Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Á háu nótunum

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson

10/2 1984

E.G. skráði af segulbandi.

B.B. bjó til prentunar.

ÞETTA ERINDI er um þá þætti mystískrar upplifunar sem afar sjaldan er nokkuð sagt um.

Nú er það ekki svo að ég sé að segja eitthvað nýtt. Enda er það kannski ekki aðalatriðið, heldur það að þegar við tölum og hlustum þá verði eitthvað nýtt. Við þurfum að gleyma stund og stað. Og við þurfum að gleyma hverju orði um leið og það er sagt til þess að við getum stillt okkur saman í því andrúmslofti sem er miklu meiri viska heldur en nokkur orð.

Það sem máli skiptir felst ekki í því sem ræðumaður segir, fremur í því hvernig áheyrandinn hlustar. En það sem mestu skiptir er þó þetta dularfulla sakramenti þagnarinnar sem er farvegur orðsins á milli okkar. Þessu megum við ekki gleyma.

Mystísk upplifun er í rauninni upphaf allra dulrænna fræða. Því ef þessar auðu vakir hversdagsleikans væru ekki til, þá færum við ekki að reyna að seilast út fyrir þetta venjulega.

En dulræn fræði hefjast ekki aðeins á mystískri upplifun, þau enda í henni líka. Og hin mikla ummyndun innri gerðar mannsins er kannski fyrst og fremst ummyndun mystískrar upplifunar. Þegar þessi mikla ummyndun kemur, þá kemur hugljómunin. Þetta orð, hugljómun, er haft um það sem engin orð ná. Mystísk upplifun kemur þegar við drögum gluggatjöld vitundarinnar frá því sem liggur dýpra. Förum yfir í fimm liðum hvað mystísk upplifun er. Eitthvað sem hver og einn hefur eða getur upplifað en erfitt er að festa í orð.

Þessi breyting á vitundarástandinu sem við köllum mystíska upplifun, hefst vanalega með því að það dettur á þögn. Sú þögn er eitthvað í sjálfri sér, hún er ekki bara skortur á því sem heyrist, heldur eitthvað í sjálfri sér. Og hefur fólki ekki dottið í hug að tilveran væri í rauninni búin til úr lifandi þögn?

Í öðru lagi ferð þú að finna allt í þér, eða réttara sagt þú ferða að finna þig í öllu í kringum þig, þú ert í blóminu, þú ert í golunni, þú ert í öðru fólki, og þú ert jafnvel hérna í loftinu sem er á milli fólks. Og svo getur farið að stórkostleg upplifun komi, að þú finnir allt í þér, eins og allur alheimurinn, ekki bara þetta sem er í kringum þig, heldur alheimurinn sé í þér og þú einhver óútskýranlegur utanumleiki sem felur þetta allt í sér. Og svo getur líka komið sá blær að þér finnist þú greina lifandi návist í kringum þig og í þér, líf, glóandi vitund, það er eins og bros þó að það sé enginn sem brosir, eins og allt í kringum þig sé bros, alls staðar, lifandi bros. Og þetta er meira virði og mikilvægara heldur en flest af því sem fer fram í stjórnmálum og í samskiptum milli þjóða sem hampað er svo mjög í dag. Því ef þetta væri viðurkennt og fólk leitaði eftir þessu, þá þyrfti ekki her, það þyrfti ekkert sem í dag veldur mestum vandræðum í heiminum, því sá sem hefur upplifað mystíska upplifun og fundið þessa návist, hefur engan til að hata, engan til að vera á móti, engan til að öfunda því hann og allt er eitt.

Og svo getur komið sá ólýsanlegi óendanleiki sem er allt að því handan við þessa návist, handan við allan mun, handan við bæði það sem er og það sem ekki er, einhver ólýsanlegur eiginleiki sem er svo stórkostlegur að hann næst með engu móti í orð.

