Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Kúndalíni

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson

B.B. skráði af segulbandi.

S.E.Y.G gerði lítilsháttar aðlögun á texta.

1. hluti

BYRJAÐ VERÐUR á að fara rækilega yfir hina svokölluðu innri gerð mannsins. Mörgum þykja þessi fræði þurr og annarleg en ef maður vill átta sig á þeim krafthreyfingum sem nefndar hafa verið kúndalini, þá er nauðsyn að kynna sér þessa innri líffræði Indverja. Það sem á eftir kemur skilst ekki með góðu móti fyrr.

Meginatriðið er að yogar líta á líkama mannsins sem kraftsvið. Þótt þeir viðurkenni hinn efnislega þátt líkamans þá líta þeir svo á að hann sé fremur afleiðing af tilveru kraftsviðsins, heldur en kraftsviðið stafi af hinum efnislega líkama. Þeir kalla kraftsviðið hinn eiginlega mannslíkama og ræða um það eins og það hafi sjálfstæða tilveru — möguleiki sé að vera aðeins kraftsviðið en ekki þessi efnislíkami, eins og hvað gerast á dauðastundinni og jafnvel öðrum stundum líka.

Kraftsviðið hefur sjálfstæða tilveru. Engin venjuleg efnisleg skilyrði eru nauðsynleg til þess að það geti verið til. Það er samröðun kraftpunkta í tóminu, ef þannig má að orði komast.

Þetta kraftsvið samanstendur aðallega af rásum sem kallaðar eru nadíur og það er krafturinn sem býr til þessa kraftstrengi og einnig hjól eða skildi (chakra) og nokkuð sem verður að kallast bjarmi. Með öðrum orðum, ef við sæjum manninn eins og yogar lýsa honum þá bæri mest á eins konar bjarma eða loga, mildum og ekki litsterkum, en samt eitthvað í honum sem sýnist binda mikla orku. En þegar betur er að gáð liggja ákveðnir kraftstrengir fram og aftur um þetta svið og sums staðar eru kringlóttir skildir eða hjól mjög áberandi.

Kraftlínurnar

Fjöllum fyrst um nadíurnar og sjáum hvernig þetta allt myndar heild samkvæmt þessum lýsingum.

Í einu riti er sagt að nadíurnar séu 72 þúsund, ekki veit ég hver hefur lagt fyrir sig að telja þær, en hitt finnst mér trúlegra að hér komi fram tilhneiging Austurlandamanna þegar enginn veit fjölda einhvers að nefna einhverja gífurlega háa tölu. En nadíurnar sem skipta máli eru fjórtán, og það eru ekki lítil vísindi að finna þær og verkun þeirra í sjálfum sér. Af þessum fjórtán eru þrjár langmerkastar. Þær eru í bakinu. Af þeim er ein mikilvægust, súshúmna sem liggur frá mænurót neðst niðri og allt fram á milli augna og, eins og það er orðað, áfram. Hinar tvær eru ida og pingala sem sumir segja að vefjist utan um súshúmna, önnur frá hægri, hin frá vinstri, en aðrir lýsa þeim svo að þær séu hvor sínu megin við súshúmna upp eftir bakinu, og meira segja hefur einn haldið því fram að þær krossist í hálsinum og sameinist svo allar í ajnasentrinu milli augnanna.

Hér er um að ræða mismunandi lýsingar sem ég þori ekki að gera upp á milli. Alveg eins getur verið að þetta sé allt saman líkingamál. En þessar tvær hliðarnadíur eru þarna og svo mikið er víst að önnur er mjög heit en hin mjög svöl.

Fyrir utan þessar fjórtán (og þar af eru þessar þrjár sem nefndar voru hér að framan) eru þrjár nadíur sem yfirleitt er aldrei minnst á. Það stafar af því að þau sambönd eru líklega ekki orðin til í flestum okkar.

Við kúndalini-iðkun sem ég stundaði austur frá undir leiðsögn allgóðs leiðbeinanda árið 1974 og fram á árið 1975, þá voru þessar þrjár nadíur teknar í notkun. Þær heita medha, hún er beint á móti súshúmna en að framanverðu; sarasvati sem liggur upp vinstri síðuna upp í hjartað og beygir svo yfir brjóstið; og lakshmi sem liggur upp hægri hliðina að framanverðu og upp í háls. Mig grunar — og mun koma að því síðar þegar talað verður um kúndalini-hreyfingarnar sjálfar — að mikil vandræði stafi af því ef kúndalini fer í gang og þessi þrjú máttartengsl hafa ekki verið gerð virk.

Þetta er aðeins fræðilegur grunnur þess sem verður rætt um í síðari greinum.

Þá er best að snúa sér að súshúmna sem er aðallínan og sú sem skiptir mestu máli. Hún er þreföld og hvurt lagið liggur inni í öðru, það er að segja innan í súshúmna er annað lag sem heitir vajrini og innan í því annað sem er hið svala lag í súshúmna og nefnist cítrini og innan í því er brahmí. Um tilveru brahmí er deilt af því hún er í raun ekki neitt. Hún er eins konar þráður af ekki-neinu sem liggur neðan frá mænurót og upp í höfuð og lengra. Það er einmitt þessi þráður af ekki-neinu sem á að leiða máttinn upp, ef við höldum því orðalagi áfram. Eins er með hrídaya akasha sunya sem er punktur inni í hjartalótusnum, hann er tóm sem er ekki-neitt.

Þegar slíkt ástand er fundið í innri gerð mannsins er í rauninni komið inn úr formi og í eitthvað sem er miklu meira en form.

Gott er að hafa í huga að ida og pingala snertast á tveimur stöðum og ganga þar allar þrjár í eitt, það er neðst í súshúmna. Þessir tveir örlitlu punktar þar sem línurnar þrjár verða að einni eru í þessum fræðum taldir stórmerkilegir og hjá hindúum heitir sá efri; mukta triveni, en sá neðri heitir; yukta triveni. Þessir skurðpunktar nadíanna þriggja skipta miklu máli í sambandi við kúndalini.

Orkustöðvar

Tölum þá um chökrun, hjólin.

Orðið chakra lýsir í raun alls ekki því sem við er átt. Það þýðir bara hjól eða skjöldur. Þarna er um að ræða að minnsta kosti tvenns konar fyrirbæri sem einu nafni eru kölluð chakra. Í mannslíkamanum eru þau talin að minnsta kosti 30 en sumir segja 32, aðrir 38 og ég hef ekki hugmynd um hvað er réttast. Af þessum fjölda eru sex sem skipta máli frá þessari iðkun séð. Það eru þessi sex sem margir kannast við og tengja margvíslegum dulrænum mætti.

Fyrst er múladhara sem er fjórföld, neðst niður við mænurót, þaðan ganga nadíurnar upp; svadisthana sem er í hryggnum heldur ofar en lífbeinið, hún er sexföld; manipuraka sem er í hryggnum á móts við sólarplexus aðeins ofan við naflann, hún er tíföld; anahata sem er á móts við mitt brjóst og gerir talsvert mikið vart við sig hjá fólki; visúddhi sem er efst uppi í hálsi, fram undan mænukringlu, hún er sextánföld, og ajna, stöðin milli augnabrúnanna og er hún tvöföld.

Múladhara þýðir þá aðalundirstaða, svadisthana hef ég ekki þýðingu á, sva getur þýtt mikill eða sjálfur og sthana þýðir staður eða pláss, og ég get ekki útskýrt hvers vegna hún er nefnd þessu nafni. Aftur á móti þýðir manipuraka eitthvað sem er leitt af manipura og það þýðir eðalsteinaborg eða -byggð og lýtur að hinum mikla krafti sem iðulega safnast fyrir í manipuraka, meðal annars þeim sem vanalega er kallaður prana. Hann hleðst upp í líkamanum á tveimur stöðum, annars vegar í manipuraka, hins vegar í svokölluðu brahma-kefli sem liggur innan í hauskúpunni rétt innan við ajna-punktinn og aftur til móts við hægra eyrað. Þetta kefli er ekki efnislegt heldur kraftkefli.

Síðan kemur anahata; það þýðir sjálfvakinn tónn — og er mönnum gjarnan sagt að hlusta eftir hinum sjálfvakta tóni í anahata, ef svo skyldi vera að tónbrahman hafi verið fluttur úr múladhara og upp í enni. Þetta tengist allt yoga-iðkun og er eitt af því sem maður á að heyra. Síðan kemur vísúddhi sem þýðir tandurhreinn og að lokum ajna sem þýðir beinlínis stjórn eða eftirlitsstjórnstöð.

Laya-punktar

Hvað er nú merkilegt við þessi sex chökru umfram önnur í hinum innri líkama mannsins í þessu kraftsviði? Það er að þetta eru ekki aðeins kraftstöðvar eða chakra heldur líka laya-punktar. Og nú er komið að því sem skiptir máli í kúndalini-yoga: að skilja hvernig á að nota laya-punktana. Laya-punktarnir eru samband chakranna við súshúmna-línuna. Þar sem línan liggur úr chökrunum, línan liggur úr þeim aftur í súshúmna-línuna og tengist henni, það heitir laya-punktur og er kjarni hvers chakra fyrir sig.

Hvað er laya?

Alaya þýðir t.d. svæði eða land. En laya þýðir eitt sér í þessu sambandi uppleysing, eða það ástand sem uppleysing getur farið fram í. Uppleysing eða umbreyting. Þarna er um að ræða tvenns konar umbreytingu sem er alveg í sérstöku sambandi við laya-sentrin, fyrst og fremst umbreytingu í hverju laya-sentri fyrir sig og í öðru lagi umbreytingu í manninum sjálfum í heild, og þessir laya-punktar hjálpa til við. Í manninum er það að leiða kundalini til fulls starfs í líkamanum og í hverju chakra fyrir sig, umbreyting elementanna í líkamanum. Hér er komið eitt orð enn sem við verðum að skilja upp á nýtt. Það er vanalega þýtt hér á Vesturlöndum sem höfuðskepnur — jörð, vatn, eldur og loft — en í þessu sambandi er ekki átt við það sama. Orð sem Indverjar nota í þessu tilfelli er bhúta en það þýðir element, einhvers konar frumgerð.

Um þessi element hefur verið rætt fram og aftur af mjög litlu viti af vestrænum fræðimönnum. Elementin eru ekki efniskennd og finnast þess vegna ekki í líkamanum, þau eru kraftar. Hér er aldrei átt við annað en krafta og það er grundvallaratriði til þess að skilja þetta upp á nýtt. Allur skrokkurinn er eins og kerfi eða hönk af kröftum sem allir saman — þegar þeir eru stilltir saman og það á að gera í kúndalini-yoga — geta kallast máttur, máttur alheimsins eins og hann er birtur í hverjum einstaklingi.

