Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Mystísk upplifun

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson

E.G. skráði af segulbandi

Fyrri hluti

AÐ ORÐIN VEKI athygli er ekki mikilvægt, heldur efni þessa spjalls. Að hver og einn megni að upplifa eitthvað fyrir sig. Þetta efni sem við ætlum að taka fyrir er svo óendanlega mikilvægt.

Það varðar sálarástand fólks, ekki einhvurra útvalinna manna — sálarástand fólks. Mikilvægið liggur ekki í orðunum. Stundin skiptir meira máli heldur en orðin. — Þetta nú. Eitthvað í loftinu — eitthvað sem er á milli okkar — eitthvað sem við eigum öll hlut í — eitthvað sem gefur orðum nýja merkingu — dýpri merkingu, og gerir kannski ræðumanni kleift að segja það sem hann ekki veit — eða koma efninu þannig til skila að áheyrandinn viti eitthvað sem ræðumaðurinn ekki endilega veit. Þess vegna eigið þið að hlusta með öllum líkamanum. Þið eigið að hlusta útí loftið — útí himingeiminn. Því við erum að reyna að ná sambandi við það sem er djúpt í sálinni, en þó alveg á yfirborðinu.

Þetta sem við ætlum að tala um, eftir ýmsum leiðum, kallast almennt mystísk upplifun. En öll orð gera því rangt til. Þessi orð, mystísk upplifun, valda oft misskilningi. Menn halda að það séu einhverjir útvaldir sem hafa mystíska upplifun — þessi maður er mystiker, ljómhugi, og svo tökum við ofan fyrir honum. Það er ákaflega slæmt þegar við förum að taka ofan fyrir fólki, ef við ekki tökum ofan fyrir fólki yfirleitt.

En hvað er mystísk upplifun? Það er, þrátt fyrir allt, hægt að segja þetta í svo örfáum orðum að vanalega fer merkingin fram hjá fólki. Mystísk upplifun er að vera til — að vera — að vera til á miklu stórkostlegri hátt en vanalega. Þannig glampar eða stundir geta komið. Þetta er upplifuð staðreynd. Þetta er ekki eitthvað sem menn eiga að taka eins og huldufólkssögur — það getur vel verið að til sé huldufólk, en það á að taka þetta eins og staðreynd. — Þetta er möguleiki. Og við þurfum að þreifa fyrir okkur, miklu frekar en beinlínis að hlusta, ef við eigum að hafa gagn af þessu.

Enski rithöfundurinn, Olaf Stabelton, sagði einu sinni stórkostlega setningu: „Þegar ég er betur vakandi en venjulega“ — hann var að lýsa byrjun á mystískri upplifun — við erum öll vakandi, ekki satt, en við getum verið betur vakandi.

Og Arthur Köstler segir: „Mér fannst ég fljóta á bakinu á fljóti friðar, undir brýr þagnar, svo varð skyndilega ekkert fljót og ekkert ég“ — ég-ið var hætt að vera til.

Ensk stúlka, 9 ára gömul, segir eftirfarandi: „Eitthvað var að koma, nær og nær, uns það var farið að anda allt í kringum mig, uns það var farið að anda í gegnum mig, eins og loftið sjálft, eins og lifandi vera.“

Þetta segir e.t.v. ekki mikið. Orð segja aldrei mikið. Stundum segir þögnin meira. HPB hefur sett þessa lýsingu á mystískri upplifun í bókina Rödd þagnarinnar. — „Og nú er sjálf þitt horfið inn í alsjálfið, þú sjálfur inn í sjálfan þig, leystur upp í þá sjálfsveru sem þú upprunalega varst.“

Og eftir Blase Pascal fannst þessi miði, þessi stórkostlega lýsing: „Frá því um hálfellefu þangað til um hálftíma eftir miðnætti. Eldur, guð Abrahams, guð Ísaks, guð Jakobs, ekki guð heimspekinga og fræðimanna, fullkomin vissa, handan við skynsemi, fögnuður, friður, að gleyma veröldinni og öllu nema guði. Heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig. Fögnuður — fögnuður — fögnuður — ég tárast af fögnuði.“

Hvað þessir menn vissu eða höfðu mikla þekkingu á því sem kallast mystísk upplifun er ekki vitað, en þeir höfðu fundið mystíska upplifun. Og þetta kemur stundum fyrir, svo þetta er í rauninni mjög merkilegt umræðuefni, stórkostlegt umræðuefni, — en sá sem veit talar ekki.

