Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Geislarnir sjö

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson.

Úr hausthefti Ganglera 1962.

FÁTT ER mikilsverðara en sönn þekking á dýpstu eðlisrökum hluta og fyrirbæra, þekking er leiðir til þess að hið flókna verður einfalt og hið myrka ljóst. Öll hjálpartæki er auðvelda mönnum að heyja sér slíka þekkingu eru næsta hagnýt og nauðsynleg. Einfaldleikinn er aðalsmerki hins sanna. Þess vegna er ekki endilega víst að miklar tilfæringar eða margbrotnar formúlur og reglur séu notadrýgstar. Hitt er miklu sennilegra að einfaldar og fábrotnar aðferðir dugi best, jafnvel til að kanna hinstu rök tilverunnar, enda nokkurn veginn óhætt að treysta því að þeim mun nær sem komið er hinu mikla upphafi, þeim mun einfaldari og auðskildari verður öll tilveran. Sú leið er stefnir til meiri fjölbreytni og flóknari samansetningar stefnir vafalaust í þá átt er veit frá sannleikanum.

Mörgum aðferðum hefur verið beitt og margar reglur upp fundnar til að mæla og kanna eðli og gerð hinnar sköpuðu tilveru í smáu og stóru. Þær eru misjafnlega góðar svo sem við er að búast. En til er mælikvarði sem leggja má á svo til allt, mælikvarði sem í einfaldleika sínum gildir jafnt við hið smáa og stóra, dýpsta og það sem liggur yst á yfirborðinu. Hér er um að ræða geislafræðina svonefndu.

Þetta er ekki neins konar efnislegt mælitæki heldur einföld meginregla fyrir heilbrigða skynsemi, rammi eða regla sem hafa má til hliðsjónar við mat á hverju sem er, hvernig það skilst eða skýrist.

Geislafræðin er tilraun til að skýra eðli tilverunnar, allrar hinnar sköpuðu tilveru í einstökum atriðum og einnig í heild sinni, með einföldu flokkunarkerfi þar sem leitað er eftir dýpstu eðliseigindum fyrirbæranna. Það er reynt að komast eftir hinni upprunalegustu skiptingu í náttúrunni, í allri hinni sköpuðu tilveru. Gengið er út frá að hin upprunalegasta skipting sé sjöföld eða réttara sagt hin upprunalegasta skipting sem reikna verður með í heimi hluta og fyrirbæra. Þessi sjöfalda skipting er sjö geislar, þannig skírðir eftir litrófi sólarinnar, þó að finna megi dýpri rök fyrir nafngiftinni, og hverjum geisla er eignuð sérstök eðliseigind, einkenni sem fylgir honum hvar sem hann er að verki.

Þessi eðliseigind kemur fram sem ástand, athafnaháttur, hrynjandi, þrá eða svipmót. Hún kemur fram í sólarljósinu, hún kemur fram í steinum og bergtegundum, jurtaríkinu, dýraríkinu. Einnig í skapgerð manna og sem slík segir hún til um það hverjum geisla maður tilheyrir. Þannig er til manngerðarflokkun byggð á lögmálinu um hina sjöföldu skiptingu alheimsins og það er sú manngerðarflokkun sem í daglegu tali er nefnd geislafræði.

Þegar í upphafi verður þó að vera ljóst að sú grein geislafræðinnar sem fjallar um skapgerð manna er aðeins brot þeirra vísinda sem að réttu lagi nefnast geislafræði.

Skal nú vikið nánar að manngerðarflokkunum sjö og einkennum þeirra lýst hverjum fyrir sig. Nokkur atriði þurfa menn fyrirfram að hafa í huga:

a) Geislafræðin gera ráð fyrir endurholdgun og karma, þróunarlögmáli sem knýr einstaklinginn til að fæðast aftur og aftur hér á jörð eftir millibilsdvöl á öðrum tilverusviðum, til að æfa og fullkomna í fari sínu nýja og æðri eðliskosti, leiðrétta skekkju og bæta fyrir afglöp uns mannlegri fullkomnun er náð.

b) Geislafræðin gera ráð fyrir að innst í djúpum vitundarinnar sé óumbreytanlegur eðliskjarni sem felur í sér alla fullkomnun og um leið allan ófullkomleika án aðgreiningar og sé hann sami eðliskjarninn, sami óumbreytanlegi veruleikinn, hvort sem er í mér eða þér, fjallinu eða fjarlægustu stjörnu. Þannig sé hægt að komast aftur fyrir alla aðgreiningu, líka geislana.

c) Geislafræðin er eðlisflokkun en ekki gæðaflokkun. Allir geislar eru jafngóðir, allar eigindir jafnnauðsynlegar. Þar sem einn geisli finnst eru allir geislarnir, einn er bara mest áberandi.

d) Allir gallar eru vöntun á eðliskostum en eru ekki í sjálfum sér eðlislægir. Skapbrestir stafa því helst af því að það vantar áhrif frá einhverjum geislanum.

e) Þótt gert sé ráð fyrir að maðurinn sé sem einstaklingur um aldur og ævi alltaf á sama geislanum, starfar hann á öllum geislunum til skiptis, skiptir a.m.k. um við hverja nýja jarðvist eða jafnvel oft í jarðvist, enda þótt hann innst inni sé alltaf á einhverjum sérstökum geisla.

