Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Brot úr þróunaráætlun

Brot úr þróunaráætlun I 

Höfundur: Jón Árnason 

Birtist í Gangleri 16.2.1942 

Það er að líkindum of mikið færst í fang að gera tilraun til þess að setja í letur nokkurn hluta hinnar guðdómlegu þróunaráætlunar eins og hún er sýnd í hinum innri eða „esoterisku“ fræðum. Er það einkum vegna þess, að nokkur hluti þess, sem lýst er eða sagt er frá, á sér enga sýnilega stoð í jarðneskum fyrirbrigðum. Menn verða að beina huganum að algerlega yfirskilvitlegum staðreyndum ef þeim á að vera unnt að hafa nokkurt verulegt gagn af frásögninni. En þrátt fyrir þá örðugleika, sem eru á því að gera þetta verkefni nægilega ljóst, vil ég þó ekki láta það aftra mér frá því að gera lítils háttar tilraun til þess að skýra þetta efni, að svo miklu leyti sem mér er unnt. 

Efnasamsetningin

Áður en lengra er haldið verðum við að gera tilraun til þess að skýra efnasamsetningu tilverunnar. 

Við könnumst við þá staðreynd, að jörðin er samsett af þrem mismunandi þéttum efnum, sem fara hvert í gegnum annað. Fyrst er fast efni, er við nefnum svo, eða steinaríkið, og fylgja því jarðvegsefnin. Þá er vatnið, sem fer í gegnum fasta efnið, og síðast loftið, sem streymir í gegnum hin fyrri tvö. Á bak við þessi þrjú efni eða ríki náttúrunnar eru höfuðskepnurnar. jörð, vatn og loft. En jarðneski heimurinn hefur auk þess í sér eitt höfuðefnið enn, sem sé ljósvakann. Er hann ekki viðurkenndur af öllum raunvísindamönnum, en þó eru þeir einnig margir, sem telja tilvist hans óhjákvæmilega. Er hann í fjórum þéttleikastigum. Í gegnum fyrsta þéttleikastigið fer kraftur sá, er við nefnum rafmagn og segulmagn. Í gegnum næsta þéttleikastigið fer ljósið. Í gegnum það þriðja fer hærri tegund rafmagns, sem vísindin þekkja eigi enn sem komið er, og í gegnum hæsta og þéttasta stig ljósvakans fljóta hugsanirnar. Í þessu þéttleikastigi eru öll frumvægin laus hvert við annað, ekki samsett, og eru aðeins í tveim tegundum, jákvæð og neikvæð, þau jákvæðu eru farvegur fyrir orku frá hærri tilverustigum niður í jarðheim, en þau neikvæðu eru farvegur fyrir orku frá jarðheimi inn á hin hærri svið. Þegar um þessi fínustu frumvægi jarðheims er að ræða, kemur til greina sú tegund dulfræðirannsókna, sem nefnist dulefnafræði, og myndun þeirra fyrirbrigða í náttúrunni, sem við nefnum frumefni. 

Tilverustig sólkerfisins eru í höfuðatriðunum talin sjö – þó er tveimur þeirra skipt í tvennt, sem sé jarðheimi og hugheimi. Jarðheimi er skipt þannig, að jörð, vatn og loft eru talin lægri hluti hans, en ljósvakinn með fjórum þéttleikastigum sínum er efri hlutinn. Hugheimum er skipt þannig, að fjögur lægri þéttleikastig efnisins eru nefndir formheimar (rupa á sanskrit), en þrjú hin hærri formlausir heimar (arupa). Öll hin hærri tilverustig hafa því tilsvarandi sjö þéttleikastig efnisins eins og jarðheimur. Þess ber ætíð að gæta, að öll þessi tilverustig og þéttleikastig efnisins gegnumstreyma hvert annað og eru því öll til staðar í sambandi við hið lægsta þeirra og grófasta, jarðheim. Í hinni birtu eða starfandi tilveru er því allt rúmið fyllt efni, því að hvert tilverusvið er stærra að rúmtaki en hið næsta fyrir neðan. Þannig er jörðin eða jarðheimur minnst um sig. Geðheimar ná miðja vegu milli jarðar og tungls, en hugheimar langt út fyrir tunglið. 

Þessi þrjú tilverustig eru því bundin jörðinni út af fyrir sig. En innsæisheimar (búddískt svið) ná yfir allt sólkerfið og einnig hinir andlegu heimar (nirvana). En hinir tveir, sem þá eru ónefndir, hinir guðdómlegu heimar, þar sem logos-þróunin fer fram, eru alveruheimar og ná yfir mörgum sinnum voldugri víðáttur. 