Þessir glampar, kannski allir í einu eða eitthvað af þeim, rjúfa stundum hversdagsleikann fyrir okkur, svipta hversdagsleikanum í sundur, þannig að við sjáum eða verðum vör við þessa algjörlega nýju útsýn yfir tilveruna. En því miður kemur þetta yfirleitt bara í glömpum sem standa stutt við, en samt, það gerbreytir lífsviðhorfi þess sem fyrir verður. Og glampi er það vegna þess hve það er gífurlegur munur á því vitundarástandi sem kemur í þessum mystíska glampa og hinu sem er hið hversdagslega sundurtætta vitundarástand.

Þetta vitundarástand getur smátt og smátt samlagast manninum, einkum ef hann stundar hugleiðingu. Það getur orðið með nokkrum hætti viðvarandi og þá er það ekki neinn glampi, þá er það eitthvað sem manninum finnst alveg sjálfsagt og tekur ekki eftir. Fyrir utan að slíkum manni er ekki illa við neinn, getur ekki kvalið og að hann þjáist með öllum af sjálfu sér, er eitt eða tvennt sem einkennir líf hans. Annars vegar að þögnin sem er hér og nú, yfirgefur hann aldrei og alltaf er einhver ávæningur af mystískri reynslu í vitund hans, hann hefur alltaf tilfinningu fyrir einhverju sem er handan við.

Hins vegar geta líka komið glampar af öðru og það eru háu nóturnar sem ég er að tala um. Ef maðurinn stundar t.d. máttariðkun í yoga eða er þegar kominn í mystískt ástand á undan, þá er þetta sem ég ætla núna að fara að tala um, eitt allra stórkostlegasta sem fyrir manninn getur komið. Það er sem kalla má efri hæðina á mystískri upplifun. Það er fólgið í því að skynjanirnar breytast, þessar venjulegu skynjanir og raunar allar skynjanir breytast og þær geta breyst snöggt og komið eins konar glampi af þessu sem við ætlum að ræða um, en þetta getur líka komið hægt og rólega, sigið að, eins og sólarlagið. Vanalega gerist þetta ekki nema í mystískri upplifun, hún er komin áður, þú er búinn að finna þig í öllu og allt í þér þegar þetta bætist við. Og um þetta er afar sjaldan rætt. Þið getið ekki flett upp bókum um mystíska upplifun og fundið um þetta nein dæmi.

En hvað er þetta ? Til að byrja með skulum við kalla það glampa af stórkostlegri sýn þegar skynjanirnar breytast um leið og vitundarástandið breytist. Og þetta getur haft aðdraganda. Skynjanirnar verða fyrst óraunverulegar. Þegar þú horfir er sem þú sjáir mynd, raunveruleiki þess sem þú skynjar er farinn — þú ferð að draga hann í efa. Dýpt og mýkt kemur í það sem þú sérð og heyrir. Ekki er alveg víst að ég geti komið þessu til skila. Skynjunin, hvort sem það er að heyra, sjá eða snerta, verður mjúk og þykk. Þú skynjar ekki bara þunna snertingu heldur þykka.

Og hvað er það svo sem birtist í glömpunum? Við skulum aðeins fresta umfjöllun um það. En þessum glömpum af stórkostlegri sýn fylgir tilfinning um óstjórnlegan stórkostlegleika, eins og heimurinn og allt umhverfið hafi ummyndast, gerbreyst. Þetta er kallað esoteriskt skyn og kemur til viðbótar við venjulega mystíska upplifun, kemur inn í venjulega mystíska upplifun. Kannski vefst fyrir ykkur hvað veldur þessari stórkostlegleika tilfinningu? En tiltölulega auðvelt er að benda á hvað það er.

Í mystískri reynslu hverfur hið aðgreinda ég, það þekkja allir menn. Í mystískri reynslu er ekkert ég, það er enginn ég-punktur, þú finnur sjálfan þig alveg eins þarna eins og hér, enda er ég-punkturinn eins og við skynjum hann hér á Vesturlöndum, einhver allra mesta blekking sem getur komið upp í tilverunni. Skárra er eins og Indverjar skilja það, að þarna er talað um aham eða ahamaham eða égégið.