Elementin

Við skulum þá taka elementin nánar fyrir. Þau eru fimm eða sex hjá Indverjum. Við mundum þýða þau: jörð, vatn, eldur, loft og akasha, það sjötta er stundum með og er hugurinn, manas. Hvað er element í þessari merkingu? Í fyrsta lagi er það ekki efni heldur kraftur. Segja má að krafturinn sem kallast elementið jörð sé mikils ráðandi í föstu efni, en hann er samt kraftur og á ekkert skylt við fast efni. Og krafturinn elementið vatn er á sama hátt mikils ráðandi í fljótandi efni. Elementið eldur ræður miklu í eldi og efnabreytingum yfirleitt. Enda sjáum við í gullgerðarlist miðalda að menn töluðu um vatn sem ekki vætti hendur og eld sem brenndi ekki.

Elementið akasha er ekki til í tungumálum okkar á Vesturlöndum en það er sá máttur eða sú máttarbirting sem er uppruni alls sem er efni. Því má líkja við filmu sem tilveran er framkölluð á. En þegar ekki er nein mynd þá er engin filma eða neitt tjald sem mynd er kastað á.

Kraftpunktar fyrir þessa krafta eru í fimm chökrum. Kraftpunktur fyrir elementið jörð í múladhara, fyrir elementið vatn í svadisthana, fyrir eld í manipura, punktur í anahata fyrir loft og kraftpunktur fyrir elementið akasha í vísúddhi. Í ajna-sentrinu sem er sjötti laya-punkturinn og sá merkilegasti, vegna þess að þar er mukta triveni — er manas, hugur. Þaðan er öllu stjórnað. Það er hann, hin starfandi vitund, sem kemur í staðinn fyrir element í ajna-sentrinu.

Þessa orkupunkta er hægt að finna í hverju sentri fyrir sig og notfæra sér. Hægt er að nálgast allan mátt sem vitund. Ef við á réttan hátt nálgumst þessa kraftpunkta sem lifandi vitund í sjálfum okkur þá getum við fengið þennan mátt með okkur — unnið með punktunum. Ef á þann hátt er komist í samband við elementið, kraftpunktinn, vatn í svadisthana þá er t.d. hægt að ganga á vatni. Ef komist er í samband við kraftpunktinn eld í manipura þá getið þið vaðið eld. Það vill svo til að hvort tveggja gera yogar. Ekki nóg með að dæmi séu um að þeir hafi gengið á vatni, heldur hafa þeir sett höndina ofan í sjóðandi vatn án þess að brenna sig. Engin dulræn fyrirbæri eru eins algeng og að vaða eld. Það er meira að segja svo að fólkið hefur jafnvel ekki hugmynd um hvernig það fer að því. En yogar hafa sína skýringu.

Ekki hefur verið rætt um umbreytinguna sem þarna á sér stað. Ef þetta væri aðeins notað eins og hér hefur verið lýst er þetta bara eins og galdur. En hér er ekki verið að tala um galdur. Sú umbreyting sem þarna er um að ræða, umbreyting elementanna í þessum punktum, er að jörð geti leyst upp í vatn, krafturinn jörð geti leyst upp í kraftinn vatn, vatn geti leyst upp í kraftinn eld, krafturinn eldur geti leyst upp í kraftinn loft og loft á sama hátt upp í akasha og akasha upp í vitund. Þetta er einn af höfuðþáttunum í þeirri iðkun sem rætt verður um.

Nú verður að biðja ykkur um að gjalda varhug við orðinu bhúta eða element vegna þess að hjá Indverjum er það einnig notað í annarri merkingu og ég get viðurkennt að ég hef ekki hugmynd um raunverulega merkingu sem þar liggur á bak við, hitt veit ég að hægt er að finna fyrir því. Þar er um að ræða þrjú element sem eru allt annars eðlis. Þau eru kölluð sól, máni og eldur og eru til í hjartalótusnum sem er ekki sama og ananhata, og þau eru líka til fyrir ofan höfuð mannsins.

Í sambandi við þetta eru til tvær tegundir af kúndalini umbreyttri mystískri reynslu — þ.e. mystískri reynslu sem hefur máttarblæ á sér — önnur er í sambandi við sól og hin við mána. Hlý, björt, glöð tilfinning er í sambandi við elementið sól í þeirri merkingu, samruni við allt. En hin, kennd við mána, er algerlega ólýsanleg tilfinning eða reynsla. Það er eins og sólskin, miklu bjartara en venjulegt sólskin en samt eins og hálfrokkið með daufum, mjúkum mánaskinsblæ. Þetta eru allt önnur element og ég nefni þau til þess að sýna að ekki er hægt að láta þau falla saman við hin fimm sem áður var um rætt.

Á súshúmna-línunni, hún er kjarninn í því sem rætt er um, eru þrír hnútar eða granthis. Ekki er nóg með að föst element, kraftar sem eru í chökrunum, hindri að verulegur kúndalinistraumur geti farið upp eftir súshúmna, heldur eru þar að auki þessir hnútar, granthi. Hnútunum er líkt við að slanga sé tekin og klipin saman þannig að streymi um hana hindrast.

Til að rétta úr þessum hnútum þarf vandasamar og lítið skýrðar iðkanir, að rétta verulega úr þeim kostar talsvert nám.

Sagt er að kúndalini búi í múladhara-stöðinni, reyndar er hún sögð vera í sambandi við allar þrjár neðstu stöðvarnar. Umbreytingastarf hennar er að fara upp í höfuðið og valda þar breytingum á heilanum og taugakerfinu, taka allan heilann í notkun eða svo til. Nú liggur í augum uppi að alltaf er einhver hræring þarna á milli — því innsti kjarni súshúmna-línunnar, sá sem er ekki-neitt — er ekkert annað en örfínt og afskaplega lítið kúndalinistreymi upp og niður, á vissum hraða.

Þetta sem ég hef verið að tala um hér, elementin, hvernig þeim er raðað á vissa punkta, hindra þetta streymi, og sömuleiðis hnútarnir. Þetta eru ekki það mikil samgönguvandræði að ekki sé nein hræring á milli, hún er alltaf einhver og er alltaf heitur, dýnamískur kraftur sem fer upp en alltaf svalur, mildur kraftur sem fer niður.

Þá er útrætt í bili um chakra eða hjólin og nú skulum við gera okkur grein fyrir að hin chökrun eru allt annars eðlis, vegna þess að þau eru ekki í þráðbeinu sambandi við súshúmna. Þau eru fyrst og fremst kraftmiðstöðvar einhvers konar, hingað og þangað um innri gerð mannsins. Af öllum þessum minni háttar chökrum er aðeins eitt sem skiptir máli í sambandi við kúndalini-iðkun; það er eitt af þessum þremur leyndu chökrum sem ekki er minnst mikið á. Tvö eru yfirleitt aldrei nefnd fyrr en menn eru farnir að iðka kúndalini-yoga en eitt þeirra má nefna, það er í höfuðkúpunni rétt fyrir ofan kokið. Oft er talað um úfinn og hann sagður nálgast þann punkt sem er miðdepill í þessu chakra, sem kallað er lalana-chakra eða lambigraga-chakra. Um það verður fjallað þegar minnst verður á hvað kúndalini-yogar gera, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um það.

Að nálgast máttinn

Þá skulum við snúa okkur að kúndalini og vitundinni. Hvað er kúndalini? Indverjar segja, og yogarnir halda því stíft fram, að vitund sé máttur og máttur sé vitund. Hinn endinn á þessu fyrirbæri sem við köllum vitund er alltaf máttur. Hvar sem þið finnið mátt eða kraft í tilverunni, í ykkur sjálfum, þá er það aðeins annar endinn á því fyrirbæri — hinn endinn er alltaf vitund. Til þess að ráða við máttinn er kúnstin sú að nálgast hann sem vitund, sem allt að því lifandi veru. Hér er komin ástæða hins mikla fjölda af alls konar verum í indverskri goðsagnafræði. Hinum óskaplega fjölda af gyðjum; þetta eru ekkert annað en nöfn á vitundarpólunum sem samsvara einhverjum kröftum. Vitundarpól kraftsins er gefið nafn. Þetta skiptir máli. Ekki er hægt að stunda kúndalini-yoga nema þetta sé manni upplifuð staðreynd. Einnig er erfitt að stunda laya-yoga nema svo sé.

Hvað er þá kúndalinimátturinn? Hann er ekkert annað en máttarpóllinn á móti þinni persónulegu vitund. Hann er hinn endinn á þér sjálfum sem persónulegri vitund. Finndu vitund þína, gerðu hugann hljóðan, finndu það að vera til — þetta er vitundarpóllinn í þér, máttarendinn er kúndalini. Með öðrum orðum er þarna kominn möguleiki til að tala við hina skapheitu fröken kúndalini. Hindúar gera þetta allt saman að persónum af því það var miklu þægilegra, það var engin önnur aðferð til fyrir 2000 eða 2500 árum. En ef við viljum vera nútímalegri getum við hugsað okkur að hvers konar máttur er líka til í okkur og við getum nálgast hann með hugsun, vitund okkar. Ekki á að nálgast máttinn eins og dauða vél — það er þá sem skaðinn skeður — heldur eins og lifandi fyrirbæri. Þannig er hægt að finna allan mátt í alheiminum í eigin líkama, þess vegna er staðhæft að líkami mannsins sé alheimurinn. Allt í alheiminum er í líkama mannsins og allt í líkama mannsins er í alheiminum. Ef kynnast skal mættinum verður að nálgast hann með kærleika, tærleika og hreinum huga. Án þessarar afstöðu er engin leið að stunda kúndalini-yoga.

Vitundarpóllinn er ævinlega hafður karlkyns en máttarpóllinn kvenkyns.

Aðferðin

Nú skal ykkur bent á hvernig þetta er gert. Hvernig maður nálgast mátt.

Það er gert í mantra-iðkun, öll slík iðkun er það að nálgast mátt. Og hverja möntru þarf að fara með ótal sinnum til þess að mega fara með þá næstu, og til þess að þær verki. Ástæðan er sljóleiki okkar fyrir þessum mætti sem vaknar og kemur á móti okkur þegar við förum með möntruna. Við erum lengi að þekkja máttinn.

Þegar við förum með venjulega, einfalda möntru þá er allt í einu, áður en við vitum af, komið það ástand að mantran er farin að ganga sjálf. Þá er hægt að gera hvað sem er og hún heldur áfram, stöðugt og ákveðið. Svo uppgötvast allt í einu að það er engin mantra. Eitthvað sem mantran setti í gang er komið af stað. Ætli það hafi aldrei gengið áður? Jú, en þú tókst ekki eftir því fyrr. Þegar þú tekur eftir mættinum margfaldast hann mörg hundruð þúsund sinnum. Vitundarpóllinn sameinast máttarpólnum. Þannig finnst máttarpóllinn smátt og smátt með vitundinni.

Lengi framan af er hvers konar mantra- og máttar-iðkun til þess að vekja tilfinninguna fyrir þessum mætti.

Til þess að vekja hvers konar mátt og fá hann til liðs við sig þarf hreinsun. Hið fyrsta sem þarf að gera er að hreinsa okkur sjálf. Þessi hreinsun nefnist bhuta-suddhí og felst í því að hreinsa elementin sem fyrr var minnst á. Það er sérstök iðkun sem er leynileg. Þar næst kemur það sem kallast laya-yoga.