Í þrem fyrstu heimunum fer fram þróun mannanna, í tveim þeim næstu þróun ofurmennanna, en logos-þróunin í þeim hæstu tveim eða innstu. 

Til þess að skilja þetta betur verða menn að hugsa sér þá staðreynd, að í jarðheimi er efnið sundurlausast og grófast og því er sveiflumagn þess tregast, en eftir því sem hækkar, verður efnið fínna og þéttara og sveiflumagn þess tíðara og því er ætíð rúm fyrir allar efnistegundir hinna hærri veralda í hinum lægri og lægstu heimum. 

Þróunarkerfin

Það, sem hér að framan hefur verið sagt um efnabyggingu tilverunnar og tilverustigin, verða menn að kynna sér nákvæmlega, til þess að vera fullfærir um að fylgjast með því, sem hér fer á eftir. 

Líf sólkerfisins skiptist í 10 geysistór þróunarkerfi (Evolutions-skemaer). Er tíu-talan því fullkomnunartala okkar sólkerfis. En þegar að því kemur að athuga starfsemina innan sérhvers þessara þróunarkerfa, þá birtist sjö-talan sem grundvallartala úr því og alla leið niður úr gegn. Sjö þessara stóru þróunarkerfa eru starfandi í sólkerfinu á hverjum tíma. Það er því auðvitað, að ef eitt þeirra hverfur af sviðinu, þá kemur nýtt í ljós eða eitt af þeim þremur, sem ekki eru þá þátttakendur í starfseminni. 

Sérhvert þróunarkerfi skiptist í sjö hnattakeðjur og er einstök hnattakeðja starfandi nú í hverju þessara sjö þróunarkerfa. 

Til frekari skilningsauka verð ég að nefna hvert þróunarkerfi nafni þeirrar plánetu, sem er aðalpláneta þess í hinum jarðneska heimi. 

Í sólkerfinu eru fleiri plánetur jarðneskar en þær sem raunvísindin hafa enn fundið og kemst ég ekki hjá því að nefna þær í þessu sambandi. Raunvísindin finna þær ef til vill síðar, eins og þær, sem nýfundnar eru og dulfræðingar voru fyrir löngu búnir að segja að væru til. 

  1. Fyrsta þróunarkerfið er kennt við Vúlkan, sem er sú plánetan, sem er næst sólu, og er í þriðju hnattakeðju. 
  2. Næst er Venusarþróunin, sem er í fimmtu hnattakeðju og er hún lengst komin áleiðis af öllum þróunarkerfum sólkerfisins. 
  3. Þá er jarðþróunin. Er hún í fjórðu hnattakeðju. Og fylgja þeirri þróun þrír jarðneskir hnettir, sem sé Jörðin, Mars og Merkúr. 
  4. Þá er Júpíter-þróunin. Er hún í þriðju hnattakeðju. 
  5. Satúmusar-þróunin er næst og er hún í þriðju hnattakeðju. 
  6. Úranusar-þróunin er einnig í þriðju hnattakeðju. 
  7. Og síðust er Neptúnusarþróunin og er hún í fjórðu hnattakeðju. Eru í þeirri hnattakeðju einnig þrír jarðneskir hnettir, eins og í jarðþróuninni, sem sé Neptún, Plútó og Ósiris, sem er yzt allra plánetanna í sólkerfinu og hefur um 600 ára umferðartíma um sólu. 

Einn hnöttur er enn ónefndur. Er hann af sumum nefndur Hermes. Er hann á milli Mars og Júpíters. Er umferðartími hans um fjögur ár. Hann er enn þá ekki fyllilega jarðneskur, því hann hefur aðeins ljósvakaefni og er því ekki sýnilegur jarðneskum augum. Hann er því enn á hærri hluta jarðheims. Eru þá hnettirnir í sólkerfinu 12 að tölu og samsvara öllum tónunum í tónstiganum. 

En hnettir sólkerfisins eru miklu fleiri. Eins og til eru hnettir í jarðheimi, eins eru þeir einnig til á hinum hærri tilverusviðum. Mun ég skýra það nánar í eftirfarandi. 

Hnattakeðjur

Eins og vikið er að hér að framan, er sérhverju þróunarkerfi skipt í sjö hnattakeðjur. Reyni ég þá að lýsa því þróunarkerfinu, sem við hér a jörðu teljumst, og segja hvernig hver hnattakeðja þess er byggð. 

