Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Hvað opnar Da Vinci lykillinn?

Höfundur: Halldór Haraldsson

Erindi flutt í Guðspekifélagi Íslands föstudaginn 4. mars 2005.

Undanfarið ár eða svo hefur bókin Da Vinci Lykillinn eftir bandaríska rithöfundinn Dan Brown notið slíkra vinsælda víða um heim að undrum sætir. Bókin hefur að vonum einnig vakið sterk viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Stafar það sennilega ekki vegna þess hve spennandi söguþráð höfundi hefur tekist að spinna, heldur öllu líklegar vegna þess hve höfundur snertir trúarlegan bakhjarl, þ.e.a.s. kristinn bakhjarl margra lesenda á Vesturlöndum og víðar með óvæntum „staðreyndum“ sem hann kallar svo. Sem meðlimur félags, sem gjarnan spyr spurninga, þótti mér eðlilegt að kanna málið nánar og leita svara við áleitnum spurningum sem vakna við lestur bókarinnar. Þar sem hér ríkir hugsanafrelsi og félagar ekki háðir kennisetningum trúarbragða eða annarra stofnana, trúralegra eða pólitískra, getur hvert okkar, eins og Gangleri forðum eða sem frjálsbornir guðspekisinnar spurt hvers kyns spurninga fordómalaust og óhrædd, en um leið reiðubúin að taka svarinu, jafnvel óvæntu, ef það finnst á annað borð og hvernig sem það kann að verða.

Með Da Vinci lyklinum á ég einfaldlega við umrædda bók og hvað hún opnar hugsanlega. Á undan formála bókarinnar ritar höfundur nokkrar setningar undir fyrirsögninni „staðreyndir“. Þar er m. a. nefnt Sionbræðralagið, Opus Dei og þess getið að lýsingar á nokkrum listaverkum séu sannleikanum samkvæmt. Þessar „staðreyndir“ flettast inn í söguþráðinn auk fleiri óvæntra fyrirbæra. En leyndardómar Da Vinci lykilsins eru fleiri þegar að er gáð. Við skulum kanna málið. Það er fljótlegt að kanna Opus Dei. Það er ekkert leyndarmál að Opus Dei (sem þýðir verk guðs) er kaþólsk leikmannaregla, sem auðugur lögfræðingur, José María Escrivá að nafni, sem síðar gerðist prestur, stofnaði á Spáni árið 1928. Meðlimir reglunnar nú á dögum teljast um 80 þúsund í öllum heimsálfum með höfuðstöðvum í Róm. Það er einnig staðreynd, að höfuðstöðvar Opus Dei í Bandaríkjunum eru á 243 Lexington Avenue í New York í risastórri byggingu upp á 17 hæðir og á að hafa kostað 47 milljónir dollara. Sagt er að meðlimir stundi meinlætalíf, en hve langt það gengur er erfitt að fullyrða. Til eru frásagnir nokkurra sem gerst hafa meðlimir á undanförnum árum, en yfirgáfu regluna vegna öfga á þessu sviði. Meðlimir reglunnar hafa mótmælt slíkum greinum sem birst hafa í blöðum. Þar koma fram fullyrðingar gegn fullyrðingum og erfitt að fá á hreint hver sannleikurinn er. Oft er sagt að sjáist reykur hljóti að finnast eldur, en aðrir halda því fram að reykur geti komið upp án elds. Hver veit? Þar sem þetta er nú ekki sú hlið málsins sem við höfum mestan áhuga á, skulum við snúa okkur að áhugaverðari hliðum þess og ganga út frá því í leiðinni að lýsingar á listaverkum séu réttar.