Hvers vegna er þetta svona erfitt? Ef ég get komið einhverju til skila með orðum, þá er það einmitt hvernig á því stendur, að svona erfitt er að fá að höndla þetta.

Eitt vantar í okkur; við kunnum ekki að athuga það að vera. Og þetta er mikilvægara en virðist fljótt á litið. Við kunnum ekki, höfum ekki vanið okkur á, að athuga þá sjálfsögðu staðreynd að vera. Ekki er hægt að tala um hana. Ekki er hægt að hugsa um þá staðreynd að vera. Ekki hægt að skoða það. Ekki hægt að rannsaka það vísindalega. Þetta „að vera“ er aðeins hægt að vera. Á þessu verður að byrja. Við höfum ekki æft okkur í, á neinn hátt, að virða fyrir okkur, þetta að vera.

Patantjali segir í hinni frægu bók sinni Yogasútrum Patantjali, að yoga sé það að ráða yfir myndun hugsananna í huganum. Og þegar svo er komið að þú getur ráðið við hugsanirnar í huganum — hvort þær koma eða ekki, þá verðurðu var við sjálfan þig eins og þú ert. Sjálfsþekking hefst fyrst er þú tekur fortjald hugsananna frá. Og þetta er ekki fræðileg sjálfsþekking. Þarna er ekki um að ræða guð fræðimanna eða heimspekinga, það er umbúðalaust að geta orðið var við sjálfan sig.

Menn spyrja, getur maður nokkurn tíma skoðað nokkuð annað en sjálfan sig. Það er misskilningurinn sem við flytjum með okkur inn í athugun á sálarlífinu frá heimi hlutanna, þar sem einn virðir fyrir sér og annað er það sem virt er fyrir sér. En í vitundinni er vandalaust að virða fyrir sér það sem maður sjálfur er.

Og hvernig ertu þegar þú tekur eftir sjálfum þér, þegar þú tekur eftir sjálfum þér hið innra? Vitund þín verður vör við sjálfa sig sem kyrrð. Svo það er þess virði að skoða þessa kyrrð sem kemur í ljós í þér, þegar hugsunum hefur verið sópað frá. Kyrrðin er vitundin. Þú þekkir aldrei neitt og veist aldrei neitt sem þú ert ekki sjálfur.

Nú förum við að nálgast betur þetta sem mig langar til að koma til skila: Að skoða þetta að vera. Hvernig það að vera er, í okkur venjulegu fólki. Hvunær stansar maður og athugar það eitt útaf fyrir sig, bara þetta að vera til núna? Ekki hvernig ég ætla að vera á morgun, ekki hvernig föt ég ætla að fá mér, ekki hvernig ég ætla að ná langt í einhverju sem ég þykist snjall í — bara þetta að vera til, núna.

En þið rekist á þrjú fortjöld.

Fyrsta er innihald hugans, hugsanirnar, — og þegar þeim er sópað frá kemur annað. Að finnast maður vera eitthvað sérstakt, ég-ið. Og þriðja, og það sem erfiðast er að losna við, er vitundin sjálf. Lofið þessari staðhæfingu sem virðist vera svo furðuleg og kannski heimskuleg, bara að vera í friði. Engar hugsanir, ekkert ég, bara vitund. Og svo greiðist þetta sem við köllum vitund í sundur í kjarna sinn og það sem kemur í ljós er nakið — tilfinningin að vera. Innihald vitundarinnar, ef hægt er að komast svo að orði — það er ekkert innihald í vitundinni, nema í huganum, hugsanir — en eðli vitundarinnar, sjálft eðli vitundarinnar er að vera. Það er kjarni vitundarinnar, það er kjarni mannsins, þessi upplifun að vera —þetta sjálfsagðasta af öllu sjálfsögðu, sem fólk eiginlega fæst ekki til að athuga. Og tilfinningin fyrir að vera tekur breytingu í mystískri upplifun.

Þannig að ef þið getið einangrað — og það er vitlaust orð — það að vera, og bara verið það að vera, er mystísk upplifun á næsta leyti. — Hún er þar og það getur ekki liðið hjá að hún komi ekki, ef þið kunnið að bíða. Við erum að reyna að prófa það að vera núna, nakið. Ég er ekki að segja ykkur neitt, ég er að lýsa því sem er að gerast í ykkur — bíða — bara vera og bíða. Láta engin ytri skilyrði, engin hugræn skilyrði trufla, þetta sem þið eruð innst inni og vitið af að þið eruð, finnið alltaf, getið ekki losað ykkur við, láta sér nægja að vera það og ekkert annað. Og þá kemur undrið. Biðin er kyrrð. Hvað er handan við þessa kyrrð? Hvað er það sem kemur upp þegar þið finnið hvorki kyrrð né ekki kyrrð? Þegar þið eruð komin í gegnum kyrrðina.

