Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Hvað felst í því að vera guðspekisinni?

Höfundur: Halldór Haraldsson

Hvað felst í því að vera guðspekisinni?  Fyrst að athuga hvað við eigum við með guðspeki. Oftast eru nefndar tvær hliðar á þessu hugtaki. Annars vegar er hin algilda hlið, þ.e.a.s. að með guðspeki sé átt við hugsanleg hinstu sannindi um heiminn og tilveruna  og hins vegar eru svo afstæðar kenningar  um heiminn og tilveruna, um stöðu mannsins í heiminum o.s.frv. Þar er um að ræða afstæðar tilraunir til þess að afla sér þekkingar og skilnings á heiminum og átta sig á stöðu mannsins í honum.

Orðið guðspeki er þýðing úr grísku og samanstendur af “theos” þ.e. guð og “sophia” þ.e. viska eða  speki. Talið er að orð þetta hafi verið fyrst verið notað hjá nýplatónistum í Alexandríu á þriðju öld, en þá voru uppi menn eins og Ammonius Sakkas og Iamblichus, miklir spekingar. Geta má þess að Plótínus var nemandi Ammonius Sakkas í ein tíu ár og einnig hinn þekkti Origenes.

Upprunaleg stefnuskrá Guðspekifélagsins, er það var stofnað árið l875 var aðeins ein setning: “Stefnumark félagsins er að safna og dreifa þekkingu um lögmál þau sem stjórna heiminum.” En sú sem við  þekkjum í dag kom eftir  ýmis fundarhöld og  hugleiðingar árið l896. Þá varð fyrsta stefnuskráratriðið: “ Að móta  kjarna úr allsherjar bræðralagi mannkyns, án tillits til kynstofna,  trúarskoðana, kynferðis, stéttar eða hörundslitar.” Þarna koma fyrst fram í heiminum atriði varðandi jafnrétti kynjanna, hörundlit, trúarskoðanir o.fl. sem löngu síðar voru tekin upp í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. En það var í þessari stefnuskrá Guðspekifélagsins sem þessi atriði sáu fyrst dagsins ljós. Guðspekifélagið var sem sagt miklu róttækara en fólk gerir sér almennt grein fyrir og langt á undan sínum tíma.

Varðandi þetta fyrsta stefnuskráratriði vil ég þá fá að vitna í forseta félagsins, Rödhu Burnier. Hún segir: “Það felst mystískur eiginleiki í bræðralagi. Í því felst ekki aðeins venjuleg reynsla. Þegar sumir segja að stefnuskráratriði Guðspekifélagsins um bræðralagið sé úrelt, vita þeir ekki  hvað þeir eru að segja. Þeir virðast líta á það á ósköp venjulegan hátt og skilja ekki dýptina og sannleikann sem felst í þessari stefnumörkun. Þeir telja margar stofnanir styðja alþjóðleg samskipti. Sameinuðu þjóðunum sé ætlað að færa þjóðirnar nær hver annarri. Þessi hugmynd hafi breiðst út um allan heim. Því sé hægt að leggja þetta stefnuskráratriði til hliðar. En frá dýpra sjónarmiði er langt frá því að alheimsbræðralag hafi orðið að veruleika. Og hvergi sjáum við það í framkvæmd. Nema því aðeins að við lítum á þetta stefnuskráratriði sem dýpri sálræna byltingu, getum við ekki til lyktar leitt hlutverk félagsins, með þeirri orku sem nauðsynleg er.  Þegar  vitund mannsins losnar við fordóma og þröngsýni,  þegar hún hættir að aðskilja sig frá öllu öðru, mun nýr heimur fegurðar, frelsis og góðleika koma í ljós á efnissviðinu og á fíngerðari sviðum. Krishnamurti segir: “Þar sem sjálfið ríkir er fegurðin ekki til.” Ég vil leggja áherslu á að er hann er að ræða um sjálfið er hann að tala um hið persónulega egó, ekki  æðra sjálfið.” Og hún heldur áfram: “sem er góðleikinn, friður og hamingja. Ef við íhugum þetta vel ætti ekki að vera erfitt að skilja að alheimsbræðralag, án nokkurs ágreinings eða takmarka, er vitundarbylting. Hún er það sem breyta mun mannkyninu og færa það á nýtt tilverustig.”