Mörgum árum áður en Da Vinci lykillinn kom út kom út bókin Holy Blood, Holy Grail („Hið heilaga blóð, hinn heilagi gral“) eftir þá Henry Lincoln, Michael Baigen og Richard Leigh, en þar er sögð heldur óvenjuleg saga af kaþólskum presti á Suðu-Frakklandi, föður Berenger Sauniere sóknarpresti við kirkju heilagrar Magdalenu í Rennes-le-Chateau. Hann bjó við mikila fátækt, en hafði mikinn hug á að bæta úr málunum og fegra kirkju sína og bæta á allan hátt. Árið 1891 fer hann að taka til hendinni í kirkju sinni og uppgötvar að steinsúla við altari kirkjunnar er hol að innan og inni í henni handrit, sum á dulmáli. Eftir þetta grannskoðaði hann vissa staði kirkjunnar og tók að grafa í kirkjugarðinum kringum kirkjuna. Eftir að hafa fundið og skrifað hjá sér dularfullar grafskriftir heimsótti hann biskupinn í Carcassonne í nágrenninu með þessar upplýsingar í farteskinu. Í framhaldi af þeirri heimsókn sendi biskupinn hann til kirkjuyfirvalda í París. Eftir þessar heimsóknir verður hann skyndilega svo ríkur, að hann hefur efni á því að endurnýja kirkju sína, skreyta hana dýrindis listaverkum, leggja nýjan veg að þorpinu, leggja vatnsleiðslur og reisa sjálfum sér veglegt hús til að búa í. Hann hafði haft sem nam 6 pundum í tekjur á ári, en nú hann eyddi sem nam 10 milljónum punda í kirkjuna. Faðir Sauniere skýrði aldrei neinum frá því hvernig honum hlotnuðust skyndilega slík auðævi. Er hann lá á dánabeði sínu árið 1917 og gerði sína síðust játningu, varð presturinn sem á hana hlýddi svo hneykslaður að hann neitaði að veita honum syndafyrirgefningu. Hafði faðir Sauniere fundið fjársjóð, hafði hann fundið gralinn heilaga sem Kristur drakk úr á síðustu kvöldmáltíðinni eða var leyndardómur hans svo ógurlegur, að sjálfur páfinn hafi orðið að greiða honum mútur til að halda honum leyndum? Þá kom fram sagan um, að í handritunum hafi komið fram, að upprisa Krists hafi verið vandlega tilbúin blekking og að kaþólska kirkjan hafi greitt honum háar upphæðir fyrir að þegja. Ennfremur sagði sagan að gagnstætt því sem haldið hafði verið fram í kristni hafi Jesús kvænst Maríu Magdalenu og að þau hafi átt börn saman. Síðar á María að hafa siglt til Suður-Frakklands með börn þeirra sem síðar áttu að hafa giftst inn í franska konungsætt, þ. e. Merovingianættina sem var við völd frá 500 – 750 e. Kr. Sagt er að Sauniere hafi reyndar sagt ráðskonu sinni frá leyndardóminum, en er hún seldi hús Saunieres og ætlaði að segja nýja eigandanum sannleikann í málinu fékk hún heilablóðfall og missti málið, svo að hún fór með leyndarmálið í gröfina.

Öll löðumst við að leyndardómum og fýsir að uppljúka þeim, afhjúpa eitthvað sem helst kemur okkur á óvart. En, eins og einhver sagði, eftir að við höfum afhjúpað leyndardóminn er hann ekki lengur leyndardómur, hvort sem hann reynist óvæntur eða ósköp venjulegur. Eftir sem áður erum við sólgin í leyndardóma og eitt er víst, að þótt unnt sé að afhjúpa ýmsa þeirra varðandi Da Vinci lykilinn er nóg af þeim eftir. Þið hafið að öllum líkindum tekið eftir því, að nafnið á prestinum í Rennes-le-Chateau, faðir Sauniere, er einmitt nafnið sem höfundur Da Vinci lykilins kallar safnvörðinn í Louvresafninu sem myrtur er í upphafi bókarinnar, afi Sophie, einnar aðalpersónu sögunnar ásamt táknfræðingnum Robert Langdon. Bakgrunnur bókarinnar Holy Blood, Holy Grail var sá, að franskur sagnfræðingur, Gérard de Séde að nafni, hafði skrifað um þessa dularfullu atburði í Rennes-le-Chateau í bók sem út kom 1967 og var hann því sá fyrsti sem vakti athygli á þeim. Nokkrum árum áður eða 1962 hafði de Séde sjálfur gefið í skyn tilveru hins leynda Síonbræðralags (Prieure de Sion), sem er mikilvægur þáttur í sögu föður Sauniere, í bók sinni um „öðruvísi sögu“. Árið 1969 las breskur rithöfundur, Henry Lincoln, í starfi hjá BBC í London bók de Séde frá 1967 um atburðina í Rennes-le- Chateau og varð forvitinn. Tveim árum síðar heimsótti hann sögustaðina í Frakklandi og hitti m.a. Gérerd de Séde og saman leystu þeir dulmál á skjölum sem fundist höfðu í Þjóðarbókhlöðu Frakklands í París (Biblioteque National) svokölluð Dossiers Secrets eða leyniskjöl. Í þeim var m. a. að finna ættartölur konunga og sagt var frá bræðralagi Síons ásamt afar áhugaverðum lista yfir yfirmenn bræðralagsins, en meðal þeirra voru þekktir menn eins og Leonardo da Vinci, Botticelli, Isaac Newton, Victor Hugo, Debussy og Jean Cocteau. Við þetta eykst áhugi Lincolns, hann rannsakar málið næstu árin og í framhaldi af því kom út bókin Holy Blood, Holy Grail árið 1982 eftir hann og tvo aðra samverkamenn, sagnfræðingana Michael Baigent og Richard Leigh. Bókin vakti gífurlega athygli á sínum tíma, mönnum kaþólsku kirkjunnar var ekki skemmt, en almenningur drakk í sig óvenjulegar og nýstárlegar kenningar um sögu kristninnar.