Að svo mæltu skal nú gengið á geislana hvern fyrir sig og þeim lýst í aðalatriðum:

1. geislinn

Helsta einkenni 1. geisla mannsins er sterkur vilji og mikið sjálfstraust. Hann er því vel hæfur til að gegna forustu, staðfastur og óhvikull, hugrakkur og stjórnlyndur. Hann er því góður hermaður og stjórnandi, brautryðjandi og forustumaður. Hann þolir illa yfirráð annarra enda þótt hann þurfi alls ekki að vera uppreisnargjarn. Hann er og landkönnuðurinn sem vill sigrast á hinu óþekkta, leiðtoginn á þjóðflutningatímum sem ótrauður leggur út í óvissuna án þess að leiða hugann að því að fyrirhafnarminna væri ef til vill að sitja heima. Ekkert þykir 1. geisla manni eftirsóknarverðara en vald og máttur. Ekkert meiri kvöl en veikleiki og uppgjöf. Það er ómögulegt að segja um hverju hann keppir að, en hvar sem hann velur sér verksvið vill hann láta taka fullt tillit til sín og svo vill oft verða þegjandi og hljóðalaust að stjórn og ábyrgð færist fljótlega í hendur hans. Aðalatriðið fyrir honum er alltaf það að sigra, það að öðlast, hvort sem það er auður, völd, þekking eða þroski sem hann sækist eftir. Djúpt í sálarfylgsnum hans liggur líka þráin eftir veruleika. Allt sem er skammvinnt og veikt, allt sem getur brugðist, á ekki upp á pallborðið hjá 1. geisla manninum. Hann sópar gjarnan umbúðunum utan af kjarnanum í tali sínu og allri framkomu, er hreinskilinn og afdráttarlaus. Beina leiðin er fyrir honum besta leiðin, krókaleiðirnar kák. Í stöðu fræðarans segir hann afdráttarlausan og naktan sannleikann og reynir að efla sjálfsbjargarviðleitnina og sjálfstraustið í fari nemenda sinna. Hann er réttlátur og fer ekki í manngreinarálit og sýnir undirmönnum sínum oftast föðurlega umhyggju. Stundum á hann e.t.v. til að vera dálítið harkalegur í starfsaðferðum, honum hættir til að vilja berja niður mótstöðu með valdi, yfirbuga andstæðinga og sundra þeim, en yfirleitt agar hann sína menn af sanngirni og metur manndóm, ekki síst manndóm í ósigri.

Ekki hefur hann þó bara kosti. Hann er ef til vill drembilátur maður, ráðríkur, hneigður til harðstjórnar, valdasjúkur og ósamvinnuþýður, maður sem fyrirlítur þann veika og hatar hinn sterka. Hann á til að vera allt of viss í sinni sök og ana út í ófærur af því að hann treysti því að hlutirnir væru eins og hann vildi að þeir væru. Hann er skapmikill en þó alls ekki skapillur. Það er misskilningur sem er algengur meðal áhugamanna um geislafræði að 1. geisla menn séu yfirleitt uppstökkir. Þeir eru alls ekki mikið starfandi á hinu geðræna sviði og því lausir við viðkvæmni, minnimáttarkennd og bráðlyndi. En þegar þeir reiðast þá reiðast þeir illa og eru langræknir. Yfirleitt eru þeir langminnugir á greiða og langminnugir á misgerðir. Í dagfari eru þeir annars friðsamir og hæglátir, oft þögulir og fáskiptnir um annarra hagi. Flest það sem almennt vekur tilfinningar og skjót viðbrögð er of smátt í þeirra augum til þess að það taki því að gera sér rellu út af því, nenna jafnvel ekki að svara smánaggi eða aðkasti eða slá því upp í gaman. En það fylgir þeim yfirleitt öryggi og hressileg bjartsýni. Ef til vill er það einmitt þetta sem helst einkennir þá í augum annarra.

Þeim er sárt um sína virðulegu persónu og þola því illa niðurlægingu og skortur á auðmýkt og lítillæti er oft þeirra helsti galli. Allur ósigur, öll uppgjöf, er þeim þó hin mesta þjáning, þó að oft sé það einmitt svo, enda þótt þeir finni það síst sjálfir að einmitt í ósigrinum og niðurlægingunni er reisn þeirra mest. Hið ytra er þrá þeirra hvers konar sigur, landvinningar í þessum heimi eða ríki andans. Hið innra er hin andlega konungshugsjón, fullkomin stjórn á sjálfum sér veitir fullkomna stjórn á umhverfinu.

Framan af þroskaferli sínum, meðan sálaraldurinn er lágur er 1. geisla maðurinn óstýrilátt barn. En eftir því sem jarðvistunum fjölgar lærist honum af hörðum árekstrum að vinna með lögmálunum og finna þau í sér. Hann sækir fast á brattann og er stórstígur er hann tekur að nálgast mark mannlegrar fullkomnunar.