Hugmyndir manna um Guðspekifélagið hafa oft verið tengdar Annie Besant, en er hún var forseti félagsins komst það eiginlega í tísku og þótti fínt að vera í Guðspeki-félaginu á Bretlandi.  En það vill stundum gleymast hve róttæk hún í rauninni var.

Oft var hún fangelsuð fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna. Hún vissi, að oft urðu þjónustustúlkur  á einkaheimilum óléttar og vildi hún koma í veg fyrir slík óhöpp með getnaðarvörnum. En þá var tíðarandinn þannig að umræða um slík mál var viðkvæm, þótti hreinlega dónaleg, ekki sæmandi. Var hún því oft fangelsuð. Annie Besant var vakandi manneskja sem barðist fyrir mörgum mannréttindamálum sem þykja sjálfsögð í dag. Þannig var hún mjög róttæk á sínum tíma og hefur því örugglega flýtt fyrir almennri viðurkenningu á ýmsum mannréttindamálum.

Hugum aðeins nánar að hvað felist í því að vera guðspekisinni. Hver eru einkenni hans? Minnt skal á, að þetta eru aðeins mínar persónulegu hugleiðingar. Hann kemur mér fyrst og fremst fyrir sjónir sem leitandi og fordómalaus maður. Hann er óháður kreddum, hvers konar einstefnuhugsunarháttur er honum ekki að skapi og hann reynir að temja sér umburðarlyndi. Hann leggur fremur áherslu á það það sem sameinar en það sem sundrar. Um leið og hann leiðir hugann að langtímaþróun, er hann sér einnig meðvitandi um  augnablikið sem er að líða. Þá skulum við vona að hann sé hleypi-dómalaus, íhugull og kyrrlátur. Og þó hann reyni að vera í jafnvægi og temji sér yfirvegun ræktar hann jafnframt með sé snerpu og viðbragðsflýti.

Allt sem hér er upp talið er andstætt bókstafstrú, hvaða nafni sem hún nefnist, að ekki sé minnst á  ofsatrú hvers konar, sem við höfum verðum óþægilega vör við í heiminum nú á dögum. Hann gerir sér far um að reyna að skilja grundvallaratriði í hegðun mannsins, þess sem liggur að baki hugsjónum hans og hugsunarhætti í stað þess að fylgja blint einhverjum sérstökum stjórnmálaskoðunum eða trúarbrögðum. Einnig því hvers vegna maðurinn þurfi að festa sig í einhverjum slíkum skoðunum, tilheyra einni fylkingu eða annarri. Hann reynir að sjá málin í heild, frá fleiri hliðum.

Auk langtímasjónarmiða gerir hann sér grein fyrir því, að þegar allt kemur til alls er eini raunveruleikinn sem við höfum stundin sem er að líða. Þetta hafa margir hér í félaginu hugleitt, reynt að lifa í núinu.  Nýlega heyrði ég skemmtilega hlið á hugleiðingum um núið:  “Núið er snúið því það er aldrei búið!” 

Við skulum einnig vona, að yfirleitt sé guðspekisinninn skapandi í eðli sínu. Að hann reyni að líta hlutina með opnum huga. Að hann sé spyrjandi. Hafi meiri áhuga á því að spyrja en að festast í niðurstöðum. Oftar en ekki stundar hann einhverja iðkun. Yoga-iðkun er mjög algeng, oft andleg fremur en líkamleg, nema hvort tveggja sé. Þá er um að ræða iðkun hugleiðingu af einhverju tagi, kanna starfsemi hugans, tileinka sér vakandi athygli og aukinn skilning á sjálfum sér og öðrum. Ennfremur gerir hann sér grein fyrir, að sá hugsunarháttur að draga fólk í dilka geti haft alvarlegar afleiðingar, en mjög algeng tilhneiging nú á dögum og oft rót alls kyns vandræða er að skilgreina hópa fólks og dæma í stað þess að skoða hvern einstakling fyrir sig. Þannig eru menn flokkaðir og merktir sem negrar, gulir menn eða hvítir, gyðingar, Múslimar, kommúnistar og jafnvel Ameríkanar eru fordæmdir fyrir eitt og annað. Hugsunarlaus alhæfing, ímyndir í huga mannsins oft á ekki stoð í raunveruleikanum.