Mystísk upplifun getur komið eins og þruma. Til eru margar merkilegar lýsingar af slíku. En hún getur líka komið þannig að þú hafir ekki hugmynd um hvenær og hvernig hún kom, þetta var bara allt í einu svona. Kannski er mystísk reynsla það eitt að gluggatjöld vitundarlífsins hafa verið dregin frá.

Kannski er hún ekkert annað en það. En stundum er líka hægt að fylgjast með hvernig þetta gerist.

Og þá er um að ræða fimm stig sem eru ekki nein stig auðvitað, því að mystísk upplifun er alltaf bara hún. Það dettur á þögn. Og þessi þögn þaggar niður í öllum hávaða, þó að vélhjól séu að fara framhjá. Og þessi þögn hún er ekki bara þögn, hún er eitthvað í sjálfri sér. Hefur engum dottið í hug að tilveran kunni í rauninni að vera ekkert annað en lifandi þögn?

Síðan — og þetta getur gerst ákaflega hratt, allt í einu andartaki en samt er hægt að finna hvernig það gerist — finnur þú þig í öllu í kringum þig, til að mynda í öðru fólki, ekki það að þú vitir hvað það hugsar, það er tiltölulega ómerkileg upplifun að vita hvað aðrir hugsa — þú finnur þig í fólki, þú finnur líðan þess og þú horfir út um augu þess, þú finnur þig í blómum og trjám, í loftinu, mörkin á milli þín og þess sem er ekki þú — er vanalega sagt að sé ekki þú — eru þurrkuð út.

Og svo getur farið að þetta snúist alveg við og þú finnir allt í þér. Eins og allur heili himinngeimurinn sé í þér. Eins og þú sért einhver óendanlegur utanumleiki sem getur rúmað allt, bæði nú og það sem var og verður.

Og svo er þetta yndislega fjórða stig sem margir hafa lýst stórkostlega. Þegar allt, bæði ég og þið og umhverfið allt, verður ein lifandi heild, lifandi návist, eitthvað sem er glóandi vitund, sem er glaðlegt bros þó að það sé enginn sem brosir — allt gegnsýrt af einhverju sem er lifandi veruleiki sem þú getur allt að því talað við.

Og hið fimmta sem er kannski stórkostlegast af því öllu, er hinn ólýsanlegi óendanleiki sem er algerlega handan við allt sem við getum kallað návist, handan við allan mun, handan við spurninguna um tóm eða ekki tóm, veröld eða ekki veröld. Algerlega handan við allt, handan við allan handanviðleika. Og ef það er nokkuð sem undirritaður vill kalla guð, þá er það þetta.

Núna erum við að prófa það að vera. Bíða, við erum fyrst og fremst að vera, við erum alltaf, við getum ekki komist hjá því að vera. En hvers vegna ekki að taka eftir því svona hálftíma til klukkutíma á dag? — Bíða, vegna þess að þetta undur að vera, vera til, er hliðið inn í þennan óendanleika. Og það kemur tilfinning um frelsi, að vera laus, en þú mátt ekki nota frelsið. Ef þú notar það, ertu ekki lengur frjáls. Því aðeins að frelsið sé ekki notað, er frelsið frelsi. Hugsið ykkur — að fara að nota frelsið! — Eigum við að halda áfram að vilja að nota alla skapa hluti. Er ekki til eitthvað sem er svo hreint og tært —að það er ekki nema það sé ekki notað.

Þá er spurningin um skapgerðina, hvurt hún breytist ekki. — Jú, hún kannski breytist, ef nokkuð er, þá held ég maður verði skárri. Ég er stundum spurður; týnir maður ekki niður því að njóta? Verður manni ekki sama um allt? Er matur eins góður? Um þetta var ég einu sinni spurður. Ég held að það sé ekki svo mikill munur á því. — En ef nokkur breyting hefur orðið, þá biður maður síður um meira.

Svo er það ábyrgðartilfinningin.

Verða þessir menn ekki algjörlega kærulausir? Einu sinni var ég spurður; talið þið ekki um hið guðdómlega kæruleysi? Jú, ég hef heyrt talað um það. En hvað er ábyrgðartilfinning annað en að finna til ábyrgðar sinnar á lífsheildinni? Er til einhver ábyrgðartilfinning önnur en að finna til þeirrar ábyrgðar er hver og einn ber á lífsheildinni, öllu sem lifir? Er til einhver ábyrgð sem aðeins beinist að einhverju sérstöku?