Þá kemur fram á sviðið franskur blaðamaður, Jean Luc Chaumeil að nafni, sem einnig hafði rannsakað hvað hæft væri í því að til væri hið leynda bræðralag Síons. Því meir sem hann rannsakaði, því sannfærðari var hann að það væri í raun uppspuni frá rótum. Hann kannaði feril Gérard de Séde, en einnig félaga hans, Philip Cherishey markgreifa og Pierre Plantard, sem átti sér skrautlega fortíð, svo ekki sé meira sagt. Hér er um mjög flókið mál að ræða, en aðalatriði þess eru þau, að Gérard de Séde var meðlimur kúbbs súrrealista og átti sennilega hugmyndina, en nafnið Sion tóku þeir frá fjalli í nágrenni heimabæjar Plantards. Bræðralag Síons var því í rauninni til, en aðeins sem hreinn tilbúningur þeirra með fáeinum meðlimum árin 1965-1984 er það var leyst upp. Hins vegar átti bræðralagið að hafa verið stofnað í Jerúsalem árið 1099, áhrifamikið í franskri sögu gegnum konungana af Merovingianættinni og öllum þessum frægu mönnum sem yfirmönnum reglunnar. Chaumeil segist meira að segja hafa fundið handrit af listanum með yfirmönnum reglunnar með rithönd Philip Cherishey sem segir að það sé falsað. Þannig fullyrðir Jean Luc Chaumeil að engin forn ósvikin handrit hafi verið til (öll fölsuð) og ekkert raunverulegt bræðralag. Aðspurður um þetta svaraði einn af höfundum Holy Blood Holy Grail, Michael Baigant, að þessi Chaumeil væri ekki nógu vel að sér í þessu máli. Sagðist Baigent sjálfur hafa verið tortrygginn er hann og Henry Lincoln hefðu fengið ábendingar frá Síonbræðralaginu og þeir grandskoðað umrædd skjöl og verið vissir um að þau væru ósvikin. Hér er því fullyrðing gegn fullyrðingu. Varðandi auðævi föður Sauniere uppgötvaðist síðar, að hann hafði ekki fundið fjársjóð, hann mútaði aldrei kaþólsku kirkjunni, heldur hafði hann aflað fjár með því að gera fjölda efnaðs fólks andlega „greiða“ svo sem með fyrirbænum gegn gjaldi, sem var í raun ekki beinlínis siðlegt, en aflaði honum tekna. Í húsi hans fannst síðar gríðarlegt magn kvittana fyrir þessari iðju hans.