2. geislinn

Höfuðeinkenni 2. geisla mannsins er tilfinningin fyrir einingu. Sú tilfinning kemur aðallega fram með tvennum hætti: Hið ytra sem kærleikur, hið innra sem innsæi, fyrirhafnarlaus þekking á hinu sanna og rétta. 2. geisla maður er því mjög kærleiksríkur og oft mjög vitur. Hann er fræðarinn, vitringurinn, sá sem fer um og gerir gott, bætir sambúð manna, berst fyrir betri kjörum og skilyrðum, læknar og færir frið og hamingju. Hann leggur sig í framkróka við að bæta heiminn. Hann er sannur umbótamaður sem kemur á umbótum eða berst fyrir þeim, af því að hann vill hverjum manni sem mesta hamingju og hann gleymir sjálfum sér oft í þessu starfi svo gersamlega að hann finnur eftir á að sjálfur hefur hann enga unun af að njóta þess sem hann er að gefa, hans hamingja er að sjá aðra njóta þess. Hamingjan mesta er fyrir 2. geisla manninum viska og kærleikur en hatrið og fáviskan mesta kvölin. Þráin til að fræða, bera birtu, þjóna og bjarga, er það afl sem knýr hann til starfa. Lífið er aðalatriði, umhverfið og hann sjálfur gleymist. Skáldið hefur haft slíkan mann í huga er það orti:

Alla þá, sem eymdir þjá,

er yndi að hugga.

Lýsa þeim, sem ljósið þrá

en lifa í skugga.

(Fr. G.)

Annars geisla maðurinn hefur þó sína galla eins og aðrir. Honum hættir til að vera uppstökkur, af því hve tilfinningalífið er auðugt og margt í vondum heimi sem ergir viðkvæma og góðgjarna sál. Umbótahugsjónin á líka til að fara með hann út í gönur, þannig að hann hyggur ekki að öllum aðstæðum nægilega vel, skortir framsýni og aðgætni svo það getur valdið tjóni sem átti að vera til góðs. Eins getur honum yfirsést í því efni að hann láti kærleikstilfinningar sínar leiða sig út í þá skammsýni að fyrirgefa galla sem jafnvel brjóta gegn lögmálum kærleikans. Fórn hans getur því verið gagnslaus og fyrirgefningin ekki einu sinni komið þeim að notum sem hlaut hana. Þeim hættir og til að ala með sér óhæfilega tilfinningasemi og stundum getur kærleikur þeirra komið þeim til allt of mikillar natni og nostursemi án heilbrigðs tillits til sjálfstrausts þeirra sem fyrir var unnið. Slík ofurumhyggja getur td. í uppeldi æskufólks leitt til skorts á sjálfsbjargarviðleitni eða alið á tillitsleysi og eigingirni. 2. geisla maðurinn trúir ekki öðru en unnt sé að bjarga mönnunum, hvort sem þeir vilja eða ekki.

Mesta þjáning 2. geisla manns er fólgin í einmanaleik, skorti á hollustu og tækifærum til að þjóna. Ef einhver verður að þjást vill 2. geisla maður þjást með honum af því að hann veit innst inni að allir eru eitt. Hann vill einnig gleðjast með þeim hamingjusama. Í dagfari er 2. geisla maðurinn ljúfmannlegur, hjálpsamur og mildur, en á til að vera mislyndur og viðkvæmur. Hvar sem líf hrærist, finnur hann verkefni hvort sem það er í ríki manna, jurta eða dýra. Honum er eiginlegt að koma til dyranna eins og hann er klæddur, er einlægur og stundum jafnvel barnslegur. En innst inni bærist með honum djúp og einlæg þrá eftir einingu. Hann vill finna sjálfan sig í öllu og meiri þekking og víðari sjóndeildarhringur er honum eftirsóknarverður fyrst og fremst til að geta fundið sjálfan sig í stærri heimi lífs og einingar. Vald sitt vill hann nota til að finna þessa einingu, koma öðrum til að lifa í samræmi við lögmál kærleikans og hamingjunnar.

Framan af þroskaferli sínum er annars geisla maðurinn skapheitur, hviklyndur og ástríðufullur en jafnlyndi kemur með meiri þroska og enginn er eins þróunarfús, auðsveipur og hlýðinn hinum mikla kennara, karmalögmálinu, og hann. Einlægni hans og heiðarleiki, ásamt innsæishæfileikanum, sannleiksþekkingunni, gerir hann fljótt að vitrum og sönnum manni, gefur honum aðal viskunnar og hann tekur að þrá heitt hið mikla einingarundur sem felst í víðara vitundarstigi. Þá skilur hann fyrst hvað lá á bak við einingartilfinninguna sem alltaf fylgdi honum.

3. geislinn

Yfirgripsmikill skilningshæfileiki, alheimsleg útsýn og skapandi hugsun eru helstu einkenni þriðja geislans, djúpur hugsunarhæfileiki, háttvísi og virðuleiki, hæfileiki til að laga sig eftir aðstæðum á hverjum stað og tíma, svo og óbrigðul óhlutdrægni. Þessi geisli er geisli lögmálanna og í skapgerð þriðja geisla mannsins kemur fram hæfileiki til að finna alheimsleg lögmál og uppgötva dýpstu orsakir hinna breytilegu og flóknu fyrirbæra. Á þessum geisla er því heimspekingurinn, dómarinn, lærdómsmaðurinn, skipulagsmaðurinn og stjörnuspekingurinn. Á þessum geisla er sá maður sem á auðvelt með að haga svo sínu máli að það nái fyrirhafnarlítið fram að ganga, sá sem finnur upp kænlegar aðferðir til að ná settu marki, hugvitsmaðurinn á andlegu sviði. Dýpsta þrá hans er skilningur, andleg og hugræn blindni hið versta sem hann getur hugsað sér. Skapandi starf og skilningsþrá knýja hann til starfs.

