athygli og afstöðunni „ekki þetta“, neti, neti. Þá er möguleiki á að veruleikinn birtist. Viðhorf þeirra sem aðhyllast þetta sjónarmið er að með því að beita hinu jákvæða viðhorfi sem nefnist iti, i-ti, safni andlegi leitandinn að sér hugmyndum og ímyndum sem hann fer síðan að búa í – þ.e. lifi í blekkingu.
 
Við skulum nú skoða „iti“ viðhorfið betur. Hér er lögð áhersla á jákvætt hugarfar í einu og öllu, reglulega andlega iðkun sem felst í ákveðinni aðferð íhugunar, þjálfa einbeitingu hugans, efla mátt hugans sem sagður er mikill, hugleiða á veruleikann hið innra, „guðsríkið hið innra“, og ná þannig valdi á huganum. Hér er lögð áhersla á að þroska með sér dyggðir, viljakraft, skilning og fá innblástur af því að lesa um menn sem náð hafa háum andlegum þroska. Á þessari leið þykir það efla andlega leitandann að taka helgan mann sér til fyrirmyndar. Þetta er það sem Indverjar kalla ishta eða ishta devata, guðleg fyrirmynd.
Í kristnum sið er þekkt rit sem fjallar að mestu leyti um þessa leið og nefnist „Breytni eftir Kristi“ eftir Thomas à Kempis. Í þekktu indversku riti um andlega ástundun, „Hinn eilífi förunautur“ (The Eternal Companion), eftir Svamí Brahmananda, einn af helstu lærisveinum Sri Ramakrishna, segir höfundur: „Er þú hugleiðir þína völdu andlegu fyrirmynd, hugsaðu þá um hana sem bjarta og skínandi og að allt umhverfis sé skínandi vegna birtu hennar. Hugsaðu þér hana sem lifandi og fulla meðvitundar.“ Síðan heldur hann áfram og segir: „Þegar þú heldur áfram að hugleiða með þessum hætti mun form þinnar andlegu fyrirmyndar smám saman leysast upp og yfir í óendanleikann. Á eftir mun fylgja greinileg tilfinning fyrir lifandi nærveru uns að lokum opnast auga viskunnar og bein skynjun óendanleikans.“
Þá er fróðlegt það sem höfundur segir um hinn andlega fræðara, gúrúinn: „En vita skaltu! Það er enginn fræðari huga þínum meiri. Þegar hugurinn hefur hreinsast með bænum og íhugun mun hann leiðbeina þér hið innra. Jafnvel í daglegum skylduverkum þínum mun þessi innri fræðari leiðbeina þér og hann mun halda áfram að hjálpa þér uns markinu er náð.“ Hér er lögð áhersla á að það er ekki persónuleiki hins andlega fræðara sem er aðalatriðið heldur getur hann vakið upp okkar innri fræðara. Við verðum því ekki háð honum persónulega.
 