Eins og áður er vikið að, er aðeins ein hnattakeðja starfandi í hverju þróunarkerfi í senn. 

Þróunin fer fram á öllum tilverustigunum fimm, jarðheimi, geðheimi, hugheimi, innsæisheimi og hinum andlega heimi. Fyrsta og sjöunda hnattakeðja ná upp í hina andlegu heima, en sú fjórða kemst lengst niður í efnið, niður í jarðheim. eins og áður er sagt. 

Í hverri hnattakeðju eru sjö hnettir starfandi og er þeim skipað sem hér segir: 

1. hnattakeðja hefur tvo hnetti í nírvana, tvo í innsæisheimi og þrjá í hugheimi, sem sé tvo á hærri svæðum hugheima og einn á lægri svæðum hugheima. 

2. hnattakeðja hefur tvo hnetti í innsæisheimi, tvo á hærri svæðum hugheima, tvo á lægri svæðum hugheima og einn í geðheimi. 

3. hnattakeðja hefur tvo hnetti á hærri svæðum hugheima, tvo á lægri svæðum hugheima, tvo í geðheimi og einn í jarðheimi. 

4. hnattakeðja hefur tvo hnetti á lægri svæðum hugheima, tvo í geðheimi og þrjá í jarðheimi og er það sú hnattakeðjan, sem við erum í nú og eru í henni hnettirnir Jörðin, Mars og Merkúr. 

5. hnattakeðja hefur tvo hnetti á æðri svæðum hugheima, tvo á lægri svæðum hugheima, tvo í geðheimi og einn í jarðheimi. Er Venusarþróunarkerfið í þeirri hnattakeðju og hefur senn lokið henni. Er það nálega hálfri annnarri hnattakeðju á undan okkur í þróun. 

6. hnattakeðja hefur tvo hnetti í innsæisheimi, tvo á hærri svæðum hugheima, tvo á lægri svæðum hugheima og einn í geðheimum. 

7. hnattakeðja hefur tvo hnetti í nírvana, tvo í innsæisheimum og þrjá í hugheimum, sem sé tvo á hærri svæðum hugheima og einn á lægri svæðum hugheima. 

Á þessu sést, að 1. og 7. hnattakeðja eru jafnhátt og hafa sömu tölu hnatta í sömu heimum, 2. og 6. hafa sams konar aðstöðu og 3. og 5. eru settar á sama hátt, en 4. hnattakeðjan er neðst og fer lengst niður í efnið. 

Samkvæmt fornu indversku tímatali er áætlað að líf einnar hnattakeðju samsvari 100 árum Brama og sé því hér um bil 311 billjónir og 40 þúsund milljónir ára samkvæmt vesturlenzku tímatali. 

Ég býst við að mönnum ofbjóði er þeir reyna að hugsa um svona háar tölur, eins og þær, sem ég nú hef nefnt, en stjörnufræðingum nútímans blöskra þær ekki svo mjög. Enski stjörnufræðingurinn Jeans gerir ráð fyrir því, er hann talar um líf sólkerfis, að það taki geysilegan tíma frá upphafi vega. Það er í sambandi við þá kenningu, að á frumskeiði sólar hafi önnur sól nálgast hana og dregið út úr henni sepa með aðdráttarafli sínu og því nær sem hún kom því fyrirferðarmeiri varð sepinn og varð oddmyndaður í þá átt, sem aðkomusólin var stödd. En svo fjarlægðist aðkomusólin, en sepinn hélt áfram að losna við sólina og losnaði að lokum og varð þá oddmyndaður í hinn endann. Hefur svo efni þetta losnað í sundur í sjálfstæða hnetti og því séu þeir hnettir, sem eru næstir sól, minnstir, en þeir í miðið stærstir, eins og Júpiter og Satúrnus, en þeir yztu næstminnstir. Jeans ráðgerir, samkvæmt mjög margbrotnum athugunum, að slík sólarheimsókn geti tæplega átt sér stað nema einu sinni á hverjum 600.000 billjónum ára. 

Náttúruríkin

Þegar menn hafa athugað nákvæmlega það, sem lýst er hér að framan, þá kemur til greina hvað það er, sem myndar lífsgervin í þróuninni. 