Þriðja geisla maðurinn er maður hugsunarinnar. Hann leikur sér að því að gera hið flókna einfalt og hann getur líka, ef hann vill, gert hið einfalda flókið. Hyggist hann fræða, þá útskýrir hann lögmál og meginreglur, jafnframt því sem hann mætir hverjum á hans eigin vígvelli. Afstaða hans er jafnan mjög ópersónuleg. Hann á auðvelt með að líta hlutlægt á sjálfan sig og dæma sig og verk sín eins og væri hann og þau honum óviðkomandi og eins á hann auðvelt með að líta hlutdrægnislaust á aðra. En sanngirni hans og réttdæmishæfileiki þarf ekki fyrir því að gera hann að góðmenni. Honum er í rauninni nóg að vita. Það að framkvæma er í rauninni aukaatriði. Auk þess eru allir hlutir líkir fyrir honum, lítill munur á því sem kallað er rétt og því sem kallað er rangt, af því að þetta sem kallað er rétt er þegar hlutirnir eru skoðaðir niður í kjölinn, ekki alveg rétt og hitt sem kallað er rangt, heldur ekki alrangt. Skarpleiki ályktunarhæfileikans og næmt auga fyrir aðalatriðum gera hann slunginn bragðaref og útsmoginn ráðabruggara ef hann vill það við hafa. Honum hættir til að vilja koma vilja sínum fram með því að leggja gildrur og leggja helst ekki út í bardagann fyrr en allt hefur verið fyrirhyggjusamlega undirbúið. Helst vill hann vera viss um að hann hafi hugsað feti lengra fram í tímann en andstæðingurinn. Þriðja geisla maður er því stórhættulegur andstæðingur þó að hægt fari og líka stórsnjall framkvæmdamaður því að honum mistekst sjaldan, er gætinn og þekkir takmörk sín.

Ýmsa ærið varhugaverða galla hefur þriðja geisla maðurinn þó eins og aðrir. Af skorti á framkvæmdasemi og af tilfinningaleysi sem oft stafar af ofmati á valdi orsaka og afleiðinga, getur hann orðið miskunnarlaus, grimmur og kaldlyndur og hann á það þá til að svífast einskis. Annar galli hans er sá að hann af skarpri ályktunargáfu sér svo margar hliðar á málinu að hann verður seinn að taka ákvörðun, stundum jafnvel hikandi og stundum stendur honum ærið mikill beygur af því sem hann getur ekki kynnt sér til hlítar eða skilið. Kænska hans gerir hann að háskagrip en þó verður hann aldrei verulega vondur, alveg eins og hann verður aldrei sérlega góður. Meðalhófið er honum svo eiginlegt. Mesta þjáningu leggur það á þriðja geisla manninn að lenda í mistökum og

vanvirðu og andleg blindni er honum óbærileg. Æðsta hugsjón hans er fullkominn skilningur, að tileinka sér sannleikann algerlega.

Framan af þroskaferli sínum er hann latur, aðgerðalítill og skeytingarlaus, oft grimmur. En þegar hann skilur hvert stefnir í raun og veru, og hann er alla tíð að reyna að gera sér grein fyrir því, verður hann góður samverkamaður þróunarlögmálanna, að vísu hvorki sérlega einlægur né sérlega kappsfullur en hygginn og framsýnn, fljótur að skilja skekkjur og reynir þá jafnan að forðast refsingu karma með því að vera búinn að uppræta gallann og bæta fyrir brotið áður en kemur að skuldadögunum, ,,brennir upp karma í eldi skilningsins“. Í mannlegri fullkomnun er það hin mikla útsýn yfir alheiminn sem heillar hann mest.

4. geislinn

Helsta einkenni fjórða geislans er jafnvægi eða öllu heldur samræmi — samræmi milli allra eðlisþáttanna þriggja, vilja, vits og tilfinninga og samræmi milli anda og efnis, hins innra og hins ytra. Samræmi er fegurð og samræmi er líka háttbundin hreyfing, hrynjandi, enda er þetta geisli listanna. Eins og gefur að skilja veitir allt þetta samræmi kynni af mörgu, enda má segja að fjórða geisla maðurinn eigi heima alls staðar og hvergi og sé víða kunnugur, þar af leiðir líka að ímyndunaraflið er auðugt og mikils ráðandi, þar eð mörkin milli hins verulega og ímyndaða eru miklu óskýrari hjá fjórða geisla manninum en hjá öðrum.

Fjórða geisla maðurinn er fyrst og fremst listamaður og hann er afburða snjall miðill eða miðlari og slyngur við hvers konar túlkun og aðferðir til að birta sjálfan sig. Næst samræminu er sjálfsbirtingarhvöt sterkasta einkenni hans. Honum líður ekki vel ef hann fær ekki tækifæri til að birta sjálfan sig og er óánægður með sjálfan sig ef honum tekst ekki sjálfsbirtingin svo vel sem hann óskar. Ekkert þekkir hann betra en fegurð, bæði hið ytra og innra, og ljótleikinn er honum fjærst skapi. Hann flytur samræmi hvar sem hann fer og leitar samræmis. Eigi hann að fræða velur hann efninu leikrænan búning og myndrænan, notar dæmisögur og ævintýri.