Tengt og yfirleitt samfara þessari jákvæðu íhugunaraðferð, þar sem hugleitt er á andlega fyrirmynd, er iðkun sem nefnist japa sem þýðir að endurtaka í hljóði nafn guðs eða möntru í huganum. Algengast er að hugleiða á óm. Einnig er hugleitt á nöfn andlegra fræðara. Heimspekilega sinnaðir leitendur hugleiða oft með sanskrítar atkvæðunum so-ham. So þýðir andlegi veruleikinn og ham er stytting á aham sem þýðir „ég er“, grunsamlega líkt „I am“ á ensku, enda samstofna. Þ.e. ég er (ek em) hann, andlegi veruleikinn. Sumir fræðarar kenna þessi atkvæði viðsnúin: hang-sah. Iðkun þessi er oft í tenglsum við andardráttinn og nefnist hún einnig mantra yoga, þ.e. að endurtaka möntru. Henni er einnig oft líkt við það að hreinsa blekbyttu. Við hellum stöðugt hreinu vatni í byttuna þar til engin merki eru eftir af bleki. Hreinsandi vatnið er sífelld iðkun ishta og japa. Blekbyttan er hugur okkar og dulvitund. Þessi aðferð þykir einn besti hreinsari á þessu sviði. Í nýlegri bók sinni um andlega iðkun segir Svamí Shraddhananda sem er nýlega látinn: „Iðkandinn á að hugsa sér að endurtekningin á óm eða heilögu nafni framkalli andlega strauma í líkama, huga og orkukerfi (pranakerfi) hans. Þessir straumar eru ekki efnislegir eins og hiti eða rafmagn, heldur andlegir straumar. Smám saman renna straumar japa saman við lífsorkuna, prana. Iðkandinn upplifir samruna þessara tveggja strauma. Þetta leiðir til hærri andlegrar upplifunar, þar sem birting prana og japa verður eitt.
Á næsta stigi mun orðið sem endurtekið er birtast sem vitund. Iðkandinn upplifir möntruna sem vitund skínandi ljóss. Ljós þetta breiðist út um hugann og orku líkamans og fyllir hjartað óumræðilegum friði.“ Síðar segir höfundur: „Hugann þarf að þjálfa til að geta séð sérhvern hlut sem vitund. Í fíngerðu ástandi japa-iðkunar getur andlegi leitandinn fundið alla sköpunina koma út úr möntrunni. Hinn víðfeðmi alheimur, sérhver hluti hans, er endurvarp möntrunnar sem óm-Brahman. Og á gagnstæðan hátt getur hvers konar hlutlæg þekking runnið saman við óm-Brahman. Þetta mætti einnig nefna laya yoga, yoga uppleysingar. Fyrir andlega leitandanum er alheimurinn ekki lengur víðfeðmur. Mantran er að taka hann inn í sig, stig af stigi. Frá guði formbirtingar breytist ishta mantran í áttina að því formlausa. Við getum sagt að eftir að mantran hefur sogið í sig alheiminn verði hún eftir sem bindu, punktur. Punktur hefur engar víddir. Hann er hvorki stór né lítill, hvorki fjarri né nærri. Mantran er samt sem áður ekki flatarmálspunktur. Hún er æðri vitund sem hin minnsta, ómælanlega, ólýsanlega heild.
 
Hér erum við komin inn á svið sem ég hef fjallað um áður, þ.e. kenningar Vedantaspekinganna að fornu og nýju um eðli veruleikans. Eins og þá var sagt er sá munur á austurlensku heimspekingunum og þeim vestrænu m.a. sá, að þeir síðarnefndu virðast aðallega halda sér við hina huglægu hlið, en þeir fyrrnefndu telji aftur á móti manninum mögulegt að upplifa sjálfan veruleikann.
Svamí Gnaneswarananda segir m.a. svo í einu ágætu yogariti sínu: „Hinn mikli heimspekingur og vitringur Shankaracharya endurreisti einhyggju, monisma, á áttundu öld. En endurvakning Advaita Vedanta hófst í raun með hinum hálærða Gaudapada Acharya, læriföður Shankara. Gaudapada setti fram ajatavada, ekki-sköpunar-kenninguna. Við gætum endurtúlkað hana á einfaldan hátt einhvern vegin svona: Sköpunin er hrein martröð. Vaknið! Það er allt og sumt sem þarf. En enginn hlustaði á hann. Enginn skildi hann. Aðeins lærisveinn hans Govindapada skildi hann.
Gaudapada hélt því fram með ajatavada kenningu sinni að sköpun hafi aldrei átt sér stað. Þess vegna sé engin grundvöllur fyrir spurninguna um guð, sálina eða alheiminn. Hvers konar tvíhyggjuhugtök séu aðeins draumórar. Brahman einn er til. Til að geta skilið þetta fæst ekki með rökræðum og heldur ekki með því að spyrja hvers vegna, heldur með því einfaldlega að vakna upp af þessari martröð tvíhyggjuupplifunar. Ef þú ert í dimmu herbergi spurðu þá ekki hvers vegna það er dimmt. Þú kveikir ljósið og dimman hverfur.“
Síðar segir höfundur frá kenningu Shankara m.a. þannig: „Shankara hélt fram ajatavada eða ekki-sköpunar-kenningu Gaudapada frá sjónarhóli vivartavada. Þ.e. þegar hlutur virðist vera eitthvað sem hann er ekki. Klassíska dæmið sem jafnan er tekið um þetta er reipið sem virðist vera snákur. Shankara hjálpar andlegum leitendum að ná frá þessum afstæða heimi yfir í djúpan skilning með hjálp sundurgreiningar og sjálfsögunar. Alla heimspeki hans má taka saman í stuttu máli: „Brahman er eini veruleikinn. Heimurinn er óraunverulegur. Hin einstaklingsbundna sál eða sjálf er ekkert annað en Brahman.“ Þeir sem hafa viðhorf þessa merka Vedantaspekings að leiðarljósi beita huganum, rökhyggju við að greina kjarnann frá hisminu, veruleikann frá táli, þ.e. ne-ti, ne-ti.
 