Laya-yoga er að umbreyta elementunum í laya-punktunum. Jörð er umbreytt í vatn og þar með er komið samband frá múladhara upp í svadisthana. Vatni er umbreytt í eld, þá er komið samband upp í manipúraka og eldi í loft og loft í akasha og akasha í irrur sem er vitund.

Þetta er laya-yoga.

Iðkunin er þannig að hvert elementið af öðru er fundið, þú finnur þennan kraft. Ekki er hægt að útskýra hann, það hefur enga þýðingu að skýra hann.

Nú er best að gera sér grein fyrir að við erum þannig gerð að mystísk upplifun og kúndalini-fyrirbæri eru sitt hvað, en þetta kemur hvað öðru við. Ef við höfum mystíska upplifun án kúndalini, án þess að nokkurt máttarelement sé í því, þá er það bara glampi. Þið þekkið þetta, við höfum oft talað um mystíska upplifun. Þetta eru yndislegustu stundir sem koma yfir mann, vegna þess að ekkert er til sem er misræmiseðlis í þeirri upplifun. Það er þessi eini hreini tónn. En það er bara snöggvast, svo er það búið. Ef við höfum hins vegar kúndalini-fyrirbæri án mystískrar upplifunar þá heita það dulrænir hæfileikar.

Allt er þetta spurning um eldskarpa, vakandi vitund, hún verður kannski nokkrar sekúndur nógu skörp til þess að menn viti hvað er að gerast. Svo er maður því miður hrokkinn niður í þetta mók aftur, þetta sem við köllum daglega vöku.

Áður en hægt er að iðka kúndalini-yoga af einhverju viti er farið gegnum þrjú stig:

Fyrsta stigið er dharana — dhyana; ótruflað hugarástand og hljóður hugur, hvort tveggja. Þú verður að geta verið hljóður hugur, annars er ekkert hægt að gera á máttarleiðinni. En ekki er þar með sagt að þú þurfir að vera hljóður hugur allan sólarhringinn, bara dálitla stund, meðan þetta er iðkað. Næst er það bhuta — súddhí eða hreinsun.

Þriðja stigið er laya-yoga, að undirbúa þá krafta sem kallast element og allur maðurinn er meira eða minna ofinn saman úr.

Þegar þessu er lokið þá er hægt að hefja máttariðkun sem um munar.


2. hluti

ÞESSIR HLUTAR eru byggðir á þrennum heimildum. Í fyrsta lagi rannsóknir Kúndalini-áhugamanna á Vesturlöndum síðustu árin. Í öðru lagi almenn kúndalini-fræði frá Indlandi og í þriðja lagi leiðbeiningar sem ég hef fengið hjá Kúndalini-yogum á Indlandi. Flest af því sem ég segi hér eru viðurkennd kúndalini-fræði en vissir punktar sem ég verð með, þó aðallega í öðrum erindum, eru svolítið sérstakir.

Síðast var fjallað um innri gerð mannsins með tilliti til kúndalinimáttarins eins og honum er lýst í dulrænum fræðum Indlands, en ég átti eftir að ræða betur um viss atriði. Mig langar til að segja svolítið meira um chökrun eða orkustöðvarnar, vegna þess að viss atriði um þær komu ekki fram síðast.

Gerum okkur grein fyrir að orkustöð er í rauninni tvenns konar. Nokkrir tugir í innri gerð mannsins er það sem kalla má orkustöðvar en af þessum tugum eru sex sem eru alveg sérstakrar gerðar og kallast líka laya-punktar. En sameiginlegt er öllum orkustöðvum að þær eru knippi af kröftum og það meira segja mjög margs konar kröftum og ef við gerum okkur ekki grein fyrir þessu er eins víst að maður missi af aðalatriðinu. Þessum kröftum hefur verið líkt við blöð í lótus eða blöð í blómi og þess vegna er talað um að það séu svo eða svo mörg blöð í hverri. Þar að auki eru þær stundum kallaðar lótusar eða pama.

Hinar margþættu orkustöðvar

Eitt er það sem stórkostlega hefur ruglað vestræna menn sem hafa kynnt sér þessi fræði almennt á Indlandi, en það er að á teikningum sem Indverjar eiga og sýna mönnum af innri gerð mannsins, sérstaklega orkustöðvunum, þá er settur sanskrítar bókstafur á hvert blað. Til að mynda á hinum sextán laufblöðum visúddhi-chakra eru hinir sextán sérhljóðar sanskrítarstafrófsins. Nú liggur í augum uppi að þarna standa ekki bókstafirnir, fjarri því. Meira að segja ef þið sjáið orkustöð þá er þarna ekki um að ræða nein blöð. Þau eru aðeins sett þarna af táknrænum ástæðum. Um er að ræða að ef til að mynda eru sextán blöð í visúddhi-chakra og tvö í ajna-chakra og tólf í anahata o.s.frv. þá er ástæðan fyrir því sú, að þarna er um að ræða þetta marga aðgreinanlega krafta af sérstakri gerð. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir þessu.

Til hvers eru þá bókstafirnir settir á blöðin? Vegna þess að þá, hljóðið sem þeir merkja, má nota, ekki er rétt að segja sé, heldur má nota sem kallmerki fyrir þann kraft.

Við getum nálgast hvern kraft fyrir sig með því að segja þetta hljóð í huganum. Ekki er þar með sagt að þessi blaðaskipting samsvari algerlega sanskrítarstafrófinu, en hægt er að komast í samband við kraftinn með því að bera fram þetta hljóð í huganum og hugsa um leið um þennan stað og tilheyrandi kraft.

Í fyrstu greininni var sagt hvernig hægt er að komast í snertingu við mátt. Mátt í sjálfum sér. Sjálfsagt er að fara yfir það aftur.

Allir kraftar eru um leið vitund, allur máttur er um leið vitund. Hver orkustöð er lifandi vera. Þið skuluð láta þessi orð liggja milli hluta í bili. Hver orkustöð er lifandi vitund og um leið knippi af verum, knippi af vitund í sérstöku ásigkomulagi og þú, einstaklingurinn, ert líka knippi af vitundarverum. Þú ert ekki bara þú.

Setjið nú stórt spurningarmerki við það sem ég er að segja. Hafið það þangað til þið eruð búin að finna þetta sjálf, þar til þið finnið að þið eruð miklu meira en einhver einn einstaklingur.

Ekki er hægt að ná sambandi við þá krafta sem búa í hverri orkustöð nema gera sér grein fyrir að þær eru lifandi, það þarf að nálgast þær sem vitund, það þarf að tala við þær. Hver maður er krossgötur allra alheimslegra afla. Hvert einasta afl í alheiminum mætist eða krossast einhvers staðar með einhverjum hætti í þér. Enda má yfirfæra skilninginn á manninum algerlega yfir á alheiminn.

Maðurinn er því lifandi, alheimsleg heild og hver vitund, þar á meðal þín persónulega vitund, er afl. Og hvert afl er líka vitund. Hægt er að nálgast þetta afl í orkustöðvunum sem heild, þá krafta sem við köllum blöðin í orkustöðinni og mörg önnur fyrirbæri sem eru í sömu orkustöð, í hverri einustu eru mörg máttarfyrirbæri.

Að ná sambandi við öflin

Til þess að ná sambandi við þessi öfl verður að taka mantra-lögmálið í notkun. Hvernig er það? Þá skiljið þið að ekki skiptir máli að hljóðið sem bókstafurinn gefur, sé ekki nákvæmlega eins og víbrasjónin í þessum mætti. Hljóðið þarf ekki endilega að vera eins, það er eins og milliliður eða sendibréf til þess máttar. Þú ert lifandi, að öðru leyti máttur, að hinu leytinu vitund og svo er með önnur fyrirbæri. Mantra-lögmálið er það að þú beinir athyglinni að þeim punkti sem þú þarft að ná sambandi við, þú finnur ekki punktinn vegna þess að þú ert að byrja og ert sljór, og þú notar til þess annaðhvort hljóð eða mynd, vanalega hljóð (sérstakt bitsjam), því er beint að þessum punkti. Og ævinlega þegar þú hugsar um þennan punkt þá segirðu þetta orð. Til að mynda getur þú sagt klím.

Síðar kemur að því að þessi máttur finnst um leið og sagt er klím og upplifunin heldur áfram gegnum bítsjamið. Áður en varir er svo komið að hægt er að sleppa bítsjaminu algerlega og þá finnurðu máttinn sjálfan milliliðalaust. Á þennan hátt er hægt að komast í samband við hvern einasta kraft sem býr í orkustöðvunum. Með því að mæta honum á hans velli, taka hann eins og hann er; lifandi vera og jafningi þinn.

Á sama hátt er hægt að nota mynd, þú getur lært að gera þér skýra mynd í huganum af þessu sem um er að ræða. Þessi mynd er ekki þarna í þér. Ef skyggn maður sem sæi hlutina eins og þeir eru, horfði á þetta þá mundi hann ekki sjá þessa mynd. Hún er notuð sem milliliður milli vitundar þinnar og þess máttar sem ætlunin er að komast í samband við. Myndin er notuð til þess að finna máttinn. Þegar hann er orðinn nógu vel vakandi fyrir þér þá geturðu sleppt myndinni, þá hættir hún að skipta máli. Mátturinn sem tilheyrir hefur vaknað. Það sem þá hefur gerst er að þú hefur fundið vitund um máttinn sem ekki var áður.

Þetta afl — og nú er komið að kúndalini — er hinn endinn, máttarendinn á þinni eigin persónulegu vitund. Þar með er ljóst að kúndalini er í raun vitund, ekki bara máttur. Kúndalini verður ekki giftusamlega vakin nema í góðu samkomulagi við hina kraftana sem búa í líkamanum. Þess vegna er ég að tala um orkustöðvarnar og alla mögulega krafta sem í þeim búa. Gera þarf samkomulag og þetta er líking, við alla þá krafta sem verða á kúndalini-veginum allt frá múladhara og upp úr. Allar þessar hugleiðingar, hreinsunarhugleiðingar og laya-yoga iðkanir, allar verður að nota skynsamlega áður en kúndalini-iðkun hefst. Ef eitthvað fer vitlaust á þeirri leið hefur skort samkomulag og eðlilega tilhliðrunarsemi í iðkuninni.

Hvað er máttur?

Nú ætla ég að varpa fram spurningu. Er sprenging máttur, t.d. kjarnorkusprenging, er hún máttur? Nei, ef nokkuð er þá er hún veikleiki. Þessu þarf fólk að átta sig á áður en það ætlar að átta sig á kúndalini. Sprenging er bardagi milli afla, árekstur, alveg þveröfugt við eðli kúndalini. Máttur er aftur á móti þegar ísmolinn bráðnar í sólskininu. Ísmolinn slæst ekki við sólina, enda mundi það ekki þýða neitt. Aðeins eitt í veröldinni er óbrigðult, það er máttur. Og sá máttur þarf ekki slagsmál. Það sem á að verða og þessi máttur vill, það verður. Það eru hinir veikustu sem berjast, þeir sterkustu þurfa ekki að slást. Þetta verður að skiljast áður en kúndalini er hugleidd. Gagnvart kúndalini eru tveir möguleikar. Annars vegar að gera ekki neitt og hins vegar að greiða veginn.