Það sem gengur eins og rauður þráður í gegnum Da Vinci bók Dan Browns er leitin að hinum heilaga gral. Sett hefur verið fram fram sú kenning, að gralinn sé ekki bikar eins og venjulega hefur verið haldið fram, heldur blóð Krists, sem á frönsku var skrifað san graal eða san greal, en enn eldri ritháttur á að hafa verið sang real, sem þýðir heilagt blóð. Hvað er og hvar er þá hið heilaga blóð? Jú, samkvæmt þessari kenningu á það að vera móðurlíf Maríu Magdalenu sem var þunguð eftir eiginmann sinn, Jesús, þ.e. að gralinn sé því miklu stórkostlegri en dauður bikar, þótt með táknrænu blóði Krists sé, heldur lifandi kona sem ber fóstur frelsarans og á eftir að geta af sér m. a. ættir konunga, þ.e. Merovingianættina á Frakklandi. Eitt af þeim vísbendingum sem bent hefur verið á er hið fræga listaverk Leonardos da Vincis, kvöldmáltíðin heilaga, sem hann málaði á vegg kirkjunnar Santa Maria della Gracia í Milanó. Bent hefur verið á, að sá lærisveinn sem situr til hægri við frelsarann og á að vera lærisveinninn Jóhannes, sé í raunninni María Magdalena. Þetta átti Leonardo að vita þar sem samkvæmt kenningum þessum átti hann að hafa verið einn af yfirmönnum Síonbræðralagsins. Jesús hallar sér frá Maríu og myndar þannig vaff-laga bil á milli sín og hennar sem gæti verið táknrænt fyrir bikar, gral eða móðurlíf. Bilið milli þeirra opnar fyrir útsýn í bakgrunn þriggja stórra glugga sem mynda stafinn M, sem gæti staðið fyrir María, Magdalena eða matrimonium. Málverk þetta hafa margir grandskoðað allt frá því að Da Vinci lykillinn kom út og finnst mörgum lærisveinninn á hægri hönd Jesú ekki sannfærandi sem karlmaður. Í fyrsta lagi eru allir lærisveinarnir skeggjaðir nema þessi, og þótt Jóhannes eigi að vera fínlegur og jafnvel kvenlegur ungur maður finnst mörgum hann heldur ekki sannfærandi sem slíkur. Sumir sérfræðingar telja þetta vera Jóhannes svo og að sjálfsögðu allir prelátar kaþólsku kirkjunnar, aðrir sjá þarna kvenpersónu. Hér greinir menn sem sagt á og ekkert endanlegt svar að finna enn við þessari gátu.

En við þurfum ekki á svo vafasamri sönnun að halda varðandi Maríu Magdalenu. Margir sjónvarpsþættir hafa verið gerðir um þetta efni og viðtöl við helstu sérfræðinga sem tengjast þessu málefni. Einn virtasti sérfræðingur sem oftast er fenginn til svara er dr. Elaine Pagels, prófessor í sögu frumkristni við Princeton háskólann í Bandaríkjunum. Hún hefur sagt í slíkum viðtölum, að bók Dan Browns sé vissulega spennandi skáldsaga, einnig sé margt spennandi varðandi ýmsa leyndardóma, leynileg bræðralög o. fl. þ. h., en fyrst og fremst sé hún þakklát höfundi fyrir að opna lang mest spennandi efnið af öllum, sem er hennar sérsvið, nefnilega fróðleik um frumkristni, sem komi fólki verulega á óvart.

Árið 1945 fann egypskur bóndi forn handrit í leirkrukku af tilviljun rétt hjá þorpinu Nag Hammadi við rætur Jabal-al Tarif fjalls um 300 mílur frá Kaíró. Þetta reyndust vera 52 rit frá frumkristni rituð á koptísku, þ.e. þýðingar á handritum upphaflega rituðum á grísku, og var þeim endanlega komið fyrir á koptíska safninu í Kaíró. Fundur þessi kom á óvart og leikur enginn vafi á því að hann á eftir að hafa feikileg áhrif. Er fréttist um fundinn fóru nokkrir nemendur í Harvard háskóla, þar sem Elaine Pagels stundaði nám, að læra koptísku til að geta lesið handritin sem fundust. Þetta var mikið verk og eftir að ónefndir aðilar höfðu reynt að tefja verkið með ýmsum hætti og af ástæðum sem koma hér síðar í ljós, komu rit þessu loksins út í enskri þýðingu árið 1977. Var próf. Pagels í hópi þýðenda og gjörþekkti því allt þetta mál. Hefur hún hlotið einróma lof fyrir vönduð og vísindaleg vinnubrögð. Hún fæddist 1943 í Kaliforníu, útskrifaðist með B.A. próf frá Stanford háskóla 1964 og 1965 með M.A.próf. Eftir það stundaði hún nám við Harvard háskóla þar sem hún tók doktorspróf í heimspeki og tók jafnframt þátt í þýðingu Nag Hammadi handritanna. Nú er hún – eins og áður sagði – prófessor í frumkristnifræðum við Princeton háskólann. Bók hennar, Gnostísku guðspjöllin, hefur hlotið margs konar verðlaun og viðurkenningar. Síðan hefur hún skrifað fleiri bækur sem einnig hafa hlotið frábærar viðtökur eins og t.d. Tómasarguðspjall.