Eins og fyrr er sagt, er sjötalan grundvallartala í sólkerfi voru að þeirri fyrstu eða síðustu undantekinni. Náttúruríkin, sem birtast í þróuninni á hverjum tíma, eru sjö. Fjögur þeirra þekkjum við, en þrjú eru hulin jarðneskum augum. Þau þrjú ríkin, sem við sjáum ekki, eru hin svo nefndu frumeindaríki (elemental kingdoms) og eru þau nefnd með tölunum 1., 2. og 3. frumeindaríki. Í þeirri hnattakeðju, sem við erum nú stödd í, þeirri fjórðu, er þessum frumeindaríkjum skipað þannig, að 1. frumeindaríkið er á hærri svæðum hugheima, 2. á lægri svæðum hugheima og hið 3. í geðheimi. Þá kemur steinaríkið, svo jurtaríkið, dýraríkið og síðast mannríkið. Leiðin í gegnum frumeindaríkin niður í steinaríkið er nefnd niðurþróun (involution), en leiðin úr steinaríkinu upp í gegnum jurtaríkið, dýraríkið og mannríkið er nefnd framþróun eða uppþróun (evolution). Öll þessi ríki eru því ævinlega til staðar í þróuninni á hverjum tíma. Það er líkt sem á sér stað hér og í skýringunni á hnattakeðjunum, að mannríkið, hið sjöunda og síðasta í röðinni, samsvarar 1. frumeindaríkinu, því maðurinn á í raun réttri heima á hærri svæðum hugheima og því er það sannleikur, að við erum hér í heimi „gestir og útlendingar“, því aðalheimkynni vort er á himnum. Dýraríkið og 2. frumeindaríkið samsvara hvert öðru, því dýrin ná lítils háttar upp í lægri hugheima og því hafa þau dálítinn hugsanahæfileika. Jurtaríkið og þriðja frumeindaríkið eru bæði næst steinaríkinu, sitt hvorum megin á þróunarboganum, en steinaríkið er snúningsdepillinn, mótar milliliðinn á milli niðurþróunar og uppþróunar og er eingöngu í jarðheimi. 

Brot úr þróunaráætlun II 

Höfundur: Jón Árnason 

Birtist í Gangleri 17.1.1943 

Lífsaldan

Hér að framan hef ég reynt að lýsa aðaluppistöðunum eða grindinni, sem heldur uppi öllu þróunarkerfinu. 

Til þess að geta lýst þróuninni frekar, verðum við að tala um lífið sjálft, lífsölduna eða hina guðdómlegu hugsun, eins og hún birtist samkvæmt hinni guðdómlegu þróunaráætlun. Er áætlun þessi bundin við kerfi það, sem ég hef gert tilraun til þess að lýsa hér að framan, og vil ég nú reyna að lýsa þróunarleiðinni. Ég verð því að lýsa ferðalagi lífsins í gegnum heilt þróunarkerfi, en dvel lengst við hnattakeðju þá, sem við erum nú stödd í. 

Eins og áður er vikið að, eru hnattakeðjur sérhvers þróunarkerfis sjö að tölu, og birtast þær hver á eftir annarri og er jafnlöng hvíld á milli þeirra og lífskeið þeirra sjálfra. því jafnlöng eru dagur og nótt. 

Í fyrstu hnattakeðju, eins og í öllum hinum, sem á eftir henni koma, birtast öll náttúruríkin sjö, sem lýst er hér að framan. Þó er það aðeins 1. frumeindaríkið, sem þá byrjar þróun sína. Öll hin ríkin sex hafa lokið þeirri þróun, sem þau eiga að baki sér í öðru sólkerfi, sem nú er liðið undir lok. Með því að hver hnattakeðja þróar sérhvert náttúruríki svo langt, að það nær því að komast upp í hið næsta í næstu hnattakeðju, þá kemur ætíð nýtt 1. frumeindaríki til sögunnar í hverri hnattakeðju og hefur göngu sína. Afleiðing þess er sú, að eitt náttúruríki hverfur á brott sem fullnumar við lok hverrar hnattakeðju og er þá aldrei nema um eitt ríki að ræða, það síðasta – mennina. Um leið og 1. frumeindaríkið kemur inn í þróunina hverfur mannríkið út úr henni sem fullnumar. 

En þó er þróuninni þá ekki lokið, því þá tekur við þróun ofurmennanna, en hún er ekki til athugunar í þessu sambandi, enda telst hún hærri þróunarsviðum, eins og hér er að framan getið. 