Fjórða geisla maðurinn býr yfir fjölþættum hæfileikum og er í rauninni aldrei við eina fjölina felldur. Hann finnur að það sem kallað er hið ytra og hið innra er í rauninni sameinað. Hann finnur að allur heimurinn er í rauninni stórkostlegur skáldskapur, stórkostlegt ævintýri sem lifir andartak eða ótöluleg aldaskeið í einhverri stórkostlegri alheimsímyndun og hvað er þá athugavert við það þótt maðurinn lifi í ímyndun sinni? Samspilið milli vitundar og umhverfis, efnis og anda, samleikur andstæðnanna, hvar og hvernig sem þær birtast er fjórða geisla manninum tilefni mikillar lífsnautnar. Allar hans götur eru krossgötur, enda veit hann ekki alltaf hvaða leið hann á að fara. Og honum finnst það raunar ekkert gera til því að enginn veit betur en hann að allar götur liggja að sama marki.

Gallar fjórða geisla mannsins eru víðkunnir. Honum hættir til að vera sjálfum sér verstur eins og það er kallað og verður með göllum sínum fremur óbeinlínis öðrum til trafala en hann geri á hluta þeirra vitandi vits. Það er ekki mikill munur á honum sjálfum og náunganum. Fjórða geisla maður er stundum mikill nautnamaður, og hverflyndur á hann til að vera og stundum sveiflast hann milli bjartsýni og örvæntingar, alvöru og alvöruleysis. Allir þessir gallar eru af sama uppruna. Fjórða geisla maðurinn þráir jafnvægi af því að inni fyrir er jafnvægt sálarlíf, en þetta jafnvægi er örðugt að finna í jafnvægislausum heimi og þegar það ekki fæst, skiptir það fjórða geisla manninn minnstu, hvort hann fer spönn eða mílu yfir markið.

Þeir gallar sem hér hafa verið nefndir, koma einkum fram hjá fjórða geisla manninum framan af þroskaferli hans. Seinna lærist honum að ná heppilegu jafnvægi og er þá manna kyrrlátastur og best jafnvægður allra manna. Hann velur sér þá það hlutverk, er hann tekur að eygja ævintýri hinnar mannlegu fullkomnunar, að varpa töfraljóma fegurðar og ævintýra yfir hversdagslega hluti, gera lífið að ævintýri fyrir sjálfan sig og aðra svo að það verði eftirsóknarvert eins og það er. Fjórða geisla maðurinn er hvort sem er, alltaf jafnnærri guði sínum, líka í syndinni, og með glömpum andagiftar og ímyndunar sýnir hann þeim sem eftir koma, inn í heim hins stórkostlegasta ævintýris sem eitt getur lokkað hann til að fórna ævintýrunum sínum gömlu.

5. geislinn

RÖKFÖST, sundurgreinandi hugsun, þolinmæði og næstum því óbrigðul nákvæmni eru helstu einkenni fimmta geisla mannsins. Hann finnur stóra heima og vítt svið verka sinna í hinu smáa, finnur í einu einasta atriði raunveruleika hinna víðtækustu lögmála. Hann er hálfbróðir þriðja geisla mannsins en byrjar á hinum endanum og fer alltaf öfuga leið við hann. Hér er á ferðinni stærðfræðingurinn, vísindamaðurinn, fræðimaðurinn sem safnar þekkingu, staðreyndum og setur saman til varðveislu. Hann er óbrigðull þjónn sannleikans en hann leitar ekki að uppruna hinna víðtæku lögmála og fylgir ekki hinum stóru línum þeirra heldur kynnir sér lögmálin af verkum þeirra. Ekkert þekkir hann eftirsóknarverðara en staðreyndir, þekkingu, sannleika og ekkert er honum meira á móti skapi en villur, ósannindi og fáfræði. Uppgötvunarþrá og þekkingarþorsti knýja hann til verka. Hann er forvitinn og athugull, minnugur og víðfróður. Honum skeikar ekki í nákvæmninni, er hugvitssamur og ráðagóður að finna upp tæki til að vinna með. Hann er líka mjög vandvirkur en gleymir oft að vandvirkni tekur mikinn tíma svo að afköstin verða ekki alltaf í samræmi við vinnutímann. Þó gerir það ekki mikið til því að honum skeikar ekki í að ljúka sínu verki rétt og kann að velja sér góðar starfsaðferðir. Eigi hann mönnum að kenna beitir hann rökum, notar töflur og skýringarmyndir og treystir mjög á minni nemendanna. Hann er snillingur í rökhugsun og öldungis óþreytandi við að gera tilraunir er sanni eða afsanni skoðanir sínar. Honum finnst að fimm hundruð árangurslausar tilraunir séu mikill árangur og því sé alveg eins hægt að halda áfram upp í þúsund. Hann hugsar, leitar, prófar og sannprófar og árangurinn verður hreinustu undraverk í vísindum og tækni.

Ýmsa galla hefur fimmta geisla maðurinn eins og aðrir. Hann þykir þurr, oft bæði í framkomu, ræðu og riti, óskáldlegur og smámunalegur, gagnrýninn úr hófi fram, stundum þröngsýnn og hneigður til efnishyggju. Orsökin er þó bara ást á staðreyndum. Honum hættir til að telja það eitt vera til sem hann getur rannsakað og fellur stundum í þá freistni að neita þeim möguleikum sem hann hvorki getur sannað né afsannað. Veldur því tilhneiging til að rengja og ótti við að leggja trúnað á það sem er rangt. Hann getur og orðið kaldur og tilfinningalaus, fáskiptinn og einrænn, og er gefinn fyrir útúrsnúninga. Ekkert þjáir hann meira en gera sig sekan um villur, verða undir í rökrænum átökum og draga rangar ályktanir.