Fyrsta spurning okkar hlýtur að vera: Hvers vegna voru handrit þessi falin allan þennan tíma, í yfir 1600 ár? Því er til að svara að þegar á 2. öld e. Kr., er kirkjan var smám saman að festa sig í sessi sem stofnun, urðu miklar deilur og reyndu valdamenn kirkjunnar að brenna þessi rit eða eyðileggja til að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra vegna þess að innihald þeirra var þeim ekki að skapi, þar sem það studdi ekki valdabaráttu þeirra. Þarna er að finna bækur eins og Tómasarguðspjall, Filipusarguðspjall, Guðspjall sannleikans, Launbók Jakobs, Opinberun Péturs, Guðspjall Maríu (Magdalenu) o.fl. 52 bækur alls. Irenæus biskup í Lyons skrifaði rit sem hann kallaði Eyðileggingu og kollvörpun falskrar þekkingar þar sem hann ræðst á þessi rit sem hann segir vera full af guðlasti og villutrú. Hins vegar litu höfundar þessara rita ekki á sig sem villutrúarmenn, þeir voru það aðeins í augum valdamanna kirkjunnar. Eftir að Konstanínus keisari veitti kristnum mönnum trúfrelsi árið 313 e. Kr. og kristni varð ríkistrú í Rómaveldi árið 380 gáfu biskuparnir, sem áður höfðu verið ofsóttir, nú skipanir. Nú var valdið þeirra. Það var glæpur að eiga bækur sem ekki samrýmdust kenningum kirkjunnar og bókabrennur urðu tíðar. Um páskaleytið árið 367 gaf erkibiskupinn í Alexandríu út þá skipun til munka á Egyptalandi, að þeir skyldu eyðilegga eða brenna þessi óæskilegu rit sem munkunum féll svo vel við, en þeir mættu eiga 27 rit sem talin voru upp. Var þetta í fyrsta sinn sem þau 27 rit sem síðar mynduðu Nýja testamentið voru talin upp. Þess má geta hér, að sérfræðingar á þessu sviði játa, að þeir vita í rauninni ekki hverjir voru höfundar þessara guðspjalla Nýja testamentisins. Þeir hafa verið nefndir eftir tveimur postulum, Matteusi og Jóhannesi og fylgjendum þeirra, Markúsi og Lúkasi. En hverjir hinir raunverulegu höfundur voru er ekki vitað.

Þessir kristnu menn í frumskristni, sem skrifuðu þessi rit sem kirkjan bannaði og leit á sem villutrúarrit, hafa síðar verið nefndir gnostíkerar. Gnostík kemur af gríska orðinu gnosis sem þýðir þekking, ekki þekking á efnislegum staðreyndum, heldur þekking sem fæst með innsæi, reynslu af andlegum veruleika. Ráðamenn kirkjunnar lögðu áherslu á hina formlegu hlið, kreddur, kennivald, boð og bönn – allt sem styrkti kirkjuna sem stofnun. Allt sem laut að innra lífi einstaklingsins, trúarleg eða andleg reynsla styrkti einstaklinginn, gerði hann sjálfstæðari og því hættulegan því kennivaldi sem kirkjan boðaði. Í stað þess að fara eftir kenningum kirkjunnar, vera hlýðinn safnaðarmeðlimur og forðast sjálfstæða hugsun, voru gnostíkerarnir alger andstæða, þeir hugsuðu sjálfstætt og sóttust eftir því að öðlast gnosis eða innsæisþekkingu, sem þýddi í raun og veru að fá beina reynslu af andlegum veruleika. Þetta var ekki ólíkt hugsunarhætti í indverskri heimspeki þar sem það að þekkja og upplifa atman (æðri vitund, æðra sjálf) var um leið að þekkja brahman (upplifa alheimsvitund). Hafa sumir fræðimenn talið ekki ósennilegt að gnostíkerar hafi orðið fyrir áhrifum frá Indlandi, þar sem verslunarleiðir voru að opnast við Indland á þeim tíma sem gnostíkin kemur fram eða ca. 80 – 200 e.Kr. Um og eftir árið 200 er kirkjan að mestu orðið stofnun með sitt klerkaveldi, biskupa, presta og djákna sem litu á sig sem verndara hinnar einu „sönnu trúar“. Mönnum var gert ljóst að það var enga sáluhjálp að finna utan kirkjunnar. Aðeins meðlimir kirkjunnar voru sannlega kristnir. Hefur kirkjan jafnan reynt að gera hin gnostísku guðpjöll tortryggileg, og þá ekki aðeins hin kaþólska, og m. a. sagt að gnostíkerar hafi ekki verið beinlínis kristnir, heldur hafi þeir verið undir sterkum áhrifum frá grískri heimspeki og því ekki kristnir. Nú þegar við höfum öll þessi rit í enskri þýðingu getur hver og einn kannað málið sjálfur. Nefnt hefur verið, að hefðu þessi guðspjöll fundist fyrir nokkur hundruð árum, hefðu þau örugglega verið brennd eða eyðilögð. Það er því forsjóninni fyrir að þakka, að þau fundust á tíma, þegar við njótum hugsanafrelsis og vald kirkjunnar nær ekki lengur að fela sannleikann. Gnostíkerarnir tjáðu hugmyndir sem kirkjunnar menn hryllti við. Þær helstu voru:

1) Þeir viðurkenndu ekki syndina sem orsök þjáninga.

2) Þeir litu ekki á guð sem karlkyns eingöngu, heldur bæði föður og móður.

3) Upprisu Krists álitu þeir táknræna og tóku hana ekki bókstaflega.

4) Fram kemur í sumum ritum þeirra að þeir lýsa yfir vanþóknun á kaþólskum mönnum sem gorta af því að leyndardómur sannleikans tilheyri þeim einum, þótt augjóst sé að þeir skilji ekki sjálfir leyndardóminn.

5) Gnostíkerar trúðu á endurholdgun mannssálarinnar, ekki á eitt líf og að því loknu annaðhvort himnaríki eða helvíti.

1. Hin gnostíska hreyfing átti vissa hluti sameiginlega með sállækningaaðferðum nútímans, t. d. að því leyti að þeir töldu vanþekkingu en ekki synd orsök þjáningar. Ef litið er á vanþekkingu sem orsök, er það undir hverjum einstaklingi komið að bæta sig, afla sér þekkingar og reynslu í skóla lífsins. Ef litið er hins vegar á syndina sem orsök gefur það kirkjunni sem stofnun og embættismönnum hennar vald yfir einstaklingnum, þar sem þeir einir geta veitt fyrirgefningu í skriftastólnum eða með aflátsbréfi sem var nú ekki lítil tekjulind fyrir kirkjuna á sínum tíma. Í öllu falli á þá einstaklingurinn allt undir valdi kirkjunnar og bannfæring yfirvofandi ef menn sjá ekki að sér, sem þýðir eilíf útskúfun og glötun sáluhjálpar.

2. Í tengslum við þau gnostísku viðhorf að guð væri bæði karl- og kvenkyns, faðir/móðir, áttu karlar og konur hjá þeim jafnan rétt. Tertúllíanusi kirkjuföður frá Norður-Afríku var sérstaklega illa við að konur skyldu skipa sama sess og karlar og fór um það háðulegum orðum. Hann sagði m. a.:

„Þær kenna, taka þátt í samræðum, þær reka út illa anda, þær leggja hendur yfir menn til lækninga – og hann grunar jafnvel að þær skíri“, en það þýddi hið sama og þær kæmu fram sem biskupar. Í gnostíska ritinu Pistis Sophia (trúarviska, þekkingarvísdómur) kemur fram, að Pétur postuli hafi kvartað yfir því við Jesús, að María Magdalena væri of ráðandi í samræðum við Jesús og viki úr stað hinum réttmæta forgangsrétti Péturs og hinna postulanna. Hvatti hann Jesús til að þagga niður í henni, en var þegar í stað ávítaður. Síðar játar María fyrir Jesú að hún dirfist varla að tala við hann frjálslega, því að, með hennar eigin orðum: „Pétur kemur mér til að hika, ég er hrædd við hann, því hann hatar kvenfólk.” Jesús svaraði, að hverjum þeim, sem andinn blési í brjóst, væri fyrirskipað að tala, hvort sem hann væri maður eða kona.