Við erum að prófa að láta þetta að vera, gægjast fram betur en áður. Og nú kem ég að spurningunni sem kannski brennur í huga sumra. Hver er sá sem hefur reynt mystíska upplifun? Allir hafa reynt mystíska upplifun, a.m.k. einhvern ávæning. Tilfinningin fyrir að vera — þetta að vera — er mystísk upplifun ef hún er ekki á kafi í hugsunum og fyrirframviðhorfum. Spurningin um mystíska upplifun er að þurrka þessa móðu af tilveruglugganum — hugsanir og fyrirframviðhorf. Hún er að minnsta kosti gluggi útí undrið. Tilfinningin fyrir að vera. Þetta sem þið hafið öll og getið ekki losað ykkur við. Líklega það eina sem þið getið ekki losað ykkur við.

Yoga er að taka þessa móðu frá. Yoga er bókstaflega það að taka gluggatjöld vitundarlífsins frá. Og mystísk reynsla kemur þá e.t.v. — stendur við, hverfur ekki. Sá möguleiki er fyrir hendi að þessi reynsla komi ekki aðeins eins og glampi. Sá möguleiki er fyrir hendi að hann standi við. Það er kallað hugljómun. — Þetta er svona nauðaeinfalt. Öll mystísk og esóterísk fræði byggjast á því að hægt er að verða fyrir mystískri upplifun. Og mystísk upplifun stendur í sambandi við það að kunna að finna tilfinninguna fyrir að vera. Hana eruð þið með nú. Þið eruð á þessu andartaki, tilfinningin fyrir að vera. Þar er möguleikinn fyrir mystískri upplifun. Þetta er ekki vitrænt en þið finnið það, því það er engin leið að lýsa mystískri upplifun. Engin leið er að búa til fræði um mystíska upplifun. Það er aðeins hægt að reyna að upplifa mystíska upplifun. Og hún byggist á þessu. Að tilfinningin fyrir að vera fái að vera í friði, koma fram.

Möguleikarnir eru í rauninni enn meiri. Þegar nógu margir þekkja mystíska upplifun og einhver hluti þeirra ná því sem við köllum að hugljómast, þ.e. að mystísk reynsla standi við, þá hef ég þá skoðun að stökkbreyting verði í tilfinningunni fyrir að vera hjá fólki almennt.

Okkar venjulega hugarástand, þetta sem við erum alltaf með, er óvani, bara hreinn óvani. Við þurfum ekki að vera svona. Þetta er eins og dáleiðsla. Við höfum dáleitt hvurt annað og höldum áfram, viðhöldum þessari dáleiðslu, þeirri að við séum eitthvað sérstakt, aðgreint — þannig að þetta er í rauninni bara ávani. En okkar rétta ástand, hið rétta ástand mannsins, hin mannlega vitund í sjálfri sér, er mystísk upplifun — hún bara fær ekki að koma fram.

Búddhistar segja „þú ert hugljómaður, þú bara veist það ekki.“ Þessi möguleiki þarf að fá tækifæri og þegar stökkbreyting hinnar mystísku upplifunar hefur orðið með mannkyninu, ég hef trú á að það verði — þegar nógu margir hafa sópað þessari dáleiðslu frá, þá er engin óvild, engin stríð, það er engan hægt að finna til að berjast við, vegna þess að allir hafa fundið að þeir eru eitt, um leið og þeir eru hver fyrir sig. Engir tveir eru eins, samt er allt eitt. Sennilega er þetta hið stóra undur lífsins. Og leiðin er mystísk upplifun. Gefa þeim möguleika gaum, til þess að nálgast mystíska upplifun — gefa því gaum, þessu eina sem þið getið ekki losað ykkur við; að vera.

Erindi haldið 21. október 1983

Seinni hluti

MYSTÍSK REYNSLA er glampi af annarri vitund, sem ekki þýðir að það sé eitthvað sem er okkur ekki eiginlegt. Hvur segir að við getum ekki haft margar vitundir? Ég nota þetta orð þótt það sé ekki gott í fleirtölu. En það sem um er að ræða er önnur vitund. Og hér þurfum við að komast að raun um hvernig hægt er að nálgast þetta á sem einfaldastan máta.