Framan af þroskaferli sínum veitast fimmta geisla manninum næg tækifæri fyrir hugræna hæfileika sína þó að hann hafi ekki tileinkað sér víðan sjóndeildarhring. Hugvit og minni er notadrjúgt. Seinna víkkar sjóndeildarhringurinn. Fimmta geisla maðurinn lærir að meta hin andlegu verðmæti og leggja hárfínt mat hinnar þjálfuðu rökhugsunar á þau. Þar fær hann síðar verðugt verkefni, þar sem er að hjálpa til við að framkvæma í einstökum atriðum hina guðlegu áætlun um heima formsins. Alla sína einlægni og sannleikshollustu leggur fimmta geisla maðurinn fram er hann hefur möguleika hinnar mannlegu fullkomnunar framundan, því að þar finnur hann ærinn forða sér verðugra rannsóknarefna.

6. geislinn

Höfuðeinkenni sjötta geislans er tilbeiðsla og trúarþel, hollusta, fórnarlund, hrifning og guðmóður. Sá kærleikur sem annars geisla maðurinn beinir að náunganum, snýr hjá sjötta geisla manninum að guði, lífinu í alheiminum persónugerðu. Einingartilfinning sjötta geisla mannsins er ekki fyrst og fremst slík að hann finni sig í öllu heldur finnur hann sig í guði, í allífinu. Hann þarf engar vangaveltur að hafa því að þetta er honum tilfinning og tilfinning er honum staðreynd. Sjötta geisla maðurinn er trúmaðurinn, hinn heilagi maður, dulhyggjumaðurinn, píslarvotturinn, hinn trúi og tryggi félagi og vinur. Enginn er meiri alvörumaður en sjötta geisla maðurinn, enginn einlægari í hinum mikla trúarhita, enginn tekur sér nær ófarir þess málstaðar sem hann berst fyrir, enginn tryggari vinum sínum og svo mikill er einhugur hans að nærri stappar oft ofstæki, enda er berserksgangurinn sem þekktur var meðal norrænna þjóða fyrrum og víðar, talinn tilheyra sjötta geisla einkennum, þar eð fram kemur í honum baráttuvilji, einhugi og algert hirðuleysi mannsins, hvað kann að verða um hann sjálfan.

Löngunin til að tigna, dá og þjóna knýr sjötta geisla manninn til starfa. Upphaf þeirrar hugsjónar sem hann dáir er honum allt. Oft er það upphaf Guð í alheiminum en stundum líka ímynd einhverra hugmyndakerfa eða stefnu, oft brautryðjandi sem þá er hafinn til skýjanna með öllum sínum göllum. Hann reynir að vekja eldmóð og glæða hetjulund og uppræta kveifarskap og deyfð. Ekkert þekkir hann göfugra en hollustu, trúmennsku og sameiningu við upphaf hugsjónar sinnar. Þess vegna lifir sjötta geisla maðurinn í guði sínum en talar ekki um guð í sér. Aðgreining, einstaklingshyggja og ótryggð þykir honum verst af öllu.

En bakhliðin á öllum kostum eru gallar. Sjötta geisla maðurinn á til að vera haldinn tilfinningaofsa, vera ofstækisfullur og þröngsýnn. Hann trúir oft blint á persónur, skortir mjög umburðarlyndi og lætur stjórnast af hrifni og tilfinningum augnabliksins. Þá vanmetur hann oft skynsamlega athugun og fræðilegt mat, því að innblásturinn er æðri. Mestum þjáningum veldur það sjötta geisla manninum er himinn hans hrynur í höfuð honum og himinn sjötta geisla mannsins hrynur oft yfir hann því að honum lærist seint að tigna algerlega ópersónulegar hugsjónir. Hryggð hans er djúp en sæla hans er líka mikil. Þá er það sjötta geisla manni mikil hugraun ef hann er svikinn, misskilinn eða hafður fyrir rangri sök. Þá grípur hann e.t.v. snögglega þunglyndi og örvilnan. En sorgin, ógæfan, þjáningin gefa honum líka meira en öðrum. Þegar allar borgir hans eru hrundar og lönd hans öll brennd er hann harmkvælamaðurinn sem á nú þá unun eina að finna sig líða fyrir trú sína eða hugsjón. Það er sjötta geisla maðurinn sem talar um gleðina í sorginni og sæluna í þjáningunni og fyrir honum er sjálfsfórnin stærsta hlutskiptið. Hann hefur skaphöfn píslarvættisins sem starfar með fagnandi huga og fyrirgefningu í hjarta inn í eldslogana sem bíða hans.

Framan af þroskaferli sínum er sjötta geisla maðurinn óstýrilátur ofstopi, geðríkur en sannur og tryggur þeim sem hann viðurkennir sem húsbónda sinn. Þegar líður á gönguna til mannlegrar fullkomnunar verður hann trúhneigður og mjög andlega sinnaður maður, ötull og fylginn sér, e.t.v. lengi dálítið óvæginn og skapbráður gagnvart þeim sem eru ólíkir honum. Seinna verður hann göfugmennið, guðmennið sem vígir allt umhverfi sitt heilögum eldi.