Þetta ég hverfur í mystískri upplifun. En í þessu esóteríska skyni sem kemur stundum inn í mystíska upplifun, hverfur hinn hlutlægi skynjandi. Við skulum ekki fara fram hjá þessu nema gera okkur grein fyrir hvað það er merkilegt. Skynjunin sem áður var svona: ég heyrði úr þessari átt, ég horfi í þessa átt o.s.frv., hún er ekki lengur þannig, hún er alls staðar. Þú finnur hana hvar sem er. Það er bara það að skynja, ekki að þessi hérna skynji.

Og þessi voldugleiki eða þessi stórkostlegleiki stafar beinlínis af því að skynjandinn hverfur.

Ég-ið og skynjandinn, þetta aðgreinda er smátt. En í því að skynja, þegar þessir punktar eru horfnir, er óskapleg stærð, óendanleg stærð, þá er engin girðing sem lokar mann af. Allt er stórt eða réttara sagt allt er óendanlegt. Um leið og skynjandinn hverfur, um leið og skynjunin verður alls staðar, eins og aðvera-tilfinningin í mystískri upplifun, leysist líkamsformið, að því að þér finnst, algerlega upp, sem er sama og að segja að líkamsformið og alheimurinn er eitt og hið sama.

Þetta eru ekki kenningar og ekki má taka þetta sem slíkar vegna þess að það eru engar kenningar til um svona, það er verið að tala um staðreyndir sem ýmsir þekkja. Ég tala um þetta sem glampa af sýn sem kemur einstaka sinnum. En hvað gerist ef þessi glampi tekur upp á því að standa við? Nákvæmlega það er ummyndun hins innra forms mannsins. Hliðstætt því að mystísk reynsla er glampi af hugljómun, er glampi af þessari stórkostlegu sýn, aðkenning af hinni miklu ummyndun mannsins.

En samt geta verið þarna millistig sem þarf að ræða um sérstaklega. Og takið þetta ekki eins og ég sé að fræða ykkur, ég er bara að tala út í rúmið og þetta þarf að gerast í andartakinu. Við erum svolítið gáfuð núna og það er ekki góðs viti, alltaf er best að vera ógáfaður, maður þarf ekki að vera heimskur fyrir því. Taka hvert orð um leið og það er sagt og hafa gleymt því þegar það er búið, lofa því sem eftir situr að vera, þetta sem er ekki orð og ekki minning, heldur upplifun.

Þessir glampar af þessu æðra skyni eru kannski kallaðir dulrænir hæfileikar, en þeir þurfa samt ekki að vera það sem kallað er skyggni eða neitt því um líkt. Í ljós kemur að maður skynjar ekki með neinu, þú heyrir ekki með eyrunum, þú sérð ekki með augunum, miklu nær er að segja að þú skynjir í gegnum skynfærin, þú bara skynjar. Þetta þarf að vera ljóst þegar talað er um þetta dulræna skyn.

Til eru eins konar líffæri í innri gerð mannsins eins og t.d. hjartalótus sem á að vera framan á bringunni. Annað líffæri í þessari innri gerð er hér fyrir framan ennið og þannig má telja áfram. Fyrir þessum innri líffærum er stundum hægt að finna, stundum finnum við einhvern þela hérna fyrir framan brjóstið, það getur verið eins og fiðringur, jafnvel eins og eitthvað snúist fyrir framan ennið, en þessi innri líffæri varða skynjun. Samt er skynjum við ekki með þeim. Sagt er að þetta skyn í enninu standi í sambandi við líðan, með hjartalótusnum sé komist í samband við aðrar verur, fundið hvernig þeim líður. En þetta er ekki alveg rétt. Skynjunin er alls staðar, hún er ekki frekar hér eða þar, en með því að koma lífi í þessa innri líkamshluta, þá opnum við fyrir ákveðið skyn — sem eftir að það er komið — er ekki frekar á einu svæði frekar en öðru.

Hægt er að verða var við alls konar afbrigði af þessari háu skynjun sem fylgir mystískri upplifun. Til að mynda er eitt þessi rósrauða birta sem sumir sem hugleiða tala um að þeir finni í sér. Hún kemur vanalega með mystískum ávæningi eða reynslu og sagt er að hún stafi frá því sem esóteristar eða mystíkerar kalla sál alheimsins eða heimsmóðurina. Sú tilfinning að vitsmunir séu ljós, séu einhvers konar birta, og jafnvel sú tilfinning að það birti við að skilja eru þættir úr þessu esóteríska skyni.