Annað sem lýtur að guðspekisinnanum og hann getur sjálfur lært mikið af er að kynna sér sögu félagsins. Ekki endilega staðreyndirnar, heldur hvernig menn hafa brugðist við atburðum hvers tíma og hvernig hið sögulega ferli hefur orðið til. Í gegnum tíðina hefur fólk í félaginu stúderað ýmis fræði og sjónarmiðog haldið um það fyrirlestra. Þá hafa komið fram einstaklingar sem sýna færni og kunnáttu á einhverju sérstöku sviði.  Til verða hópar, sem hefa áhuga á viðkomandi efni og flykkjast í kringum einhvern einstakling. Að lokum klofnar hópurinn út úr félaginu og stofnar nær nýtt félag. Smám saman þrngist hugsunarháttur hópsins og missir að lokum sjónar af víðari sjónarmiðum félagsins. Hér er ekki verið að dæma slíka þróun. Hún er mannleg og á sínar skýringar. Skoðum nokkur dæmi:

Einn áhrifamestu stofnfélaga á sínum tíma, auk Blavatsky og Olcotts, var varaforseti félagsins, William Q. Judge, en hann starfaði mest í Bandaríkjunum. Hann var frábær fyrirlesari og miklum mannkostum búinn, en hann varð valdur að fyrsta klofningi frá félaginu l895, tuttugu árum eftir að félagið var stofnað. Að honum látnum tók við kona, Katherine Tingley að nafni,  mjög sérstök persóna. Höfuðstöðvar  þessa brots voru í La Jolla í Kaliforníu. Lagði frú Tingley mikið upp úr dulúð og dulspeki og kom stundum fram sem eins konar véfrétt. Hún var frekar fjandsamleg aðalfélaginu, en eftir dauða hennar tók við dr. Puruker, mjög góður maður, en eftir hann eru margar góðar bækur. Hann náði aftur betri tengslum við upprunalega félagið í Adyar á Indlandi. Í dag held ég að tengsl félaganna séu með besta móti og staða þessa klofnings frá aðalfélaginu góð. Höfuðstöðvarnar hans eru nú í Pasadena í Kaliforníu. Þarna er umfangsmikil bókaútgáfa, en meðal nýrra rithöfunda þeirra er merkileg kona, Sylvia Cranston, sem skrifað hefur nokkrara athyglisverðar bækur. Hefur henni m.a. hotnast sá heiður að halda nokkra fyrirlestra í Harvard-háskóla um guðspekileg efni.

Næst mætti nefna klofning, sem kom uppúr l930, en fyrir honum stóð Rudolf  Steiner, mjög merkur vísindamaður og heimspekingur á Þýskalandi. Hann var forseti þýsku deildarinnar í félaginu. En þegar Stjarnan í Austri var stofnuð í kringum Krishnamurti, var hann svo mótfallinn því félagi, að hann rak hreinlega þá félaga úr Guðspekifélag-inu, sem gerðust félagar í Stjörnufélaginu og endaði málið með því að Annie Besant neyddist til að taka þýsku deildina út. Seinna var hún endurreist. En Rudolf Steiner stofnaði hins vegar sitt eigið félag, sem hann nefndi Mannspekifélagið (Anthropo-sophical Society), afar merkilegt félag sem tengst hefur mörgum sviðum mannlegs lífs og haft hefur víðtæk og og góð áhrif í heiminum. Má því segja að það hafi verið heillaspor, er hópur Steiners klofnaði frá félaginu og hann stofnaði sitt eigið.