7. geislinn

Helstu einkenni sjöunda geislans eru fegurð skipulags og starfsemi, glæsiljómi, tígulleiki, skipulag, röð og regla, nákvæmni og fullkomnun á hinu ytra sviði. Hvers konar skipulagt starf, hvers konar almenn starfsemi er með nokkrum hætti tilheyrandi sjöunda geislanum og hámark allrar starfsemi á ytra sviði er sú starfsemi sem er í nánustum tengslum við andann, helgisiðirnir. Sjöunda geisla maðurinn er því ekki einasta snillingur hins ytra starfs og skipulags, framkvæmandi skipulags í þjóðfélögum og stofnunum, stjórnmálamaðurinn, heldur einnig presturinn, flytjandi helgisiða og töframaðurinn. Hann er snillingur athafna á hinu jarðneska sviði og hann gerir þær að guðsþjónustu.

Sjöunda geisla maður er skrautgefinn, hirðusamur, nákvæmur. Fegurð í röð og reglu athafna og hluta er honum mest virði en óregla og allur göslaraháttur er honum fjærst skapi. Að stilla saman, hrinda í framkvæmd, birta og framkvæma vekur hann helst til athafna og það er synd að segja að hann sé ekki athafnasamur. Hann kennir og reynir að orka á menn með því að gera staðreyndirnar leikrænar og setja þær þannig á svið að hver fái hlutverk við sitt hæfi og í andlegri viðleitni samhæfir hann tón, tal og hreyfingar.

Stjórnmálin eru á sjöunda geislanum, enda er hinn sanni stjórnmálamaður sjöunda geisla maður. Sjöunda geisla maðurinn er alls staðar myndandi hópa sem starfa hver út af fyrir sig en þó allir í einu kerfi og hver maður í hverjum hóp hefur sitt ákveðna starf. Þetta gerir hann ekki aðeins í fyrirtækjum, félagasamtökum og þjóðfélögum, heldur einnig í andlegum málum. Að hafa vald hið ytra og segja fyrir verkum er ríkur þáttur í honum og á andlegum sviðum vill hann leysa úr læðingi öfl sem eru leynd í náttúrunni og beita þeim. Þetta gerir hann með helgisiðum og með valdi sínu yfir duldum kröftum verður hann töframaður.

Gallar sjöunda geisla mannsins eru helst dýrkun á formi, valdafíkn, stjórnmálarefjar, skriffinnska, óhóf og íburður, viðsjálni glæsileika og tiginmannlegrar framkomu, tilhneiging til að nota fólk sem tæki til að koma fram vilja sínum og smámunasemi og vélgengni í háttum og helgisiðum. En niðurlæging, skortur á ytra valdi, ruddaskapur, ókurteisi og óvinveittar aðfinnslur þeirra sem lægra eru settir helsta tilefni þjáningar.

Sjöunda geisla maðurinn lætur alls staðar mikið að sér kveða. Hann er á jarðneska sviðinu fulltrúi andans, atman, sem birtir hinn innri vilja í skipulögðum athöfnum hið ytra. Guð hans er samnefnari alls skipulags og fegurðar og vilji guðs er fyrir honum röð og regla.

Framan af þroskaferlinum er hann smámunasamur formdýrkandi, valdsækinn og óhófsmaður um skraut og ytri fegurð alla. Seinna lærist honum að birta hið innra eðli sitt í glæsiljóma hárréttra athafna sem eru hárnákvæmt endurvarp þess kraftar sem leynist í lögmálum tilverunnar. Alltaf fylgir honum fjör og líf en þegar hann fer að nálgast mark hinnar mannlegu fullkomnunar, breytist það í svellandi lífsþrótt og iðandi grósku. Mannleg fullkomnun er honum fyrst og fremst heillandi athöfn, stórt hlutverk í hinu volduga siðakerfi tilverunnar.

Hér að framan hefur þá verið lýst geislunum sjö, eins og þeir koma fram í skapgerðum manna. Menn skyldu hafa það hugfast að enginn geislinn er öðrum æðri og það er á engan hátt betra að tilheyra einum geislanum fremur en öðrum. Þar sem einn geisli er, eru allir hinir líka. En einn er jafnan mest áberandi. Það er miklum vandkvæðum bundið að vera viss um á hvaða geisla maður er en það eru þó möguleikar á að gera sér nokkra grein fyrir því. Ber þó margs að gæta í því sambandi.

Hver maður er innst inni á einhverjum hinna sjö geisla, þ.e. að egóið, sjálfið eða yfirvitundin tilheyrir einhverjum geislanna og virðist óhætt að fullyrða að ekki verði neinar breytingar á, þótt flest annað breytist með sífjölgandi jarðvistum. En auk þess er maðurinn jafnan á einhverjum sérstökum geisla í hverri jarðvist fyrir sig og mun svo oftar að sá geisli sé ekki geisli innri mannsins. Geisli mannsins í jarðvistinni er kallaður persónuleikageisli og munu dæmi til að um hann sé skipt einu sinni eða oftar á ævinni. Flestum mun í huga að komast að raun um á hvaða geisla þeir eru innst inni, hver sé egógeislinn, en margt verður til að hylja hann. Oft er mjög örðugt að þekkja geislana sundur af því að við mismunandi aðstæður koma þeir fram með mjög mismunandi hætti. Það mun t.d. mjög erfitt oft og tíðum að þekkja sundur 1. og 6. geislann. Einhugi og sjálfsfórnarþrá 6. geislans verður oft trauðla þekkt frá járnvilja og sigurvissu 1. geislans. En þá skilur á milli að 6. geisla maðurinn er tilfinningaheitur en 1. geisla maðurinn kaldur og rór. Friðsemd og kærleikur 2. geislans verður oft ekki greind frá lipurð og hyggindum 3. geislans, þótt 2. geisla manninum gangi til þrá til að bæta en 3. geisla manninum finnist einungis að alveg eins sé hægt að vera blíður á manninn ef gagnslaust er að byrsta sig. Eins er oft blandað saman einkennum 4. og 7. geislans af því að báðir dá fegurð. Þá má gera ráð fyrir að sami geisli komi fram með ólíkum hætti eftir því hvort hann er egógeisli manns eða persónugeisli.