Og annað sem er ekki mjög óalgengt er að hin hinsta háa vitund, sem ég nefndi sem fimmta atriðið varðandi hina mystísku reynslu, geti birst sem bláleitt húm eða rökkur, eða réttara sagt, að bláleitt húm eða rökkur geti borið fyrir þig, ef þessi tegund mystískrar upplifunar kemur yfir.

Glampi af stórkostlegri heildarsýn kemur stundum inn í mystíska reynslu, en það er þó bara glampi. Reynum að lýsa slíkum glampa. Aldrei verða neinir tveir glampar eins, ekki hjá sama manni og ekki hjá öðrum. Við vitum ekki hverju verið er að lýsa. Er verið að lýsa sjálfum glampanum eða þessu sem skilið var eftir í okkar þröngu hversdagslegu vitund þegar glampinn var liðinn hjá? Erfitt er að gera sér grein fyrir því. En breytingin er óskapleg. Svo óstjórnleg breyting verður við það að skynjandinn hverfur, að óhugsandi er að lýsa því. En í ljós kemur óendanlega dularfullt rými, það er ekki rúm með fjarlægðum og öllu tilheyrandi, heldur eitthvað sem getur haft í sér, og þetta rými er hvorki lítið né stórt, allt jafn nærri, allt jafn fjarri. Það stóra er ekki stærra en það smáa. Og ef þú horfir á eitthvað smátt sem er innan í einhverju stóru, þá er þetta smáa alveg jafn skýrt og jafn stórt og það stóra. Fáránlegt er að tala um þetta svona! En með svona ábendingum ganga hin esóterísku fræði, með því að segja frá hlutum sem er næstum ómögulegt að tala um, á fáránlegan hátt, þannig að einhvers staðar þegar hlustað er eða lesið kviknar ljós.

Þetta rými sem finnur og hvorki er stórt né lítið, er lifandi vera. Þetta er veruleiki fyrir þann sem upplifir, óaðgreind að vísu, algjörlega óaðgreind vera, en vera er það. Og allt stórt og smátt sem í því er, eru lifandi verur og þær sjá þig um leið og þú sérð þær. Og þegar þær sjá þig er eins og þær sjái guðdóminn. Sá sem horfir er fyrir þeim alltaf eins og guðdómurinn. Þetta eru glampar af hinu eiginlega esóteríska skyni sem yfirleitt er ekki talað um nema í innstu hringjum esóterískra nema.

En við skulum nú snúa okkur að öðru. Vitundarlífið er ekki eins og þér finnst það, eins og þú hugsar þér það. Í því að hugsa sér vitundarlíf eru fólgnar óskaplegar hættur. Það er ekkert tóm í huganum, engin þögn í huganum og engin kyrrð í huganum. Ekki heldur ókyrrð eða hávaði eða eitthvað sem er andstætt tómi. Öll þessi orð sem við notum til þess að lýsa því sem gerist í vitundinni eru fengin að láni úr ytri tilveru. Og höfuðatriði er að gera sér grein fyrir að þau eru villandi.