Það fyrsta sem við þurfum að gera okkur grein fyrir er að þegar við erum að tala um mystíska upplifun þá erum við að tala um glampa af annarri vitund. Og þessi glampi er skýrður út frá venjulegri vitund eða venjulegu vitundarástandi. En það fær enginn ofbirtu í augun af sólskininu nema hann hafi verið í myrkri. Þannig að ef daglegt vitundarástand mannsins er kannski svolítið öðruvísi, þá getur verið að þessir glampar séu allt öðruvísi. Við erum að ræða um mystíska vitund frá sjónarmiði þess sem við teljum hina almennu vitund.

Nú skulum við koma að óskaplega hversdagslegri hlið á þessu máli. Við erum að tala um það að mystísk upplifun sé í rauninni eitthvað sem býr í því að vera, þeirri upplifun að vera. En nú skiptir máli að gera sér grein fyrir eða hafa í huga, að þetta sem við köllum mystíska upplifun, er að verða var við það að vera, á stærri hátt, stórkostlegri hátt, heldur en við vanalega þekkjum það. Þetta verður svolítið kjánalegt þegar orðin eru svona illa löguð til þess að ræða þetta.

En örlítill vottur af mystískri upplifun kemur til ykkar hvert einasta andartak. Þið þurfið ekki að trúa þessu og kannski viljið þið neita. En því er nú samt haldið fram að örlítið sekúndubrot hvert einasta andartak frá upphafi lífs vors til loka, komi örlítill neisti af þessari upplifun, þannig að það er ekki bara einhvern sérstakan tíma sem við kærum okkur um að vera í háandlegu skapi sem þetta kemur. Það er alltaf við bæjardyrnar. Og það er hægt að sýna hvar í andartakinu þessi mystíski möguleiki er opinn.

Við skulum líka minnast þess að í fjölda tungumála, einkum þeim fornu, er allt sem andlegt er — kennt við andann, sama og að draga andann. Rótin í sanskrítarorðinu braman sem þýðir hinn hinsti veruleiki, hinn óendanlegi guðdómur, er bri sem þýðir að þenjast út og er álitið skylt fornri sögn að draga andann. Sömuleiðis er orðið atman sem er notað yfir hinn óendanleika veruleika í mannsálinni. Allir vita hvernig það er á íslensku; andi og að draga andann, það er það sama. Hér er dularfullt samband og það væri hægt að upplifa ef menn gæta sín vel. Það er dularfullt samband milli andardráttarins og hinnar hæstu upplifunar. Meira að segja má sýna fram á hvar í hreyfingu andartaksins má finna hana. — Það er rétt um það leyti sem þú ert að ljúka við að anda frá þér og ert að byrja að anda að þér. Þar er opinn gangur útúr því fangelsi sem maðurinn hefur gert um sjálfan sig. — Við komum rétt bráðum að þessu aftur og þá á mjög hagnýtan máta.

Þetta sama gerist þegar þú ert rétt á mörkum svefns og vöku. Þú sofnar aldrei yfir í annað vitundarástand. Þú sofnar alltaf úr þessu vitundarástandi út í hinn hinsta veruleika, þó það sé kannski örstutt, síðan kemur svefnástandið. Þeir sem gerst þykjast vita, jafnvel þeir sem hafa upplifað dauðastundina og vita uppá hár hvað þá gerist, segja að þú farir aldrei á milli tveggja vitundarástanda nema koma við í hinum hinsta óendanleika. Það skyldi ekki vera svo að ekkert sé nær heldur en einmitt hin háa mystíska vitund og ekkert auðveldara að nálgast. — Og það skyldi ekki vera mesta kraftaverk tilverunnar að við skulum ekki upplifa það.

Þetta gerist einnig stundum þegar þið eruð annars hugar án þess að þið takið eftir því. En þið eruð kannski svo upptekin af því sem þið voruð að hugsa um áður og eigið eftir að hugsa um þar á eftir, að þetta kyrrðarandartak sem klauf algjörlega heimsdrauminn fyrir ykkur, það hverfur.

Á hvurju einasta andartaki lífs þíns er það aðeins skortur á skýrri eftirtekt sem gerir það að verkum að þú tekur ekki eftir hinum mystíska möguleika. Mók hugsananna eins og skyggir á — líka þar sem engar hugsanir komast að. Þú kemst ekki hjá því að finna að einhver undarlegur máttur færist nær og þessi undarlegi máttur kemur þegar þú ert að anda út, rétt áður en þú byrjar að anda að.