Annar  maður kom nokkru síðar, Max Heindel að nafni. Hann var  leiðtogi Rósar-krossreglunnar í heiminum og mikill fræðari. Starfaði hann í fyrstu innan Guðspeki-félagsins, en fór síðan út úr því með hóp fylgjenda sinna sem leiðtogi Rósarkross-reglunnar.

Það sem mér finnst að við getum lært af þessu er, að með veru okkar í þessu félagi þar sem við stúderum hin ýmsu og ólíku fræði sé unnt að gera slíkt án þess að komi til árekstra. Þótt félagar starfí í hinum ýmsu stúkum þar sem þeir leggja stund á hin  ólíkustu fræði sé unnt að gera slíkt með gagnkvæmri virðingu. Ég held meira að segja að nú sé að koma upp áhugi á því aftur, að hver stúka taki fyrir visst viðfangsefni á svokölluðum innri fundum. Það yrði áreiðanlega ávinningur fyrir félagana ef þeir tækju fyrir eitthver slík efni og ynnu að þeim saman. Einnig á að vera frjálst hverjum félaga að taka þátt í slíkri stúderingu þótt hún sé í annarri stúku en hann tilheyrir.

Þetta var nú reyndar hugsunin að baki félagsins að stofna ekki einn sértrúarsöfnuðinn enn, heldur væri unnt að sýna fram á, að fólk gæti lifað og starfað saman í félagi í sátt og samlyndi. Það á að vera vítt til veggja í félaginu og það reynir því á víðsýni félagana ef upp kemur einstefnuhugsunarháttur. En þetta þýðir ekki að guðspekisinni eigi að vera “samnefnari”, eins konar hrærigrautur alls  kyns kenninga. Hann kynnir sér hin ýmsu fræði og kenningar sem hann hefur mestan áhuga á sjálfur, en er um leið opinn og hlustar á önnur sjónarmið.

Skoðum nú annað og þriðja stefnuskráratriðið. “Að hvetja menn til að leggja stund á samanburð trúarbragða, heimspeki og náttúruvísindi .”  Og:  “Að rannsaka óskilin náttúrulögmál og öfl þau er leynast með mönnum.” 

Í hinu fyrra felst ekki aðeins að kanna, rannsaka, bera saman hin ýmsu trúarbrögð og kynna sér kenningar heimspekinga heims, heldur og að stúdera ýmis andleg fræði, innri fræði trúarbragðanna, andleg vísindi óháð trúarbrögðum, auk þess að kynna sér ýmislegt sem er að gerast í vísindum. Allt fer þetta að sjálfsögðu eftir áhugamálum hvers og eins, en það sem gerir þessar stúderingar guðspekisinnna markverðar er að hér er hver og einn að kanna slíkt óháður hvers konar kennivaldi eða kennisetningum, fordómalaus og með opnum huga. Með lestri bóka náum við vissum tengslum við höfundana sjálfa, þekkingu þeirra og viðhorf. Við öðlumst innsýn í vinnu þeirra og rannsóknir og getum þannig orðið margs vísari. Slíkur lestur, hugleiðingar um inntak hans og ekki síst viðræður um hann við aðra með svipuð áhugamál, geta veitt okkur betri skilning á heiminum sem við búum í og hlutverki okkar í honum.  Þannig geta þeir sem kunnugir eru sögu félagsins haft betri skilning á því sem er gerast í nútímanum í ljósi slíkrar þekkingar og þannig  komð í veg fyrir slys eða mistök. Þannig gerum við okkur grein fyrir því, að óþarft er að detta aftur í sömu gildrurnar.

Og í þriðja stefnuskrársatriðinu felst, að með iðkun hugleiðingar og könnunar hins innri veruleika geti hver og einn kynnst sjálfum sé betur, innri veruleika sínum og þeim  öflum sem þar búa. Með innri hugskoðun uppgötvum við það sem mest er um vert, hinn innri veruleika okkar, sem ekki er unnt að skynja eða upplifa með lestri bóka einum saman.

