Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Ábending frá efnisvísindum

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson

Úr fræðslubréfi 1974

ALHEIMUR sá sem maðurinn skynjar og kallar sinn er frá sjónarmiði vísindanna mökkur af geislandi orku. Í þessum mekki kemur fram breyting sem stefnir frá óreiðu til meiri reglu og kallast þróun. Örsmáar „agnir“ sem eru hvort tveggja í senn agnir og bylgjur byggja upp atóm hinna 92 frumefna sem efnisheimurinn er gerður úr. Síðan raðast frumefnin saman í alls konar sambönd og þannig verður til hin fjölbreytilega efnislega veröld þar sem ráða vélgeng lögmál eðlisfræðinnar. Um sköpun stjörnuhvelfinga, stjarna og pláneta gilda ekki óáþekk lögmál og um innri gerð efnisins eða þannig lítur þetta út frá sjónarmiði mannsins.

Í alheiminum er þó meira en dautt efni sem háð er vélgengum breytingum. Hingað og þangað blossar upp líf. Efnin taka að raða sér saman á sérstakan og flókinn máta og þau efnasambönd kallast lifandi efni. Þótt þar sé ekki að finna við sundurgreiningu önnur efni en þau sem finnast í hinni dauðu náttúru, kemur algerlega nýr eiginleiki fram með lífþróuninni. Eitthvað algerlega nýtt hefur birst sem ekki er finnanlegt í neinum þeim frumpörtum sem hið svo kallaða lifandi efni samanstendur af.

Þannig þróast lífverurnar frá hinu frumstæðasta og einfaldasta lífi („efni“ sem stundum hagar sér eins og líf og stundum eins og „dautt“ efni, sbr. veirur og jafnvel enn frumstæðari form) allt til hinna háþróuðu forma, eins og skordýra og spendýra.

Dýrin, æðri sem lægri, lúta ströngum lögmálum náttúrunnar og eru að kalla alveg komin upp á miskunn þeirra skilyrða sem ráða í umhverfinu. Náttúran er þó ekki alveg blind því í henni hefur komið fram eiginleiki sem stundum er kallaður vitsmunir í náttúrunni. Hér er átt við það „hugvit“ sem ræður við tilurð lífvera og aðlögun þeirra að skilyrðum. Jafnvel þegar í hinum vélgengu lögmálum hins ólífræna efnis birtast „vitsmunir“ í gerð einstakra mjög flókinna og fullkominna forma og þó kannski fremur í tilhneigingunni til að skapa reglu úr óreiðu.

En í þeirri lífveru sem okkur virðist standa á hátindi þróunarinnar kemur fram nýr eiginleiki. Maðurinn er gæddur eiginleikum sem ekki eru að öllu leyti framhald af þeirri tegund þróunar sem dýrin lúta. Maðurinn hefur tekið líf sitt að verulegu leyti í sínar hendur. Hann breytir skilyrðum sínum í stað þess að vera þræll þeirra og tekur jafnvel að ráðskast með líf annarra dýra og umhverfi sitt í heild. Þeir vitsmunir sem birst hafa smátt og smátt í tilhneigingum heildarþróunarinnar virðast blómstra með sérstökum hætti í manninum. Fyrir bragðið er hann nokkurs konar verkstjóri í sköpunar- og umbreytingarstarfi náttúrunnar.

Hér er fram komin hin félagslega og sálfræðilega þróun sem virðist aðallega grundvallast á vitund og vitsmunum mannsins, enda virðist lífsskyn hans og hugrænir hæfileikar vera í eðli sínu öðruvísi en dýranna.

Frá sjónarmiði nútíma vísinda er maðurinn samt aðeins dýr sem einhvern veginn hefur tekið upp á því að hugsa. Hugsunin er þó alls ekki skýrð né skilin. Hið eina sem vísindin vita um minni, hugsun og aðra hugræna hæfileika er að samfara þeim eru efnafræðilegar breytingar í heilafrumunum. Fyrir þeim er hugsun og minni einna helst slíkar efnafræðilegar breytingar. Maðurinn hefur sálarlíf, er sagt, en samt enga sál. Allt sálarlífið hefur gróið upp af efna- og eðlisfræðilegum breytingum í líkamanum.

Þó er það viðurkennt að engar skýringar eru til á vitundarlífinu, hvers vegna vitund kemur fram. Vitundarlífið er gáta. Það að skynja, hugsa, finna til, hafa vitund um tilveru sjálfs sín er gáta sem vísindin hafa ekki ráðið fremur en annars konar tilraunir mannanna.

„Hugsunin veit sjálfa sig og veit umheiminn. Þó efna- og eðlisfræðin geti skýrt margt er þar ekki á takteinum nein skýring á hugsuninni sjálfri.“

(Sherrington)

„Er hægt að rekja sannleiksleit, heimspekilegar bollaleggingar, tilbúning kenninga, ritun og lestur bóka til efnaskipta í kjarna píramítalagaðra taugafruma — efnaskipta sem ekki standa fremur í sambandi við sannindi eða lygi en aðrar keimlíkar efnabreytingar sem eiga sér stað við meltingu í frumum þeim sem maginn samanstendur af?“

(Kenneth Walker)

Fyrri Á háu nótunum
Næsta Að vera förumaður
Efnisyfirlit