3. Gnostikerar afneituðu ekki upprisunni, en þeir höfnuðu bókstaflegri túlkun hennar sem „viðbjóðslegri, ógeðfelldri og óhugsanlegri.“ Upprisan þýddi samkvæmt þeirra kenningum það, að hver einstaklingur upplifi Krist í andlegum skliningi, í andlegri upplifun, annaðhvort draumi, sýn eða andlegri uppljómun. En hvers vegna lögðu kirkjunnar menn svo mikla áherslu á líkamlega upprisu og höfnuðu öllum öðrum skoðunum? Við nánari athugun sjáum við, að hin líkamlega upprisa þjónar einnig stjórnmálalegum tilgangi, því hún veitir um leið vissum aðilum vald sem arftökum Péturs postula. Þaðan kemur hin svokallaða „successio apostolica“ eða hin postullega vígsluröð, sem veitir páfanum það vald sem hann hefur haft allt til þessa dags.

4. Í upphafi Guðspjalls Maríu (Magdalenu) eru lærisveinarir að syrgja Jesús eftir dauða hans og óttast um eigið líf. Þá stendur María Magdalena upp, hughreystir þá og minnir þá á ævarandi nálægð Krists: „Grátið ekki og syrgið ekki og efist ekki, því að náð hans mun verða með ykkur algjörlega og mun vernda ykkur.“ Þá biður Pétur hana að rifja upp orð frelsarans sem hún man, en þeim til mikillar undrunar segir hún ekki frá því, heldur segir hún frá því sem Drottinn hafði sagt henni í sýn. Þá bregðast þeir við Andrés og Pétur og segjast ekki trúa því sem hún segir. Þá grætur María og segir við Pétur: „Bróðir minn, Pétur, hvað heldur þú? Heldur þú að ég hafi hugsað þetta sjálf í hjarta mínu? Heldur þú að ég sé að ljúga um frelsarann?“ Þá svarar Leví, lærisveinn Jesú, og segir við Pétur: „Pétur, þú hefur ávallt verið skapmikill… Ef frelsarinn virti hana, hver ert þú að neita henni?“ Eftir að hafa þannig fengið uppreisn fer María út með hinum lærisveinunum. Hér kemur greinilega fram, hve Pétur virðist túlka sjónarmið rétttrúnaðar, bókstafstrúar sem efast um þá sem „sjá frelsarann“ í sýn. María virðist á hinn bóginn fulltrúi gnostískra sjónarmiða sem telur sig upplifa áframhaldandi návist hans. Í gnostísku ritunum kemur skýrt fram, að samband Maríu og Jesús var mjög náið. Í Filippusarguðspjalli er þess meira að segja oft getið, að Jesús hafi kysst Maríu á munninn. Því spurðu lærisveinarnir hvort hann elskaði hana meira en þá.

Um 500 árum síðar kallar Gregoríus páfi, nefndur hinn mikli, Maríu Magdalenu skækju, sem loðaði við nafn hennar æ síðan þar til nýlega, að fulltrúar kaþólsku kirkjunnar hafa játað, að þetta hafi verið mistök. En um hugsanlega ferð Maríu Magdalenu yfir Miðjarðarhafið til Suður-Frakklands er hvergi getið í gnostísku ritunum, hvað þá að hún hafi þá verið barnshafandi.

5. Dr. Pagels ræðir ekki endurholdgun sem slíka í bók sinni Gnostísku guðspjöllin, en víða kemur fram að gnostíkerar trúðu á endurholdgun. Í áðurnefnda gnostíska ritinu Pistis Sophia er að finna allmikið efni um endurholdgun. Í einum kafla er Kristur að kenna lærisveinum sínum hve alvarlegar afleiðingar slæmra persónugalla geta orðið í næsta lífi. Hjá einstaklingi, sem bölvar öðrum, mun slæm samviska naga hjartarætur hans í næsta lífi. Hann óskaði öðrum vandræða og nú fær hann þau yfir sig sjálfur. Hrokafullur persónuleiki gæti fengið líkamleg lýti í næsta lífi og verður því litið niður á hann. Á sama hátt segir Kristur að hver löstur hafi sínar afleiðingar. Áður en slík persóna endurfæðist mun hún – eins og reyndar flestir – drekka óminnisdrykkinn og getur því ekki munað fyrri æviskeið eða hvað gerðist á tímskeiðinu á milli jarðvistanna.

Lærisveinninn Jóhannes velti því fyrir sér, hvort einstaklingur eigi sér nokkra von, sem drýgt hefur allar syndir og beitt aðra ranglæti, en hefur að lokum fundið leyndardóma ljóssins. Er mögulegt fyrir hann að frelsast?