Í framhaldi af þessu komum við að einkunnarorðum félagsins, hinum athyglisverðu og mikilvægu orðum, sem oft hafa verið gagnrýnd og valdið  misskilningi:  “Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.“  Í  þessu sambandi vil ég fá að vitna í meistarann Koot Humi í bréfi hans til A.P. Sinnet, l882. Athugið hvaða ár bréfið er skrifað, þ.e. 1882. Þar  segir hann:  “Vanþekkingin skapaði guðina og kænskan notfærði sér tækifærið. Lítið á Indland og horfið á Kristindóminn og Islam, Gyðingdóminn og skurðgoðadýrkun. Það eru svik prestastéttanna sem gerðu guðina svo hræðilega manninum; það eru trúarbrögðin sem gerðu prestana eigingjarna kreddukarla, ofstækismennina sem hata menn sem standa utan söfnuðar þeirra án þess að bæta þeim það upp á nokkurn hátt. Það er trúin á guð og guði sem gerir tvo þriðju hluta mannkyns að þrælum örfárra sem blekkja þá undir því falska yfirskini að þeir séu að bjarga þeim.” Þetta eru róttæk orð á þessum tíma. Hann heldur áfram:  “Er maðurinn ekki ávallt reiðubúinn að fremja hvers konar illvikri sem guð hans eða guðir krefjast af honum – sjálfviljugt fórnarlamb ímyndaðs guðs, auðmjúkur þræll slóttugra presta?  Írski, ítalski og slavneski bóndinn sveltir sig og fjölskyldu sína til að fæða prest sinn og páfa. Í tvö þúsund ár hefur Indland stunið undan þunga stéttaskiptingarinnar, Brahminarnir einir hirða gæði landsins og nú á dögum berast fylgjendur Krists og Múhameðs á banaspjótum í nafni dýrðar sinna goðsagna.  Munið, að magn mannlegrar þjáningar mun aldrei minnka fyrr en betri helmingur mannkyns rífur niður altöru falskra guða í nafni sannleikans, siðferðis og alheimslegs kærleika.”

Þessi kafli úr bréfi meistarans verður að teljast merkilegur.  Í raun er hann að lýsa  ástandinu í heiminum eins og það er í dag. Athugum hvernig trúarbrögð verða til:  Fram kemur spámaður og hann oftast innblásinn, telur sig vera í sambandi við æðri veruleika, guð eða hvað hann nú kallar hann. Hann er áhrifamikill og samtímamenn hans sjá von í líferni slíks manns. Þessir sömu samtímamenn, fylgjendurnir, verða oftast kaþólskari en páfinn og til verða kreddur og kenningar. Ferlið er:  Spámaður, þá fylgjendur og síðan prestastétt. Með prestastéttinni kemur vald. Afleiðing valds er oftast spilling.  Valdið spillir sem sagt og prestarnir halda fylgjendunum í ótta.  Það er athyglisvert, að í orðum Koot Humis koma fram svipuð sjónarmið og oft koma fram hjá Krishnamurti. Í viðtali sem Krishnamurti átti við merkan prófessor í Bandaríkjun-um, bendir hann á hve fólk almennt er fullt ótta, ótta við hið óþekkta í heiminum og tilverunni. Öll erum við að leita, eins og við í þessu félagi.  En þegar fram kemur maður sem segjast vita, hvort heldur prestur eða indverskur gúru í yoga, verður með honum til kennivald, en Krishnamurti leggur áherslu á frelsi einstaklingsins og eins og við vitum eins og mikil áhersla er lögð á í þessu félagi. Kennivaldið byggist á ótta mannsins. Þegar maðurinn er fullur ótta undir áhrifum prestastéttar verður  hann oftast ofbeldishneigður, en dæmi um það sjáum við ljóslifandi í fréttum á hverjum degi. Fólk sem er undirokað slíku kennivaldi telur sig hólpið með því að fremja allskyns illvirki. 