Einn helsti Vedantaspekingur nútímans, Sri Ramana Maharshi, sem lést 1951, notaði einnig hugann og rökhyggju á einfaldan hátt með því að spyrja sjálfan sig: „Hver er ég?“ Í því sambandi er til saga af þekkta þýska heimspekingnum Schopenhauer sem reyndar hafði áhuga á austrænni heimspeki. Hann sökkti sér oft í djúpar hugleiðingar er hann fór í gönguferðir. Eitt sinn gekk hann óvart inn í stórt blómabeð í garði nokkrum og stóð þar í djúpum þönkum. Reiður garðvörður hrópaði til hans: „Hver heldur þú að þú sért?“ Og Schopenhauer svaraði: „Ja, ef ég vissi það nú!“
 
Markmið Vedantaspekinnar er ekki aðeins vitrænn skilningur á veruleikanum, heldur eins og áður sagði, bein reynsla af honum. Þegar Sri Ramana Maharshi var að móta viðhorf sín og sjálfsskoðunaraðferð sína upp úr aldamótunum 1900 kom fram að hún fólst ekki aðeins í því að spyrja með orðum „hver er ég?“ heldur ekki síður að rekja allar hugsanir til róta sinna með þeim afleiðingum að þær hyrfu og skildu eftir Sjálfið eitt sem veruleikann. Egóið, ég-hugsunin, er ekki veruleiki og ef hún er krufin leysist hún upp sjálfkrafa og þá birtist Sjálfið, veruleikinn í sinni skínandi mynd. Ramana hafði ekki trú á því að freista þess að ná tökum á eða að drepa hugsanir með huganum. Eina leiðin væri að komast að rótum hugans, halda sér við þær og þá mundi hugurinn hverfa af sjálfu sér. Vitsmuni, röksemdir hugans sé unnt að nota aðeins að vissu marki.
 
Er við skoðum ævi hinna ýmsu andlegu fræðara er Sri Ramana einstakt tilfelli að því leyti að hann virðist hafa upplifað andlegan veruleika án nokkurrar hjálpar formsins. Jafnvel Krishnamurti á sínum yngri árum sá sýnir af ýmsum þeim meisturum sem stóðu á bak við Guðspekifélagið, svo og Búddha og Maitreya. Eitt sinn er Ingram Smith spurði hann hvort hann hefði séð meistarana svaraði hann því óvænt játandi. Síðan sagði hann frá því, er hann sá meistarann K.H. (Koot Humi), sem hann hafði þá oft séð áður, að hann hefði nálgast hann og síðan gengið í gegnum hann. Er hann sneri sér við var K.H. horfinn og hann sá hann aldrei framar. Ramakrishna hafði séð hina guðlegu móður árum saman, rætt við hana næstum daglega og hafði reyndar borið öll sín vandamál fyrir hana, en fyrir hvatningu Vedantaspekingsins Tota Puri leysti Ramakrishna upp mynd móðurinnar og náði þá beinni upplifun af formlausum veruleikanum.
 