Samband er á milli andardráttarins og hárrar andlegrar upplifunar, sumir þekkja ákveðna iðkun sem við þetta miðast. Það er hin svokallaða so ham iðkun.

Kúnstin er einföld og það þarf enga hugleiðingartíma, það þarf ekkert annað en að vera áhugasamur um hvað verið er að gera, bara meiri áhuga á þessum möguleika heldur en hugsanaflakkinu. Þú andar frá þér og í huganum segir þú so. Þú stansar þegar þú ert búinn að anda frá þér eins og þú átt þægilegt með. Og svo byrjarðu að segja aham eða ham. Þessu má alveg snúa við og segja hum ham alveg er sama hvort er. En aðalatriðið er hið sama, hvor aðferðin sem notuð er, að byrja ekki að anda að sér aftur fyrr en maður þarf þess, og þetta hlé á milli andartakanna verður lengra og lengra án þess þið vitið af. Og það verður dýpri og dýpri kyrrð sem færist yfir ykkar hversdagslegu tilveru, þó að þið séuð að taka þátt í venjulegu lífi.

Dagbókin

Önnur aðferð er kölluð dagbók lærisveins. Hún er fólgin í að einu sinni til tvisvar á sólarhring staldrið þið við og farið yfir allt sem gerst hefur frá því að þið iðkuðuð þetta síðast — en alltaf aftur á bak. Maturinn fer útúr ykkur en ekki uppí ykkur. Þið gangið afturábak út úr bílnum o.s.frv. allt gerist í öfugri röð, allt frá afleiðingu til orsakar. Og þetta er ekki bara hugræn iðkun. Þetta er stórmerkileg aðferð til þess að sleppa við þetta ofurvald hversdagslegra hugsana og viðhorfa. Þetta sem hefur stöðugt haft ykkur á valdi sínu er rakið sundur og ef þið gerið þetta hvoru tveggja, ef þið hafið bæði farið yfir liðinn tíma kannski allan daginn og hugsið einnig um að fylgjast með önduninni, þá verða þær stundir fleiri sem geta komið upp, að ykkur finnist þið nálgast hinn háa veruleika vegna þess að með dagbók lærisveinsins hætta atvikin að raðast upp í þetta venjulega form. Þið hafið rofið þennan sjálfsagða hrynjanda atvikanna.

Aldrei „ég“

Þriðja aðferðin sem er ákaflega einföld og mikið notuð er að hugsa aldrei „ég“, sleppa algjörlega persónufornafninu ég, þið getið sagt ég en megið ekki hugsa ég. Árangurinn skilar sér tiltölulega fljótt.

Ég nefndi mátt sem þið fynduð ef að þið látið allt stansa og þið getið látið allt sem þykir sjálfsagt, stansa með þessum þremur ráðleggingum, sá máttur, sem kemur í ljós þegar þið látið allt stansa, þaggar niður í öllu og þið getið líka tekið eftir því. Þetta er svo hversdagslegt, svo afburða hversdagslegt — getið líka tekið eftir því — að hann vellur upp þegar þið eruð að ljúka við að anda frá ykkur og áður en þið byrjið að anda að — það er þá sem þessi kyrrðarmáttur kemur sem heldur öllu hugrænu frá. Það er staðreynd að hversdagslegt fólk, sérstaklega líklega þar sem lítið truflar, þekkir þennan mátt, þessa máttugu þögn án þess að gera nokkuð sérstakt með hana. Ég er líka sannfærður um að það sem kaþólikkar meina með angelicus er þessi þögn, þessi máttur — lofa honum að koma — allt stansar hvar sem þú ert á vissri stund — þú stansar og hættir að vinna, þú hættir að hugsa. Meiningin er sú að þú hafir slíka kyrrðarstund einu sinni á hverju einasta andartaki þó stutt sé. Og við finnum meira að segja í daglegu tali fólks þegar svona lagað gerist — svona stutt er yfir í mystíska reynslu. Orðtakið sem er orðið algengt hér á landi „að engill fljúgi hjá“, vísar ekki bara á að fólk talar ekki, það var eitthvað í loftinu, í kringum fólk, í huga fólks, sem var óvanalegt. Og þetta kemur fram í einföldum smáljóðum íslenskum. Athugið hvað þetta er í rauninni merkilegt og hvað það væri mikils virði að tína upp alla mögulega punkta úr hversdagslegu lífi þar sem þið eruð alveg gersamlega við þetta. Þetta er ekki eitthvað sem er óskaplega langt í burtu. Börn finna þetta. Hér má nefna smáljóð sem eru vísur norðan úr landi sem einhver eða einhverjir hafa sett saman á sumarkvöldum því það er verið að lýsa sumarkvöldi á Norðurlandi. Ég heyrði farið með þetta þegar ég var lítill drengur og ég sé núna, þegar ég veit betur, hvað er að fara að gerast, að það verkaði á mig og þann sem flutti sem hugleiðing.