2. hnattakeðja færist skör neðar eða um eitt tilverustig. Það ríkið, sem hóf göngu sína sem 1. frumeindaríki í 1. hnattakeðju, birtist nú sem 2. frumeindaríki ; það, sem var 2. frumeinda- ríki í 1. hnattakeðju, verður nú 3. frumeindaríki ; það, sem var 3. frumeindaríki, verður nú steinaríki; það, sem var steinaríki, verður nú jurtaríki ; það, sem var jurtaríki, verður nú dýraríki og það, sem var dýraríki, verður nú menn. Það, sem var mannríki, hvarf út úr 1. hnattakeðju sem fullnumar. 

3. hnattakeðju fer á sama hátt og hinum fyrri, nema að því leyti að vitundarástandið er breytt, því að hún liggur einu tilverustigi neðar en sú fyrri. Hún hefur sem sé einn jarðneskan hnött, eins og áður er getið. 

Komum við þá að 4. hnattakeðju, þeirri sem okkar þróun dvelur nú í. Í henni eru eins og áður er sagt, tveir hnettir í hugheimum, tveir í geðheimum og þrír í jarðheimi, Mars, Jörðin og Merkúr. Til hægðarauka ætla ég að tákna þá með stöfunum A, B, C, D, E, F, G. – Annar hugheimshnötturinn er A, annar geðheimshnötturinn er B, Mars er C, Jörðin D, Merkúr E, síðari geðheimshnötturinn er F, og síðari hugheimshnötturinn er G. 

Lífsaldan hefur að sjálfsögðu göngu sína á A-hnetti og dvelur þar um langan tíma, vegna þess að lífsaðstaðan er þar svo létt. Þessi hnöttur hefur enga þróun lægri en hina hugrænu. Lífverurnar lifa því einungis í himnaríki og eru undir hugrænum áhrifum bæði utan frá og innan frá. Það ræður því að líkindum, að þessi þróun taki tiltölulega langan tima, ekki síst vegna þess, að hún er frumþróun þessarar hnattakeðju. Á meðan þróunin er á A-hnetti gerir hún ekki vart við sig á hinum hnöttunum í keðjunni. Þetta gerist vegna þess að Logoshugsun er eingöngu í það sinn beint að þessum hnetti. Að þessu loknu flyzt Logos-athyglin til B- hnattar, sem er í geðheimum, en lífið skilst ekki algerlega við A-hnöttinn; það hvílir, en deyr eigi með öllu út. 

Á B-hnetti verður þróunaraðstaðan að því leyti frábrugðin hinni fyrri, að hann hefur geðheima til umráða, Þar þróast einnig tilfinningalíf til viðbótar því hugræna. Er líklegt að þróun þessi sé að nokkru styttri en hin, vegna þess, að þróunarskilyrðin eru sterkari og víðtækari og áhrifameiri. 

Þá flyzt lífsaldan til C-hnattar eða Mars og hefur dvalið þar í heila hnattvist. Hefur hún þó skilið eftir lífsgerfi á B-hnetti, til þess að eiga þar afturkomu auðið síðar, eins og á A-hnetti. Að öllum líkindum hefur Mars verið mjög heitur í þá tíð eða jafnvel aðeins ljósvakagervi og þróunin því að miklum mun léttari en nú, því starftæki lífveranna hafa ekki verið fulljarðnesk eins og hún eru nú. 

Þá hefur lífsaldan komið hingað til jarðar. Sama má segja um lífsaðstöðuna hér í þann tíð, eins og á C-hnetti. Jörðin hefur í þá tíð verið mjög heit eða eldhnöttur eingöngu. Hafa lífsskilyrðin því verið mjög á annan veg þá, en þau eru nú, en þó að líkindum að miklum mun sterkari, en á hinum fyrrnefndu hnöttum og þau sterkustu, sem enn þá var völ á. 

Þá fluttist lífsaldan til E-hnattar, Merkúrs. Hefur hann þá að líkindum verið í áþekku ástandi og Mars og hafa lífsgervin verið að mun fínni og frekar ljósvakakennd, ef þau hafa náð því stigi niður á við. 

Þá fluttist lífsaldan til F-hnattar, sem dvelur í geðheimum og dvelur þar í heila hnattvist við lík skilyrði og á B-hnetti. 

Loks hvarf hún þaðan til G-hnattar og þar lauk hún fyrstu hringför sinni um hnattakeðjuna. En alls eru hringfarirnar sjö að tölu. 

Eins og áður er sagt, hefur lífsaldan skilið eftir lífsgervi á öllum hnöttum keðjunnar, sem bíða til þess tíma að hún kemur þangað á ný í síðari hringförum. 