Gestur Krishnamurtis hafði séð sýnir af andlegum vitringum, Búddha, Kristi og Krishna. Andlegur ferill hans virðist að þessu leyti ekki frábrugðinn öðrum andlegum leitendum. Við spurðum áðan hvað væri rangt við slíkar upplifanir og hvort gesturinn hefði sóað tíma sínum óþarflega í slíka hluti. Fyrst svo margir virðast hafa farið í gegnum slíkar upplifanir, eru þær ef til vill eðlilegar. Er það þá hið eðlilega ferli andlegrar þróunar að byrja með jákvæðu eða iti-viðhorfi sem smám saman breytist á vissum tímapunkti yfir í neti-viðhorfið?
Indverska skáldið Rabindranath Tagore sagði einhvern tímann eitthvað á þá leið að sem barn hefði hann hugsað sér að þegar hann yrði stór mundi hann kaupa öll leikföngin í leikfangabúðinni. Er hann náði fullorðins aldri voru áhugamálin öll breytt og hann hafði engan áhuga á því lengur að kaupa leikföngin. Tagore sagði einnig að hann gæti elskað guð sinn, því að hann hefði gefið sér hæfileikann til að afneita honum. Við skulum því hvorki vanmeta veraldleg né andleg leikföng, þau eru líklega eðlileg á sínum stað og tíma, en líklega er heldur ekki eðlilegt að vera háður þeim of lengi.
 
Líf Sri Ramakrishna var ríkt af andlegum fyrirbærum. Sagt er frá flökkumunki, Jatadhari að nafni, sem komst í kynni við Ramakrishna. Jatadhari bar ávallt á sér litla styttu af Rama sem barni, sem allir Hindúar dýrka sem eina af holdtekjum guðs. Munkur þessi færði styttunni matarfórnir og hafði hana jafnvel með sér er hann tók sundspretti í Gengesfljótinu. Líf hans var allt helgað hinu heilaga barni. Hann tók að sjá sýnir af Rama þar sem hann birtist honum sem lifandi sveinbarn. Hann gat jafnvel séð sveinbarnið dansa og hlæja. Ramakrishna sem var kunnugt um takmarkanir andlegra leitenda og hvenær þeim væri ekki hollt lengur að ánetjast slíkum sýnum kom Jatadhari út úr þessum heimi sínum með barninu á skemmtilegan hátt. Eitt sinn er Jatadhari sat í musterisgarðinum tók hann eftir því að hann saknaði barnsins. Eftir nokkra leit sá hann hvar barnið hans var að leika við Ramakrishna. Honum brá því honum hafði ekki komið til hugar sá möguleiki að barnið léki sér við nokkurn annan. Eftir þetta tók barnið að leika sér meir og meir við Ramakrishna og æ meira var Jatadhari skilinn einn eftir, uns dag einn að það rann upp fyrir honum ljós. Jatadhari kom til Ramakrishna og sagði við hann: „Ég ætla að gefa þér þessa styttu of Rama. Ég hef dýrkað hana í mörg ár og nú skil ég að ég þarfnast hennar ekki framar.“ Sagt er að Ramakrishna hafi ekki á neinn hátt gefið Jatadhari í skyn að sýnir hans hefðu verið blekkingar, aðeins að um skeið hefðu þær einfaldlega uppfyllt hinar andlegu þarfir hans. Til eru margar fleiri frásagnir af hæfileika Ramakrishna að losa andlega leitendur við hefðbundnar trúarlegar sýnir sem þeir urðu háðir um tíma.
 
Í lífi Ramakrishna kemur oft skýrt í ljós að honum var ekki aðeins ljóst að heimurinn væri ekki það sem hann virtist vera, hann hafði margsinnis upplifað það sem Shankara hélt fram, að Brahman væri eini veruleikinn. Heimurinn er óraunverulegur – og Sjálf einstaklingsins er ekkert annað en Brahman. Hins vegar leit Ramakrishna aldrei svo á að hinn draumkenndi, afstæði veruleiki tilverunnar ætti sér ekki ákveðna þýðingu þar sem hin guðlega návist birtist stöðugt í gegnum hann.
 