Hvernig er þá vitundarlífið í raun? Það er ekki hægt að segja neinum, sérhver verður að komast upp á lag með að finna það. Allt eru þetta ábendingar til þess að menn geti gert sína uppgötvun sjálfir. En þú þarft að upplifa vitund þína án þess að gera þér hugmyndir um hana. Þú átt að gleyma öllum hugmyndum og útskýringum. Og þú þarft að upplifa eða sjá innri gerðina án þess að sjá fyrir þér mynd af henni. Af þessum ástæðum búa esóteristar á Indlandi til táknmyndir af orkustöðvunum en reyna ekki að sýna þær eins og þeir sjá þær sjálfir. Þú þarft að upplifa þína innri gerð, þinn eigin líkama, finna hann, án þess að hafa nokkra hugmynd um hann, án þess að sjá hann í mynd, því hann er ekki séður í mynd, upplifist á sinn sérstaka máta. Þú þarft að geta fleygt frá þér öllum hugmyndum, öllum myndum, þá gerist eitthvað, þegar allar myndir og hugmyndir hafa gefist upp í þér. Á því andartaki þegar hugmyndirnar gefast upp, getur eitthvað gerst. Vandinn er einmitt að þetta verði allt saman kenningar, Sigvaldi segir að þetta sé svona, einhver annar sagði honum að þetta væri svona, og svo er lygaleiðin orðin endalaus. Því allt er ósatt sem haft er eftir öðrum um þessa hluti. Hver og einn verður að gera sína uppgötvun sjálfur. Athugið að á síðustu skrefum hinnar andlegu þroskabrautar er þekkingin eina blekkingin. Þekkingin bindur, ekki upplifunin, heldur sú þekking sem er munuð. Þekkingarleysið bindur enn meira. Þetta sem hvorki er þekking né þekkingarleysi er það sem þarf.

Þegar iðkaðar eru æðri tegundir máttarhugleiðinga kemur oft í ljós annað rými, einhvers konar tómasvið handan hugans. Það er enginn hugur. Bæði er hægt að vera í venjulegri vitund og hinni „efri“ vitund sem er alveg kyrr. Þessu tómasviði fylgir sú tilfinning að þú horfir alltaf í austur hvert sem þú snýrð og þar er ávallt fjarlægur bjarmi af sólarupprás. Þetta er bara líking. Það er hálfrokkið nema þetta sólarupprásarskin, rósrautt, ólýsanlega bjart og milt í fjarlægðinni sem líka er nálægð. Þetta rými er lifandi vera. Minnir helst á blíðlynda móður. Allt í kring er allt þrungið af meiningu sem nálgast að breytast í orð á hugrænu sviði. En ekki nóg með það. Í gegnum þennan blíða, hálfrökkur sólarupprásarbjarma, sáldrast bláleitt lifandi ekkineitt, einhver dul — eitthvert óskýranlegt að-horfa-á, að-horfa-á-eðli sem ert þú.

Í frægu indversku yogariti eru þessi orð lögð í munn heimsmóðurinni: „Hinir fávísu þekkja mig sem hinn grófa alheim, en hinir vitru sem þeirra eigin tærvitund, eilífðarglitrandi sem égégið. Eitthvað sem er dýpra heldur en venjuleg vitund um að vera til.

Í lokin skulum við athuga að í mystískri reynslu er eins og sáldrist dularfull návist í gegnum allt, alls staðar. Þessi návist er rýmið, þessi dularfulla vera á bak við, þetta rúm sem er lifandi vera og minnir á milda móður, það er þessi návist sem kemur í mystískri upplifun. Enginn vandi er að þekkja hana og henni fylgir roði. En hver og hvar ert þú? Sá sem upplifir. Þú hefur við þetta algerlega misst fótfestuna og finnst jafnvel að þú sért alls ekki. En ef engin fótfesta þá er aldrei neitt öryggisleysi, aldrei neinn ótti, það er aldrei neinn ótti og öryggisleysi ef þú hefur enga stöðu. Aðeins þegar þú þarft að fara að verja eitthvað, að vera vitur, gáfaður, þegar þú þarft að fara að verja það sem þú ert, þá kemur öryggisleysið. Enginn fótfesta —aldrei neitt öryggisleysi, þá er lífið hugrekki. En hver ert þú?

Það ert þú. Þú sá sem horfir er alltaf það allra hinsta, það horfir aldrei neinn, verður aldrei var við neitt nema þetta eina allra hinsta sem við höfum ekki orð yfir. Það er hann sem horfir í gegnum augu ykkar núna á mig, og það er hann sem horfir gegnum mín augu á ykkur. Guðdómurinn sjálfur, þetta sem er nær manni heldur en nokkuð annað, þetta eina sem þú getur aldrei losað þig við. Hann eða það.

Fyrri Á hárhvössu nú-i
Næsta Ábending frá efnisvísindum
Efnisyfirlit