Að læra að þekkja kúndalini

Í þessum fræðum er okkur sagt að kúndalini muni vakna og þá er ekki um neitt annað að ræða, eins og hjá manni sem er fleygt í sjóinn, á meðan hann hefur tíma til reynir hann að læra að synda. Ekkert er annað að gera en að læra að meðhöndla þennan mátt í sjálfum sér.

Fyrsta aðalatriðið er að finna, upplifa og verða var við kúndalini óvirka. Þekkja hana óvirka. Það er hægt í hljóðum huga. Um leið og maður hefur komist í það sálarástand.

Lýsa má hljóðum huga svo að hann sé vitund vitundarinnar um sjálfa sig. En þetta orðatiltæki lýsir aðeins hluta þess sem það er. Eitt af fyrirbærum vitundarinnar er einmitt kúndalini. Hún birtist sem tilhneiging, möguleiki í vitundinni. Hún er ekki spenna. Hún er alveg þveröfugt við þennan rembing sem við flest höldum að þurfi.

Þessu má líkja við möguleikann að standa á fætur. Ef þið sitjið hafið þið öll (flest) þann möguleika að standa á fætur en þið þurfið ekki á því að halda að reigja ykkur og teygja til þess að sannfærast um það. Hugsið ykkur kött sem liggur alveg máttlaus þar til fluga flögrar hjá. Þá eldsnöggt grípur hann fluguna. Slík tilfinning í vitundinni er kúndalini og hún sést aldrei. Máttur sést aldrei frekar en vitundin, það sem sést eru verkanir, áhrif kúndalini.

Besta líking af kúndalini óvirkri er af stöðuvatni. Ekkert er eins kyrrt og stöðuvatn í logni og vatnið sækir í lægstu staðina, fyllir lægðirnar eins og þið vitið. En í þessu vatni er bundinn óstjórnlegur máttur sem getur komið í ljós ef rétt framrás er veitt.

En málið er ekki alveg svona einfalt. Þegar þetta er athugað betur kemur í ljós að kúndalini er ævinlega á hreyfingu, einhver öldugangur sem fer upp í gegnum allar orkustöðvarnar neðan frá, alltaf fram og til baka. Þetta er eins og hjartsláttur. Mér hefur ekki tekist að fá úr því skorið, hve hraður hann er. En hann er víst mjög hraður.

Auk þessa eru engir tveir menn eins þannig að öll þessi fræði eru í raun undartekningar frá reglu, frekar en reglur. Samt leyfist mér að skipta tilfellunum í þrennt.

Fyrst skal telja menn með lausa kúndalini, menn með fasta kúndalini og í þriðja lagi menn með auðvakta kúndalini. Þetta samsvarar nokkurn veginn gúnunum indversku þ.e. raja, tamas og sattva. Fólk sem hefur mikið rajas eðli í sér má búast við að hafa frekar laust kúndalini. Menn sem eru með fasta kúndalini eru gjarnan tamasiskt fólk og þessir með auðvakta kúndalini, kannski eitthvað lítils háttar vart við hana, eru sattvískt fólk eða sattva samkvæmt skilgreiningu þeirra á Indlandi.

Nú skal þetta þrennt tekið fyrir og nánar um lausa kúndalini og örfá orð um fasta kúndalini. Næsta grein verður að mestu leyti um kúndalini-yoga og menn með auðvakta kúndalini.

Laus kúndalini

Ef kúndalini er laus þá verður hennar vart hingað og þangað um líkamann. Og nú mega menn ekki — þótt þeir hafi fundið kúndalini fyrirbæri, því flestir hafa fundið eitthvað — halda að hér sé endilega rætt um þau fyrirbæri. Ég er að tala um kúndalini lausa og að einhverju leyti óviðráðanlega.

Laus kúndalini getur ýmist verið stundum eða alltaf og allt þar á milli. Hér ætla ég að nefna nokkur einkenni.

Það sem kalla má almenn einkenni er að finna eitthvað fara upp bakið og upp úr höfðinu.

Þetta getur gerst oft eða sjaldan, menn geta orðið svolítið vankaðir og jafnvel rotast og verið í yfirliði litla stund. Annað er að nokkurn veginn jafn straumur finnst upp eftir bakinu, frá neðri stöðvunum þremur. Að það sé talsvert mikill hiti neðst í bakinu sem breiðist eins og út ofan við mjaðmirnar og dálítið upp eftir hryggnum. Stundum er þetta bara eins og heitur blettur neðan til í hryggnum. Með þessum almennu fyrirbærum má telja ýmsar tegundir af höfuðverkjum, ég er ekki að segja að allur höfuðverkur stafi af þessu, mígreni segja nútíma rannsóknarmenn á þessu sviði, stendur hiklaust í sambandi við kúndalini og einnig stálbands-höfuðverkurinn sem tilheyrir víst mígreni. Aðrir segja að þeir stafi af því að æðakerfið í höfðinu þrengist eða sé mislétt. En mér er sagt að það sé eitt einkenna kúndalini-fyrirbæra að hafa áhrif á æðakerfið í höfðinu. Suða fyrir eyrum er eitt enn, og algengur er bjölluhljómur, ennfremur drunur inni í höfðinu og stundum titringur.

Þá eru fyrirbæri sem eru víðar um líkamann. Þar er um að ræða fiðring í fótum, eins og eitthvað vilji ryðjast upp fæturna og eins konar streymi í höndum og fótum. Hér er ég að endurtaka það sem mér hefur verið sagt. Sumir finna þenslutilfinningu yfir allan líkamann eða hitatilfinningu yfir allan líkamann, svo mikla að hún getur valdið ótta. Og einnig getur verið um að ræða tilfinningu um hita eða kulda til skiptis. Þá er eitt einkennanna tilefnislaus sæla, allt í einu líður manni svo vel og kannski tilefnislaus leiði eða vansæla. Svo má nefna ýmis sérstök fyrirbæri í tengslum við höfuð, þaðan sem þessi fyrirbæri stafa yfirleitt frá, flest eru talin mjög jákvæð.

Af þeim má nefna eins konar eldglæringar framan við ennið, ljóspunktur sem teygir sig langt út frá enninu. En besta einkennið er talið glampi framan við ennið, eins konar ljós, stórt eða lítið. Það er eitt af fyrstu einkennunum sem koma þegar kúndalini-yoga er iðkað. Og annað sem stundum hefur valdið miklum ótta, þótt mér sé sagt að ekki þurfi að hræðast það; eins og eitthvað leki inni í höfðinu, líkt og heitir dropar leki niður inni í höfðinu. Mjög erfitt er í rauninni að segja af hverju þessi fyrirbæri stafa. Tveim mönnum fannst eins og innihald höfuðsins yrði lýsandi. Stundarlömun tungunnar er eitt enn nokkuð algengt af þessum fyrirbærum. Jafnvel að andlitsvöðvarnir stirðni eða lamist um stund.

Dulrænir hæfileikar

Þá kemur að þeim fyrirbærum sem kölluð eru dulrænir hæfileikar, skyggni og annað sem oft kemur í ljós samtímis, standa stundum stutt yfir en stundum viðvarandi. Þegar slíkum hæfileikum slær ofan í óþjálfaðan huga þá breytast þeir yfirleitt í ofskynjanir og afleiðingin verður sú að menn sjá að nokkru leyti það sem þeir sjálfir hugsa, það sem þeir óttast, langar til, vegna þess að þetta er bæði meðvitað og ómeðvitað — sífellt á flakki um vitund þeirra. Þegar svo er sjá skyggnir menn einmitt það sem þeir ímynda sér um fólk. Menn geta séð það sem þeir óttast að aðrir hugsi.

Slíkar truflanir koma fram þegar menn geta ekki öðru hvoru skipt yfir í hljóðan huga.

Þess vegna er ekki þorandi að gera neinar verulegar tilraunir með máttaræfingar nema hafa fyrst iðkað hugleiðslu að því marki að maður geti verið að minnsta kosti stutta stund hljóður hugur.

Þegar ekki er um að ræða þjálfaðan huga og kúndalini er laus, geta þessar ofskynjanir verið mjög alvarlegar. Þegar ég var lítill drengur hlustaði ég á lýsingu manns sem hafði upplifað svona hluti eftir eitthvert hugrænt kukl. Honum fannst að margar verur hefðu tekið sér búsetu í skrokk sínum.

Manninum fannst þetta og stundum rifust þessar verur. Þetta kvalræði mannsins stóð yfir í mörg ár. Þetta lítur út eins og geðveiki en þetta eru hugræn fyrirbæri sem koma fram á röngum stað og maðurinn gat ekki skoðað á sama hátt og við skoðum þetta venjulega hugarreik okkar.

Ómeðvituð svið í huganum geta opnast, svið sem við höfum ekki reynslu af og getum þess vegna ekki áttað okkur á. Þegar þessi óþægilegu fyrirbæri koma hefur kúndalini-mátturinn farið út um allt kerfið og sett þar eitthvað úr skorðum, þannig að nauðsynlegt er að grípa í taumana.

En flest af þessu er skaðlaust með öllu og allt skaðlaust ef menn geta komið sér yfir í hljóðan huga. Sálræn fyrirbæri eru yfirleitt öll hættulaus ef hægt er að vera hljóður hugur að vild. Og þrátt fyrir það þá er þetta flest allt ekkert nema einkennin, eins og sjúkdómseinkenni en enginn sjúkdómur. Ofskynjanir eru ekki varasamar í sjálfu sér, heldur geta þær leitt yfir í sjúklegt hugarástand.

Hvernig á að ráða við lausa kúndalini?

Hver er aðferðin við að vinna gegn lausri kúndalini sem ekki ræðst við?

Hún er alltaf sú sama, það verður að iðka hugleiðingu. Það verður að búa til segulrás upp eftir bakinu frá sólar plexus upp í vísuddí þaðan fram í lalana eða lambíchakra sem er inni í höfðinu aftan við úfinn, þetta er lítill punktur. Þaðan upp í punktinn milli augnabrúnanna.

Það sem þá gerist er að maður finnur fyrir ljósglampa í enni. Annað er varla um að ræða. Að ætla sér að loka kúndalini inni eftir að hún er farin að bæra á sér er eins og að setjast á púðurtunnu með logandi ljós í hendi.

Yfirleitt er það svo að öll fyrirbæri framan til í höfðinu eru góð og auðvelt að ná stjórn á þeim.

Máttugasti kúndalini-yogi sem ég hef þekkt, átti stundum erfitt með að heyra hvað sagt var við hann vegna þess hvað voru miklar drunur í öðru eyra hans. Oft er samfara slíkum fyrirbærum, þ.e. þeim sem eru framan til í höfði, ávæningur af mystískri reynslu og þetta sem ég hef kallað dropa af sælu út um allan líkamann sem kannski kemur allt í einu og er alveg ólýsanleg.