En kennivaldið tengist ekki aðeins prestum. Krishnamurti segir í viðtali: “Vísinda-menn, stjórnmálamenn, fræðsluyfirvöld  og trúarstofnanir, allt eru þetta aðilar sem mynda svokallað kennivald. Við yfirfærum ábyrgð okkar yfir á þá og losum okkur sjálf um leið við alla ábyrgð. Afstaða okkar er: Við vitum ekki, þeir vita. Ég segi hins vegar: Þú sjálfur berð ábygðina, því þú ert heimurinn. Þú sjálfur berð alla ábyrgðina, enginn annar. Því verður þú að vera þitt eigið leiðarljós. Þú berð ábyrgð. Hvað felst í því? Það þýðir að þú verður að bregðast við af fullri ábyrgð við allri áskorun. Ábyrgð felur í sér algjöra skuldbindingu gagnvart hverskonar áskorun, ögrandi vandamálum, aðsteðjandi hættu o.s.frv. Við verðum að bregðast við algjörlega óskipt.  Slíkt geri ég ekki ef að ég er smeykur eða ef að ég leita munaðar, skemmtunar eða ef  athafnir mínar eru  samofnar fortíðinni, eiga sér fastar rætur í fortíðinni. Þess vegna verður ég-ið að líða undir lok. Til að vera laus við ok kennivalds, verður þú að geta dáið öllum gærdögunum, svo að hugur þinn sé ávallt ferskur, síungur, saklaus, fullur af þrótti og ákafa. Það er aðeins í því ástandi sem að við getum skoðað og lært. Ofbeldi er ekki aðeins líkamlegt, það getur einnig verið sálrænt. Þegar ég samkenni mig einhverjum kenningum, þegar við látum aðra fylla okkur skoðunum, þegar þú segir mér hvað ég eigi að gera og á að vera mér fyrir bestu í andlegum skilningi og ég hlýði og fer eftir fyrirmælunum, þá er um andlegt ofbeldi að ræða. Vegna óvissu og óreiðu leita ég  kennivelds og þú kemur og gefur mér fyrirmæli, gúrúinn eða fræðarinn . Fræðararnir nú á tímum hafa öðlast mikil völd og eru sumir hverjir í hópi ríkustu manna heims. Úr óvissu minni skapa ég kennivald fræðarans. Þá er spurningin: Getum við lifað án kennivalds? Ef við getum það þá ríkir hjá okkur eðlileg regla núna, ekki einhvern tíman á morgun eða seinna. Spurningin er ekki um viðurkenningu annars vegar eða neitun hins vegar. Heldur það að leita inná við í okkur sjálfum, en það krefst ekki neins kennivalds. Þvert á móti krefst það þess að þú fylgir ekki neinum öðrum og sért sjálfur þitt eigið leiðarljós.

Svo spyr hann: Er ekki mögulegt að vera frjáls? Sá sem virkilega vill vita hvort eitthvað sé til handan við hugann, eitthvað eilíft, verður að neita öllu því sem hugsunin byggist á, öllum frelsurum, öllum gúrúum og öllu þessháttar. Er einhver reiðubúinn að gera það.Við hvað er fólk hrætt? Við verðum að losa hugann við alla þessa hluti, sem við höfum safnað að okkur. Þá verðum við saklaus og ósæranleg. Höldum í ferð þaðan, ferð neitunar á öllum hlutum, sem hugurinn hefur saman sett. Annars mun eiga sér stað endalaust mas um hið þekkta, bækur, o.s.frv., sem engan enda tekur. Og svo segir hann að lokum: Í okkur býr allur heimurinn og ef að þú veist hvernig á að horfa og læra, þá eru dyrnar opnar og lykillinn í hendi þinni. Enginn á jarðríki getur gefið þér lykilinn, eða lokið upp dyrunum nema þú sjálfur.”

Fyrri Henry Steel Olcotts minnst
Næsta Hvað opnar Da Vinci lykillinn?
Efnisyfirlit