Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Henry Steel Olcotts minnst

Höfundur: Halldór Haraldsson

21. júní 2007

Erindi við opnun Sumarskóla Guðspekifélagsins

28. júní 2007.

Hinn 17. febrúar á þessu ári voru 100 ár liðin frá andláti Henry Steel Olcotts, fyrsta forseta Guðspekifélagsins og eins af helstu stofnendum félagsins. Hefur þess verið minnst í hinum ýmsu deildum Guðspekifélagsins víða um heim á undanförnum mánuðum. Eins og mörgum er kunnugt hefur oft verið sagt, að Blavatsky hafi gefið heiminum guðspekina, en Olcott Guðspekifélagið. Það er því ekki nema eðlilegt að minnast þessa merka manns hér og rifja upp fróðlega og forvitnilega þætti í lífi hans.

Henry Steel Olcott fæddist 2. ágúst 1832 í New Jersey í Bandaríkjunum. Hann var því einu ári yngri en H.P.Blavatsky. Hann var kominn af bresku heittrúarfólki sem flust hafði til Bandaríkjanna. Árið 1860 kvæntist hann Mary Apple Morgan, en með henni átti hann fjögur börn. Hjónaband þeirra reyndist ekki farsælt og þau skildu samvistum 1874. Sem ungur maður öðlaðist Olcott frægð fyrir að stofna fyrirmyndar bú með vísindalegum aðferðum í jarðrækt. Varð þetta m.a. til þess, að er hann var 23 ára var honum boðin staða yfirmanns Vísindalegrar jarðræktarstofnunar í Aþenu, sem hann reyndar hafnaði og stuttu síðar stjórnunarstöðu sams konar stofnunar í Washington, sem hann hafnaði einnig. Hann hafði skrifað bók um um ræktun sykurreyrs, sem hlaut svo góðar undirtektir að mælt var með henni sem kennslubók, en 1859 varð hann ritstjóri jarðræktarhluta New York Tribune. Nú urðu þáttaskil og í næsta þætti ævi hans var hann var skipaður yfirmaður rannsóknar á spillingu í bandaríska sjóhernum. Þrátt fyrir ógnanir glæpamanna og að stofna lífi sínu í hættu fletti hann ofan af spillingunni. Fyrir vel unnið verk og hugrekki það sem hann sýndi við uppljóstrun spillingarinnar, sem reyndist meiri en grunað hafði verið í fyrstu, hlaut hann mikið lof og var sæmdur ofursta-nafnbót. Í framhaldi af þeim störfum var hann síðan skipaður í þriggja manna nefnd til að rannsaka morðið á Lincoln forseta. Ekki er ætlunin að fara nánar út í þessa þætti hér, en þeir sýna hve mikils traust hann naut og þá miklu ábyrgð sem hann var látinn axla. Í framhaldi af því hélt hann áfram námi í lögfræði og lauk hann lögfræðiprófi 1868 og starfaði um hríð sem slíkur. Árið 1874 fór Olcott að fá áhuga á spirtisma. Það var einmitt á því sviði sem fundum hans og Blavatsky bar saman. Sama ár les hann um dularfull fyrirbrigði sem sögð voru gerast hjá fjölskyldu nokkurri í Chittenden í Vermont. Hann heimsótti þennan stað nokkrum sinnum og í einni slíkri heimsókn eða 14. október 1874 hittir hann Blavatsky þar. Í hinum stórfróðlegu bókum sínum Old Diary Leaves eða Gömlum dagbókarblöðum (í 6 bindum) segir hann m.a. frá fyrstu fundum þeirra. Í upphafi fyrsta bindis segir hann: “Þar sem mér ber að segja frá fæðingu og uppvexti Guðspekifélagsins verð ég að byrja á byrjuninni, hvernig fundum stofnendanna bar saman. Það var raunar mjög hversdagslegt: Ég sagði “Permettez moi, Madame,” eða “leyfið mér, frú” og kveikti í vindlingi hennar. Kynni okkar hófust í reyk, en hann varð að miklum og varanlegum eldi.”

Um þetta leyti bjó Blavatsky í íbúð á 3. hæð í Irving Street nr. 46 í New York og þar sem hún hafði þegar vakið athygli fyrir óvenjulega þekkingu sína og ekki síður dulrænar gáfur voru ýmsir frjálshugsandi menn farnir að venja komur sínar þangað. (Lamasetrið í 47. stræti 302 West). Þeir sem komu voru vísindamenn á ýmsum sviðum, rithöfundar, málvísindamenn, fornfræðingar, víðsýnir prestar, lögfræðingar, læknar, blaðamenn o.fl. Í dagbókum Olcotts er afar fróðleg lýsing á tilurð Guðspekifélagsins.Þar segir hann:”Kvöld eitt, hinn 7. september 1875, hélt Hr. Felt (arkitekt) fyrirlestur sem hann nefndi: “Hin týndu rit um hlutföll í húsagerðalist forn-Epypta.” Hann var frammúrskarandi teiknari og hafði undirbúið sig með nokkrum frábærum teikningum sem sýndu kenningu hans um hlutföllin sem forn-Egyptar notuðu, en einnig forn-Grikkir. Hann hélt því fram, að með því að fylgja vissum vísbendingum væri unnt að innrita það sem hann kallaði “fullkomna stjörnu.” Síðar segir Olcott: “Meðan á fyrirlestrinum stóð fékk ég hugmynd sem ég hripaði á miða og rétti William Judge sem var næstur mér og bað hann að rétta hann Helenu Blavatsky sem sat við hlið hans. Á miðanum hafði ég skrifað: “Væri það ekki góð hugmynd að stofna félag um svona rannsóknarefni (stúdíu) ?” Blavatsky las miðann og kinkaði síðan kolli til mín.” Þannig varð til kveikjan að stofnun Guðspekifélagsins. Um nafn félagsins sagði Olcott: “Val á nafni fyrir félagið var auðvitað mikið rædd. Margar uppástungur komu og meðal þeirra, ef ég man rétt, voru Félag um egypsk fræði, Félag um hermetísk fræði, Rósarkrossfélagið o.s.frv. , en engin þeirra virtist ná því sem við höfðum í huga. Eftir að fletta í gegnum orðabók, fann eitt okkar orðið Guð-speki (Theosophy) og eftir nokkar umræður urðum við öll sammála um að það væri best.”