Hér skulu svo settar fram nokkrar ráðleggingar til að finna geisla egósins frá geisla persónuleikans.

1. Þau skapgerðareinkenni sem koma fram hjá börnum mega teljast stafa frá geisla persónuleikans. Barnið er lengi framan af nálega eingöngu persónuleiki. Egóið hefur lítil skilyrði til að birtast í barninu. Skapgerð barns er meira afleiðing ytri skilyrða heldur en eðlislægra eiginleika. Það er þess vegna sem oft verður góður hestur úr böldnum fola. Á unglingsárum er maðurinn fyrst og fremst starfstæki egósins og það er varla fyrr en lífsreynslan fer fyrir alvöru að sverfa af manninum vankantana að egóið brýst fram undan hulunni. Þá koma einkenni þess í ljós, snögglega eða hægt og hægt og ýmislegt frá æskuárunum verður betur skiljanlegt þegar einkenna egósins fer að gæta meira.

2. Þegar eitthvað kemur snögglega fyrir mann á lífsleiðinni, sviplegt áfall, óvænt gleði, algert skipbrot eða fyrirvaralaus upphefð eða frægð, þegar maður lendir í lífsháska eða verður vitni að voveiflegum atburðum, mun svo fara að persónugeislinn verður ráðalaus. Þá grípur egóið fram í, tekur oft öll völd. Á slíkum stundum getur raggeitin orðið að hetju og þorparinn að valmenni. Geisli egósins hefur í þessum tilfellum komið fram skýrt og greinilega.

3. Draga má fram öll störf mannsins, viðfangsefni og áhugamál í mannlegu samfélagi, skoðanir og lærdóm. Þegar þetta er allt komið í eitt, má gera ráð fyrir að einkennin segi til um persónugeislann. Svo má aftur athuga hvaða áhrif settu óbeint og eins og án vitundar mannsins blæ sinn á öll hans störf og framkomu, viðhorf og skoðanir og af þeim einkennum sem þá koma fram er unnt að gera sér í hugarlund, hver sé egógeisli hans.

4. Dagfar manna getur alveg eins sagt til um persónugeisla og um egógeisla en ýmislegt sem maðurinn tekur ekki eftir í fari sínu sjálfur, tilsvör, fas, framkomumáti og sá andi sem hann dreifir í kringum sig, getur gefið greinilega til kynna egógeislann. Þannig mun 1. geislanum fylgja festa og öryggi, 2. geislanum blíða og mildi, 3. geislanum ró og gætni, 4. geislanum lífsgleði og ævintýraþrá, 5. geislanum forvitni og næm athygli, 6. geislanum einlægni og tilfinningahiti og 7. geislanum fjör og athafnaþrá.

5. Gera má ráð fyrir því að öðru jöfnu, að menn dái mest hugsjónir þess geisla sem egóið tilheyrir. Þess vegna má dálítið átta sig á því hvaða geisla menn dragast að. Maður sem vill vera 6. geisla maður er sjálfsagt 6. geisla maður. Getur þó mjög brugðið til beggja vona um hvort um er að ræða egógeislann eða persónugeislann. En oft má hafa það til hliðsjónar hvaða viðhorfa gætir mest í afstöðunni til geislans.

6. Að lokum skal lögð á það rík áhersla að oftar mun svo vera að maðurinn sjálfur taki síst eftir þeim einkennum sem best eiga að segja til um eðli hans. Þau séu honum svo samgróin að hann hafi ekki minnstu hugmynd um þau. Honum finnst hann jafnvel skorta þá eðliskosti sem hann hefur mest af, sakir þess að í rauninni gerir hann langmestar kröfur til sjálfs sín á því sviði.

Geislafræðin í hinni víðustu merkingu er leið til skilnings á alheiminum en að svo miklu leyti sem hún fjallar um skapgerð manna er hún hagnýt aðferð til sjálfsþekkingar. Ef til vill besta leið til sjálfsþekkingar sem völ er á. Kostir hennar í því sambandi eru þeir fyrst og fremst að hún veitir nokkur skilyrði til þess að kanna bæði hæfileika og innsta eðli. Djúpur skilningur á mun geislanna og skyldleika er nauðsynlegur til að henni verði beitt til mikils árangurs og nokkurn veginn hlutlægt mat á sjálfum sér þarf einnig að vera framkvæmanlegt. En sé þetta tvennt fyrir hendi þá er unnt með aðstoð geislafræðinnar að komast að raun um kosti sína og galla og finna uppruna skapbrestanna.

Ekkert er hagnýtara en skilningur á sjálfum sér. En geislafræðin sýnir fram á að skilningur á manninum er um leið skilningur á alheiminum, eins og líka skilningur á alheiminum veitir samtímis þekkingu á manninum.

Fyrri Að vera förumaður
Næsta Kúndalíni
Efnisyfirlit