Þar sem um er að ræða fasta kúndalini hjá fólki er afskaplega mikil vöntun á sálrænu næmi. Slíkt fólk er vanalega geysilega efnishyggjusinnað og þröngsýnt í trúmálum. Þá er lítið samband milli hinnar persónulegu vitundar og máttarpólsins í þeirri vitund. Stundum er þó hugsanlegt þar sem um lítið næmi er að ræða, að skemmdir hafi komið fram í sjálfu kerfinu en ég ræði það ekki nánar í þessum hluta.


3. hluti

NÚ VERÐUR rætt um auðvakta kúndalini og kúndalini æfingar. Þegar að þessari iðkun er komið sést að hún er nauðaeinföld og ekki vandasöm. Þó flest sem að iðkuninni stefnir sé erfitt þá er sjálf iðkunin það ekki.

Í því sem hér verður sagt, verður að sleppa öllum beinum upplýsingum um iðkun, vegna þess að ég veit ekki til að þetta form af laya- og kúndalini-yoga sem ég ætla að tala um, hafi nokkurs staðar verið gefið upp nema þeim sem ætla að iðka. Staðreyndin er sú að þetta er ekki leynileg iðkun; það er leyfilegt að gefa þetta hér um bil hverjum sæmilegum manni sem áhuga hefur á yoga og vill iðka það. En sá sem gefur og hinn sem þiggur taka á sig mikla ábyrgð, því um er að ræða ótrúlega mikla krafta og mikla tækni til þess að nota þá.

Einnig verður minnst á aðra tegund yoga sem ekki er sérstaklega kúndalini-yoga. Það er allt annað og algerlega leynilegt.

Gerið ykkur grein fyrir að þó að allt sem ég segi hér sé úr mjög djúpum yoga-fræðum og eftir áreiðanlegum og fornum yoga-skóla á Indlandi, þá er ekkert af þessu tilheyrandi hinu svo kallaða handanvið-yoga. Þetta er allt almenn yoga-fræðsla en samt samkvæmt fornri og áreiðanlegri hefð sem ekki hefur farið víða. Skýringarnar og viðhorfin eru samkvæmt því.

Fyrst gerum við okkur grein fyrir að það sem ég kallaði auðvakin kúndalini-tilfelli eru þau þar sem fólk verður ekkert vart við kúndalini-fyrirbæri, nema eftir að farið er að æfa einhvers konar hugleiðingu. Ekki er nauðsyn að æfa kúndalini-iðkun til að þessi fyrirbæri fari að láta bera á sér. Ef til vill er auðvelt með venjulegri hugleiðingu að verða var við einhver slík fyrirbæri, algerlega án allrar hugrænnar tækni. Kannski kemur í ljós hjá sumum sem eru mjög upplagðir, að venjuleg hugræktariðkun leiðir í ljós ákveðna punkta og jafnvel ákveðna krafta í innri gerð mannsins sem viðkomandi hafði aldrei tekið eftir.

Sannast að segja þá eru ákveðnir fyrirboðar sem hægt er að taka mark á um það hverjum sé auðvelt að stunda þessa iðkun.

Fyrst og fremst er það sterk tilfinning fyrir sumum laya-punktunum eða orkustöðvunum og einkum í miðju brjósti, jafnvel aftur í miðjan hrygg. Ef þessi tilfinning er algeng í venjulegri hugleiðingu þá má gera ráð fyrir að viðkomandi eigi auðvelt með að notfæra sér skynsamlega kúndalini-tækni.

Þessu fylgir iðulega, annað hvort eitt sér eða samtímis, furðulega lúmsk vellíðan sem eiginlega fer yfir allan líkamann. Hún situr iðulega í herðunum ef hún er nokkurs staðar en hún getur líka komið fram í brjóstið eða brjóstkassa. Ef slíkur maður heldur áfram að iðka bara venjulega hugleiðingu, kannski góða og stöðugt, nokkuð lengi á hverjum degi (hálfan tíma á dag eða meira), þá geta þessi fyrirbæri eins og lent í ákveðnu fari. Þannig að þegar þetta er komið af stað má gera ráð fyrir að maðurinn verði var við þau. Hann getur farið að rækta þessi fyrirbæri með venjulegri hugleiðingu. Mér skilst að fyrr eða síðar verði þetta þá oft töluvert áberandi kúndalini-fyrirbæri, án þess að nokkur hætta sé á ferðum. Þó getur hann misst kraftinn annað slagið yfir höfuðið og það þykir ekki gott í þessum skóla. Það er alls ekki sú leið sem kúndalini á að fara gegnum innri gerð mannsins.

Undirbúa þarf manninn sjálfan

Áður en farið er að tala um sjálfa iðkunina, þá verður að gera sér grein fyrir ákveðinni foriðkun sem í þessum skóla þykir alveg sjálfsagður hlutur. Ekki vegna þess að þá sé beinlínis verið að undirbúa máttar-iðkanir, miklu frekar er verið að undirbúa manninn sem ætlar að stunda þessar máttar-iðkanir.

Gerum okkur nú grein fyrir sérstakri uppsetningu þessara mála sem ég held að sé ekki algeng nema í þessum skóla. Innri gerð mannsins samkvæmt þessum fræðum, felur í sér tvenns konar starfsemi í ýmsum hlutum hennar. Þó innri gerðin sé öll „kraft-miðstöð“ þá eru sumir kraftar orkumeiri en aðrir. Máttar-fyrirbærin setjast aðallega að í innri gerð mannsins, þeim svæðum sem maðurinn hefur minnsta vitund um og á erfiðast með að finna hversdagslega. Hins vegar á hann auðveldast með að finna þá hluta þar sem venjulegt vitundar- og skynjanalíf hefur aðsetur.

Skynjanir okkar eru afskaplega litlar og lélegar. Við erum eiginlega blindir kettlingar í tilverunni miðað við það sem við gætum verið með tiltölulega lítilli iðkun. Þess vegna telja þessir yogar nauðsynlegt að vekja vissa punkta hins innri líkama, þannig að maðurinn hafi meðvitund um þá, áður en byrjað er á nokkrum kraft-iðkunum. Þetta er ekki nauðsynlegt þeirra vegna heldur nauðsynleg fótfesta í sjálfu sér fyrir þann sem iðkar. Hann verður að vita af fyrirbærum sem hann finnur greinilega en hafði ekki áður fundið. Þetta þarf að vera ljóst áður en hann fer að snerta á hinu sem þarf nákvæma tækni og hárfín viðbrögð við, ef ekki á að fara út um þúfur.

Þessi grunnfyrirbæri sem maðurinn þarf að þekkja og hafa vakið — fengið vitund um í innri gerðinni — eru aðallega þrjú. Þetta þarf allt að gerast eftir að maðurinn kann að vera hljóður hugur. Hann þarf að hafa á valdi sínu að vera ekki aðeins ótruflanleiki (darana), heldur líka handanviðleiki eða hljóður hugur að minnsta kosti stundum.

Punktarnir sem þarf að þekkja

Þessir punktar sem um er að ræða eru: Hridimja-padma, hjartalótusinn sem er framan á brjóstinu og er ekki í beinum tengslum við anahata, heldur við manipuraka, svo kallaða sólarplexus-stöð. Með þessa orkustöð er hægt að fara eins og vill. Þarna er ekki um að ræða krafta sem hægt er að misnota. Þetta er miklu nær vitundarlífinu sem slíku, heldur en máttarmöguleikunum.

Annar punktur sem nauðsynlegt er að hafa vitund um, en er svolítið ægilegri ef maður verður skyndilega var við hann, er sídkala-hjólið sem er kringla með sextán geislum og er beint fram af miðju enni. Og punktur milli augnabrúna sem heitir soman chakra, sumir kalla þriðja augað, er miðdepillinn í þessu hjóli. Það er geigvænlega sterkt og voldugt skynfæri sem maðurinn hefur ekki komist upp á lag með að nota.

Þriðja atriðið sem nauðsynlegt er að hafa sterka vitund um, áður en byrjað er á þessum iðkunum, er rúmið fyrir ofan höfuðið. Það er eiginlega ekki neitt. Þegar maður fer að athuga þetta og iðka, þá verður maður var við eitthvað sérstakt ekki-neitt fyrir ofan höfuðið, yfir framanverðu höfðinu. Ég kalla þetta rými, vegna þess ég veit ekki enn hvað er í þessu rými.

Hið fjórða sem bráðnauðsynlegt er að þekkja er lalana-chakra. Það er tiltölulega lítið en mikilsvert og er nálægt úfnum inni í höfðinu. Þetta er punktur sem er yfir munninum innan verðum og það er spenna í því chakra sem veldur því að yogar fá hálsveiki og sumir hafa dáið af því, til dæmis Ramakrisna. Stóru orkustöðvarnar eru ekki sex eins og sýnt er í bókum, þær eru níu. Tvær, fyrir utan lalana-chakra, eru algerlega leynilegar þar til farið er að iðka þetta. Um þær má ekkert segja, hvorki hvar þær eru né hvað hægt er að gera með þær. En þær eru ekki laya-punktar. Laya-punktarnir eru sex.

Á hverju byrjar sjálf kúndalini-iðkunin?

Hjá manni með auðvakta kúndalini er hægt að byrja á því sem heitir bhutasuddhí og er hreinsun elementanna. Það er sérstök tegund af hugleiðingu sem mörgum finnst vitlaus og leiðinleg. Þessi forhugleiðing fastsetur vissan hrynjandi, samræmdan hrynjandi í manninum öllum. Þessi hrynjandi hreinsar innri líkamann gersamlega.

Hvað er það sem þarf að hreinsa? Hvað er til dæmis óhreint við óhreina hugsun? Hvað er óhreint við vont verk? Hvað er óhreint ef maður fer að skoða þessa innri starfsemi mannsins?

Óhreinar hugsanir eru yfirleitt skortur á einingar-tilfinningu, misskilin löngun, löngunin er í sjálfu sér alveg hrein, maður bara gerist þræll hennar. Ég hef kallað það neyðaróp vitundar sem þjáist af sljóleika, vegna þess að ef vitundin er nógu skýr þá hefur löngunin mann aldrei á valdi sínu. En óhreint, eins og það kemur fyrir í innri líkamanum, er grófar og ruglingslegar sveiflur. Þar sem slíkt á sér stað í kerfinu, þar sækja að lágar verur, jafnvel þótt þær komist ekki inn í þig þá hanga þær utan á þér. Það segulafl sem þær dragast að er þarna fyrir innan. Slíkar sveiflur taka til sín það sem við köllum gróft efni. Þessu fylgir nokkuð örugglega vond lykt. Setja þarf nýjan hrynjandi inn í allt kerfið, hrynjandi sem er samræmdur og tekur allar þessar ruglingslegu sveiflur og hristir þær burt. Þessu má líkja við að köttur hristi af sér vatn. Þessi iðkun tekur ekki langan tíma, en er árangursrík ef rétt er að henni farið og af mikilli dýpt.