Senn er komið sólarlag

sést á norðurheiði

líður á þennan dýrðardag

Drottinn veginn greiði

Senn er komið sólarlag

sést á norðurbrúnum

líður á þennan dýrðardag

Drottinn hlífir lúnum

Senn er komið sólarlag

sést á norðurtindum

líður á þennan dýrðardag

Drottinn stýrir vindum

Senn er komið sólarlag

sést á norðurhnjúkum

líður á þennan dýrðardag

Drottinn líkni sjúkum

Senn er komið sólarlag

sést á norðurfjöllum

líður á þennan dýrðardag

Drottinn hjálpi oss öllum

Spurningin er ekki hvort þetta er hægt. Spurningin er hvort við gefum okkur tíma til þess. Það er nú það furðulega við það. Ekki síst þegar í ljós kemur, að þetta tekur engan tíma.

Tímaleysi

Helsta einkenni mystískrar upplifunar er algjört tímaleysi. Warner Allen, einn af þekktustu mystíkerum þessarar aldar í Evrópu, varð fyrir hárri mystískri reynslu sem gerbreytti lífi hans á milli tveggja nótna í 9. sinfóníu Beethovens, á milli tveggja nótna, eins og það er nú skammt samkvæmt úrinu. Og saga er til sem er mjög táknræn fyrir þetta, að því að mig minnir í Þúsund og einni nótt um mann sem vaknaði um nótt og velti um könnu með vatni og greip hana áður en hún var alveg farin um koll. En meðan kannan var ekki alveg dottin áður en hann greip hana, upplifði hann heila mannsævi. Til er íslensk smásaga um munk sem gekk í burt frá klaustrinu og fann óskaplega fagurt tré sem ilm lagði frá og honum dvaldist andartak við þetta tré, en þegar hann kom til baka, þekkti hann enginn — en saga var um að gamall munkur hefði týnst fyrir mörgum mannsöldrum.

Hvað er verið að segja með þessum sögum annað en að tíminn hefur ekki neitt með mystíska upplifun að gera. Tíminn er allt annað fyrirbæri.

Ég-leysi

Annað sem einkennir þessa reynslu, annað hversdagslegt, er spurningin um ég-leysið. Þið eruð hér um bil alltaf ég-laus. Það er ekki nema einstaka sinnum sem þið finnið, bregðist við þannig að þið séuð „ég“. Venjulegt fólk, gott fólk er svoleiðis.

Þetta ég er aðallega í málfræðinni, ég og þú. Venjulega vitið þið ekkert af því, þegar þið hugsið ykkur um, enda er það ekki til. Þið vitið ekkert af því þegar þið eruð niðursokkin í verk ykkar. Þið verðið vör við alla skapaða hluti sem eru að gerast í kringum ykkur, það truflar ekki neitt. Þið takið eftir því sem þið eruð að gera svo vel, að þið vinnið yfirleitt aldrei betur, afkastið aldrei meiru og vinnið aldrei betur en einmitt þegar þið vinnið svona. Þið heyrið í umferðinni, kannski í músík, en þessi ég-punktur er týndur fyrir fullt og allt. Samt eruð þið til sem er ósköp einfalt mál vegna þess að það er til og hver einasti maður getur fundið það núna — til er tvenns konar „ég“. Í fyrsta lagi þetta „ég“ eða „þú“, sem er málfræði. En þetta „ég“ er bara til í hugsanagangi manna ekki í beinni upplifun. Nokkuð sem þið villist á í staðinn fyrir hið rétta ég, sem er bara tilfinning fyrir að vera til og sú tilfinning er algjörlega ótakmörkuð. Ekki nokkur einasti maður hefur nokkurn tíma getað sagt hvar sú tegund af ég-i byrjaði og eitthvað annað tók við. Það er sama tilfinningin í „þér“ og „mér“. Þegar grafnir eru brunnar niður í jörðina er ekki mismunur á vatninu sem inn í þá rennur.