Nú byrjar lífsaldan aðra hringför sína um hnattakeðjuna og tekur því til starfa á A-hnetti í annað sinn, við lík skilyrði og hin fyrri. Þó er líklegt að efnið sé að nokkru grófara og sterkara ef um nokkra verulega breytingu er að ræða og er hana helzt að finna í jarðnesku hnöttunum þrem, C, D, E, því þeir hafa færzt nokkuð í áttina til núverandi efnisástands; að líkindum kólnað lítils háttar. Og lífsaldan lýkur annarri hringför sinni á sama hátt og hinni fyrri og lýkur henni á G-hnetti. 

Og hún fer á sama hátt þriðju hringför sína við áþekk skilyrði og áður, en þó munu jarðnesku hnettirnir hafa færzt lítils háttar nær þvi ástandi, sem þeir eru nú í. 

Hafa þessar þrjár hringfarir þróunar verið afar lengi á leiðinni, þvi að frumþróunin tekur ætið lengri tíma en síðari hlutinn. Frumþróunin er undirbygging seinni hlutans. Það er alllíklegt að þessar þrjár hringfarir lífsöldu, sem nú hafa verið nefndar, hafi staðið yfir um tvö hundruð billjónir ára. 

Þá hefur lífsaldan fjórðu og núverandi hringför sína um hnattakeðjuna. Hefur hún byrjað á A-hnetti og dvalið þar í hæfilega langan tíma, flutzt til B-hnattar og dvalið þar. Þá hefur hún flutzt til Mars eða C-hattar, og loks flutzt hingað, í fjórða sinn. Í fyrstu munu gervin hafa eingöngu verið geðheimsgervi og voru þau mjög stór um sig og víðáttumikil, þvi hnötturinn hefur þá verið of heitur til þess að geta borið jarðneskt líf, eins og þvi er nú háttað. 

Er það fyrsti kynstofninn, sem þá hóf göngu sína. Næstur honum kom annar kynstofninn, sem hefur verið mestmegnis ljósvakagervi og því hálfjarðneskur. Voru þær þjóðir nefndar Norðbúar eða „Hyperboræar“. Hefur þróun þessara tveggja kynstofna staðið í 300 milljónir ára. Að þeim tíma liðnum hefur jörðin verið búin að ná því stigi að geta fætt lífsgervi, sem voru lík þeim, sem við nú höfum eða jarðneska líkami. Birtist þá þriðji kynstofninn, Blökkumenn eða „Lemúrar“. Bjuggu þeir á landi því, sem var þar, sem nú er Indlandshaf og Kyrrahaf. Er Ástralía leifar af því landi. Lifðu Blökkumenn í liðlega 50 milljónir ára. Á þessum tíma tóku þeir miklum breytingum. Fyrst voru þeir einfrumungar og skiptust í tvennt. 

Æxlunin fór fram á þann hátt. Samloðun gervanna hefur verið mjög laus. Þá urðu þeir tvíkynja. Loks skiptust kynin og hafa haldið þvi ástandi til þessa dags. 

Því er haldið fram, að í lok Lemúríuþjóðanna eða í síðasta kynþætti þeirra, hafi mannkynið fyrst náð einstaklingsvitund sinni. Þá hafi það náð sambandi við guðsvitund sína eða hið innra líf sitt jafnvel þó að það hafi enn þá ekki verið sér þess fullvitandi og er það eigi enn þá, að sárafáum undantekningum. 

Þá hóf fjórði kynstofninn göngu sína eða gulu mennirnir fyrir nálega fimm milljónum ára. 

Bjuggu þeir á landi því, sem var þar, sem nú er Atlantshaf. Eru til miklar og markverðar bókmenntir um þetta land, og er talið að í sérstöku „Atlantis“-bókasafni í París séu 25 þúsund bindi, sem annaðhvort fjalla um þetta land eingöngu eða geta þess að meira eða minna leyti. Eru Rauðskinnar í Ameríku og Indíánar afkomendur gulu mannanna og einnig Kínverjar. 

Eru þeir síðasti eða lokaþáttur fjórða kynstofnsins. Ástralíu-svertingjar og Afríku eru leyfar Lemúranna. 

Þegar komið var fram í miðjan fjórða kynstofninn eða fjórða kynþátt hans, hafði þróunarkerfi okkar náð miðbiki sínu og komizt lengst niður í efnið, sem því var unnt að komast. Þá var jörðin komin í það grófasta ástand sem hún átti að komast í og síðan hefur þróuninni þokað lítils háttar upp á við. 