En, þetta var ekki fyrsta tilraunin til stofnunar slíks félags. Er Blavatsky var í Kairó 1871 eftir að ferðast um Austurlönd, og var að hefja störf sín fyrir hina andlegu fræðara sína, gerði hún tilraun til stofnunar félags, sem hún nefndi Société Spirite. Sú tilraun misheppnaðist. Um það sagði Olcott:” Ég varð erfingi hinna misheppnuðu tækifæra Kairófélags hennar 1871.” Þá fékk hún boð um að fara til New York, þar sem hún hitti Olcott og þau stofnuðu Guðspekifélagið. Þrem árum síðar eða 18. desember 1878 fara Helena P. Blavatsky og Olcott ofursti frá New York til Indlands. Í farteski sínu hafði Olcott meðmælabréf frá forseta Bandaríkjanna til allra sendiherra og konsúla, sérstakan diplomatapassa og hálfformlega skipun um myndun menningar- og viðskiptatengsla. Þau komu til Bombay (Mumbay) um miðjan febrúar 1879 og 1882 stofna þau höfuðstöðvar Guðspekifélagsins í Adyar. Framundan beið þeirra mikið starf, hann að byggja upp félagið, hún að skrifa bækur. Olcott skrifaði einnig töluvert og hélt fyrirlestra. Auk Old Diary Leaves í 6 bindum má nefna A Buddhist catechism (fræðslurit þar sem frumatriði Búddisma sett fram í spurningum og svörum), Theosophy, Religion, and Occult Science, The Hindu Dwaita Catechism, The Golden Rules of Buddhism o.fl.

Olcott tókst nú á hendur fyrirlestrarferðir vítt og breitt um Indland, en í kjölfar þeirra voru stofnaðar 123 stúkur í félaginu á Indlandi. Stærsta verk hans beið á Sri Lanka (Ceylon). Bæði hann og Blavatsky voru þegar yfirlýstir búddistar, en búddamunkur hafði vígt þau 1880, rétt eftir að þau stigu fæti á land á Sri Lanka. Í kjölfar fyrirlestra hans þar var brátt stofnuð deild í Guðspekifélaginu, síðan önnur og síðan margar fleiri. Olcott bjó yfir lækningamætti og varði hann talsverðum tíma á Sri Lanka til lækninga. En vegna ábendingar frá andlega fræðara sínum hætti hann því og tók að einbeita sér að andlegri fræðslu. Þegar honum var ljós hnignun búddismans á Sri Lanka fór hann að fræða. Þar sem búddískar bókmenntir voru ekki aðgengileg fólki á þeim tíma, tók hann sjálfur til við að skrifa og þá kom út eftir hann Buddhist Catechism sem kom að miklu gagni. En hann lét þar ekki staðar numið heldur tók rækilega til hendinni í fræðslumálum eyjarinnar. Árið 1880 er hann kom þangað voru þar tveir búddískir skólar. Hins vegar voru 805 skólar á vegum kristnu kirkjunnar, sem kenndi nemendum búddisma á afskræmdan hátt til að snúa þeim til andstöðu við hann. Til að stemma stigu við þessu stofnaði hann Búddíska Guðspekifélagið. Á árunum 1880-1890 voru stofnaðir hvorki meira né minna en 142 búddískir skólar og er óhætt að eigna Olcott heiðurinn af því þrekvirki enda nýtur hann mikillar virðingar á Sri Lanka enn í dag. Þá má ennfremur nefna, að Olcott beitti sér einnig fyrir stofnun skóla fyrir stúlkur, en fram að þeim tíma þekktust yfirleitt ekki skólar fyrir kvenfólk. Það má því með sanni segja, að hann hafi verið á undan sínum tíma.

Blavatsky hafði þegar á fyrstu árunum í New York smám saman farið að fræða Olcott um tilveru fræðara sinna í Austurlöndum og að til væri leynilegt bræðralag þeirra. Þekkt er þegar meistarinn M heimsótti Olcott kvöld eittt í íbúð hans í New York og skildi eftir hjá honum vefjarhött sinn. Síðar átti Olcott eftir að hitta þessa dularfullu fræðara, KH o.fl. á næstu árum. Um Olcott eru m.a. eftirfarandi orð höfð eftir KH: “Honum getum við treyst fullkomlega undir öllum kringumstæðum og hinni tryggu þjónustu hans.”

Við stofnun Guðspekifélagsins í New York 17. nóvember 1875 sagði Olcott m.a. í upphafsræðu sinni (í þýðingu Sigvalda Hjálmarssonar): “Við erum rannsakendur, einlægir í markmiðum og hleypidómalausir í hugsun, stúderum alla hluti, reynum alla hluti og höldum fast við það sem er gott. Við höfum ekkert tilbúið efni til að trúa á, en verðum að afla okkur þess sjálf. – Við tilheyrum okkar öld, en erum þó aðeins á undan… Við leitum, spyrjum, höfnum engu án ástæðu, játum ekkert án sannana: Við erum nemendur, ekki kennarar.”

Næsta Hvað felst í því að vera guðspekisinni?
Efnisyfirlit