Frelsarinn svarar: „Slíkur einstaklingur sem drýgt hefur allar syndir og beitt aðra ranglæti og finnur leyndardóma ljóssins, ræktar þá og uppfyllir þá og hættir að syndga, hann mun sannarlega erfa fjársjóð ljóssins.”

Jóhannes heldur áfram og spyr: „Hvað gerist hjá einstaklingi sem ekki hefur syndgað, hefur ávallt gert góðverk, en hefur samt ekki fundið leyndardómana? Slíkur einstaklingur, segir Kristur, drekkur ekki óminnisdrykkinn fyrir fæðingu. Hann fær miklu fremur bikar fylltan viskuhugsunum og tærum huga. Síðan fæðist hann í líkama sem getur hvorki sofið né gleymt vegna bikars hins tæra huga sem honum var gefinn. Hann mun vekja hann til að leita og spyrja um leyndardóma ljóssins uns hann finnur þá vegna ákvörðunar Ljósmeyjunnar og erfa ljósið að eilífu.“ Kristur leggur á það áherslu aftur og aftur, að æðsta takmarkið sé svo stórkostlegt, að þótt við losnum við syndina geti það eitt ekki tryggt þessa fullkomnun. Þekkingin á leyndardómunum er frumskilyrði.

Það eru þessir leyndardómar sem eru þess virði að uppgötva. Gnostíski kennarinn Valentinus benti á, að Jesús kenndi lærisveinum sínum hluti, sem hann hélt leyndum fyrir öðrum. Þetta kemur fram í Markúsarguðspjalli (4:11): „Yður er gefinn leyndardómur guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir og skynji ekki og heyrandi heyri þeir og skilji ekki …“ . Því er haldið fram, að gnostíkerarnir hafi varðveitt þessa leyndu kenningu Jesú.

Það sem við uppgötvum við þessa athugun og sér í lagi við lestur hinna gnostísku guðspjalla er, að það átti að eyðileggja þau þegar í frumkristni, en kirkjunni tókst það ekki. Hún hefur reynt að halda sannleikanum leyndum í 2000 ár. Öllum að óvörum fundust þau árið 1945 og nú geta allir lesið þau. Það er því rétt í Da Vinci lyklinum, að kaþólska kirkjan hafi reynt hvað hún gat til að koma í veg fyrir að viss þekking sæi dagsins ljós, en þekkingin sem lykillinn opnar er miklu eldfimari en okkur grunaði. Hvers vegna voru þessi rit bönnuð, hvað gerði þau svona hættuleg? Við skulum gera okkur ljóst, að það er grundvallarmunur á kenningum kirkjunnar og gnostíkinni. Kirkjan segir sáluhjálp aðeins geta gerst fyrir milligöngu kirkjunnar, en samkvæmt gnostíkinni er hver einasta mannssál tengd guði gegnum sitt æðra sjálf. Gnostíkin er ekki tvíhyggja eins og oft er nefnt. Í bók sinni The Gnostic Gospels segir dr. Pagels á bls. 31 m.a.: „Ýmsir fræðimenn nú á dögum hafa talið gnostíkina vera háspekilega tvíhyggju, en Klemens frá Alexandríu segir að einnig hafi verið boðuð gnostík sem ekki hafi átt neitt skylt við tvíhyggju. Handritafundurinn í Nag Hammadi sýnir svo ekki verður um villst að kenning Valentínusar var í engu í ætt við tvíhyggju.“ Nú fyrst geta þeir, sem stimplaðir voru villutrúarmenn, „talað frjálst“, þ. e. gegnum útgáfu gnostísku ritanna. Og hver og einn getur spurt sig hvort hann vill vera hlýðinn sauður, heilaþveginn af kenningum stofnunar, sem margsinnis hefur gerst sek um óheiðarleg vinnubrögð, eða að fá að vera hann sjálfur, geta hugsað sjálfstætt og geta samt öðlast þekkingu á leyndardómunum. Þótt við uppgötvum einhverja af þeim leyndardómum Da Vinci lykilsins, sem fjallað er um í bókinni, eru þeir þrátt fyrir allt að mestu leyti á sviði táknfræði, hugvísinda eða sagnfræði. En leyndardómar ljóssins hjá gnostíkerum eru hins vegar þeir lifandi leyndardómar sem hver og einn getur leitað og hver á sinn hátt getur reynt að uppgötva og upplifa fyrir sjálfan sig.

Fyrri Hvað felst í því að vera guðspekisinni?
Næsta Neti og iti
Efnisyfirlit