Þegar þessu er lokið þá kemur að því sem heitir laya-yoga. Hægt er að nota það sem sjálfstætt yoga, en í þessu tilfelli sem ég er að tala um, er það ekki það sama og kallað er laya-yoga á Indlandi. Þetta sem hér er um að ræða er foriðkun fyrir kúndalini-yoga samkvæmt natha-skólanum og einnig samkvæmt hinum svokölluðu tantrisku-braminum á Suður-Indlandi. Þessir tveir elstu hópar hafa notað Sri Vidya-hugleiðingar.

Opna skal leið fyrir kraftbirtingu

Laya-yoga er feiknalega vandasöm iðkun og krefst mikils. Hún er uppleysing elementanna að viðbættri vitund um geysilega flókna krafta í manninum. Í þessari iðkun veitir ekki af að vera skýr, hafa hljóðan huga og skarpa athygli. Ekkert annað dugar.

Gerum okkur betri grein fyrir hvað element er. Indverjar segja að þarna sé aðeins um að ræða mismunandi form efnisbirtingar. Það er akasa að viðbættri ákveðinni þéttingu, það er loft, plús önnur þétting, eldur að viðbættri einni þéttingu enn og vatn plús ein þétting ennþá og það er jörð. Þetta eru ekki efni sem hægt er að þreifa á, þetta eru allt saman kraftar, orka. Þó þetta sé kallað form efnisbirtingar þá er þetta fljótandi orka. Komist er svo að orði að leysa þurfi jörð upp í vatn, vatn upp í eld, eld upp í loft og loft upp í akasa. Síðast er akasa leyst upp í hugann, hreinan manas. Manas sem stundum er sjötta elementið, leysist upp í ekki-neitt sem er veruleikinn sjálfur, sata-siva, guð hins eilífa friðar.

Þetta er annað af því sem verið er að gera í laya-yoga. Til að skýra þetta betur er hægt að segja að verið sé að opna leið úr einni kraftbirtingunni í manninum, upp í þá næstu, þannig að hægt sé að fara frá hinu þéttasta til hins æðsta í einu vetfangi. Þetta er leið í gegnum öll elementin eða öll „prinsippin“, það er verið að opna samgönguleið gegnum allar þessar mismunandi orkubirtingar. Auðveldara er að sýna fólki hvernig þetta gerist með því að taka æfingarnar.

Við hvert efnisstig eða kraftstig standa ákveðnir kraftar vörð, þeir eru kallaðir guðaverur hjá Indverjum. Og hvern einasta þarf að snerta með ákveðinni hugrænni vibrasjón. Nánar um það seinna. Laya-yoga krefst því óhemju nákvæmni í vitundarstarfi og algerlega hljóðs huga.

Mér hefur verið sagt að alls konar mannlegir veikleikar valdi mestum vandræðum í laya-yoga, jafnvel frekar en í kúndalini-yoga. Enda kemst maður ekki inn í kúndalini-iðkunina fyrr en búið er að fara gegnum þetta.

Til dæmis ef menn eru viðkvæmir fyrir sjálfum sér eða í slæmu skapi þá er mjög erfitt ef ekki ómögulegt, að iðka laya-yoga með góðum árangri. Það stafar af því að maður fer, orðað með mytologiskum hætti, í gegnum hlið eftir hlið og alls staðar eru reiðir verðir sem vilja ekki láta ryðjast þarna í gegn. Þeir gera allt til að koma í veg fyrir að þessi samgönguleið opnist í gegnum heimsbirtinguna sem þú ert að búa til.

Þetta er laya-yoga: að búa til samgönguleið frá hinu þéttasta til hins æðsta, fíngerðasta, leið sem hægt er að fara á einu andartaki gegnum formið. Þessari leið er lýst í þessari iðkun sem vindustiga. Þannig er hvert chakrað eða laya-punkturinn tekinn af öðrum og farið upp eftir manninum, þangað til komið er í hugann og anja-sentrið, og síðan upp úr á sviði satasiva. Þessi rás sem þannig er búin til þarf að vera algerlega meðvituð. Í smáu og stóru þarf að hafa hana í huga. Maður þarf að geta heilsað og hneigt sig fyrir hverjum krafti sem þarna er fyrir. Engin ástæða er til að lýsa þessu eins og þarna sé um að ræða lifandi verur, en maður þarf að hafa næma tilfinningu fyrir öllum þessum kröftum sem þarna spila saman, því það má „engan“ móðga. Hvergi umbrot, það kemur niður á sjálfum þér og iðkun þinni.

Hér gildir mantra-reglan og raunar einnig mandölu-reglan sem er það sama nema gegnum sjónina. Við þurfum að setja okkur fyrir sjónir í huganum. Við þurfum að sjá vissan hlut. Þér er sagt að þarna sé einhver guðdómleg vera og henni er lýst og þetta chakra lítur svona út, þú þarft að sjá þetta í huganum. Samtímis þarftu að fara með ákveðna mantra-iðkun, ákveðin orð, ákveðin hljóð í huganum. Þetta þarf að muna og gerast jafnt og stöðugt, aftur og aftur. Það sem gerist þegar mantra-reglan er notuð er eftirfarandi:

Fyrst notarðu möntruna. Hún vekur ákveðinn mátt. Smátt og smátt hættirðu að þurfa að nota möntruna. Hægt er að vekja kraftinn, þú finnur hann og þekkir og þá hverfur mantran. Eftir verða aðeins hlutaðeigandi kraftar sem var verið að leita uppi og vekja. Þannig er haldið áfram alla leið upp í gúrúmandölu.

Þrír kraftar

Á þessari leið eru þrír aðalkraftar, einn er tribúra sumdari, þ.e. heimsmóðirin eins og hún birtist í manninum. Síðan tríbúratrari, tríbúra hin grimma, sem er annað nafn yfir kúndalini. Í þriðja lagi hin elskulega gyðja Tara, stjarnan. Hún er sá máttur sem maðurinn tekur í notkun smátt og smátt vitandi vits, þegar hann, samkvæmt gömlu orðalagi, gengur veginn. Það er ákveðinn máttur sem hann notfærir sér, mátturinn hjálpar honum áfram á þeirri braut.

Áður en farið er út í laya-yoga stigið, jafnvel áður en farið er í kúndasúddí-iðkun, þarf að byrja á kraftiðkun, smárri, undirbúnings kraftiðkun. Hún er fólgin í því að komast í samband við kraftkerfið í sjálfum sér, þ.e. í innri líkamanum. Sumt í þessum líkama er meira viðvíkjandi mætti heldur en vitund. Við þurfum að komast í samband við þessa kraft-parta, bara rétt finna fyrir þeim. Það er gert með sérstakri hugleiðingu sem er þaulæfð í anahata-punktinum einum. Það er farið þar út í súshúmna-línuna og komist í beint samband við kraft-kerfið sjálft með þeirri hugleiðingu.

Í þessu sambandi langar mig að nefna það sem ég kalla sönginn í hjartanu og er einmitt í sambandi við anahata. En það tilheyrir ekki mjög kúndalini-yoga heldur frekar því sem ég hef kallað handanvið-yoga. Það er tónn alheimsins sem er í öllum í múladhara, ákveðinn tónn. Blavatsky tæpir á þessu hingað og þangað í Hinni leyndu kenningu, hún gefur nokkur sérhljóð en sleppir sem betur fer samhljóðunum. Þessi tónn er í hverri einustu lifandi veru. Í manninum hefur þessi tónn aðsetur í múladhara. En hann á að flytjast og verða heyranlegur upp í anahata.

Kúndalini-iðkun kemur hér næst á eftir. Hún er eins og ég segi mjög einföld, tæknilega, en hún er varasöm. Leiða á kúndalini-máttinn gegnum þá leið sem laya-yoga hefur opnað, frá hinu þéttasta til hins æðsta. Það er búið að opna leiðina. Það hefur verið búið til frávik frá súshúmna úr vísúddí fram í lalana chakra og upp í anjasentrið. Það er nú eiginlega ekki gert fyrr en með kúndalini-iðkuninni sjálfri.

Nauðsynlegt er að hafa ljósa vitund um ástand — maður fær þetta fyrst sem kenningar, sem fræðslu eða fróðleik — um ástand allra mögulegra krafta í múladhara þar sem snertingin er við kúndalini-máttinn. Að hafa nákvæma tilfinningu fyrir öllum þessum prinsippum og punktum er eitt af því sem er vandasamast í þessu. Síðan er með réttri beitingu athyglinnar og með réttri myndun víbrasjóna sem er þá mantra í huganum, að má fá þennan mátt til að hrærast. Og kúndalini hrærist eftir ýmsum leiðum. Ekki er endilega nauðsynlegt að hún fari rétta leið, þrátt fyrir að maður hafi iðkað þessar undirbúnings-iðkanir, hún getur farið upp hliðar-nadíurnar. Unnið er í súshúmna en hún getur samt farið upp til hliðar og það þekkist strax á ýmist miklum hita og miklum kulda í bakinu og alls konar fyrirbærum uppi í höfði. Hún getur farið á fleiri en einn máta upp eftir súshúmna. En best er að hún fari upp eftir þessu holi í súshúmna innst inni sem kallast braman-nadí eða bramí. Ef þetta tekst þá er engin fyrirhöfn og engin hliðaráhrif, þú verður ekki var við nein áhrif fyrr en gífurlega stóran glampa fyrir framan ennið.

Hvernig er þetta gert?

Þetta er gert með röð af hljóðum sem eru leidd upp eftir súshúmna, rásinni sem var búin til með laya-yoga. Þessa röð af hljóðum þarf að stilla rétt inn á rétta staði og endurtaka í sífellu, ef til vill mörg ár. Þetta er seinfarin leið en mjög örugg. Þessi hljóð eru mantram. Það er ekkert leyndarmál hvaða mantra, pansadasi. Þarna uppi er þessi krókur sem þarf að taka fyrir lalana-chakra og það eru þrír hnútar á súshúmna sem þarf að rétta úr, og er gert með möntrunni. Barma-hnúturinn rétt fyrir ofan múladhara, visnu-hnúturinn rétt fyrir ofan anahata og rútra-hnúturinn rétt fyrir ofan anja-punktinn. Hægt er að kenna kúndalini tæknina á tíu mínútum. En það þarf að þaulæfa þetta til að það beri árangur. Aftur á móti þarf langan tíma til að læra almennilega laya-yoga.

Að hverju er stefnt?

Hvað er nú verið að gera með þessu?

Það er verið að ummynda heila- og taugastarfsemina, taka í notkun algerlega nýjan möguleika í heila- og taugakerfi. Það gerist í rauninni margt fleira, ýmsar skynjanir koma en helst er að skýra þetta svona þegar um er að ræða þessa tegund af yoga.

Í því yoga aftur á móti sem ég hef stundum talað um og kallað handanvið-yoga, er þetta lítill hluti af því sem gert er. Í öllum tilfellum er ástæða iðkunarinnar sú sama, að fá fullkomna ummyndun á manninn.