Sæla

Þriðja atriðið sem algengt er að tala um í sambandi við mystíska upplifun, er spurningin um sælu. Lengi vel var eiginlega aldrei rætt um háa reynslu nema í sambandi við sælu. Ég skyldi ekki þetta tal um mikla sælu, vegna þess að ég hélt að þetta væri einhver óskapleg tilfinningaleg kæti. En slíkt þarf ekki að koma með í mystískri upplifun. Eina sem við vitum, er að það er fjarvist allrar vansælu.

Engum myndi detta í hug á Indlandi að jafna merkingu orðsins ananda við venjulega persónulega vellíðan. Enginn myndi nokkurn tíma leyfa sér að jafna því við nokkuð sem hægt er að skýra. En ananda þýðir sá fögnuður sem er í því fólginn að vera til. Sá fögnuður sem er kærleikur og um leið uppruni alls sem er. Þessa tegund af sælu finnið þið allar stundir. Þið getið ekki verið án þess að finna hana, meira að segja þrátt fyrir vanlíðan. Spurningin er ekki hvurt þið finnið þessa sælu. Spurningin er hvurt þið metið hana eins mikils og þessi persónulegu veðrabrigði sálarlífsins sem við oftast nær köllum hamingju eða sælu.

Viska

Hið fjórða er spurningin um visku og skilning. Satt er að tilveran leysist upp í hárri mystískri reynslu og hún bókstaflega leysist upp hvert einasta andartak fyrir ykkur, í þeim möguleika ykkar að upplifa þetta í lok fráöndunar og áður en þið byrjið að anda að ykkur. Hún leysist upp í einhvers konar ljós sem er tilveran sjálf og um leið óendanleg viska. En þar er engu hægt að lýsa, öll spurning um að lýsa er fjarri. Ekkert er hægt að setja í orð. Þeim mun dýpri mystísk upplifun, þeim mun fjarlægara er að ætla að reyna að skýra með orðum það sem er hinst og stærst. Þannig að hinn hái vitringur er mesta barnið.

Eitt enn þarf að nefna sem skiptir ekki litlu máli. Það er að skynjanirnar geta breyst. Það er ekki víst að þú takir eftir því en við mystíska upplifun, a.m.k. ef hún kemur af miklum krafti eins og stundum gerist — stundum er hún eins og þruma, þá geta skynjanirnar breyst.

Og allt mögulegt getur gerst. Skynjanirnar eru líka í takt við andardráttinn og í takt við hjartsláttinn, en það er hrynjandi þarna á milli sem er annar og hann kemur stundum í ljós í mystískri upplifun. Einni spurningu enn þarf að svara. Ef þessi möguleiki er fyrir hendi hvert einasta andartak, og ef hann kemur stundum hjá flestum einstaka sinnum sem stórkostlegur glampi sem maðurinn hlýtur að taka eftir, hvað veldur því þá að hann getur ekki staðið við? Af hverju höldum við ekki dálitla stund áfram í þessu háa vitundarástandi? Svarið er, að vanalega fer hugsanavélin strax í gang og lokar fyrir. Það hafa flestir reynt sem hafa nokkrum sinnum orðið varir við slíka reynslu, en þó er ekki einhlítt að það sé ástæðan. Þetta getur stafað af því að þú viljir ekki lofa skynjununum að breytast. Að þú viljir ekki fara útúr þessu skynjanamynstri sem þú ert í, þú haldir fast í þetta sem þú upplifir hér sem ytri heim. En ef þú slepptir þessu þá myndir þú kannski skynja þetta sem þú skynjar vanalega sem ytri heim, allt öðruvísi, þó það væri ekki nema stutta stund í einu.

Skynjanir eru eiginlega það sem þú veist um þennan heim. Þú skynjar eitthvað, en aðallega er heimurinn eitthvað sem þú veist. Þú neitar að taka eftir því sem er ekki eitthvað sem þú veist. En hvernig getur maður vitað eitthvað sem er á iði, sem aldrei er eins? En það er einmitt það sem þessi tilvera er. Tilveran er ekki eins eitt einasta andartak. Það er ímyndun hins venjulega mannshuga að þetta sé stöðugt. Einmitt þetta er eitt af því sem hindrar mystíska reynslu í að standa lengur við.

Við þurfum að líta svo á, að ekki aðeins þessi líkami heldur öll gerð mannsins, innri gerðin ekkert síður, er ákveðin vanauppbygging, eins konar tjóðurhæll sem heldur hinu almenna vitundarástandi kyrru og hindrar mystíska reynslu, sem þó er eðli mannsins, í að koma.

Erindi haldið 1983

Fyrri Kúndalíni
Næsta Þekktu sjálfan þig
Efnisyfirlit