Það er okkur mikils virði að fram hafi komið einstaklingar eins og Ramakrishna, Ramana Maharshi og fleiri sem vísað geta okkur veginn. En eins og Krishnamurti segir verðum við sjálf að ganga hann. Ramakrishna var sí og æ að hjálpa öðrum að hjálpa sér sjálfir. Hann lagði áherslu á jákvæðu leiðina og einnig að vera jákvæður gagnvart öðrum og hjálpa þeim. Svamí Vidyatmananda (John Yale) sem var í mörg ár í Vedantasetrinu í Gretz sunnan Parísarborgar, hefur sagt frá kynnum sínum af Svamí Ritajananda sem þar var lengi í forsvari. Ritajananda lagði ávallt áherslu á að vera jákvæður. Hann gefur dæmi um afstöðu sína. Um skeið sótti þekktur franskur söngvari eftir leiðsögn hans og þar sem líf hans sjálfs var í rugli þrátt fyrir frægð og frama hafði hann fengið taugaáfall, sífellt í skilnaðarmálum, eiturlyfjum og öllu tilheyrandi. Hann sótti samtímis til sálfræðings. Ritajananda veitti honum viðtöl hvort heldur að degi eða nóttu, en vandamálið var ávallt það sama: þunglyndi og vöntun á sjálfstrausti. Svamí Vidyatmananda segir sjálfur svo frá: „Ég spurði: „Svamí, hefur þú ekki fengið nóg af þessu? Það virðist ekki vera nein framför.“ „Nei, það virðist ekki vera nein framför – en hann gæti breyst. Alltaf það sama – en hann gæti breyst. Hann hefur ekki breyst ennþá – en hann gæti breyst.“ Þetta er að vera jákvæður.
Hér höfum við fengið dæmi um hvernig margir þurfa á stuðningi að halda, hvort heldur það að hafa andlegan stuðning af ímyndum af guðlegum holdtekjum eða fyrirbænum. Við skulum ekki vera of fljót að dæma eitt eða neitt. Allt virðist þetta eiga sér sinn stað og tíma. Við leikum okkur að leikföngum á vissum tíma, annars konar leikföngum á öðrum tíma og þótt við teljum okkur vaxa upp úr öllum leikföngum einhvern tíma birtast þau ef til vill í nýrri mynd sem við áttum okkur ekki á. Við höfum fjallað hér um svokallaða jákvæða og neikvæða huglæga og sálræna afstöðu til andlegra leiða ef svo má segja. Frá vissum sjónarhóli og á vissum tíma getur okkur virst að um tvær gagnstæðar leiðir sé að ræða.
 
Í riti Búddhistafélagins í London um einbeitingu hugans og íhugun segir á einum stað: „Í fáum orðum sagt finnum við hér leiðir sem velja verður um, að losa okkur við ekki-sjálfið eða að verða Sjálfið (með stóru essi.) Suður-Búddhisminn aðhyllist fyrri leiðina, indverska heimspekin þá síðari, en Mahayana Búddhisminn felur í sér báðar.“ Svona einfalda framsetningu er ágætt að lesa sér til glöggvunar, en hún er bara ekki alls kostar rétt, því að í indverskri heimspeki er einnig bæði sjónarmiðin að finna. Ekki aðeins það, heldur er og sýnt fram á samræmið bæði heimspekilega og í andlegri iðkun. Heimspekilega séð þarf vart að endurtaka að innan indverskrar heimspeki er bent á margar leiðir að sama marki, nokkuð sem Sri Ramakrishna sannaði í lífi sínu, og í iðkun sinni hafa margir sjáenda bent á samræmi hinna ýmsu leiða. Vivekananda lagði áherslu á að fáir nútímamenn hafi tíma til að ástunda eina leið alfarið, hyggilegra sé að ástunda fleiri yogaleiðir samtímis, það er íhuga starfið með karma yoga, rækta kærleiks- og tilbeiðslueðlið með bhakti yoga, þjálfa dómgreindina og þekkinguna með gnani yoga, iðka einbeitingu hugans og íhugun með raja yoga og leggja áherslu á þá leið sem okkur er eðlilegust. Þá er ekki nauðsynlegt að iðka jákvæða leið um tíma og breyta svo um í neikvæða. Þetta getum við gert í sömu hugleiðingunni. Eins og Brahmananda benti á leysist ímynd sú sem við hugleiðum á, hvort sem hún er persóna, tákn eða eitthvað annað, smám saman upp í hugleiðingunni yfir í óendanleikann. Og Shraddhananda segir meðal annars um „neti, neti“-leiðina: „Leiða þessar neitanir yfir í tómleika? Nei. Þær leiða að lokum yfir í uppgötvun Sjálfsins, sem er handan bæði staðhæfingar og neitunar. Þá mun egóið uppgötva sitt sanna eðli sem hefur allan tímann verið hin tímalausa vitund, Sjálfið.“
 