Það þarf að byrja að ummynda vitsmunalífið, næst tilfinningalífið og síðast hið innra form mannsins. Og það er gert í handanvið-yoga.

Næst tala ég um fyrirbæri og reynslu við kúndalini-iðkanir, en áður en að því kemur verður að nefna undantekningu. Þurfa allir sem iðka kúndalini-yoga að taka þessa flóknu undirbúnings-iðkun sem kölluð er laya-yoga, bhutasuddhi og allt þetta sem tilheyrir?

Ég þori ekki að svara þessu alveg, ég veit það ekki, en svo mikið er víst að til er að menn fái kúndalini-iðkunina eina, strax í byrjun. Þeir menn sem eru meðhöndlaðir þannig eru kallaðir uppáhaldssynir gyðjunnar. Átt er við að þeir hafa í sér fólgið ákveðið þol gagnvart máttariðkun. Máttareðli alheimsins er mjög skýrt í þeim, sagt á vestrænan máta.


4. hluti

Í FYRRI hlutum lýsti ég inntakinu í kúndalini-iðkuninni svo, að röð af hljóðum eða vibrasjónum er leidd upp eftir súshúmna allt neðan frá múladhara og fram á milli augna, gegnum alla laya-punktana og lalana-chakra. Í rauninni er kúndalini-iðkunin þetta og ekkert annað. Öll önnur afbrigði eru annað hvort til þess að hjálpa til að þetta verði — eins og laya-yoga iðkun, púndasúddi sem hefur verið lýst í þessum hlutum, eða afbrigði sem ekki eru heppileg. En spurningin um að ná valdi yfir þessum mætti er afbökun. Þessi máttur hefur þig alltaf á valdi sínu. Það eina sem hægt er að gera er að láta brautina sem krafturinn fer eftir, vera rétta. Það er í rauninni lífsspursmál. Ef kúndalini-hreyfing er orðin í manni sem er með heldur illa lausa kúndalini, þá er það lífsspursmál að ná þessari braut réttri. Með réttum aðferðum, hreinleika, einbeitni og mikilli ró fyrst og fremst er hægt að leiðrétta ef allt er orðið úrskeiðis í þessum efnum.

En aðalatriðið er að iðkunin sjálf er ekkert annað en að leiða þennan mátt upp eftir súshúmna. Þess vegna er kúndalini-yoga nauðaeinfalt eins og raunar allt sem máli skiptir — og tæknilega vandalítið. Aftur á móti kostar það mikinn vanda að ýmsu öðru leyti, t.d. er ekki endilega víst að þér finnist, ef þú ert ekki með lausa kúndalini, að þarna sé neitt til að leiða. Þá gerir það bara ekkert til, þá er aðeins farið hægt í sakirnar til að byrja með, brautin búin til og beðið hvort eitthvað kemur ef menn endilega vilja iðka þetta. Kúndalini er venjulega iðkað á vissum kafla innri leiðarinnar enda þótt alls ekki sé víst að það sé vænst mikils árangurs með því. Til er annað yoga sem tekur við þar sem kúndalini-yoga endar og það er að mörgu leyti miklu betra ef menn hafa hug á að leggja inn á það.

Ef við getum talað um árangur í sambandi við kúndalini-yoga þá er það ekki fyrirbæri eða hæfileikar. Kúndalini-yoga er kafli á hinni andlegu þroskabraut mannsins, liður í iðkunum sem leiða út í það sem okkur tekst ekki að skýra með nokkru móti. Þess vegna er rangt að tala um árangur en það verðum við samt að gera. Vel er hægt að setja fram tiltölulega ljósa mynd um það sem gert er með kúndalini-yoga. Það er í rauninni hin mikla ummyndun hins innra forms mannsins.

Hvers vegna ummyndun? Við komum alltaf aftur og aftur að sömu meginpunktunum og ef við skiljum þá, náum meiningu þeirra sæmilega, þá skipta hin atriðin minna máli.

Hvað gerist í þessu sem við köllum ummyndun? Ómögulegt er að skýra það en hægt er að benda í átt að því sem þarna er um að ræða með því að gera sér grein fyrir hvað sé mystísk upplifun. Þetta tvennt hangir alveg saman.

Mystísk upplifun — það væri nú guðsþakkarvert ef við gætum allt í einu fundið hvað þetta er í stað þess að nota orð — er það að þú lifir allt í þér og þig í öllu. Þetta gerist því miður sjaldan og yfirleitt ekki nema andartak í einu. Einhverra hluta vegna lokast strax fyrir, en hvers vegna?

Esóterísk fræði svara því þannig að það sé vegna þess að innri gerð mannsins sé röng. Maðurinn er ekki ennþá rétt skapaður. Hann þarf að láta gera breytingu á innri gerð sinni. Hún er þannig að ef glampinn kemur — þessi upplifun að finna allt í sér og vera í öllu, gersamlega í öllu — þarf ummyndun til þess að hann geti staðið við. Það þarf þá breytingu á innri gerð mannsins sem gerir hinni mystísku upplifun fært að halda endalaust áfram.

Orð eru eins og að bera vatn í hripum. Ekki er hægt að bera vatn í hripum, ekki er hægt að lýsa andlegum veruleika með orðum.

Þess vegna þurfum við ummyndun. Ekki er þar með sagt að kúndalini-yoga sé hin besta ummyndun, hún er að vísu góð en um er að ræða þrefalda breytingu, breytingu sem byrjar — og nú er ég ekki að tala um ummyndun í kúndalini-yoga — innst og kemur út. Byrjar á því að vitsmunavélin breytist, það æðsta sem í þér er, í formi mannsins. Þetta verður til þess að þú verður ótrúlega vitur, þangað til fáir trúa þér. Það eru bara fíflin sem trúa þeim sem vitrastir eru. Síðan kemur ummyndun tilfinningalífsins og þú verður það sem er í rauninni að vera góður. Þá finnur þú alltaf allt í þér. Það er einhver skyldleiki í þér og öllu sem þú upplifir, stöðugt. Þú hættir að geta sært nema þá óviljandi. Þá kemur að því að hinn raunverulegi líkami, orkusviðið, hinn innri líkami, fer allt í einu að breytast. Það er ummyndun hins innra forms. Og ef mér leyfist að tala um galla í vanalegu kúndalini-yoga, þá er það að þessi ummyndun formsins, orkusviðsins, kemur tiltölulega snemma.

Kostir þess sem ég kalla handanvið-yoga eru þeir að ummyndun formsins er látin bíða þar til síðast. Að vísu þýðir það að maðurinn fær enga dularfulla hæfileika og verður ekkert glæsilegur í augum annarra, en það er nú kannski ekki það allra versta.

Þetta er sem sagt ummyndun kúndalini-aðferðarinnar að taka tiltölulega snemma til við etersviðið, innri gerð mannsins og gera breytingar á því. E.t.v. áður en búið er að gera réttar breytingar á vitsmuna- og tilfinningastarfinu. Þess vegna mæli ég í rauninni frekar með handanvið-yoga.

Þessi breyting sem hrærir upp í innri gerðinni, ytri lögunum af innri gerðinni, hún getur haft í för með sér alls konar óþægindi, vandamál.

Mantralykillinn

Nú skulum við einu sinni enn gera okkur grein fyrir mantra-reglunni. Hún er ein af þessum meginpunktum sem menn verða, hvort sem þeir vilja eða ekki, að átta sig rækilega á ef þeir ætla að leggja inn á þessa braut. Hún er þessi:

Notað er orðasamband, víbrasjón, röð af víbrasjónum sem farið er með í huganum. Orðasambandinu er beint að þeim punktum sem leiðbeinandinn segir þér að beina því að.

Haldið er áfram að fara með þessa möntru, þessa röð af víbrasjónum í huganum á réttum stöðum, aftur og aftur. Og það kemur eitthvað í ljós, og þetta er mikilvægt, eitthvað nýtt, þegar þú ferð með möntrulykilinn eða þessa röð af víbrasjónum. Eitthvað nýtt kemur í ljós á þeim stað, það er kannski allt öðru vísi en þú bjóst við.

Við áframhaldandi iðkun finnst að þetta nýja sem komið er í ljós er orðið miklu fyrirferðarmeira í iðkuninni en mantran, og síðan er hægt að sleppa henni og athyglin ein leiðir máttinn. Þá hefur tvennt gerst, í fyrsta lagi hefur þú öðlast næmi sem þú hafðir ekki, fyrir einhverju sem alla tíð var þarna. Í öðru lagi hefur þú náð valdi yfir mætti sem þú vissir ekki einu sinni að þú ættir til.

Þetta er mantra-reglan yfirleitt, þetta er alltaf notað þegar við notum möntru. Sama gildir þegar mandala er notuð, nema þá er eitthvað gert sýnilegt í huganum, en það nær aldrei eins djúpt.

Hér var verið að lýsa því sem gert er í kúndalini-yoga. Mantran er iðkuð, hún er lykillinn að kúndalini. Þú beinir henni rétt, þú ferð hvorki hægt né hratt, þú bara gerir það sem þú átt að gera. Kannski finnur þú fyrir furðulegu fyrirbæri, mætti sem sefur. Ekkert er til í náttúrunni sem hægt er að líkja við það; mátt sem sefur.

Máttur er til að mynda þegar sólin bræðir snjóinn. Snjórinn berst ekki á móti sólinni. Það þýðir ekkert að berjast við sólina. Þannig er allur máttur.

Í rauninni er enginn máttur til nema almættið. En almættið sefur, það er upplifunin, það sem þú finnur. Talað er um að mantran sofi, það þýðir þegar hún verkar ekki, hún gengur áfram og verkar ekki. Þetta er hér um bil það sama. Þegar hún byrjar að verka þá ferðu að finna fyrir einhverju sem sefur, einhverju sem er kyrrt en er óstjórnlega máttugt.

Hin réttu merki

Þá er best að nefna hin réttu merki. Ef allt er í besta lagi verður þú aldrei var við kúndalini ef hún vaknar skyndilega og fer upp eftir bakinu. Ekkert finnst nema eldglæringar framan af enni, skrýtnar eldglæringar. Það er fyrst punktur og svo koma þær í langri „halastjörnu“. Engin fyrirhöfn, hvorki gott né vont. Þetta er bara þarna. Þráðlaust samband alla leið neðan frá múladhara og fram í enni. Það getur líka orðið einn samfelldur blossi fyrir framan ennið. Hvorki gott né vont.

Áður en þetta er komið fram verður maðurinn var við ýmislegt fleira, til að mynda kraftsviðið umhverfis líkamann. Það eru fyrirbrigði sem koma fram áður en kúndalini-fyrirbærin sjálf koma. Einnig næmni fyrir laya-punktunum og súshúmna-línunni. Þetta finnur maður stundum að minnsta kosti. En svo koma þessi fyrirbæri út úr enninu þegar allt er í lagi. Eitt af kúndalini-fyrirbærunum er eins og komi fljótandi ljós upp í bakið, heldur grófara fyrirbæri. Þetta kemur upp í kúndalini-yoga en ekki er víst að þetta kæmi í handanvið-yoga. Þetta fyrirbæri getur farið alveg upp úr og yfir höfuðið.