Þá komu Aríarnir; hvítu þjóðirnar, fimmti kynstofninn, fram á sjónarsviðið. Hófu þeir göngu sína fyrir um 60 þúsund árum. Er þróun þeirra nú komin góðan spöl fram yfir miðbik, því að fimmti kynþáttur þeirra, Teftónar, eru nú uppi í heiminum og ráða honum. 

Sjötti kynþáttur Aríanna er nú þegar farinn að gera vart við sig, einkum í Ameríku og Ástralíu, en hann birtist víðar, t. d. hér í landi. Er þetta fólk mjög fíngert og fallegt, en hefur ennþá eigi fengið þann kraft, sem því er nauðsynlegur til þess að standast öldurót þessara hættutíma og eru því undir miklum hættum. 

Út úr þessum kynþætti á sjötti kynstofninn að fæðast. Sumir halda því fram að hann muni ekki koma við sögu fyrr en að liðnum átta til níu hundruðum ára. Er honum ætlað að búa á landi því, þar sem nú er Kyrrahaf, vestur af Mexíkó. Að hæfilegum tíma liðnum verður Kyrrahafsbotninn kominn svo hátt upp úr sjó á þessum slóðum, að land það, er þá myndast, verður byggilegt. Er fyrir löngu síðan byrjað á því að lyfta hafsbotninum upp og undirbúa myndun þessa meginlands framtíðar. 

Á þessu meginlandi mun vaxa og þróast miklu glæsilegri og fegurri menning en sú, sem mannkynið hefur ennþá megnað að birta. Atlantsþjóðirnar áttu að þroska tilfinningalífið í ákveðna hæð og þeim tókst að undirbyggja það svo, að það næði sambandi við innsæið í gegnum listir og listasmekk, sem Egyptar hafa varðveitt og flutt til vorra tíma. Aríarnir eiga að þroska hugsanahæfileikann svo, að hann nái hinni hærri eða heimspekilegu hugsun og innsæinu að þeirri leið. Sjötti kynstofninn á að þroska skyggnina svo hátt, að menn sjái og starfi að minnsta kosti í tveim veröldum í senn. Við það tekur þekking manna á tilverunni afarmiklum breytingum og veitir þeim allt aðra afstöðu til lífsins en áður átti sér stað. 

Að lokum kemur sjöundi og síðasti kynstofninn til sögunnar. Á hann að búa á landi þar sem nú er nokkur hluti Suður-Ameríku. Hverfur nokkur hluti hennar í sæ, en aftur kemur upp meginland, það sem þessi síðasta menning mannkyns á að búa í þessari hnattvist lífsöldunnar. 

Þessi kynstofn á að þroska hugsanaflutninginn til fullnustu og verða þá tungumálin óþörf, því menn tala saman með hugskeytum. 

Að því búnu hverfur lífsaldan héðan og flyzt til Merkúrs eða E-hnattar og dvelur þar í hæfilegan tíma og þróar þar einnig sjö kynstofna eins og hún gerði í dvöl sinni hér. Gerir hún það í dvöl sinni á öllum hnöttum keðjunnar í öll þau sjö skiptin sem hún starfar þar. 

Þá hverfur hún til F-hnattar í geðheimum og loks til G-hnattar í hugheimum og hefur þá lokið fjórðu hringför sinni um hnattakeðjuna. 

Á sama hátt fer lífsaldan 5. hringför sína um hnattakeðjuna og byrjar á A-hnetti og heldur svo áfram þangað til hún kemur til E-hnattar, Mars, í fimmta sinni. Mun hann þá miklu léttari en nú og þróunarskilyrðin fyrirhafnarminni. Kemur hún að því búnu hingað og dvelur hér og þróar sjö kynstofna á ný eins og fyrri skiptin. Hverfur hún þá til Merkúrs og svo til F- og G- hnatta og lýkur þá fimmtu hringför sinni. 

Á líkan hátt mun lífsaldan fara 6. og 7. og síðustu hringför sína um hnattakeðjuna og að lokum lýkur þessari fjórðu höfuðþróun okkar og þá mun hnattakeðjan leysast upp og hverfa sem þátttakandi í leik lífsins. 

Það ræður að líkindum, að þrjár síðustu hringfarirnar verði að miklum mun styttri en þær fyrri og sú síðasta mun stytzt þeirra allra. Fyrstu skref þróunar eru stytzt og hægust, en þau síðustu hröðust og lengst. 