Í sinni ágætu bók, „Litróf vitundarinnar“ (The Spectrum of Consciousness) greinir höfundurinn, Ken Wilber, frá þrem þáttum vitundarinnar sem fram koma í faglegum tilraunum franska geðlæknisins dr. Benoit, sem hann síðan ber saman við sams konar þætti hjá J.Krishnamurti, Vedanta-heimspekinni og Zen Buddhisma. Þættir þessir eru: 1. Virk athygli, 2. Stöðvun hugsana og 3. Hlutlaus næmleiki vitundarinnar.
Dr. Benoit sýnir sérstakan áhuga á því stigi vitundarinnar sem varir rétt áður en við mótum hugsanir okkar í orð og hugtök. Virka athyglin felst í því að hafa vakandi athygli fyrir því hvernig hugsanir og tilfinningar verða til. Þessi vökula athygli er sér jafn mikið meðvitandi um bæði það sem er hið ytra og innra. Ef þessi virka athygli tekst leiðir hún yfir í stöðvun hugsana, þ.e. hugurinn hættir að búa til ímyndir, dvelur við það sem er, sem leiðir af sér mikla hugkyrrð og þögn. Ef þessi stöðvun er hrein og algjör leiðir hún yfir í hlutlausan næmleika vitundarinnar. Hér er um að ræða sérstakan næmleika fyrir því að sjá inn í ekkertið, skynja ekkertið. Þetta er tímalaus vitund handan skiptingar í huglægt og hlutstætt. Vitneskja um allt án aðgreiningar. (Tilvitnun úr bók Ken Wilber lýkur).
 
Krishnamurti er sá sem einna mest hefur fjallað um þennan hlutlausa næmleika og vakandi athygli. Hann segir á einum stað: „Eitt það erfiðasta sem við gerum er að skoða, að horfa: að horfa á hvað sem er án ímyndar um það, að geta horft á ský án fyrri hugmyndatengsla við skýið, að geta horft á blóm án ímyndar um það, án minninga eða annars í tenglsum við blómið. Það er vegna þess að þessi hugmyndatengsl, þessar ímyndir og minningar skapa fjarlægð milli þess sem skoðar og þess sem skoðað er. Í þessari fjarlægð, aðskilnaðinum milli áhorfandans og þess sem horft er á, í þessum skilum býr togstreita mannsins. Það er nauðsynlegt að geta horft án ímyndarinnar svo að rúmið milli skoðandans og hins skoðaða sé einfaldlega ekki fyrir hendi. Og K. segir einnig: „Spurningin er, getum við leyst upp ímyndina, ekki háð tíma, ekki smám saman, heldur þegar í stað?“ Til þess að geta gert það verðum við að gera okkur grein fyrir því hvernig ímyndir verða til, en Krishnamurti heldur því fram að orsök þeirra sé skortur á athygli. Í framhaldi af því segir hann: „Á því augnabliki sem athyglin er vakandi hverfur öll mótun og skilyrðing, öllu ímyndunarferlinu lýkur. Það er aðeins þegar þú veitir ekki athygli sem allt það ferli fer af stað.“
 
Til að ná þessari hreinu vitund notar Krishnamurti tæki hugans, tungumálið, ritmálið, ræður og samræður, sem stökkbretti yfir í þessa hreinu vitund. Hins vegar ræðir hann oft um takmarkanir hugans. Hann er sammála öðrum andlegum fræðurum að því leyti að hugurinn einn og sér leysir ekki hnútinn. Hann sé tæki sem gegni miklu hlutverki í lífi okkar. Hins vegar getur hin sífellda mótun ímynda og hugmynda sem upp í honum koma, þvælst fyrir okkur í andlegu tilliti.
 
