Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Að vera förumaður

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson

PÍLAGRÍMUR ER kristið heiti yfir andlegan förumann, þann sem fer um og leitar helgra staða, komið af latneska orðinu peregrinus sem bókstaflega þýðir ferðalangur. Á Indlandi er orðið parivrajaka svipaðrar merkingar og sömuleiðis sadhu, munurinn á þessum tveimur orðum er aðallega sá að sadhu er maður sem alltaf er á ferðinni þótt hann sé e.t.v. ekki sannur andlegur förumaður en hinn, parivrajaka, tilheyrir vissulega þessu stigi þótt hann e.t.v. haldi ætíð kyrru fyrir og auðkenni sig ekki á neinn hátt í þeirri grein.

Í kringum andlega förumenn svífur jafnan ákveðinn rómantískur blær — tilfinning um frelsi og hugarró og órofið samband við æðri veruleika.

Þetta er alls ekki tómur hugarburður eða ævintýri. Hinn andlegi förumaður er eystra og vestra ákveðið fyrirbæri í mystískri hefð. Hann er sá sem hvergi á heima þótt hann kunni að eiga einhvers staðar heima samkvæmt manntali. Hann „þolir frelsi“ og finnur enga ógæfu í því að „ekkert sé framundan nema þögnin“. Hann á að vera nokkurn veginn ég-laus og sæmilega óháður.

Ákveðin einkenni hins andlega förulífs geta komið snemma.

Há mystísk upplifun skilur eftir sig óafmáanleg spor, sérstaklega ef hún er með esóterísku ívafi og flytur kannski með sér nokkurn vott af ummyndun. Sá sem fyrir slíku verður, hvort sem það kom allt í einu og mjög sterklega ellegar við og við og í smáskömmtum, verður aldrei samur maður. En þótt hann sé orðinn annar og í miklu óháður hefur hann mikils að sakna. Hið ljúfa í mannlífinu dregur hann enn að sér og hann leitar þess ósjálfrátt sem hann setti hið ljúfa í samband við. En hér rekst hann á furðulega hindrun. Af því hann er sjálfur orðinn öðruvísi er öll hans reynsla öðruvísi. Hann kemst aldrei „heim“. Hann á hvergi „heima“. Vinir hans og skyldmenni hafa orðið „eftir“. Hann nær aldrei alveg til þeirra. Og hann getur ekki kennt þeim um því það er hann sem breyttist, og í sjálfu sér var breytingin „góð“ svo hann hefur ekki yfir neinu að kvarta.

Þannig er hann orðinn förumaður, parivrajaka.

Ekkert er óeðlilegt við löngun til hins ljúfa. Hið ljúfa er enn „ljúft“. En þú, eða förumaðurinn, hefur misst þennan hitasóttarkennda spenning sem einkennir vanalegt líf og þá kemstu að raun um, vafalaust svolítið trega þrunginn, að þetta „ljúfa“ er allt í einu ekki miklu ljúfara en sá ljúfleiki sem fólginn er í þeirri upplifun einni að vera til. Hin sótthitakennda spenna átti einhvern þátt í aðdráttaraflinu. Þig dreymir enn um liðna sælu þótt þú vitir í hjarta þínu að hún væri ekki á sama hátt unaðsleg ef hún kæmi til þín nú.

Þessu fylgir undarleg einverukennd, eins og allt ljúft og notalegt hafi yfirgefið þig, jafnvel einsemd. Og hún víkur yfirleitt aldrei frá þér nema þegar þú ert samvistum við þér líka, þá sem farið hafa í gegnum sömu reynslu og þú.

Hinum andlega förumanni er boðið upp á frelsi, en frelsi er ekki frelsi nema það sé látið ónotað. Þannig aðeins ertu frjáls frá frelsinu. Ef þú skilur frelsi þannig að þú megir gera allt sem þú vilt þá er frelsið á samri stundu glatað. Flest gott sem þú hefur, hefurðu því aðeins að þú látir eins og þú hafir það ekki.

Og sá sem er frjáls horfist hverja stund í augu við þögnina. Hún ein er framundan — ekkert krydd í lífinu, engin tilbreyting, því einnig tilbreytingin er orðin tilbreytingalaus. Þú gerir ekki það sem þig langar til, því þannig mundirðu glata því. Þú gerir aðeins það sem þarf að gera. Þér leiðist meira að segja svolítið að gera það sem þarf að gera. En þú gerir það samt. Þannig ertu óháður því sem þú gerir og því aðeins að þú sért óháður gerirðu það vel.

Kannski er samt ekki út í bláinn að hjúpa líf förumannsins rómantískri hulu. Honum líður ekki „illa“ þótt honum líði heldur ekki sérlega vel. Eitthvað annað en að líða vel eða illa er komið til skjalanna. Og hann er ekki óhamingjusamur nema helst þegar hann biður um hamingju.

En lengi mun hann flaska á að „langa heim“, heim til síns forna unaðar — eins og andlegt líf sé aðallega það að losna við það sem kallast óþægilegt. Þessi löngun er sérstaklega óstýrilát fyrst eftir þá miklu breytingu sem gerir hann að sönnum nema eða lærisveini.

Og hann heldur áfram sinni einmanalegu för uns hann hefur sannfærst um að öll tilveran er heimkynni hans.

En þrátt fyrir alla rómantík verður það að viðurkennast að hinn andlegi förumaður fer á mis við ýmislegt sem okkur hinum er tamt að þykja sjálfsagt. Hann hefur sagt skilið við fortíðina, hún er ekki lengur til eða á ekki að vera til fyrir honum, og það leiðir af sér að hann á ekki heldur neina framtíð, auk þess sem hann á heldur ekki neinn stað. Það er hans heimilisleysi.

Það stoðar lítt að segja að fortíðin sé aðeins sérstök útsýn og framtíðin önnur, heimspekileg útskýring nær skammt, því þrátt fyrir það er jafnsnúið að gera þetta viðhorf alveg að sínu. Og í raunveruleikanum duga ekki útskýringar, þær duga aðeins í umræðu.

Þannig er hann sviptur öllum möguleikum til þess sem við köllum þægilegt og skemmtilegt. Það er einmitt sú staðreynd sem hann á erfiðast með að venja sig við. En þegar honum hefur lærst að una þeim skorti — getur ekkert óskemmtilegt eða óþægilegt snortið hann.

22.9.1983

Fyrri Ábending frá efnisvísindum
Næsta Geislarnir sjö
Efnisyfirlit