4. hnattakeðja. En hún nær hærra upp og er því andlegri í ytri áhrifum. Í seinni hluta þeirrar þróunar verða mennirnir meira guðir en menn frá okkar sjónarmiði. 

5. hnattakeðja. – Að hæfilegum hvildartíma liðnum birtist 5. hnattakeðjan í þróunarkerfi okkar. Verður hún lík þróun þeirri, sem Venusarkerfið er nú statt í. Verður þróun þessi að miklum mun léttari en sú sem við erum nú stödd í, því að hún hefur aðeins einn jarðneskan hnött, tvo í geðheimum og fjóra í hugheimum. Fer lífsaldan sjö hringfarir um keðjuna á sama hátt og ég hef lýst. 

6. hnattakeðja. – Er hún enn þá hærra á tilverustigunum en sú fimmta. Hefur hún engan jarðneskan hnött. Einn hnött hefur hún í geðheimum, fjóra í hugheimum og tvo í innsæisheimum. Hefur hún sams konar legu á tilverustigunum og önnur hnattakeðjan. 

Verður þróun þessi því ennþá léttari og andlegri en hinar fyrri. Er ferðalag lífsöldunnar einnig hið sama nú og í fyrri hnattakeðjum. 

7. hnattakeðja. – Liggur hún hæst allra hnattakeðja og er andlegust þeirra, einnig vegna þess að hún er hin síðasta í þróunarkerfinu. Með henni er þá okkar þróunarkerfi lokið. Öll náttúruríki hennar nema mennirnir, sem hafa náð fullkomnun, hverfa upp í hina andlegu heima (Nirvana) og bíða þar þangað til nýtt sólkerfi kemur til sögunnar og þá ljúka þau þar þeirri þróun, sem þau áttu ólokið, er þetta sólkerfi okkar hvarf brott af leiksviði lífsins. 

Sérhvert þróunarkerfi verður að byrja með sex náttúruríki, sem hafa lokið tilsvarandi þróun annars staðar og á sama hátt verður þetta sama þróunarkerfi að skila sex, náttúruríkjum með tilsvarandi þróun að baki sér til nýs þróunarkerfis í nýju sólkerfi. 

Viðauki

Eins og getið er hér að framan, þá á sólkerfið að þróa tíu þróunarkerfi til fullnustu. Ég hef í kaflanum um lífsölduna skýrt frá því hver sé gangurinn í þessari starfsemi og hvernig henni sé fyrir komið. Þó eru það að sjálfsögðu aðalatriðin, sem hér er lýst. Mörg minni atriði gætu komið til greina, sem verður alveg að sleppa. 

Öll hin þróunarkerfin starfa á líkan eða hliðstæðan hátt. 

Hvar höfum við, sem nú erum menn í þessari þróun, í þessari hnattakeðju, byrjað að feta braut lífsins? Samkvæmt þróunaráætlun þessari höfum við byrjað þróun okkar í sólkerfi, sem er fyrir langalöngu liðið undir lok. Við höfum birzt í 1. frumeindaríki í 5. hnattakeðju í einu þróunarkerfi þess sólkerfis, – birzt í 2. frumeindaríki í 6. hnattakeðju og í 3.frumeindaríki í 7. og síðustu hnattakeðju. Þá höfum við verið í steinaríkisvitund í 1. hnattakeðju í okkar þróun, þeirri, er ég hef lýst hér að framan, farið í gegnum jurtaríkisvitund í 2. hnattakeðju og dýraríkisvitund í 3. hnattakeðju og að lokum birzt sem menn í 4. hnattakeðju nú. Og eigum að lokinni þessari hnattakeðju að ljúka þróun okkar og verða ofurmenni og fara inn í hina hærri þróun. Og þróun okkar er því í raun og veru engin takmörk sett. 

Á sama hátt má rekja þróunarsögu allra annarra náttúruríkja. 

Stjörnufræðingar telja að mjög fáar sólir muni hafa sólkerfi eða jarðneska hnetti. Þetta er vitanlega mjög örðugt að rannsaka vegna þess að fjarlægðirnar eru mjög miklar og ljósið frá þessum plánetum, ef nokkuð er, hlýtur að vera mjög dauft, svo að þær geta að líkindum eigi birzt á ljósmyndaplötum. 

Næsta Tilgangur fundanna
Efnisyfirlit