Það er ef til vill vegna þess hve háður Krishnamurti er tungumálinu hve þeir, sem kynna sér kenningar hans rækilega, verða stundum flæktir í eins konar vitrænu neti. Öll umfjöllun felst í ræðu, riti og samræðum, sem veldur því að ef til vill festast margir í því sem átti að leysa þá. Það er vafalaust rétt að menn geta öðlast tæra vitund umsvifalaust. Hins vegar getur það tekið langan tíma að undirbúa slíkt augnablik. Assagioli sagði einhvern tíma að Krishnamurti sé eins og maður sem lagt hefur stiga upp við háan vegg, gengið upp stigann, sest á vegginn, sparkað stiganum burt og sagt við fólk: „Stökkvið upp. Það er enginn vandi. Þið þurfið engan stiga!“ Við finnum oft mótsagnir í boðskap Krishnamurtis. Hann heldur því oft fram að ekki þurfi neinn tíma að skilja þetta og svo kemur líka hið gagnstæða fram, t.d er hann svaraði ungu fólki sem spurði hvort ekki væri besta lausnin sú að taka inn skammt af LSD. „Engin gullin pilla mun nokkru sinni leysa okkar mannlegu vandamál. Þau verða best leyst með róttækri byltingu í huga og hjarta mannsins. Það krefst ötullar, stöðugrar vinnu við að skoða og hlusta, og vera þannig mjög næmur. Æðsta stig næmleika er æðsti skilningur og ekkert lyf sem maðurinn hefur fundið upp getur veitt þennan skilning. Án þessa skilnings er enginn kærleikur og kærleikur þýðir samskipti. Án þessa kærleiks er maðurinn ekki í jafnvægi. Hvorki prestarnir né guðir þeirra, heimspekingarnir eða gullna pillan geta veitt okkur þennan kærleika.“ Hér er ekki verið að boða neinn „instant“ skilning, heldur krefst það ötullar, stöðugrar vinnu við að skoða, hlusta og vera mjög næmur. Höfum við kannski litast ómeðvitað af þeim áhrifum nútímans að allt þurfi að gerast í hvelli, að við viljum fá tafarlausan skilning, tæra vitund, komast strax í efstu tröppu og helst alveg upp á vegginn?
 
Krishnamurti hafði af því töluverðar áhyggjur á síðari hluta ævi sinnar að fólk virtist ekki skilja hann og sjálfur kvað hann ekki neinn hafa raunverulega skilið sig til fulls. Í svari sínu nefndi hann kærleika, nokkuð sem við höfum ekki fjallað um. Ramakrishna hélt því fram að leið kærleika og tilbeiðslu væri eðlilegust nútímamanninum. „Kærleikur“ er svo útjaskað orð og hugtak að við hikum við að nota það án skýringa.. Hvorki Ramakrishna né Krishnamurti eiga við einhvers konar tilfinningasemi. Eins og Krishnamurti hefur sagt getur kærleikurinn aðeins birst í hinu tímalausa núi, kærleikur fortíðar er aðeins minning og kærleikur framtíðar er hugarburður eftirvæntingar. Hér komum við aftur að sama punkti og við gerðum áður varðandi vitundina, rúm og tíma. Til að geta tjáð okkur verðum við að nota tungumálið, þrátt fyrir allar hættur á tilhneigingum okkar að skapa ímyndir út frá því. Yogarnir og Vedantaspekingarnir hafa einnig orðið að nota tæki hugans, talað mál og ritað, en auk notkunar þess eiga þeir mann fram af manni langa reynslu af iðkun íhugunar af ýmsu tagi oft tengdri möntruiðkun. Ásamt henni er oft notuð hin myndræna hlið möntrunnar, yantra eða mandala, einnig blóm sem tákn, fjöll, o.fl., – einmitt þau tæki hugans sem Krishnamurti varar við – til að komast handan við hann. Hér er einnig um að ræða hugleiðingu um andans menn, að ógleymdum orkustöðvum oftast samfara endurtekningu möntrunnar.
 
Þetta eru eins og kunnugt er forn vísindi sem reynsla er fyrir, lifandi arfleifð yogaiðkunar um þúsundir ára sem nútímamaðurinn á nú aðgang að. Í krafti slíkrar iðkunar á tákn eða orkustöðvar verða þær eins konar gluggar yfir í andlega vídd, rofar til að kveikja ljós eða íkonar sem við smellum á með músinni á tölvuskjá. Hvort þessar samlíkingar eiga við rök að styðjast eða ekki þá hafa slík hugræn tæki verið notuð öldum saman sem tenglar yfir í tæra vitund. Þrátt fyrir langa reynslu og marga arfleifðina á þessu sviði verður hættan sem við verðum að vera vakandi fyrir eftir sem áður sú, að hinn andlegi leitandi eigi til eins og í notkun tungumálsins að festast í tækinu sem hann hefur búið sér og missi þá sjónar á markmiðinu. Við viljum ekki lenda í sömu sporum og gestur okkar í upphafi erindisins, að sefjast yfir í sjálfsdáleiðslu. Fræðarar þessara aðferða hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir þessari hættu og viðkvæði þeirra er jafnan í því sambandi að við séum þegar dáleidd, en með hjálp íhugunar sé mögulegt að vakna af dásvefninum.
 