Síðan er annað fyrirbæri sem er náskylt glampanum sem ég talaði um áðan, það er eins og höfuðið fyllist af ljósi. Því getur fylgt að maðurinn skynji, upplifi, öll möguleg líffæri inni í höfðinu og ýmislegt þar langt uppyfir og jafnvel líffæri niður eftir öllum líkamanum. Þetta verður eins og meðvitað. Þá er einnig um að ræða gný fyrir eyrum, víbrasjón í höfðinu eins og það ætli í sundur, sumir hafa talað um járnbrautarlest og furðulegir, fjarlægir skruðningar eins og alheimurinn ætli bókstaflega að liðast í sundur.

Yfirleitt má segja að öll þessi kúndalini-fyrirbrigði séu furðuleg, eiginlega meira ógnvekjandi en áhugaverð. Það kostar gífurlega stillingu að halda þessu áfram án þess að láta þetta hafa áhrif á sálarlífið, skaplyndið, gera mann hræddan o.s.frv. Einnig er varasamt að vera of spenntur.

Þetta voru nú þessi almennu fyrirbæri.

Annað fyrirbæri vil ég nefna sem tilheyrir ekki síður þessu yoga sem tekur við af kúndalini-yoga. Það kalla ég sönginn í hjartanu. Ég hef talað um litlu gáruna, upprunalegu gáruna í ekki-neittinu. Þetta fyrsta úr kyrrð yfir í heimsbirtingu. Það heitir alandaahari. Hún kemur víða fram, m.a. í því sem Indverjar kalla saptabrama, sapta þýðir orð, hljóð eða víbrasjón og er hið upprunalega orð, þetta orð — ef við notum vestræna líkingu — fyrsta orðið sem var sagt og heimurinn varð til.

Þetta orð er í þér og hægt er að finna það, það er í múladhara, neðsta laya-punktinum eins og margt fleira. Segja má að það að tala um sapta sé önnur aðferð til að nálgast kúndalini-máttinn. Kúnstin á þessari leið er að flytja sapta upp í anahata og heyra hann þar. Ég veit ekki til þess að hægt sé að heyra hann í múladhara.

Anahata þýðir sjálfvakinn tónn. Með því er hin upprunalegasta víbrasjón færð upp á æðra plan þar sem þú getur heyrt sjálfan þig eins og þú ert. Að heyra er aðferðin til þess að komast að raun um hvernig maður er. Þannig er hægt að heyra óendanlega út í óendanleikann. Allt sem þú sérð í andlegri iðkun þinni er óáreiðanlegra en hitt sem þú heyrir. Sjónin er í sambandi við manipuraka, laya-punktinn næst fyrir ofan naflann, heyrnin er í sambandi við vísúddhí, akasa-stöðina. Þetta sem við köllum daglega heyrn, að hlusta á hljóðbylgjurnar í loftinu, er óskaplega gróf aðferð til að heyra. Hægt að heyra alltaf dýpra og dýpra með því að hlusta út í þögnina. Merkilegast er að hlusta inn í sjálfan sig, inn í hugann, það er opin leið alveg inn í hinn hinsta veruleika, ef þú kannt að hlusta í þínum eigin hugarsölum.

Hér finnst mér viðeigandi að taka nýlegt kúndalini-dæmi. Ung kona, rétt innan við þrítugt, hefur í átta ár haft mjög sterk kúndalini-fyrirbæri án þess að vita hvað hún væri að gera, fékk nú samt einhverja vitneskju tiltölulega snemma. Hún segir: „Oftast fann ég nákvæmlega eins og lítill snákur eða gullinn þráður skriði í krákustígum upp eftir holrúminu innan í hryggnum, stundum voru tveir snákar sem fóru sitt hvoru megin upp eftir bakinu. Ég heyrði þetta í raun, rétt eins og ég get heyrt hjartsláttinn.“

Það sem á vantar hjá okkur er að við erum alltaf að reyna að sjá eitthvað innra með okkur, en það er ekki hægt, sjónin er svo grunn. Það verður að nota heyrnina til þess að komast í samband við þetta. Það er þess vegna sem mantra-aðferðin er svona máttug og örugg, einasta örugga leiðin til þess að kafa djúpt inn fyrir hugann. Man þýðir hugsun, tra þýðir að frelsa. Hugsun sem frelsar, leysir.

Um þetta hef ég skrifað:

Logn út á sundum

logn yfir bænum

lítil gára yfir landinu

værð í blænum

kyrrð í huga

og kynlegt að greina

að kulið frá sænum

loftið hreina

og lítil gára

leika um hjartað

þó allt sé í værð

er eitthvað sem vakir

út á sundum

lítil gára sem lifnar

og vakir

handan við hjartað.

Sigvaldi Hjálmarsson

Dulrænir hæfileikar

Þá skulum við minnast á dulræna hæfileika sem vakna með kúndalini-yoga. Slíkt yoga er eina örugga aðferðin til að öðlast þá.

Í fyrsta lagi hæfileikinn að sjá inn á önnur svið sem er náttúrulega ekkert merkilegra en að sjá inn á þetta svið, en miklu meiri vandi er að sjá inn á tvö, þrjú svið heldur en á eitt. Sömuleiðis að heyra eins og menn kalla, sem er nú ekki þessi heyrn sem ég var að tala um áðan. Heyra rödd eða eitthvað svoleiðis, komast í samband við aðra einstaklinga æðri eða lægri. Svo er það hugsanaflutningur sem er afskaplega algengur hæfileiki sem kemur með kúndalini-yoga. Þar að auki öll þessi mögulegu kraftaverk sem eru gerð með því að komast í samband við elementin, eins og áður hefur verið minnst á. Þá geta menn vaðið eld, gengið á vatni, farið í gegnum heilt, svifið og þetta sem er talið mest spennandi. Þetta er bara að komast að einhverju samkomulagi við elementin.

En þegar talað er um þessa hæfileika er átt við hæfileika sem eru ekki í fullu samræmi við vitundarþroskann og það er einmitt þetta sem Blavatsky kallaði lægri siddís. Það er þegar maður fær hæfileika sem ekki eru bein afleiðing af vitundarþroskanum. Þegar um háan, nýjan vitundarþroska er að ræða og hæfileika sem af því koma, þá gerist þetta öðruvísi. Þá er um að ræða opnun nýs skilningarvits sem mér skilst að sé aðeins eitt. Og það tekur yfir allt þetta sem við köllum alheim, tilveru — eitt skilningarvit. Byrjun á slíku skilningarviti er einmitt það sem kemur í hugleiðingu þegar þú snöggvast færist upp á annað æðra vitundarsvið. Algengt er að menn hafi ekki dulræna hæfileika nema í hugleiðingu, í hugleiðsluástandi, og þá stafar það af því að þeim tekst að einhverju leyti í hugleiðingunni að lyfta sér upp á æðra vitundarstig, og þá opnast eitthvað. Það sem fyrst opnast er að skynja annað fólk sem orkusvið, ekki sem hlut heldur sem mátt.

Viss tegund af andlegum lækningum er líka nákvæmlega rétt tegund af dulrænum hæfileikum. Oft er það þannig að læknandinn þarf að setja sig í andlegar stellingar sem er eins konar hugleiðing, lyfta sjálfum sér upp til þess að geta leyst hinn læknandi mátt úr læðingi. Þessi læknandi máttur er eitt af sjálfsögðum afleiðingum kúndalini-iðkunar. Það er næmni fyrir innri gerð sjálfs sín og annarra og hæfileiki til að leiðrétta misfellur sem þar kunna að vera á. Eða svo er manni sagt.

Æðri siddí sem er afleiðing af andlegri iðkun, hinir réttu siddí-hæfileikar sem koma í kjölfar andlegrar iðkunar, fylgja breytingu á vitundarástandi og eru vanalega þannig að maðurinn nýtur yfirleitt ekki þeirra hæfileika nema þegar hann er í hugleiðingarástandi.

Svo er það sælan. Kúndalini-iðkun og árangri fylgir óstjórnlega mikil sæla, himnaríkissæla að viðbættri allri hugsanlegri líkamlegri og persónulegri sælu. En búast má við að einnig komi stundir með gríðarlega mikilli þjáningu og örvæntingu en það er mun sjaldnar ef rétt er að farið. Þetta kemur sitt í hvoru lagi eða allt saman. Stundum óskapleg andleg sæla samfara líkamlegri vanlíðan, stundum bæði líkamleg og andleg sæla. Þetta er einn af prófsteinunum, vegna þess að þú átt að vera jafn óháður hvoru tveggja. Það er mestur vandinn. Ég man þegar dr. Sundaram sagði einn morgun við mig: „Þú færð skyggni, dulræna hæfileika, yfir þig koma óskaplegar sælustundir, þú upplifir nirvana — en þú átt að taka þetta allt eins og truflun.“ Sælan er truflun. Lausn er truflun.

Islamski mystíkerinn Alunait, uppi um 900, orti ljóð sem hér má fylgja:

Sá hrífst af alsælunni

sem finnur í henni hvíld

en þegar sannleikurinn birtist

verður alsælunni ýtt til hliðar.

Fyrrum var alsælan

mín mikla nautn

en sá sem ég fann

tekur mig allan í sælunni

svo ég sé hvorki sæluna

né annað.

Alunait

Í Isa-upanisjad stendur einnig að mesta syndin sem hinn andlega nema geti hent, sé að vera háður andlegleika. Lausnin er fólgin í að fá lausn og afsala sér henni. Þess vegna er talað um hið mikla afsal. Sá einn er frjáls sem er líka frjáls frá frelsinu.

Kúndalini-yoga ummyndunin kemur hægt en í kippum. Hver hlutinn af öðrum fer í rúst og endurnýjast. Ný tengsl koma í ljós, önnur tengsl eyðast. Það er sérstaklega í höfðinu sem eitthvað gerist. Það er ekki bara heilinn sem breytist og lagast, það eru bara smámunir hjá öðru í sambandi við þessar breytingar. Í ljós kemur eins konar annar heili fyrir ofan hvirfilinn, innri gerð mannsins nær eins hátt upp eins og frá enni og niður í múladhara. Þannig á maðurinn eftir að fá þó nokkuð háa yfirbyggingu, hvort kalla má það heila eða ekki, veit ég ekki. Þessu fylgir líka mikið ljós og stórt blik. Maður sem þetta er að gerast í, ber ósjálfrátt með sér djúpan frið. Það eru víbrasjónir sem eyða ósamræmi.

Í þessu æðra yoga sem ég er að tala um er ekki um að ræða nein slagsmál. Þar er ekki um að ræða að neinn kraftur ryðjist áfram eins og snjóflóð, brjóti og bramli og breyti. Ef vel er að farið mun slíkt ekki gerast í kúndalini-yoga. Þar er litla gáran notuð beint og hún er eins og sólskinið.

Það verður.

Fyrri Geislarnir sjö
Næsta Mystísk upplifun
Efnisyfirlit