Þá er einnig mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við megum ekki festast í ímyndum okkar um andlegar leiðir. Sumir líta á andlega leið eins og veg sem farið er eftir. Allar slíkar ímyndir eru að sjálfsögðu tilbúningur hugans. Neti- eða iti-viðhorf er ekki aðeins unnt að samræma, við getum jafnvel iðkað hvorttveggja í sömu hugleiðslunni. Heiti erindisins er „Neti og iti,“ ekki „Neti eða iti“. Hagnýta viðhorfið er ekki annaðhvort eða, heldur bæði og.
 
Hvort sem við iðkum íhugun eða ekki skiptir mestu máli hvernig við lifum okkar daglega lífi og spurningin verður því eftir sem áður sú, hvort við viljum mæta atburðum hversdagsins með huga fortíðarinnar þannig að ekkert nýtt verði til – eða með vakandi og opinni athygli. Með orðum Krishnamurtis: „Í fáeinum orðum sagt, hugsun er svörun, andsvar minnisins, fortíðarinnar. Fortíðin getur þýtt fyrir óralöngu eða fyrir einni sekúndu síðan. Þegar hugsunin er starfandi er hún þessi fortíð sem virkar sem minni, minning, sem reynsla, sem þekking, sem tækifæri. Allur vilji er þrá sem byggist á þessari fortíð og hann beinist að því sem er unaðslegt eða því að komast hjá sársauka, kvöl. Þegar hugsunin aðhefst eitthvað er hún fortíðin og þess vegna er ekki um neina nýja upplifun að ræða. Hún er fortíðin lifandi í nútíðinni og umbreytir sjálfri sér og nútíðinni. Þess vegna er ekkert nýtt í lífinu með þessum hætti og þegar um er að ræða að finna eitthvað nýtt, þá verður fortíðin að vera fjarverandi, hugurinn má ekki vera uppfullur af hugsunum, ótta, munaði eða einhverju slíku. Aðeins þegar hugurinn er laus við þessa hluti getur hið nýja orðið til og vegna þess segjum við að það verði að skapast kyrrð í huganum svo hann starfi aðeins þegar þörf er á – á hlutlægan og gagnlegan hátt. Allt samhangandi áframhald er hugsun; þegar samhangandi áframhald ríkir verður ekkert nýtt til. Sérðu hve mikilvægt þetta er? Þetta er í rauninni spurningin um lífið sjálft. Annaðhvort lifir þú í fortíðinni eða að þú lifir á algjörlega annan hátt. Þetta er það sem skiptir höfuðmáli.“
Við skulum gefa höfundi þessara orða lokaorðin með lýsingu hans á veruleikanum eins og hann skynjaði hann, með tærleika hugans þar sem allt virðist verða nýtt, þegar hugurinn er laus úr viðjum fortíðar.
 
„Það hafði rignt alla nóttina og regnið hafði hreinsað burtu hvítt rykið á laufblöðunum rétt við malarveginn sem hvarf í fjarlægð inn í móðu fjallanna. Loftið var hreint og tært og ilmur regnvotrar jarðarinnar fyllti loftið. Á göngu upp eftir veginum kom í ljós fegurð jarðar og hvernig hin fíngerða útlína bröttu hæðanna bar við kvöldhimininn. Þetta var kvöld mikillar kyrrðar og fegurðar. Er horft var út eftir tilkomumiklum klettum með skínandi snjóbreiðum, hálf dreymandi þar sem engin hugsun bærði á sér, var hún þarna skyndilega þessi ómælanlega göfgi og blessun. Hún fyllti dalinn á þessu augnabliki og hugurinn var handan þess mælanlega. Hann bjó yfir dýpt sem ekki verður með orðum lýst. Og aftur ríkti sakleysi.“

Fyrri Hvað opnar Da Vinci lykillinn?
Næsta Samhyggð og kærleikur
Efnisyfirlit